Hæstiréttur íslands
Mál nr. 289/2010
Lykilorð
- Sjómaður
- Vinnuslys
- Líkamstjón
- Slysatrygging
|
|
Fimmtudaginn 28. október 2010. |
|
Nr. 289/2010. |
Sveinn Arason (Björn L. Bergsson hrl.) gegn Sjúkratryggingum Íslands (Erla S. Árnadóttir hrl.) |
Sjómenn. Vinnuslys. Líkamstjón. Slysatrygging.
Sjómaðurinn SA, sem var á leið til hafnar, sofnaði á leiðinni og vaknaði við það að bát hans steytti á fjörugrjóti og hlaut hann af því líkamstjón. SA var synjað um bætur úr slysatryggingu almannatrygginga á grundvelli þess að tjón hans hefði ekki orðið við slys í skilningi 1. mgr. 27. gr. laga nr. 100/2004. Höfðaði SA mál þetta til ógildingar á ákvörðun SÍ, um að synja honum um bætur, og úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga, sem hafði staðfest niðurstöðu SÍ. Í dómi Hæstaréttar er vísað til lögskýringargagna ákvæðis 27. gr. laga nr. 100/2007 um skilgreiningu þess á hugtakinu slys þar sem fram kæmi að hún væri í samræmi við þá skilgreiningu sem notuð væri í vátryggingarrétti. Þá segir í dómi Hæstaréttar að fallist yrði á með SA að líkamstjón hans hefði hlotist af skyndilegum utanaðkomandi atburði í skilningi 1. mgr. 27. gr. laga nr. 100/2007 og yrði því krafa hans tekin til greina.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. maí 2010. Hann krefst ógildingar á úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga 20. febrúar 2008 í máli nr. 244/2007 og ákvörðun stefnda 30. ágúst 2007, um að synja áfrýjanda um greiðslu bóta úr slysatryggingu almannatrygginga vegna slyss sem hann varð fyrir 23. júlí 2007. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Samkvæmt gögnum sem lögð voru fyrir Hæstarétt nemur verðmæti hagsmuna áfrýjanda hærri fjárhæð en getur í 1. mgr. 152. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
I
Bátur áfrýjanda, Begga GK-717, strandaði í Vækilvík skammt frá Skagaströnd 23. júlí 2007. Áfrýjandi hafði verið við veiðar á Hofsstaðargrunni og hugðist sigla til Skagastrandar til að taka olíu áður en hann héldi út á meira dýpi. Hann setti sjálfstýringu á og stefnuna á Spákonufellshöfða. Áfrýjandi sofnaði á leiðinni og vaknaði þegar báturinn á 11 hnúta hraða skall á fjörugrjóti um klukkan sjö um morguninn. Áfrýjandi hlaut áverka í hálsi og baki og tognun á vinstri úlnlið sem leiddi að hans sögn til þess að hann var óvinnufær í fjóra mánuði.
Áfrýjandi sótti um bætur samkvæmt slysatryggingu almannatrygginga til stefnda 1. ágúst 2007. Stefndi hafnaði erindi áfrýjanda 30. ágúst 2007 þar sem tjón hans hefði ekki orðið við slys í skilningi 1. mgr. 27. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Úrskurðarnefnd almannatrygginga staðfesti niðurstöðuna 20. febrúar 2008 með rökstuðningi af sama toga.
Deila málsaðila lýtur að því hvort tjón áfrýjanda hafi orðið við slys í merkingu 1. mgr. 27. gr. laga nr. 100/2007. Þar segir að með slysi sé átt við skyndilegan utanaðkomandi atburð sem valdi meiðslum á líkama þess sem tryggður er og gerist án vilja hans.
Áfrýjandi byggir kröfu sína á því að þegar bátur hans skall á fjörugrjótinu og stöðvaðist í einu vetfangi hafi orðið slys í merkingu lagaákvæðisins. Áfrýjandi vísar því á bug að hann hafi slasast við það að sofna enda hafi slysið ekki falist í svefni hans heldur með skyndilegum utanaðkomandi atburði þegar báturinn skall á fjörugrjóti.
Stefndi reisir sýknukröfu sína á því að líkamstjón áfrýjanda verði rakið til þess að hann sofnaði og gætti ekki að stefnu bátsins er hann bar af leið með þeim afleiðingum að hann rak upp í fjöru. Stefndi byggir á því að um sé að ræða einn atburð sem hófst þegar áfrýjandi sofnaði við stýrið og lauk þegar hann varð fyrir líkamstjóni við strandið. Hafi atburðurinn hvorki gerst skyndilega né verið utanaðkomandi.
Með 9. gr. laga nr. 74/2002 um breyting á lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð, lögum um málefni aldraðra, lögum um heilbrigðisþjónustu og sóttvarnalögum, var lögfest skilgreining á hugtakinu slys varðandi slysatryggingar almannatrygginga. Í athugasemdum við 9. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 74/2002 kom meðal annars fram að sú skilgreining sem lögð væri til í ákvæðinu væri í samræmi við skilgreiningu sem notuð væri í vátryggingarrétti.
