Hæstiréttur íslands
Mál nr. 485/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Fjármálafyrirtæki
- Varnarþing
- Lagaskil
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
|
|
Föstudaginn 21. september 2012. |
|
Nr. 485/2012.
|
Landsbanki Íslands hf. (Jóhannes Sigurðsson hrl.) gegn Goldman Sachs International (Óttar Pálsson hrl.) |
Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Varnarþing. Lagaskil. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.
L hf. kærði úrskurð héraðsdóms þar sem máli hlutafélagsins gegn G var vísað frá dómi á þeirri forsendu að málið hefði ekki verið höfðað á réttu varnarþingi. Með lögum nr. 146/2011 var lögfest sérstök varnarþingsregla í 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 sem kveður á um að mál sem slitastjórn höfðar á grundvelli ákvæðisins skuli þingfest fyrir þeim héraðsdómi þar sem fjármálafyrirtæki er tekið til slita. Varnarþingsreglan hafði ekki öðlast lagagildi þegar héraðsdómsstefna var birt fyrirsvarsmanni G, en það hafði hins vegar gerst þegar málið var þingfest. Í dómi Hæstaréttar kom fram að í 1. gr. laga nr. 146/2011 væri kveðið á um skyldu til að þingfesta í tiltekinni þinghá, mál til riftunar á ráðstöfunum fjármálafyrirtækis sem væri til slita. Þar sem lögin höfðu tekið gildi þegar málið var þingfest, og mætt var af hálfu varnaraðila við þingfestinguna þar sem honum gafst tækifæri til að taka til varna í málinu, þóttu ekki efni til að vísa málinu frá héraðsdómi. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Viðar Már Matthíasson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. júní 2012, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 6. júlí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. júní 2012, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili hefur ekki kært úrskurð héraðsdóms. Að því leyti, sem krafa hans um málskostnað í héraði kann að snúa að endurskoðun ákvæðis um það efni í hinum kærða úrskurði, getur hún því ekki komið til álita fyrir Hæstarétti.
I
Samkvæmt gögnum málsins gerðu aðilar með sér samning um peningamarkaðslán 6. október 2008. Samkvæmt honum lagði varnaraðili, sem er alþjóðlegt fjármálafyrirtæki með heimili í Bretlandi, inn hjá sóknaraðila 174.000.000 krónur og var gjalddagi lánsins næsta dag.
Á grundvelli laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, eins og þeim hafði verið breytt með lögum nr. 125/2008, var stjórn sóknaraðila vikið frá 7. október 2008 og honum skipuð skilanefnd. Með stoð í þeim lögum tók Fjármálaeftirlitið ákvörðun um að færa tilteknar eignir og skuldbindingar sóknaraðila yfir í nýjan banka, NBI hf., nú Landsbankann hf., og tók sá banki til starfa 9. sama mánaðar. Sóknaraðila var veitt heimild til greiðslustöðvunar 5. desember 2008 og var hann tekinn til slita 22. apríl 2009 samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur. Hinn 29. þess mánaðar skipaði héraðsdómari sóknaraðila slitastjórn.
Varnaraðila var endurgreitt umrætt peningamarkaðslán ásamt vöxtum 9. október 2008. Með bréfi 15. ágúst 2011 lýsti slitastjórn sóknaraðila yfir riftun á þeirri greiðslu og krafðist endurgreiðslu á henni úr hendi varnaraðila. Í kjölfarið höfðaði sóknaraðili mál þetta gegn varnaraðila þar sem krafist er riftunar á greiðslunni á grundvelli 134. gr. og 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002, auk greiðslu á 174.076.125 krónum með nánar tilgreindum vöxtum. Í niðurlagi héraðsdómsstefnu var skorað á fyrirsvarsmann varnaraðila að mæta á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur 1. desember 2011, klukkan 10, er málið yrði þingfest „til þess þar og þá ... að sjá skjöl og skilríki í dóm lögð og leggja fram gögn af sinni hálfu.“ Stefnan var birt varnaraðila 17. október sama ár. Þegar málið var þingfest samkvæmt framansögðu var mætt af hálfu varnaraðila. Fékk hann frest til greinargerðar sem lögð var fram á dómþingi 1. mars 2012. Þar krafðist varnaraðili aðallega frávísunar málsins, en til vara sýknu af kröfu sóknaraðila. Málinu var sem fyrr segir vísað frá héraðsdómi með hinum kærða úrskurði.
