Hæstiréttur íslands
Mál nr. 508/2015
Lykilorð
- Líkamsárás
- Barnavernd
- Hótanir
- Ærumeiðingar
- Kynferðisbrot
- Frávísun frá héraðsdómi að hluta
- Miskabætur
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi. I. Jónsson, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.
Ríkissaksóknari skaut til Hæstaréttar 1. júlí og 23. nóvember 2015 dómi Héraðsdóms Reykjaness 25. júní 2015 og dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra 13. nóvember 2015 í samræmi við yfirlýsingar ákærða um áfrýjun. Fyrir Hæstarétti hafa málin verið sameinuð. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst þess aðallega að málunum verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins. Að þessu frágengnu krefst hann þess að hinir áfrýjuðu dómar verði ómerktir og málunum vísað heim í hérað en ella að refsing hans verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá dómi, en til vara að hún verði lækkuð.
Brotaþoli, A, krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 3.000.000 krónur með sömu vöxtum og ákveðnir voru með dóminum 25. júní 2015, en til vara að ákvæði dómsins um einkaréttarkröfu sína verði staðfest.
I
Ákærði heldur því fram að lögregla hafi ekki rannsakað ætlað brot hans gegn 1. og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, sem honum er gefið að sök í A. kafla ákæru í máli er lauk með dóminum 25. júní 2015. Einnig telur ákærði að verknaðarlýsing í B. kafla sömu ákæru sé ófullnægjandi þar sem ekki sé tilgreint í hverju sú stórfellda ærumeiðing sem honum er þar gefin að sök sé fólgin heldur látið við það sitja að taka fram að ákærði hafi sent tölvupóst sem innihélt trúnaðarupplýsingar. Þó verði ekki ráðið af gögnum málsins hvort og þá hvenær ákærði hafi sent slíkar upplýsingar til þeirra sem tilgreindir eru í ákæru. Þá sé brot samkvæmt þessum ákærulið ranglega heimfært undir 233. gr. b. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en hafi brot verið framið varði það augljóslega við 229. gr. sömu laga. Ríkissaksóknari fari ekki með ákæruvald vegna brota gegn því ákvæði heldur hafi brotaþoli einn getað höfðað einkarefsimál af því tilefni, sbr. 3. tölulið 242. gr. laganna. Ákærði heldur því fram að þessir annmarkar á ákærunni séu það miklir að vísa beri máli sem lauk með fyrrgreindum dómi í heild frá dómi en í öllu falli varði þetta því að vísa beri frá dómi umræddum ákæruköflum.
Ákærði heldur því einnig fram að rannsókn lögreglu á því máli sem lauk með dóminum 13. nóvember 2015 hafi verið ófullnægjandi. Í því máli hafi ákærða verið gefið að sök brot gegn 233. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa ítrekað haft í hótunum við brotaþola. Við rannsókn lögreglu hafi ákærði ekki verið spurður út í efni þeirra smáskilaboða sem hann sendi brotaþola. Einnig hafi ekki verið borið undir hana hvort þau skilaboð sem hún fékk frá ákærða, sem talið er að hafi falið í sér hótanir, hafi verið til þess fallin að vekja hjá henni ótta um líf, heilbrigði eða velferð sína eða annarra, en refsinæmi brotsins velti á því.
Samkvæmt 1. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er markmið rannsóknar að afla allra nauðsynlegra gagna til þess að ákæranda sé kleift að henni lokinni að ákveða hvort sækja skuli mann til sakar, svo og að afla gagna til undirbúnings málsmeðferðar fyrir dómi. Í 145. gr. laganna segir síðan að þegar ákærandi hefur fengið gögn máls í hendur og gengið úr skugga um að rannsókn máls sé lokið athugi hann hvort sækja skuli sakborning til sakar eða ekki. Telji hann það sem fram er komið ekki nægilegt eða líklegt til sakfellis lætur hann við svo búið standa, en höfðar ella mál á hendur sakborningi. Ákærendur hafa metið rannsókn sakargifta fullnægjandi og á þeim grundvelli voru gefnar út ákærur á hendur ákærða. Ákvörðun þar að lútandi felur í sér beitingu þeirra á valdheimildum á grundvelli laga og getur eðli máls samkvæmt ekki sætt endurskoðun dómstóla við úrlausn málsins. Jafnframt er þess að gæta að sönnunarbyrðin um sekt ákærða og atvik, sem telja má honum í óhag, hvílir á ákæruvaldinu, sbr. 108. gr. laga nr. 88/2008. Samkvæmt þessu geta þeir annmarkar sem ákærði telur vera á rannsókn hjá lögreglu ekki varðað frávísun.
