Hæstiréttur íslands
Nr. 2022-51
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Umferðarslys
- Skaðabætur
- Stórkostlegt gáleysi
- Líkamstjón
- Eigin sök
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Björg Thorarensen og Karl Axelsson.
2. Með beiðni 5. apríl 2022 leitar dánarbú A leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 25. mars sama ár í máli nr. 498/2020: Dánarbú A gegn TM tryggingum hf. á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda vegna líkamstjóns sem hann varð fyrir í umferðarslysi árið 2012. Ágreiningur aðila varðar það hvort leyfisbeiðandi hafi sem farþegi í bifreiðinni sýnt af sér háttsemi sem megi jafna til stórkostlegs gáleysis í skilningi 2. mgr. 88. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, nú 4. mgr. 4. gr. laga nr. 30/2019 um ökutækjatryggingar, svo að réttlætanlegt hafi verið að lækka bætur honum til handa úr ábyrgðartryggingu bifreiðarinnar hjá gagnaðila.
4. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu gagnaðila. Í dóminum var rakið að í blóðsýni ökumanns bifreiðarinnar sem tekið var fljótlega eftir atvikið hefði vínandamagn mælst 1,66 ‰. Með hliðsjón af því háa mæligildi hefði leyfisbeiðanda ekki getað dulist að ökumaðurinn gæti ekki stjórnað bifreiðinni örugglega og að hann væri óhæfur til aksturs. Með því að taka sér far með bifreiðinni eins og ástatt var um ökumanninn hefði leyfisbeiðandi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi og bæri því að hluta til sjálfur ábyrgð á því tjóni sem hann varð fyrir við slysið. Ekkert lægi fyrir í málinu sem styddi síðbúna frásögn ökumanns bifreiðarinnar um að hann hefði neytt áfengis eftir að akstri lauk. Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms var niðurstaða hans staðfest um að leyfisbeiðandi bæri tvo þriðju hluta tjóns síns sjálfur.
5. Leyfisbeiðandi byggir í fyrsta lagi á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi um stórkostlegt gáleysi í umferðarslysum. Í öðru lagi byggir hann á því að úrslit málsins varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína. Loks telur leyfisbeiðandi í þriðja lagi að ástæða sé til að ætla að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni. Þannig telur hann að í dómi Landsréttar hafi verið farið á svig við meginreglu einkamálaréttarfars um milliliðalausa málsmeðferð. Auk þess sé sönnunarmat dómsins rangt og því beri að ómerkja hann.
6. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.