II
Frávísunarkrafa varnaraðila er aðallega á því reist að mál þetta sé höfðað á röngu varnarþingi, en að því frágengnu að málið sé vanreifað af hálfu sóknaraðila. Sóknaraðili hefur mótmælt kröfunni, þar á meðal á þeirri forsendu að málið sé höfðað á réttu varnarþingi á grundvelli 1. mgr. 35. gr., 1. mgr. 36. gr. eða 41. gr. laga nr. 91/1991, en ella 3. málsliðar 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002, sbr. b. lið 1. gr. laga nr. 146/2011. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður sú niðurstaða staðfest að ekki séu skilyrði til að vísa málinu frá héraðsdómi vegna þess að málatilbúnaði sóknaraðila sé svo áfátt að úr honum verði ekki bætt undir rekstri þess.
Samkvæmt því stendur eftir að taka afstöðu til þess hvort vísa beri málinu frá héraðsdómi sökum þess að það hafi ekki verið höfðað á réttu varnarþingi. Varnaraðili heldur því meðal annars fram til stuðnings kröfu sinni um frávísun að áðurgreint ákvæði 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 hafi ekki öðlast gildi þegar málið var höfðað. Eins og tekið er fram í hinum kærða úrskurði voru lög nr. 146/2011 birt 25. október 2011 og tóku þá þegar gildi samkvæmt 2. gr. þeirra. Hin sérstaka varnarþingsregla, sem þar er kveðið á um, hafði því ekki öðlast gildi þegar héraðsdómsstefnan var birt fyrirsvarsmanni varnaraðila 17. október 2011 og málið þar með höfðað, sbr. 93. gr. laga nr. 91/1991. Á hinn bóginn hafði það gerst þegar málið var þingfest 1. desember sama ár í samræmi við 1. mgr. 94. gr. laganna.
Í 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 er slitastjórn fjármálafyrirtækis veitt heimild til að krefjast riftunar á ráðstöfunum fyrirtækisins ef ekki er sýnt að eignir þess muni nægja til að efna skuldbindingar þess, eftir sömu reglum og gilda um riftun ráðstafana við gjaldþrotaskipti. Samkvæmt 3. málslið málsgreinarinnar, sem tekinn var upp í hana með 1. gr. laga nr. 146/2011, skulu mál, sem slitastjórn höfðar á grundvelli hennar, þingfest fyrir þeim héraðsdómi þar sem fjármálafyrirtæki var tekið til slita. Í lögum þessum voru ekki ákvæði um skil milli þeirra og eldri laga. Að meginreglu verður nýjum lögum beitt um lögskipti, sem undir þau falla, þótt til lögskiptanna hafi verið stofnað fyrir gildistöku þeirra. Þótt sérsjónarmið geti átt við um lagaskil á sviði réttarfars verður nýjum lögum almennt beitt á því sviði eftir að þau öðlast gildi, nema öðru vísi sé fyrir mælt í þeim eða öðrum lögum.
Í 1. gr. laga nr. 146/2011 er ekki kveðið á um það á hvaða varnarþingi sé heimilt að sækja mál, svo sem gert er í almennum reglum V. kafla laga nr. 91/1991, heldur er kveðið þar á um skyldu til að þingfesta í tiltekinni þinghá mál til riftunar á ráðstöfun fjármálafyrirtækis sem er til slita. Lög nr. 146/2011 höfðu tekið gildi þegar mál þetta var þingfest 1. desember 2011. Var og mætt af hálfu varnaraðila við þingfestinguna og gafst honum þar með tækifæri til að taka til varna. Að þessu virtu eru ekki efni til að vísa máli þessu frá héraðsdómi. Því verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Ákvörðun málskostnaðar í héraði í þessum þætti málsins verður látin bíða efnisdóms, en varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðili, Goldman Sachs International, greiði sóknaraðila, Landsbanka Íslands hf., 300.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. júní 2012.
