Hæstiréttur íslands

Mál nr. 748/2014


Lykilorð

  • Gjafsókn
  • Forsjársvipting
  • Börn


                                     

Fimmtudaginn 7. maí 2015.

Nr. 748/2014.

K

(Oddgeir Einarsson hrl.)

gegn

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur

(Kristbjörg Stephensen hrl.)

Börn. Forsjársvipting. Gjafsókn.

Barnaverndarnefnd R krafðist þess að K yrði svipt forsjá sonar síns. Í dómi héraðsdóms, sem skipaður var sérfróður meðdómsmönnum, kom meðal annars fram að brestir í persónugerð K og sambýlismanns hennar leiddu til þess að ólíklegt væri að þau gætu annast og tekið tillit til þarfa drengsins, sem byggi við fjölþættan vanda sem krefðist mikillar uppeldishæfni. K hefði ekki nýtt sér þau úrræði sem henni hefðu staðið til boða til þess að þroska forsjárhæfni sína og óljóst væri hvort geðtengsl hennar og sonarins væru góð. Var því talið að uppfyllt væru skilyrði 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 til að svipta K forsjá sonar síns og tekið fram í því sambandi að önnur og vægari úrræði væru fullreynd. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms með skírskotun til þeirrar meginreglu 1. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga að í störfum barnaverndaryfirvalda skuli hagsmunir barnsins sem í hlut á ávallt hafðir í fyrirrúmi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.  

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 21. nóvember 2014. Hún krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt.

Stefnda krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms.

Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 gildir sú meginregla að í starfsemi barnaverndaryfirvalda skulu hagsmunir barnsins, sem í hlut á, ávallt hafðir í fyrirrúmi og ber þeim í því skyni að grípa til þeirra ráðstafana, sem ætla má að barninu séu fyrir bestu, sbr. og 1. mgr. 3. gr. sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sem hefur lagagildi hér á landi, sbr. 2. gr. laga nr. 19/2013. Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti dæmist ekki, en um gjafsóknarkostnað áfrýjanda fer eins og greinir í dómsorði.   

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, K, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar 700.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 31. október 2014.

Mál þetta var höfðað 9. júlí 2014 og dómtekið 9. október 2014.

Stefnandi er barnaverndarnefnd Reykjavíkur en stefnda er K, [...], [...].

                Stefnandi krefst þess að stefnda verði svipt forsjá sonar síns, A, sem fæddur er árið 2006, sbr. a-, c- og d-lið 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

                Stefnda krefst sýknu af kröfu stefnanda. Þá krefst hún málskostnaðar eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Mál þetta hefur sætt flýtimeðferð samkvæmt XIX. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. fyrirmæli 53. gr. b í barnaverndarlögum nr. 80/2002.

I.

Málavextir

                Með úrskurði stefnanda barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 13. maí 2014 var ákveðið á grundvelli b-liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, að A, fæddur 2006, yrði vistaður á vegum nefndarinnar í allt að tvo mánuði frá þeim degi að telja. Með bókun sama dag var borgarlögmanni falið að gera þá kröfu, sem gerð er í máli þessu, að stefnda verði svipt forsjá drengsins á grundvelli a-, c- og d- liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga. Drengurinn lýtur sameiginlegri forsjá foreldra sinna en faðir hans átti við fíkniefnavanda að stríða og hafði því lítil sem engin samskipti við hann. Þau mæðgin hafa alla tíð búið í íbúð stefndu að [...]. Á árinu 2009 hóf stefnda sambúð með B sem flutti inn til þeirra. Saman eiga þau tvö börn C fædda 2011 og D fæddan 2013.

                Fyrir liggur samkvæmt gögnum málsins að Barnavernd Reykjavíkur hafði afskipti af málefnum drengsins á árinu 2011 í kjölfar 10 tilkynninga á tímabilinu júlí 2010 til maí 2011, sumar nafnlausar en aðrar frá ömmu drengsins, þar sem áhyggjum var lýst af aðstæðum hans, m.a. vegna vanrækslu á umsjón og eftirliti, drykkju á heimilinu og vegna andlegs og líkamlegs ofbeldis. Var m.a. vísað í frásögn drengsins um að kærasti mömmu hans væri alltaf að meiða hann. Stefnda var boðuð í viðtöl í tengslum við þessar tilkynningar en vísaði ásökunum um vanrækslu á bug. Eru skýringar hennar raktar, m.a. á því hvers vegna umhirða drengsins hefði breyst til hins verra. Viðurkenndi hún aðeins að reykt væri á heimilinu. Farið var í vitjun á heimili stefndu og m.a. gerð tilraun til að ræða við drenginn en án árangurs. Í tengslum við ofangreindar tilkynningar fór fram könnun máls í samræmi við 21. og 22. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 en í tengslum við hana og í samræmi við 43. og 44. gr. laganna var aflað gagna frá leikskólanum [...] þar sem drengurinn var í dagvistun. Fram kemur í bréfi frá leikskólanum, dagsettu 19. ágúst 2010, að drengurinn kæmi vel búinn en sl. mánuði hefði umhirðu hans verið ábótavant, hann hefði verið óhreinn og reykingalykt verið af honum og fötum hans. Samkvæmt upplýsingum leikskólans bar á reiðiviðbrögðum hjá drengnum við ákveðnar aðstæður. Hafi leikskólinn óskað eftir aðkomu þjónustumiðstöðvar vegna málörðugleika, tilfinningalegra erfiðleika og erfiðleika í félagatengslum. Greining lá fyrir 10. desember 2010 hjá sálfræðingi þjónustumiðstöðvar Laugardals og Háaleitis sem staðfesti ákveðna veikleika í mállegri færni drengsins auk þess sem erfiðleikar komu fram í tengslum við hegðan og líðan og þá sérstaklega í leikskólanum. Í bréfi sálfræðingsins er að finna tillögur í 11 liðum er lúta að stuðningi við drenginn og eru leiðbeinandi m.a. fyrir foreldra. Sérstaklega var tekið fram að mælt hefði verið með því við stefndu að hún sækti sér uppeldisfræðslu til að styrkja sig í foreldrahlutverkinu og var bent á tiltekið námskeið í því sambandi. Þá var drengnum vísað í nánari athugun til Talþjálfunar Reykjavíkur auk þess sem mál hans voru sett í farveg á leikskólanum í gegnum sérkennsluráðgjafa þjónustumiðstöðvar.

Eftir könnun barnaverndaryfirvalda var málinu lokað á þeim forsendum að um misfellur í aðbúnaði drengsins gæti verið að ræða en eigi væri unnt að staðfesta slíkt. Af þeim sökum var ekki talinn grundvöllur fyrir gerð áætlunar. Stefndu var hins vegar fylgt á þjónustumiðstöð þar sem sótt var um Stuðninginn heim, sem er þjónusta fyrir foreldra sem þurfa tímabundinn stuðning og ráðgjöf við uppeldi og umönnun barna sinna, en þjónustan er veitt á heimili fjölskyldunnar.

                Afskipti Barnaverndar Reykjavíkur hófust að nýju í október 2012 eftir að bréf barst frá skólastjóra [...]skóla þar sem lýst var verulegum áhyggjum af drengnum. Vísað var til sálfræðigreiningar frá árinu 2010 og hefði niðurstöðu í vitsmunaþroskaprófi svipað til frammistöðu barna með málhömlunarmynstur í þroska. Jafnframt kæmu fram erfiðleikar með hegðun og tilfinningar heima fyrir og í skóla. Mælt hafi verið með því að sótt væri um talþjálfun fyrir drenginn en umsókn hefði ekki borist enn. Hefði stefnda verið hvött til að sækja sér fræðslu og stuðning á tilteknu uppeldisnámskeiði en hún hafi ekki talið þörf á því þar sem hún hafði starfað á leikskóla. Þá var frá því greint að í umræðu við drenginn, um efni bókar sem lesin var fyrir hann, hafi hann sagt að mamma hans og B meiddu hann. Hafi hann lýst því frekar svo og annarri ofbeldisfullri hegðun B. Þá kvaðst hann látinn sofa einn í stofunni. Lýst var afar erfiðri hegðun drengsins í skóla og þáttökuleysi í öllu skólastarfi vegna hegðunarvandamála. Jafnframt væri félagsleg staða hans ekki góð í hópi skólafélaga.

                Bréfi þessu var fylgt eftir með símtali skólastjórans 5. nóvember 2012 og enn lýst áhyggjum af drengnum sem engan veginn gæti sinnt námi. Þroskaþjálfi hefði unnið með honum frá byrjun en drengurinn hafi greint henni frá því að hann og stefnda byggju við ofbeldi. Vísað var í samtal við þroskaþjálfann sem hafi staðfest frásögn drengsins en kvaðst þó ekki hafa séð áverka á drengnum. Þá kvaðst hún ítrekað hafa bókað viðtal hjá sálfræðingi á þjónustumiðstöð þar sem drengurinn færi í greiningu en stefnda hafi ekki mætt.

