Hæstiréttur íslands

Mál nr. 491/2006


Lykilorð

  • Meiðyrði
  • Tjáningarfrelsi
  • Ómerking ummæla
  • Miskabætur
  • Prentréttur


Fimmtudaginn 11

 

Fimmtudaginn 11. október 2007.

Nr. 491/2006.

Jónas Kristjánsson og

Mikael Torfason

(Gísli Guðni Hall hrl.)

gegn

Gunnari Hrafni Birgissyni

(Halldór H. Backman hrl.)

og

Gunnar Hrafn Birgisson

gegn

Jónasi Kristjánssyni

Mikael Torfasyni og

365 miðlum ehf.

(Gísli Guðni Hall hrl.)

 

Meiðyrði. Tjáningarfrelsi. Ómerking ummæla. Miskabætur. Prentréttur.

G höfðaði mál á hendur ritstjórunum J og M og útgáfufélaginu Þ vegna ummæla sem birtust í blaðinu D og lutu að ítrekuðum staðhæfingum um að 150 kvartanir og klögumál hefðu verið borin upp við félagið F vegna starfa G. Segir í niðurstöðu Hæstaréttar að ummælin hefðu átt það sammerkt að fela í sér fullyrðingar um staðreyndir og að þau yrðu ekki réttlætt með því að um gildisdóma hefði verið að ræða. Jafnframt voru ummælin dregin upp á mjög áberandi hátt og til þess fallin að varpa rýrð á störf G. Ritstjórum og útgefanda hefði mátt vera fulljóst að atlaga blaðsins gegn G hlyti að bitna harkalega á honum þegar höfð væru í huga þau trúnaðarstörf, sem hann gegndi í viðkvæmum málum og því hefði verið enn ríkari þörf á vandaðri könnun staðreynda. Fyrir Hæstarétti breytti G kröfum sínum þannig að til vara var öllum kröfum hans beint að Þ, en að J og M að Þ frágengnu. Var fallist á að G hefði verið heimilt að breyta kröfum sínum í þetta horf fyrir Hæstarétti, enda hefðu þær rúmast innan upphaflegrar kröfugerðar hans og að hann hefði val að þessu leyti. Þar sem ábyrgð, að höfundi frágengnum, yrði ekki lögð bæði á ritstjóra og útgefanda sbr. 3. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt voru J og M sýknaðir. Að öllu virtu var staðfest niðurstaða héraðsdóms um ómerkingu ummæla, en ekki þóttu efni til að beita refsingu. Einnig voru G dæmdar miskabætur úr hendi Þ og fjárhæð til að standa straum af kostnaði við birtingu dóms.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.

Aðaláfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 13. september 2006. Þeir krefjast sýknu af kröfum gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti að fengnu áfrýjunarleyfi 29. nóvember 2006. Endanlegar kröfur hans á hendur aðaláfrýjendum og stefnda 365 miðlum ehf. eru þessar: Í fyrsta lagi og aðallega að staðfest verði niðurstaða héraðsdóms um ómerkingu ummæla, þó þannig að stefndi verði dæmdur til að þola slíka ómerkingu samhliða aðaláfrýjendum, til vara að stefndi verði dæmdur í stað aðaláfrýjenda, en til þrautavara að héraðsdómur verði staðfestur að þessu leyti. Í öðru lagi krefst gagnáfrýjandi þess aðallega að aðaláfrýjendur og stefndi verði dæmdir til refsingar vegna birtingar þeirra ummæla, sem dæmd voru dauð og ómerk í hinum áfrýjaða dómi, til vara að stefndi verði dæmdur í stað aðaláfrýjenda, en til þrautavara að aðaláfrýjendur verði dæmdir til refsingar samkvæmt þessum kröfulið. Í þriðja lagi krefst gagnáfrýjandi þess aðallega að staðfest verði niðurstaða héraðsdóms um greiðslu kostnaðar við birtingu dóms í þremur dagblöðum öðrum en DV, þó þannig að stefndi verði dæmdur til að greiða fjárhæðina óskipt með aðaláfrýjendum, til vara að stefndi verði dæmdur í stað aðaláfrýjenda, en til þrautavara að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur að þessu leyti. Í fjórða lagi krefst gagnáfrýjandi þess aðallega að aðaláfrýjendur og stefndi verði dæmdir til að greiða honum óskipt 20.000.000 krónur með dráttarvöxtum frá 1. desember 2005 til greiðsludags, til vara að stefndi verði dæmdur í stað aðaláfrýjenda, en til þrautavara að aðaláfrýjendur verði dæmdir til greiðslu. Í fimmta lagi krefst gagnáfrýjandi þess aðallega að staðfest verði málskostnaðarákvörðun héraðsdóms, þó þannig að stefndi verði dæmdur til að greiða fjárhæðina óskipt með aðaláfrýjendum, til vara að stefndi verði dæmdur til að greiða málskostnað í stað aðaláfrýjenda og að málskostnaður milli gagnáfrýjanda og aðaláfrýjenda falli þá niður, en til þrautavara að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur að þessu leyti. Í sjötta lagi krefst gagnáfrýjandi þess aðallega að aðaláfrýjendur og stefndi verði dæmdir til greiðslu málskostnaðar óskipt fyrir Hæstarétti, til vara að stefndi verði dæmdur til að greiða hann og að málskostnaður milli gagnáfrýjanda og aðaláfrýjenda falli þá niður, en til þrautavara að aðaláfrýjendur verði dæmdir til að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti, en að málskostnaður milli gagnáfrýjanda og stefnda falli þá niður.

Stefndi 365 miðlar ehf. krefst sýknu af kröfum gagnáfrýjanda og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti var því lýst yfir af hálfu aðaláfrýjenda að vegna breyttrar kröfugerðar gagnáfrýjanda reistu þeir kröfu um sýknu á aðildarskorti auk áður framkominna málsástæðna.

I.

       Fyrir héraðsdómi krafðist gagnáfrýjandi þess að aðaláfrýjendum, sem voru ritstjórar dagblaðsins DV á þeim tíma er atvik málsins gerðust, og útgefanda blaðsins, stefnda 365 miðlum ehf., yrði öllum gert að þola dóm um ómerkingu nánar tilgreindra ummæla í blaðinu og gerð refsing, auk þess sem þeir yrðu dæmdir til greiðslu kostnaðar af birtingu dóms, miskabóta og málskostnaðar. Kröfur hans á hendur aðaláfrýjendum voru teknar til greina að hluta, en stefndi sýknaður. Til stuðnings niðurstöðu um sýknu stefnda var í héraðsdómi vísað til 3. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt, en samkvæmt þeirri lagagrein ber útgefandi rits eða ritstjóri ábyrgð á efni annarra blaða eða tímarita en þeirra, er getur í 14. gr. laganna, hafi enginn höfundur nafngreint sig. Höfundar texta, sem kröfur í málinu varða, voru ekki nafngreindir í blaðinu. Í dómi Hæstaréttar 1. mars 2007 í máli nr. 278/2006 var sama aðstaða að þessu leyti fyrir hendi, en þar var þess krafist að bæði ritstjóra og útgefanda yrði gert að þola dóm meðal annars vegna ummæla ónafngreinds höfundar í blaði. Segir í dóminum að af orðalagi 3. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956 leiði beint að ábyrgð verði að höfundi frágengnum ekki lögð bæði á ritstjóra og útgefanda, heldur aðeins annan hvorn þeirra, sbr. einnig 17. gr. laganna. Það sé í samræmi við grunnreglu þess ábyrgðarkerfis, sem lögin séu reist á, að einungis einn aðili verði gerður ábyrgur fyrir efni rits. Að því virtu og þar sem stefnandi málsins hafi ekki krafist þess að útgefandi yrði dæmdur í stað ritstjóra yrði krafa útgefandans um sýknu tekin til greina.

          Gagnáfrýjandi gerir nú sérstakar kröfur til vara og þrautavara verði aðalkröfur um einstaka liði ekki teknar til greina. Í aðalkröfum felst að bæði aðaláfrýjendum og stefnda verði gert að þola dóm í málinu. Verði ekki á það fallist er öllum kröfum beint að stefnda, en aðaláfrýjendum að stefnda frágengnum. Gagnáfrýjanda var heimilt að breyta kröfum sínum í þetta horf fyrir Hæstarétti, enda rúmast þær innan upphaflegrar kröfugerðar hans og á hann val að þessu leyti. Verður fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms að hafna því að bæði aðaláfrýjendum og stefnda verði gert að þola dóm um kröfur gagnáfrýjanda. Hann beinir kröfum sínum til vara að stefnda, en af því leiðir að honum verður einum gert að þola dóm í málinu verði fallist á kröfur þess fyrrnefnda að öllu eða einhverju leyti. Þeim úrslitum fylgir óhjákvæmilega að aðaláfrýjendur eru sýknir af kröfum gagnáfrýjanda.

 

 

II.

          Málsókn gagnáfrýjanda er á því reist að í fjórum tölublöðum DV hafi verið veist að honum með ummælum, sem rakin eru í héraðsdómi. Þessi skrif blaðsins hafi birst 15. mars, 3. júní, 6. júní og 21. október 2005. Krafðist hann ómerkingar samtals tólf tilgreindra ummæla um sig í blaðinu þessa daga. Flest þeirra eða sjö talsins birtust 3. júní, en ýmist ein eða tvenn hvern hinna daganna. Í héraðsdómi var krafa um ómerkingu allra ummælanna tekin til greina að tvennum undanskildum. Gagnáfrýjandi unir þeirri niðurstöðu. Í greinargerð hans til Hæstaréttar kemur einnig fram að héraðsdómur hafi verið birtur í heild í DV skömmu eftir uppkvaðningu hans og sé sá þáttur málsins útkljáður.

          Gagnáfrýjandi er sjálfstætt starfandi sálfræðingur og kveður hann störf sín að verulegu leyti felast í sálfræðiþjónustu í málum, sem varði forsjá barna og umgengni við þau, meðal annars sem dómkvaddur matsmaður og sérfróður meðdómsmaður. Þá veiti hann ráðgjöf í slíkum málum, sem hafi verið til úrlausnar við embætti sýslumanna. Flest ummælin, sem málið varðar, lúta að ítrekuðum staðhæfingum í DV þess efnis að 150 kvartanir og klögumál hafi verið borin upp við svonefnt Félag ábyrgra feðra vegna starfa gagnáfrýjanda við þessi mál. Gagnáfrýjandi kveður það félag aldrei hafa kynnt sér kvartanir og hafi DV einungis haft samband við sig einu sinni vegna málsins þegar umfjöllun blaðsins hófst. Hann hafi þá þegar mótmælt réttmæti þessara ásakana. Stefndi ber fyrir sig að upplýsingar hafi verið fengnar hjá þáverandi formanni áðurnefnds félags og til hans vísað sem heimildarmanns í umfjöllun blaðsins.

          Fyrrum formaður Félags ábyrgra feðra gaf skýrslu fyrir dómi og staðfesti að upplýsingar um 150 kvartanir væru komnar frá sér, en þær hafi einkum borist símleiðis. Af framburði hans verður ráðið að ekki hafi verið gerð skipulögð samantekt á fjölda kvartana, heldur hafi hann skráð þessi símtöl í stílabók. Nánar aðspurður um fjölda þeirra kom fram að einhverjir gætu hafa hringt tvisvar og að „það voru örfáir sem hringdu aftur og aftur.“ Umrædd stílabók hefur ekki verið lögð fram og ekki hafa aðrir stjórnarmenn í félaginu gefið skýrslu í málinu. Í skýrslu fyrrum formannsins kom einnig fram að hann hafi ekki látið starfsmönnum DV í té nein gögn um réttmæti upplýsinganna. Annar maður gaf skýrslu fyrir dómi, en hann hefur verið lýstur heimildarmaður fyrir öðrum ummælum í DV þess efnis að gagnáfrýjandi hafi svikið 15 ára stúlku og sent hana til móður sinnar sem beiti hana ofbeldi. Sami maður var aðili að dómsmálum þar sem deilt var um forsjá umræddrar stúlku. Staðfesti hann að hafa gefið blaðinu upplýsingar, en orðfæri í umfjöllun þess væri blaðamannsins en ekki sitt.