Í B. kafla ákæru þess máls sem lauk með dóminum 25. júní 2015 er ákærða gefið að sök brot gegn 233. gr. b. almennra hegningarlaga með stórfelldri ærumeiðingu sem fólst í því að senda tölvupóst 10. nóvember 2013 á fjóra nafngreinda einstaklinga með trúnaðarupplýsingum frá Barnaverndarnefnd [...], sem vörðuðu hagi brotaþola, en með því hafi hann móðgað og smánað hana. Meðal málsgagna er tölvupóstur ákærða þann dag til fyrrnefndra einstaklinga, en þar kom fram það álit ákærða að brotaþoli væri ekki hæf til að vera kennari og því til staðfestingar tók hann fram að hann gæti sent gögn þar að lútandi. Engin gögn fylgdu þessum tölvupósti og þá liggur enginn annar póstur fyrir í málinu til þessa fólks. Í niðurstöðukafla héraðsdóms er hins vegar tekinn upp orðrétt tölvupóstur ákærða 22. nóvember 2013 en hann var ekki sendur á þá einstaklinga sem tilgreindir eru í ákæru heldur aðra sem munu vera í stjórn foreldrafélags Grunnskóla [...]. Með þeim pósti fylgdu aftur á móti skjöl frá Barnaverndarnefnd [...]. Að þessu gættu er verknaðarlýsing í ákæru í slíku ósamræmi við gögn málsins að vísa verður þessum ákærukafla frá dómi. Að öðru leyti verður frávísunarkröfu ákærða hrundið.
II
Krafa ákærða um ómerkingu hinna áfrýjuðu dóma reisir hann á því að niðurstaða þeirra um sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi kunni að vera röng svo að einhverju skipti um úrslit máls, sbr. 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008. Í því sambandi tiltekur ákærði, að því er varðar dóminn 13. nóvember 2015, að vætti brotaþola fyrir dómi verði ekki skilið á annan veg en að smáskilaboð sem ákærði sendi henni í júlí 2015 hafi ekki valdið henni ótta. Engu að síður hafi hann verið sakfelldur fyrir brot gegn 233. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa sent þau skilaboð. Því sé mat héraðsdóms á vætti brotaþola augljóslega rangt.
Samkvæmt 233. gr. almennra hegningarlaga er hótun refsiverð ef hún er til þess fallin að vekja hjá öðrum manni ótta um líf, heilbrigði eða velferð sína eða annarra. Það er því ekki skilyrði refsinæmis að hótun hafi í raun haft þessi áhrif. Að þessu gættu verður ekki talið að munnlegur framburður brotaþola hafi verið rangt metinn í dóminum 13. nóvember 2015 svo einhverju skipti um úrslit máls. Þá eru engir aðrir slíkir annmarkar á sönnunarmati í hinum áfrýjuðu dómum sem valdið geta því að þeir verði ómerktir. Þeirri kröfu ákærða verður því hafnað.
III
Með vísan til forsendna dómsins 25. júní 2015 er sannað að ákærði hafi gerst sekur um brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga og 1. og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga. Samkvæmt 4. mgr. 81. gr. almennra hegningarlaga skal miða fyrningarfrest brots við það ákvæði sem geymir þyngstu refsimörk ef brot varðar við fleiri en eitt refsiákvæði. Brot gegn 1. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga varðar allt að þriggja ára fangelsi. Brot ákærða samkvæmt A. kafla ákæru þeirrar sem hér um ræðir fyrnast því á fimm árum, sbr. 2. tölulið 1. mgr. 81. gr. almennra hegningarlaga og eru ófyrnd. Samkvæmt þessu verður dómurinn staðfestur um sakfellingu ákærða eftir þessum ákærukafla. Þá verður ákærði með skírskotun til forsendna dómsins sakfelldur samkvæmt C. og D. köflum sömu ákæru fyrir annars vegar brot gegn 1. mgr. 232. gr. almennra hegningarlaga og hins vegar 209. gr. og 233. gr. b. sömu laga.
Með vísan til forsendna dómsins 13. nóvember 2015 verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærða fyrir brot gegn 233. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa sent úr símanúmerinu [...] hótanir þær sem greinir í ákæru í tölulið nr. 1 og úr símanúmerinu [...] þær sem greinir í töluliðum nr. 7 til 12, 14, 16 til 18, 20 til 22, 26, 29, 37 til 39, 45, 46 og 49 til 51. Af hálfu ákæruvaldsins er unað við þá niðurstöðu héraðsdóms að sakfella ekki ákærða fyrir aðra töluliði ef frá eru taldir töluliður nr. 2 úr fyrrgreinda símanúmerinu og töluliðir nr. 1, 40, 42 og 43 úr því síðargreinda. Er leitað endurskoðunar á niðurstöðu dómsins að því leyti en þessi smáskilaboð eru svohljóðandi: „Were there is a way there is will“, „Got somthing up my sleeve“, „Og þú munt Aldrei losna undan þinni lýgi og misnotkun“, „Og af hverju ég? Það er þá komið að þér, ekki satt? Mun koma að þér fyrr en síðar, trust me.“ og „Be awere.“ Með tilliti til forsögu málsins og brota ákærða gegn brotaþola áður en þessi smáskilaboð voru send í júlí og ágúst 2015 verða þau talin fela í sér refsiverðar hótanir í garð hennar og verður ákærði einnig sakfelldur fyrir þau.
