Hæstiréttur íslands
Mál nr. 333/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Lögræðissvipting
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Helgi I. Jónsson og Viðar Már Matthíasson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. maí 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 31. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. maí 2017, þar sem sóknaraðili var svipt sjálfræði í tólf mánuði. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að sjálfræðissviptingunni verði markaður skemmri tími. Þá krefst hún kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar, um annað en þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, verður hann staðfestur með þeirri þóknun sem greinir í úrskurðarorði.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila vegna flutnings málsins fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði og er hún ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun verjanda sóknaraðila, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur héraðsdómslögmanns, 148.800 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. maí 2017.
Með kröfu, sem barst dóminum 10. maí sl. hefur sóknaraðili, Velferðarsvið Reykjavíkurborgar, Borgartúni 12-14, Reykjavík, krafist þess að varnaraðili, A, kt. [...], [...], [...], verði með vísan til a- og b- liðar 4. gr. og 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997, svipt sjálfræði, tímabundið í 12 mánuði. Um aðild sóknaraðila vísast til d-liðar 2. mgr. 7. gr. sömu laga.
Varnaraðili mótmælir kröfunni. Þá er og gerð krafa um að skipuðum verjanda verði ákveðin hæfileg þóknun úr ríkissjóði með vísan til 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga.
I.
Sóknaraðili byggir kröfur um sviptingu sjálfræðis til tólf mánaða á a- og b-liðum 4. gr., sbr. 5. gr., lögræðislaga. Krafan byggi á því að varnaraðili eigi við geðsjúkdóm og fíknivandamál að stríða og sé af þeim sökum ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum.
Sóknaraðili bendir á að velferðarsvið Reykjavíkurborgar sé sóknaraðili í málinu, sbr. d-lið 2. mgr. 7. gr. lögræðislaga. Aðstæður allar þyki vera með þeim hætti að rétt sé að sóknaraðili standi að beiðni um sjálfræðissviptingu varnaraðila.
Í kröfu sóknaraðila kemur fram að varnaraðili sé [...] ára gömul, einhleyp og eigi [...] ára son. Hún leigi húsnæði og framfleyti sér á örorkubótum. Fyrsta innlögn varnaraðila á geðdeild, nánar tiltekið á barna- og unglingageðdeild, hafi verið 2005 vegna þunglyndiseinkenna.Varnaraðili hafi komið til innlagnar á geðdeild í apríl 2016 í lögreglufylgd. Þá hafi verið talið að um neyslutengt geðrof væri að ræða. Hún hafi verið nauðungavistuð en náð heilsu fljótlega og nauðungavistuninni verið aflétt í kjölfarið. Fljótlega eftir útskrift hafi varnaraðili veikst á ný en ekki verið til samvinnu um innlögn. Í júlí 2016 hafi varnaraðili aftur verið innlögð og metin í geðrofi. Í kjölfarið hafi hún verið nauðungarvistuð í 72 klst., sbr. 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga en verið sjálfviljug á spítalanum síðari hluta innlagnar og útskrifast viku síðar. Þá hafi það verið um miðjan ágúst 2016 sem foreldrar varnaraðila hafi komið með hana á bráðaþjónustu geðsviðs Landspítalans. Varnaraðili hafi verið til samvinnu um innlögn og farið á opna endurhæfingargeðdeild á Kleppi. Samkvæmt málsgögnum hafi hún sinnt meðferðinni illa, hátterni hennar verið undarlegt og hún ekki til samvinnu varðandi lyfjameðferð. Að þremur mánuðum liðnum, í desemberlok 2016, hafi hún útskrifað sig sjálf.
Í lok janúar 2017 hafi varnaraðili leitað á bráðamóttöku geðsviðs og verið lögð inn sjálfviljug vegna undarlegrar hegðunar. Hún hafi útskrifast í febrúar 2017 og samþykkt að hefja dagmeðferð á Laugarási, meðferðargeðdeild. Samkvæmt foreldrum varnaraðila hafi hún fljótlega eftir útskrift hætt að taka lyfin og ekki mætt í eftirfylgd á meðferðargeðdeildina að Laugarási.