I
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi um frávísunarkröfu stefnda 7. júní sl., er höfðað með stefnu sem birt var stefnda 17. október 2011.
Stefnandi er Landsbanki Íslands hf. í slitameðferð, Austurstræti 16, Reykjavík, en stefndi er Goldman Sachs International, 133 Fleet Street, London EC4A 2BB, Bretlandi.
Stefnandi krefst þess aðallega að staðfest verði riftun á greiðslu Landsbanka Íslands hf. á peningamarkaðsinnláni að fjárhæð 174.076.125 krónur til stefnda 9. október 2008 og að stefndi verði dæmdur til að þess að greiða stefnanda þá fjárhæð með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 9. október 2008 til 15. september 2011, en með dráttarvöxtum samkvæmt 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Til vara er þess krafist að á fjárkröfuna reiknist vextir samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 frá 9. október 2008 til 15. september 2011, en dráttarvextir samkvæmt 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Loks krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda, að mati dómsins, að viðbættum virðisaukaskatti.
Stefndi krefst þess aðallega að kröfum stefnanda verði vísað frá dómi, en til vara að hann verði sýknaður af öllum kröfum hans. Til þrautavara krefst hann þess að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar. Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda, auk virðisaukaskatts.
Til úrlausnar er hér krafa stefnda um frávísun á kröfum stefnanda.
II
Samkvæmt greinargerð stefnda er stefndi alþjóðlegt fjármálafyrirtæki og gegndi stefnandi hlutverki svokallaðs uppgjörsbanka hans fyrir færslur í íslenskum krónum. Annaðist stefnandi þannig færslur fyrir stefnda og fjármögnun í íslenskum krónum, m.a. með þeim hætti að færslur til og frá viðskiptamönnum stefnda í íslenskum krónum fóru um reikning stefnda hjá stefnanda. Við lok viðskipta hvern dag ákvað stefndi hvað gera skyldi við fjármuni á þeim reikningi, stæði inneign á honum. Í þeim tilvikum er stefndi óskaði eftir því að fjármunirnir yrðu lagðir inn hjá stefnanda sem svokallað peningamarkaðsinnlán (e. Money Markert Deposit), segir stefndi að hann hafi þá óskað eftir upplýsingum frá stefnanda um vaxtakjör. Í kjölfar þeirra upplýsinga hafi innlán verið staðfest. Við það hafi myndast skuld stefnanda við stefnda, sem almennt hafi verið greidd á umsömdum kjörum á réttum tíma. Tekur stefndi fram að slík viðskipti hafi verið mjög venjubundin og hafi þau tíðkast milli aðila um margra ára skeið.
Stefnandi og stefndi gerðu með sér samning um peningamarkaðsinnlán 6. október 2008, og má af gögnum málsins sjá að samningurinn var staðfestur af stefnanda kl. 15:22:29 þann dag. Samkvæmt honum lagði stefndi inn hjá stefnanda 174.000.000 króna og skyldi fjárhæðin bera 15,75% ársvexti. Gjalddagi var daginn eftir, 7. október, og námu umsamdir vextir því 76.125 krónum. Óumdeilt er að samningur þessi var að hluta framlenging á fyrra peningamarkaðsinnláni milli sömu aðila.
Í stefnu segir að stefnandi hafi verið ógjaldfær 6. október 2008 og hafi hann frá upphafi viðskipta þann dag ekki getað staðið við skuldbindingar sínar. Að kvöldi sama dags voru samþykkt á Alþingi lög nr. 125/2008, svokölluð neyðarlög, sem m.a. veittu Fjármálaeftirlitinu víðtækar heimildir til afskipta og inngripa í starfsemi fjármálafyrirtækja, þ. á m. til að víkja stjórn fjármálafyrirtækis frá og skipa því skilanefnd, hafa umsjón með allri meðferð eigna, ásamt því að annast annan rekstur þess. Á grundvelli þessarar heimildar var stefnanda skipuð skilanefnd 7. október 2008. Með stoð í sömu lögum tók Fjármálaeftirlitið ákvörðun um að færa tilteknar eignir og skuldbindingar stefnanda inn í nýjan banka, NBI hf., og tók sá banki til starfa 9. október. Nokkru síðar, 5. desember 2008, var stefnanda veitt heimild til greiðslustöðvunar, en slitameðferð hófst 22. apríl 2009, við gildistöku laga nr. 44/2009, og var honum þá skipuð slitastjórn. Frestdagur við slitameðferð stefnanda er 15. nóvember 2008.