Við ákvörðun refsingar ákærða, sem á sér engar málsbætur, er þess að gæta að brot hans eru fjölmörg og ná yfir langt tímabil. Þá lét hann sér ekki segjast eftir að hafa hlotið dóminn 25. júní 2015, heldur hóf á ný að senda brotaþola smáskilaboð, þar af höfðu 29 þeirra að geyma refsiverðar hótanir. Með því rauf hann skilorð fyrrgreinds dóms. Enn fremur er þess að gæta að ákærði hefur með framgöngu sinni gerst sekur um alvarleg brot sem öll miða að því að raska högum brotaþola. Í þeim efnum var sérlega rætið og ófyrirleitið það brot ákærða að senda myndskeið af henni í kynferðislegum athöfnum, en með því smánaði hann brotaþola gróflega. Að lokum verður það virt ákærða til refsiþyngingar að brotavilji hans var styrkur og einbeittur. Að öllu þessu virtu verður refsing ákærða, sem tiltekin verður eftir reglum 77. gr. almennra hegningarlaga, ákveðin fangelsi í 2 ár.
Því verður slegið föstu að brot ákærða hafa haft mikil og langvarandi áhrif á brotaþola. Að því gættu eru miskabætur til hennar hæfilega ákveðnar í dóminum 25. júní 2015 og verða ákvæði hans um einkaréttarkröfu brotaþola staðfest.
Ákvæði hinna áfrýjuðu dóma um sakarkostnað verða staðfest.
Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin eru með virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Það athugast að í dóminum 25. júní 2015 er tekið upp í heild sinni fylgiskjal með ákæru sem hafði að geyma öll þau smáskilaboð og tölvupósta ákærða til brotaþola sem C. kafli ákæru í því máli lýtur að. Þetta var með öllu óþarft og hefði verið fullnægjandi að lýsa í fáeinum orðum meginefni þessara orðsendinga.
Dómsorð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í 2 ár.
Ákvæði héraðsdómsins 25. júní 2015 um einkaréttarkröfu brotaþola, A, skulu vera óröskuð.
Ákvæði hinna áfrýjuðu dóma um sakarkostnað skulu vera óröskuð.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 891.449 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 620.000 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Margrétar Gunnlaugsdóttur hæstaréttarlögmanns, 186.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 13. nóvember 2015.
Mál þetta, sem dómtekið var að lokinni aðalmeðferð 16. október, er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Norðurlandi eystra, útgefinni 11. september 2015, á hendur X, kt. [...], [...], Reykjavík, „fyrir hótanir, með því að hafa á tímabilinu frá 3. júlí til 11. ágúst 2015, margítrekað sent fyrrverandi sambýliskonu sinni A, kt. [...], sem búsett er á [...], hótanir með sms skilaboð [sic] úr símanúmerum [...]og [...], sem hann hafði í sinni vörslu og valdið með skilaboðunum ótta hjá henni um líf, heilbrigði og velferð sína.
Hótanir sem ákærði sendi úr símanúmerinu [...] voru eftirfarandi og sendar á neðangreindum dögum og tíma:
1. Sent 19.7, kl. 23:31:09. „Tha verd eg bara ad koma“
2. Sent 21.7, kl. 23:22:00. „Were there is a way there is will“
Hótanir sem ákærði sendi úr símanúmerinu [...] voru eftirfarandi:
1. Sent 3.7, kl. 22:36:42. „Got somthing up my sleeve“
2. Sent 4.7, kl. 17:26:11. „YOU WANT TO GIVE ANOTER TRY?“
3. Sent 4.7, kl. 17:34:43. „Og foreit. Dare you.“
4. Sent 4.7, kl. 18:31:04. „Þeir sem far munu gjalda þess. Tolsty dó snauður en v“
5. Sent 4.7, kl. 18:31:13. „isku orð hanns eru og ættu að vera mannskepnunni til fyrirmyndar, þ“
6. Sent 4.7, kl. 20:40:48. „Komin af Beterium og etin af þeim. We are and will always be next“
7. Sent 17.7, kl. 23:12:47. „Or shall one be haunted for the rest of his/her life?“
8. Sent 18.7, kl. 00:44:38. „Honteted for the years to come.“
9. Sent 18.7, kl. 00:49:25. „Rest of life.“
10. Sent 18.7, kl. 01:06:10. „Þar til ég dey.“