          Almennt verður að gera þá kröfu til fjölmiðla að þeir byggi umfjöllun sína á vandaðri könnun á staðreyndum. Slík vinnubrögð voru ekki viðhöfð, heldur látið við það sitja að styðjast við einn heimildarmann, einkum um fjölda klögumála. Sá hafði að auki vegna félagsstarfa sinna þá stöðu að hætta var á að umsögn hans drægi dám af óánægju þeirra félagsmanna, sem áttu aðild að ágreiningsmálum um forsjá barna eða umgengnisrétt, þar sem niðurstöður urðu þeim í óhag. Ummæli sem hann er borinn fyrir sem heimildarmaður hafa ekki verið réttlætt og hinu sama gegnir um það, sem haft var eftir öðrum heimildarmanni um mál 15 ára stúlku. Í því tilviki hefði starfsmönnum stefnda verið unnt að kynna sér dóma Hæstaréttar í málum, sem vörðuðu stúlkuna, en enga stoð er að finna í þeim fyrir staðhæfingum um afglöp sem gagnáfrýjanda voru borin á brýn.

          Umfjöllun DV um gagnáfrýjanda tók yfir langt tímabil og fól í sér harðan og sérlega óvæginn áfellisdóm yfir honum. Margítrekað var staðhæft að 150 kvartanir hefðu beinst að honum eða hann væri með „150 klögumál á bakinu“, en orðfærið var til þess fallið að vekja þann skilning að gagnáfrýjandi stæði frammi fyrir því að verða látinn sæta ábyrgð vegna margendurtekinna ávirðinga í starfi. Inn í þessa umfjöllun var jafnframt fléttað fullyrðingum um alvarleg glöp og rangsleitni í einstökum tilvikum. Ummælin eiga það sammerkt að fela í sér fullyrðingar um staðreyndir og verða ekki réttlætt með því að um gildisdóma hafi verið að ræða. Þau voru jafnframt dregin upp á mjög áberandi hátt og til þess fallin að varpa rýrð á störf gagnáfrýjanda. Mátti ritstjórum og útgefanda vera fullljóst að atlaga blaðsins gegn gagnáfrýjanda hlyti að bitna harkalega á honum þegar höfð eru í huga þau trúnaðarstörf, sem hann gegndi í viðkvæmum málum, og því enn ríkari þörf á vandaðri könnun staðreynda. Að virtu öllu því, sem að framan greinir, og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms, verður staðfest niðurstaða hans um ómerkingu ummæla, en ekki eru hér efni til að beita refsingu. Með sömu skírskotun verður fallist á að gagnáfrýjandi eigi rétt á miskabótum og verður við ákvörðun þeirra að líta til þess að ummælin fengu enn meiri útbreiðslu en ella vegna auglýsinga DV í öðru dagblaði. Er fjárhæð miskabóta hæfilega ákveðin 1.000.000 krónur. Þá verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um rétt gagnáfrýjanda til greiðslu á 200.000 krónum til að standa straum af birtingu dóms þessa í dagblöðum.

          Stefndi verður dæmdur til að greiða gagnáfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem verður ákveðinn í einu lagi eins og í dómsorði greinir. Málskostnaður milli gagnáfrýjanda og aðaláfrýjenda í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómsorð:

Aðaláfrýjendur, Jónas Kristjánsson og Mikael Torfason, eru sýknir af kröfum gagnáfrýjanda, Gunnars Hrafns Birgissonar. Málskostnaður þeirra á milli í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Ákvæði héraðsdóms um ómerkingu ummæla skal vera óraskað.

Stefndi, 365 miðlar ehf., greiði gagnáfrýjanda 1.200.000 krónur, þar af 1.000.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. desember 2005 til greiðsludags.

Stefndi greiði gagnáfrýjanda samtals 1.200.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. júní 2005.

Mál þetta, sem var dómtekið 22. maí sl. er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Gunnari Hrafni Birgissyni, Erluási 84, Hafnarfirði á hendur Jónasi Kristjánssyni, Fornuströnd 2, Seltjarnarnesi, Mikael Torfasyni, Vesturgötu 26a, Reykjavík og 365 prentmiðlum ehf., Skaftahlíð 24, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru:

1.  Að birt ummæli verði dæmd dauð og ómerk.

Stefnandi krefst þess að eftirfarandi ummæli sem birtust í DV verði dæmd dauð og ómerk, sbr. 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940:

A.  Fyrirsögn á bls. 10 þann 15. mars 2005:

„150 klögumál á sálfræðing.”

            B.  Í grein á bls. 10 þann 15. mars 2005:

„...enda ástæða til að staldra við þegar klögumálin eru orðin 150 talsins.”

C.  Á forsíðu þann 3. júní 2005:

„Sálfræðingur með 150 klögumál á bakinu:  Sveik 15 ára stúlku og sendi til móður sem lemur hana”

D.  Á forsíðu þann 3. júní 2005:

„Félagi ábyrgra feðra hafa borist yfir 150 kvartanir vegna sálfræðingsins.  Ólafur hefur leitað til þriggja annarra sérfræðinga sem allir hafna mati Gunnars.”

E.  Fyrirsögn á bls. 8 þann 3. júní 2005:

“Sálfræðingur með 150 klögumál á bakinu sveik 15 ára stúlku.”

F.  Í grein á bls. 8 þann 3. júní 2005:

„Um 150 kvartanir hafa borist frá forsjárlausum feðrum á dr. Gunnar vegna vafasamrar ráðgjafar í forræðisdeilum.”

G.  Fyrirsögn við mynd á bls. 8 þann 3. júní 2005:

„Yfir 150 kvartanir hafa borist vegna Gunnars Hrafns Birgissonar sálfræðings sem dregur taum mæðra í forræðisdeilum.”

H.  Millifyrirsögn í grein á bls. 8 þann 3. júní 2005:

„Sálfræðingur braut siðareglur”

I.  Í grein á bls. 8 þann 3. júní 2005:

„Alls hafa félaginu borist um 150 kvartanir vegna ráðgjafar Gunnars í forræðismálum þar sem hann hefur fengið feður til að samþykkja umgengni við börn sín sem eru í raun brot á mannréttindum.   Allt í skjóli þess að annars fái þeir aldrei að hitta börnin sín.”

J.  Á forsíðu þann 6. júní 2005:

„Sálfræðingurinn Gunnar.  Hjálpaði við að svipta lesblindan forræði.”

K.  Í formála greinar á bls. 10 þann 6. júní 2005:

„Eins og DV hefur áður greint frá hefur Félagi ábyrgra feðra borist yfir 150 kvartanir vegna vinnubragða Gunnars.”

L.  Í formála greinar á bls. 6 þann 21. október 2005:

            „...endaði með allsherjarslagsmálum á biðstofu Gunnars.”

 

2.  Krafa um refsingu.

Stefnandi krefst þess að stefndu verði dæmdir til refsingar vegna birtingar ofangreindra ummæla samkvæmt 234., 235. og 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

3.  Krafa um birtingu dóms og greiðslu kostnaðar af birtingu.

Stefnandi krefst þess að dómur um ómerkingu ummæla, refsingu og fébætur verði birtur án endurgjalds í heild í DV í 1. eða 2. tölublaði eftir að dómur fellur.  Stefnandi krefst þess jafnframt að stefndu verði að óskiptu dæmdir til að greiða honum 500.000 kr. til greiðslu kostnaðar við birtingu dóms í þremur öðrum dagblöðum, sbr. 2. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

4.  Miskabótakrafa.

Stefnandi krefst miskabóta að óskiptu úr hendi stefndu að fjárhæð 20.000.000 kr. sbr. b. lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, auk dráttarvaxta samkvæmt lögum nr. 38/2001 frá málshöfðunardegi þann 1. desember 2005 til greiðsludags.

 

5.  Málskostnaðarkrafa.

Stefnandi krefst þess að stefndu verði að óskiptu dæmdir til að greiða honum málskostnað að skaðlausu.

 

Dómkröfur stefndu:

Stefndu gera allir þá dómkröfu að þeir verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda, eins og þær eru settar fram í tl. nr. 1 til 5 í stefnu, en til vara að þeir verði sýknaðir að hluta. Sérstök sýknukrafa er gerð vegna stefnda, 365 prentmiðla ehf.

Þá krefjast stefndu þess að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar til hvers og eins þeirra að mati dómsins í samræmi við hagsmuni málsins, að teknu tilliti til vinnu málflytjanda og annan kostnað af málinu. Þá er þess krafist að dráttarvextir leggist á málskostnaðarkröfu í samræmi við ákvæði laga nr. 91/1991 og leggist þeir við höfuðstól hennar á tólf mánaða fresti.

 

Málavextir.

Stefnandi máls þessa er sjálfstætt starfandi sálfræðingur með doktorsgráðu og starfsréttindi sem sérfræðingur í klínískri sálfræði bæði hérlendis og í Bandaríkjunum.  Hann hefur starfrækt sálfræðiþjónustu á einkastofu frá 1993 og gert það í fullu starfi frá 1999.  Hefur starfsemi hans að verulegu leyti tengst sálfræðiþjónustu í forsjár- og umgengnismálum m.a. sem dómkvaddur matsmaður og sérfróður meðdómari, auk þess sem hann hefur á grundvelli samninga við sýslumannsembætti veitt ráðgjöf í forsjár- og umgengnismálum sem til úrlausnar eru hjá embættunum.

Hinn 15. mars 2005 birtust í DV fyrstu ummælin um stefnanda sem krafist er að dæmd verði dauð og ómerk, en þar kom fram að 150 klögumál væru á stefnanda. Hinn 3. júní birtist aftur ummæli um stefnanda, síðan 6. júní og loks 21. október 2005, sbr. nánar kröfugerð málsins. Síðan birtust einnig greinar 16. mars og 12. maí þar sem fjallað var um stefnanda.

Með bréfi lögmanns stefnanda 4. ágúst 2005 var tilkynnt að verið væri að undirbúa kröfugerð vegna umfjöllunar í DV og fyrirhugað væri að fara með málið fyrir dómstóla.

Stefndi svaraði bréfi stefnanda 17. ágúst 2005 og taldi að umrædd umfjöllun um stefnanda í DV væri sannleikanum samkvæm og ekki væri um skaðabótaábyrgð að ræða hjá stefndu.  Mál þetta var síðan höfðað í desember 2005.

 

Málsástæður og lagarök stefnanda.

            Varðandi aðild málsins tekur stefnandi fram að stefndu, Jónas og Mikael, hafi verið ritstjórar DV á þeim tíma sem mál þetta varðar.  Aðild þeirra sé því m.a. byggð á ákvæðum laga um prentrétt nr. 57/1956, sbr. einkum 2. mgr. 15. gr. þeirra laga.  Þá er stefndi, 365 prentmiðlar ehf., útgefandi DV í skilningi sömu laga.  Byggir stefnandi á því að refsi- og fébótaábyrgð félagsins verði við komið skv. 19. gr. a og 19. gr. c almennra hegningarlaga nr. 19/1940, enda sé kveðið á um aðild félagsins að refsikröfu í 2. mgr. 15. gr. fyrrnefndra laga um prentrétt.  Er og sérstaklega áréttað að félagið hafði fjárhagslegan ávinning af skrifunum og því beri að fallast á aðild þess að málinu.  Munu röksemdir að þessu leyti reifaðar nánar við aðalmeðferð málsins.

Varðandi málsástæður þær er stefnandi byggir málssókn sína á tekur hann í fyrsta lagi fram að starfssvið stefnanda tengist mjög viðkvæmum málaflokki og oft sársaukafullum, tilfinningalegum hagsmunum hlutaðeigandi sem lítið erindi eigi í fjölmiðla.  Niðurstöður forsjármála séu  oftar en ekki umdeildar meðal málsaðila og sama má segja um álitsgerðir sálfræðinga sem aflað er í slíkum málum.  Kalli þetta á sérstaka varúð í opinberri umfjöllun um þennan málaflokk.

Hinn 15. mars 2005 hóf dagblaðið DV umfjöllun um störf stefnanda.  Hefur blaðið margsinnis, allt frá 15. mars 2005 til 21. október 2005, birt greinar og ummæli um stefnanda sem eru beinlínis röng og til þess fallin að valda stefnanda verulegri röskun, æru- og mannorðsmissi.  Stefnandi telur að umfjöllun blaðsins hafi borið keim af skipulagðri rógsherferð gegn faglegum heiðri, störfum og persónu stefnanda.