Hinn 19. apríl 2017 hafi varnaraðili komið í lögreglufylgd á bráðageðdeild Landspítalans eftir að borgarlæknir hafi metið hana bráðveika og í þörf fyrir innlögn. Hún hafi verið nauðungarvistuð í 72 klst., sbr. 2. mgr. 19. gr. lögræðislaga. Sóknaraðili hafi 20. apríl 2017 staðið að beiðni um nauðungarvistun í 21 sólarhring, sbr. 19. gr., sbr. 20. og 21. gr. lögræðislaga, sem samþykkt hafi verið með bréfi sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu 21. apríl 2017. Varnaraðili hafi krafist þess fyrir héraðsdómi að ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu 21. apríl 2017, um að hún skyldi vistuð á sjúkrahúsi, yrði felld úr gildi. Með úrskurði héraðsdóms 26. apríl sl. hafi kröfu hennar verið hafnað.
Í vottorði B geðlæknisfrá 8. maí 2017, komi fram að í upphafi innlagnar hafi varnaraðili verið hugsanatrufluð og talað samhengis- og viðstöðulaust. Þá komi fram að varnaraðili hafi talið sig geta talað við Guð og [...]. Hún hafi verið vör um sig, fjarræn auk þess sem hún hafi verið eirðarlaus í viðtölum og sýnt af sér undarlega hegðun á deildinni. Þá hafi örlað á örlyndiseinkennum hjá varnaraðila. Þá komi fram að hún hafi verið til samvinnu um lyfjameðferð. Einhver sýnilegur bati sé hjá varnaraðila en hún enn veik og í þörf fyrir lyfjameðferð.
Samkvæmt læknisvottorði geðlæknisins séu verulegar líkur á því að varnaraðili sé haldin alvarlegum geðsjúkdómi, þá annað hvort geðhvarfaklofa eða geðklofa auk vímuefnavanda. Varnaraðili sé ekki meðferðarheldin á lyf og hætti að taka lyf fljótlega eftir að hún útskrifist. Hún sé innsæislaus í veikindi sín og telji sig ekki veika og þurfi því ekki á lyfjum að halda. Að mati læknisins séu yfirgnæfandi líkur á því að þegar nauðungarvistun ljúki þá muni varnaraðili útskrifa sig og hætta að taka lyfin. Þá segi orðrétt í vottorðinu:
Stefnt er að því að A flytjist af bráðageðdeild 32C á endurhæfingargeðdeild eins fljótt og auðið er. Það er mat undirritaðrar að nauðsynlegt sé að hún leggist inn á endurhæfingargeðdeild svo koma megi við meðferð sem miðar að því að virkja hana í félagslegum athöfnum og tryggja árangur lyfjagjafar. Væntanlega mun slík meðferð leiða til aukins sjúkdómsinnsæis og koma í veg fyrir frekara heilsutjón af völdum alvarlegs geðsjúkdóms.
Endurhæfing einstaklinga með flókinn vanda þar sem sjúkdómsinnsæi er lítið sem ekkert tekur tíma og er það mat meðferðaraðila að A þurfi að vera sjálfræðissvipt í a.m.k. eitt ár svo unnt sé að tryggja að hún fái viðeingandi meðferð og endurhæfingu. Vægari úrræði eru talin fullreynd, A hefur ekki sinnt lyfjameðferð eða meðferð á opinni endurhæfingargeðdeild. Áframhaldandi meðferð er A nauðsynleg og án hennar stefnir hún heilsu sinni í voða og spillir möguleikum á bata. Því styðja meðferðaraðilar eindregið framkomna beiðni um sjálfræðissviptingu til eins árs.
Að mati læknisins sé nauðsynlegt að varnaraðili sé sjálfræðissvipt til eins árs svo unnt sé að veita honum viðeigandi læknismeðferð. Samkvæmt framansögðu og með hliðsjón af aðstæðum öllum verði að telja að tímabundin sjálfræðissvipting til eins árs sé nauðsynleg til að vernda líf og heilsu varnaraðila.