Fram kemur einnig í stefnu að ráða megi af gögnum að eftir yfirtöku bankans og uppskiptingu á eignum hans og skuldbindingum hafi leikið vafi á því hvort peningamarkaðsinnlán sem fjármálafyrirtæki lögðu inn í bankann skyldu flytjast til nýja bankans sem innlán. Vegna þessa hafi peningamarkaðsinnlán stefnda og nokkurra annarra fjármálafyrirtækja verið greidd eftir fall bankans. Með bréfi Fjármálaeftirlitsins frá 21. nóvember 2008 hafi hins vegar verið tekin af öll tvímæli um að skuldbindingar sem fólust í peningamarkaðsinnlánum sem fjármálafyrirtæki lögðu inn hér á landi hefðu ekki færst yfir til hins nýja banka á grundvelli stjórnvaldsákvarðana eftirlitsins. Þá segir þar að við slitameðferð stefnanda hafi fjölmörg fjármálafyrirtæki lýst kröfum vegna peningamarkaðsinnlána, og hafi afstaða slitastjórnar til þeirra krafna verið sú að þær nytu forgangs sem innstæður. Þessi afstaða slitastjórnar sé umþrætt og hafi ágreiningi vegna þeirra mála verið vísað til dómstóla til úrlausnar.
Stefnda var endurgreitt umrætt peningamarkaðsinnlán 9. október 2008, ásamt vöxtum, og var fjárhæðin, alls 174.076.125 krónur, lögð inn á bankareikning stefnda hjá NBI hf. nr. 0100-27-091266.
Með bréfi 15. ágúst 2011 lýsti slitastjórn stefnanda yfir riftun á framangreindri greiðslu til stefnda og gerði kröfu um endurgreiðslu fjárhæðarinnar, ásamt vöxtum. Fram kemur í riftunaryfirlýsingunni að riftun greiðslunnar og endurgreiðslukrafan byggist á 134. og 141., sbr. og 142. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. Stefndi kveðst á hinn bóginn ekki kannast við að hafa tekið við bréfi stefnanda og því hafi hann ekki vitað um riftunina fyrr en málið var höfðað með birtingu stefnu 17. október 2011.
III
Frávísunarkrafa stefnda er aðallega á því reist að málið sé höfðað á röngu varnarþingi, enda liggi fyrir að heimilisvarnarþing stefnda sé í Bretlandi. Mál þetta beri því að höfða þar í landi samkvæmt meginreglu íslenskra laga og alþjóðlegs einkamálaréttar, sbr. og 32. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Stefndi hafnar því að unnt sé að höfða málið hér á landi með vísan til 35., 36., 38. og/eða 41. gr. laga um meðferð einkamála, eins og stefnandi byggi á. Í því sambandi bendir hann á að til þess að heimilt sé að höfða mál á grundvelli 35. gr. tilvitnaðra laga verði mál að varða efndir, vanefndir, rof eða lausn undan löggerningi, og skuli þá málið höfðað þar sem efna átti samninginn. Greinin geti þannig ekki átt við um málshöfðun þessa, í fyrsta lagi þar sem krafa um riftun á grundvelli laga nr. 21/1991 varði aðeins hinar tilgreindu ráðstafanir sem séu riftanlegar, en ekki rof á hinum undirliggjandi gögnum, í öðru lagi þar sem málshöfðunin lúti ekki að riftun á greiðslu (efndum) á innláni heldur skuldskeytingu, og í þriðja lagi vegna þess að ekki hafi borið að efna samning aðila í umdæmi Héraðsdóms Reykjavíkur. Meginregla kröfuréttar sé á hinn bóginn sú að efndastaður kröfu sé hjá kröfuhafa. Með þetta í huga telur stefndi að málið eigi undir breska dómstóla.
