Hæstiréttur íslands
Mál nr. 233/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Fjármálafyrirtæki
- Slit
- Riftun
- Kröfulýsing
|
|
Föstudaginn 17. apríl 2015. |
|
Nr. 233/2015. |
VBS eignasafn hf. (Hróbjartur Jónatansson hrl.) gegn Tryggingamiðstöðinni hf. (Bjarki H. Diego hrl.) |
Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slit. Riftun. Kröfulýsing.
Í hinum kærða úrskurði héraðsdóms voru viðurkenndar kröfur T hf. við slit V hf. samtals að fjárhæð 245.980.000 krónur. Í dómi Hæstaréttar kom fram að með dómi réttarins í máli nr. 139/2012 hefði verið rift greiðslu, með vísan til 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., á skuld V hf. til T hf. að fjárhæð 160.250.000 krónur sem hefði farið fram með afsali á hlutum V hf. í N ehf. til T hf. Riftun þessi hefði því tekið til þeirra ráðstafana einna, sem kveðið hefði verið á um í samningi aðilanna 9. nóvember 2009, en ekki til ákvæða samkomulags þeirra sama dag um eftirgjöf T hf. á eftirstöðvum nefndrar skuldar, upphaflega að fjárhæð 197.500.000 krónur, og skuld V hf. vegna peningamarkaðsláns 30. september 2009 að fjárhæð 20.000.000 krónur. Upphafleg fjárkrafa T hf. í skilningi 143. laga nr. 21/1991, sem honum væri heimilt að koma að við slit V hf., næmi samkvæmt þessu 160.250.000 krónum. Fyrir Hæstarétti krafðist V hf. þess ekki lengur að fjárhæð kröfu T hf., sem viðurkennd yrði við slitin, næmi 160.250.000 krónum, svo sem hann hafði gert fyrir héraðsdómi, heldur 208.114.693 krónum. Þessa fjárhæð skýrði V hf. í kæru sinni til réttarins á þá leið að kröfufjárhæðin yrði að samræmast þeirri skuld þess sem greidd hefði verið við hina riftanlegu ráðstöfun, það er 199.139.338 krónur ásamt nánar tilgreindum vöxtum, enda væri það sú fjárhæð sem lögð væri til grundvallar í kaupsamningi hinnar riftu ráðstöfunar. Hæstiréttur taldi að V hf. hefði verið frjálst að ráðstafa sakarefninu á þennan hátt, þótt stoð yrði ekki fundin fyrir framansögðu í þeim heimildum sem vísað hefði verið til í kæru. Var niðurstaðan því sú að viðurkennd var krafa T hf. við slit V hf. að fjárhæð 208.114.693 krónur með stöðu í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Markús Sigurbjörnsson hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. mars 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. mars 2015, þar sem viðurkenndar voru kröfur varnaraðila við slit sóknaraðila að fjárhæð annars vegar 231.980.000 krónur með stöðu í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og hins vegar 14.000.000 krónur með nánar tilgreindum vöxtum með stöðu í réttindaröð samkvæmt 3. tölulið 110. gr. sömu laga. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðili krefst þess að viðurkennd verði krafa varnaraðila að fjárhæð 208.114.693 krónur með stöðu í réttindaröð samkvæmt 113. gr. sömu laga. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst aðallega staðfestingar hins kærða úrskurðar. Til vara krefst hann þess að við slit sóknaraðila verði viðurkennd krafa sín að fjárhæð 245.980.008 krónur með stöðu í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991, svo og krafa sín um dráttarvexti af þeirri fjárhæð frá 9. apríl 2010 til greiðsludags með stöðu í réttindaröð samkvæmt 114. gr. sömu laga. Í báðum tilvikum krefst hann kærumálskostnaðar.
I
Aðilarnir áttu í viðskiptum frá því í febrúar 2008 með því að varnaraðili veitti sóknaraðila, sem þá hét VBS fjárfestingarbanki hf., peningamarkaðslán sem framlengt var til skamms tíma í senn en hækkaði stig af stigi. Við síðustu framlengingu þess 22. september 2008 nam það orðið 2.544.537.668 krónum og átti að greiða það á gjalddaga 6. október sama ár að viðbættum vöxtum. Vanskil urðu þá af hendi sóknaraðila, en aðilarnir gerðu samkomulag 18. maí 2009 um uppgjör skuldarinnar, þar sem kveðið var á um að hann myndi afhenda varnaraðila margvísleg verðmæti sem greiðslu. Í samkomulaginu var meðal annars að finna ákvæði í grein 1.1. um „kaup á veðskuldabréfum“, þar sem kom fram að sóknaraðili hafi boðið varnaraðila að kaupa með hluta kröfu sinnar nánar tiltekin skuldabréf að fjárhæð samtals 197.500.000 krónur, sem varnaraðili hafi þó ekki tekið ákvörðun um. Væru aðilarnir því sammála um að sóknaraðili gerði ekki að svo stöddu upp þann hluta skuldarinnar, sem bæri 18,65% ársvexti til 15. júní 2009, en fyrir þann tíma myndu þeir leitast við að semja um uppgjör á honum. Aðilarnir gerðu 30. september 2009 viðauka við samkomulagið, þar sem frestur til að ljúka uppgjöri að framangreindu leyti var framlengdur til 15. október sama ár, en í viðaukanum kom meðal annars fram að fjárhæð skuldarinnar að meðtöldum vöxtum hafi 11. ágúst 2009 numið 199.138.338 krónum. Sama dag og viðaukinn var gerður veitti varnaraðili sóknaraðila peningamarkaðslán að fjárhæð 20.000.000 krónur, sem átti að bera 18,65% ársvexti og endurgreiðast 15. október 2009. Til tryggingar þeirri lánveitingu gaf sóknaraðili út tryggingarbréf til varnaraðila 7. október 2009 fyrir 50.000.000 krónum og var fasteignin Borgarbraut 57 í Borgarnesi sett að fyrsta veðrétti fyrir skuldinni. Sóknaraðili gaf jafnframt út yfirlýsingu 9. október sama ár, þar sem hann setti varnaraðila að handveði 35 nánar tilgreind veðskuldabréf að nafnverði samtals 173.500.000 krónur til tryggingar öllum kröfum varnaraðila á hendur sér.