11. Sent 18.7, kl. 01:13:47. „ Knock. Knock. Who is there?“
12. Sent 18.7, kl. 18:38:57. „Sjáumst.“
13. Sent 18.7, kl. 19:26:47. „Og svo mun ég nálgast eignir mínar. Það verður haft samband.“
14. Sent 18.7, kl. 21:55:46. „Sjáumst…..“
15. Sent 18.7, kl. 21:57:13. „You get me?“
16. Sent 18.7, kl. 23:38:27. „Er alltaf að koma.“
17. Sent 18.7, kl. 23:38:27. „Og mun.“
18. Sent 19.7, kl. 00:00:04. „ Some things will hunt us for the rest of our lifes.“
19. Sent 19.7, kl. 18:10:16. „Mun sækja munn arf, hvað sem kostar.“
20. Sent 20.7, kl. 15:51:10. „Fæddur á mánudegi, minn dagur. Og hvað getur maður gert þá? Það er svo mart. Veltir hlutum upp hvað á að gera. Lætur til skarar skríða, en ekki hvað?“
21. Sent 20.7, kl. 15:55:12. „Shit happens.“
22. Sent 20.7, kl. 20:31:41. „Every person for her/his self. Shit happens. And then you just die.“
23. Sent 20.7, kl. 20:33:13. „Bacteria….“
24. Sent 20.7, kl. 20:37:44. „Would you belife it?“
25. Sent 20.7, kl. 20:49:42. „You never know, yo never know.“
26. Sent 20.7, kl. 20:56:54. „Það er nú ekki lang á milli okkar.“
27. Sent 20.7, kl. 21:01:23. „Let‘s play a game.“
28. Sent 21.7, kl. 00:53:14. „Unsave we never are.“
29. Sent 22.7, kl. 18:38:14. „Og örið skal fyrir bæta.“
30. Sent 22.7, kl. 22:05:17. „Og svo hvað næst?“
31. Sent 22.7, kl. 22:07:47. „ One never knows…..“
32. Sent 23.7, kl. 00:34:36. „It´s all a joke..so what‘s next?“
33. Sent 23.7, kl. 23:17:51. „Frá 28 febrúar 2013. Þá ert þú „prsona nograda““
34. Sent 8.8, kl. 14:28:34. „Ég er ekkert að fara neitt.“
35. Sent 8.8, kl. 15:02:55. „Liggur ekkert á.“
36. Sent 9.8. kl. 23:44:51. „Verður maður ekki að fylgjast með öllu.“
37. Sent 10.08, kl. 14:25:35. „Shit happens.“
38. Sent 10.08, kl. 14:35:37. „And it will…..“
39. Sent 10.08, kl. 14:39:53. „Forever….“
40. Sent 10.08, kl. 14:56:32. „Og þú munt Aldrei losna undan þinni lýgi og misnotkun“
41. Sent 10.08, kl. 18:20:21. „Foreever.“
42. Sent 10.08, kl. 18:41:06. „Og af hverju ég? Það er þá komið að þér, ekki satt? Mun koma að þér fyrr en síðar, trust me.“
43. Sent 10:08, kl. 18:41:59. „Be awere.“
44. Sent 10.08, kl. 20:29:28. „Ballið er byrjað.“
45. Sent 10.08, kl. 20:29:34. „Þar til annar stendur uppi, þannig var það í gamla daga og þannig er það….í dag.“
46. Sent 10.08, kl. 20:29:38. „I have bean thogth hell. It‘s your time now.“
47. Sent 10.08, kl. 20:29:41. „Alltaf hér, þer við hlið.“
48. Sent 10.08, kl. 20:29:45. „Til Æviloka.“
49. Sent 10.08, kl. 20:29:49. „Who will hount you for the rest of your life?“
50. Sent 11:08, kl. 15:56:17. „Koma tímar, koma ráð.“
51. Sent 11:08, kl. 18:41:14. „Ég útiloka ekki neitt.“
Telst þetta varða við 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“
Ákærði kveðst hafa sent þessi skilaboð en segir að í þeim séu ekki fólgnar hótanir. Við munnlegan málflutning var af hans hálfu aðallega gerð krafa um að málinu yrði vísað frá dómi, til vara að ákærði yrði sýknaður af ákærunni en til þrautavara að honum yrði gerð vægasta refsing sem lög leyfðu.
Málavextir
Hinn 6. júlí 2015 kom A, hér eftir nefnd brotaþoli, á lögreglustöðina á [...], lagði fram kæru á hendur X, ákærða í máli þessu, og krafðist þess að höfðað yrði sakamál á hendur honum. Er í lögregluskýrslu haft eftir henni að ákærði hafi frá 3. til 5. júlí sent henni fjörutíu símasmáskilaboð, svonefnd sms, í símanúmer hennar og fimm tölvubréf á netfang hennar. Sé hún „búin að fá miklu meira en nóg af ónæði og hótunum [ákærða] á undan förnum árum og [geti] ekki með nokkru móti þolað þetta lengur.“ Geti hún „ekki annað en lagt fram þessa beiðni um nálgunarbann og lagt fram kæru fyrir þessar árásir á friðhelgi einkalífs“ síns.