Tilgreining þeirra ummæla sem krafist er ómerkingar á í kröfulið 1 hér að framan er ekki tæmandi um athafnir stefndu í garð stefnanda á téðu tímabili.  Eru refsi- og miskabótakröfur stefnanda byggðar á umfjöllun blaðsins í heild sinni.

Á forsíðu DV 15. mars 2005 segir: „Feður segja sálfræðing plata af sér forræði.  Formaður félagsins Ábyrgir feður segir þá ósátta við ráðgjöf sálfræðingsins dr. Gunnars Hrafns Birgissonar, sem þiggur laun frá hinu opinbera.  Gunnar dragi taum mæðra og hafi fengið á sig 150 klögumál.  Doktor Gunnar segist ekki andsnúinn ábyrgum feðrum.“  Vísað er síðan til bls. 8 í blaðinu.  Sú tilvísun er ekki rétt, en umrædd umfjöllun var á bls. 10 í blaðinu.  Þar koma m.a. fram þau ummæli sem sérstaklega er krafist ómerkingar á í kröfuliðum A og B.  Fyrirsögn greinarinnar er: „150 klögumál á sálfræðing.“  Við fyrirsögnina er birt mynd af stefnanda þar sem nafn hans er birt með orðunum „sálfræðingurinn sem ábyrgir feður treysta ekki.“ Í greininni er vitnað til viðtals við Garðar Baldvinsson, formann félags sem ber nafnið Ábyrgir feður.  Í greininni er beint haft eftir tilgreindum viðmælanda að „klögumál“ og „kvartanir“ séu á þeirra borði vegna starfa stefnanda fyrir sýslumenn og þar talað um að þau séu „á annað hundrað“.  Í fyrirsögn og í greininni sjálfri er fullyrt að „klögumálin“ séu 150 talsins án þess að séð verði að það sé beint haft eftir tilgreindum viðmælanda.  Einnig er haft eftir viðmælandanum að „sýslumenn og Gunnar Hrafn [hafi] fengið fjölda feðra til að samþykkja samninga um umgengni við börn sín sem í raun eru brot á mannréttindum“.  Hér taka stefndu þá ákvörðun að birta órökstudd ummæli og aðdróttanir viðmælandans í garð stefnanda og sýslumanna sem eru vægast sagt meiðandi. Látið er að því liggja að bæði stefnandi og sýslumannsembætti á landinu stundi mannréttindabrot af ásettu ráði.  Engin rök eru færð fyrir því í hverju meint mannréttindabrot eru talin felast.  Svo virðist sem þetta sé sett fram til enn frekari áréttingar á fullyrðingum blaðsins í sömu grein.

Hinn 16. mars 2005 var umfjöllun um þessi mál haldið áfram í DV í leiðara Eiríks Jónssonar blaðamanns, þar sem lagt er út frá því sem staðreynd að til séu 150 klögumál á hendur stefnanda vegna starfa hans.  Í greininni segir m.a.: „Frétt DV frá í gær um 150 klögumál sem borist hafa Ábyrgum feðrum vegna lögbundinnar sérfræðiþjónustu sálfræðings í forræðismálum hlýtur að vekja spurningar um framgöngu kerfisins.  Doktor Gunnar Hrafn Birgisson sálfræðingur er vafalaust hinn mætasti maður.   En 150 klögumál segja sína sögu.“

Hinn 12. maí 2005 birtist stutt umfjöllun í DV ásamt mynd af stefnanda þar sem enn var lagt út frá því sem staðreynd að 150 „kærur“ væru fyrir hendi á hendur stefnanda. Jafnframt var vísað til þess að siðanefnd Sálfræðingafélags Íslands væri með málefni stefnanda til umfjöllunar.  Í greininni segir m.a.: „Doktor Gunnar Hrafn Birgisson sálfræðingur er ekki á topp tíu lista yfir bestu vini Félags ábyrgra feðra.   Hafa ábyrgir feður kvartað yfir vinnulagi sálfræðingsins í forsjármálum en á borði félagsins mun vera 150 kærur á hendur honum.  [...] Sumir segja að doktor Gunnar Hrafn hafi verið víttur af félögum sínum.“  Með þessari umfjöllun er enn fjallað um sem staðreynd að til séu 150 mál vegna starfa stefnanda en ekki lengur talað um klögur eða kvartanir heldur kærur sem augljóslega felur í sér skírskotun til þess að einhver opinber aðili sé með mál þessi til afgreiðslu.  Þá er látið að því liggja að siðanefnd Sálfræðingafélags Íslands sé með málin 150 til umfjöllunar og að stefnandi hafi líklega verið víttur vegna þessara atvika allra.

Hinn 3. júní 2005 var slegið upp á forsíðu DV, sem aðalfrétt blaðsins þann dag, umfjöllun um stefnanda og stór mynd af honum.  Er fyrirsögnin orðuð svo:  „Sálfræðingur með 150 klögumál á bakinu:  Sveik 15 ára stúlku og sendi til móður sem lemur hana.“  Í frekari umfjöllun á forsíðunni er enn og aftur fjallað um það sem staðreynd að 150 kvartanir hafi borist vegna stefnanda. Síðan segir m.a.: „Ólafur hefur leitað til þriggja annarra sérfræðinga sem allir hafna mati Gunnars.“  Kröfur stefnanda undir liðum C og D hér að framan lúta að framangreindri forsíðu.  Á forsíðunni er svo vísað til umfjöllunar á bls. 8 í blaðinu, en þar koma fram atriði er varða kröfuliði E til I.  Fyrirsögn greinarinnar á bls. 8 er: „Sálfræðingur með 150 klögumál á bakinu sveik 15 ára stúlku.“  Í umfjöllun fyrir ofan aðalfyrirsögn segir að „kvartað hefur verið undan Gunnari 150 sinnum.“  Í inngangi greinarinnar segir síðan: „Um 150 kvartanir hafa borist frá forsjárlausum feðrum á dr. Gunnar vegna vafasamrar ráðgjafar í forræðisdeilum.“   Við myndbirtingu af stefnanda í sömu grein segir: „Yfir 150 kvartanir hafa borist vegna Gunnars Hrafns Birgissonar sálfræðings sem dregur taum mæðra í forræðisdeilum.“  Í millifyrirsögn í greininni kemur fram dæmalaus og fyrirvaralausa fullyrðing:  „Sálfræðingur braut siðareglur.“  Frekari umfjöllun er um þá fullyrðingu og látið liggja að sviksamlegu vanhæfi stefnanda.  Næsta millifyrirsögn greinarinnar er „150 kvartanir“ og þar er svo fullyrt eftirfarandi: „Alls hafa félaginu borist um 150 kvartanir vegna ráðgjafar Gunnars í forræðismálum þar sem hann hefur fengið feður til að samþykkja umgengni við börn sín sem eru í raun brot á mannréttindum.   Allt í skjóli þess að annars fái þeir aldrei að hitta börnin sín.“  Tilefni greinaskrifa blaðsins er aðkoma stefnanda að tilteknu forsjármáli sem lauk með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 435/2004.  Er því haldið fram að vitnisburður stefnanda og störf hans að málinu hafi ekki einvörðungu ráðið úrslitum í málinu heldur er stefnandi beinlínis vændur um alvarleg svik, þvinganir, hótanir og mannréttindabrot.  Umfjöllun blaðsins verður vart skilin á annan hátt en að stefnandi hafi í raun einn ráðið niðurstöðu Hæstaréttar.  Í Fréttablaðinu 3. júní 2005 auglýsti DV með skírskotun til þessarar fréttar og fyrirsögnin birt ásamt mynd af stefnanda.  Sérstaka athygli vekur slagorð DV í auglýsingunni: „Þorir þegar aðrir þegja.“  Hið rétta er að stefnandi vann álitsgerð fyrir Fjölskyldu- og þjónustusvið Skagafjarðar svo sem greint er í forsendum Hæstaréttar í málinu.  Hverjum sem kynnir sér forsendur réttarins ætti að vera ljóst að fullyrðingar og ályktanir í forsíðu, fyrirsögn og í grein eru ekki neinu samræmi við þær.

Hinn 6. júní 2005 birtist á forsíðu DV svohljóðandi fyrirsögn:  „Sálfræðingurinn Gunnar.  Hjálpaði við að svipta lesblindan forræði.“  Við fyrirsögnina er birt mynd af stefnanda og vísað til umfjöllunar á bls. 10 í blaðinu.  Í formála greinarinnar á þeirri blaðsíðu segir m.a.:  „Eins og DV hefur áður greint frá hefur Félagi ábyrgra feðra borist yfir 150 kvartanir vegna vinnubragða Gunnars.“  Framangreind atriði falla undir liði J og K í kröfugerð stefnanda. Fyrirsögn greinarinnar er svohljóðandi: „Umdeildur sálfræðingur örlagavaldur lesblinds föður“.  Látið er að því liggja, án nokkurs rökstuðnings, að stefnandi hafi ranglega átt þátt í að svipta viðmælanda blaðsins forsjá með ófaglegri ráðgjöf og ómálefnalegum hætti á grundvelli fötlunar hans.  Allt þetta er rangt.  Er sérstök athygli vakin á því að í DV hinn 3. júní 2005, einungis 3 dögum áður, er á bls. 10 grein um sama mann og forsögu málsins.  Er þar hvergi vikið að meintum þætti stefnanda í málinu.  Við greinina á bls. 10 hinn 6. júní 2005 er birt svohljóðandi klausa:  „Hefur þú lent í Gunnari?  Eða þekkir þú einhvern sem hefur lent í sálfræðingnum Gunnari Hrafni Birgissyni?  Hringdu þá í Fréttaskot DV í síma 550 5090 eða sendu okkur tölvupóst á netfangið ritstjorn@dv.is.  Fyrir hvert fréttaskot sem birtist eða er notað í DV, greiðast 3.000 krónur.  Fyrir besta fréttaskotið í hverri viku greiðast 7.000 krónur.  Fullrar nafnleyndrar er gætt.“  Stefndu auglýstu þannig eftir því að fólk í þeim viðkvæma málaflokki sem stefnandi starfar við kæmi fram með frásagnir um störf stefnanda.  Þetta atferli stefndu verður vart skilið með öðrum hætti en að allra leiða hafi verið leitað til að halda rógsherferð blaðsins áfram á hendur stefnanda.  Jafnframt telur stefnandi að þarna staðfestist að stefndu hafi í raun látið sér í léttu rúmi liggja hvort frásagnir um stefnanda væru sannar eða ekki með loforði um greiðslu fyrir fréttir.  Telur stefnandi að þetta geri allar athafnir stefndu alvarlegri en ella og undirstriki enn fremur refsi- og bótaábyrgð stefndu.  Augljóst sé af þessu að stefndu hafi látið sér sannleika og heiðarleika í léttu rúmi liggja en einblínt á að afla eins margra og svæsinna gróusagna og lyga um stefnanda og völ var á í því skyni að selja fleiri dagblöð og hagnast meira á þessum skrifum sínum.

Stefndu hlaut og hlýtur að vera ljóst hið afar viðkvæma eðli forsjármála og þeirra mikilvægu og persónulegu hagsmuna sem þar eru í húfi.  Í deilum í þessum málaflokki er það almennt svo að fagaðilar sem koma að úrlausn mála þurfa að taka matskenndar ákvarðanir um hæfi foreldra og hag þeirra barna sem um er deilt.  Málsaðili sem kynni að verða undir í slíku mati eða máli almennt er líklegur til að meta forsendur ranglega og ekki ólíklegt að viðkomandi hefði sérstaka þörf til að ráðast að þeim fagaðilum sem komu að málinu, sé honum gefið sérstakt tilefni til og kostur á því, jafnvel þannig að þóknun fáist fyrir.  Öll umfjöllun um þennan málaflokk verður því að vera sérlega vönduð og laus við rakalausar fullyrðingar og hleypidóma sem geta falið í sér dæmalausan rógburð um nafngreinda menn, eins og stefnanda.  Engin umfjöllun var um stefnanda á síðum DV í kjölfar þessarar auglýsingar.