Kaupsamningur var gerður milli aðilanna 9. nóvember 2009, þar sem sóknaraðili seldi varnaraðila hluti í Nesvöllum ehf. að nafnvirði 160.250.000 krónur eða sem svaraði 45,7% af heildarhlutafé í félaginu. Hlutaféð væri keypt á nafnverði og greiddist kaupverð „með lækkun skuldar seljanda við kaupanda, skv. gr. 1.1. samkomulags milli seljanda og kaupanda dags. 18. maí 2009, sbr. viðauki dags. 30. september 2009, upphaflega að fjárhæð kr. 197.500.000.“ Í kaupsamningnum var meðal annars ákvæði um að varnaraðili leysti 32 tiltekin veðskuldabréf að nafnverði samtals 160.000.000 krónur úr handveði, sem honum var veitt með fyrrgreindri yfirlýsingu 9. október 2009, þannig að sóknaraðili gæti flutt yfir á þau veðréttindi, sem hvíldu á hlutum hans í Nesvöllum ehf. Samhliða þessum kaupsamningi var gert samkomulag 9. nóvember 2009 „um uppgjör skulda“ sóknaraðila við varnaraðila. Samkvæmt því samþykkti varnaraðili „að fella niður allar eftirstöðvar og áfallna vexti“ af kröfum sínum á hendur sóknaraðila annars vegar vegna áðurnefnds peningamarkaðsláns 30. september 2009 að fjárhæð 20.000.000 krónur og hins vegar samkvæmt fyrrnefndri grein 1.1. í samkomulagi þeirra frá 18. maí 2009 ásamt viðaukanum 30. september sama ár „upphaflega að fjárhæð kr. 197.500.000, eins og hún stendur eftir að gengið hefur verið frá greiðslu skv. kaupsamningi um hlutafé í Nesvöllum ehf.“ Að auki samþykkti varnaraðili að aflétta veði á fasteigninni Borgarbraut 57 samkvæmt tryggingarbréfinu, sem sóknaraðili gaf út til hans 7. október 2009, og leysa þrjú síðustu veðskuldabréfin, að nafnverði samtals 13.500.000 krónur, undan handveðinu sem sóknaraðili gaf út yfirlýsingu um tveimur dögum síðar. Í samkomulagi þessu var tekið fram að það væri „háð þeim fyrirvara að kaupsamningur ... um hluti VBS í Nesvöllum ehf. gangi eftir.“ Í framhaldi af þessu gaf sóknaraðili út afsal til varnaraðila 24. nóvember 2009 fyrir hlutunum í Nesvöllum ehf. að nafnvirði 160.250.000 krónur.
Með heimild í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 4. gr. laga nr. 44/2009, skipaði Fjármálaeftirlitið 3. mars 2010 sóknaraðila bráðabirgðastjórn, en í framhaldi af því var hann tekinn til slita 9. apríl sama ár og honum skipuð slitastjórn samkvæmt 4. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 44/2009. Sóknaraðili höfðaði mál á hendur varnaraðila 27. janúar 2011 og krafðist þess að rift yrði „greiðslu á skuld stefnanda við stefnda að fjárhæð 160.250.000 krónur sem fór fram með afsali á hlutum stefnanda í Nesjavöllum ehf. ... til stefnda hinn 24. nóvember 2009, að nafnvirði 160.250.000 krónur.“ Jafnframt krafðist sóknaraðili þess að varnaraðila yrði gert að greiða sér síðastnefnda fjárhæð með nánar tilteknum vöxtum. Í héraðsdómi í málinu 20. febrúar 2012 voru þessar kröfur sóknaraðila teknar til greina á grundvelli 1. mgr. 134. gr. laga nr. 21/1991 með því að hann taldist hafa greitt varnaraðila skuld að fjárhæð 160.250.000 krónur með óvenjulegum greiðslueyri. Varnaraðili áfrýjaði dóminum til Hæstaréttar, þar sem dómur gekk 6. desember 2012 í málinu, sem var nr. 139/2012. Í dómi réttarins sagði meðal annars: „Áfrýjandi reisir kröfur sínar um sýknu og lækkun á kröfu stefnda meðal annars á því að með samkomulagi 9. nóvember 2009, sama dag og samningur um kaup áfrýjanda á hlutum stefnda í Nesvöllum ehf. var gerður, hafi hann fellt niður eftirstöðvar og áfallna vexti af nánar greindum kröfum á hendur stefnda og aflétt veði af tiltekinni fasteign og veðskuldabréfum. Með þessu hafi stefndi ekki orðið fyrir fjártjóni af því að selja áfrýjanda fyrrgreinda hluti eða að minnsta kosti hafi tjón hans af þessum sökum orðið minna en ella og því beri að sýkna áfrýjanda af kröfu stefnda eða lækka hana, sbr. 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Áfrýjandi hefur ekki fært sönnur á að ráðstafanir samkvæmt áðurnefndu samkomulagi aðila hafi dregið úr því tjóni sem löglíkur eru á að stefndi hafi orðið fyrir við sölu á umræddum hlutum og áfrýjandi hafi notið samsvarandi auðgunar.“ Héraðsdómurinn var að þessu gættu staðfestur.
Óumdeilt er að varnaraðili stóð sóknaraðila skil á greiðslu samkvæmt dóminum. Í framhaldi af því lýsti varnaraðili 11. janúar 2013 kröfu af þessu tilefni við slit sóknaraðila að höfuðstól 219.138.338 krónur auk vaxta að fjárhæð 26.841.670 krónur. Höfuðstól kröfunnar skýrði varnaraðili þannig að skuld sóknaraðila samkvæmt grein 1.1. í samkomulagi þeirra 18. maí 2009 hafi samkvæmt viðaukanum við það 30. september sama ár numið 199.138.338 krónum. Við þá fjárhæð ættu að bætast 20.000.000 krónur vegna peningamarkaðsláns síns til sóknaraðila síðastgreindan dag, enda hafi varnaraðili með samkomulagi þeirra 9. nóvember 2009 gefið eftir kröfur sem þessu næmu í heild gegn því að fá framseld hlutabréfin í Nesvöllum ehf. að nafnvirði 160.250.000 krónur. Þá krafðist varnaraðili þess að krafa þessi fengi notið stöðu í réttindaröð við slit sóknaraðila samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991 sökum veðréttinda, sem varnaraðili hafi notið fyrir henni í áðurnefndum 35 veðskuldabréfum og fasteigninni Borgarbraut 57 en gefið eftir með kaupsamningnum og samkomulaginu 9. nóvember 2009. Sóknaraðili lýsti þeirri afstöðu til kröfunnar 5. apríl 2013 að hana ætti að viðurkenna með fjárhæðinni 160.250.000 krónur með stöðu í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Ekki tókst að jafna ágreining um viðurkenningu kröfunnar og beindi sóknaraðili honum til héraðsdóms 25. október 2013, þar sem mál þetta var þingfest af því tilefni 31. janúar 2014. Fyrir héraðsdómi breytti varnaraðili kröfugerð sinni í það horf að viðurkenndar yrðu kröfur sínar annars vegar að fjárhæð 231.980.008 krónur og hins vegar 14.000.000 krónur, sú fyrrnefnda með stöðu í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 og sú síðarnefnda samkvæmt 3. tölulið 110. gr. sömu laga. Breyting þessi tengdist því að fram var komið að sóknaraðili hafi með samningi 8. júní 2012 selt fasteignina Borgarbraut 57 fyrir 14.000.000 krónur og hafi ekkert fengist af veðskuldabréfunum, sem varnaraðili hafði á fyrri stigum notið handveðréttar í. Með hinum kærða úrskurði voru þessar kröfur varnaraðila teknar til greina, þó þannig að fjárhæð þeirrar fyrrnefndu var þar viðurkennd sem 231.980.000 krónur.
II
Samkvæmt síðari málslið 143. gr. laga nr. 21/1991 er þeim, sem hefur verið gert að sæta riftun á ráðstöfun þrotamanns og greiða þrotabúi fé eða standa skil á verðmæti, heimilt að koma að upphaflegri fjárkröfu sinni á hendur búinu og skal hann þá njóta jafnrar stöðu við aðra lánardrottna sem eiga jafnréttháar kröfur. Á þessum grunni var varnaraðila heimilt að koma að við slit sóknaraðila þeirri kröfu, sem greidd var með ráðstöfuninni sem rift var með áðurnefndum dómi Hæstaréttar 6. desember 2012, án tillits til kröfulýsingarfrests, sbr. 6. tölulið 118. gr. laga nr. 21/1991.