Í málinu liggur útprentaður texti fjörutíu skilaboða sem sögð eru send úr símanúmerinu [...] á tímabilinu 3. til 5. júlí 2015. Þar á meðal eru þau sem í ákæru eru talin upp nr. 1, 2, 5 og 6. Þá er skráð skeyti sent 4. júlí kl. 17:34:43: „Go for it, Dare you“ og annað sama dag kl. 18:31:04: „ð nú bara. Þeir sem þar far munu gjalda þess. Tolsty dó snauður en v“.
Þá liggur fyrir í málinu útprentaður texti 194 skilaboða sem sögð eru send úr númerinu [...] frá 17. júlí til 13. ágúst 2015. Þar á meðal eru þau skeyti sem í ákæru eru talin upp nr. 7 til 51.
Óumdeilt er í málinu að ákærði hafi sent brotaþola umrædd skeyti.
Hinn 10. desember 2013 staðfesti Héraðsdómur Reykjaness ákvörðun lögreglustjóra frá 4. desember sama árs um að ákærða væri um sex mánaða skeið bannað að nálgast brotaþola eða setja sig í samband við hana með símtölum, bréfum, fjarskiptum og netsamskiptum.
Hinn 12. ágúst 2015 bannaði lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra ákærða að koma í námunda við heimili brotaþola, nálgast hana á almannafæri og hafa samband við hana í síma, tölvu eða á annan hátt gegn vilja hennar. Skyldi bann þetta gilda í hálft ár. Ákvörðun lögreglustjóra var staðfest með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 588/2015.
Hinn 25. júní 2015 var ákærði dæmdur í héraði til fimmtán mánaða fangelsisvistar, en fullnustu tólf mánaða af henni frestað skilorðsbundið í þrjú ár, fyrir brot gegn 209., 217., 1. mgr. 232. og 233. b gr. laga nr. 19/1940 og 1. og 3. mgr. 99. gr. laga nr. 80/2002, en hegningarlagabrotin beindust gegn brotaþola þessa máls. Dóminum hefur verið áfrýjað.
Skýrslur fyrir dómi
Ákærði sagðist ekki hafa hótað brotaþola og málið væri slitið úr samhengi. Hann hefði með skilaboðum sínum ekki verið að segja brotaþola að hann ætlaði að vinna henni mein. Fyrir sér hefði aðeins vakað að fá föðurarf sinn frá brotaþola, og vísaði ákærði þar til stóls sem verið hefði í eigu föður hans. Hann hefði fengið skammel en vantaði stólinn. Væri þetta kjarni málsins. Ákærði var spurður hvort hann hefði reynt lögfræðilegar leiðir til að fá stólinn og kvaðst hann hafa „rætt við aðila um það“, en lítill árangur orðið.
Ákærði var spurður um skilaboð sem númeruð eru 18 og 49 í ákæru. Sagði hann þau bæði tekin úr samhengi og ekki væri um hótun að ræða.
Ákærði sagði þau brotaþola hafa kynnzt í marz [...] og þau hafi síðar hafið sambúð sem staðið hafi fram í nóvember [...]. Í desember 2013 hefði honum verið gert að sæta nálgunarbanni. Slíkt hefði aftur verið gert nú í sumar og eftir að það hefði verið gert hefði „ekki komið stafur frá [ákærða] og [myndi] ekki koma.“
Ákærði sagðist hafa verið ölvaður er hann hefði sent skilaboðin og allsgáður hefði hann ekki sent þau. Hann myndi ekki senda henni slík skilaboð framar.
Vitnið A, brotaþoli, sagðist hafa haldið að hún væri „farin að fá frið“, því hún hefði ekki fengið nein skilaboð í um eitt ár. Þegar hún hefði svo fengið skilaboð að nýju „þá náttúrlega kemur bara sko skellurinn til baka. Bara mjög mikil vanlíðan og svona ákveðin taugaveiklun og óöryggi“. Hefði henni liðið mjög illa vegna þessa. Skilaboðin hefðu vakið mjög mikinn ótta hjá henni. Sum skilaboðanna hefðu verið meira ógnandi en önnur, svo sem skilaboð sem hefðu haft merkinguna „ég mun aldrei stoppa“ og skilaboðin „þar til annað okkar stendur uppi“. Þau mætti skilja þannig að hann „muni ekki hætta fyrr en annað [þeirra] stendur uppi, hvað verður þá um hitt?“. Vitnið sagði að ákærði væri með „endalausar duldar hótanir“ og alveg væri „ljóst miðað við söguna að hann er að hóta að ganga í skrokk á mér eða drepa mig“, sagði vitnið.
Vitnið kvaðst vera „á barmi taugaáfalls“ og vera „alveg komin að þolmörkum“.
Vitnið var spurt hvort hún hefði lagt fram kæru á hendur ákærða vegna hótana og svaraði því þannig til að það hefði verið „að kæra skilaboðin og áreitið“. Hún væri ekki löglærð en það að ákærði hefði samband við sig væri í sínum huga hótun í sinn garð.