Stefndi telur einnig ljóst að lögsaga Héraðsdóms Reykjavíkur verði ekki byggð á 36. gr. laga um meðferð einkamála þar sem mál þetta sé ekki til greiðslu á andvirði vöru eða þjónustu í skilningi þess ákvæðis. Þá fái tilvísun stefnanda til 38. gr. sömu laga ekki staðist þar sem ekki sé um vinnulaun að ræða. Loks er því hafnað að málshöfðunin verði reist á því að um sé að ræða brotavarnarþing, enda ekki um að ræða réttarbrot utan samninga.
Stefndi byggir einnig á því að lög nr. 146/2011, sem fólu í sér þá breytingu á 4. mgr. 103. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002 að mál sem slitastjórn höfði á grundvelli ákvæðisins skuli þingfest fyrir þeim héraðsdómi þar sem fjármálafyrirtæki var tekið slita, breyti engu um ofanritað, enda hafi mál þetta verið höfðað fyrir gildistöku þeirra laga. Stefna í málinu hafi verið birt stefnda 17. október 2011, og teljist málið höfðað þann dag, sbr. 93. gr. laga nr. 91/1991. Lög nr. 146/2011 hafi hins vegar ekki tekið gildi fyrr en 25. október sama ár. Stefndi leggur jafnframt áherslu á að samkvæmt almennum reglum um lagaskil geti síðastnefnd lög ekki ráðið varnarþingi málshöfðunar sem þegar hafi átt sér stað í samræmi við gildandi lög. Réttarsamband aðila hafi þannig verið fullmótað og komið í endanlegt horf þegar hin nýju lög tóku gildi hvað varði varnarþing. Hefði ætlunin verið að ljá lögunum afturvirk áhrif, telur stefndi að þurft hefði að taka það skýrlega fram í texta þeirra. Þar sem slíks var ekki gætt er á því byggt að þeim verði ekki beitt um heimild stefnanda til að höfða mál þetta.
Fallist dómurinn ekki á ofantalin rök byggir stefndi enn fremur á því að stefnan uppfylli ekki áskilnað 80. gr. laga um meðferð einkamála, og beri af þeim sökum að vísa málinu frá dómi vegna vanreifunar. Vísar stefndi þá sérstaklega til þess að stefnukrafan geti aldrei numið hærri fjárhæð en ætlað tjón stefnanda, sbr. 142. gr. gjaldþrotaskiptalaga. Þar sem fyrir liggi sú afstaða stefnanda að peningamarkaðsinnlán séu forgangskröfur, að ætla megi að allar forgangskröfur verði greiddar og að þegar hafi verið greiddar út fjárhæðir sem nemi tæpum helmingi þeirra, byggir stefndi á því að tjón stefnanda geti aldrei numið stefnufjárhæðinni. Þar sem krafan sé ekki reifuð með tilliti til þessa telur stefndi að slíkt ósamræmi sé í málatilbúnaði stefnanda að ekki verði hjá því komist að vísa málinu frá dómi vegna vanreifunar. Að auki telur stefndi að málsgrundvöllurinn sé rangur, og leiði það til sömu niðurstöðu. Er þá bæði til þess horft að krafa stefnanda sé færð í búning riftunar, þegar raunverulega hafi um skuldskeytingu verið að ræða á grundvelli stjórnvaldsákvörðunar Fjármálaeftirlitsins, svo og að málið sé höfðað af röngum aðila, þar sem NBI hf. hafi innt af hendi þá greiðslu sem stefnandi krefjist nú að verði rift.
IV
Stefnandi krefst þess í þessum þætti málsins að frávísunarkröfu stefnda verði hrundið og að stefnda verði gert að greiða honum málskostnað að mati dómsins.