Vegna tilkynninga skólans kom stefnda til viðtals hjá Barnavernd Reykjavíkur hinn 16. nóvember 2012. Kvaðst hún ekki kannast við það sem kom fram í tilkynningum skólans og sagði ekkert ofbeldi eiga sér stað á heimilinu. Hún kvað B drekka en þó aðeins aðra hverja helgi. Jafnframt gaf hún skýringar á atvikum sem borin voru undir hana. Einnig greindi stefnda frá því að drengnum hefði verið vísað á Þroska- og hegðunarstöð til frekari greiningar en grunur væri um ADHD og kæmist hann þá á lyf. Þá kvaðst hún hafa sótt um talþjálfun og format hefði farið fram. Kvaðst stefnda geta hugsað sér að fá stuðningsfjölskyldu fyrir drenginn og nefndi í þessu sambandi frænku sína sem hann hefði verið mikið hjá á árunum 2009-2010. Kvað hún drenginn hafa verið mjög kvíðinn síðan afi hans dó á árinu 2010 og að hann syrgði hann mjög.

Í tengslum við könnun málsins leitaði stefnandi upplýsinga hjá ýmsum aðilum. Í bréfi skólastjóra [...]skóla frá 23. nóvember 2012 er lýst miklum áhyggjum af líðan og skólagöngu drengsins. Talin er brýn nauðsyn á því að bæði honum og foreldrum verði veittur stuðningur til þess að takast á við vanlíðan hans. Námsleg staða hans sé slæm og hann dragist mikið aftur úr. Lítil þjálfun eigi sér stað bæði í skóla og heima. Hvorki er fundið að umhirðu né aðbúnaði hans og hann mæti á réttum tíma í skólann. Í bréfi frá Heilsugæslunni [...], 27. nóvember 2012, kom fram að drengurinn hefði, í framhaldi af viðræðum við sálfræðing og greiningarferli í þjónustumiðstöð, fengið lyf vegna svefntruflana og tíðra næturþvagláta. Fram kemur að stefnda hafi leitað eftir stuðningi vegna talörðugleika drengsins og væri á biðlista. Hún hefði sinnt heilbrigðiseftirliti barnanna og hefði ekki vaknað grunur um áfengis- eða fíkniefnaneyslu foreldra. Í bréfi frá Þjónustumiðstöð Laugardals og Háaleitis frá 14. desember 2012 kom fram að stefnda hefði ekki mætt í boðað viðtal á árinu 2011 í tengslum við úrræðið Stuðninginn heim og hefði í tvígang verið reynt að ná í hana í síma en án árangurs. Stefnda hafi í júlí 2011 sótt um fjárhagsaðstoð og kom þá fram að hún teldi ekki þörf á að fá stuðning á heimilið. Stefndu var veitt fjárhagsaðstoð í apríl 2012 en hún mætti ekki í viðtal fyrr en í nóvember og kom þá fram að hún vildi gjarnan fá stuðningsfjölskyldu fyrir drenginn. Valdi hún til þess frænku sína. Þá kom fram að hún vildi gjarnan bæta samskipti sín við móður sína og fékk hún tíma hjá fjölskylduráðgjafa en stefnda afboðaði þann tíma síðar og var ekki óskað eftir nýjum tíma. Stefnda sótti tíma með A hjá sálfræðingi á þjónustumiðstöð vegna endurmats drengsins en nokkur misstyrkur kom fram hvað þroska hans varðaði. Var hann greindur með ADHD og einnig var einkennum á einhverfurófi lýst sem þó kynnu að tengjast erfiðleikum vegna ADHD-einkenna og tjáskiptavanda vegna málhömlunar. Mál drengsins voru sett í frekari farveg og var stefnda skráð á biðlista fyrir PMT-námskeið á þjónustumiðstöð en það er ætlað foreldrum sem eiga börn með hegðunarerfiðleika eða eru í hættu á að þróa með sér erfiða hegðun. Jafnframt voru boðin úrræðin Stuðningurinn heim og Ráðgjafinn heim en markmið þeirrar þjónustu er að veita faglega ráðgjöf og leiðbeiningar til einstaklinga með fötlun af margvíslegum toga er hafa þörf fyrir aðstoð og stuðning til að takast á við ýmis verkefni daglegs lífs. Þjónustan getur bæði farið fram á heimili viðkomandi og utan þess. Í niðurlagi bréfsins er tekið fram að stefnda hafi mætt í bókuð viðtöl er lúta að greiningarferli vegna A en önnur viðtöl hafi hún ekki mætt vel í. Að mati þjónustumiðstöðvar megi því ráða að líkur séu á því að erfitt yrði fyrir stafsmenn að fylgja málinu eftir í því skyni að tryggja drengnum þá þjónustu er Barnavernd telji að grípa þurfi til.

Niðurstöður Þroska- og hegðunarstöðvar Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins lágu fyrir 9. apríl 2013 og var A þá greindur með ADHD, málfrávík, kvíðaeinkenni, þá helst áráttu- og þráhyggjueinkenni, kæki, veikleika í málstarfi, álag í félagsumhverfi og sögu um svefntruflanir. Mælt var með áframhaldandi úrræðum og stuðningi í skóla, talþjálfun og að foreldrar sæktu námskeið í PMT-foreldrahæfni. Ýmsar tillögur ætlaðar foreldrum fylgdu bréfinu. Í kjölfar greiningarinnar óskaði skólastjóri [...]skóla eftir því að ástand A yrði metið hjá BUGL. Taldi hún það aðkallandi enda hefði hún miklar áhyggjur af drengnum.

                Hinn 10. apríl 2013 bárust enn upplýsingar frá skólastjóranum um að drengurinn talaði um að vilja ekki lifa lengur þar sem stefnda væri vond við sig, auk þess sem greint var frá því að hann ætti það til að sýna af sér áhættuhegðun á skólatíma eins og að hlaupa út á götu. Næsta dag barst nafnlaus tilkynning sama efnis. Fleiri tilkynningar bárust frá skóla drengsins í aprílmánuði 2013 og var það enn mat skólans að mikilvægt væri að meta ástand drengsins á BUGL. Hafi móðir veitt samþykki fyrir því. Lýstu starfsmenn skólans miklum áhyggjum af drengnum þar sem hann langaði til að deyja því að stefnda og sambýlismaður hennar væru vond við sig og til þess að geta verið „á himnum með afa sínum því að það væri svo leiðinlegt að lifa á jörðinni“.

Starfsmenn Barnaverndar Reykjavíkur fóru á heimili stefndu og ræddu við hana hinn 29. maí 2013. Um er að ræða litla íbúð með einu svefnherbergi. Stefnda neitaði því að ofbeldi ætti sér stað á heimilinu og kvað hún vanlíðan drengsins vera til komna vegna litarháttar hans. Stefndu var aftur bent á að gott væri að fá stuðning heim og ætlaði hún að skoða það.

Þrjár nafnlausar tilkynningar bárust Barnavernd Reykjavíkur í ágúst 2013 um að drengurinn væri beittur andlegu og líkamlegu ofbeldi af hálfu stefndu. Þá kom fram að hann gætti stundum einn tveggja yngri systkina sinna á meðan stefnda færi að versla.

Mál A var rætt á meðferðarfundi starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur 27. ágúst 2013 og var þar bókað að sökum alvarleika tilkynninganna væri nauðsynlegt að ræða við drenginn, án vitneskju stefndu. Gerð var tilraun til að ræða við drenginn í skóla en hann brást illa við, klóraði tvo starfsmenn skólans til blóðs og var ekki viðræðuhæfur. Næsta dag tókst að ræða við drenginn og lýsti hann því m.a. hvernig stefnda hefði rifið í hár hans og slegið hann í augað. Sagðist drengurinn einnig stundum gæta bróður síns, þá sex mánaða gamals, á meðan stefnda færi út ýmist í lengri eða skemmri tíma. Fékk hann þá leiðbeiningar um hvernig skyldi bera sig að með sex mánaða gamlan bróður sinn. A kvaðst ekki alltaf fá morgunmat og/eða kvöldmat og að stefnda bannaði honum að borða hádegismat í skólanum þar sem hún ætti ekki peninga til að borga fyrir skólamáltíðir. Þá tiltók hann að hann færi stundum til E frænku sinnar þar sem allir væru góðir við hann en þó væri ekki gaman að vera þar. Þegar drengurinn var spurður hvers hann myndi helst óska sér sagðist hann vilja deyja.

                Á meðferðarfundi starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur 2. september 2013 var bókað að gerð skyldi áætlun um meðferð máls skv. 23. gr. barnaverndarlaga auk þess sem lagt var til að drengurinn yrði vistaður á Vistheimili barna að Laugarásvegi og að þar skyldi fara fram greiningar- og kennsluvistun með stefndu. Einnig var lagt til að stefnda yrði aðstoðuð við að bæta tengsl sín við drenginn. Stefnda kom í viðtal hjá Barnavernd Reykjavíkur 18. september 2013 þar sem hún kvaðst ætla að vera til fullrar samvinnu og skrifaði undir áætlun um meðferð málsins. Á meðal þeirra atriða sem þar er gert ráð fyrir er að stefnda skuli fara í greiningar- og kennsluvistun, þiggja stuðningsúrræði, s.s. PMT-úrræðið, sjá til þess að A fari í talþjálfun, samþykkja sálfræðilegan stuðning fyrir drenginn og taka á móti starfsmönnum Barnaverndar Reykjavíkur í boðuðu og óboðuðu eftirliti.

                Þroskaþjálfi í skóla drengsins hafði samband símleiðis við Barnavernd Reykjavíkur þann 20. september 2013 og var aftur rætt við hann 24. sama mánuð. Fram kom að drengnum hefði liðið illa dagana þar á undan, hann hefði verið óhirtur, illa lyktandi og lagt hendur á fólk í kringum sig. Einnig greindi þroskaþjálfinn frá því að drengurinn talaði ítrekað um að vilja deyja. Starfsmaður Barnaverndar Reykjavíkur ræddi við drenginn 25. september 2013 og lýsti drengurinn þá vilja til þess að vera hjá móðurömmu sinni eða stuðningsfjölskyldu og óskaði hann þess að hægt væri að aðstoða stefndu við að hætta að vera reið.