Niðurstaða
Við munnlegan málflutning var af hálfu ákærða borin fram hörð gagnrýni á rannsókn málsins, eða öllu heldur skort á henni. Rannsóknin hefði ekki á neinu stigi beinzt að því hvort ákærði hefði borið fram hótanir við brotaþola og hefði hann aldrei verið spurður að því við rannsókn málsins. Huglæg afstaða hans til þess hefði því ekki legið fyrir þegar ákveðið hafi verið gefa út ákæru. Krafðist ákærði þess að málinu yrði vísað frá dómi.
Samkvæmt 145. gr. laga nr. 88/2008 tekur ákærandi ákvörðun um hvort sakamál skuli höfðað. Samkvæmt 154. gr. sömu laga tekur hann einnig ákvörðun um hvaða gögn ákæruvaldið leggi fram og hvaða vitni það leiði. Hinn ákærði hefur einnig rétt til að leggja fram gögn af sinni hálfu. Samkvæmt 111. gr. laga nr. 88/2008 verður dómur reistur á þeim sönnunargögnum sem færð eru fram fyrir dómi. Ákærði gaf skýrslu fyrir dómi og kom þar fram sú afstaða hans að hann hefði ekki sett fram neinar hótanir í garð brotaþola. Hefur ekkert komið fram í málinu sem að réttu leiðir til frávísunar þess og verður kröfu um hana hafnað.
Ákærði kveðst hafa sent þau skilaboð sem rakin eru í ákæru. Ekkert gefur tilefni til að efast um það og er það sannað. Hann telur hins vegar að ekki felist í þeim hótanir í garð brotaþola heldur hafi þau fyrst og fremst snúizt um þá ósk hans að fá afhentan stól, sem honum beri en sé í vörzlu brotaþola.
Við mat á þeim skilaboðum sem ákærði sendi brotaþola verður að horfa til þess sem nýlega var á undan gengið í samskiptum þeirra. Svo sem ákærði sagði fyrir dómi var honum í desember 2013 gert að sæta nálgunarbanni gagnvart brotaþola og í júní 2015 var hann í héraði sakfelldur fyrir ýmis brot gegn henni, þar á meðal líkamsárás, og fyrir að brjóta gegn nálgunarbanni. Þær orðsendingar, sem sannað er í þessu máli að hann hafi sent brotaþola, hóf hann að senda rúmlega einni viku eftir að umræddur héraðsdómur var kveðinn upp í júní 2015.
Ljóst er að á þeim tíma sem ákæra þessa máls tekur til sendi ákærði brotaþola mun fleiri skilaboð en ákært er fyrir sem hótanir. Verður að líta svo á að í því felist það mat ákæruvaldsins að ekki hafi sjálfkrafa falizt í því hótanir þótt ákærði setti sig í samband við brotaþola, heldur ráði þar texti einstakra skilaboða úrslitum. Sjálf sagði brotaþoli fyrir dómi að sum skilaboðin hefðu verið meira ógnandi en önnur. Eru ekki efni til að líta öðruvísi á við úrlausn málsins.
Óhjákvæmilegt er að telja í því fólgnar hótanir um refsiverða meingerð þegar maður, sem mjög nýlega hefur hlotið dóm eins og þann sem ákærði fékk í júní 2015, tekur að senda brotaþolanum ítrekuð skilaboð þess efnis að hann sé „að koma“, enda ekkert í skilaboðunum sem gefur til kynna að ástæða sé til þess að skilja þau á annan og betri hátt og ekki hefur verið sýnt fram á neitt annað samhengi sem leiða ætti til slíks skilnings á þeim. Þykir enginn skynsamlegur vafi á því að skilaboð þau sem ákærði sendi úr símanúmerinu [...] og merkt eru í ákæru sem nr. 1 og þau sem hann sendi úr símanúmerinu [...] og í ákæru eru merkt nr. 11, 12, 14, 16, 17 og 26 verði skilin þannig. Þá þykir ljóst að skilaboð úr sama númeri, og merkt eru nr. 7, 8, 9, 10, 18 og 49, verði skilin þannig að sótt verði að brotaþola það sem eftir sé og þykir ekki vafi á að þar sé hótað refsiverðri meingerð. Loks verður talið að skilaboð úr sama númeri, og merkt eru nr. 20, 21, 22, 37, 38, 39, 45, 46, 50 og 51 feli í sér hótanir um að brotaþola verði á einhvern hátt unnið mein. Sama verður að telja um skilaboð sem merkt eru nr. 29, í ljósi þess að fram kemur í gögnum málsins að síðustu skilaboð, sem ákærði sendi brotaþola fyrir sendingu þeirra, hljómuðu: „Mun bera ör eftir þig.“ Öll þessi skilaboð verða eins og á stóð talin hafa falið í sér hótanir ákærða í garð brotaþola í skilningi 233. gr. laga nr. 19/1940 og hafa verið til þess fallin að vekja hjá brotaþola ótta um líf, heilbrigði eða velferð sína. Skynsamlegur vafi þykir hins vegar vera á því að slíkt eigi við um önnur skilaboð sem rakin eru í ákæru og verður ákærði ekki sakfelldur fyrir sendingu þeirra. Samkvæmt þessu hefur ákærði með sendingu umræddra 24 skilaboða til brotaþola brotið gegn 233. gr. laga nr. 19/1940 svo sem honum er gefið að sök í ákæru og hefur með því unnið sér til refsingar.
