Hæstiréttur íslands
Mál nr. 591/2015
Lykilorð
- Heimvísun
- Meðdómsmaður
- Hæfi dómara
- Ómerking héraðsdóms
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma Benedikt Bogason hæstaréttardómari og Hjördís Hákonardóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 8. september 2015. Hún krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað, en til vara að stefndu verði óskipt gert að greiða sér 2.427.456 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 28. október 2010 til 2. október 2013, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt.
Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og aðallega málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að málskostnaður verði látinn niður falla.
I
Áfrýjandi reisir kröfu sína um ómerkingu hins áfrýjaða dóms á því að málsmeðferðinni í héraði hafi verið verulega áfátt og í ósamræmi við réttarfarslög. Til stuðnings þessu bendir hún á að óheimilt hafi verið að kveðja til tvo sérfróða meðdómsmenn til setu í dómi þar sem niðurstaða málsins velti eingöngu á túlkun laga. Þannig sé ekki deilt um staðreyndir sem bornar séu fram sem málsástæður og sérkunnáttu þurfi til að leysa úr, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í annan stað bendir áfrýjandi á að ekki hafi verið gætt að því að greina henni frá því með fyrirvara hverja dómurinn hygðist kveðja til setu í dómi þannig að aðilum gæfist kostur á að gera athugsemdir ef þeir teldu efni til, sbr. 1. mgr. 4. gr. laganna. Telur áfrýjandi að annar meðdómsmanna, Ragnar Jónsson bæklunarlæknir, hafi verið vanhæfur til setu í dómi vegna trúnaðarstarfa fyrir stefnda Vörð tryggingar hf., sem ráðgefandi læknir félagsins, auk þess sem hann hafi sinnt matsstörfum fyrir það. Jafnframt telur áfrýjandi það valda vanhæfi meðdómsmannsins að hún hafi á tímabilinu 1988 til 1989 verið búsett á heimili hans erlendis og verið þar sem „au pair“. Um lagarök fyrir þessu vísar áfrýjandi til g. liðar 5. gr. laga nr. 91/1991.
Af hálfu stefndu er því andmælt að nefndur meðdómsmaður hafi gegnt trúnaðarstöfum í þágu stefnda Varðar tryggingar hf., í það minnsta frá árinu 2007. Þó staðfestir hann að í samræmi við lagaskyldu hafi meðdómsmanninum verið greitt fyrir matsgerðir sem frá honum stafa, en alkunnugt sé að hann sinni matsstörfum, bæði á grundvelli samkomulags aðila eða sem dómkvaddur matsmaður. Þá telja stefndu að persónuleg kynni meðdómsmannsins af áfrýjanda séu ekki þess eðlis að þau getið valdið vanhæfi.
II
Þótt fallist yrði á það með áfrýjanda að engin efni hafi verið til að kveðja til sérfróða meðdómsmenn getur það eitt ekki valdið því að héraðsdómur verði ómerktur. Úr því að sérfróðir meðdómsmenn voru kvaddir til setu í dómi og dæmdu málið urðu þeir að vera hæfir til að fara með það eftir 5. gr. laga nr. 91/1991.
Með dómi Hæstaréttar 15. janúar 2009 í máli nr. 679/2008 var felld úr gildi dómkvaðning fyrrgreinds meðdómsmanns sem matsmanns í máli á hendur stefnda Verði tryggingum hf. þar sem tengsl hans við félagið vegna starfa fyrir það þóttu geta haft áhrif á sönnunargildi matsgerðar hans, sbr. 3. mgr. 61. gr. og 59. gr. laga nr. 91/1991. Þótt stefndi hafi staðhæft að meðdómsmaðurinn hafi ekki gegnt trúnaðarstöfum fyrir félagið frá árinu 2007 hefur hann kannast við að hafa greitt meðdómsmanninum fyrir matsstörf frá þeim tíma. Stefndi hefur hins vegar ekki, þrátt fyrir tilmæli áfrýjanda, veitt upplýsingar um eðli þessara starfa eða umfang þeirra eins og honum hefði verið í lófa lagið. Við þessar aðstæður verður fallist á það með áfrýjanda að hún hafi haft tilefni til að draga óhlutdrægni meðdómsmannsins með réttu í efa, sbr. g. lið 5. gr. laga nr. 91/1991. Af því leiðir að aðalkrafa hennar verður tekin til greina og hinn áfrýjaði dómur ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður, en um gjafsóknarkostnað áfrýjanda fer eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur er ómerktur og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til löglegrar meðferðar og dómsálagningar á ný.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Þórunnar Sifjar Ingvarsdóttur, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, 800.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. júní 2015.