                Í kjölfar þessa var rætt við stefndu um tímabundna vistun drengsins utan heimilis. Tók hún því vel og viðurkenndi að hegðun drengsins væri henni erfið. Stefnda samþykkti vistun drengsins utan heimilis, hjá frænku sinni og eiginmanni hennar sem stuðningsfjölskyldu frá 30. september 2013 til 30. desember 2013. Óskaði stefnda eftir því að hafa drenginn á afmæli hans og um jól. Á meðferðarfundi Barnaverndar Reykjavíkur þann 10. október 2013 var lagt til að gerður yrði umgengnissamningur við stefndu vegna drengsins í október og nóvember og væri hann þá hjá henni hvern laugardag frá kl. 14.00 til 19.00. Áður en umgengni færi fram var gert ráð fyrir eftirliti á heimilinu.

                Á meðferðarfundi starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur þann 31. október 2013 var lagt til að umgengni drengsins við stefndu yrði stytt vegna hans eigin vilja, sem m.a. hefði komið fram í samtali við sálfræðing hans. Þá var vísað til upplýsinga frá skóla um hegðun hans þar sem kvíði hans var áberandi vegna þess sem fram undan væri, svo sem jólanna. Rætt var við stefndu um þessa fyrirætlun en hún kvaðst ekki samþykk því að dregið yrði úr umgengni í því skyni að greina líðan drengsins. Á meðferðarfundi þann 7. nóvember 2013 var ákveðið í ljósi þeirrar stöðu sem upp var komin að leggja málið fyrir Barnaverndarnefnd Reykjavíkur. Þá yrði sótt um Greiningu og ráðgjöf á heimili stefndu og lagt til að stefnda og sambýlismaður hennar færu í forsjárhæfnismat. Stefndu var tilkynnt þetta 11. nóvember 2013 og jafnframt rætt við hana um stuðning inn á heimilið en stefnda taldi sig ekki þurfa á honum að halda. Undirritaði hún ekki nýja meðferðaráætlun. Þann 25. nóvember 2013 var mál drengsins enn tekið fyrir og var ákveðið að reynt yrði að ná samvinnu við stefndu um nýja meðferðaráætlun og vistun drengsins utan heimilis til 1. mars 2014 en kynfaðir drengsins hafði veitt samþykki fyrir sitt leyti. Í greinargerð starfsmanns Barnaverndar Reykjavíkur frá 28. nóvember 2013 komu fram tillögur í samræmi við þetta en á vistunartímanum skyldi fara fram forsjárhæfnismat stefndu og sambýlismanns hennar auk þess sem stefnda þægi Greiningu og ráðgjöf heim. Málið var lagt fyrir fund stefnanda 10. desember 2013 og samþykkti stefnda þá vistun utan heimilis í umræddan tíma, forsjárhæfnismat og meðferðaráætlun þar sem kveðið yrði á um að stefnda tæki á móti Greiningu og ráðgjöf heim. Var samþykkið bundið því skilyrði að umgengni yrði 5 klst. eins og verið hefði og óskað var eftir umgengni um jól, þ.e. 19. desember frá kl. 17.00 til 21.00 og á gamlárskvöld frá kl. 16.00 til 22.00. Skyldi meðferðaráætlunin gilda til 28. febrúar 2014.

                Þann 10. febrúar 2014 barst nafnlaus tilkynning um vanrækslu A og systkina hans í umsjá stefndu, m.a. vegna áfengisneyslu sambýlismanns hennar.

Málefni A voru rædd að nýju á meðferðarfundi starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur hinn 18. febrúar 2014. Þar kom fram að rætt hefði verið við stefndu um að framlengja vistun drengsins utan heimilis þar til forsjárhæfnismatið lægi fyrir en hún hefði alfarið hafnað því fyrirkomulagi. Á meðferðarfundi starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur 28. sama mánaðar var ákveðið að grípa til neyðarráðstöfunar skv. 31. gr. barnaverndarlaga vegna tilfinningalegra erfiðleika og vanlíðunar drengsins, og jafnframt sökum innlagnar hans á BUGL, en fagaðilar þar töldu brýnt að drengurinn byggi við stöðugleika í búsetu á tímabili innlagnar. Var drengurinn í framhaldinu kyrrsettur hjá vistunaraðilum til 4. mars 2014. Þann dag kvað stefnandi upp úrskurð á grundvelli b-liðar 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga um að drengurinn skyldi vistaður utan heimilis í tvo mánuði frá þeim degi að telja. Umgengni drengsins við stefndu féll niður um tíma en var endurvakin að hennar beiðni þann 29. mars 2014. Þá var ákveðin umgengni um páska á meðferðarfundi starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur þann 10. apríl 2014.

A var á göngudeild BUGL frá 6. mars til 23. maí 2014 en fram kemur í vottorði F læknis að unnið hafi verið út frá umhverfis- og atferlismeðferð þar sem áhersla hafi verið lögð á samskipti og virkni auk þess sem hafin var lyfjameðferð. Það hafi dregið úr hömlun drengsins.

Forsjárhæfnismat G sálfræðings lá fyrir 22. apríl 2014 Niðurstaða hans var sú að forsjárhæfni stefndu væri verulega skert sökum persónuleikabresta hennar og vangetu til að takast á við almenn samskipti, erfiðar aðstæður og álag. Kom fram að stefnda hefði lítið innsæi í eigin tilfinningar eða hegðun og ætti það til að sveigja sannleikann sér í hag. Hún ætti erfitt með tilfinningastjórn gagnvart börnum sínum og verulega skorti á alla samskiptafærni en hún ætti í deilum við flesta sem tengjast henni. Þá væri stefnda mjög hvatvís. Greind stefndu væri á tornæmisstigi og taldi sálfræðingurinn það skýra að einhverju leyti framangreinda erfiðleika. Stefnda var einnig talin hafa töluverða veikleika varðandi uppeldi drengsins, t.d. hafi hún átt í erfiðleikum með að sinna hreinlæti hans. Þá hafi hún ítrekað ekki mætt á boðaða fundi vegna málefna hans eða mætt of seint auk þess sem drengurinn hafi lýst ofbeldi af hennar hálfu. Stefnda setji einnig þarfir sínar framar þörfum barna sinna og láti deilur sínar við annað fólk bitna á drengnum. Niðurstaða sálfræðingsins um forsjárhæfni sambýlismanns stefndu var einnig á þá leið að hún væri verulega skert vegna viðhorfa hans og persónuleika. Vísbendingar væru um að hann drykki meira en hann vildi vera láta, hefði andfélagsleg viðhorf, viðhorf sem vikju frá almennum félagslegum gildum, sýndi mótþróa gagnvart yfirvaldi og væri ósamvinnuþýður. Þá er hann talinn hafa lítil tengsl við drenginn og takmörkuð tengsl við sín eigin börn. Var það mat sálfræðingsins að drengurinn þyrfti á sérstakri umönnun að halda, líklega vegna þroskavandamála og sálrænna vandamála, sem stefnda væri ófær um að sinna vegna þeirra persónuleikavandamála sem einkenna hana. Mat sálfræðingurinn það sem svo að í ljósi gagna um batnandi líðan og umhirðu drengsins í fóstri, sem og í ljósi alvarlegra ásakana um ofbeldi og vanrækslu á heimili stefndu, væri velferð drengsins best borgið í varanlegu fóstri.

Þann 13. maí sl. kvað stefnandi upp úrskurð um að drengurinn skyldi vistaður á heimili á vegum stefnanda í tvo mánuði frá þeim degi að telja auk þess sem ákveðið var að fela borgarlögmanni að annast fyrirsvar og gerð kröfu um forsjársviptingu stefndu, sbr. a-, c- og d-lið 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga. Til grundvallar þeirrar niðurstöðu lá það mat að úrræði barnaverndaryfirvalda hefðu ekki leitt til þess að uppeldisaðstæður á heimili stefndu yrðu fullnægjandi og var talið að stuðningsúrræði á grundvelli barnaverndarlaga myndu ekki megna að breyta uppeldisaðstæðum hjá stefndu. Þau væru því fullreynd. Á sama fundi stefnanda samþykkti kynfaðir drengsins að hann yrði vistaður utan heimilis þar til niðurstaða dómstóla í máli þessu lægi fyrir. Þá kom fram vilji hans til að drengurinn yrði í varanlegu fóstri til 18 ára aldurs hjá núverandi fósturforeldrum. Þar sem stefnda samþykkir ekki varanlega vistun drengsins til 18 ára aldurs var tekin ákvörðun um að fela borgarlögmanni að höfða þetta mál.