Að því er varðar þá málsástæðu stefnda að málið sé höfðað á röngu varnarþingi tekur stefnandi fram að málið sé höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur þar eð efndastaður greiðslu á peningamarkaðsinnlánum hafi verið í Reykjavík samkvæmt lögum, samningi aðila eða tilætlun þeirra. Á því er byggt að efndastaður peningamarkaðsinnlána sé hjá því fjármálafyrirtæki sem hafi vörslur fjármunanna, enda hafi greiðslan verið innt af hendi inn á bankareikning í eigu stefnda hjá fjármálafyrirtæki með höfuðstöðvar í Reykjavík. Sé það staðfesting þess að samkomulag hafi verið um að efndastaður væri þar, eða að það hafi a.m.k. verið tilætlun aðila. Þá hafi endurgreiðslan verið liður í þjónustu sem veitt hafi verið á starfsstöð stefnanda og falist í ávöxtun fjármuna stefnda. Enn fremur er á því byggt að heimilt sé að höfða málið á brotavarnarþingi, þar sem ráðstöfunin sem leiði til kröfunnar, þ.e. greiðsla peningamarkaðsinnlánsins til stefnda, hafi átt sér stað í Reykjavík. Ofangreindu til stuðnings vísar stefnandi til 35., 36. og 41. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Við munnlegan flutning málsins byggði stefnandi einnig á því að með lögum nr. 146/2011, sem tóku gildi 25. október 2011, hafi öll tvímæli verið tekin af um að mál þetta ætti að þingfesta fyrir þeim héraðsdómi þar sem fjármálafyrirtæki var tekið til slita, sbr. nú lokamálslið 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Þar sem Landsbanki Íslands hf. hafi verið tekinn til slita með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur eigi að höfða málið þar. Stefnandi taldi jafnframt að við mat á því hvort hinni nýju varnarþingsreglu yrði beitt yrði að horfa til þess að um væri að ræða reglu á sviði réttarfars, þar sem nokkurrar sérstöðu gætti við lagaskil. Féllist dómurinn ekki á þessi rök kvaðst stefnandi byggja á því að stefndi hafi, hvað sem öðru liði, mætt við þingfestingu málsins og tekið til varna.
Stefnandi hafnaði einnig þeirri málsástæðu stefnda að málið væri vanreifað og tók fram að þótt afstaða slitastjórnar stefnanda hafi verið að samþykkja peningamarkaðsinnlán sem forgangskröfur, sé sú afstaða umdeild og hafi málum vegna slíkra krafna verið vísað til úrlausnar dómstóla. Liggi því ekki endanlega fyrir hvort krafa stefnda fáist greidd að fullu af eignum stefnanda. Þá mótmælti hann því að málsgrundvöllurinn væri rangur og taldi að fyrir lægi að NBI hf. hefði greitt stefnda umrætt peningamarkaðsinnlán fyrir hönd stefnanda, enda hefði stefnandi á þeim tíma sem greiðslan var innt af hendi hvorki átt laust reiðufé í íslenskum krónum né erlendum gjaldeyri. Hins vegar mótmælti hann því einnig að NBI hf. hefði tekið við greiðsluskyldu á peningamarkaðsinnláninu á grundvelli skuldskeytingar samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins.
V
Þótt taka megi að nokkru leyti undir gagnrýni stefnda á málatilbúnað stefnanda, og þá sérstaklega vegna skorts á rökstuðningi stefnanda fyrir fjárhæð kröfunnar, verður ekki á það fallist að skilyrði séu til að vísa málinu frá dómi af þeim sökum. Er þá jöfnum höndum til þess horft að ekkert bendir til þess að reifun málsins hafi vegna þessa gert stefnda erfitt um vik í vörninni, en einnig til þess að í lögum nr. 91/1991, um meðferð einkamála, er gert ráð fyrir því að til frekari gagnaöflunar geti komið á síðari stigum. Þá þykja engin efni til að vísa málinu frá dómi vegna meints aðildarskorts stefnanda, enda leiða varnir sem byggja á aðildarskorti til sýknu, verði á þær fallist, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.
Eins og áður greinir er stefndi alþjóðlegt fjármálafyrirtæki með heimilisvarnarþing á nánar tilgreindum stað í Bretlandi. Engu að síður byggir stefnandi á því að honum sé heimilt að höfða mál þetta fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, þar eð efndastaður greiðslu á peningamarkaðsinnlánum hafi verið í Reykjavík samkvæmt lögum, samningi aðila eða tilætlun þeirra. Greiðslan hafi verið innt af hendi inn á bankareikning í eigu stefnda hjá fjármálafyrirtæki í Reykjavík, og sé það staðfesting þess að samkomulag hafi verið um að efndastaður væri þar. Þessu til stuðnings vísar stefnandi til 35. gr. laga nr. 91/1991. Einnig er á því byggt að höfða megi málið fyrir þessum dómi samkvæmt 36. og 41. gr. sömu laga.