Mál þetta, sem dómtekið var þann 13. maí 2015, var höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með stefnu þingfestri þann 6. nóvember 2014 af Þórunni Sif Ingvarsdóttir, Erluási 41, 221 Hafnarfirði, á hendur Jóhönnu Huld Eggertsdóttur, Hjallabraut 5, 220 Hafnarfirði, og Verði tryggingum hf., Borgartúni 25, 105 Reykjavík.
I.
Stefnandi krefst þess að stefndu verði dæmd sameiginlega (in solidum) til að greiða stefnanda 2.427.456 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 28. október 2010 til 2. október 2013, en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Þá krefst stefnandi þess að stefndu verði dæmd sameiginlega (in solidum) til að greiða stefnanda málskostnað. Þess er einnig krafist að málskostnaður verði dæmdur eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.
II.
Málsatvik
Í máli þessu gerir stefnandi kröfu um frekari greiðslu úr ábyrgðartryggingu bifreiðarinnar YN-123 vegna umferðarslyss þann 20. febrúar 2007. Stefnandi var þá farþegi í framsæti bifreiðar með skráningarnúmerið ON-542 sem lenti árekstri við bifreið með skráningarnúmerið YN-123 þegar síðarnefnda bílnum var ekið aftan á bifreið stefnanda þar sem hún stóð kyrrstæð á Vífilsstaðavegi. Umráðamaður bifreiðarinnar YN-123 var stefnda Jóhanna Huld Eggertsdóttir og bifreiðin var tryggð lögboðinni ábyrgðartryggingu hjá stefnda Verði tryggingum hf. Við áreksturinn fékk stefnandi högg á líkamann og var flutt með sjúkrabifreið á slysa- og bráðadeild Landspítalans í Fossvogi. Þar kvartaði hún undan slæmum verkjum í hálsi og baki vegna slyssins.
Málsaðilar komu sér saman um að æskja mats samkvæmt skaðabótalögum á líkamstjóni stefnanda í kjölfar slyssins. Óskað var mats Sigurðar Thorlaciusar læknis og Ingvars Sveinbjörnssonar hrl. Niðurstaða matsgerðar þeirra, sem lá fyrir 21. maí 2008, var sú að varanlegur miski stefnanda væri 12 stig en varanleg örorka 15%. Stefnandi hafi tognað í hálshrygg og hafi eftir það álagsverki í hálsi og niður í brjósthrygg og meira og minna viðvarandi einkenni – verki, dofa og vægt skerta hreyfifærni – í hægri handlegg, sem rekja mætti til vægs C8 rótarskaða.
Stefndi, Vörður tryggingar hf., gekk til uppgjörs við stefnanda á grundvelli þessarar matsgerðar þann 18. júní 2008 og tók lögmaður stefnanda við greiðslunni fyrir hönd stefnanda með fyrirvara um varanlegan miska og varanlega örorku. Í fyrirvaranum tók lögmaðurinn fram að stefnandi teldi varanlegar afleiðingar slyssins vanmetnar í matsgerðinni.
Með bréfi lögmanns stefnanda, dags. 2. september 2013, voru gerðar frekari kröfur vegna afleiðinga fyrrgreinds slyss. Kröfugerð þessi grundvallaðist á nýrri matsgerð sem lögmaður stefnanda hlutaðist til um að afla til að afleiðingar slyssins yrðu metnar að nýju í kjölfar annars umferðarslyss sem stefnandi varð fyrir 3. mars 2010. Til þess að meta afleiðingar slysanna tveggja höfðu verið dómkvödd til starfans þau Ólöf H. Bjarnadóttir læknir og Sigurður R. Arnalds hrl. Það var með þessari beiðni um dómkvaðningu matsmanna sem stefnandi æskti þess að lagt yrði mat á afleiðingar bílslyssins að nýju, en beiðnin er dagsett 6. júní 2012. Dómkvaðningin fór fram 19. október 2012 og matsgerðin lá fyrir 27. ágúst 2013.
Í matsgerðinni kemur fram að dómkvaddir matsmenn telja að stöðugleika hafi verið náð vegna afleiðinga slyssins 20. febrúar 2007 við útskrift af Reykjalundi þann 9. nóvember 2007. Niðurstöður matsgerðar þeirra, dags. 27. ágúst 2013, eru eftirfarandi:
A. Umferðarslys 20. febrúar 2007: B. Umferðarslys 3. mars 2010
- Stöðugleikapunktur: 9. nóvember 2007. Stöðugleikapunktur: 3. júní 2010.
- Varanlegur miski: 14 stig. Varanlegur miski: Enginn.
- Varanleg örorka: 20%. Varanleg örorka:
- Engin.