Eftir þingfestingu máls þessa fór stefnda fram á að nýtt forsjárhæfnismat yrði framkvæmt. Þegar litið er til hagsmuna í máli þessu ákvað dómari að samþykkja beiðni stefndu um dómkvaðningu matsmanns þrátt fyrir að um flýtimeðferðmál væri að ræða. Var H sálfræðingur dómkvaddur til þess að framkvæma hið umbeðna mat. Sálfræðileg matsgerð hans lá fyrir þann 5. október 2014. Fram kom að persónuleikapróf stefndu var ómarktækt og ekki túlkunarhæft þar sem réttmætismælikvarðar prófsins bentu til þess að hún hafi viljað gefa betri mynd af sér en efni stóðu til og viðurkenndi ekki misfellur í sínu fari sem algengt væri hjá fólki sem augljóslega vill fegra ímynd sína. Persónuleikapróf B var marktækt en sýndi tilhneigingu til að fegra ímynd sína og afneita neikvæðum þáttum í fari sínu. Talið var að niðurstöður bæri að túlka af varfærni þar sem svörum bæri ekki fyllilega saman við forsögu.

Að mati sálfræðingsins er ljóst að þeir erfiðleikar sem hafi verið til staðar hafi reynt talsvert á veikleika stefndu þar sem hún virtist oft úrræðalítil og hvatvís og hafi átt það til að reiðast þegar A sýndi erfiða hegðun. Hún hafi sýnt ákveðna styrkleika og virtist hafa ágætt innsæi gagnvart sérþörfum A í þroskafræðilegu samhengi. Persónugerð hennar sjálfrar virðist hins vegar einkennast af tortryggni, mótþróa og ósveigjanleika þegar hún stæði frammi fyrir gagnrýni og aga. Hafi hún því tilhneigingu til að vera í varnarstöðu og afneitað gagnrýni á eigin hegðun. Þá virðist hún vera tölvuvert hvatvís þar sem skortir á getu og hæfni til að hugsa lengra en líðandi stund og sjá afleiðingar aðgerða. Eiginleikar þessir séu líklegir til að ýta undir erfiðleika í samskiptum. Þeir rýra að mati sálfræðingsins að einhverju marki forsjárgetu stefndu en séu þó ekki þess eðlis að hún teljist óhæf til að sinna daglegri umönnun A með hliðsjón af aldri hans og þroska. Hvað varðar B þá er hann talinn búa yfir veikleikum sem séu umtalsverðir í uppeldislegu tilliti en virðist þó ekki vera þess eðlis að hann sé ófær um að sinna daglegri umönnun A.

Við aðalmeðferð málsins kom stefnda fyrir dóminn, B sambýlismaður stefndu, G sálfræðingur, I starfsmaður Barnaverndar Reykjavíkur, F læknir á BUGL, J þroskaþjálfi, K talsmaður A og H sálfræðingur.

Dómarar ræddu ekki við drenginn fyrir aðalmeðferð málsins en að virtum þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu var talið ólíklegt að það myndi þjóna tilgangi og til þess eins fallið að auka á vanlíðan drengsins.

II.

Málsástæður og lagarök stefnanda

                Stefnandi vísar til þess sem rakið er í stefnu um málavexti og aðdraganda þessa máls sem leiddi til þess að stefnandi fól borgarlögmanni, með bókun 13. maí 2014, að gera þá kröfu að stefnda verði svipt forsjá drengsins á grundvelli a-, c- og d-liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga. Hafi þessi ákvörðun verið tekin með hliðsjón af ítrekuðum tilkynningum um vanlíðan drengsins, vanrækslu á honum í umsjá stefndu og vegna gruns um að hann væri beittur andlegu og líkamlegu ofbeldi á heimili stefndu svo og með tilliti til niðurstöðu forsjárhæfnismats á stefndu. Úrræði barnaverndaryfirvalda hefðu ekki leitt til þess að uppeldisaðstæður á heimili stefndu yrðu fullnægjandi og var talið að stuðningsúrræði á grundvelli barnaverndarlaga myndu ekki megna að breyta uppeldisaðstæðum hjá stefndu og væru þau því fullreynd. Að mati stefnanda væri mikil áhætta tekin gagnvart barninu ef fallist yrði á kröfu stefndu um að fá barnið í sína forsjá.

Stefnandi telur að daglegri umönnun, uppeldi og samskiptum stefndu og drengsins sé alvarlega ábótavant með hliðsjón af aldri hans og þroska. Líkur séu á því að drengurinn megi þola alvarlega andlega eða líkamlega áreitni eða niðurlægingu á heimilinu og fullvíst er að andlegri heilsu drengsins og þroska hans er hætta búin þar sem breytni stefndu er til þess fallin að valda drengnum alvarlegum skaða. Með hliðsjón af þessu telur stefnandi að skilyrði a-, c- og d-liðar 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga séu uppfyllt í máli þessu. Frekari rökstuðningur fyrir heimfærslu undir ofangreinda liði kom fram í málflutningi lögmanns stefnanda.

Stefnandi telur að gögn málsins sýni, svo ekki verði um villst, að stuðningur samkvæmt barnaverndarlögum sé fullreyndur. Þrátt fyrir að ítrekað hafi verið reynt að veita stefndu aðstoð við að bæta forsjárhæfni sína hafi það ekki leitt til framfara þar að lútandi og greinilegt sé að drengnum líði illa í umsjá hennar auk þess sem hegðun hans og geta til að umgangast aðra versni í kjölfar þess að hann dvelur hjá henni. Virðist afar mikið skorta á innsýn stefndu í þá annmarka sem eru á uppeldisaðferðum hennar og samskiptum við drenginn og virðist hún ekki fær um að tileinka sér þær aðferðir sem henni hafa verið kenndar til að bæta sig. Stefnda njóti afar takmarkaðrar aðstoðar við uppeldi barna sinna af hálfu sambýlismanns síns, allra síst hvað varðar A, og þá tekur stefnda hagsmuni sína fram yfir hagsmuni drengsins. Ljóst sé af gögnum málsins, og forsjármati G sálfræðings, að forsjárhæfni stefndu sé verulega skert og að hagsmunir drengsins séu ekki tryggðir hjá stefndu.

Þann tíma sem drengurinn hafi verið vistaður utan heimilis sýni hann takmarkaðan vilja til að vera í samskiptum við stefndu. Ljóst sé að um mikinn samskiptavanda sé að ræða af hálfu stefndu sem ekki hafi tekist að leysa þrátt fyrir tilraunir fagaðila sem að málinu hafa komið. Í viðtölum við talsmann sinn hafi drengurinn lýst því yfir að hann vilji dveljast hjá þeim aðilum sem vista hann nú og telur stefnandi rétt að hafa hliðsjón af þessum vilja drengsins, sbr. 2. mgr. 46. gr. barnaverndarlaga.

Það sé mat stefnanda að drengurinn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður í umsjá stefndu og að þær stuðningsaðgerðir sem reyndar hafa verið ítrekað á grundvelli barnaverndarlaga nr. 80/2002 hafi ekki megnað að breyta því ástandi. Þar sem brýnt sé að tryggja drengnum öryggi, stöðugleika og viðunandi uppeldisskilyrði, sé það mat stefnanda að hagsmunum hans sé best borgið með því að stefnda verði svipt forsjá sinni yfir honum.

Það séu grundvallarréttindi barna að búa við stöðugleika í uppvexti og þroskavænleg skilyrði. Stefnandi telur að það hafi sýnt sig að stefnda sé óhæf til að tryggja syni sínum þá vernd og umönnun sem hann eigi skýlausan rétt á. Forsjárréttur foreldra takmarkist af þeim mannréttindum barna að njóta forsvaranlegra uppeldisskilyrða. Þegar hagsmunir foreldris og barns vegist á, séu hagsmunir barnsins, hvað því sé fyrir bestu, þyngri á vogarskálunum. Í því máli sem hér um ræði sé drengnum fyrir bestu að alast upp við stöðugleika og umhyggju og séu þeir hagsmunir þyngri en hagsmunir stefndu. Þessi regla sé grundvallarregla í íslenskum barnarétti og komi einnig fram í þeim alþjóðlegu sáttmálum sem Ísland sé aðili að. Hinu opinbera sé skylt að veita börnum vernd svo sem fyrir er mælt um í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, barnaverndarlögum nr. 80/2002 og lögum um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins nr. 19/2013. Þá eigi reglan sér einnig stoð í 2. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og í alþjóðasamningi Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi sem Ísland hafi fullgilt.

III.

Málsástæður og lagarök stefndu

Stefnda telur málavaxtalýsingu í stefnu og í úrskurði barnaverndarnefndar Reykjavíkur þegar tekin er ákvörðun um að krefjast forsjársviptingu einhliða og að þar sé ekki greint frá báðum hliðum málsins. Þá sé málavaxtalýsing afar ýkt hvað varði annmarka á forsjárhæfni stefndu ef miðað sé við þau gögn sem liggja henni til grundvallar. Rekur stefnda í greinargerð athugasemdir sínar þar að lútandi.

Af gögnum málsins megi sjá að A þjáist af verulegum geðrænum erfiðleikum. Stefnda telji sig hafa gert það sem hún hafi getað til þess að hjálpa A við að takast á við vandamál í samvinnu við skóla og fagfólk. Hún hafi í öllum meginatriðum fengið og nýtt þá þjónustu sem í boði hafi verið fyrir A. Í undantekningartilvikum hafi stefnda ekki getað farið með barnið í þá tíma sem það þurfi að sækja vegna veikinda annarra barna sinna.

Þá virðist mega ráða af gögnum málsins að tilfinningalegt ástand A hafi batnað á undanförnum mánuðum. Í stefnu sé því haldið fram að það sé fyrst og fremst því að þakka að drengurinn hafi verið vistaður utan heimilis undanfarna mánuði. Því sé stefnda verulega ósammála. Stefnda telur að í kjölfar þess að drengurinn hafi farið í meðferð á BUGL, barna- og unglingageðdeild Landspítalans, hafi framfarir verið verulegar.