Hinn 21. október 2005 birtist á forsíðu DV svohljóðandi fyrirsögn:  „Gunnar.  Slegist á skrifstofu umdeilds sálfræðings.“  Í formála greinarinnar sjálfrar er fjallað um sáttafund sem haldinn var á skrifstofu stefnanda.  Síðan segir m.a. að fundurinn: „...endaði með allsherjarslagsmálum á biðstofu Gunnars.“  Í greininni kemur fram að aðkoma stefnanda hafi ekki verið önnur en sú að fólk sem beið á biðstofu stefnanda eftir viðtali lenti í átökum sem leiddu til þess að sá sem fyrir árás varð kærði árásarmanninn.  Tilvísun til „allsherjarslagsmála“ gefur til kynna að stefnandi hafi verið þátttakandi í slagsmálum á biðstofu sinni, en hann reyndi eingöngu að stilla til friðar.  Af einhverjum óútskýrðum ástæðum var áréttað í greininni að stefnandi drægi taum mæðra í forsjárdeilum og að meira en 150 klögumál væru til meðferðar á hendur honum.  Ekkert samhengi er á milli þess og atviksins eða slagsmálanna sem til umfjöllunar voru, nema því aðeins að stefndu hafi ætlað að láta í það skína að þessar ávirðingar á hendur stefnanda væru ein af orsökum slagsmálanna.  Greinina er a.m.k. auðveldlega hægt að skilja með þeim hætti.  Enn sérkennilegri og ekki síður ámælisverðari er sú ráðstöfun stefndu að stilla upp mynd af stefnanda og embættisdómara við Héraðsdóm Reykjavíkur í greininni og árétta það með myndbirtingu af sömu mönnum í auglýsingu sem birtist á bls. 50 í Fréttablaðinu sama dag, með orðunum „Gunnar Hrafn Birgisson.  Slegist á skrifstofu umdeilds sálfræðings.“  Með þessu var lesendum Fréttablaðsins gefið til kynna, með afar ósmekklegum og ómerkilegum hætti, að stefnandi og téður dómari hafi slegist.

Hér að framan hafa verið rakin helstu atvik sem stefnandi byggir málsókn sína á.  Rétt er þó að árétta að bóta- og refsikröfur stefnanda eru ekki bundnar við tilvitnuð orð eingöngu heldur umfjöllun DV almennt eins og hún birtist í framlögðum dómskjölum.  Á það er jafnframt minnt að umfjöllunum DV hefur verið slegið upp í auglýsingaskyni og með tilvitnunum í öðrum miðlum.  Jafnframt voru, væntanlega til að auka sölu og hag DV, sett upp risavaxin auglýsingaspjöld í verslunum með forsíðu DV, tilheyrandi fullyrðingum og myndbirtingum af stefnanda.  Þá hefur umfjöllun blaðsins um stefnanda verið birt á vefsíðunni www.visir.is og telst sú birting vera á heimsvísu.  Loks voru ítrekað birtar útvarpsauglýsingar þar sem efni DV var auglýst með beinni tilvísun í skrif um stefnanda.  Allt þetta gerir athafnir stefndu alvarlegri en ella og horfir til að auka tjón og röskun stefnanda umtalsvert.

Því er harðlega mótmælt af hálfu stefnanda að umfjöllun blaðsins hefði verið sannleikanum samkvæm, enda bera stefndu sönnunarbyrði fyrir þeirri fullyrðingu.  Þá hafnar stefnandi því alfarið að stefndu geti skýlt sér á bak við 73. gr. stjórnarskrárinnar.  Ærumeiðingar, aðdróttanir og rógburður stefndu eiga ekkert skylt við tjáningarfrelsi.  Tjáningarfrelsi er þar að auki ávallt á ábyrgð þess sem nýtir það, sbr. 2. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar og er jafnframt takmarkað m.a. af ákvæðum 234. – 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Ekkert hefur komið fram sem réttlætir þær rakalausu fullyrðingar sem hafðar voru uppi með ítrekuðum hætti og eru grundvöllur kröfugerðar stefnanda.  Stefnandi er ekki opinber persóna og umfjöllun um störf hans með þeim hætti sem gert var tengist ekki almennri þjóðfélagsumræðu.  Þá hefur stefnandi ekki sjálfur, með eigin umfjöllun um málefnið eða einstök mál, gefið tilefni til andsvara, hvað þá þeirrar aðfarar sem stefndu viðhöfðu gegn honum.

Af hálfu stefnanda er á því byggt að öll þau ummæli sem krafist er ómerkingar á og refsingar fyrir séu ærumeiðandi með þeim hætti að þau feli í sér móðgun í orðum og/eða með þeim sé dróttað að stefnanda þannig að verði virðingu hans til hnekkis.

Byggir stefnandi á því að ummælin séu öll efnislega röng, enda liggi ekkert fyrir þeim til staðfestingar auk þess sem framsetning þeirra sé ærumeiðandi.  Með birtingu ummæla þessara og dreifingu þeirra sé freklega vegið að persónu stefnanda, starfsheiðri hans og virðingu.  Stefnandi hafi mátt þola verulega óvægna og ítrekaða umfjöllun af hálfu stefndu, sem létu ekki við það sitja heldur auglýstu sérstaklega eftir frekara efni, gegn greiðslu, til að halda herferð sinni áfram.

Stefnandi heldur því fram að þegar litið sé til menntunar hans og starfa á sviði forsjár- og umgengnismála, sé vart hægt að hugsa sér alvarlegri aðdróttun en þá að hann hafi svikið barn sem til umfjöllunar er í starfi hans.  Með orðinu svikum sé augljóslega dróttað að óheiðarlegri framkomu stefnanda.  Ekki geti verið vafa undirorpið að um ærumeiðandi umfjöllun sé að ræða.  Sérstaklega er áréttað að fullyrðingar um að stefnandi hafi með einhverjum hætti „sent“ barn það sem til umfjöllunar er til móður eru einfaldlega rangar og hljóta að vera settar fram gegn betri vitund.  Sama á við um ítrekaðar tilvísanir til þvingana, hótana og meintra mannréttindabrota af hálfu stefnanda.

Í grein DV 3. júní 2005 eru aðdróttanir í garð stefnanda hvað alvarlegastar.  Er dróttað að stefnanda að hann beiti óheiðarlegum aðferðum til þess að fá feður til þess að gefa eftir forsjá.  Er því haldið fram að stefnandi hafi beitt ólögmætum sjónarmiðum við starfa sinn og ekki haft í heiðri þá meginreglu sem fram kemur í barnalögum að hagsmunir barns skuli ráða því hvernig forsjá og umgengni sé háttað.  Eins er ítrekað vikið að því að stefnandi dragi meðvitað taum mæðra í forsjárdeilum og að stefnandi komi því beinlínis til leiðar með vafasömum hætti að opinberir úrlausnaraðilar forsjármála komist að ranglátri niðurstöðu.  Í raun er stefnandi borinn þeim sökum að hafa beitt óheiðarlegum og ólögmætum vinnubrögðum í þeim tilgangi að svipta bæði foreldra og börn réttindum sem varin eru með lögum og alþjóðlegum sáttmálum.  Þetta hafi stefnandi gert í skjóli starfs sem honum hafi verið trúað fyrir af opinberum aðilum í tengslum við úrlausn slíkra aðila á forsjár- og umgengnismálum.  Stefnandi var tíðum skipaður sem dómkvaddur matsmaður og því opinber sýslunarmaður.  Stefndu hafa því vænt hann um háttsemi sem í eðli sínu er refsiverð skv. XIV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og gætu varðað stefnanda fangelsisrefsingu.  Þetta undirstrikar öðru fremur alvarleika þeirra skrifa stefndu sem beinst hafa að stefnanda.

Stefnandi byggir á því að ítrekaðar fullyrðingar um að í gangi séu „150 klögumál“ séu rangar og með öllu ósannaðar.  Félag ábyrgra feðra hefur aldrei haft samband við stefnanda og aldrei hefur stefnandi fengið upplýsingar um kvartanir eða klögumál á hendur sér frá því félagi.  Fyrirvaralausar fullyrðingar um slíkan fjölda kvartana er gegnumgangandi í umfjöllun blaðsins og eru þær sýnilega til þess fallnar að fá lesendur til að trúa að um staðreynd sé að ræða enda framsetning með þeim hætti.  Stefnandi telur sannleikann fótum troðinn og lesendum gefin röng og mjög villandi mynd af staðreyndum mála.

Með umfjöllun sinni á greindu tímabili hafa stefndu ráðist harkalega og að ósekju að virðingu og persónu stefnanda.  Fyrirsagnir, myndbirtingar og öll umfjöllun af hálfu blaðsins er þess eðlis að starfsheiður og æra stefnanda hefur verið fótum troðin á ábyrgð stefndu.  Engu breyti þótt einhver hluti af umfjöllunum í DV sé hugsanlega byggður á yfirlýsingum eða viðtölum við þriðja aðila.  Stefndu bera ábyrgð á efni blaðsins og bera þar með einnig ábyrgð á því að birta rakalausar ásakanir þriðja aðila á hendur stefnanda, hvort sem þær eru runnar undan rifjum ónafngreindra blaðamanna, ónafngreindra heimildarmanna eða nafngreindra viðmælenda, sbr. t.d. 2. mgr. 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Samkvæmt framangreindu er á því byggt að uppfyllt séu skilyrði 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 til þess að ummæli sem kröfugerð nær til verði dæmd dauð og ómerk enda hljóti þau að teljast óviðurkvæmileg.

Þá er á því byggt að stefndu, Jónas Kristjánsson og Mikael Torfason, sem voru ritstjórar DV á því tímabili sem hér um ræðir, verði látnir sæta refsiábyrgð vegna brota á 234., 235. gr. almennra hegningarlaga, sbr. og 236. gr. sömu laga, sem stefnandi telur að eigi við fullum fetum í málinu.  Um ábyrgð þeirra fer samkvæmt 2. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt enda hefur enginn höfundur nafngreint sig sem höfund þeirra ummæla eða greina sem um ræðir.

Stefnandi byggir fjárkröfu sína um greiðslu kostnaðar vegna birtingar dóms á 2. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.   Á því er byggt að stefnandi eigi rétt á því samkvæmt tilgreindu ákvæði að fá dæmda úr hendi stefndu hæfilega fjárhæð til þess að standa fyrir birtingu dómsins.  Fjárkrafan miðast við birtingu í þremur dagblöðum og við það miðað að birting fari fram í Morgunblaðinu, Fréttablaðinu og Blaðinu.  Er á því byggt að tilgreind fjárhæð sé hæfileg.  Verði ágreiningur um fjárhæð er áskilinn réttur til að leggja fram gögn um áætlaðan birtingarkostnað.

Stefnandi byggir kröfu sína um miskabætur á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, einkum b-lið 1. mgr. ákvæðisins, enda beri stefndu ábyrgð á ólögmætri meingerð gegn stefnanda í skilningi ákvæðisins.  Stefndu réðust á svívirðilegan hátt og ítrekað gegn friði, æru og persónu stefnanda.  Athafnir stefndu hafa valdið verulegum miska hjá stefnanda og raunar einnig fjölskyldu hans, sem orðið hefur fyrir verulegri röskun, óþægindum og ýmisskonar þjáningum. Við mat á fjárhæð miskabóta telur stefnandi að líta verði til þess hversu alvarlegar umræddar aðdróttanir voru gagnvart honum.  Þær hafi verið endurteknar yfir nokkurt tímabil og þannig festar í huga lesenda.  Þá hafi þeim verið dreift til annarra miðla sem auglýsingum, birtar á förnum vegi í verslunum og söluturnum, ásamt því að vera birtar á vefnum.  Útbreiðsla á umfjöllunum DV nær því langt út fyrir hóp lesenda blaðsins.  Nægir þar t.a.m. að benda á að Fréttablaðið er borið út á öll heimili í landinu eftir því sem næst verður komist, en þar voru forsíður DV birtar sem auglýsingar.  Birting forsíðna DV, hvort sem er með auglýsingu í útvarpi, öðrum blöðum eða með risavöxnum auglýsingaskiltum í verslunum og söluturnum eru þess sérstaka eðlis að þar er fullyrðingum slegið upp með myndum af stefnanda og nafni hans, án þess að þeir sem sjá þessar auglýsingar geti jafnframt kynnt sér innihald blaðsins efnislega eða myndað sér aðra skoðun á umfjöllunarefninu en blasir við á forsíðunni.