Með bréfi, dags. 2. september 2013, krafði stefnandi stefnda Vörð tryggingar hf. um frekari skaðabætur fyrir umferðarslysið 20. febrúar 2007 sem námu 2 stigum varanlegs miska og 5% varanlegrar örorku, auk greiðslu lögmannsþóknunar og útlagðs kostnaðar við öflun læknisvottorða, skattframtala og matsgerðar dómkvaddra matsmanna. Í kröfubréfinu var vísað til þess að við uppgjör málsins árið 2008 hafi verið tekið við bótum með fyrirvara við mat matsmanna á varanlegum miska og varanlegri örorku.
Stefndi Vörður tryggingar hf. hafnaði kröfu stefnanda með bréfi dags. 4. október 2013 og vísaði til þess að bótakrafa stefnanda væri fyrnd samkvæmt 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, þar sem tímabært hafi verið að meta stefnanda árið 2008 þegar allar upplýsingar hefðu legið fyrir um heilsufar stefnanda sem gerðu henni kleift að leita fullnustu kröfu sinnar. Jafnframt kom fram að stefnda þótti mega ráða af læknisfræðilegum gögnum málsins að stefnandi hafi strax árið 2007 haft vitneskju um kröfu sína, þar sem hún hafi strax frá slysdegi verið með einkenni frá hálsi og leitað ítrekað til læknis vegna þeirra einkenna. Þá vísaði stefndi til þess að samkvæmt báðum fyrirliggjandi matsgerðum hafi stöðugleikapunktur verið talinn 9. nóvember 2007 þegar stefnandi útskrifaðist af Reykjalundi.
Stefnandi gat ekki fellt sig við þessa afstöðu stefnda og höfðað mál þetta.
III.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir mál sitt á 1. mgr. 44. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga, skaðabótalögum, 1. mgr. 88. gr., 89. gr., 90. gr., 91. gr. og 95. gr., sbr. 97. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og meginreglu skaðabótaréttar um fullar bætur til tjónþola. Bifreiðin YN-123 hafi verið tryggð lögboðinni ábyrgðartryggingu hjá stefnda Verði tryggingum hf. Krafa um skaðabætur sé byggð á ákvæðum skaðabótalaga og niðurstöðum dómkvöddu matsmannanna Ólafar H. Bjarnadóttur, tauga- og endurhæfingarlæknis, og Sigurðar R. Arnalds hrl., sbr. matsgerð, dags. 27. ágúst 2013.
Stefnandi byggir á því að varanlegur miski hennar af völdum slyssins sé 14 stig og að hún eigi rétt á að fá greiddar viðbótarskaðabætur sem nemi tveimur stigum, enda hafa stefndu áður greitt henni miskabætur vegna 12 stiga miska. Stefnandi byggir einnig á því að varanleg örorka hennar af völdum slyssins sé 20% og að hún eigi rétt á að fá greiddar viðbótarskaðabætur úr hendi stefndu sem nema 5%. Krafa hennar byggi á matsgerð dómkvaddra matsmanna, sem staðfesti auknar afleiðingar vegna umferðarslyssins 20. febrúar 2007 umfram það sem talið hefði verið í fyrri matgerð.
Stefnandi hafnar því að kröfur hennar séu fallnar niður fyrir fyrningu líkt og stefndu haldi fram. Í bréfi stefnda Varðar tryggingum hf. frá 4. október 2013, þar sem kröfum var hafnað, sé vísað til umfjöllunar í eldri matsgerð um að stöðugleikapunktur hefði verið 9. nóvember 2007 (ranglega tilgreint 20. febrúar 2007 í höfnunarbréfinu) og þá hafi verið tímabært að meta varanlegar afleiðingar slyssins. Eins byggi stefndu afstöðu sína á því að dómkvaddir matsmenn hafi ekki verið spurðir sérstaklega „hvenær tímabært var að meta afleiðingar slyssins“, en sú spurning hafi enga lagalega þýðingu við mat á líkamstjóni skv. íslenskum skaðabótarétti og komi málinu ekkert við. Til viðbótar bendir stefnandi á að spurningin hefði ekki verið lögð fram í sameiginlegri matsbeiðni vegna fyrra mats og að stefndu hafi engar athugasemdir gert við efni eða orðalag matsbeiðni stefnanda um dómkvaðningu matsmanna sem stefndu hafi þó haft tækifæri til að koma að.