Þegar leyst er úr því hver sú krafa nánar sé, sem varnaraðila var heimilt að koma að við slit sóknaraðila samkvæmt framansögðu, verður að gæta að því að með héraðsdóminum, sem var staðfestur í dómi Hæstaréttar 6. desember 2012, var rift „greiðslu á skuld stefnanda, VBS Fjárfestingarbanka hf., við stefnda, Tryggingamiðstöðina hf., að fjárhæð 160.250.000 krónur sem fór fram með afsali á hlutum stefnanda í Nesvöllum ehf. til stefnda hinn 24. nóvember 2009, að nafnvirði 160.250.000 krónur“, svo sem sagði í dómsorði héraðsdómsins. Riftun þessi tók því til þeirra ráðstafana einna, sem kveðið var á um í samningi aðilanna 9. nóvember 2009 um kaup varnaraðila á hlutum sóknaraðila í Nesvöllum ehf. fyrir 160.250.000 krónur og greiðslu þess kaupverðs „með lækkun skuldar seljanda við kaupanda ... upphaflega að fjárhæð kr. 197.500.000“, en ekki til ákvæða samkomulags þeirra sama dag um eftirgjöf varnaraðila á eftirstöðvum nefndrar skuldar og skuld sóknaraðila vegna peningamarkaðsláns 30. september 2009 að fjárhæð 20.000.000 krónur. Upphafleg fjárkrafa varnaraðila í skilningi 143. gr. laga nr. 21/1991, sem honum er heimilt að koma að við slit sóknaraðila, nemur samkvæmt þessu 160.250.000 krónum, en sú krafa naut á engu stigi veðtryggingar í fasteigninni Borgarbraut 57.
Fyrir Hæstarétti krefst sóknaraðili þess ekki lengur að fjárhæð kröfu varnaraðila, sem viðurkennd verði við slitin, nemi 160.250.000 krónum, svo sem hann gerði fyrir héraðsdómi, heldur 208.114.693 krónum. Þessa fjárhæð skýrir sóknaraðili á eftirfarandi hátt í kæru sinni til réttarins: „Upphafleg krafa varnaraðila í skilningi 143. gr. laganna getur því ekki verið önnur en sú krafa sem greidd var upp skv. kaupsamningi dags. 9. nóvember 2009, sbr. afsal aðila dags. 24. nóvember 2009 ... Því verður kröfufjárhæðin að samræmast þeirri skuld sóknaraðila sem greidd var við hina riftanlegu ráðstöfun, 199.139.338 krónur ásamt 18,65% vöxtum frá 11. ágúst 2009 til lokauppgjörs (8.975.355 krónur), samtals 208.114.693 krónur. Enda er það sú fjárhæð sem lögð er til grundvallar í kaupsamningi hinnar riftu ráðstöfunar, sbr. viðauki dags. 30. september 2009 ... sbr. kaupsamningur dags. 9. nóvember 2009“. Sóknaraðila er frjálst að ráðstafa sakarefninu á þennan hátt, þótt stoð verði ekki fundin fyrir framansögðu í þeim heimildum sem vísað er til í kæru hans. Verður því niðurstaða málsins sú að viðurkennd sé krafa varnaraðila við slit sóknaraðila að fjárhæð 208.114.693 krónur með stöðu í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991, en ekki eru efni til að taka afstöðu til kröfu varnaraðila um dráttarvexti með stöðu í réttindaröð samkvæmt 114. gr. sömu laga.
Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Við slit sóknaraðila, VBS eignasafns hf., er viðurkennd krafa varnaraðila, Tryggingamiðstöðvarinnar hf., að fjárhæð 208.114.693 krónur með stöðu í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Varnaraðili greiði sóknaraðila samtals 1.000.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. mars 2015.
Máli þessu, sem er ágreiningsmál við slitameðferð varnaraðila, var beint til dómsins með bréfi slitastjórnar varnaraðila 25. október 2013 og var það þingfest 31. janúar 2014. Um lagagrundvöll vísaði slitastjórn til 171. gr., sbr. 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Málið var tekið til úrskurðar föstudaginn 16. janúar sl. Sóknaraðili er Tryggingarmiðstöðin hf., Síðumúla 24, Reykjavík, en varnaraðili er VBS eignasafn hf., Suðurlandsbraut 6, Reykjavík.
Sóknaraðili krefst þess aðallega að viðurkennd verði krafa hans að fjárhæð 14.000.000 krónur, auk almennra vaxta óverðtryggðra útlána, samkvæmt 4. gr., sbr. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 8. júní 2012 til 2 maí 2014, og dráttarvaxta, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Hann krefst þess að krafan njóti stöðu í réttindaröð samkvæmt 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991 við slitameðferð varnaraðila. Einnig krefst hann þess að viðurkennd verði krafa hans að fjárhæð 231.980.008 krónur sem njóti stöðu almennrar kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 við slitameðferð varnaraðila.
Til vara krefst hann þess að viðurkennd verði við slitameðferðina fjárkrafa hans að fjárhæð 245.980.008 krónur sem njóti stöðu almennrar kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.
Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað og að staðfest verði afstaða slitastjórnar hans um að samþykkja kröfu sóknaraðila, nr. 286 í kröfuskrá vegna slitameðferðar varnaraðila, sem almenna kröfu skv. 113. gr. laga nr. 21/1991 að fjárhæð 160.250.000 krónur. Þá krefst hann málskostnaðar.
Kröfu sóknaraðila var upphaflega lýst sem veðkröfu samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991 en fallið var frá því að krefjast þeirrar rétthæðar kröfunnar undir rekstri málsins. Með bréfi sóknaraðila til varnaraðila 2. apríl 2014 gerði sá fyrrnefndi grein fyrir því að hann hygðist breyta kröfulýsingu sinni. Taldi hann ekki lengur forsendur til að hafa uppi kröfu á grundvelli 111. gr. laga nr. 21/1991 og gerði grein fyrir að hann hygðist halda kröfunni til streitu með vísan til 113. gr. sömu laga. Þá setti hann fram kröfu um að hluti kröfunnar skyldi ásamt nánar tilgreindum vöxtum hafa stöðu búskröfu skv. 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991 við slitameðferðina. Um heimild til að lýsa kröfunni vísaði sóknaraðili einnig til 5. tl. 118. gr. laga nr. 21/1991. Varnaraðili féllst á að sóknaraðili fengi komið að kröfunni svo breyttri við meðferð málsins en mótmælti kröfunni efnislega. Nánari grein er gerð fyrir forsendum framangreindra breytinga á kröfugerð hér síðar.
I
Mál þetta er, eins og fyrr segir, ágreiningsmál við slitameðferð varnaraðila og á rætur að rekja til kröfulýsingar sóknaraðila við slitameðferðina, 11. janúar 2013, sem höfð var uppi í kjölfar riftunar á grundvelli XX. kafla laga nr. 21/1991 sem fallist var á í dómi Hæstaréttar 6. desember 2012 í máli nr. 139/2012. Kröfunni var lýst með vísan til 143. gr. laga nr. 21/1991. Breyting var gerð á kröfunni með kröfulýsingu 2. apríl 2014.