Stefnandi fær ekki betur séð en DV hafi með kerfisbundnum hætti leitast við að svipta hann starfsheiðri sínum, starfsgrundvelli og æru enda hafi ekki að neinu leyti verið tekið tillit til athugasemda og fullyrðinga stefnanda um málsatvik.  Þau ærumeiðandi ummæli og umfjöllun DV í heild um stefnanda og störf hans hafa valdið honum verulegri röskun, óþægindum og þjáningum og er því haldið fram að fjárhæð miskabóta verði að taka mið af því.

Með umræddri umfjöllun hafa stefndu vegið alvarlega að starfsheiðri stefnanda og persónu.  Stefnandi hefur lagt á sig langt nám í sálfræði og aflað sér virðingar innan starfsgreinar sinnar.  Umrædd umfjöllun er til þess fallin að rýra álit og stöðu hans innan greinarinnar.  Ljóst er að stefnanda er nauðsynlegt að hæfi hans til umfjöllunar forsjármála verði ekki dregið í efa, hvorki af opinberum úrlausnaraðilum né heldur málsaðilum í forsjármálum.  Hæfi stefnanda og traust og trú á störf hans skipta grundvallarmáli.  Hvort tveggja hefur verið fótum troðið fyrir tilstilli DV og stefndu.

Að öllu framangreindu virtu telur stefnandi að miski hans sé verulegur og að miskabótakrafa hans sé hæfileg.  Því til viðbótar byggir stefnandi á því að taka skuli tillit til þess við ákvörðun miskabóta að brot stefndu eru framin í atvinnustarfsemi og í því skyni að afla stefndu tekna.  Með öðrum orðum höfðu stefndu, eða a.m.k. stefndi, 365 prentmiðlar ehf., tekjur af umfjöllun DV um málefni stefnanda. Framsetning efnisins var augljóslega gerð til að auka sölu blaðsins. Telur stefnandi að miskabætur verði, auk alls annars, að miðast við þessar staðreyndir. Hér koma til álita grundvallarsjónarmið um varnaðaráhrif skaðabóta-réttarins.  Það hafi litla þýðingu fyrir stefndu að verða dæmdir til greiðslu miklu lægri miskabóta en nemi ávinningi af brotunum.  Slík niðurstaða myndi jafnvel frekar ýta undir áframhaldandi brotastarfsemi.  Nauðsynlegt sé að breyta dómvenju um fjárhæð miskabóta frá því sem verið hefur enda sé með öllu ófært að aðilar sem byggja starfsemi sína á því að birta og dreifa ærumeiðandi umfjöllun um einstaklinga, geti haldið slíkri starfsemi áfram í skjóli lágra miskabóta.

Telji dómurinn að tiltekin dómvenja um túlkun á 2. mgr. 15. gr. laga um prentrétt nr. 57/1956 varðandi aðild stefnda, 365 prentmiðla ehf., eigi við hér, þrátt fyrir röksemdir stefnanda í aðra veru. Þá er bent á að skv. 17. gr. sömu laga ber félagið allt að einu fjárhagslega ábyrgð á niðurstöðu málsins gagnvart stefnanda og því beri að beita framangreindum sjónarmiðum við ákvörðun fjárhæðar miskabóta, óháð niðurstöðu um aðild stefnda, 365 prentmiðla ehf., að málinu.

Auk miska liggur ljóst fyrir að stefnandi hefur orðið fyrir verulegu fjártjóni.  Fjártjón stefnanda er þó ekki komið endanlega í ljós, enda skammt liðið frá hinum umdeildu skrifum í DV.  Þó þegar hafi dregið verulega úr tekjum stefnanda þá verður að telja að enn sé ófyrirséð hverjar afleiðingarnar verða endanlega.  Af þeim sökum er ekki tímabært að hafa uppi kröfu vegna fjártjóns að svo stöddu en stefnandi áskilur sér þann rétt að hafa uppi slíkar kröfur í nýju máli, þegar raunhæfu mati á fjártjóni verður komið við.

            Um lagarök er vísað til grundvallarreglur VII. kafla stjórnarskrárinnar, sbr. lög nr. 33/1944, einkum þó 71. gr. um friðhelgi, almennra hegningarlaga nr. 19/1940, laga um prentrétt nr. 57/1956 og skaðabótalaga nr. 50/1993.  Krafa um dráttarvexti er byggð á ákvæðum vaxtalaga nr. 38/2001.  Um réttarfar og málskostnað er loks byggt á ákvæðum laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

 

Málsástæður og lagarök stefndu.

1. Almenn sjónarmið

Stefndu taka fram að löggjafinn hafi játað fjölmiðlum verulegt svigrúm til almennrar umfjöllunar um menn og málefni. Sérstaklega sé þessi réttur rúmur þegar um er að ræða málsefni sem hafa mikla þýðingu í samfélaginu.

Stefndu telja að þar sem stefnanda hafi oft verið kvaddur til sem sérfróður meðdómandi í forsjár- og umgengismálinu og starfssvið hans sé í slíkum málum, þá  séu störf hans opinber að því leyti og því rétt og eðlilegt að um þau sé fjallað á opinberum vettvangi. Að mati stefndu gilda um slíka einstaklinga rúmt tjáningarfrelsi fjölmiðla, a.m.k. hvað störf þeirra varðar. Nær það bæði til þess sem vel er gert og það sem miður hefur farið.

Stefndu telja það aldrei geta verið hlutverk þeirra sem eru andlag umfjöllunar fjölmiðla hverju sinni að stýra umfjöllun um málefni sín og fréttamati fjölmiðla á þeim. Það er hlutverk fjölmiðilsins. Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða, sbr. 2. mgr. 73. gr. stjskr.  

Stefndu taka fram að DV hafi fjallað um ýmis mál sem varða störf stefnanda. Umfjöllunin hefur verið gagnrýnin, enda hafa verið gagnrýnisraddir í samfélaginu á störf stefnanda. Ritstjórar DV hafa talið að þessi umfjöllun ætti erindi við almenning, enda varðar hún almenning miklu. Engin fréttanna, sem stefnt er út af, getur talist einkamál stefnanda.  Eins og ávallt, þegar ábendingar koma til DV er sannleiksgildi þeirra kannað, áður en umfjöllun er birt. Átti það við í þessu máli, sem öðrum, auk þess sem stefnanda var gefinn kostur á að tjá sig.

Stefndu mótmæla því sérstaklega, að dagblaðið DV hafi „birt greinar og ummæli um stefnanda sem eru beinlínis röng og til þess fallin að valda stefnanda verulegri röskun, æru- og mannorðsmissi“. Þvert á móti hafa fréttir DV verið fagmannlega unnar og að öllu leyti í samræmi við ákvæði siðareglna Blaðamannafélags Íslands (BÍ).

2. Sýkna vegna aðildarskorts.

Þess er krafist að útgáfufélag DV, 365 – prentmiðlar ehf., verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda í málinu. Er það byggt á því að þegar höfundur er ekki tilgreindur hvíli hlutlæg ábyrgð 3. mgr. 15. gr. prentlaga nr. 57/1956 á útgefanda eða ritstjóra, en aldrei á  báðum. Á þeim grundvelli er gerð sú krafa að 365 – prentmiðlar ehf., útgáfufélag DV, verði sýknað af kröfum stefnanda. Í þessu samhengi vísar stefndi, 365 – prentmiðlar ehf., til dóms Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 76/1988, Útgáfufélag Þjóðviljans, Árni Bergmann og Össur Skarphéðinsson gegn Guðmundi G. Þórarinssyni.

Stefndu telja rök í stefnu fyrir varnaraðild stefndu, 365 prentmiðla ehf., eiga ekki við í málinu, þar sem ekki er gert ráð fyrir refsiábyrgð lögaðila í XXV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en refsiábyrgð lögaðila verður ekki komið fram nema skv. skýru lagaboði, sbr. einkum 19. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

3. Andmæli við kröfum um ómerkingu einstakra ummæla.

Varðandi einstakar kröfur stefnanda tekur stefndi eftirfarandi fram:

A. Fyrirsögn á bls. 10, 15. mars 2005. ,,150 klögumál á sálfræðing“.

Þær upplýsingar sem DV fékk frá Félagi ábyrgra feðra var að 150 klögumál hefðu komið inn á borð félagsins vegna starfa stefnanda. Orðalag fyrirsagnarinnar, sem stefnt er út af í málinu, er í fullu samræmi við efni fréttarinnar, höfð eftir formanni Félags ábyrgra feðra. Fyrirsögnin felur ekki í sér sjálfstætt framlag blaðamanns, heldur er hún endursögn af því sem kemur fram í fréttinni og haft er eftir viðmælanda. Sá sem ummælin eru höfð eftir ber ábyrgð á þeim. Stefnandi er einn þeirra, sem tjáir sig, en haft var samband við hann við vinnslu fréttarinnar og honum gefinn kostur á að tjá sig um málið, sem hann nýtti sér. Haft er eftir honum að um sé að ræða stór orð en allan rökstuðning vanti.

B. Í grein á bls. 10, 15. mars 2005. ,,...enda ástæða til að staldra við þegar klögumálin eru orðin 150 talsins.“

Vísað er til þess, sem sagt er undir staflið A hér að ofan. Um er að ræða ályktun eða skoðun, sem dregin er af þeirri staðreynd, sem formaður félagsins Ábyrgir feður gaf upplýsingar um. Það mat sem kemur fram í þessum orðum er hógvært.

C. Forsíða, 3. júní 2005. ,, Sálfræðingur með 150 klögumál á bakinu: Sveik 15 ára stúlku og sendi til móður sem lemur hana.”

Samkvæmt þeim upplýsingum sem ritstjórn DV hafði undir höndum voru 150 klögumál á hendur stefnanda á borði Félagsins ábyrgra feðra. Í þessari grein er viðtal við föður umræddrar stúlku og hana sjálfa í tilefni af niðurstöðu í forræðismáli, en í því var leitt í ljós að barnið vildi fremur vera hjá föður sínum en móður, en stefnandi taldi það barninu allt að einu fyrir bestu að vera áfram hjá móður sinni, þvert ofan í væntingar stúlkunnar, sem þá var fimmtán ára. Fyrirsögnin vísar til ummæla þeirra feðgina í greininni, en upplifun þeirra var sú að stefnandi væri orsakavaldur þess að faðir stúlkunnar fékk ekki forræði yfir henni, þrátt fyrir vilja dótturinnar þar um. Notkun sagnarinnar að svíkja er því eðlileg í þessu samhengi og fengin frá viðmælanda blaðamanns.

D. Forsíða 3. júní 2005. ,,Félagi ábyrgra feðra hafa borist yfir 150 kvartanir vegna sálfræðingsins. Ólafur hefur leitað til þriggja annarra sérfræðinga sem allir hafna mati Gunnars.“

Eins og komið hefur fram standa stefndu við þær fullyrðingar, sem hafa komið fram í DV að 150 klögumál hafi verið á borði Félags ábyrgra feðra vegna starfa stefnanda. Þá kom það fram í samtölum við Ólaf Andrésson og dóttur hans að þau hefðu leitað til þriggja sérfræðinga, sem allir hefðu komist að annarri niðurstöðu en stefnandi varðandi forsjármálið.

E. Fyrirsögn á bls. 8, 3. júní 2005. „Sálfræðingur með 150 klögumál á bakinu sveik 15 ára stúlku.“

Stefndu vísa til þeirra málsástæðna sem koma fram undir staflið C hér fyrr. Reyndar telja stefndu að um sömu ummælin sé að ræða og koma fram í staflið C að ofan. Ekki er hægt að tvídæma sömu ummæli dauð og ómerk. Stefndu krefjast því frávísunar á þessum lið í stefnu.