II
Fallist er á með áfrýjanda að líkamstjón hans hafi hlotist af skyndilegum utanaðkomandi atburði í skilningi 1. mgr. 27. gr. laga nr. 100/2007 þegar bátur hans, Begga GK-717, skall á 11 hnúta ferð á fjörugrjóti 23. júlí 2007 og stöðvaðist skyndilega. Við það kastaðist áfrýjandi til í stýrishúsi bátsins og hlaut af það líkamstjón sem hann krefur stefnda um bætur fyrir. Ljóst er að báturinn strandaði án vilja áfrýjanda. Í því efni skiptir ekki máli þó að óumdeilt sé að áfrýjandi hafði sofnað í bátnum eftir að hafa sett sjálfstýringuna á.
Ákvörðun stefnda 30. ágúst 2007 í máli áfrýjanda og úrskurður úrskurðarnefndar almannatrygginga 20. febrúar 2008 í máli áfrýjanda byggjast samkvæmt framansögðu ekki á réttri skýringu 1. mgr. 27. gr. laga nr. 100/2007. Tilhögun kröfugerðar áfrýjanda hefur ekki sætt athugasemdum stefnda og verður krafa hans tekin til greina.
Samkvæmt úrslitum málsins verður stefndi, með vísan til 1. mgr. 130. gr., sbr. einnig 166. gr. laga 91/1991, dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Ógilt eru úrskurður úrskurðarnefndar almannatrygginga 20. febrúar 2008 í máli nr. 244/2007 og ákvörðun stefnda, Sjúkratrygginga Íslands, 30. ágúst 2007, um að synja áfrýjanda, Sveini Arasyni, um greiðslu bóta úr slysatryggingu almannatrygginga vegna slyss sem hann varð fyrir 23. júlí 2007.
Stefndi greiði áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti samtals 700.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. mars 2010.
Mál þetta, sem dómtekið var 15. febrúar síðastliðinn, var höfðað 21. ágúst 2009 af Sveini Arasyni, Skipastíg 28, Grindavík, gegn Sjúkratryggingum Íslands, Laugavegi 114-116, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að úrskurður úrskurðarnefndar almannatrygginga í máli nr. 244/2007 frá 20. febrúar 2008 og ákvörðun stefnda 30. ágúst 2007, um að synja stefnanda um greiðslu bóta vegna slyss 23. júlí sama ár úr slysatryggingu almannatrygginga, verði ógilt. Krafist er málskostnaðar að skaðlausu að mati dómsins.
Af hálfu stefnda er krafist sýknu af kröfum stefnanda. Einnig er krafist málskostnaðar samkvæmt ákvörðun dómsins með hliðsjón af tímaskýrslu.
Yfirlit málsatvika og ágreiningsefna
Stefnandi sótti um bætur úr slysatryggingu almannatrygginga með tilkynningu til Tryggingastofnunar 1. ágúst 2007 vegna líkamsáverka er hann hlaut er báturinn Begga GK-717 strandaði í Vækilvík skammt frá Skagaströnd 23. júlí s.á. Stefnandi hlaut tognun á úlnlið, hálsi og lendarhrygg. Í tilkynningu stefnanda segir að stefnandi hafi sofnað við stýrið og keyrt bátinn upp í fjöru.
Umsókn stefnanda um slysabætur var hafnað með bréfi 30. ágúst s.á. Með bréfi 6. september s.á. óskaði stefnandi eftir því að sú ákvörðun yrði endurskoðuð en því var hafnað með bréfi 14. sama mánaðar. Stefnandi kærði synjun Tryggingastofnunar, sem stefnda hefur nú komið í stað samkvæmt lögum nr. 112/2008, til úrskurðarnefndar almannatrygginga 17. sama mánaðar. Með úrskurði nefndarinnar var staðfest ákvörðun um að synja stefnanda um bætur úr slysatryggingunni vegna framangreindra atvika.
Stefnandi hefur höfðað málið í þeim tilgangi að fá úrskurðinum hnekkt og krefst þess að hann verði felldur úr gildi ásamt ákvörðun um að synja stefnanda um bætur úr slysatryggingu almannatrygginga. Í málinu er deilt um það hvort tjón stefnanda verði talið slys í skilningi 27. gr. laga um almannatryggingar.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi lýsir því að hann hafi verið einn um borð í bátnum þegar hann strandaði 23. júlí 2007 skammt frá Skagaströnd. Ástæður strandsins hafi annars vegar verið þær að bátinn hafi borið af réttri leið vegna segultruflana, sem hafi haft áhrif á áttavita bátsins sem sjálfstýringin tók mið af, og einnig hafi viðvörun frá dýptarmæli brugðist. Hins vegar hafi orsök strandsins verið að stefnandi hefði dottað við stjórnvölinn og því ekki gætt að stefnunni með þessum afleiðingum.
Stefnandi lýsir afleiðingum slyssins þannig að hann hafi hlotið áverka í hálsi og baki og tognun á vinstri úlnlið sem leitt hafi til þess að hann varð óvinnufær í fjóra mánuði. Auk þess sé ekki hægt að útiloka að slysið muni hafa varanlegar afleiðingar í för með sér fyrir stefnanda.