Málavextir eru þeir að sóknaraðili veitti varnaraðila lán samkvæmt lánasamningi 22. september 2008 og mun lánið hafa numið upphaflega 2.544.537.668 krónum. Gert var samkomulag milli aðila um uppgjör þess samnings 18. maí 2009. Hluti af því samkomulagi var að varnaraðili viðurkenndi að skulda sóknaraðila 197.500.000 krónur og lofaði að greiða þá fjárhæð ásamt umsömdum 18,65% ársvöxtum, með nánar tilgreindum skilmálum. Viðauki var gerður við síðastnefnt samkomulag 30. september 2009 þar sem kveðið var á um að skuldin teldist hafa staðið í 199.138.338 krónum 11. ágúst 2009 og kveðið var á um að hún skildi bera umsamda fasta vexti fram að uppgjöri. Þann 30. september 2009 veitti sóknaraðili varnaraðila peningamarkaðslán að fjárhæð 20.000.000 krónur og var um það samið að það bæri 18,65% ársvexti. Lýstur höfuðstóll kröfu sóknaraðila samanstendur af síðastnefndum tveimur fjárhæðum, 199.138.338 krónum að viðbættum 20.000.000 krónum, eða samtals 219.138.338 krónur en einnig er krafist samningsvaxta, 18,65% til 9. apríl 2010 að fjárhæð 26.841.670 krónur.
Til tryggingar greiðslu samkvæmt hinum fyrrnefnda lánasamningi voru upphaflega sett að handveði 35 nánar tilgreind veðskuldabréf. Til tryggingar framangreindu peningamarkaðsláni gaf varnaraðili út tryggingabréf að fjárhæð 50.000.000 krónur sem tryggt var með 1. veðrétti í fasteigninni að Borgarbraut 57, Borgarnesi.
Þann 9. nóvember 2009 gerðu aðilar með sér samkomulag, annars vegar um kaup sóknaraðila á öllum hlutum varnaraðila í Nesvöllum ehf. og hins vegar um uppgjör skulda varnaraðila við sóknaraðila. Samkvæmt greindu samkomulagi skyldi sóknaraðili kaupa og varnaraðili selja 160.250.000 hluti í nefndu einkahlutafélagi en samhliða skyldi sóknaraðili lækka skuld varnaraðila skv. fyrrnefndu samkomulagi frá 18. maí 2009, sbr. og viðauka 30. september sama ár, auk þess að fella niður eftirstöðvar og áfallna vexti af peningamarkaðsláni því sem fyrr er um fjallað. Samhliða þessu aflétti sóknaraðili þeim veðréttindum sem að framan er vísað til. Tekið var fram í samkomulaginu að niðurfærsla skulda og aflétting veða væri háð þeim fyrirvara að kaupsamningur um Nesvelli ehf. gengi eftir.
Með heimild í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 4. gr. laga nr. 44/2009 skipaði Fjármálaeftirlitið 3. mars 2010 bráðbirgðastjórn yfir varnaraðila, sem þá hét VBS fjárfestingarbanki hf. Varnaraðili var tekinn til slitameðferðar 9. apríl 2010 og skipuð slitastjórn skv. heimild í 4. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 44/2009. Samkvæmt lögum nr. 161/2002 gilda að meginstefnu reglur laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. um slitameðferðina. Frestdagur við skiptin er 3. mars 2010. Kröfulýsingarfresti lauk 12. nóvember 2010.
Með bréfi 1. október 2010 lýsti slitastjórn varnaraðila yfir riftun þeirrar greiðslu skuldar sem farið hafi fram með afsali hluta í Nesvöllum ehf. til sóknaraðila. Með dómi Hæstaréttar 6. desember 2012 var fallist á riftunarkröfu varnaraðila og sóknaraðili dæmdur til að greiða varnaraðila 160.250.000 krónur með dráttarvöxtum frá 1. nóvember 2010 til greiðsludags. Sóknaraðili mun hafa innt framangreinda greiðslu af hendi.
Sóknaraðili lýsti kröfu við slitameðferð varnaraðila 11. janúar 2013 og krafðist þess þar að krafa hans að fjárhæð 245.980.008 krónur yrði viðurkennd sem veðkrafa samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991. Vísaði sóknaraðili til 143. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 6. tl. 118. gr. sömu laga um heimild til að koma kröfunni að við slitameðferð varnaraðila þó kröfulýsingarfrestur væri liðinn.
Slitastjórn tók afstöðu til kröfunnar í bréfi 5. apríl 2013. Var því þar hafnað að viðurkenna kröfuna að hærri fjárhæð en sem næmi þeirri greiðslu sem rift hefði verið samkvæmt dómi Hæstaréttar. Var því fallist á kröfu að fjárhæð 160.250.000 krónur. Því var hafnað að krafan gæti notið stöðu veðkröfu og m.a. tiltekið að þær eignir sem upphaflega hefðu verið veðsettar til tryggingar umræddri kröfu væru ekki lengur í eigu varnaraðila.
Sóknaraðili mótmælti framangreindri afstöðu innan lögmæltra tímamarka. Fundir voru haldnir til lausnar á umræddum ágreiningi. Var þar m.a. leitast við að upplýsa hvað orðið hefði um þær veðsettu eignir sem áður vori til tryggingar umræddum lánasamningum. Liggur fyrir í málinu tölvubréf 9. september 2013 frá varnaraðila til sóknaraðila þar sem upplýst er að Borgarbraut 57, Borgarnesi hafi verið seld árið 2012 fyrir 14.000.000 krónur. Einnig var í umræddu bréfi upplýst að nokkru um afdrif annarra þeirra eigna sem veðsettar voru en ekki þykir ástæða til að tíunda það hér þar sem það varðar ekki það úrlausnarefni sem nú liggur fyrir dóminum. Framangreindir fundir reyndust árangurslausir og var málið í kjölfarið sent til úrlausnar dómsins og þingfest 31. janúar 2014 eins og fyrr er getið. Með bréfi sóknaraðila 2. apríl 2014 til varnaraðila var höfð uppi krafa um að 14.000.000 krónur af hinni áður lýstu fjárhæð yrði viðurkennd sem búskrafa með vísan til 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991 og var krafist nánar tilgreindra vaxta og dráttarvaxta af kröfunni. Þá var vísað til 5. tl. 118. gr. laga nr. 21/1991 til stuðnings því að krafan mætti komast að eftir lok kröfulýsingarfrests. Eins og áður er getið samþykkti varnaraðili að sóknaraðili mætti koma umræddri breytingu á kröfugerð að við meðferð málsins en hafnaði kröfunni efnislega. Aðilar lögðu fram greinargerðir sínar í málinu eftir framangreinda breytingu á kröfugerð.
II
Sóknaraðili kveðst byggja á því að hann hafi með samkomulagi við varnaraðila 9. nóvember 2009, aflétt veðréttindum yfir tilgreindum eignum í tengslum við kaup sín á öllum hlutum varnaraðila í Nesvöllum ehf. Samkomulagið hafi verið háð þeim fyrirvara að kaupsamningur milli aðila gengi eftir. Þar sem umræddum ráðstöfunum hafi verið rift með dómi að kröfu varnaraðila sé ljóst að kaupsamningurinn hafi ekki gengið eftir.