Samkvæmt 1. mgr. 35. gr. laga nr. 91/1991 er heimilt að sækja mál, sem höfðað er til efnda á eða lausnar undan löggerningi eða vegna rofs eða vanefnda á löggerningi, í þeirri þinghá þar sem átti að efna hann eftir hljóðan hans, tilætlun aðila eða réttarreglum. Í máli þessu leitar stefnandi staðfestingar á riftun á greiðslu peningamarkaðsinnláns til stefnda, sem innt var af hendi 9. október 2008. Krafa stefnanda, sem reist á er 134., 141. og 142. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., beinist þannig að þeirri ráðstöfun sem fólst í umræddri greiðslu, en ekki að þeim löggerningi sem lá henni til grundvallar. Með vísan til þess, en einnig þeirrar meginreglu kröfuréttar að efndastaður peningakröfu er hjá kröfuhafa, er ekki unnt að fallast á að uppfyllt séu skilyrði 1. mgr. 35. gr. laga nr. 91/1991 til að höfða mál þetta fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Vísast hér jafnframt til dóms Hæstaréttar 7. júlí 2011 í málinu nr. 379/2011. Ekki verður heldur fallist á þau rök stefnanda að mál þetta sé til greiðslu á vöru eða þjónustu í skilningi 1. mgr. 36. gr. sömu laga, eða mál til skaðabóta, refsingar eða annarrar fullnustu vegna réttarbrots utan samnings, sbr. 41. gr. laganna. Að þessu virtu verður heimild til að höfða mál þetta fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur ekki reist á áður tilvitnuðum ákvæðum laga nr. 91/1991.
Með lögum nr. 146/2011, sem tóku gildi 25. október 2011, var svohljóðandi ákvæði bætt við 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki: „Mál sem slitastjórn höfðar á grundvelli þessa ákvæðis skulu þingfest fyrir þeim héraðsdómi þar sem fjármálafyrirtæki var tekið til slita skv. 3. og 4. mgr. 101. gr.“ Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að meginmarkmið með breytingunni sé að tryggja jafnræði kröfuhafa við úrlausn riftunarmála vegna slita fjármálafyrirtækja hér á landi, auk þess sem augljóst hagræði sé að því fyrir slitastjórnir fjármálafyrirtækja. Jafnframt segir þar að frumvarpið sé lagt fram í kjölfar ábendinga frá slitastjórn Landsbanka Íslands hf. vegna dóms Hæstaréttar í máli nr. 379/2011, en dómurinn hafi komist að þeirri niðurstöðu að ekki væri unnt að höfða riftunarmál gagnvart erlendum aðilum hérlendis, á heimilisvarnarþingi Landsbankans, án samþykkis viðkomandi aðila. Í hinum nýju lögum voru engin ákvæði um lagaskil. Verður því að leggja til grundvallar að hér eigi við sú almenna lagaskilaregla í réttarfarslöggjöf að dómsmál sem höfðað er í tíð eldri reglna hlíti þeim, þótt ný lög hafi öðlast gildi áður en mál er til lykta leitt.
Óumdeilt er að stefna í máli þessu var birt forsvarsmanni stefnda 17. október 2011, og því rúmri viku fyrir gildistöku laga nr. 146/2011. Þar sem mál telst höfðað við birtingu stefnu, sbr. 93. gr. laga nr. 91/1991, var á þeim tíma ekki heimilt að höfða mál þetta fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Breytir þar engu um þótt stefndi hafi kosið að sækja þing við þingfestingu málins, enda krafðist hann frávísunar málsins af þessum sökum í greinargerð sinni.
Samkvæmt ofanrituðu verður fallist á aðalkröfu stefnda um að vísa máli þessu frá dómi. Með hliðsjón af úrslitum málsins, sbr. og 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað. Þykir hann hæfilega ákveðinn 400.000 krónur.
Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnandi, Landsbanki Íslands hf. í slitameðferð, greiði stefnda, Goldman Sachs International, 400.000 krónur í málskostnað.