Tryggingafélag stefnanda, Sjóvá Almennar tryggingar hf., hafi hafnað því með bréfi 9. nóvember s.á. að stefnandi ætti rétt á greiðslu úr slysatryggingu sjómanna samkvæmt 172. gr. siglingalaga. Félagið hafi breytt um afstöðu og fallist á bótaskyldu 26. ágúst 2008.
Af hálfu stefnda hafi greiðsluskyldu verið synjað með þeim rökum að áverkar stefnanda væru ekki afleiðingar „slyss“ í skilningi 2. ml. 1. mgr. 27. gr. laga um almannatryggingar. Stefnandi hafi ekki viljað una þessari niðurstöðu og með bréfi 6. september 2007 hafi verið óskað eftir endurskoðun á fyrri ákvörðun stefnda en því hafi verið hafnað með bréfi 14. september s.á. Stefnandi hafi kært þessa niðurstöðu stefnda til úrskurðarnefndar almannatrygginga. Í greinargerð stefnda sé því haldið fram að áverkar og lemstur, sem stefnandi hlaut vegna högga, væru ekki slys í skilningi IV. kafla almannatryggingarlaga. Það hafi verið rökstutt með því að ástæða strandsins hafi að líkindum verið sú að stefnandi sofnaði við stjórnvöl bátsins. Þannig sé ekki um „skyndilegan, utanaðkomandi atburð“ í skilningi lagaákvæðisins að ræða, þar sem svefn séu viðbrögð líkamans við þreytu eða „öðrum innri áhrifum“ eins og stefndi hafi komist að orði. Jafnframt sé því haldið fram í greinargerðinni að ekki hafi verið um að ræða „að frávik hafi orðið á eðlilegri atburðarás“. Stefnandi hafi skilað athugasemdum við greinargerð stefnda til úrskurðarnefndarinnar 8. október s.á. Þar sé meðal annars bent á 2. ml. 3. mgr. 27. gr. almannatryggingalaga sem hljóði þannig að tryggingin taki til allra slysa á sjómanni sem verði um borð í skipi hans eða þegar hann ásamt skipinu væri staddur utan heimahafnar skips eða útgerðarstaðar.
Úrskurðarnefndin hafi ákveðið 28. nóvember s.á., á grundvelli 4. mgr. 8. gr. almannatryggingarlaga nr. 100/2007, að leita eftir áliti Guðmundar Sigurðssonar, prófessors við lagadeild Háskólans í Reykjavík. Óskað hafi verið álits hans á því „hvaða áhrif svefn skipstjórnarmanns sem siglir með sjálfstýringu á, skuli hafa á þann víðtæka bótarétt sem honum er veittur í 27. gr. almannatryggingalaga“. Álitsgerð hafi legið fyrir 29. janúar 2008. Niðurstaðan þar hafi verið á sama veg og hjá stefnda, að tjón stefnanda yrði ekki rakið til slyss í skilningi 2. ml. 1. mgr. 27. gr. almannatryggingalaga. Orsökin væri ekki skyndilegur utanaðkomandi atburður og ætti stefnandi því ekki rétt á bótum úr slysatryggingu laganna. Einnig komi fram að orðalag 3. mgr. sömu lagagreinar, þar sem gildissvið slysatryggingar sjómanna sé víkkað, fái þar engu um breytt og jafnframt að einu gilti hvort það væri ökumaður bifreiðar eða skipstjórnarmaður sem sofni og engu varði hvort bátur væri á sjálfstýringu eða ekki.
Stefnandi hafi skilað athugasemdum við álitsgerðinni með bréfi 16. febrúar 2008. Úrskurðarnefnd almannatrygginga hafi svo kveðið upp úrskurð 20. s.m. og hafi álit Guðmundar verið lagt til grundvallar og ákvörðun stefnda um að synja stefnanda um greiðslu bóta úr slysatryggingum því staðfest. Í ljósi þessarar niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar sé stefnanda nauðsynlegt að leita réttar síns fyrir dómstólum.
Af hálfu stefnanda sé vísað til 27. gr. laga um almannatryggingar. Samkvæmt ákvæðinu taki slysatrygging almannatrygginga meðal annars til slysa sem verði við vinnu enda sé sá sem fyrir slysi verði tryggður samkvæmt ákvæðum 29. eða 30. gr. sömu laga. Stefnandi hafi verið tryggður samkvæmt 29. gr.
Krafa stefnanda í málinu sé byggð á 27. gr. laganna en þar segi: „Með slysi er átt við skyndilegan utanaðkomandi atburð sem veldur meiðslum á líkama þess sem tryggður er og gerist án vilja hans“. Í 3. mgr. sama ákvæðis segi enn fremur að „tryggingin taki til allra slysa á sjómanni sem verða um borð í skipi hans eða þegar hann ásamt skipinu er staddur utan heimahafnar skips eða útgerðarstaðar“.