Stefnandi vísar til þess að samkvæmt orðalagi 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 þurfi tvö skilyrði að vera uppfyllt svo að fyrningarfrestur samkvæmt greininni byrji að líða. Annars vegar þurfi kröfuhafi að hafa vitneskju um kröfu sína og hins vegar þurfi hann að eiga þess kost að geta leitað fullnustu hennar. Af dómaframkvæmd Hæstaréttar verði ráðið að upphafspunktur fyrningar skv. 99. gr. umferðarlaga grundvallist einkum á því hvenær tjónþoli fái vitneskju um að ástand hans muni ekki breytast til framtíðar. Þá hafi tjónþoli fyrst átt þess kost að leita fullnustu kröfu um frekari bætur. Stefnandi byggir á því að heilsufar hennar hafi ekkert batnaði árið 2008 þegar afleiðingar slyss hennar voru metnar í fyrra sinn eins og gert var ráð fyrir í matinu, heldur hafi afleiðingarnar haft sífellt meiri og alvarlegri áhrif á heilsu og starfsgetu stefnanda eftir því sem lengra hafi liðið frá matinu. Um þetta hafi stefnandi ekki vitneskju í skilningi 99. gr. umferðarlaga fyrr en í allra fyrsta lagi árið 2010 þegar hún hafi leitað til Garðars Guðmundssonar, heila- og taugaskurðlæknis, og í síðasta lagi árið 2013 þegar niðurstaða matsgerðar dómkvaddra matsmanna hefði legið fyrir. Fyrningarfrestur vegna hinna auknu afleiðinga slyssins hafi því ekki byrjað að líða fyrr en í fyrsta lagi 1. janúar 2011, en síðasta lagi 1. janúar 2014.
Til staðfestingar því að umfang afleiðinga slyssins séu meiri og alvarlegri en fyrri matsmenn gerðu ráð fyrir árið 2008 vísar stefnandi til þess að í fyrri matsgerð leggi matsmenn til grundvallar að stefnandi hafi tognað í hálshrygg og hafi eftir það álagsverki í hálsi og niður í brjósthrygg og meira og minna viðvarandi einkenni – verki, dofa og vægt skerta hreyfifærni – í hægri griplim, sem rekja megi til vægs C8 rótarskaða. Í matsgerð dómkvaddra matsmanna komist matsmenn aftur á móti að þeirri niðurstöðu að stefnandi hafi hlotið slæman tognunaráverka með miklum eymslum, verulegri hreyfiskerðingu, dofa og leiðniverk án staðfests taugaskaða.
Að mati stefnanda leiki ekki nokkur vafi á því að einkenni hennar vegna afleiðinga slyssins séu meiri en gert var ráð fyrir við fyrra mat árið 2008. Matsgerð dómkvaddra sanni það. Mun ítarlegri heilsufarsleg gögn liggi fyrir hjá dómkvöddum matsmönnum en hinum fyrri auk þess sem unnt hafi verið að meta skerðingu á varanlegri vinnugetu stefnanda með meiri nákvæmni árið 2013 en árið 2008.
Til viðbótar vísar stefnandi til læknisvottorðs Garðars Guðmundssonar heila- og taugaskurðlæknis frá 24. apríl 2010, en þar komi fram að einkennin í hægri handlegg verði að teljast meiri en vægur taugaskaði. Þá vísar stefnandi til þess að hún hefur gengist undir umfangsmikla endurhæfingarmeðferð á Reykjalundi, hjá sjúkraþjálfara og ýmsum læknum frá árinu 2008 til að fá bót meina sinna en án teljandi árangurs.
Varðandi miskabætur samkvæmt 4. gr. skaðabótalag þá vísar stefnandi til matsgerðar dómkvaddra matsmanna, en þar sé varanlegur miski stefnanda vegna afleiðinga umferðarslyssins 20. febrúar 2007 metinn 14 stig. Stefndu hafi þegar greitt stefnanda skaðabætur sem nemi 12 miskastigum og því sé einungis krafist bóta vegna hinna tveggja auknu miskastiga. Krafa hennar vegna þessa þáttar nemi því 2% x 9.924.500 kr. (lánskjaravísitala m.v. september 2013 (4.000.000 x (8.143/3.282) x 2%)) = kr. 198.490 kr.
Varðandi bætur fyrir varanlega örorku skv. 5.-7. gr. skaðabótalaga þá vísar stefnandi til þess að samkvæmt matsgerð dómkvaddra matsmanna sé varanleg örorka stefnanda vegna afleiðinga slyssins metin 20%. Stefndu hafi þegar greitt stefnanda skaðabætur sem nemi 15% varanlegri örorku og því sé einungis krafist bóta fyrir 5% varanlega örorku. Miðað sé við sömu forsendur og gert hafi verið við uppgjör málsins árið 2008. Krafa hennar vegna þessa þáttar nemur því 4.007.904 kr.,- x 11,123 x 5% = 2.228.996 kr.
Málskostnaðarkrafa stefnanda er byggð á 1. mgr. 129. gr. og 1. og 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Málskostnaður stefnanda beri virðisaukaskatt skv. lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt en stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og því sé nauðsynlegt að taka tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun málskostnaðar. Um varnarþing vísar stefnandi til 1. mgr. 33. gr. og 1. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991.
