Hæstiréttur íslands

Mál nr. 597/2008


Lykilorð

  • Fölsun
  • Peningafölsun
  • Ávana- og fíkniefni


Miðvikudaginn 20

 

Miðvikudaginn 20. maí 2009.

Nr. 597/2008.

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir, settur saksóknari)

gegn

Agnari Víði Bragasyni

(Jón Höskuldsson hrl.)

 

Fölsun. Peningafals. Ávana- og fíkniefni.

X var ákærður fyrir peningafals með því að hafa falsað 20 tvö þúsund króna peningaseðla í því skyni að koma þeim í umferð sem ósviknum gjaldeyri og notað til þess ljósritunarprentara í eigu ákærða. Var brot X talið varða við 1. mgr. 150. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá var X einnig ákærður fyrir fíkniefnalagabrot með því að hafa haft í vörslum sínum 2,19 g af amfetamíni, sem lögregla fann við leit á ákærða. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms, þar sem refsing ákærða var ákveðin með hliðsjón af 77. og 78. gr. almennra hegningarlaga og með hliðsjón af sakarferli hans var hún hæfilega ákveðin fangelsi í 10 mánuði.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 1. september 2008 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingu og þyngingar á refsingu.

Ákærði krefst aðallega sýknu af sakargiftum samkvæmt fyrri lið ákæru 13. mars 2008 en að dæmd verði vægasta refsing fyrir þá háttsemi sem lýst er í síðari lið ákærunnar. Til vara krefst ákærði að refsing verði milduð og jafnframt skilorðsbundin.

Samkvæmt áfrýjunarstefnu er ákvæði héraðsdóms um upptöku fíkniefna ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti. Stendur það ákvæði óraskað.

Sakarferill ákærða er réttilega rakinn í héraðsdómi, er ákærði síbrotamaður eins og ferillinn ber með sér. Að gerðum þessum athugasemdum en ella með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Agnar Víðir Bragason, skal greiða allan áfrýjunarkostnað málsins 200.172 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Jóns Höskuldssonar hæstaréttarlögmanns, 186.750 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. maí 2008.

Málið, sem dómtekið var 11. október sl., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 13. mars 2008 á hendur „Agnari Víði Bragasyni, kennitala 160966-3009, Hverfisgötu 58a, Reykjavík, fyrir eftirtalin brot framin í Reykjavík á árinu 2007:

1.  Peningafals með því að hafa falsað 20 tvö þúsund króna peningaseðla, alla með raðnúmerinu GO1553216, í því skyni að koma þeim í umferð sem ósviknum gjaldeyri og notað til þess ljósritunarprentara í eigu ákærða.

Telst þetta varða við 1. mgr. 150. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

2.  Fíkniefnalagabrot, með því að hafa, miðvikudaginn 4. apríl 2207, haft í vörslum sínum, 2,19 g af amfetamíni, sem lögreglan fann við leit á ákærða.

    Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og 68/2001 og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.  Þess er krafist, með skírskotun til 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001, að ákærði sæti upptöku á 2,19 g af amfetamíni, sbr. 2. tölulið ákæru.“

Ákærði neitar sök í fyrri lið ákærunnar og krefst sýknu.  Hann játar sakargiftir í 2. lið hennar og krefst vægustu refsingar.  Þess er krafist að málsvarnarlaun verjanda hans verði greidd úr ríkissjóði.

II

Lögreglan handtók ákærða að kvöldi 4. apríl 2007.  Við leit á honum fundust 20  tvö þúsund króna seðlar sem lögreglan taldi að væru falsaðir.  Í frumskýrslu er haft eftir ákærða að þeir væru ljósritaðir.  Við yfirheyrslu kvaðst hann hafa ætlað að nota þessa peninga í pókerspili ásamt félögum sínum og staðfesti hann þann framburð fyrir dómi.  Aldrei hafi verið ætlun hans að nota peningana í viðskiptum eða til að blekkja með.  Hann ítrekaði að hann hafi skýrt lögreglu frá þessu strax á vettvangi.  Lögreglan fann einnig á ákærða framangreint magn af amfetamíni sem hann kannaðist við að eiga.

III

Fyrir dómi neitaði ákærði sök varðandi 1. lið ákærunnar, en viðurkenndi að hafa haft þar greinda peningaseðla á sér við handtökuna.  Hann kvaðst hafa ljósritað alla seðlana, en ekki hafi það verið gert í sérstökum tilgangi.  Hugsanlega hafi verið ætlunin að nota seðlana sem spilapeninga, en ekki koma þeim í umferð.  Þetta hafi þó meira verið sagt í gríni.  Ákærði kvaðst hafa ljósritað seðlana í tölvuprentara nokkrum dögum áður en hann var handtekinn og hafi hann gert það á heimili sínu að Fannarfelli 4.  Hann hafi notað venjulegan pappír við gerð seðlanna og skorið þá niður í venjulega stærð með dúkahníf.  Ákærði gat ekki útskýrt af hverju hann var með peningana á sér þegar hann var handtekinn.  Hann gat heldur ekki útskýrt af hverju ljósrita þurfti raunverulega seðla ef ætlunin hafi verið að nota þá sem spilapeninga. 