Vegna þessa hafi kröfu sóknaraðila upphaflega verið lýst sem veðkröfu, með vísan til 111. gr. laga nr. 21/1991, vegna tilgreindra veðréttinda sóknaraðila. Þar sem nú liggi fyrir að varnaraðili sé ekki lengur eigandi þeirra eigna sem áður hafi verið veðsettar sóknaraðila falli sóknaraðili frá því að krefjast stöðu í réttindaröð samkvæmt nefndri lagagrein.
Með breyttri kröfulýsingu 2. apríl 2014 sé aðalkröfu sóknaraðila nú skipt upp þannig að annars vegar sé gerð sú krafa að 14.000.000 krónur, auk vaxta, vegna ráðstöfunar varnaraðila á fasteigninni að Borgarbraut 57, Borgarnesi, verði viðurkennd sem búskrafa samkvæmt 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991 og hins vegar verði viðurkennd almenn krafa, samkvæmt 113. gr. sömu laga, að fjárhæð 231.980.008 krónur. Til vara sé þess krafist að krafa að fjárhæð 245.980.008 krónur verði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt síðastnefndri lagagrein.
Samkvæmt kaupsamningi og afsali hafi fasteignin að Borgarbraut 57, Borgarnesi, verið afsalað af hálfu varnaraðila 8. júní 2012. Kaupverðið hafi verið 14.000.000 krónur og hafi verið greitt til varnaraðila sama dag. Sóknaraðili hafi notið veðréttinda yfir fasteigninni áður en til hinnar riftanlegu ráðstöfunar hafi komið, sem hvílt hafi á 1. veðrétti til tryggingar skuldum varnaraðila við sóknaraðila, allt að 50.000.000 krónum. Sóknaraðili hefði þannig með réttu átt að fá söluvandvirðið sem veðhafi 1. veðréttar í fasteigninni, ef ekki hefði komið til hinnar riftanlegu ráðstöfunar.
Krafa sóknaraðila til andvirðis fasteignarinnar sé á því reist að sóknaraðili eigi rétt til að koma að upphaflegri fjárkröfu sinni á hendur varnaraðila og njóta jafnrar stöðu við aðra lánardrottna sem átt hafi jafnréttháar kröfur, samkvæmt 2. ml. 143. gr., sbr. 5. og 6. tl. 118. gr. laga nr. 21/1991. Hafi upphafleg kröfulýsing sóknaraðila, þar sem sóknaraðili hafi lýst kröfu sinni sem veðkröfu, með vísan til 111. gr. laga nr. 21/1991 vegna veðréttinda yfir fasteigninni að Borgarbraut 57, Borgarnesi, verið reist á sömu rökum.
Varnaraðili hafi afsalað síðastnefndri fasteign eftir að slitameðferð varnaraðila hafi hafist og eftir að slitastjórn varnaraðila hafi lýst yfir riftun gagnvart sóknaraðila. Hafi varnaraðila verið það ljóst, eða hafi mátt vera það ljóst, að ef fallist yrði á kröfu hans um riftun ætti sóknaraðili rétt á að koma upphaflegri fjárkröfu sinni að við slit varnaraðila, samkvæmt 143. gr. laga nr. 21/1991. Með afsali fasteignarinnar hafi varnaraðili hins vegar komið í veg fyrir að sóknaraðili gæti gengið að þeim veðréttindum sem varnaraðili hafi notið fyrir hina riftanlegu ráðstöfun, en aflétting umræddra veðréttinda hafi verið forsenda fyrir hinni riftanlegu ráðstöfun. Að mati sóknaraðila hafi varnaraðila því verið óheimilt að ráðstafa hinn veðsettu fasteign án þess að gæta hagsmuna sóknaraðila. Þrátt fyrir það hafi varnaraðili gengið til samninga um afsal fasteignarinnar um mitt ár 2012, en með þeirri ráðstöfun sinni hafi varnaraðili komið í veg fyrir að sóknaraðili kæmi að upphaflegri kröfu sinni á hendur varnaraðila.
Við framangreinda samningagerð á milli varnaraðila og kaupanda fasteignarinnar og ráðstöfun söluandvirðis hennar til varnaraðila hafi því stofnast búskrafa á hendur varnaraðila samkvæmt 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991, þar sem með afsali fasteignarinnar hafi varnaraðili valdið sóknaraðila tjóni. Í ljósi upplýsinga um afsal fasteignarinnar og ráðstöfun söluandvirðis hennar til varnaraðila sé sóknaraðila því nauðsynlegt að breyta kröfulýsingu sinni og lýsa hluta kröfu sinnar sem búskröfu, þ.e. kröfu að fjárhæð 14.000.000 krónur, sem nemi fyrrnefndu söluandvirði fasteignarinnar.
Gjaldþrotaskipti séu sameiginleg fullnustugerð allra kröfuhafa þrotamanns og sú grundvallarregla gildi að kröfuhafar eigi að njóta jafnræðis við úthlutun. Grunnrökin að baki reglum um riftun ráðstafana þrotamanns, sbr. XX kafla laga nr. 21/1991 séu að tryggja enn frekar að markmið laganna um jafnræði kröfuhafa við úthlutun eigna búsins náist. Því skuli riftunarþola heimilt að koma að upphaflegri fjárkröfu sinni á hendur þrotabúinu og njóta jafnrar stöðu við aðra lánadrottna sem hafi jafnréttháar kröfur, sbr. 2. málslið 143. gr. sömu laga.
Þar sem útséð sé um að sóknaraðili fái kröfu sína viðurkennda sem veðkröfu, þar sem veðandlagið sé ekki lengur í eigu varnaraðila eftir afsal fasteignarinnar, hafi kröfulýsingu verið breytt og kröfu sóknaraðila að hluta lýst sem búskröfu.
Um rétt riftunarþola til að lýsa upphaflegri kröfu sinni í þrotabú hafi verið viðurkennt að riftunarþoli eigi að vera eins settur og aðrir kröfuhafar sem ekki hafi fengið neins konar fullnustu eða notið ráðstafana af hálfu þrotamanns. Geti hann því lýst upphaflegri kröfu sinni á hendur þrotamanni. Þá hafi 2. ml. 143. gr. laga nr. 21/1991 verið túlkaður með þeim hætti að kröfuhafi sem fellt hafi niður hluta kröfu sinnar, t.d. af því að hann hafi fengið hluta hennar greiddan með óvenjulegum greiðslueyri og þurfi síðan að sæta riftun á þeirri ráðstöfun, geti lýst allri kröfu sinni í þrotabúið og sé ekki bundinn við niðurfellingu kröfunnar að hluta. Megi enda ætla að sú niðurfelling hafi verið gerð á þeirri forsendu að hluti kröfunnar væri greiddur. Í tilviki sóknaraðila hafi reyndar einnig verið tekið sérstaklega fram að samkomulag um afléttingu veða og niðurfellingu hluta skulda varnaraðila væri háð þeim fyrirvara að hin riftanlega ráðstöfun gengi eftir, sbr. 5. gr. samkomulags aðila dags. 9. nóvember 2009.