Stefnandi byggi á að öllum hugtaksskilyrðum 27. gr. laganna sé fullnægt. Hann hafi orðið fyrir meiðslum, meðal annars á hálsi og handlegg, vegna skyndilegs utanaðkomandi atburðar. Stefnandi hafi engan vilja haft til þess að svona færi. Stefnandi hafi slasast um borð í bátnum er hann steytti á fjörugrjótinu. Atburðurinn sem tjón stefnanda verði rakið til hafi ekki verið neitt annað en slys, enda hafi stefndi aldrei haldið því fram að um einhverskonar sjálfsáverka hafi verið að ræða af hálfu stefnanda. Þegar af þessum ástæðum beri að taka dómkröfu stefnanda til greina.
Taka verði tillit til málavaxta hverju sinni við skilgreiningar á slysahugtakinu. Svefn stjórnanda leiði ekki sjálfkrafa til þess að atvik geti ekki flokkast sem slys í skilningi 27. gr. laganna. Fyrst verði að líta til þess að þótt svefn skerði meðvitund og þannig hæfni til að stjórna báti þá valdi hann sem slíkur sjaldnast líkamsáverka. Stefnandi hafi kastast til inni í stýrishúsi bátsins vegna strandsins, óháð ástæðu þess að báturinn strandaði. Að auki komi fleiri ástæður til, sem kunni að hafa leitt til slyss stefnanda, strandsins. Annars vegar geti segulskekkja hafa leitt til þess að bátinn bar af réttri leið og hins vegar vanbúnaður dýptarmælis sem hafi ekki gefið aðvörun um grunnsævi, eins og rakið sé í skýrslu rannsóknarnefndar sjóslysa. Þessi atriði hafi ráðið mjög miklu um að málsatvik þróuðust með framangreindum hætti.
Í úrskurði nefndarinnar sé þessum þáttum lítill gaumur gefinn en þess í stað dregin of víðtæk ályktun af dómafordæmum vegna umferðarslysa þar sem ökumaður sofni. Um eðlisólík tilvik sé að ræða þótt um stjórnun vélknúinna farartækja sé að ræða í báðum tilvikum. Ökumaður bifreiðar sé allan tímann við stjórnvölinn. Hann þurfi að sýna árvekni í hvívetna og beita sér líkamlega við stjórnina allan tímann. Bregði ökumaður út af sé voðinn vís og ef hann sofni sé nánast óumflýjanlegt að slys verði. Engu sambærilegu sé til að dreifa í tilviki skipstjórnarmanns. Vítt sé á sjó og sjaldnast slík þrengsli á hafi úti að ekki megi af líta. Skipstjórnarmaður hafi þá skyldu að gæta að því að skip sigli á sem öruggastan hátt, en hann sé ekki á sama hátt og ökumaður bifreiðar bundinn við það að halda um stjórnvölinn. Slíkt sjáist gleggst á því að skip og bátar séu útbúnir með sjálfstýringu. Með því að setja sjálfstýringu á sé hægt að láta skip sigla fyrir fram ákveðna leið án þess að mannshöndin komi þar nærri. Skipstjórnarmaður geti brugðið sér frá stjórntækjunum án þess að eiga á hættu að slys verði. Það sama verði engan veginn sagt um ökumann bifreiðar. Þá sé mögulegt að bátur steyti á skeri þótt skipstjórnarmaður hafi aðgát á, til dæmis vegna segulskekkju sem leiði til þess að bátinn beri af réttri leið. Svefn ökumanns bifreiðar og skipstjórnarmanns geti haft mjög ólíkar afleiðingar. Leiða megi líkur að því að ef segulskekkjan, sem hafi að líkindum leitt bát stefnanda af réttri leið, hefði ekki komið til, þá hefði báturinn siglt sem leið lá inn Húnaflóann og þótt stefnandi hefði dottað við stjórnvölinn hefðu verið langmestar líkur til þess að hann hefði vaknað í tæka tíð án þess að nokkuð hefði borið til tíðinda. Sama sé að segja um vanbúnað dýptarmælisins. Hefði mælirinn verið í lagi þá hefði stefnandi að líkindum vaknað við viðvaranir mælisins um grunnsævi. Til þessara sérstöku aðstæðna hafi ekkert tillit verið tekið í úrskurði nefndarinnar og enginn gaumur gefinn að þessum meðverkandi þáttum, aðeins byggt á því að svefn hafi verið frumorsök slyssins. Sú alhæfing standist ekki enda ótvíræður greinarmunur á stöðu skipstjórnarmanna annars vegar og ökumanna bifreiða hins vegar. Í tilviki ökumanns bifreiðar leiði svefn undir stýri nánast óumflýjanlega til umferðarslyss. Slíkt sé langt frá því að vera óumflýjanlegt í tilviki skipstjórnarmanns. Því verði ekki byggt á fordæmum er varði svefn ökumanns bifreiðar en þau eigi ekki við um úrlausnarefnið hér. Ótækt sé að leggja, án nánari ígrundunar, til grundvallar að réttaráhrif svefns séu hin sömu í báðum tilvikum.
