Hæstiréttur íslands

Mál nr. 139/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Miðvikudaginn 15

 

Miðvikudaginn 15. mars 2006.

Nr. 139/2006.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X sætti áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála þar til dómur gengi í máli hans.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og  Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. mars 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. mars 2006, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans en þó ekki lengur en til föstudagsins 21. apríl 2006 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. mars 2006.

                Lögreglan í Reykjavík hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, [kt. og heimilisfang] verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi  á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 þar til dómur gengur í máli hans en þó ekki lengur en til föstudagsins 21. apríl 2006  kl. 16:00.

                Í greinargerð lögreglu kemur fram að lögreglan í Reykjavík hafi nú til rannsóknar ætlaða tilraun til manndráps eða sérstaklega hættulega líkamsárás sem hafi átt sér stað í veit­inga­húsinu [...] aðfaranótt laugardagsins 4. mars sl.  Kærði liggi undir sterkum grun um að hafa umrætt sinn veitt A, [kt.], tvo alvarlega stungu­áverka með eggvopni.

                Samkvæmt vottorði Tómasar Guðbjartssonar, sérfræðings á hjarta- og lungna­skurð­deild Landspítala  háskólasjúkrahúsi, dags. 4. mars sl., hafi A reynst hafa hlotið tvö stungusár aftarlega á vinstri helmingi brjósthols og komið gat á vinstra lunga sem hafi fallið að nokkru saman. Að mati Tómasar hafi verið um að ræða alvarlegan áverka og verði af vottorði hans ráðið að áverkar A hafi verið lífshættulegir.  

                Lögreglu hafi borist tilkynning um atvikið kl. 4.54 aðfaranótt laugardagsins. Þegar lög­reglumenn hafi komið á vettvang hafi nokkuð verið dregið af A og hafi hann verið fluttur í skyndi á bráðadeild Landspítala. Starfsmenn veitingahússins hafi tjáð lög­reglu­mönn­um að þeir hefðu séð kærða og B, sem báðir höfðu starfað sem dyra­verðir á veitingahúsinu, í átökum við A. Kærði hafi verið handtekinn um hádegisbil á heimili sínu en B hafi komið á lögreglustöð laust eftir kl. 15:00 sama dag.

A hafi lýst atvikum svo að hann hafi komið á veitingastaðinn með félögum sínum, C og D. Þau hafi setið við borð í veitingahúsinu þegar strákur sem kallaður sé X hafi komið til hans og farið að ásaka hann um að hafa brotið alvarlega gegn frænda hans. A segist hafi sagt X að hann kannaðist ekki við atvikið. Stuttu síðar hafi einhver komið aftan að honum og slegið hann í höfuð og líkama svo hann féll í gólfið. Árásinni hafi lokið skyndilega. Hann hafi hins vegar ekki áttað sig á því að hann hefði verið stunginn fyrr en síðar. Segist hann telja að leður­jakki sem hann hafi klæðst hafi bjargað honum og hafi hjúkrunarfólk á spítalanum sagt honum að svo hafi verið. D og C hafi bæði borið hjá lögreglu að þau hafi séð tvo menn ráðast á A en þau hafi hins vegar ekki séð hníf. Þá hafi E, dyravörður borið að hann hafi séð kærða og B slá og sparka í A.  E þekki kærða og B.

                Kærði hafi borið að B hafi sagt honum að A hafi brotið alvarlega gegn bróður hans og vinkonu hans. Kærði segist hafa rætt þetta við A en farið síðan og talað við B á ný. B hafi síðan rokið í manninn og slegið hann nokkrum sinnum. Kærði segist hafa haldið á vasahníf sem var um 7-8 cm langur. Hann hafi verið að fikta með hnífinn en þegar B hafi rokið í manninn hafi hann farið og stungið manninn tvisvar í bakið. Þegar hann hafi uppgötvað hvað hann hafi gert hafi hann gengið út en dyra­verðir hafi þá verið að vísa B út. B beri að hann hafi séð kærða slá A tví­vegis í bakið með krepptum hnefa. Þá hafi B borið að hann hafi vitað að kærði hafi stungið A þegar þeir hafi verið  á leið út úr húsinu. B segist hafa ekið kærða heim í Mosfellsbæ en síðan ekið heim til [...]. B segi að kærði hafi skilið hnífinn eftir í bílnum en hann hafi beðið F bróður sinn um að losa sig við hnífinn. F hafi borið að hann hafi hent hnífnum í sjóinn.  

                Kærði hafi sætt gæsluvarðhaldi frá 4. þ.m. Rannsókn málsins sé nú vel á veg komin og þyki ekki þörf á því að kærði sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna úr því sem komið sé. Reynt verði að hraða rannsókn málsins svo sem kostur sé og verði málið að rannsókn lokinni sent ríkissaksóknara til ákærumeðferðar, sbr. 27. gr. laga um meðferð opinberra mála.

                Samkvæmt gögnum málsins sé sterkur grunur um að kærði hafi framið alvarlegt brot þar sem beitt hafi verið lífshættulegu vopni en kærði hafi veitt A lífshættulega áverka. Geti brotið samkvæmt 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 varðað allt að 16 ára fangelsi eða allt að ævilöngu fangelsi samkvæmt 211. gr., sbr. 20. gr., sömu laga, teljist sök sönnuð. Sé brot kærða þess eðlis að telja verði nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna að hann sæti áfram gæsluvarðhaldi.

                Kröfu þessari til stuðnings sé vísað til dóma Hæstaréttar nr. 563/2002, 268/2003, 44/2004, 331/2004, 521/2004, 396/2005  og 33/2006. Varðandi þau sjónarmið sem liggi til grundvallar gæsluvarðhaldi samkvæmt nefndu ákvæði skuli og bent á rit Evu Smith, Straffeproces, 1999, bls. 70.

           Lögreglan í Reykjavík rannsaki nú ætlað brot kærða sem geti varðað við  211. gr., sbr. 20. gr., eða eftir atvikum við 2. mgr. 218. gr.  almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með vísan til framanritaðs, framlagðra gagna og 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 sé þess krafist að framangreind krafa nái fram að ganga eins og hún sé fram sett.

                Lögreglan í Reykjavík rannsakar nú þann atburð er A hlaut tvo alvarlega stunguáverka með hnífi aðfararnótt 4. mars sl. í miðbæ Reykjavíkur. Kærði hefur játað að hafa valdið honum þessum áverka með hnífi. Samkvæmt vottorði Tómasar Guðbjartssonar, sérfræðings á hjarta og lungnaskurðdeild Landspítala háskólasjúkrahúsi, frá 4. mars sl., reyndist A vera með tvö stungusár aftarlega á vinstri helmingi brjósthols. Gat kom á vinstra lunga A sem féll saman að nokkru. Að mati Tómasar  var um alvarlega áverka að ræða.  Brot þetta getur varðað við 211. gr., sbr. 20. gr., eða eftir atvikum við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með síðari breytingum það er allt að 16 ára fangelsi. Að því virtu að um hættulegt vopn er að ræða og með hliðsjón af því hversu alvarlega háttsemi kærði er sakaður um, teljast uppfyllt skilyrði til að hann sæti gæslu­varð­haldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, enda er það þess eðlis að telja verður nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna að kærði sæti gæsluvarðhaldi. Verður krafa lögreglu því tekin til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði

                Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð :

                Kærði, X, [kt. og heimilisfang], sæti áfram gæsluvarðhaldi  á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 þar til dómur gengur í máli hans en þó ekki lengur en til föstudagsins 21. apríl 2006  kl. 16:00.