Í júní 2015 var ákærði sakfelldur í héraði fyrir þau brot sem rakin hafa verið og dæmdur til fimmtán mánaða fangelsisvistar en fullnustu tólf mánaða þar af frestað skilorðsbundið í þrjú ár. Annað í sakaferli ákærða skiptir ekki máli við úrlausn þessa máls. Umræddur héraðsdómur hafði verið birtur ákærða er hann framdi brot sín nú og rauf hann það skilorð er honum var sett með dómnum. Ber því að taka skilorðshluta dómsins upp og gera ákærða refsingu í einu lagi. Verður honum samkvæmt því gert fjórtán mánaða fangelsi og þegar horft er til þess að hann byrjar að fremja brot sín rúmum þremur vikum eftir að dómur er birtur honum kemur skilorðsbinding að nýju ekki til greina nú.
Ákærða verður gert að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hrl., 409.200 krónur og er virðisaukaskattur innifalinn, 57.923 króna útlagðan kostnað verjandans og annan sakarkostnað sem samkvæmt yfirliti lögreglustjóra nemur 64.480 krónum.
Eyþór Þorbergsson fulltrúi lögreglustjórans á Norðurlandi eystra fór með málið af hálfu ákæruvaldsins. Þorsteinn Davíðsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð
Ákærði, X, sæti fangelsi í fjórtán mánuði.
Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hrl., 409.200 krónur, 57.923 króna útlagðan kostnað verjandans og 64.480 króna annan sakarkostnað.
- - - - -
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 25. júní 2015.
Mál þetta, sem þingfest var 12. febrúar sl. og dómtekið 29. maí, var höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 14. janúar sl., á hendur X, kt. [...],án lögheimilis, „fyrir eftirfarandi hegningarlagabrot og brot gegn barnaverndarlögum sem hér greinir:
A.
fyrir brot gegn barnaverndarlögum, líkamsárás og hótun gagnvart þáverandi sambýliskonu sinni A, með því að hafa, aðfaranótt laugardagsins 4. febrúar 2012 á heimili þeirra að [...] í [...], þar sem hún lá sofandi í hjónarúmi þeirra ásamt sonum sínum, B fæddum 2005 og C fæddum 2006, dregið hana úr rúminu og ráðist á hana með því að slá hana með krepptum hnefa í andlit og líkama, sparkað í líkama hennar, tekið hana hálstaki, haldið hníf upp að hálsi hennar og hótað henni lífláti. B og C voru vitni að háttseminni og með því beitti ákærði þá ógnunum og sýndi þeim yfirgang og ruddalegt athæfi. Af atlögunni hlaut A mar á vinstri framhandlegg, mar og sár á hægri augabrún og út á hægra gagnauga, roða og bólgu yfir nefrót, mar á vinstra og hægra kinnbeinni, mar og bólgu á hálsi neðan við kjálkabarð beggja vegna, mar framarlega vinstra megin upp á hársverði og mar aftan við hægra eyra.
Telst þetta varða við 1. og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og 217. gr. og 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
B.
Stórfelldar ærumeiðingar gegn fyrrverandi sambýliskonu sinni A, með því að hafa sunnudaginn 10. nóvember 2013 sent tölvupóst á D, skólastjóra í Grunnskólanum [...], þar sem A starfaði, E sveitastjóra [...], F starfsmanns Grunnskólans [...] og G [...] er innihélt trúnaðarupplýsingar frá Barnaverndarnefnd [...] og vörðuðu hagi A en með háttsemi sinni móðgaði og smánaði ákærði A.
Telst þetta varða við 233 gr. b almennra hegningarlaga, sbr. 3. gr. laga nr. 27/2006.
C.
Brot gegn nálgunarbanni, með því að hafa á tímabilinu 19. desember 2013 til 9. maí 2014 sent fyrrum sambýliskonu sinni, A, 868 skilaboð í gegnum farsíma, samskiptavefinn Facebook og tölvupóst, þrátt fyrir að honum væri bannað að setja sig í samband við hana samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjaness frá 10. desember 2013.
Telst framangreint varða við 1. mgr. 232. gr. almennra hegningarlaga, með síðari breytingum.
D.
Stórfelldar ærumeiðingar og brot gegn blygðunarsemi gegn fyrrverandi sambýliskonu sinni A, með því að hafa miðvikudaginn 7. maí 2014 sent tölvupóst á E, sveitastjóra [...], H rannsóknarlögreglumann [...] og A er innihélt myndskeið af A í kynferðislegum athöfnum en með háttsemi sinni móðgaði og smánaði ákærði A auk þess að særa blygðunarsemi hennar.