F. Í grein á bls. 8, 3. júní 2005. „Um 150 kvartanir hafa borist frá forsjárlausum feðrum á dr. Gunnar vegna vafasamrar ráðgjafar í forræðisdeilum.“

Eins og rakið hefur verið í stafliðum A til E staðfesti formaður Félags ábyrgra feðra að þetta væri raunin varðandi störf stefnanda. Ummælin eru höfð eftir formanni félagsins á þeim tíma, sem þau féllu. Stefndu standa því alfarið við efni fyrirsagnarinnar.

G. Fyrirsögn við mynd á bls. 8, 3. júní 2005. „Yfir 150 kvartanir hafa borist vegna Gunnars Hrafns Birgissonar sálfræðings sem dregur taum mæðra í forræðisdeilum.“

            Þessi setning var byggð á þeim upplýsingum, sem blaðamaður hafði aflað sér á þeim tíma varðandi fjölda klögumála á hendur stefnanda, auk þess sem skoðun margra þeirra, sem leituðu til Félags ábyrgra feðra var sú að stefnandi drægi taum mæðra í forræðisdeilum. Stefndu vísa til kvartana Félags ábyrgra feðra til sýslumannsins í Reykjavík frá 5. janúar 2004 og til dómsmálaráðherra frá 20. febrúar 2004 vegna starfa stefnanda, þar sem m.a. er kvartað yfir því að stefnandi dragi taum mæðra í forræðisdeilum.

H. Millifyrirsögn í grein á bls. 8, 3. júní 2005. „Sálfræðingur braut siðareglur.“

Þessi millifyrirsögn er í samræmi við það sem haft er eftir viðmælanda DV, Ólafi Andréssyni. Það er alþekkt að fjölmiðill taki ummæli viðmælanda sinna og setji þau í millifyrirsagnir. Viðmælandinn ber ábyrgð á þessum ummælum sínum. Þá liggur fyrir að stefnandi tók að sér sálgæslustörf fyrir móður stúlkunnar. Að mati viðmælanda blaðsins var slíkt í andstöðu við siðareglur félags sálfræðinga.

I. Í grein á bls. 8, 3. júní 2005. „Alls hafa félaginu borist um 150 kvartanir vegna ráðgjafar Gunnars í forræðismálum þar sem hann hefur fengið feður til að samþykkja umgengni við börn sín sem er í raun brot á mannréttindum. Allt í skjóli þess að annars fái þeir aldrei að hitta börnin sín.“

Á grundvelli þess sem viðmælendur DV héldu fram standa stefndu við að 150 kvartanir hafi borist til félags ábyrgra feðra vegna starfa stefnanda. Margar kvartanirnar lutu að því að stefnandi hefði fengið feður til að samþykkja umgengni við börn sín, sem þeir töldu eftir á að hyggja að væri óviðunandi og fæli í sér brot á grunnreglum um réttindi barna til umgengni við foreldra sína.

J. Á forsíðu, 6. júní 2005. „Sálfræðingurinn Gunnar. Hjálpaði við að svipta lesblindan forræði.“

Stefndu standa fyllilega við þessi ummæli.

K. Í formála greinar á bls. 10, 6. júní 2005. „Eins og DV hefur áður greint frá hefur Félagi ábyrgra feðra borist yfir 150 kvartanir vegna vinnubragða Gunnars.“

Í þessari frétt er einungis verið að vísa til þess, sem þegar hefur verið sagt um málið og haft hefur verið eftir þáverandi formanni Félags ábyrgra feðra. 

L. Í formála greinar á bls. 6, 21. október 2005. „...endaði með allsherjarslagsmálum á biðstofu Gunnars.“

Varðandi þennan þátt liggur fyrir að opinbert mál var rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á hendur Elvari Erni Baldvinssyni, vegna líkamsárásar hans á fyrrverandi sambýliskonu sína. Ekkert er hæft í því sem kemur fram í stefnu að framsetning greinarinnar sé með þeim hætti að stefnandi hafi sjálfur tekið þátt í slagsmálum á biðstofu sinni. Um er að ræða hlutlausa frásögn af því sem raunverulega gerðist, án þess að hallað sé á nokkurn.

 

Stefndu byggja á því að öll ofangreind ummæli hafi verið innan marka leyfilegrar tjáningar fjölmiðils um málefni sem skipta almenning máli að fá upplýsingar um. Allar fullyrðingar sem koma fram í tilgreindum fréttum eru studdar heimildum og segja frá því sem raunverulega gerðist.  Bæri svo við að umrædd ummæli yrðu dæmd dauð og ómerk í heild eða að hluta myndi það fela í sér aðför að upplýsingaskyldu fjölmiðla í opnu lýðræðislegu samfélagi. Mat stefndu er að hagsmunir vegna þeirrar skyldu séu ofar settir en æruvernd. 

Að auki er byggt á því að sannleiksgildi stefndra ummæla hafi ekki verið hnekkt, en dómvenja er fyrir því í íslenskum rétti að dæma ekki áfall, þegar svo háttar til. Þá er einnig byggt á þeirri reglu að þótt talið yrði að um smávægis ónákvæmni væri að ræða í framsetningu stefndra ummæla, þá leiði það ekki til áfellis, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 371/1993, Haraldur Jónsson og Sigurður Már Jónsson gegn Ástþór Bjarna Sigurðssyni.

Í stefnu er tekið fram að tilgreining þeirra ummæla sem krafist er ómerkingar á í stefnu sé ekki tæmandi um athafnir stefndu í garð stefnanda á tilgreindu tímabili og rakinn er fjöldi annarra ummæla, sem ekki er stefnt út af í málinu. Að mati stefndu geta ekki önnur ummæli komið til skoðunar í þessu máli, en tilgreind eru berum orðum í kröfugerðarkafla stefnu. Umfjöllun um önnur ummæli er aðeins til þess fallin að þvæla það sem málið snýst um í raun og veru, sem eru þau ummæli sem koma fram í kröfugerðarkafla í stefnu og krafist er ómerkingar á. Þar sem dómkröfur lúta ekki að öðrum ummælum, taka stefndu ekki til varnar varðandi önnur tilgreind ummæli í stefnu, en standa við þau að öllu leyti.

3. Andmæli við málsástæðum og kröfugerð í stefnu.

Í fyrsta lagi er þess krafist að stefndu verði sýknaðir af öllum refsikröfum í málinu varðandi ummæli, sem birtust fyrir hinn 1. júní 2005. Er sú krafa byggð á því að skv. 1. málsl. 29. gr. alm. hgl. nr. 19/1940 verður sá, sem höfða vill einkarefsimál að gera það áður en sex mánuðir eru liðnir, frá því að hann fékk vitneskju um hinn seka. Stefna í þessu máli var birt fyrir öllum stefndu hinn 1. desember sl. Það leiðir til þess að stefndu verður ekki gerð refsing fyrir ummæli sem birtust fyrir hinn 1. júní 2005. Reglur refsiréttar um brotasamsteypur eiga ekki við í einkarefsimálum vegna meiðyrða.

Stefndu byggja einnig á því að krafa stefnanda um að stefndu verði dæmdir til að greiða honum kostnað vegna birtingar dóms í málinu í öðrum fjölmiðlum en DV, sbr. 2. mgr. 241. gr. alm. hgl. nái ekki fram að ganga, enda verður að telja það vera skilyrði fyrir beitingu þeirrar lagagreinar að um ófyrnda sök sé að ræða.

Krafa um sýknu vegna refsikröfu er enn fremur byggð á því að þótt talið yrði að æra stefnanda hafi verið meidd með móðgunum, þá standist það ekki ákvæði stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu að dæma refsingu fyrir slíkt.

Í öðru lagi byggja stefndu á því að engin skilyrði séu til að dæma stefnanda miskabætur í málinu, auk þess sem málsástæður í stefnu fyrir þeim séu fremur í ætt við hefðbundnar skaðabætur, en miskabætur. Stefnandi hefur ekkert sannað um tjón sitt.

Þá verður ekki séð að skilyrði miskabóta skv. b lið 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 séu fyrir hendi, en skv. lagaákvæðinu þarf að vera um að ræða ólögmæta meingerð gegn frelsi, friði, æru eða persónu annars manns, svo skilyrði þeirra séu til staðar. Slíkt á ekki við í þessu máli. Þá er fjárhæð þeirra sérstaklega mótmælt, en hún er án allrar veruleikatengingar við fordæmi í íslenskum rétti.

Í þriðja lagi byggja stefndu á því að tilvísanir til 234. til 237. gr. alm. hgl. eigi ekki við í þessu máli. Ásetningur stefndu hafi ekki staðið til þess að brjóta tilvitnaðar greinar alm. hgl. Ásetningur er skilyrði refsingar, sbr. 18. gr. þeirra laga. Um sé að ræða hlutlausar frásagnir af starfi stefnanda, sem einkum eru byggðar á tilvitunum í ummæli annarra tilgreindra einstaklinga. Slíkar frásagnir séu alltaf refsilausar, ef þær eru settar fram með hlutlausum hætti. Telja verður að fullt tilefni hafi verið fyrir umræddum fréttum og því geti t.d. 237. gr. alm. hgl. ekki átt við í málinu, enda er skilyrði fyrir broti á ákvæðinu að það hafi verið gert  án tilefnis.  Þá eiga verknaðarlýsingar þessara ákvæða alm. hgl. ekki við í þessu máli.

Í fjórða lagi byggja stefndu á því, að engin lagaskilyrði séu fyrir því að dæma umrædd ummæli dauð og ómerk, eins og krafa er gerð um stefnu. Allar þessar fréttir, sem stefnt er út af eiga sér stoð í raunveruleikanum. Engin þessara frétta eða ummæla í þeim felur í sér rangar frásagnir, gildisdóma eða ærumeiðingar með móðgunum. Stefndu verða ekki dæmdir fyrir ummæli annarra, þegar vitað er hver setti ummælin fram. Þá hefur stefnanda alltaf gefist kostur á að koma á framfæri sínum athugasemdum við vinnslu tilgreindra frétta og hafa þær verið birtar. Þá hefur stefnandi t.d. ekki verið borinn brigslum, eins og það hugtak er skilgreint í 237. gr. alm. hgl.

4. Niðurlag.

Stefndu byggja á því að öll þau málefni sem voru til umfjöllunar á síðum DV og stefnt er út af í þessu máli, falli ekki með neinum hætti undir friðhelgi einkalífs eins og það er verndað af stjórnarskrá landsins, sbr. 1. mgr. 71. gr. hennar. Í stefnu kemur fram að stefnandi sé ekki almannapersóna, sem má fallast á. Það breytir hins vegar ekki því að stefnandi hefur valið sér starfsvettvang, sem eðlilegt er að sé til umfjöllunar á opinberum vettvangi, enda skiptir það máli að í samfélaginu sé opin umræða um málefni sem tengjast velferð barna. Á þeim grundvelli er rétt og eðlilegt að þjóðfélagsleg umræða um störf stefnanda rati í fjölmiðla.

Um lagarök vegna sýknukröfu stefnda, 365 – prentmiðla, er vísað til ákvæða 15. og 16. gr. laga nr. 57/1956 um prentrétt. Varðandi kröfu um sýknu af refsikröfum vegna ummæla sem birtust fyrir hinn 1. júlí 2005 er vísað til 1. máls. 29. gr. alm. hgl. Varðandi sýknu um refsikröfur að öðru leyti er vísað til verknaðalýsinga 234. til 237. gr. alm. hgl., sem ekki er talið að eigi við í málinu. Þá byggja stefndu á ákvæðum 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 og ákvæðum 73. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, auk þeirra grunnreglna samfélagsins um þýðingu, hlutverk og heimildir fjölmiðla í lýðræðissamfélagi.  Varðandi lagarök fyrir málskostnaðarkröfunni fyrir hvern og einn stefnda er vísað til 130. gr. laga nr. 91/1991.

 

Skýrslur vitna fyrir dómi.

            Í skýrslu Ólafs Andréssonar kom fram að stefnandi hafi komið að forræðisdeilu hans og fyrrverandi eiginkonu hans vegna tveggja dætra þeirra. Hann taldi að stefnandi hafi verið sálfræðingur móðurinnar og síðan hafi hann átt að fjalla um forræðismálið og þannig hafi hann ekki verið hlutlaus í málinu.  Því telur vitnið að stefnandi hafi brotið siðareglur sálfræðingafélagsins.  Ekki setti hann fram kæru þar að lútandi. Hann staðfestir að rétt sé eftir honum haft, að hann hafi leitað til þriggja sálfræðinga sem allir hafi hafnað mati stefnanda. Hann kveður að DV hafi átt upptökin að samtölum þeirra. Hann upplýsir að fyrirsögnin í DV 3. júní 2005 séu orð blaðamannsins og ekki frá honum komin. Hann man ekki til þess að hafa afhent blaðamanni DV gögn í málinu.