Vaxtakrafa stefnanda er byggð á 16. gr. skaðabótalaga og 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001. Vaxta af bótum er krafist frá 28. október 2010, fjórum árum fyrir stefnubirtingardag, til 2. október 2013. Dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 er krafist af bótafjárhæðinni frá þeim degi, en þá var mánuður liðinn frá því að lögmaður stefnanda krafði stefnda Vörð tryggingar hf. um greiðslu skaðabóta.
Málsástæður og lagarök stefndu
Stefndu telja óumdeilt að slys stefnanda hafi verið bótaskylt á grundvelli 1. mgr. 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Á því sé hins vegar byggt af hálfu stefndu að tjón stefnanda vegna slyssins sé að fullu bætt. Hafi stefnandi átt einhverja viðbótarkröfu á hendur stefndu sé sú krafa fyrnd með vísan til 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.
Samkvæmt ákvæðinu fyrnist bótakrafa á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs sem bótakrefjandi fékk vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar. Af þessu leiði að hinn lögmælti fjögurra ára fyrningartími hefjist við lok þess almanaksárs er tjónþoli telst hafi fengið vitneskju um kröfuna, hafi hann þá átt þess kost að leita fullnustu hennar.
Við mat á því hvenær tjónþoli mátti gera sér grein fyrir kröfu sinni og gat fyrst leitað fullnustu hennar beri að beita hlutlægum mælikvarða. Önnur viðmið en hlutlæg myndu leiða til þess að tjónþoli gæti dregið það árum saman án ástæðu að leita sérfræðinga til að meta afleiðingar slyss, án þess að það hefði áhrif á upphaf fyrningarfrestsins. Slík viðmið myndu þannig í reynd leiða til þess að tjónþoli réði því sjálfur hvenær fyrningarfresturinn byrjaði að líða. Dómstólar hafi ekki léð máls á slíkri nálgun. Fyrir liggi að samkvæmt dómvenju beri við mat á upphafi fyrningarfrestsins fyrst og fremst að líta til þess hvenær fyrst var tímabært að meta afleiðingar slyssins að mati matsmanna. Á því er byggt af hálfu stefndu að stefnandi hafi fyrst átt þess kost að leita fullnustu kröfu sinnar þegar matsgerð Sigurðar Thorlacius og Ingvars Sveinbjörnssonar frá 21. maí 2008 lá fyrir. Dómvenja standi til þess að fjögurra ára fyrningarfrestur samkvæmt 99. gr. laga nr. 50/1987 hefjist almennt ekki síðar en við upphaf næsta almanaksárs eftir að örorkumat liggi fyrir. Stefnandi hafi staðið að uppgjöri við stefnda Vörð tryggingar hf. á grundvelli matsgerðarinnar 18. júní 2008 og tekið við greiðslu með árituðum fyrirvara um að stefnandi teldi varanlegar afleiðingar slyssins vanmetnar af hálfu matsmanna.
Ótvírætt sé að stefnandi hafi verið sér fullkomlega meðvitaður strax árið 2008 um að vera kynni að afla mætti hærra mats á afleiðingum slyssins. Stefnandi hafi hins vegar ekkert hafst að um árabil eða allt fram til þess að hann æskti mats dómkvaddra matsmanna sem létu matsniðurstöðu sína í té 27. ágúst 2013, sem leitt hafi svo til viðbótarkröfu stefnanda 2. september 2013. Meintum kröfurétti sínum hafi stefnandi svo ekki fylgt eftir með málsókn fyrr en með stefnu birtri 28. október 2014.
Í málinu liggi fyrir tvær matsgerðir. Annars vegar áðurnefnd matsgerð frá 21. maí 2008 og hins vegar mat dómkvaddra matsmanna frá 27. ágúst 2013. Báðum matsgerðum beri saman um að heilsufar stefnanda hafi verið orðið stöðugt 9. nóvember 2007 og batahvörfum þá verið náð samkvæmt 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þá hafi stefnanda verið tækt að leita fullnustu kröfu sinnar og í því ljósi hefði fyrningarfrestur hafist í árslok 2007 og krafan því verið fyrnd í árslok 2011.
Þá telji dómkvaddir matsmenn engin ný einkenni hafa komið fram síðar hjá stefnanda frá því að fyrra matið var framkvæmt enda stöðugleikapunktur sá sami, Stefndu byggja á því að stefnandi hafi þannig fengið vitneskju um kröfu sína þegar fyrri matsgerðin lá fyrir og átti þess þannig kost að leita fullnustu hennar 21. maí 2008. Fyrningarfrestur kröfunnar hafi því byrjaði að líða í síðasta lagi við lok ársins 2008 í samræmi við 99. gr. umferðalaga nr. 50/1987. Honum hafi lokið fjórum áður síðar, í lok ársins 2012. Af því leiði að krafa stefnanda hafi verið fyrnd þegar mál þetta var höfðað með birtingu stefnu 28. október 2014 og jafnframt þegar stefnandi hafði fyrst uppi viðbótarkröfu 2. september 2013.