Við aðalmeðferð málsins gaf áðurnefndur geðlæknir símaskýrslu. Hann staðfesti vottorð sitt og svaraði spurningum um efni þess. Ítrekaði hann að hann teldi nauðsynlegt vegna alvarlegs vanda varnaraðila að hún yrði svipt sjálfræði til tólf mánaða. Væri ljóst að varnaraðili þyrfti gríðarmikið aðhald og eftirfylgni vegna geðsjúkdóms síns og fíkniefnavanda síns. Varnaraðili væri örugglega með geðrof og líklega geðrofssjúkdóm. Varnaraðili hefði ekkert innsæi í sjúkdóm sinn. Hún hafi komið 5 sinnum inn á geðdeild á einu ári. Í hvert skipti sem hún færi út hætti hún að taka þau lyf sem henni væri uppálagt að taka. Væri svipting nauðsynleg til að koma henni á rétt ról og eitt ár lagmarkstími í því sambandi. Í þeim tilfellum þar sem sjúklingar hefðu lítið eða ekkert innsæi í sjúkdóm sinn þyrfti jafnan lengri tíma í meðferð. Varnaraðili hefði jafnan mælst jákvæð í fíkniefnaprófum við komu inn á deild og væri mjög líklegt að hún notaði kannabis til að glíma við kvíða sem hún glímdi við. Í ljósi fyrri innlagna og tilrauna væru öll vægari úrræði en svipting reynd.
Varnaraðili kom fyrir dóminn. Hún lýsti því að hún teldi að hún væri ekki haldin geðklofa eða eða geðhvarfaklofa. Þá kvaðst varnaraðili ekki glíma við fíkniefnavanda. Væri hún tilbúin til að taka þau lyf er hún nú væri á ef hún færi út af geðdeild. Hefði hún farið inn á geðdeild í fyrri tilvikum vegna þrýstings frá foreldrum sínum. Hún hefði ekki metið það sjálf þannig að hún þyrfti að fara inn á deild.
II.
Með framangreindu vottorði geðlæknis og vættis hans fyrir dómi, en einnig með hliðsjón af öðrum fyrirliggjandi gögnum málsins og framburði varnaraðila, þykir sýnt að varnaraðili glími við mikinn vanda sem felst, eins og áður segir, í því að hún glími við alvarlegan geðsjúkdóm, sem hún hefur ekkert innsæi í. Að auki virðist hún glíma við fíknivanda, en hún hefur ætíð reynst jákvæð á fíkniefnaprófum við innlagnir á geðdeild. Ljóst er að innsæi varnaraðila í sjúkdóm sinn og þarfir er ekkert, en hún hefur eins og áður greinir hætt að taka lyf sem eru henni nauðsynleg og kveðst ekki glíma við fíkniefnavanda. Hafi hún farið á geðdeildina á liðnum misserum að ósk foreldra sinna, en ekki að eigin ósk. Hafa vægari úrræði en svipting verið fullreynd, en varnaraðili hefur 5 sinnum farið inn á geðdeild á einu ári, án þess að það hafi borið varanlegan árangur. Varnaraðili virðist vissulega vera á réttri leið, en á enn það langt í land samkvæmt mati geðlæknis að óvarlegt þykir að fallast ekki á kröfur sóknaraðila.
Í þessu ljósi telur dómurinn brýna þörf á að varnaraðili verði tímabundið svipt sjálfræði. Ljóst er að virkt og stöðugt aðhald og lyfjagjöf er forsenda þess að árangur geti náðst við meðhöndlum varnaraðila og eru því ekki síst hennar eigin hagsmunir hér hafðir í huga. Telur dómurinn því uppfyllt skilyrði a- og b-liða 4. gr., sbr. og 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga, til að verða við kröfu sóknaraðila um tímabundna sjálfræðissviptingu varnaraðila. Í ljósi vættis geðlæknis þykja ekki efni standa til þess að marka sviptingunni skemmri tími.
Dómurinn bendir á að samkvæmt 1. og 2. mgr. 15. gr. lögræðislaga getur varnaraðili, þegar liðnir eru sex mánuðir frá upphafi sviptingar, borið fram kröfu við héraðsdómara um að sjálfræðissvipting þessi verði felld úr gildi að nokkru eða öllu leyti telji hún skilyrði hennar ekki lengur fyrir hendi.
Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga nr. 71/1971 ber að greiða úr ríkissjóði allan kostnað af rekstri málsins, þar með talda þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur héraðsdómslögmanns, sem þykir hæfilega ákveðin 150.000 krónur. Við ákvörðun þóknunar hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ:
Varnaraðili, A, kt. [...], er svipt sjálfræði í tólf mánuði.
Allur kostnaður af málinu, þ.m.t. þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur héraðsdómslögmanns, 200.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.