Í niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar sé ekki byggt á því að stefnandi hafi fyrirgert rétti sínum með stórkostlegu gáleysi með því að hafa sjálfur valdið slysinu, heldur á því að ekki hafi verið um slys að ræða í skilningi 2. ml. 1. mgr. 27. gr. almannatryggingalaga. Þessi niðurstaða eigi ekki við full rök að styðjast þó að byggt sé á álitsgerð Guðmundar Sigurðssonar prófessors. Í álitsgerðinni komi fram að gildissvið slysatrygginga hvað sjómenn varði hafi verið víkkað frá því sem áður var. Þar segi einnig að sjómenn séu alltaf slysatryggðir um borð í skipi, jafnvel þótt athafnir þeirra þar standi ekki í neinu sambandi við vinnuna. Hvergi sjái þess hins vegar stað í lagatextanum að nokkur rök standi til þrengingar á slysahugtakinu sjálfu. Umfjöllun prófessorsins í álitsgerðinni um slysahugtakið sjálft í einhverjum þrengri skilningi en venjuleg íslensk málnotkun gefi tilefni til fái ekki stuðning í lagatextanum eða lögskýringargögnum. Samkvæmt álitsgerðinni sé niðurstaðan sú að ekki hafi verið um slys að ræða, þar sem svefn sé ekki utanaðkomandi atburður. Þessi nálgun eigi ekki við rök að styðjast með vísan til 3. mgr. 27. gr. Stefnandi hafi ekki slasast af svefni heldur um borð í skipi sínu sem rekist hafi á. Í álitinu sé vísað til réttarstöðu ökumanns bifreiðar sem sofni undir stýri. Slysatryggingin taki ekki til þess þar sem tjón verði þá ekki rakið til slyss í skilningi 27. gr. almannatryggingalaga. Þetta álit verði ekki lagt til grundvallar þar sem hvorki hafi verið leyst úr réttarstöðu ökumanna hérlendis í þessum efnum, né verði það gert í máli þessu. Steininn taki þó úr þegar talið sé að engu máli skipti hvort það sé ökumaður bifreiðar eða skipstjórnarmaður sem sofni, né heldur hvort bátur sé á sjálfstýringu eða ekki, því slysahugtak laganna sé eftir sem áður það sama. Niðurstaða úrskurðarnefndar almannatrygginga sem byggi á þessu áliti fái ekki staðist enda eðlisólíku saman að jafna.
Stefnandi hafi ekki slasast við það að sofna og slysið fælist ekki í svefni stefnanda. Skyndilegi utanaðkomandi atburðurinn, sem valdið hafi meiðslum á líkama stefnanda hafi orðið þegar líkami hans varð fyrir höggum og pústrum þegar bátinn tók skyndilega niðri upp í fjöru og hann snarstoppaði. Fyrr hafi stefnandi ekki orðið fyrir meiðslum og fyrr hafi hann ekki orðið fyrir slysi. Þótt einhver málsatvik hafi fyrr orðið sem skýrðu að svona fór, þá breyti þau ekki þeirri staðreynd að það hafi verið þegar bátinn tók niðri sem meiðslin urðu. Atvikið sem þurfi að vera til staðar til þess að stefnandi slasist sé lemstur bátsins í fjörugrjótinu. Athafnir stefnanda fyrr og þýðing þeirra fyrir atburðarásina séu þess eðlis að slysið hefði getað orðið þótt þeim hefði ekki verið til að dreifa. Að líkindum hefði ekkert farið úrskeiðis ef lengri tími hefði liðið og segulskekkjan og vanbúnaður dýptarmælisins hefðu ekki komið til. Þannig hefði slysið eins getað átt sér stað ef stefnandi hefði ekki gætt að segulskekkjunni og brugðið sér frá stjórntækjunum til að fá sér kaffibolla og dvalist við það. Það sé þannig ekki svefninn sem sé ómissandi í röð atvika sem leiddu til slyssins, heldur hefði segulskekkjan eða vanbúnaður dýptarmælisins eins getað valdið slysi, en þó fyrst og fremst strand bátsins í kjölfarið.
Stefnandi hafi hlotið líkamlega áverka þegar bátinn tók niðri. Vart samrýmdist það venjulegu inntaki hugtaksins „slys“, að í því felist einhver atburðarás með mörgum atvikum, sem taki jafnvel yfir einhverjar mínútur. Það sýnist þannig andstætt inntaki slysahugtaksins að telja að atvik, sem sé undanfari slyssins, hafi þýðingu með þessum hætti fyrir sjálfan slysatburðinn. Það að maður verði fyrir lemstrum og höggum þegar bátur strandi hafi ætíð verið kallað „slys“ og framandi að gefa slíkum atburði annað nafn.
Loks sé vísað til hinna sérstöku félagslegu sjónarmiða sem almannatryggingalöggjöfin sé reist á og verði ekki að öllu leyti jafnað til sjónarmiða í vátryggingarrétti. Í úrskurði nefndarinnar sé mjög lítið vikið að þessum félagslegu sjónarmiðum og tilgangsskýringum almannatryggingaréttarins. Miklu fremur sé ranglega einblínt á vátryggingarétt.