Einnig megi sjá af gögnum málsins að verulegir hegðunarerfiðleikar séu enn til staðar hjá drengnum sem hafi leitt til þess að hann var vistaður á BUGL og fékk viðeigandi lyfjameðferð. Telur stefnda því að hegðunarerfiðleikar barnsins hafi ekkert með aðstæður á heimili hennar að gera, heldur fyrst og fremst með skapgerð barnsins að gera og þá bresti sem til staðar séu.

Samskipti stefndu við skóla og aðra fagaðila hafi að mestu leyti verið góð og megi sjá það af gögnum málsins. Þá megi sjá að aðstæður á heimili stefndu hafi í flestum tilvikum verið afar góðar þegar þær hafi verið kannaðar af hálfu barnaverndaryfirvalda og jafnframt komi fram í samtali starfsmanns þeirra, sem stefndu hafi verið ókunnugt um, að honum líði vel heima hjá sér og lýsi samskiptum sínum við sambýlismann stefndu. Þá virðist A ekki alltaf líða vel í fóstri, hann viðist sakna fjölskyldu sinnar og hafi lýst því að honum finnist leiðinlegt á fósturheimili og vilji fara aftur heim til móður sinnar.

Stefnda telji sig hafa gott stuðningsnet og nefnir í þessu sambandi fjölskyldu sambýlismanns síns, ýmsa góða vini þeirra og frændur og frænkur úr föðurfjölskyldu. Stefnda viðurkenni að hún sé ekki fullkomin móðir. Hún telur hins vegar þær tilkynningar sem sendar hafa verið barnaverndaryfirvöldum ekki í samræmi við sannleikann. Stefnda telur að einstakir ættingjar hennar, sérstaklega móðir hennar, sendi tilhæfulausar tilkynningar til barnaverndarnefndar. Þá vísar stefnda til þess að tengsl hennar og A séu veruleg en það komi fram í gögnum málsins og niðurstöðum í forsjárhæfnismati.

Þegar krafa stefnanda er metin sé einnig nauðsynlegt að líta til þess að verulegar líkur séu á því að tengslarof verði milli annarra barna stefndu og A verði hún svipt forsjá barnsins. Stefnda telur gögn málsins sýna að veruleg tengsl séu milli barnanna.

Umgengni á meðan barnið hefur verið í vistun utan heimilis hefur gengið að mestu leyti vel þó að stefnda telji ákvarðanir um skertan umgengnistíma hennar við barnið ekki eðlilegar.

Stefnda krefst þess að kröfu stefnanda, um að hún verði svipt forsjá, verði hafnað og telur hana andstæða hagsmunum sonar síns. Skilyrði 29. gr. barnaverndarlaga séu ekki uppfyllt svo hægt sé að svipta stefndu forsjá. Styðja eigi stefndu til þess að fá A aftur inn á heimili stefndu, barni og foreldri til hagsbóta. 

Hvað varði a-lið 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga telur stefnda gögn málsins sýna að hún geti séð um A með viðeigandi stuðningi. Hún hafi samþykkt að sækja námskeið í foreldrafærni að áeggjan starfsmanna barnaverndar og í samræmi við áætlun um meðferð máls og hafi sótt það vel. Telur stefnda námskeiðið ekki hafa nýst sér þar sem drengurinn hafi ekki verið inni á heimili hennar eins og alvanalegt er þegar farið sé á námskeið af þessu tagi. Varðandi þann hluta ákvæðisins um samskipti foreldra og barns telur stefnda að þeim sé ekki ábótavant.

Hvað varði c-lið 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga virðist sem byggt sé á andlegri áreitni stefndu gagnvart barninu og jafnvel að barninu sé misþyrmt líkamlega. Ítrekað hafi verið rætt við A á undanförnum mánuðum meðan á meðferð málsins hefur staðið. Af gögnum málsins megi sjá að frásagnir hans af meintri vanrækslu og líkamlegu ofbeldi hafi í raun breyst frá mánuði til mánaðar. Stefnda telur að upplifun hans á vanrækslu og ofbeldi sé öðru fremur viðleitni stefndu til þess að hafa hemil á barninu og beita það aga. Þá sé einnig ljóst að A eigi það til að taka æðisköst og getur verið af þeim sökum nauðsynlegt að halda honum við slík tækifæri til þess að koma í veg fyrir að hann skaði sig eða aðra. Þegar framburður hans að þessu leyti sé metinn telur stefnda að líta verði til aldurs barnsins sem og þeirra erfiðleika sem hann eigi við að etja og því sé ekki unnt að taka orð hans bókstaflega að öllu leyti. Stefnda telur engin raunveruleg gögn, önnur en orð barnsins, benda til þess að hún eða sambýlismaður hennar hafi beitt barnið líkamlegu ofbeldi. Þá hafi engin kæra verið gefin út á hendur stefndu eða sambýlismanns vegna ofbeldis gegn drengnum.

Hvað varði d-lið 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga sé ljóst af forsjárhæfnismati að hvorki stefnda né sambýlismaður hennar þjást af geðrænum truflunum. Stefnda sé ósammála niðurstöðu mats um að hún sé með svo skerta greind sem þar greinir en telur að jafnvel þótt niðurstaða prófsins sé rétt eigi það ekki að leiða til þess að hún verði svipt forsjá barnsins. Jafnframt verði að líta til þess að sambýlismaður stefndu sé með greind töluvert yfir meðallagi og ætti því að geta vegið upp á móti hugsanlegri greindarskerðingu stefndu við uppeldi barna þeirra.

Á BPI-persónuleikaprófi komi skýrlega fram að engin vandamál hafi komið fram miðað við niðurstöðu prófsins ef frá er talin sjálfsfegrun sem sé alvanaleg í málum af þessu tagi. Í niðurstöðukafla í matsgerð sé því jafnframt haldið fram að stefnda sé haldin ýmiss konar skapgerðarbrestum og óskilgreindum persónuleikavandamálum sem umræddur matsmaður telji að séu til staðar og skerði forsjárhæfni hennar. Stefnda telji matið haldið verulegum göllum þegar látið sé liggja á milli hluta að greina nákvæmlega umrædda persónugalla eða skapgerðarbresti og byggja jafnframt mat á forsjárhæfni að stórum hluta á þessari óljósu greiningu.

Þegar forsjársvipting samkvæmt þessu ákvæði sé metin sé nauðsynlegt að líta til þess að stefnda sé talin fullkomlega hæf til þess að hafa önnur börn sín inni á heimilinu án þess að nokkrar athugasemdir séu gerðar við uppeldi hennar á þeim börnum. D-liður 1. mgr. 29. gr. er orðaður með þeim hætti að ef hann á við um aðstæður aðila hljóti viðkomandi að vera óhæfur til þess að fara með forsjá hvaða barns sem er. Orðalagið er almennt og snýr ekki að samskiptum eða erfiðleikum milli barns og foreldris heldur fyrst og fremst að því að eiginlegar foreldris séu þess eðlis að það sé ekki hæft til að fara með forsjá barna. Telur stefnda því skilyrði ákvæðisins ekki uppfyllt þar sem stefnda telst almennt hæf til þess að fara með forsjá barna.

Skylda hvíli á Barnavernd Reykjavíkur skv. 1. mgr. 41. gr. barnaverndarlaga, 1. mgr. 56. gr. s.l. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 til að sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en tekin sé ákvörðun í því. Stefnda telur stjórnvaldið ekki hafa sinnt skyldu sinni áður en starfsmenn Barnaverndar ákveða að leggja til forsjársviptingu skv. 29. gr. laganna. Fjölmörg atriði hafi ekki verið könnuð til hlítar. Í fyrsta lagi hafi átt að kanna forsjárhæfni stefndu og heimilisaðstæður nánar áður en lagt hafi verið til að svipta stefndu forsjá. Stefnda telur til að mynda að það mat sem gert var á henni sé ekki nægilega ítarlegt og að mörgu leyti sé órökstutt hvers vegna matsmaður telur forsjárhæfni skerta. Af þessu tilefni óskaði stefnda eftir dómkvaðningu matsmanns til að framkvæma nýtt mat. Í öðru lagi hafi ekki verið kannað til hlítar hver afstaða barnsins til búsetu sé en starfsmenn stefnanda og talsmaður barnsins hafi nær undantekningarlaust ekki náð neinu eða lágmarkssambandi við drenginn. Staðhæfingar hans um vilja til búsetu séu því misvísandi eða óljósar. Stefnda telur að einhver þeirra fagmanna sem hafi séð um barnið á undanförnum mánuðum og það þekki og treystir hefði átt að vera valinn í það verkefni að fá fram afstöðu barnsins.

Á stefnanda hvíli sú skylda, skv. 2. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga og 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að gera ekki kröfu um sviptingu forsjár fyrir dómstólum nema ekki sé unnt að beita öðrum og vægari úrræðum til úrbóta eða slíkar aðgerðir hafi verið reyndar án viðunandi árangurs.

