Hæstiréttur íslands

Mál nr. 387/2006


Lykilorð

  • Óvígð sambúð
  • Eignarréttur
  • Sameign


Fimmtudaginn 1

 

Fimmtudaginn 1. febrúar 2007.

Nr. 387/2006.

K

(Helgi Birgisson hrl.)

gegn

M

(Steinunn Guðbjartsdóttir hrl.)

 

Óvígð sambúð. Eignarréttur. Sameign.

Málsaðilar keyptu saman fasteign sem fjármögnuð var annars vegar með útborgun í peningum, að fjárhæð 3.950.000 krónum sem óumdeilt var að K greiddi af eigin fé, og hins vegar með íbúðaláni frá KB banka hf. að fjárhæð 15.200.000 krónum, sem aðilar tóku saman. K krafðist þess að viðurkennt yrði með dómi að hún ætti ein eignarrétt að umræddri fasteign. Í niðurstöðu héraðsdóms, sem staðfest var í Hæstarétti, var viðurkennt að K ætti 60,3% hlutdeild í fasteigninni sem svaraði til óumdeilds hlutfalls hennar í greiðslu af kaupverðinu. Í niðurstöðu Hæstaréttar sagði að gögn málsins um fjárhagslega getu K og M og afborganir þeirra af íbúðarláninu þættu ekki styðja kröfu K um frekari eignarhlutdeild hennar í fasteigninni. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 20. júlí 2006. Hún krefst þess að viðurkennt verði með dómi að hún eigi ein eignarrétt að raðhússinu nr. 45 við Engjasel í Reykjavík. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Eins og nánar er rakið í héraðsdómi keyptu málsaðilar saman fasteign með kaupsamningi í október 2004. Kaupverð fasteignarinnar var greitt annars vegar með því að áfrýjandi greiddi útborgun í peningum að fjárhæð 3.950.000 krónur, og hins vegar voru greiddar 15.200.000 krónur fengnar með íbúðaláni hjá KB banka hf. sem aðilar tóku sameiginlega og tryggt var með veði í fasteigninni. Gögn málsins um afborganir þeirra af láninu og um fjárhagslega getu þeirra, sem nægilega eru rakin í héraðsdómi, þykja ekki styðja kröfu áfrýjanda um aðra eignarhlutdeild í fasteigninni en niðurstaða héraðsdóms kvað á um.

Við munnlegan málflutning í Hæstarétti kom fram af hálfu áfrýjanda sú málsástæða að hún hefði ein greitt lántökugjald 382.600 krónur vegna umrædds íbúðaláns og að sú greiðsla leiði til þess að meta beri eignarhlutdeild hennar 61,1% í stað 60,3% verði fallist á kröfur stefnda um að framlag hans til íbúðakaupanna teljist nema andvirði helmings af láninu. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að þessi málsástæða áfrýjanda hafi verið höfð uppi í héraði og hefur stefndi andmælt því að svo hafi verið. Verður að telja hana of seint fram komna með vísan til  2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þegar af þeirri ástæðu verður ekki á henni byggt við úrlausn málsins fyrir Hæstarétti.

Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Eftir þessum úrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr. laga nr. 91/1991 skal áfrýjandi greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði. Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, K, greiði stefnda, M, 250.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, 200.000 krónur.

 

                         Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. apríl 2006.

Mál þetta var höfðað 4. nóvember 2005 og dómtekið 7. þ.m.

Stefnandi er K, [...], Reykjavík.

Stefndi er M, [...], Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru aðallega þær að viðurkennt verði með dómi að hún eigi ein og að óskiptu 100% eignarrétt til raðhússins nr. 45 við Engjasel í Reykjavík, með fastanúmer 205-5808  og til vara að viðurkennd verði eignarhlutdeild hennar í húsinu í samræmi við framlag hennar til myndunar eignarréttar að því.  Í báðum tilvikum krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda  eins og málið væri ekki gjafsóknarmál en henni var veitt gjafsóknarleyfi 29. desember 2005.

Stefndi krefst þess að hann verði talinn eigandi að 39,7% eignarhluta í fasteigninni að Engjaseli 45, Reykjavík og að stefnanda verði gert að greiða sér málskostnað.

Stefndi höfðaði gagnsök 29. nóvember 2005 en hún var felld niður að kröfu hans með úrskurði 16. janúar sl.

Aðilar tóku að nýju upp samband sín í milli í september 2004 en þau höfðu áður verið í hjúskap. 

Með kaupsamningi, dagsettum 8. október 2004 festu aðilar málsins kaup á fasteigninni nr. 45 við Engjasel í Reykjavík; raðhúsi með fastanúmerinu 205-5808.  Kaupverð var 19.150.000 krónur.  Útborgun, sem skiptist í þrjá hluta – við kaup­samning, við afhendingu 22. október 2004 og þ. 21. febrúar 2005 – nam 3.950.000 krónum.  Seljandinn veitti að auki veðleyfi fyrir meginhluta kaupverðsins, 15.200.000 krónum.  Útborgunarfjárhæðin var greidd af fé stefnanda sem hún átti eftir sölu annarrar fasteignar og að hluta vegna fenginna örorkubóta.  Til að standa skil á kaup­verðinu að öðru leyti fengu aðilarnir, að undangengnu greiðslumati sem tók til þeirra beggja, íbúðalán hjá KB banka að upphæð 15.200.000 króna sem var tryggt með veði í hinni keyptu eign.