Samkvæmt orðalagi 2. ml. 143. gr. laga nr. 21/1991 og ofangreindri túlkun fræðimanna sé það engum vafa undirorpið að sóknaraðili njóti réttar til að koma að upphaflegri kröfu sinni á hendur varnaraðila og fá hana samþykkta eins og henni hafi verið lýst. Kveði síðastnefnt lagaákvæði á um að kröfur riftunarþola eigi að njóta jafnrar stöðu við kröfur annarra lánardrottna sem hafi jafnréttháar kröfur. Í því felist einnig að krafa sóknaraðila eiga að bera t.d. vexti og dráttarvexti til upphafs slitameðferðar.
Sóknaraðili vísar og til þess að fjárhæð búskröfu hans nemi 14.000.000 krónum og eins og fyrr segi samsvari það því endurgjaldi sem varnaraðili hafi móttekið 8. júní 2012. Kveðst varnaraðili vísa til þess að varnaraðili hefði að réttu átt að greiða sóknaraðila söluverðið en það hafi ekki verið gert. Varnaraðila sem tekið hafi við kaupverðinu hafi verið kleift að ávaxta það og sé því gerð krafa um almenna vexti frá 8. júní 2012, með vísan til 4. gr., sbr. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, auk höfuðstólsfærslu á 12 mánaða fresti. Þá sé krafist dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá 2. maí 2014 en þá hafi verið liðinn mánuður frá því varnaraðili hafi móttekið breytta kröfulýsingu sóknaraðila.
Hvað varði þann hluta fjárhæðar kröfu sóknaraðila sem krafist sé að viðurkenndur verði sem almenn krafa þá sé höfuðstóll kröfunnar 197.500.000 krónur, en samkvæmt viðauka 30. september 2009 hafi verið samkomulag um að krafa sóknaraðila væri 199.138.338 krónur 11. ágúst 2009 og skyldi bera fasta ársvexti m.v. dagareglu Actual/360 fram að lokadagsetningu uppgjörs.
Áður hafi sóknaraðili veitt varnaraðila peningamarkaðslán að fjárhæð 20.000.000 krónur. Sé höfuðstóll kröfunnar því 219.138.338 krónur (199.138.338 +20.000.000) og 18,65% samningsvextir til 9. apríl 2010 samtals að fjárhæð 26.841.670 krónur, eða samtals 245.980.008 krónur. Frá þeirri fjárhæð dragist 14.000.000 krónur og nemi hin almenna krafa því samtals með vöxtum 231.980.008 krónum.
Sóknaraðili kveðst krefjast þess að hluti kröfu hans verði viðurkenndur sem búskrafa, sbr. framangreint, til að þess sé gætt að hann verði jafnsettur og hin riftanlega ráðstöfun hefði aldrei átt sér stað, sbr. 2. ml. 143. gr. laga nr. 21/1991 og grunnreglur gjaldþrotaskiptaréttar um jafnræði kröfuhafa. Verði ekki fallist á aðalkröfu sóknaraðila sé hann sviptur þeim lögbundna rétti sínum að njóta fulls jafnræðis á við aðra kröfuhafa, en lög um gjaldþrotaskipti séu reist á þeirri meginreglu að kröfuhafar skuli njóta jafnræðis við skipti og öll frávik frá því yrðu að styðjast við skýr lagafyrirmæli. Af öllum ofangreindum sökum beri varnaraðila að fallast á aðalkröfu sóknaraðila eins og hún sé sett fram.
Til vara krefst sóknaraðili þess að krafa hans að fjárhæð 245.980.008 krónur verði viðurkennd sem almenn krafa, sbr. 113. gr. laga nr. 21/1991. Styðjist krafan við skýr fyrirmæli 2. ml. 143. gr. laga nr. 21/1991 með sama hætti og að framan hafi þegar verið lýst. Sé framangreind fjárhæð samanlögð skuld varnaraðila að viðbættum umsömdum vöxtum fram að upphafsdegi slitameðferðar 9. apríl 2010. Verði ekki fallist á kröfur sóknaraðila sé ljóst að hann fengi aðeins hluta kröfu sinnar samþykktan við slitameðferðina en það samrýmis ekki orðalagi síðastefnds lagaákvæðis eða viðurkenndri skýringu þess. Þá sé með öllu vísað á bug sjónarmiðum sem komi fram í bréfi varnaraðila til héraðsdóms 25. október 2013 um að fjárkröfur sóknaraðila, sem séu umfram greiðslu að fjárhæð 160.250.000 krónur sem rift hafi verið með dómi Hæstaréttar í máli nr. 139/2012, séu óviðkomandi þeirri kröfu sem stofnist á grundvelli dómsins og því fallnar niður sökum vanlýsingar samkvæmt 118. gr. laga nr. 21/1991.
Stangist framangreind sjónarmið á við skýrt orðalag 2. ml. 143. gr. laga nr. 21/1991, auk þess sem augljóst sé að fjárkrafan hafi ekki raknað við fyrr en að genginni niðurstöðu um hina riftanlegu rástöfun með fyrrnefndum dómi Hæstaréttar, sbr. 6. tl. 118. gr. laga nr. 21/1991. Fram til þess tíma hafi sóknaraðili ekki átt kröfu á hendur varnaraðila, þar sem hún hafi verið felld niður í tengslum við samkomulag um hina riftanlegu ráðstöfun og því ekki unnt að lýsa henni á hendur varnaraðila fyrr en að gengnum fyrrnefndum dómi. Þá sé að öðru leyti um varakröfu vísað til sömu röksemda og áður hafi verið hafðar uppi til stuðnings aðalkröfu.
Sóknaraðili vísar til þess að hann reki ekki virðisaukaskattskylda starfsemi og því sé honum nauðsyn á því að tekið sé tillit til þess skatts við ákvörðun málskostnaðar honum til handa.
Sóknaraðili kveðst reisa kröfu sína aðallega á þeim ákvæðum laga sem að framan sé vísað til. Sé þar m.a. um að ræða lög nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., aðallega 2. ml. 143. gr., 3. tl. 110. gr., 113. gr. 5. og 6. tl. 118. gr., lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og lög nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá kveðst sóknaraðili vísa til almennra reglna samninga- og kröfuréttar, þ.á.m. reglna um skuldbindingargildi samninga og samningsfrelsi. Sóknaraðili byggi málskostnaðarkröfu sína á XXI. kafla laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991. Krafa um virðisaukaskatt af málskostnaði styðjist við ákvæði laga nr. 50/1988.
Við munnlegan málflutning mótmælti sóknaraðili því að búskröfu hans hafi ekki verið lýst án ástæðulausra tafa. Vísaði hann til þess að erfitt hafi verið að fá upplýsingar frá varnaraðila um afdrif hinna veðsettu eigna og honum verði ekki virt það til vanrækslu þó hann hafi ekki þegar í kjölfar tölvubréfs frá varnaraðila 9. apríl 2013 lýst hinni breyttu kröfu, enda megi sjá á bréfinu að ekki hafi legið fyrir upplýsingar um allar þær eignir sem um ræddi á þeim tíma.