Þrátt fyrir að einhverjar vægari aðgerðir hafi verið reyndar á undanförnum mánuðum og árum telur stefnda augljóst að þær aðgerðir séu ekki fullreyndar. Í því augnamiði megi líta til þess að mál þetta hafi verið til meðferðar í verulega skamman tíma. Hafi í raun aldrei verið gerð tilraun til þess að koma barninu aftur inn á heimili stefndu frá þeim tíma þrátt fyrir að hún sé með önnur börn sín athugasemdalaust á heimilinu. Fyrsta áætlun um meðferð máls hafi síðan verið gerð á haustdögum 2013, örfáum mánuðum áður en samþykkt er af hálfu barnaverndarnefndar Reykjavíkur að gera kröfu fyrir dómstólum um sviptingu forsjár gagnvart stefndu. Stefnda telur að stefnandi hafi ekki uppfyllt þær kröfur sem gerðar eru gagnvart stjórnvaldinu um að láta alla meðferð málsins þegar barn er vistað utan heimilis stefna að því að barnið komi aftur inn á heimili. Stefnda telur að það hefði átt að láta reyna á búsetu barnsins hjá stefndu, sérstaklega samhliða því að barnið fór inn á BUGL í meðferð þar. Hafi þar verið fullkomið tækifæri til þess að láta reyna á forsjárhæfni stefndu. Hægt hefði verið að hafa verulegt eftirlit fyrst um sinn, stuðning inni á heimilinu og jafnvel stuðningsfjölskyldu sem barnið þekkt, t.d. núverandi fósturfjölskyldu, sem hefði getað tekið barnið reglulega til þess að hvíla fjölskylduna. Ekkert af þessu hafi verið reynt. Telur stefnda af þeim sökum augljóst að skilyrði meðalhófsreglu sé ekki uppfyllt.

Verði komist að þeirri niðurstöðu að nauðsynlegt sé að vista barnið lengur utan heimilis telur stefnda þrátt fyrir það að skilyrði meðalhófsreglu séu ekki uppfyllt. Stefnda telur að ef komist verður að þeirri niðurstöðu hefði átt að vista barnið tímabundið utan heimilis með vísan til 27. gr. barnaverndarlaga. Telur stefnda því ekkert benda til þess að skilyrði meðalhófsreglu stjórnsýslu- og barnaverndarlaga séu uppfyllt í máli þessu.

Stefnda byggir kröfu um sýknu á barnaverndarlögum nr. 80/2002, m.a. 29., 41. og 56. gr. laganna. Stefnda byggir einnig á 10. og 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Krafa um málskostnað styðst aðallega við 60. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

IV.

Niðurstaða

                Í máli þessu er til úrlausnar krafa stefnanda um að stefnda, K, verði svipt forsjá 8 ára gamals sonar síns, A á grundvelli a-, c- og d- liða 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Um er að ræða það úrræði sem gengur lengst af lögmæltum úrræðum laganna. Til þess að réttlætanlegt sé að beita úrræðinu þurfa að liggja fyrir sérstaklega ríkar ástæður sem taka mið af hagsmunum og þörfum barnsins. Auk þess þarf að liggja fyrir að vægara úrræði hafi ekki dugað til að tryggja hagsmuni þess. 

                Í a-lið 1. mgr. 29. gr. barnaverndarlaga er barnaverndarnefnd veitt heimild til að krefjast þess fyrir dómi að foreldrar skuli sviptir forsjá telji nefndin að daglegri umönnun, uppeldi eða samskiptum foreldra og barns sé alvarlega ábótavant með hliðsjón af aldri þess og þroska. Samkvæmt c-lið málsgreinarinnar, telji nefndin að barninu sé misþyrmt, misboðið kynferðislega eða það megi þola alvarlega andlega eða líkamlega áreitni eða niðurlægingu á heimilinu og samkvæmt d-lið, telji hún fullvíst að líkamlegri eða andlegri heilsu barns eða þroska þess sé hætta búin sökum þess að foreldrar eru ljóslega vanhæfir til að fara með forsjána, svo sem vegna vímuefnaneyslu, geðrænna truflana eða greindarskorts eða vegna þess að breytni foreldranna sé líkleg til að valda barni alvarlegum skaða. Ekki er um tæmandi talningu þeirra atvika að ræða sem geta valdið því að líkamlegri eða andlegri heilsu barns eða þroska þess sé hætta búin.

Í þessu sambandi nægir að uppfylltur sé einn af ofantöldum stafliðum 1. mgr. 29. barnaverndarlaga. Samkvæmt 2. mgr. 29. gr. skal kröfu um sviptingu forsjár því aðeins gera að ekki sé unnt að beita öðrum og vægari úrræðum til úrbóta eða slíkar aðgerðir hafi verið reyndar án viðundandi árangurs.

                Á meðal gagna máls þessa eru fjölmörg gögn, m.a. um afskipti og aðkomu barnaverndaryfirvalda að máli þessu og þau úrræði sem gripið hefur verið til af þeirra hálfu í þeim tilgangi að styrkja stefndu til að gegna forsjár- og uppeldisskyldum sínum. Þá er að finna gögn frá leikskóla og sér í lagi grunnskóla A um hegðun hans, líðan og aðbúnað. Einnig eru á meðal gagna málsins tvær sálfræðilegar matsgerðir sem aflað var af stefnanda annars vegar og stefndu hins vegar en til þeirra var vísað í kafla um málavexti. Ekki þykja efni til að rekja allt það sem fram kom í skýrslu stefndu og vitna í málinu en vikið verður að einstökum atriðum eftir því sem ástæða þykir til.

                Eins og rakið hefur verið á málið nokkra forsögu en tilkynningar bárust Barnavernd Reykjavíkur á árunum 2010 og 2011, um vanrækslu, skort á umönnun og grunsemdir um að A væri beittur líkamlegu og andlegu ofbeldi af stefndu og sambýlismanni hennar. Málinu var lokað eftir að könnun hafði farið fram en sótt var um úrræðið Stuðninginn heim hjá þjónustumiðstöð. Það úrræði nýtti stefnda sér ekki en fyrir liggur í gögnum málsins og er staðfest af stefndu og sambýlismanni hennar að á þessum tíma hafi sambýlismaður stefndu átt við áfengisvanda að stríða. Hafði lögregla þá afskipti af honum, m.a. á þeim tíma er stefnda var barnshafandi. Fyrir liggur að móðir stefndu og nágrannar höfðu verulegar áhyggjur af þróun mála og voru á meðal þeirra sem stóðu að tilkynningum til lögreglu. Kom fram í skýrslu af stefndu fyrir dómi að kaflaskil hefðu orðið í samskiptum hennar og móður hennar þegar hún hóf sambúð með B en fram að þeim tíma hefði hún verið henni stuðningur og þá sérstaklega í tengslum við A. Tengsl drengsins við blóðföður sinn voru engin en frænka stefndu E, nú fósturmóðir, var mikið með drenginn að ósk stefndu.

                Á þessum árum var þegar orðið ljóst að A glímdi við fjölþættan vanda. Áberandi voru málörðugleikar hans, tilfinningalegur vandi og erfiðleikar við að mynda félagsleg tengsl og var máli hans vísað á þjónustumiðstöð af leikskóla. Greining á árinu 2010 og árinu 2011 leiddi í ljós verulega veikleika sem áður segir. Vandi hans varð æ meira áberandi og samskipti við önnur börn fóru versnandi þegar í grunnskóla var komið. Þrátt fyrir leiðbeiningar þjónustumiðstöðvar og barnaverndaryfirvalda var eftirfylgni stefndu verulega ábótavant og hún þáði ekki stuðning inn á heimilið. Aðstæður hennar voru þó vissulega erfiðar á þessum tíma auk þess sem hún eignaðist barn á árinu 2011.

                Mál A kom til kasta Barnaverndar Reykjavíkur eftir bréf skólastjóra [...]skóla frá 18. október 2012. Þá fór að bera á áhættuhegðun drengsins á árinu 2013 og sjálfsvígshugsanir hans urðu áberandi bæði í skóla og heima fyrir en þá lá greining fyrir um ADHD-einkenni. Fram kemur í gögnum málsins og var staðfest fyrir dómi af J þroskaþjálfa, sem hefur haft með málefni A að gera frá því að hann byrjaði í [...]skóla, að vanlíðan drengsins hafi verið það mikil að hann hafi nánast ekkert getað lært í tvö ár. Hafi hann einfaldlega ekki ráðið við venjulegar aðstæður. Hann hafi jafnframt verið mjög á varðbergi gagnvart því sem hann taldi ekki þóknanlegt stefndu. Hann hafi átt mjög erfitt með að ræða persónulega hluti en hafi þó greint henni frá því sem síðar var tilkynnt. Í gegnum lestur bóka hafi hann sagt frá vanlíðan sinni og að stefnda og B meiddu hann.

Eins og ástatt var með drenginn var talin brýn nauðsyn að greina vanda hans og undirritaði stefnda meðferðaráætlun 2. september 2013 sem m.a. laut að því að styrkja uppeldishæfni hennar og efla stuðning við heimilið í þeim tilgangi að mæta sérþörfum A. Vegna bersýnilegrar vanlíðunar drengsins var ákveðið að vista hann tímabundið utan heimilis hjá stuðningsfjölskyldu sinni, E og eiginmanni hennar L, frá 30. september 2013 og var það í fyrstu í fullri samvinnu við stefndu. Hefur stefnda aðeins verið í takmarkaðri umgengni við hann síðan þá. Ástæða vistunarinnar var ekki síst sú að breytingar til hins betra sáust á drengnum í skólanum þegar hann kom frá stuðningsfjölskyldu.