Ef ekki verður fallist á að fyrningafrestur hafi byrjað að líða við stöðugleikapunkt 9. nóvember 2007 eða þegar fyrri matsgerðin lá fyrir 21. maí 2008 blasi við að fresturinn hafi í síðasta lagi byrjað að líða þegar stefnandi gerði fyrirvara við bótauppgjörið þann 18. júní 2008. Þar hafi stefnandi tiltekið að hún teldi varanlegar afleiðingar slyssins vanmetnar í matsgerð. Í fyrirvaranum hafi sérstaklega verið tiltekið að stefnandi teldi varanlegar afleiðingar slyssins vanmetnar í þeirri matsgerð sem uppgjör málsaðila grundvallaðist á. Í því felist augljóslega ráðagerð stefnanda þess efnis að hún teldi sig eiga viðbótarkröfu á hendur stefnda, enda hefði hún ella ekki fundið sig knúna til þess að orða fyrirvarann á þann hátt sem raun ber vitni. Stefnandi hafi notið lögmannsaðstoðar frá því að slysið átti sér stað og haft lögmann sinn sér til fulltingis er uppgjörið fór fram.
Engin málefnanleg rök hafi staðið til þess að stefnandi hæfist ekki þegar handa við gagnaöflun sem myndi skjóta stoðum undir niðurstöðu um hærra mat. Það hafi verið fyrst með bréfi dagsettu 2. september 2013 sem stefnandi tilkynnti stefnda um viðbótarkröfu sína vegna slyssins. Fyrning hafi síðan ekki verið rofin fyrr en rösku ári síðar. Í stað þess að aðhafast frekar og afla sér sönnunar á tjóni sínu strax í kjölfar þess að fyrirvari var gerður við fullnaðaruppgjörið, beið stefnandi í fimm ár. Krafa stefnanda hafi þá verið fallin niður fyrir fyrningu samkvæmt fjögurra ára fyrningarreglu 99. gr. laga nr. 50/1987.
Í stefnu byggi stefnandi á því að hún hafi fyrst fengið vitneskju um endanlegar afleiðingar slyssins þegar hún leitaði til Garðars Guðmundssonar heila- og taugaskurðlæknis. Af spurningum lögmanns stefnanda og svörum læknisins í vottorði Garðars á dskj. nr. 8 megi ráða að það hlutverk sem stefnandi fól Garðari með ritun vottorðsins hafi í reynd miðast við að leggja mat á það hvort breytingar hefðu átt sér stað á heilsufari stefnanda frá því að fyrri matsgerð var framkvæmd árið 2008. Þessi framgangsmáti veki athygli í ljósi þess að stefnandi hafi kosið að leggja mál þetta í þann farveg að byggja ekki á endurupptökuheimild ákvæðis 11. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.
Í vottorði Garðars sé tiltgreint að daglegur svimi og sjóntruflanir séu hluti af afleiðingum hálstognunarinnar og að það hafi verið vanmetið við mat á örorku stefnanda. Í matsgerð dómkvaddra matsmanna sé því hins vegar hafnað að orsakatengsl séu á milli áverkans vegna bílslyssins árið 2007 og þessara einkenna á sjón og svima sem stefnandi hafi lýst. Einkennin sem dómkvaddir matsmenn slái föstu að tengist slysinu séu í raun nánast þau sömu og fyrr, að því gættu að frekari rannsóknir voru að baki og frekari heilsufarsvandræði komu við sögu sem stefnandi virðist hafa lent í eftir slysið. Sönnunargildi vottorðs Garðars sé því takmarkað og feli ekki í sér vísbendingar um að marka eigi upphaf fyrningarfrests skv. 99. gr. laga nr. 50/1987 síðar en stefndu telja eiga við rök að styðjast.
