Hæstiréttur íslands
Mál nr. 81/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Brotaþoli
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Mánudaginn 11. febrúar 2013. |
|
Nr. 81/2013.
|
Ákæruvaldið (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Brynjar Níelsson hrl.) |
Kærumál. Brotaþoli. Frávísunarúrskurður staðfestur.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um frávísun ákæru að hluta þar sem frestur, til að krefjast málshöfðunar samkvæmt 3. mgr. 144. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, var liðinn þegar refsi- og skaðabótakrafa var höfð uppi í málinu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Eiríkur Tómasson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. febrúar 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. febrúar 2013 þar sem vísað var frá hluta ákæru á hendur varnaraðila. Kæruheimild er í t. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Varnaraðili krefst þess að málinu verði vísað frá dómi, en til vara staðfestingar hins kærða úrskurðar. Þá er krafist málsvarnarlauna vegna meðferðar málsins í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili hefur ekki kært úrskurðinn fyrir sitt leyti og getur því hvorki krafist breytingar á niðurstöðu hans né getur komið til álita krafa hans um málskostnað í héraði.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Kærumálskostnaður dæmist ekki, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. febrúar 2013.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar miðvikudaginn 30. janúar sl., er höfðað með ákæru, útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 30. október 2012, á hendur X, kt. [...], óstaðsettum í hús, fyrir eftirfarandi brot framin á árinu 2012, nema annað sé tekið fram:
I.
Húsbrot og eignarspjöll að [...] í Reykjavík:
- Mánudaginn 22. ágúst 2011, brotið rúðu í aðalhurð hússins með grjóti í því skyni að komast þar inn í heimildarleysi en ákærði dvaldi inni í húsinu þar til lögregla fjarlægði hann þaðan skömmu síðar.
- Þriðjudaginn 3. janúar, brotið rúðu í aðalhurð hússins með járnstykki í því skyni að komast þar inn í heimildarleysi en ákærði dvaldi inni í húsinu þar til lögregla fjarlægði hann þaðan skömmu síðar.
- Miðvikudaginn 4. janúar, brotið rúðu í útihurð á bakhlið hússins með járnstykki í því skyni að komast þar inn í heimildarleysi en ákærði dvaldi inni í húsinu þar til lögregla fjarlægði hann þaðan skömmu síðar.
- Miðvikudaginn 22. ágúst brotið rúðu í kjallara hússins með grjóti í því skyni að komast þar inn í heimildarleysi en ákærði dvaldi inni í húsinu þar til lögregla fjarlægði hann þaðan skömmu síðar.
Teljast brot þessi varða við 231. gr. og 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
II.
Eignaspjöll með því að hafa, að kvöldi sunnudagsins 2. september, barið með grjóti í rúðu við tröppur upp í aðalinngang hússins að [...] í Reykjavík með þeim afleiðingum að hún brotnaði.
Telst brot þetta varða við 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Í málinu gera A og B, f.h. Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra og forsætisráðuneytisins, kt. [...], kröfu um að ákærði verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð 759.123 krónur, auk vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá tjónsdegi þar til mánuður er liðinn frá birtingu kröfunnar, en síðan dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags.
Verjandi ákærða krefst þess að máli þessu verði vísað frá dómi.
Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að frávísunarkröfu verði hafnað og að málið verði tekið til efnismeðferðar.
Verjandi reisir frávísunarkröfu sína í fyrsta lagi á því að krafa um málshöfðun samkvæmt ákæruliðum I.1 til 3 hafi ekki verið gerð innan tilskilins frests, sbr. 3. mgr. 144. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Í öðru lagi telur verjandi að fjármálaráðherra hafi verið réttur aðili til að hafa uppi kröfu um málshöfðun, en ekki forsætisráðherra.
Af hálfu ákæruvaldsins er því haldið fram að virða eigi háttsemi sem ákært er fyrir sem framhaldsbrot og miða frest til að hafa upp kröfu um málshöfðun við lok brotastarfseminnar. Þá sé forsætisráðherra réttur aðili til að hafa uppi kröfu um málshöfðun og er í því sambandi vísað til forsetaúrskurðar um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands nr. 100/2012.
Niðurstaða
Ákæra í máli þessu lýtur að meintum brotum ákærða gegn 231. gr. og 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga, en brot gegn þeim ákvæðum sæta ákæru eftir kröfu þess sem misgert er við, sbr. b-lið 1. mgr. 242. gr. og 4. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Í málinu liggur fyrir veðbandayfirlit, dagsett 30. nóvember 2012, vegna fasteignarinnar að [...], [...]. Þar kemur fram að Ríkissjóður Íslands sé þinglýstur eigandi fasteignarinnar. Samkvæmt 4. tölulið B-liðar 1. gr. forsetaúrskurðar um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands nr. 100/2012 fer forsætisráðuneytið með mál er varða ríkisstjórn og Stjórnarráð Íslands í heild, þ.m.t. ráðstöfun skrifstofuhúsa og gestahúsa ríkisstjórnarinnar. Þá liggur fyrir bréf fjármála- og efnahagsráðuneytisins, dagsett 7. desember 2012, þar sem áréttað er að forsætisráðuneytið sé réttur aðili til að koma fram af hálfu ríkisins vegna refsi- og bótakrafna er húseignina varða. Samkvæmt framansögðu fer forsætisráðherra með heimild til að hafa uppi kröfu um málshöfðun vegna meintra húsbrota og eignaspjalla sem beinast að fasteigninni. Er frávísunarkröfu ákærða á þessum grunni því hafnað.
Samkvæmt 3. mgr. 144. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 fellur heimild brotaþola til þess að bera fram kröfu um málshöfðun niður sé krafa ekki gerð innan sex mánaða frá því að sá sem heimildina hefur fékk vitneskju um þann sem sekur kann að vera um hina refsiverðu háttsemi. Ekki verður fallist á það með ákæruvaldinu að háttsemi sem ákærða er gefin að sök verði virt sem framhaldsbrot, enda var háttsemin ekki framin í nægilegri samfellu. Meint brot ákærða samkvæmt ákæruliðum I.1 til 3 áttu sér stað 22. ágúst 2011, 3. janúar 2012 og 4. janúar 2012 og var ákærði í öllum tilvikum handtekinn á vettvangi. Þá kemur fram í gögnum málsins að ýmist starfsmönnum forsætisráðuneytisins eða öryggisfyrirtækis á þess vegum var tilkynnt um atvikin samdægurs og komu þeir jafnframt á vettvang. Með bréfi ráðuneytisstjóra og skrifstofustjóra forsætisráðuneytisins til lögreglu, dagsettu 13. september 2012, var höfð uppi refsi- og skaðabótakrafa í málinu. Var þá liðinn frestur til að krefjast málshöfðunar samkvæmt 3. mgr. 144. gr. laga nr. 88/2008. Samkvæmt framansögðu verður fyrrgreindum ákæruliðum því vísað frá dómi.
Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ:
Vísað er frá dómi 1. til 3. lið I. kafla ákæru.