Á þeim tíma undirritaði stefnda meðferðaráætlanir þar sem gert var ráð fyrir því að hún fengi Greiningu og ráðgjöf heim en í skýrslu þeirra kemur fram að þegar upp var staðið taldi stefnda ekki þörf á að fá stuðning inn á heimili sitt fyrr en drengurinn kæmi aftur úr fóstri. Einnig má sjá að oftar en ekki var ekki unnt að fá hana til viðtals hjá Barnavernd Reykjavíkur. Kom ítrekað fyrir að hún mætti ekki í boðaða tíma eða svaraði ekki í síma. Í skýrslu I, starfsmanni Barnaverndar Reykjavíkur, kom fram að stefnda hefði hvað þetta varðar ekki sýnt samstarfsvilja.

Eftir að A var kominn í tímabundið fóstur varð jákvæðra breytinga vart. Samkvæmt upplýsingum frá J virtist hann þó kvíða jólunum og kvaðst „hata jólin“. Hann hafi þó sýnt miklar og jákvæðar breytingar og var farinn að lita og teikna sem var nokkuð sem hann ekki gerði áður. Þá kemur fram í staðfestingu frá skóla, frá 31. október 2013, að greinilegur munur væri á líðan barnsins til hins betra. Hann væri glaðari, tjáði sig meira og væri ánægðari með sjálfan sig. Um námslega stöðu segir að hann hafi sýnt töluverðar framfarir og aukinn áhuga á náminu. Félagsleg staða hans hafi batnað og þó að upp komi árekstrar á milli hans og annarra barna heyri til undantekninga að hann beiti börn líkamlegu ofbeldi. Fram kom að kvíða gætti hjá A gagnvart jólunum og óöryggi varðandi framtíðina.

Í gögnum koma jafnframt fram upplýsingar frá sálfræðingi stefnanda um að virtist sem A líði vel á fósturheimilinu, hann sýni meira traust en áður en tjái sig lítið. Hann forðist að ræða um móður sína og þegar hann er spurður um samskipti við hana beri hann fyrir sig gleymsku eða svari að allt sé fínt. Þá spyrji hann hversu margir dagar séu eftir af vistuninni og svo virðist sem hann vilji ekki fara til móður sinnar nema í stuttar heimsóknir í einu. Einnig velti hann mikið fyrir sér framhaldi mála og tali um „að þegar hann væri búinn að vera 90 daga hjá vistunaraðilanum vildi hann vera 1000 daga í viðbót“.

Samkvæmt gögnum virtist koma bakslag hjá A í byrjun nóvember 2013. Ekki er vitað hvað kom honum úr jafnvægi en hegðun hans fór versnandi. Fyrir kom að hann tók köst og beitti ofbeldi þegar reynt var að hafa hemil á honum. Ljóst er þó af gögnum að hann fékk skilaboð í umgengni við stefndu sem hann vissi ekki hvernig hann átti að vinna úr og voru til þess fallin að valda honum hugarangri. Fram kom í skýrslu J og I að sjáanlegar breytingar hafi verið á A eftir að hann kom úr umgengni. Þá kvað I hann hafa hann komist upp á lagið með að láta illa í skólanum, enda vissi hann að þá yrði hringt í E og hann yrði sóttur. Þegar hún hafi komið og sótt hann hafi drengurinn ljómað og glaður farið með henni. Vegna hegðunar drengsins þrýsti skólinn á fyrirhugaða daginnlögn á BUGL en þar var hann frá 6. mars til 23. maí 2014.

                Samkvæmt gögnum frá Talþjálfun Reykjavíkur mældist málþroski A mjög slakur. Vegna hegðunar hans var á tímum ekki hægt að prófa hann og hann sýndi ekki samvinnu. Unnt var að prófa hann í júní og júlí 2014 og voru niðurstöður prófa þær að málþroski reyndist eðlilegur og orðaforði rétt undir meðallagi jafnaldra hans. Talþjálfun var í framhaldinu ekki talin nauðsynleg en þörf væri á að styðja vel við drenginn með það að markmiði að auka orðaforða hans og styðja málþroskann. Samkvæmt prófum á málþroska hefur drengurinn, frá því að hann fór í fóstur, farið frá því að mælast með málhömlun yfir í eðlilegan málþroska.

Upplýsingar frá [...]skóla sem mótteknar voru 2. október 2014 bera með sér að mikil umskipti hafa orðið á A á milli ára. Líkja skólayfirvöld breytingunum við kraftaverk. Fram kemur að hann sé allt annar drengur, spjalli og biðji um hjálp. Ljótt orðbragð sem var mjög algengt hafi ekki heyrst um haustið. Félagslega sé hann sterkari og lendi í fáum árekstrum en áður hafi ofbeldisleg hegðun verið algeng og árekstrar daglegt brauð. Staðfesti J þetta fyrir dóminum og lýsti þeim jákvæðu breytingum sem hún hefði upplifað á drengnum.

Fram kom í skýrslu stefndu fyrir dómi að A væri allt annar drengur í dag. Undir það mat tók B sambýlismaður hennar í sinni skýrslu sem kvað drenginn hafa breyst enda hafði hann fengið það sem hann þyrfti. Rekja þau breytingarnar til þeirra lyfja sem hann fékk á BUGL en ekki til fósturvistunarinnar sem slíkrar. Telur stefnda að hún eigi að fá tækifæri til þess að ala upp drenginn. Þá kom fram hjá stefndu að hún teldi sig og sambýlismann sinn ekki þurfa á utanaðkomandi stuðningi að halda en hún myndi ekki slá hendinni á móti honum ef til kæmi. Þá kom fram að hún væri ekki fylgjandi því að A hefði samskipti við ömmu sína og telur þau óæskileg. Kvaðst hún þó sætta sig við E sem stuðningsforeldri áfram enda ljóst að drengurinn hefði tengst henni undanfarið ár. Hins vegar vildi drengurinn vera hjá henni og systkinum sínum. Hvað varðar framtíðarbúsetu kvað stefnda aðspurð líklegt að fjölskyldan flytti í annað sveitarfélag og hafi Selfoss verið ofarlega í huga þeirra.

B kannaðist við að hafa haldið sig til baka í uppeldi A enda væri hann ekki blóðfaðir drengsins. Viðurkenndi hann að hann hefði getað gert betur í því sambandi. Kvaðst hann nú fús til þess að þiggja stuðning barnaverndaryfirvalda auk þess sem hann myndi setja þarfir drengsins í forgang.

A hefur ekki átt auðvelt með að tjá sig um líðan sína. Vanlíðan hans hefur brotist út með öðrum hætti. Hann hefur þó ítrekað tjáð sig um að stefnda og B séu ekki góð við hann, beitt hann ofbeldi og lýst atvikum sem hafa haft veruleg áhrif á hann. Í viðtali við barnaverndarstarfsmann kannaðist B við að stefnda og drengurinn ættu ekki skap saman og að hann væri mikið skammaður af henni. Vildi hann þó ekki kannast við ofangreinda lýsingu fyrir dóminum. Þótt ljóst sé að á litlu öðru sé að byggja en frásögn drengsins sjálfs um þessi atriði verður ekki fram hjá henni litið.

A var tvívegis skipaður talsmaður en báðir áttu í verulegum vandræðum með að ná til hans sem og barnaverndarstarfsmenn. Hann hefur ýmist sagt að hann vilji vera hjá stefndu eða E en eins og áður segir þykja ýmsar athugasemdir hans benda til þess að þær séu ekki frá honum komnar. Í skýrslu K, talsmanns A frá 10. maí 2014, kemur fram að drengurinn hafi sagt við hana að hann vildi vera hjá E og manni hennar og er heimsókninni nánar lýst í gögnum málsins. A virðist þó gera sér grein fyrir því sem framundan er og kom fram í skýrslutöku af I og J að kvíði hefði gert vart við sig að nýju. Af þessu er ljóst að skýr afstaða drengsins liggur ekki fyrir og verður því að draga ályktanir um hana af öðrum þáttum er honum viðkoma.

Samkvæmt framburði F, læknis á BUGL, var kvíðinn sá þáttur sem var mest hamlandi fyrir drenginn við komu og þyrfti því að vinna mikið með hann. Ýmsir álagsþættir í umhverfi barna hefðu oft mikil áhrif á líðan þeirra. Þarfir A væru slíkar að hann þyrfti sérstaklega styðjandi umhverfisþætti. og í reynd þyrfti að laga umhverfið að hans þörfum. Ekki hafi tekist að ljúka athugun á því hvort vandi hans lægi í einhverfurófsröskun en til standi að  framkvæma slíka athugun.

Óumdeilt er að hinn margþætti vandi A kallaði á margþætta meðhöndlun og eftirfylgni. Drengurinn var áður á lyfjum við svefnvandamáli og vegna tíðra þvagláta á næturnar og jafnframt voru reynd kvíðastillandi lyf. Ljóst var að meira þurfti og langt frá því að hegðunarbreytinga væri að vænta á svipstundu. Af því sem rakið er hér að ofan er hins vegar ljóst að frá þeim tíma er drengurinn var vistaður utan heimilis fór framfara að gæta í þroska hans, hegðun og félagsmynstri. Stuðningsnet heimilis og skóla var þétt og við bættist aðkoma BUGL þar sem hann fékk lyf og meðferð sem hann brást vel við. Tíminn vann augljóslega með drengnum eins og sjá má af gögnunum. Telur dómurinn ekki unnt að líta svo á að lyfin ein hafi valdið þeim stakkaskiptum sem raun ber vitni og kom þetta jafnframt fram í framburði vitna fyrir dóminum. Allar aðstæður á heimili, örvun og uppeldi eru mikilvæg atriði enda endurspeglast líðan barns af þeim þáttum. Öll eftirfylgni á heimili er aukinheldur mikilvæg ef vel á að takast til. Að mati dómsins kemur þetta t.d. fram í þeirri framför sem varð í málþroska hans þrátt fyrir að hann hefði ekki sótt talþjálfun nema að takmörkuðu leyti. Ljóst er að A þarf mikinn stöðugleika og fjölþætta aðstoð ef vel á að takast til um framtíð hans. Verða hagsmunir hans af því að svo verði að teljast afar ríkir. Kröfur til umönnunaraðila hans eru því ríkari en til þeirra sem ala upp börn sem ekki glíma við fjölþættan vanda eins og hann á við að stríða. Meðal annars þurfa þeir að búa yfir innsæi til þess að gera sér grein fyrir eigin göllum og til hvaða úrræða þurfi að grípa svo vel takist til hjá þeim í uppeldinu.