Úrskurður nefndarinnar, sem byggðist á afstöðu stefnda og stefndi styðjist nú við, eigi ekki við rök að styðjast og því beri að taka kröfu stefnanda til greina. Krafa stefnanda byggðist á rétti hans til slysatryggingar samkvæmt 27. gr. almannatryggingalaga nr. 100/2007 og krafan um málskostnað við XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Þar sem stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur sé einnig krafist álags á málskostnað er nemi virðisaukaskatti samkvæmt lögum nr. 50/1988.
Málsástæður og lagarök stefnda
Af hálfu stefnda er málsatvikum lýst þannig að stefnandi hafi verið stjórnandi og eini áhafnarmeðlimur bátsins Beggu GK-717 þegar hann strandaði. Hann hafi verið við veiðar á Hofsstaðargrunni og ætlað að sigla til Skagastrandar til að taka olíu áður en hann héldi út á meira dýpi. Stefnandi hafi sett stefnuna á Spákonufellshöfða. Hann hafi verið illa sofinn og sofnað á leiðinni og hafi báturinn siglt í strand í fjöru við Vækilsvík. Lýsingu stefnanda, sem ekki sé í samræmi við þessa lýsingu, sé mótmælt sem ósannaðri.
Stefnandi hafi sjálfur skýrt svo frá í tilkynningu til stefnda að hann hefði sofnað við stýrið og keyrt bátinn upp í fjöru í blíðu veðri. Þessi sama lýsing komi fram í sjúkraþjálfunarbeiðni læknisins sem stefnandi hafi fyrst leitaði til eftir slysið. Sömu lýsingu sé að finna í skýrslu rannsóknarnefndar sjóslysa.
Stefndi hafi synjað umsókn stefnanda 30. ágúst 2007. Stefnandi hafi ekki viljað una því og beðið um endurupptöku á málinu 6. september s.á. með ítarlegri lýsingu, sem hafi þó verið efnislega samhljóða, en þá hafi í fyrsta skipti verið getið um segulsviðstruflanir. Stefndi hafi ekki talið þetta breyta neinu um fyrri ákvörðun og synjað endurupptökubeiðni 14. s.m.
Málið hafi í framhaldinu verið kært til úrskurðarnefndar almannatrygginga sem hafi staðfest afgreiðslu stefnda 27. maí 2009. Nefndin hefði leitað umsagnar hjá dr. Guðmundi Sigurðssyni, prófessor í bótarétti við Lagadeild Háskólans í Reykjavík, sem komist hafi að sömu niðurstöðu og stefndi.
Skilyrði bótaréttar úr slysatryggingu almannatrygginga sé að umsækjandi hafi orðið fyrir slysi í skilningi 2. ml. 1. mgr. 27. gr. almannatryggingalaga en þar segi: „Með slysi er átt við skyndilegan utanaðkomandi atburð sem veldur meiðslum á líkama þess sem tryggður er og gerist án hans vilja.“ Ein og sama skilgreiningin sé fyrir alla sem séu tryggðir.
Stefndi byggi á því að um sé að ræða einn atburð sem hefjist þegar stefnandi hafi sofnað við stýrið og ljúki þegar hann hafi orðið fyrir líkamsmeiðslum við strandið. Því hafi atburðurinn hvorki gerst af skyndingu né verið utanaðkomandi. Stefnandi hafi sofnað vegna þess að hann hafi verið illa sofinn og sé því um innri atburð í líkama hans að ræða. Vegna þess að stefnandi sofnaði hafi báturinn smám saman farið af réttri leið og hafi endað á því að stranda. Því séu einungis tvö af fjórum skilyrðum slysahugtaks 2. ml. 1. mgr. 27. gr. almannatryggingalaga uppfyllt, þ.e. að atburðurinn hafi valdið stefnanda líkamstjóni og að öllum líkindum gerst án vilja hans. Skilyrði fyrir bótaskyldu sé að öll fjögur skilyrði slysahugtaksins séu uppfyllt.
Stefnandi geri tilraun til að brjóta atvikið upp í fleiri minni atburðarrásir. Hann haldi því fram að ein þeirra, þegar stefnandi vakni við að báturinn strandi og verði í kjölfarið fyrir líkamsmeiðslum, gefi tilefni til að ætla að um slys í skilningi almannatryggingalaga sé að ræða. Líta verði heildstætt á málið. Við það að stefnandi sofnaði hafi farið í gang ein og sama atburðarásin sem hafi endað með líkamstjóni. Þessi skilningur hafi verið lagður í málið af stefnda, úrskurðarnefnd almannatrygginga, sérfræðingi, sem nefndin hafi leitað til, og rannsóknarnefnd sjóslysa.
Tilvísanir stefnanda, að um slys sé að ræða, studdar almennri málvenju, fari einmitt gegn lagatextanum og lögskýringargögnum og þvert á það sem hann haldi fram. Í bótarétti sé almennt talað um líkamstjón og orðalagið að „slasast“ ekki notað nema viðkomandi hafi orðið fyrir „slysi“, þ.e. uppfyllt skilyrði slysahugtaksins.