            Í skýrslu Garðars Baldvinsson, fyrrverandi formanns Félags ábyrgra feðra, fyrir dómi kom fram að Félag ábyrgra feðra ræki m.a. neyðarsíma fyrir feður í kjölfar skilnaðar og sá vitnið einn um að svara í símann. Þessi þjónusta varð æ umfangsmeiri með tímanum allt frá því að sjö til tíu manns hringdu á viku í byrjun og til þess að tíu manns hringdu á dag. Hann kvað ótrúlega marga hafa kvartað undan störfum stefnanda. Hann kvað eðli kvartananna vera þannig að stefnandi hafi dregið taum mæðra og einnig hafi verið kvartað yfir viðmóti stefnanda til feðranna og hann hafi hálfpartinn talað niður til þeirra.  Vitnið segir að það sem hafi tekið steininn úr hafi verið þegar félagið hafi fengið nokkra samninga er stefnandi hafi haft forgöngu um hjá sýslumanni og  feður höfðu skrifað undir, þar sem umgengni væri allt niður í 2 klst. á mánuði. Það sé í ósamræmi við barnalögin og tillögu stefnanda og samstarfsmanns hans um að lágmarksumgengnin væri 125 klst. á ári.  Aðspurður kveður vitnið að ekki hafi nein rannsókn farið fram hjá félaginu um ástæður þessarar naumu umgengni en þeim hafi fundist að ástæðan hafi verið sú, að þeir væru feður. Vitnið kvað þessa samninga hafa verið ótímabundna. Vitnið kveður að þegar svo var komið hafi félagið ákveðið að gera formlega kvörtun til sýslumannsins í Reykjavík 5. janúar 2004 og dómsmálaráðherra 20. febrúar 2004 og hafi kvörtunin verið í átta liðum. Í svari sýslumanns kom fram að nauðsynlegt væri að rökstyðja kvartanirnar frekar.  Stjórnin taldi ekki ástæðu til að verða við því, þar sem þá væri upplýst hverjir hefðu kvartað. Í svari dómsmálaráðherra mun hafa komið fram, að ábyrgir feður hljóti að vita hvenær þeir eigi að skrifa undir samninga og þeir skrifi ekki undir samninga nema þeir ætli sér að standa við þá. Einnig að sýslumaður hafi lokið afgreiðslu þessa máls og ráðuneytið myndi ekki aðhafast neitt. Vitnið kveðst ekki hafa afhent DV afrit bréfanna. Vitnið staðfesti að fjöldinn 150, væri kominn frá honum og um of lágt mat væri að ræða. Hann upplýsti að tvö eða fleiri símtöl gætu verið á bak við eitt mál. Kvartanir bárust félaginu með ýmsum hætti, t.d. fundum, tölvupóstum og símtölum. Símtölin hafi verið skráð í stílabók en ekki hafi verið um neina skráningu að ræða með kerfisbundnum hætti. Vitnið kveður að DV hafi í upphafi hringt til hans og hann viti ekki hvaðan DV hafi haft upplýsingar um kvartanirnar. Hann hafi ekki afhent DV nein gögn. Þá kveðst hann hafa vísað DV á fleiri aðila til að hringja í til að afla upplýsinga.

 

Forsendur og niðurstaða.

Stefndi, 365-prentmiðlar ehf., sem er útgefandi DV, krefst sýknu í málinu vegna aðildarskorts. Höfunda þeirra ummæla er málið varða er hvergi getið. Um ábyrgð fer því samkvæmt 3. mgr. 15. gr. laga um prentrétt nr. 57/1956.  Stefndu Jónas Kristjánsson og Mikael Torfason ritstjórar mótmæla ekki ábyrgð sinni samkvæmt prentlögum. Stefndi 365- prentmiðlar ehf. byggir á því að samkvæmt tilvitnaðri 3. mgr. 15. gr. hvíli ábyrgðin annaðhvort á útgefanda eða ritstjóra, en aldrei báðum.  Með vísun til orðalags ákvæðisins og dómafordæma er fallist á kröfu stefnda 365 prentmiðla ehf. um sýknu í máli þessu.  Rétt þykir að málskostnaður milli aðila falli niður.

            Í málinu er gerð krafa um að tilgreind ummæli er birtust um stefnanda í DV á tímabilinu 15. mars 2005 til 21. október sama ár, verði dæmd dauð og ómerk, sbr. 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Þá er krafist refsingar með vísan til 234. gr., 235. gr. og 236. gr. sömu laga.

            Samkvæmt 1. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 eru allir frjálsir skoðana sinna og sannfæringar. Í 2. mgr. ákvæðisins segir að hver maður eigi rétt á að láta í ljós skoðanir sínar, en ábyrgjast verði hann þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar tálmanir á tjáningarfrelsi megi þó aldrei í lög leiða.  Samkvæmt 3. mgr. ákvæðisins má tjáningarfrelsi aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum. Tjáningarfrelsi er samkvæmt þessu mikilvæg grundvallarréttindi sem vernduð eru af stjórnarskránni og verða takmarkanir á því að eiga sér örugga stoð í settum lögum og þeim alþjóðlegu skuldbindingum um mannréttindi sem Ísland hefur gengist undir. Verður því að skýra ákvæði XXV. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem fjallar um ærumeiðingar og brot gegn friðhelgi einkalífs, með hliðsjón af þessu.

            Stefnandi telur hin umstefndu ummæli ærumeiðandi og að þau brjóti gegn 234., 235. og 236. gr. almennra hegningarlaga og krefst þess að þau verði dæmd ómerk sbr. 241. gr. laganna.

            Samkvæmt 234. gr. hegningarlaga skal hver sá sem meiðir æru annars manns með móðgun í orðum eða athöfnum, og hver, sem ber slíkt út, sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári.  Samkvæmt 235. gr. sömu laga varðar það sektum eða fangelsi ef maður dróttar að öðrum manni einhverju því sem verða myndi virðingu hans til hnekkis, eða ber slíka aðdróttun út.  Þá segir í 236. gr. laganna að sé ærumeiðandi aðdróttun höfð í frammi eða borin út gegn betri vitund, þá varði það fangelsi allt að 2 árum og sé aðdróttun birt eða borin út opinberlega, enda þótt sakaráberi hafi ekki haft sennilega ástæðu til að halda hana rétta, þá varði það sektum eða fangelsi allt að 2 árum.  Samkvæmt 1. mgr. 241. gr. laganna má í meiðyrðamáli dæma óviðurkvæmileg ummæli ómerk, ef sá krefst þess sem misgert var við.  Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins má dæma þann sem sekur reynist um ærumeiðandi aðdróttun, til þess að greiða þeim sem misgert var við, ef hann krefst þess, hæfilega fjárhæð til þess að standast kostnað af birtingu dóms, atriðisorða hans eða forsendna jafnframt, eftir því sem ástæða þykir til, í opinberu blaði eða riti, einu eða fleirum.

Stefnandi er sálfræðingur með doktorspróf og starfsréttindi sem sérfræðingur í klínískri sálfræði. Frá árinu 1999 hefur hann eingöngu unnið sem sjálfstætt starfandi sálfræðingur og rekið einkastofu. Þá hefur hann unnið mikið í forsjár- og umgengnismálum, bæði á grundvelli samninga við sýslumenn og sem dómkvaddur matsmaður og sérfróður meðdómandi. Starf stefnanda varðar viðkvæm persónuleg einkamálefni sem eðli máls samkvæmt fara ekki hátt í þjóðfélaginu, en samkvæmt 38. gr. barnalaga nr. 76/2003 fer þinghald í forsjármálum fram fyrir luktum dyrum.

Stefnandi gerir kröfu um að tólf tilgreind ummæli í DV verði dæmd dauð og ómerk og stefndu verði gerð refsing vegna þeirra. Í níu þeirra er tilgreint að 150 klögumál eða kvartanir hafi borist vegna starfa stefnanda. Að mati dómsins á ekki að gera greinarmun á orðunum klögumál eða kvartanir, heldur er það fjöldi málanna sem skiptir aðalmáli. Í DV þriðjudaginn 15. mars 2005 er fyrst fjallað um störf stefnanda og þar tilgreint í fyrirsögn: „150 klögumál á sálfræðing“. Fyrir dómi staðfesti Garðar Baldvinsson, fyrrverandi formaður Félags ábyrgra feðra, að talan 150 væri frá honum runnin og kvartanirnar hafi borist honum í neyðarsíma félagsins er hann einn hafi annast og hafi ekki verið skráðar með kerfisbundnum hætti. Í DV er tölunni 150 slegið upp sem staðreynd. Þó að játa verði blaðamönnum frelsi til tjáningar þá verður að gera þær kröfur til þeirra, að þeir byggi umfjöllun sína á vandaðri könnun staðreynda. Er stefnanda var gefinn kostur á að tjá sig, benti hann blaðamanninum sérstaklega á að það vantaði allan rökstuðning fyrir þessum stóru orðum. Að mati dómsins bar blaðamanninum að kanna frekar eðli kvartananna og hvort einhver fótur væri fyrir þeim. Fyrir liggur að nefndur Garðar sendi, á bréfsefni Félags ábyrgra feðra, kvörtun í átta liðum til sýslumannsins í Reykjavík vegna starfa stefnanda. Afrit bréfsins var sent dómsmálaráðuneytinu. Í svari sýslumanns kemur fram að stefnandi sé þar borinn þungum sökum sem ekki sé á nokkurn hátt reynt að rökstyðja og í ljósi þess hve alvarlegar ásakanirnar eru óskar sýslumaður eftir rökstuðningi fyrir þeim og að nefnd verði dæmi er styðji kvartanirnar.  Þá tekur sýslumaður fram að ekki sé annað vitað en að stefnandi leysi störf sín vel af hendi. Þar sem enginn rökstuðningur né dæmi bárust til sýslumanns var ekkert aðhafst í málinu. Í kjölfarið sendi Garðar, f.h. Félags ábyrgra feðra, kvörtun til dómsmálaráðuneytisins vegna svars sýslumannsins og ítrekaði ósk um að úttekt yrði gerð á störfum stefnanda. Í bréfinu er lögð áhersla á að kvörtun félagsins beinist að innihaldi samninga og vinnubrögðum við að ná fram samningum. Samkvæmt framburði Garðars Baldvinssonar fyrir dómi hafnaði dómsmálaráðuneytið kröfum félagsins. Í ljósi allra atvika telur dómurinn það ekki vandaða könnun á staðreyndum að byggja á órökstuddri yfirlýsingu eins manns en hafa verður þá í huga að um mjög alvarlegar aðdróttanir er að ræða. Fyrirsögnin „150 klögumál á sálfræðing“ birtist með stórum stöfum á mjög áberandi stað ásamt mynd af stefnanda.  Nær þetta yfir hálfa síðu DV. Fyrirsögnin og framsetningin öll er á þann veg að hún er til þess fallin að varpa rýrð á starf stefnanda og persónu hans og endurspeglar þessi fyrirsögn ekki þær kvartanir sem Garðar Baldvinsson kveðst hafa fengið og hann upplýsti um fyrir dómi. Með vísan til þess sem að framan greinir er öll umfjöllun í DV um 150 klögumál eða kvartanir á stefnanda óviðurkvæmileg og ber samkvæmt 1. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga að ómerkja þau ummæli að 150 klögumál/ kvartanir séu til staðar á stefnanda.