Stefndu byggja á því að ekki hafi orðið ófyrirsjáanlegar breytingar á heilsu stefnanda né veruleg hækkun á örorku- og miskastigi milli matsgerða. Að mati stefndu sé stefnanda ekki unnt að sneiða hjá lögbundnum skilyrðum 11. gr. laga nr. 50/1993 fyrir endurupptöku uppgjörs aðila. Stefnandi byggi í því sambandi á því að matsgerð dómkvaddra matsmanna hafi ekki meira sönnunargildi en matsgerð sú sem aðilar komu sér saman um að æskja í maí 2008 og stefndu byggðu uppgjör sitt við stefnanda á. Samkvæmt matsgerð dómkvaddra matsmanna höfðu engin ný einkenni komið fram hjá stefnanda frá því fyrra mat var framkvæmt. Báðar matsgerðir tilgreini tognun í hálsi sem afleiðingar slyssins. Í matsgerð Sigurðar Thorlacius og Ingvars Sveinbjörnssonar 21. maí 2008 komi eftirfarandi fram í samantekt matsmanna:
„Í slysinu þann 20.02.2007 hefur Þórunn tognað í hálshrygg og hefur eftir það haft álagsverki í hálsi og niður í brjósthrygg og meira og minna viðvarandi einkenni – verki, dofa og vægt skerta hreyfifærni – í hægri griplimum, sem rekja má til vægs C8 rótarskaða.“
Í matsgerð dómkvaddra matsmanna segi hins vegar um varanlegan miska:
„Við mat á varanlegum miska leggja matsmenn til grundvallar hálstognunaráverka með miklum eymslum, verulegri hreyfiskerðingu, dofa og leiðniverk án staðfests taugaskaða.“
Ekki sé greint frá neinum ófyrirsjáanlegum verulegum breytingum á heilsu stefnanda. Með hliðsjón af niðurstöðum matsmanna í báðum fyrirliggjandi matsgerðum sé ekki unnt að átta sig á því í hverju hækkun á miskastigi í matsgerð dómkvaddra matsmanna liggi, helst væri hægt að álykta á þann veg að dómkvaddir matsmenn telji hreyfiskerðingu stefnanda meiri en fyrri matsmenn töldu, en athygli veki að enga umfjöllun sé að finna um það í matsgerðinni á hverju það álit matsmanna byggir nákvæmlega. Einungis virðist þar um að ræða meiningarmun matsmanna á sömu einkennum, sem dómkvaddir matsmenn meti lítillega hærri en áður af annars óþekktum orsökum auk þess sem önnur heilsufarsvandamál stefnanda kunni að hafa þar áhrif og jafnvel megi draga þá ályktun af umfjöllun í síðari matsgerðinni að allt eins megi ætla að munur milli matsgerða helgist af því að einkenni stefnanda séu ítarlegar rannsökuð frekar en að þau séu önnur í raun en fyrr var metið. Sérstaklega hefði nánari greiningar verið þörf þegar horft er til þess hve munur matsgerða er í raun lítill, 2 miskastig. Slíkt uppfyllir á engan hátt áskilnað 11. gr. um að fela í sér verulega mikinn mun vegna ófyrirsjáanlegra breytinga á heilsu tjónþola.
Matsmenn meti það svo að varanlegur miski og örorka vegna síðara slyss stefnanda 3. mars 2010 sé engin. Einungis hafi verið um að ræða að fyrri einkenni hafi versnað tímabundið en ekki sé hins vegar rakið hvort og þá á hvern hátt þessi tímabundnu einkenni verði greind frá þeirri auknu varanlegu afleiðingu sem matsmenn telji stefnanda þjást af vegna fyrra bílslyssins árið 2007. Þá feli síðara matið í sér heildarmat á afleiðingum á slysinu í trássi við þá ráðagerð sem lögð sé til grundvallar í 11. gr. laga nr. 50/1993. Gert sé ráð fyrir að í endurmati eigi fyrst og fremst að huga að þeim breytingum sem til staðar að vera og síðan að leggja mat á hvaða áhrif þær kunni að hafa á matsniðurstöðu. Matsmönnum hafa brugðist bogalistin í þessum efnum enda sé sérstaklega tekið fram í matsbeiðni að óskað sé endurskoðunar á mati á afleiðingum umferðarslyssins frá 20. febrúar 2007. Síðara matið fullnægi þannig ekki þeim áskilnaði sem dómstólar hafi slegið föstum að þurfi að vera til staðar til að grundvalla endurupptöku.
Í ljósi alls framangreinds er það afstaða stefndu að seinni matsgerð hnekki ekki fyrri matsgerð sem hafi legið til grundvallar bótauppgjöri 18. júní 2008 og skapi ekki forsendur fyrir endurupptöku.