Eins og fyrr segir eru tvö sálfræðimöt á meðal gagna málsins. Þær matsspurningar sem lagðar voru fyrir hinn dómkvadda matsmann eru ítarlegri en þær sem lagðar voru fyrir matsmann sem stefnandi leitaði til. Miðað við umfang þeirra og með hliðsjón af þeim tíma sem matsmaður hafði til að ljúka matinu var ekki unnt að svara þeim til hlítar eða leggja fyrir öll þau próf sem æskilegt hefði verið.

   Matsmenn eru í niðurstöðum sínum samstiga um tiltekin atriði þegar litið er til niðurstöðu matslista og prófa. Telja þeir að ekkert bendi til þess að stefnda eigi við geðræn vandamál að stríða. Þá er stefnda með greind á tornæmisstigi og töluverður misstyrkur kom fram í prófum. Af niðurstöðum matsgerða verður ráðið að þroskafrávik þessi hafi reynt talsvert á veikleika hennar auk þess sem hún hefur tilhneigingu til að afneita hvers konar erfiðleikum í eigin fari hvað varðar geðræna og persónulega þætti.

Matsgerð hins dómkvadda matsmanns er ekki afdráttarlaus um þau atriði sem dómurinn telur hér skipta mestu máli þegar litið er til velferðar A. Niðurstaða hans þegar kemur að þeirri matsspurningu hvernig hæfni og geta stefndu og sambýlismanns hennar til að nýta sér meðferð og stuðningsúrræði sé háttað, er sú að forsenda fyrir því að þau séu móttækileg fyrir því að þiggja aðstoð og nýta sér meðferð sé að þau gangist við vandanum og setji þarfir A í forgang. Til þess þurfi þau að læra að byggja upp traust en einn stærsti vandi stefndu og sambýlismanns hennar sé hversu tortryggin þau séu gagnvart stuðnings- og meðferðaraðilum. Fram kemur að þau hafi bæði verið í mikilli varnarstöðu þegar kemur að samvinnu við barnavernd og þau hafi ýmist afneitað vandamálinu eða sýnt fremur slakt innsæi gagnvart eðli vandans.

Ljóst er að greind er forsenda innsæis. Innsæi í þarfir barns og eigin getu er forsenda góðrar foreldrahæfni. Skortur á innsæi í eigin getu gerir að verkum að viðkomandi á erfitt með að hafa innsæi í þarfir annarra. Báðir matsmenn komast að þeirri niðurstöðu að á skorti í eigið innsæi stefndu sem og hæfileika til að taka gagnrýni og þar með þiggja leiðsögn. Innsæisskortur stefndu kemur meðal annars fram í því að hún hefur í reynd aldrei talið sig þurfa á neinum úrræðum eða leiðbeiningum að halda vegna uppeldis og umönnunar A. Einnig hefur hún eignað litarafti A og fráfalli afa hans mörgum árum áður alla vanlíðan drengsins. Fram kemur í báðum matsgerðum að stefnda er að eðlisfari hvatvís og með slaka tilfinningastjórn sem kemur niður á samskiptum hennar. Skortur á innsæi, slök tilfinningastjórn og hvatvísi eru til þess fallin að foreldri á erfitt með að sýna yfirvegun gagnvart hegðunarerfiðleikum barns. Fram kemur í báðum matsgerðum að B býr yfir ágætri greind en hefur ekki sýnt tilburði til að tengjast drengnum, taka á vanda hans eða leiðbeina og liðsinna móður drengsins í uppeldi hans. Þrátt fyrir að fram komi í báðum matsgerðum að hvorki stefnda né B séu haldin alvarlegum geðsjúkdómum eða fíknivanda eru þeir brestir sem fram koma í persónugerð þeirra beggja þess eðlis að ólíklegt er að þau geti annast og tekið tillit til þarfa A á fullnægjandi hátt. Hann er eins og áður segir barn með fjölþættan vanda og umönnun hans reynir sérstaklega mikið á uppeldishæfni og almenna getu umönnunaraðila. Að mati dómsins breytir niðurstaða matsmanna, um góða tengslahæfni stefndu og náin tengsl á milli hennar og A annars vegar og hans og systkina hans hins vegar, ekki þeirri staðreynd að þarfir hans eru slíkar að góð tengsl ein og sér fullnægja þeim ekki. Að auki skortir, að mati dómsins, á að rök séu færð fyrir því að geðtengsl stefndu við A séu örugg og góð. Tengsl þeirra á millum voru eingöngu metin með viðtölum við stefndu, sjálfsmatslistum sem hún svaraði og með stuttu áhorfi á samskipti á heimili stefndu þegar drengurinn var þar staddur. Samkvæmt lýsingu J þroskaþjálfa fyrir dóminum, var framkoma stefndu í garð drengsins kuldaleg og einkenndist af gagnrýni og jafnvel niðurlægingu. Lýsti hún því að A virtist óttast mjög að brjóta gegn fyrirmælum móður sinnar og að hann sýndi ekki fögnuð við að mæta henni eftir langan aðskilnað. Að mati dómsins virðast gæði tengsla stefndu við A þannig vafa undirorpin. 

Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið er það mat dómsins að stefnda hafi brugðist uppeldisskyldum sínum gagnvart A þannig að telja verði að daglegri umönnun og uppeldi hans hafi verið alvarlega ábótavant með hliðsjón af aldri hans og þroska, sbr. a-lið 1. mgr. 29. gr. laga nr. 80/2002. Fær niðurstaða þessi stoð í matsgerð G sálfræðings. Að mati dómsins var nauðsynlegt og í samræmi við hlutverk barnaverndarnefnda að grípa til aðgerða til hagsbóta fyrir drenginn með það fyrir augum að greina vanda hans frekar. Til þess að svo mætti vera var eðlilegt að aðskilja hann frá fjölskyldu sinni. Fór stefnandi ekki gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga eða 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga með íhlutun sinni. Bar stefndu samhliða þessu að þiggja öll þau úrræði sem talin voru æskileg til þess að efla uppeldisfærni hennar en lykilatriði í þessu sambandi var góð samvinna við Barnavernd Reykjavíkur. Því var ekki fyrir að fara þó að ítrekað væri eftir því gengið og er þar helst um að kenna hugarfari stefndu og B sambýlismanns hennar. Hefur ekki úrslitaþýðingu að stefnda hafi loks sótt PTM-námskeið og verið samstarfsfús um meðferð drengsins á BUGL. Má í þessu samhengi nefna að meðferðaraðilar á BUGL lögðu einnig áherslu á að stefnda nýtti sér stuðningsúrræði á meðferðartímanum. Þá telur dómurinn hina jákvæðu afstöðu B, sem fram kom í skýrslu hans fyrir dómi, til uppeldis A og samvinnu við Barnavernd Reykjavíkur ekki trúverðuga, enda ný af nálinni. Verður í þessu sambandi að líta til gagna málsins og niðurstöðu á persónuleikaprófi hans sem sýnir ríka tilhneigingu hans til þess að fegra sig. Eins og áður segir voru niðurstöður stefndu á prófinu ómarktækar. Stefnda og B eru því að mati dómsins ekki líkleg til þess að setja uppeldislegar þarfir A í forgang. Að virtum gögnum málsins og framburði stefndu og vitna fyrir dómi telur dómurinn að fullreynd hafi verið vægari úrræði til úrbóta en án viðunandi árangurs.

Að öllu ofangreindu virtu verður að telja að hagsmunir A krefjist þess að stefnda verði svipt forsjá hans. Þykja skilyrði a liðar 1. mgr. 29.gr. og 2. mgr. sömu greinar uppfyllt. Þegar af þeirri ástæðu verður fallist á kröfu stefnanda um forsjársviptingu.

Ekki er krafist málskostnaðar úr hendi stefndu. Stefnda hefur gjafsókn í málinu sem er takmörkuð við rekstur málsins fyrir dómi. Allur gjafsóknarkostnaður hennar greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, Flosa Hrafns Sigurðssonar hdl., sem þykir hæfilega ákveðinn, 796.000 krónur.

Dóminn kveður upp Sigríður Hjaltested héraðsdómari ásamt Guðrúnu Oddsdóttur sálfræðingi og Rögnu Ólafsdóttur sálfræðingi.

D Ó M S O R Ð:

                Stefnda, K, er svipt forsjá sonar síns, A.

                Gjafsóknarkostnaður stefndu greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, Flosa Hrafns Sigurðssonar, sem þykir hæfilega ákveðinn 796.000 krónur.