III
Í greinargerð sinni kveður varnaraðili að hann telji ekki rúmast innan ákvæðis 6. töluliðar 1. mgr. 118. gr., sbr. 143. gr. laga nr. 21/1991, heimild til að koma að niðurfallinni veðkröfu. Sama eigi við um kröfur sem njóti rétthærri stöðu, líkt og búskröfur samkvæmt 110. gr. sömu laga. Ákvæðið beri að skýra með tilliti til jafnræðis kröfuhafa og með hliðsjón af því að um sé að ræða undanþágu sem raski verulega stöðu búsins og geti því ekki verið heimilt að koma að kröfu sem njóti rétthærri stöðu en samkvæmt 113. gr. laganna. Því geti ekki áður umsamin veðkrafa milli aðila, raknað við í kjölfarið á riftun á ótilhlýðilegri greiðslu samkvæmt því uppgjörssamkomulagi sem um hafi rætt. Varnaraðili telji tilgang undanþágureglu 143. gr. laganna ekki vera þann að endurlífga niður fallin veðréttindi, heldur sé henni ætlað gefa riftunarþola tækifæri á að koma fjárkröfu sinni að við slitameðferð varnaraðila.
Jafnframt sé því sérstaklega mótmælt að varnaraðila hafi ekki verið heimilt að ráðstafa hinni áður veðsettu fasteign að Borgarbraut 57, Borgarnesi. Ljóst sé að umrædd veðréttindi hafi verið niður fallin þegar ráðstöfunin hafi átt sér stað og að mati varnaraðila hafi þau ekki undir nokkrum kringumstæðum getað komist á aftur. Varnaraðila hafi ávallt verið heimilt að ráðstafa eigninni sem þinglýstur eigandi og sé ósannað með hvaða hætti hann hafi valdið sóknaraðila tjóni með ráðstöfunum sínum. Að framansögðu virtu telji varnaraðili að búskrafa hafi ekki stofnast enda eigi ákvæði 3. tl. 110. gr., sbr. 5. tl. 118. gr. laga nr. 21/1991 ekki við í málinu.
Ljóst sé að krafa skv. 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 5. tl. 118. gr. sömu laga sé undantekning frá þeirri meginreglu 1. ml. sömu lagagreinar sem kveður á um að kröfu skuli lýsa fyrir lok kröfulýsingarfrests. Af þeim sökum m.a. með tilliti til jafnræðis kröfuhafa þá séu þær skyldur lagðar á herðar kröfuhafa að lýsa kröfu á grundvelli 5. tl. 118. gr. laganna án ástæðulauss dráttar eins og skýrlega komi fram í ákvæðinu. Fyrir liggi að sóknaraðili hafi fengið upplýsingar um ráðstöfun varnaraðila á fasteigninni að Borgarbraut 57, Borgarnesi, með tölvupósti 9. september 2013. Krafa hans með vísan til 3. tl. 110. gr., sbr. 5. tl. 118. gr. laga nr. 21/1991 hafi fyrst komið fram 2. apríl 2014 eða sjö mánuðum eftir að honum hafi orðið ljóst að hin áður veðsetta eign hafi verið seld af hálfu varnaraðila. Sá dráttur sem orðið hafi á því að lýsa kröfunni samkvæmt framangreindu sé óútskýrður og verði að teljast ástæðulaus. Kröfunni verði því að hafna þar sem hún sé of seint fram komin og lagaskilyrðum sé því ekki fullnægt.
Krafa sóknaraðila sé grundvölluð á þeirri greiðslu varnaraðila til sóknaraðila sem rift hafi verið í dómi Hæstaréttar í máli nr. 139/2012 og verði kröfufjárhæðin að samræmast þeirri fjárhæð sem sóknaraðila hafi verið gert að greiða til varnaraðila. Túlkun sóknaraðila á ákvæði 143. gr. laga nr. 21/1991 sé því mótmælt.
Varnaraðili byggi á því að samkvæmt 6. tl. 118. gr. laga nr. 21/1991, sé sóknaraðila aðeins heimilt að koma að fjárhæð sem nemi þeirri greiðslu sem rift hafi verið í framangreindum dómi Hæstaréttar. Af því leiði að aðrar kröfur sem sóknaraðili kunni að hafa átt á hendur varnaraðila en þær sem framangreindur dómur nái til, séu óviðkomandi þeirri kröfu sem heimilt sé að lýsa samkvæmt síðstefndu lagaákvæði. Séu aðrar kröfur því fallnar niður sökum vanlýsingar, sbr. 1. ml. 118. gr. laga nr. 21/1991.
Í 6. tl. 118. gr., sbr. 143. gr. laga nr. 21/1991 komi fram undantekningarregla frá 1. ml. 118. gr. sömu laga sem kveði á um að kröfu skuli lýsa fyrir lok kröfulýsingarfrests, sbr. 2. mgr. 85. gr. laganna. Túlka verði þessa undantekningarreglu þröngt í samræmi við almenn lögskýringarsjónarmið. Hugtakið „upphafleg fjárkrafa“ verði því að skilgreina þröngt og takmarka endurkröfu sóknaraðila á hendur varnaraðila við þá greiðslu sem rift hafi verið og þá fjárhæð sem sóknaraðila hafi verið gert að greiða til varnaraðila á grundvelli niðurstöðu umrædds Hæstaréttardóms. Megi enda ráða af ákvæðinu að tilgangur þess sé að heimila riftunarþola að koma að þeirri kröfu sinni sem rift hafi verið með dómi.
Með vísan til framangreinds telji varnaraðili að ekki sé heimilt að samþykkja aðra og hærri kröfu á grundvelli framangreinds Hæstaréttardóms en sem nemi þeirri fjárhæð sem rift hafi verið samkvæmt dómnum, eða 160.250.000 krónur.
Varnaraðili kveðst ekki hafa með höndum virðisaukaskattskylda starfsemi og því verði við ákvörðun málskostnaðar honum til handa að taka tillit til skyldu til greiðslu virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.
Varnaraðili kveðst vísa til laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og þá sérstaklega 3. tl. 110. gr., 113. gr., 118. gr. og 143. gr. laganna. Auk þess sé vísað til laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Málskostnaðarkrafa eigi sér stoð í 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og krafa um virðisaukaskatt byggi á lögum nr. 50/1988 um það efni.
IV
Mál þetta er eins og fyrr segir ágreiningsmál við slitameðferð varnaraðila. Í málinu er óumdeilt að varnaraðili skuldaði sóknaraðila fjármuni samkvæmt tveimur lánssamningum sem nánar er lýst hér að framan samtals að höfuðstól 219.138.338 krónur en skuldin skyldi bera 18,65% vexti samkvæmt samningi aðila. Nánar tilgreindar eignir voru settar að veði til tryggingar skuldinni. Með samkomulagi aðila 9. nóvember 2009 var mælt fyrir um uppgjör framangreindrar skuldar með þeim hætti að varnaraðili afsalað sóknaraðila 160.250.000 hlutum í Nesvöllum ehf. Fól samkomulagið í sér fullnaðaruppgjör skuldarinnar með framangreindum hætti og var einnig mælt fyrir um að veðsetningum skyldi aflétt.
Slitastjórn varnaraðila lýsti yfir riftun framangreindrar ráðstöfunar 1. október 2010 og höfðaði í kjölfrið riftunarmál á grundvelli reglna XX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Með dómi Hæstaréttar 6. desember 2012 far fallist á riftun á þeirri greiðslu skuldar sem farið hafi fram með ofangreindum hætti. Þá var sóknaraðili málsins dæmdur til að greiða varnaraðila 160.250.000 krónur, ásamt nánar greindum dráttarvöxtum og málskostnaði.