Þá byggi stefnandi á því að eðlisólíkt sé að stýra báti og stýra bíl og ekki megi jafna þessu tvennu saman. Þótt svefn skerði meðvitund í báðum tilvikum megi við stjórn báts almennt ekki búast við líkamsáverka þó sofnað sé við stýrið. Þessu hafni stefndi og telji að um eðlislík tilvik sé að ræða og ekki rétt að leggja mismunandi sjónarmið til grundvallar, jafnvel þó svo að hægt sé að bregða sér frá stjórntækjum báts í skemmri tíma án þess að eiga hættu á tjóni. Gera verði þá kröfu til skipstjórnarmanna að þeir gæti að því hvert báturinn stefnir. Atvikin séu ekki svo eðlisólík að um tvö mismunandi slysahugtök sé að ræða.
Þeim sem stýri báti sé nauðsynlegt að vera með meðvitund til að koma í veg fyrir tjón. Ýmislegt geti komið upp á, t.d. geti aðrir bátar verið á ferðinni á svæðinu, hættulegir hlutir geti verið á floti í sjónum, gleymst gæti að kveikja á dýptarmæli með aðvörun eða svefn geti verið svo þungur að ekki heyrist í aðvörun dýptarmælis. Einnig geti bátinn borið af leið vegna segulskekkju. Segulsvið jarðar sé ekki fastsett á hverjum stað heldur sveiflist það vegna ýmissa orsaka, s.s. magns segulvaldandi efna í bergi á svæðinu, þéttni bergsins, hreyfingar á kviku jarðar, sólstorma og af ýmsum öðrum orsökum. Íslenskir sjómenn hafi þekkt segulskekkjur allt frá 18. öld.
Skýra eigi slysahugtak í tilviki sjómanna á sérstakan hátt með vísan til 3. mgr. 27. gr. almannatryggingalaga. Stefndi hafi aldrei byggt á þessari grein heldur synjað bótaskyldu með þeim rökum einum að ekki sé uppfyllt slysahugtak laganna. Orðalag 3. mgr. 27. gr. breyti ekki þeirri staðreynd að stefndi þurfi að hafa orðið fyrir slysi í skilningi 2. ml. 1. mgr. 27. gr. þó svo að slysið þurfi ekki að vera í beinum tengslum við vinnu.
Þá hafni stefndi alfarið þeirri fullyrðingu stefnanda að skýra eigi slysahugtak 2. ml. 1. mgr. 27. gr laganna með rýmri hætti með vísan til félagslegra sjónarmiða. Stefnandi vísi til þess að tilgangur og sérstakt eðli almannatrygginga leiði til þess að ekki eigi að líta til vátryggingaréttar. Þessari skýringarleið hafni stefndi alfarið.
Slysatryggingar almannatrygginga eru sérstaks eðlis og að mörgu leyti skyldari einkavátryggingum heldur en félagslegum úrræðum sem styðjist við 76. gr. stjórnarskrár nr. 33/1944, sbr. síðari breytingar. Launþegum sé tryggður réttur gegn áföllum vegna vinnuslysa, m.a. í almannatryggingalöggjöfinni, í tryggingum samkvæmt kjarasamningum, með greiðslum í sjúkrasjóði verkalýðsfélaga eða lífeyrissjóði o.fl. Slysatrygging almannatrygginga sé því aðeins hluti af því bótakerfi sem verði virkt við vinnuslys. Þær veiti mönnum betri rétt en þeir hefðu ella samkvæmt almannatryggingalöggjöfinni. Slysatryggingar séu því oftast viðbót við þau lágmarksréttindi sem öllum séu tryggð með lögum og í stjórnarskrá. Því sé um sérstöðu að ræða innan almannatryggingalöggjafarinnar sem verði að hafa í huga m.t.t. lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins við túlkun og beitingu ákvæða slysatryggingakaflans. Þess vegna sé ekki sjálfgefið að þau sjónarmið sem séu ráðandi við túlkun annarra þátta almannatrygginga eigi við um slysatryggingaþátt þeirra.
Með lögum nr. 74/2002 hafi 2. ml. 1. mgr. 27. gr. almannatryggingalaga fyrst komið í lög. Fyrir setningu laganna hefði Tryggingastofnun ríkisins um áratuga skeið stuðst við þá skilgreiningu sem lagt var til að sett yrði í lögin. Þetta komi fram í greinagerð með lögunum og einnig að sú skilgreining væri í samræmi við þá skilgreiningu sem notuð sé í vátryggingarétti og í [þágildandi] dönskum lögum um slysatryggingar. Því hafi í raun verið fest í sessi túlkun Tryggingastofnunar á hugtakinu og um leið brugðist við þeirri tilhneigingu sem borið hafi á í kjölfar álits umboðsmanns Alþingis í máli nr. 2516/1998 frá 31. ágúst 2000 um að skýra hugtakið með víðtækari hætti en í vátryggingarétti, og þá á grundvelli félagslegra sjónarmiða.