Aðilar voru í sambúð að Engjaseli 45 frá því í byrjun janúar 2005 fram í endaðan júní s.á. eða í um sex mánuði.  Afsal fyrir fasteigninni var gefið út 22. febrúar 2005.  Það tilgreinir aðilana sem kaupendur í jöfnum, 50%, hlutföllum og var því þinglýst 28. febrúar 2005.  Í skattframtölum aðila 2005 telja þau bæði fasteignina til eignar í 50% eignarhlutföllum.  Sömuleiðis telja þau fram að jöfnu eftirstöðvar framangreinds veðláns, 7.703.657 krónur, sem og vaxtagjöld.

Frá janúar 2005 til loka júnímánaðar s.á. höfðu aðilar sameiginlegan útgjaldareikning , “heimilislínu”, í KB banka og greiddu hvort um sig 87.000 krónur mánaðarlega inn á reikninginn af launum sínum.  Á það er fallist, sem haldið er fram af hálfu stefnanda, að vegna hins skamma sambúðartíma hafi þrátt fyrir það ekki skapast fjárhagsleg samstaða með aðilum sem komið geti til álita við úrlausn málsins á grundvelli dómvenju.

Stefnandi byggir aðalkröfu sína á því að raðhúsið nr. 45 við Engjasel í Reykjavík sé og hafi alltaf verið óskipt eign sín þar sem hún hafi alltaf greitt fyrir eignina; kaupverð, afborganir og öll útgjöld vegna hennar.  Núverandi skráning á eignarheimildum og þinglýsing sé því röng og eigi stefndi ekkert í eigninni.   Þá er á því byggt að brostin sé sú meginforsenda skráningar á helmingshlutdeild hvors um sig að um áframhaldandi sambúð yrði að ræða og að þau legðu jafnt af mörkum til fjár­mögnunar kaupanna.  Stefnandi byggir kröfu sína á meginreglum um fjárskipti við sambúðarslit svo og dómaframkvæmd og styður hana jafnframt við grundvallarreglur á sviði eigna-, samninga- og kröfuréttar, sbr. lög nr. 40/2002, lög nr. 17/1936 og lög nr. 50/2000 eftir því sem við á.

Varakrafa stefnanda byggist á sömu málsástæðum og lagarökum og aðal­krafan.

Af hálfu stefnda er vísað til þess, sem að framan greinir, um tilgreiningu fasteignarinnar á skattframtölum aðila svo og veðskuldar en að meginstefnu hafi þau greitt saman af skuldinni.  Eftir að deila hafi risið um fjárskiptin hafi stefnandi farið að greiða ein af skuldinni til að skapa sér betri stöðu en einnig beri að líta til þess að frá samvistarslitum hafi hún ein haft afnot eignarinnar.  Kröfu stefnanda um að hún eigi eignina ein er mótmælt enda sé hún hvorki í samræmi við þinglýstar eignarheimildir né framlög aðila til eignarmyndunar og hún taki ekki tillit til þess að eignin hafi að mestum hluta verið fjármögnuð með lánsfé.  Kröfugerð stefnda grundvallast á því að rétt sé að eignarhlutfall hans í eigninni sé hið sama og nemi hlutfalli hans hluta, 7.600.000 króna, af því láni, sem aðilarnir tóku til kaupanna, af kaupverðinu.  Af hálfu stefnda er vísað til meginreglna um fjárskipti við sambúðarslit og þess að þær eignir sem hvor aðili eigi við upphaf sambúðarinnar og kaupi fyrir fjármuni sína, enda séu þeir enn fyrir hendi við lok hennar, séu eign hans.

Ekki er fallist á málsástæðu stefnanda sem byggist á brostinni forsendu þar sem ekki er í ljós leitt að stefnda hafi verið eða mátt vera ljós sú forsenda sem þar um ræðir.

Stefnandi hefur sönnunarbyrði fyrir því að eignarhluti sinn í umræddri fasteign nemi meiru en helmingi svo sem fram kemur af hinni þinglýstu eignarheimild.  Sú sönnun hefur tekist að því marki að ljóst er að hún greiddi ein útborgunarhluta kaupverðsins,  þ.e. 3.950.000 krónur, eins og óumdeilt er.   Framlag stefnda til kaup­anna fólst í því að hann tók á sig ábyrgð á endurgreiðslu helmings fengins veðláns, þ.e. 7.600.000 króna, og er fallist á kröfu stefnda um að eignarhluti hans af fasteigninni skuli teljast 39,7% sem svarar til hlutfalls greindrar fjárhæðar af kaup­verðinu.  Fram skal tekið að þá fyrst er fengin er endanleg dómsúrlausn um eignarhlutföll aðila í fasteigninni getur komið til uppgjörs vegna greiðslna á umræddu veðláni svo og öðrum útgjöldum vegna hennar að teknu tilliti til afnota eftir sam­búðar­slitin.

Samkvæmt þessu er niðurstaða dómsins sú að viðurkennt er að eignarhlutdeild stefnanda í hinni umstefndu fasteign sé 60,3%.  Með því er fallist á varakröfu stefnanda jafnframt því að stefndi er sýknaður af aðalkröfu hennar.

Ákveðið er að málskostnaður skuli falla niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin mál­flutnings­þóknun lögmanns hennar 300.000 krónur.                        

Mál þetta dæmir Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari.

D ó m s o r ð;

Viðurkennt er að eignarhlutdeild stefnanda, K, í raðhúsi hennar og stefnda, M, [...] sé 60,3%.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar 300.000 krónur.