Það er meginregla í kröfurétti að almennt skuli telja það verulega forsendu samningsaðila í gagnkvæmu samningssambandi að efndaskylda hans sé háð því að gagnaðili inni sína greiðslu af hendi. Telja verður í fullu samræmi við framangreinda meginreglu að aðili sem dæmdur hefur verið til að skila til baka greiðslu, sem hann fékk greidda, með vísan til reglna XX. kafla laga nr. 21/1991 geti haft uppi þá fjárkröfu sem hann áður átti á hendur gagnaðilanum. Er enda mælt með beinum hætti fyrir um slíkt í 2. ml. 143. gr. laga nr. 21/1991, en þar segir að kröfuhafa skuli heimilt að koma að upphaflegri fjárkröfu sinni á hendur þrotabúinu og njóta jafnrar stöðu við aðra lánardrottna sem hafi jafnréttháar kröfur. Veldur það ekki verulegum vafa að mati dómsins að ákvæðið vísar hér til þeirrar fjárkröfu sem aðili átti upphaflega á hendur skuldara óháð því hver sú greiðsla var sem skuldarinn sjálfur innti af hendi. Er því ekki fallist á með varnaraðila að krafa sóknaraðila geti takmarkast við þá fjárhæð sem hann var dæmdir til að greiða varnaraðila með fyrrnefndum Hæstaréttardómi. Gögn málsins bera með sér að varnaraðili hafi staðið í þeirri skuld við sóknaraðila sem krafist er efnda á í máli þessu og krafan hafi réttilega verið reiknuð með vöxtum fram að upphafsdegi slitameðferðar varnaraðila. Eru því ekki efni til annars en að fallast á kröfuna eins og hún er fram sett að fjárhæð 231.980.008 krónur.
Sóknaraðili hefur dregið 14.000.000 krónur frá kröfu sinni og krefst þess að fá kröfu að þeirri fjárhæð viðurkennda sem búskröfu með vísan til 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991. Byggir hann á því að peningamarkaðslán að höfuðstól 20.000.000 krónur, ásamt vöxtum, hafi verið tryggt með 1. veðrétti í fasteigninni að Borgarbraut 57, Borgarnesi. Varnaraðili hafi selt eignina og fengið greiddar 14.000.000 krónur fyrir hana 8. júní 2012. Byggir sóknaraðili á því að varnaraðili, sem á þessum tíma hafi þegar leitað úrlausnar dómstóla um riftunarkröfu sem m.a. hafi lotið að umræddri fasteign, hafi því mátt vita, að veðkrafa kynni að rakna við ef fallist yrði á riftunina, sbr. 2. ml. 143. gr. laga nr. 21/1991. Hafi sóknaraðili því orðið fyrir tjóni sem nemi andvirði eignarinnar, auk almennra vaxta og dráttarvaxta. Slitastjórn varnaraðila beri ábyrgð á umræddu tjóni og beri því að viðurkenna kröfuna eins og hún sé fram sett.
Varnaraðili mótmælir því í fyrsta lagi að niðurfallin veðkrafa geti raknað við á grundvelli reglu 143. gr. laga nr. 21/1991. Þá telur hann einnig að slitastjórn hans hafi verið fullheimilt að ráðstafa umræddri eign enda enginn veðréttur til staðar. Þá telur hann ósannað að hann hafi valdið sóknaraðila tjóni með ráðstöfunum sínum. Þá vísar varnaraðili einnig til þess að búskröfu sóknaraðila hafi ekki verið lýst án ástæðulausra tafa en fyrir liggi í málinu að um sjö mánuðir hafi liðið frá því að sóknaraðili hafi verið upplýstur 9. september 2013 um sölu umræddrar fasteignar og þar til búskrafa hafi verið sett fram 2. apríl 2014.
Sóknaraðili lýsti allri kröfu sinni upphaflega sem veðkröfu, skv. 111. gr. laga nr. 21/1991. Við meðferð málsins hjá slitastjórn komu smám saman fram upplýsingar um hver hefðu orðið afdrif umræddra eigna sem sóknaraðili naut áður veðréttinda yfir, sem leiddi að endingu til þess að sóknaraðili breytti kröfugerð sinni að því er varðar stærstan hluta kröfunnar og krefst þess nú að hún njóti stöðu almennrar kröfu, sbr. hér fyrr. Þegar litið er til þess vafa sem lengi vel var uppi um afdrif veðsettra eigna verður fallist á með sóknaraðila að búskrafa hans skuli teljast hafa komið fram án ástæðulauss dráttar í skilningi 5. tl. 118. gr. laga nr. 21/1991. Það er og mat dómsins að 2. ml. 143. gr. laga nr. 21/1991 in fine verði ekki skilinn á annan veg en að kröfuhafa sé ekki aðeins unnt á grundvelli ákvæðisins að lýsa upprunalegri fjárhæð kröfu sinnar, heldur einnig að krefjast stöðu hennar í réttindaröð með sama hætti og aðrir kröfuhafar sem samskonar kröfur eigi. Verður því fallist á með sóknaraðila að honum hafi verið rétt að lýsa kröfu sinni sem veðkröfu með vísan til 111. gr. laga nr. 21/1991 á grundvelli þess að veðréttindi hans skyldu rakna við við riftun þess skuldauppgjörs sem aðilar gengu til 9. nóvember 2009. Þá er fallist á með sóknaraðila að varnaraðila hafi mátt vera þessi staða ljós og hafi borið að halda umræddu veði til haga til efnda á þeirri veðkröfu sem mátti búast við að vaknaði til lífsins á ný ef fallist yrði á kröfur varnaraðila í því máli fyrir Hæstarétti sem fyrr er vísað til. Er því fallist á með sóknaraðila að varnaraðili hafi valdið honum tjóni, sem nemi þeirri fjárkröfu sem sóknaraðili hefur haldið uppi, enda hefur engum efnisvörnum verið haldið uppi af hálfu varnaraðila um fjárhæð kröfunnar eða hafa verið sett fram rökstudd mótmæli við vaxtakröfu. Verður krafa sóknaraðili því einnig tekin til greina um þessi atriði, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Með hliðsjón af framangreindum málsúrslitum verður varnaraðili úrskurðaður til að greiða sóknaraðila málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn sú fjárhæð sem nánar greinir í úrskurðarorði. Hefur við ákvörðun fjárhæðarinnar verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Af hálfu sóknaraðila flutti málið Bjarki H. Diego hrl. en af hálfu varnaraðila flutti málið Jón Ingi Þorvaldsson hdl. fyrir hönd Hróbjarts Jónatanssonar hrl.
Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan að gættu ákvæði 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 en uppkvaðning úrskurðarins hefur dregist vegna embættisanna dómara.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Við slitameðferð varnaraðila, VBS eignasafns hf., er viðurkennd krafa, sóknaraðila, Tryggingamiðstöðvarinnar hf., að fjárhæð 231.980.000 krónur og skal hún hafa stöðu í skuldaröð sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Þá er viðurkennd við slitameðferð varnaraðila krafa sóknaraðila að fjárhæð 14.000.000 krónur, ásamt almennum vöxtum óverðtryggðra útlána, samkvæmt 4. gr., sbr. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá 8. júní 2012 til 2. maí 2014 og dráttarvöxtum, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Skal krafan, auk vaxta og dráttarvaxta, hafa stöðu í skuldaröð sem búskrafa samkvæmt 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Varnaraðili greiði sóknaraðila 500.000 krónur í málskostnað.