Þá hafi stefnandi vísað til þess að vátryggingafélag hans hafi viðurkennt greiðsluskyldu úr slysatryggingu sjómanna. Í lögum um almannatryggingar gildi eitt og sama slysahugtakið fyrir alla sem falla undir gildissvið IV. kafla. Því sé ekki um mismunandi slysahugtök að ræða eftir því hver eigi í hlut og slysatrygging samkvæmt 172. gr. laga nr. 34/1985, þar sem sjómönnum sé tryggður réttur til slysabóta, breyti ekki slysahugtaki almannatrygginga.
Í 172. gr. siglingalaga sé ekki skilgreint við hvað sé átt með hugtakinu slys. Stundum sé því haldið fram að réttur sjómanna til slysabóta sé rýmri samkvæmt þessu ákvæði en almennt um slysatryggingar. Þá hafi vátryggingarfélag stefnanda einungis fallist á greiðslu bóta án viðurkenningar á greiðsluskyldunni. Stefndi líti svo á að vátryggingarfélagið telji þessa ákvörðun ekki vera fordæmisgefandi.
Stefndi telji vangaveltur sem komið hafi upp hjá rannsóknarnefnd sjóslysa um meintar segulsviðstruflanir ekki skipta máli við mat á því hvort stefnandi hafi orðið fyrir slysi. Auk þess liggi ekki fyrir neinar mælingar á segulsviði né hvernig þær hafi átt þátt í slysinu. Stefndi hafni þessum málsástæðum sem ósönnuðum.
Stefndi telji ekki skipta máli við ákvörðun bótaskyldu hvort stefnandi hafði kveikt á dýptarmæli eða ekki. Stefnandi hafi sofnað við stýrið og báturinn hafi siglt í strand. Hvort stefnandi hafi kveikt á dýptarmæli eða ekki og hvort aðvörunarflauta hafi virkað eða ekki breyti því ekki. Þá sé ósönnuð fullyrðing stefnanda um að hann hafi kveikt á dýptarmæli og aðvörunarflauta ekki virkað sem skyldi. Stefndi hafni þessum málsástæðum sem ósönnuðum.
Krafa um málskostnað sé studd XXI. kafla einkamálalaga nr. 91/1991, sbr. einkum 129. og 130. gr.
Niðurstaða
Ógildingarkrafa stefnanda er byggð á því að hann eigi rétt á slysabótum samkvæmt 27. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007 vegna líkamstjónsins sem hann hlaut þegar báturinn strandaði eins og hér að framan er lýst. Kröfunni er hafnað af hálfu stefnda með vísan til þess að ekki sé um slys að ræða í skilningi lagaákvæðisins þar sem tjónið verði rakið til þess að stefnandi hafði sofnað þegar bátinn bar af leið og hann rak upp í fjöru.
Við úrlausn á því hvort slysatryggingin sem um ræðir taki til tjóns stefnanda verður að líta til þess að slys er skilgreint í 1. mgr. lagaákvæðisins sem skyndilegur utanaðkomandi atburður sem veldur meiðslum á líkama þess sem tryggður er og gerist án vilja hans. Samkvæmt sama lagaákvæði tekur slysatrygging til slysa við vinnu. Í 3. mgr. lagagreinarinnar er skilgreint að slys teljist ekki verða við vinnu ef það hlýst af athöfnum slasaða sjálfs, sem ekki standi í neinu sambandi við vinnuna. Tryggingin taki þó til allra slysa á sjómanni sem verði um borð í skipi hans.
Þótt sjómenn séu samkvæmt þessu slysatryggðir allan tímann sem þeir dvelja um borð í skipi, hvort sem þeir eru þar við vinnu eða ekki, verður að túlka framangreind lagaákvæði í eðlilegu samhengi og skýra þau þannig að ekki geti verið um slys að ræða í skilningi 27. gr. laganna ef tjón sjómanns verður ekki rakið til skyndilegs utanaðkomandi atburðar sem valdi meiðslum á líkama hans.
Eins og hér háttar til verður að telja að líkamstjón stefnanda verði ótvírætt rakið til þess að hann sofnaði og gætti því ekki að stefnu bátsins er hann bar af leið með þeim afleiðinum að hann rak upp í fjöru og að það sé meginorsök tjónsins en ekki skyndilegur utanaðkomandi atburður. Meintar segultruflanir og vanbúnaður dýparmælisins, sem stefnandi vísar til, verða í ljósi þessa heldur ekki taldir skyndilegir utanaðkomandi atburðir sem hafi valdið líkamstjóni stefnanda.
Að þessu virtu er því ekki um slys að ræða í skilningi lagaákvæðisins sem slysatryggingin tekur til. Félagsleg sjónarmið og tilgangsskýringar almannatryggingaréttarins, sem vísað er til af hálfu stefnanda, breyta engu um þessa niðurstöðu og koma því ekki frekar til álita við úrlausn málsins.
Með vísan til þessa eru hvorki rök fyrir því að fella hinn umdeilda úrskurð úr gildi né ákvörðun stefnda sem staðfest var með úrskurðinum. Ber því að hafna kröfum stefnanda í málinu og er stefndi þar með sýknaður af þeim.
Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Málið dæmir Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.
D ó m s o r ð:
Stefnda, Sjúkratryggingar Íslands, er sýknað af kröfum stefnanda, Sveins Arasonar, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.