Loks er á því byggt af hálfu stefndu að stefnandi hafi ekki fært sönnur á að hann eigi rétt til endurskoðunar á bótauppgjöri vegna umferðarslyssins. Stefnandi geti ekki reist kröfu sína um endurskoðun á skaðabótauppgjöri á þeim fyrirvara sem gerður var við bótauppgjörið. Gengið hafi verið til uppgjörs við stefnanda á grundvelli matsgerðar Sigurðar Thorlacius og Ingvars Sveinbjörnssonar frá 21. maí 2008. Undir fullnaðaruppgjörið hafi lögmaður stefnanda ritað og gert fyrir hans hönd almennan fyrirvara við mat á varanlegri örorku og varanlegum miska, ásamt því að taka fram að stefnandi teldi varanlegar afleiðingar slyssins vanmetnar í matsgerðinni. Engin greining komi þó fram í hverju þetta vanmat fólst. Helst virðist vera um að ræða huglægt viðhorf stefnanda frekar en að byggt sé á rökstuddum málefnanlegum ástæðum eða þá að áritunin hafi í raun verið án tengsla við atvik máls en gerð í varúðarskyni ef stefnandi teldi sig síðar eiga í óbættum sökum við stefnda af þessu tilefni. Stefnandi hafi síðan ekkert hafst að um langt árabil. Að mati stefndu verði ekki með þessum fyrirvara sneitt hjá reglum er gildi um endurupptöku í skaðabótalögum, fyrningu umferðarlaga og réttarreglu kröfuréttar um réttaráhrif fullnaðarkvittunar í uppgjöri. Stefnandi geti þannig ekki byggt kröfu sína um viðbótargreiðslu á fyrirvaranum sem gerður var við bótauppgjörið þann 18. júní 2008 og það leiði til sýknu.
Kröfu um málskostnað styðja stefndu við 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Krafist er álags á málskostnað er nemur virðisaukaskatti, stefndu reki ekki virðisaukaskattskylda starfsemi.
IV.
Niðurstaða
Í máli þessu er deilt um það hvort krafa stefnanda um viðbótarskaðbætur á grundvelli matsgerðar dómkvaddra matsmanna, dags. 27. ágúst 2013, sé fyrnd samkvæmt 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Samkvæmt ákvæðinu fyrnist bótakrafa á fjórum árum frá lokum þess almanaksárs er tjónþoli telst hafa fengið vitneskju um kröfu sína og átti þess fyrst kost að leita fullnustu hennar. Við mat á því hvenær tjónþoli mátti gera sér grein fyrir kröfu sinni og gat fyrst leitað fullnustu hennar ber að beita hlutlægum mælikvarða. Í báðum matsgerðum er á því byggt að stöðugleika vegna afleiðinga slyssins hafi verið náð við útskrift af Reykjalundi þann 9. nóvember 2007.
Stefnandi byggir á því að við skoðun Garðars Guðmundssonar heila- og taugaskurðlæknis þann 1. mars 2010 hafi komið fram ný einkenni og versnun fyrri einkenna vegna afleiðinga slyssins, þ.e. taugaskaði og afleiðingar áverka á hægri öxl/axlarhyrnulið. Hins vegar er ekki byggt á þessari niðurstöðu Garðars Guðmundssonar í matsgerð dómkvaddra matsmanna og byggir hún ekki á því að um sé að ræða taugaskaða né áverka á hægri öxl. Að mati dómsins hefur ekki verið sýnt fram á að um sé að ræða ófyrirsjáanlegar breytingar á heilsufari stefnanda eftir að fyrra mat fór fram. Á grundvelli matsgerðar, dags. 21. maí 2008, stóð stefnandi að uppgjöri við stefnda og við móttöku greiðslu 18. júní 2008 áritaði lögmaður stefnanda fyrirvara þess efnis að varanlegar afleiðingar slyssins væru vanmetnar af hálfu matsmanna. Stefnandi var því strax þá meðvitaður um að afla mætti hærra mats á afleiðingum slyssins en hafðist ekki að fyrr en hann aflaði læknsisvottorðs Garðars Guðmunssonar, eins og rakið hefur verið hér að ofan, og síðan dómkvaddrar matsgerðar.
Með vísan til þessa byrjaði fyrningarfrestur kröfunnar í síðasta lagi að líða við loks ársins 2008 í samræmi við 99. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Honum lauk því í árslok 2012. Þá þegar var viðbótarkrafa, sem stefnandi hafði fyrst uppi 2. september 2013, fyrnd. Dómurinn telur því að viðbótarkröfur stefnanda á hendur stefndu hafi því verið fyrndar þegar mál þetta var höfðað með birtingu stefnu 28. október 2014 og beri því að sýkna stefndu af kröfum stefnanda.
Rétt þykir að málskostnaður milli aðila falli niður. Stefnandi nýtur gjafsóknar í máli þessu. Allur gjafsóknarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talinn þóknun lögmanns stefnanda, sem telst hæfileg eins og kveðið er á um í dómsorði. Við ákvörðun um málflutningsþóknun hefur verið tekið tillit til greiðslu virðisaukaskatts.
Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari og meðdómendurnir Ragnar Jónsson bæklunarlæknir og Guðjón Baldursson læknir kveða upp dóminn.
Dómsorð:
Stefndu, Jóhanna Huld Eggertsdóttir og Vörður tryggingar hf., eru sýkn af kröfum stefnanda, Þórunnar Sifjar Ingvarsdóttur.
Málskostnaður fellur niður. Gjafsóknarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns stefnanda, Sveinbjörns Claessen hdl., 1.300.000 kr.