Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-156

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
X (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Kynferðisbrot
  • Endurupptaka
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Björg Thorarensen og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 2. desember 2022, sem barst réttinum sama dag, leitar ríkissaksóknari leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 4. nóvember sama ár í máli nr. 60/2022: Ákæruvaldið gegn X á grundvelli 1. mgr. 216. gr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákærði telur að samþykkja eigi beiðnina.

3. Með dómi Landsréttar 14. desember 2018 í máli nr. 43/2018 var ákærði sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn dóttur sinni, sbr. 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og gert að sæta fangelsi í 9 mánuði en fullnustu sex mánaða refsingarinnar var frestað skilorðsbundið í þrjú ár. Með úrskurði Endurupptökudóms 11. janúar 2022 í máli nr. 2/2021 var málið endurupptekið að beiðni ákærða. Með hinum áfrýjaða dómi var ákærði á ný sakfelldur fyrir framangreind kynferðisbrot. Honum var gert að sæta fangelsi í 12 mánuði en fullnustu níu mánaða refsingarinnar var frestað skilorðsbundið í þrjú ár.

4. Leyfisbeiðandi leitar endurskoðunar á ákvörðun refsingar og telur að huga þurfi að ákvæði 5. mgr. 231. gr., sbr. 232. gr. laga nr. 88/2008, þar sem komi fram að hafi mál verið endurupptekið að beiðni dómfellda megi hlutur hans aldrei verða lakari en hann hafi verið eftir hinum upphaflega dómi. Ákærða hafi verið gerð þyngri refsing með hinum áfrýjaða dómi en ákvörðuð hafi verið með dómi Landsréttar í máli nr. 43/2018. Mikilvægt sé að fá úrlausn Hæstaréttar um hvort Landsrétti hafi verið heimilt að ákvarða refsingu ákærða á þann veg. Gagnaðili tekur undir með leyfisbeiðanda með sömu rökum.

5. Að virtum gögnum málsins er ástæða til að ætla að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Beiðnin er því samþykkt.