Kröfuliðir C til I í stefnu eru allir tilkomnir vegna umfjöllunar DV 3. júní 2005. Í C-lið kröfugerðar stefnanda er krafist ómerkingar og refsingar fyrir svofellda umfjöllun á forsíðu DV: „Sálfræðingur með 150 klögumál á bakinu:  Sveik 15 ára stúlku og sendi til móður sem lemur hana“.  Í fyrirsögn á bls. 10 í sama blaði er E-liður kröfugerðar stefnanda.  Þar er einnig mynd af stefnanda og stórt letur: „Sálfræðingur með 150 klögumál á bakinu sveik 15 ára stúlku.“ Hér að framan hefur þegar verið fjallað um fjölda klögumálanna og vísast til þess. Umfjöllun þessi á rót að rekja til forræðisdeilu foreldra 15 ára stúlku, sbr. dóma Hæstaréttar í málunum nr. 435/2004 og nr. 493/2004. Báðir dómarnir eru birtir á heimasíðu Hæstaréttar Íslands. Í hinum fyrra dómi er tekið fram í forsendum Hæstaréttar að héraðsdómarinn hafi tekið rökstudda afstöðu til álitsgerðar er stefnandi gaf í málinu og staðfesti hana. Einnig staðfesti Hæstiréttur rök héraðsdómarans um það hvað væri barninu fyrir bestu. Niðurstaða meirihluta Hæstaréttar í síðara málinu var einnig að móðir stúlkunnar ætti að fara með forræðið, því það væri barninu fyrir bestu. Fleiri sálfræðingar en stefnandi komu að málinu. Þá er sérstaklega tekið fram fyrri dóminum, að engin gögn liggi fyrir er styðji fullyrðingar um líkamlegt ofbeldi. Í ljósi ofangreinds er enginn fótur fyrir ummælunum í DV að stefnandi hafi svikið stúlkuna, né að hann hafi sent hana til móður sinnar sem lemji hana. Kröfu stefndu um frávísun á E-lið í stefnu er hafnað. Með vísan til 1. mgr. 241. gr. l. nr. 19/1940 eru ummæli þessi  í C-, og E- lið dauð og ómerk.

Í F-, G- og I-liðum kröfugerðarinnar eru ummælin enn á þann veg að 150 kvartanir hafi borist vegna starfa stefnanda.  Síðan er í hverju tilfelli bætt við fullyrðingum um störf stefnanda, þ.e. að kvartanirnar séu vegna vafasamrar ráðgjafar stefnanda, að hann dragi taum mæðra í forræðismálum og að hann hafi fengið feður til að samþykkja umgengni við börn sín, sem sé brot á mannréttindum, allt í skjóli þess að annars fái þau ekki að hitta börnin.  Hér eru settar fram fullyrðingar sem ekki eru rökstuddar á neinn hátt. Eru þetta að hluta til sömu kvörtunarefni og fyrrverandi formaður Félags ábyrgra feðra setti fram í áðurnefndu bréfi til sýslumanns. Dómurinn fellst ekki á að umfjöllun þessi sé gildisdómar sem njóti rýmri tjáningarfrelsis. Ofangreind umfjöllun í  F-, G- og I-lið kröfugerðar stefnanda er dæmd dauð og ómerk. 

Í D-lið kröfu stefnanda eru eftirfarandi ummæli sem krafist er ómerkingar á: „Félagi ábyrgra feðra hafa borist yfir 150 kvartanir vegna sálfræðingsins. Ólafur hefur leitað til þriggja annarra sérfræðinga sem allir hafna mati Gunnars.“ Um fyrri setninguna hefur þegar verið fjallað og vísast til þess. Í seinni setningunni er staðhæft að þrír aðrir sérfræðingar hafni mati Gunnars. Í skýrslu Ólafs Andréssonar fyrir dómi staðfesti hann, að hann hafi leitað eftir áliti annarra sérfræðinga og hafi þeir verið ósammála stefnanda. Ljóst er að sérfræðingum greinir oft á í álitum sínum. Að mati dómsins falla ofangreind ummæli innan tjáningarfrelsis. Því er hafnað kröfu stefnanda um ómerkingu síðast nefndu ummælanna.

Í sömu grein í DV birtist sem millifyrirsögn, að stefnandi hafi brotið siðareglur og er í H-lið kröfugerðarinnar krafist ómerkingar á þessum ummælum. Í greininni er haft eftir Ólafi Andréssyni að hann sé nokkuð viss um það að stefnandi hafi brotið siðareglur sálfræðinga. Þó að fyrir liggi í greininni að þetta sé álit Ólafs er framsetningin sem millifyrirsögn óviðurkvæmileg, en því er slegið upp sem staðreynd við hlið ljósmyndar af stefnanda að hann hafi brotið siðareglurnar. Að mati dómsins bar DV að kanna sannleiksgildi þessa áður en millifyrirsögninni var slegið upp.  Þetta var ekki gert. Ummælin  skulu því vera dauð og ómerk. 

Á forsíðu DV mánudaginn 6. júní er enn birt mynd af stefnanda með eftirfarandi texta:  „Sálfræðingurinn Gunnar. Hjálpaði við að svipta lesblindan forræði.“  Krafist er ómerkingar þessara ummæla, sbr. J-lið kröfugerðarinnar. Mál þessa lesblinda föður var einnig til umfjöllunar á síðum DV þremur dögum fyrr. Mun faðirinn hafa verið sviptur forræði fyrir um áratug og hafi þá annar sálfræðingur komið að málinu. Ekkert styður réttmæti þessarar fullyrðingar DV sem birtist á forsíðu blaðsins. Í sama tölublaði segir síðan: „Eins og DV hefur áður greint frá hefur Félagi ábyrgra feðra borist yfir 150 kvartanir vegna vinnubragða Gunnars“ og er krafist ómerkingar þessara ummæla í K-lið kröfugerðarinnar.  Hér vísast til þess sem fyrr er rakið.  Með vísan til framanritaðs eru ummæli þessi dæmd dauð og ómerk.

Síðustu ummælin sem birtust á síðum DV og krafist er ómerkingar á eru svohljóðandi: „...endaði með allsherjarslagsmálum á biðstofu Gunnars.“  Samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. S-1067/2005 urðu slagsmál á biðstofu stefnanda á milli foreldra barns er biðu eftir sáttameðferð hjá stefnanda.  Lyktaði átökunum með því að stefnandi skakkaði leikinn við annan mann og héldu þeir föðurnum uns lögreglan kom. Að mati dómsins er helst til fært í stílinn hjá DV með því að segja að allsherjarslagsmál hafi átt sér stað, en dómurinn telur að hér séu ummæli innan marka leyfilegrar tjáningar fjölmiðla og hafnar því kröfu stefnanda um ómerkingu á þessum ummælum.

Að mati dómsins virðist sem DV hafi haft uppi áróður gegn stefnanda. Samkvæmt framlögðum dómsskjölum hafa mun fleiri ummæli birst um persónu stefnanda á síðum DV en krafist er ómerkingar á. Í DV 12. maí 2005 er t.d. gefið í skyn að stefnandi hafi verið víttur af félögum sínum í sálfræðingafélaginu. Þá birtist eftirfarandi auglýsing í DV 6. júní 2005 en þar segir: „Hefur þú lent í Gunnari? Eða þekkir þú einhvern sem hefur lent í sálfræðingnum Gunnari Hrafni Birgissyni?  Hringdu þá í Fréttaskot DV í síma 550 5090 eða sendu okkur tölvupóst á netfangið ritstjorn@dv.is.  Fyrir hvert fréttaskot sem birtist eða er notað í DV, greiðast 3.000 krónur. Fyrir besta fréttaskotið í hverri viku greiðast 7.000 krónur.  Fullrar nafnleyndar er gætt.“ Þá segir á forsíðu DV 21. október 2005: „Gunnar. Slegist á skrifstofu umdeilds sálfræðings“ en hér er látið svo að allir þekki hinn umdeilda sálfræðing Gunnar. Af öllu þessu verður ekki annað ráðið að mati dómsins, en DV hafi harkalega beint spjótum sínum að persónu stefnanda með afar óviðurkvæmilegum hætti. Stefnandi er ekki opinber persóna heldur starfar að málaflokki sem eðli máls samkvæmt fer lágt í þjóðfélaginu. Þótt ekki sé litið til ofanritaðs við ákvörðun miskabótanna þá þykja ummælin vísbending um að ákveðin rógsherferð hafi verið í gangi af hálfu DV gagnvart stefnanda. Þá er það ámælisvert að DV leitaði aðeins einu sinni, það er 15. mars 2005, eftir athugasemdum frá stefnanda við umfjöllunina. Stefnandi gat því átt von á því hvenær sem var að DV birti forsíðumynd af honum og áfelli um störf hans. 

Með vísan til þess sem að framan greinir eru öll ummæli sem krafist er ómerkingar á í stefnu málsins,  nema „... Ólafur hefur leitað til þriggja annarra sérfræðinga sem allir hafna mati Gunnars.“ og „...endaði með allsherjarslagsmálum á biðstofu Gunnars.“  dæmd dauð og ómerk, sbr. 241. gr. laga nr. 19/1940.

Stefnandi gerir kröfur um að stefndu verði dæmdir til refsingar vegna birtingar hinna umstefndu ummæla og vísar til  234. gr., 235. gr. og 236. gr. laga nr. 19/1940.  Samkvæmt 1. mgr. 29. gr. laga nr. 19/1940 er refsing vegna ummæla er birtust fyrir 1. júní 2005 fyrnd. Að mati dómsins er tilvitnun stefnanda til refsiákvæða um of almenns eðlis og skortir með öllu á hvern hátt hver og ein ummæli geti bakað stefndu refsiábyrgð samkvæmt tilvitnuðum lagaákvæðum.  Verður því ekki hjá því komist að sýkna stefndu af refsikröfu stefnanda.

Varðandi miskabótakröfu stefnanda þá lítur dómurinn til eftirfarandi atriða.  Þau ummæli sem dæmd eru dauð og ómerk eru alls tíu og birtast þau í DV á tímabilinu 15. mars 2005 til 6. júní sama ár. Margsinnis er klifað á ósönnuðum fullyrðingum um að stefnandi  hafi fengið á sig 150 klögumál. Endurtekin framsetning ummælanna er til þess fallin að fá lesendur blaðsins til að trúa að um sannleika sé að ræða. Þá er umfjöllunin í DV í  júní 2005 efnislega röng og sett fram á sérstaklega meiðandi hátt. Er þar mjög óvægin umfjöllun og vegið hart að æru og persónu stefnanda. Þegar litið er til starfs stefnanda, atvinnurekstrar hans og mannorðs felst miski fyrir hann í þeim ummælum sem dæmd eru dauð og ómerk og ber honum miskabætur vegna þeirra sem þykja hæfilega ákveðnar 1.500.000 kr. og er þá sérstaklega litið til þess hve ítrekað þau birtust á síðum DV.

Með vísan til 2. mgr. 241. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 ber stefndu að greiða stefnanda 200.000 kr. til að standa straum af birtingu á forsendum og niðurstöðum dómsins í dagblöðum og einnig í 1. eða 2. tölublaði DV eftir að dómur fellur.

Eftir þessari niðurstöðu málsins og með vísan til 130. gr. laga nr. 91/1990 ber stefndu að greiða stefnanda málskostnað sem ákvarðast 740.000 krónur.

 Af hálfu stefnanda flutti málið Halldór H. Bachman hrl.

Af hálfu stefndu flutti málið Einar Þór Sverrisson hdl.

Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

 

DÓMSORÐ

Stefndi, 365 prentmiðlar ehf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Gunnars Hrafns Birgissonar, í máli þessu.  Málskostnaður þeirra á milli fellur niður.

Hin umkröfðu ummæli í 1. kröfulið í stefnu, að frátöldum ummælunum „...Ólafur hefur leitað til þriggja annarra sérfræðinga sem allir hafna mati Gunnars“ og „...endaði með allsherjarslagsmálum á biðstofu Gunnars“ skulu vera dauð og ómerk.

Stefndu, Jónas Kristjánsson og Mikael Torfason, eru sýknaðir af refsikröfu stefnanda.

Stefndu, Jónas Kristjánsson og Mikael Torfason, greiði stefnanda in solidum 1.500.000 kr. í miskabætur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt lögum nr. 38/2001 frá 1. desember 2005 til greiðsludags.

Birta skal forsendur og niðurstöður dóms þessa í 1. eða 2. tölublaði DV eftir að dómur fellur.  Stefndu greiði stefnanda óskipt 200.000 kr. vegna kostnaðar við birtingu dómsins í opinberum blöðum og 740.000 kr. í málskostnað.