Ákærði viðurkenndi sök varðandi 2. lið ákærunnar og samþykkti upptökukröfuna.

Lögreglumennirnir sem handtóku ákærða báru að hann hefði verið eftirlýstur þar eð hann hafi átt að mæta í fangelsi.  Eftir handtökuna hafi verið leitað á honum og fundust á honum peningaseðlar sem voru greinilega falsaðir.  Ásbjörn Stefánsson lögreglumaður, sem ritar frumskýrslu málsins, staðfesti það sem segir í henni um að ákærði hefði tekið fram við handtökuna að seðlarnir væru ljósritaðir. 

IV

Eins og rakið hefur verið fundust 20 tvö þúsund króna seðlar á ákærða þegar hann var handtekinn 4. apríl 2007.  Ákærði hefur viðurkennt að hafa búið þessa seðla til í tölvuprentara og skorið þá til.  Hann hefur hins vegar neitað sök þar eð ekki hafi verið ætlunin að nota seðlana í viðskiptum heldur sem spilapeninga.  Við yfirheyrslu hjá lögreglu bar ákærði að hann hafi ætlað að nota peningana í pókerspili ásamt félögum sínum.  Fyrir dómi staðfesti hann þetta, en bar að þeir félagarnir hefðu meira verið að grínast með þetta.  Vörn ákærða byggist á því að ásetningur hans hafi ekki staðið til þess að koma seðlunum í umferð.  Hefur verjandi hans bent á að ákærði hafi hæglega getað losað sig við þá fyrir handtöku, enda hafi hann reynt nokkra stund að komast á flótta undan lögreglunni áður en henni tókst að handtaka hann.  Það að ákærði losaði sig ekki við seðlana á flóttanum bendi til þess að framburður hans um að þá hafi átt að nota í spilum sé réttur.

Í 1. mgr. 150. gr. almennra hegningarlaga er lögð refsing við því að falsa peninga í því skyni að koma þeim í umferð sem ósviknum gjaldeyri.  Peningarnir, sem ákærði hefur viðurkennt að hafa búið til, líkjast mjög raunverulegum seðlum og það þarf allnokkra aðgæslu til að átta sig á að þeir eru falsaðir.  Ákærði hefur enn fremur viðurkennt að hafa ætlað að nota seðlana í peningaspili og þar með er sannað að ásetningur hans stóð til að koma þeim í umferð, enda vart á hans valdi að ráða því hvað um þá yrði eftir að aðrir hefðu unnið seðlana af honum í spilum.  Hefði ætlun ákærða eingöngu verið að nota seðlana sem spilapeninga hefði hann ekki þurft að láta þá líkjast svo mjög raunverulegum seðlum.  Samkvæmt þessu er það niðurstaða dómsins að ákærði hafi gerst sekur um brot gegn 1. mgr. 150. gr. almennra hegningarlaga eins og honum er gefið að sök í ákærunni.  Með játningu ákærða sem styðst við önnur gögn málsins er sannað að hann hafi gerst sekur um það sem hann er ákærður fyrir í 2. lið ákærunnar og er brot hans þar rétt fært til refsiákvæða.

Ákærði var fyrst dæmdur í skilorðsbundið fangelsi 1983 fyrir hegningar- og umferðarlagabrot.  Síðan þá hefur hann verið dæmdur 15 sinnum í fangelsi í samtals 137 mánuði fyrir hegningar-, umferðar- og fíkniefnalagabrot.  Eru þá ótaldar sektir fyrir umferðar- og fíkniefnalagabrot.  Síðast var ákærði dæmdur í 13 mánaða fangelsi 25. janúar 2007 fyrir umferðar- og fíkniefnalagabrot.  Eftir að hann framdi þau brot sem hann hefur nú verið sakfelldur fyrir hefur hann þrisvar verið sektaður fyrir fíkniefnalagabrot.  Refsing ákærða nú verður ákveðin með hliðsjón af 77. og 78. gr. almennra hegningarlaga og með hliðsjón af sakferli hans er hún hæfilega ákveðin fangelsi í 10 mánuði.  Upptæk skulu vera 2,19 grömm af amfetamíni.

Ákærði skal greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóns Höskuldssonar hrl., 132.468 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, en annan kostnað leiddi ekki af málinu.

Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp dóminn.

Dómsorð

Ákærði, Agnar Víðir Bragason, sæti fangelsi í 10 mánuði.

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóns Höskuldssonar hrl., 132.468 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Upptæk skulu vera 2,19 grömm af amfetamíni.