Telst þetta varða við 209. gr. og 233 gr. b almennra hegningarlaga.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Einkaréttarkrafa:
Af hálfu A kt. [...], er krafist greiðslu miskabóta að fjárhæð kr. 3.000.000 auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 1. október 2013 en með dráttarvöxtum skv. 9. gr. sbr. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi er mánuður er liðinn frá því að bótakrafa þessi er birt til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.“
Í fylgiskjali með C-kafla ákærunnar er háttsemin tilgreind þannig:
„fimmtudaginn 19. desember, 5 smáskilaboð í farsíma sem[...] hafði til umráða með númerið [...] af vefsíðunni alterna.is:
[...]
föstudaginn 20. desember sent A 3 smáskilaboð í farsíma sem A hafði til umráða með númerið [...] úr síma með númerið [...]:
[...]
laugardaginn 21. desember sent A 6 smáskilaboð í farsíma hennar sem er með númerið [...] úr síma með númerið [...]:
[...]
laugardaginn 21. desember sent A 12 smáskilaboð í farsíma hennar sem er með númerið [...] úr síma með númerið [...]
[...]
sunnudaginn 22. desember sent A 1 smáskilaboð í farsíma sem A hafði til umráða með númerið [...] úr síma með númerið [...].
[...]
mánudaginn 23. desember sent A 1 smáskilaboð í farsíma hennar sem er með númerið [...] úr síma með númerið [...]:
[...]
mánudaginn 23. desember sent A4 smáskilaboð í farsíma hennar sem er með númerið [...] af vefsíðunni alterna.is:
[...]
þriðjudaginn 24. desember sent A 5 smáskilaboð í farsíma hennar sem er með númerið [...] af vefsíðunni alterna.is:
[...]
miðvikudaginn 25. desember sent A 5 smáskilaboð í farsíma hennar sem er með númerið [...] af vefsíðunni alterna.is:
[...]
fimmtudaginn 26. desember sent A 5 smáskilaboð í farsíma hennar sem er með númerið [...] af vefsíðunni alterna.is:
[...]
laugardaginn 28. desember sent A, 5 smáskilaboð í farsíma hennar sem er með númerið [...] af vefsíðunni alterna.is:
[...]
laugardaginn 28. desember sent A 5 smáskilaboð í farsíma sem A hafði til umráða með númerið [...] úr síma með númerið [...]:
[...]
mánudaginn 30. desember sent A 1 smáskilaboð í farsíma hennar sem er með númerið [...] af vefsíðunni alterna.is:
[...]
þriðjudaginn 31. desember sent A 14 smáskilaboð í farsíma hennar sem er með númerið [...] af vefsíðunni alterna.is:
[...]
þriðjudaginn 31. desember sent A 2 smáskilaboð í farsíma sem A hafði til umráða með númerið [...] úr síma með númerið [...]:
[...]
miðvikudaginn 1. janúar sent A 3 smáskilaboð í farsíma hennar sem er með númerið [...] úr síma með númerið [...]:
[...]
sunnudaginn 19. janúar sent A 16 smáskilaboð í farsíma hennar sem er með númerið [...] úr síma með númerið [...]:
[...]
mánudaginn 20. janúar sent A 8 smáskilaboð í farsíma hennar sem er með númerið [...] úr síma með númerið [...]:
[...]
mánudaginn 20. janúar sent A 1 smáskilaboð í farsíma hennar sem er með númerið [...] úr síma með númerið [...]:
[...]
miðvikudaginn 22. janúar sent A 5 smáskilaboð í farsíma hennar sem er með númerið [...] úr síma með númerið [...]:
[...]
fimmtudaginn 23. janúar sent A 15 smáskilaboð í farsíma hennar sem er með númerið [...] úr síma með númerið [...]:
[...]
föstudaginn 24. janúar sent A 5 smáskilaboð í farsíma hennar sem er með númerið [...] úr síma með númerið [...]:
[...]
laugardaginn 25. janúar sent A 13 smáskilaboð í farsíma hennar sem er með númerið [...] úr síma með númerið [...]:
[...]
sunnudaginn 26. janúar sent A 9 smáskilaboð í farsíma hennar sem er með númerið [...] úr síma með númerið [...]:
[...]
mánudaginn 27. janúar sent A 4 smáskilaboð í farsíma hennar sem er með númerið [...] úr síma með númerið [...]:
[...]
miðvikudaginn 29. janúar sent A 1 smáskilaboð í farsíma hennar sem er með númerið [...] úr síma með númerið [...]:
[...]
fimmtudaginn 30. janúar sent A 1 smáskilaboð í farsíma hennar sem er með númerið [...] úr síma með númerið [...]:
[...]
föstudaginn 31. janúar sent A 1 smáskilaboð í farsíma hennar sem er með númerið [...] úr síma með númerið [...]:
[...]
laugardaginn 1. febrúar sent A 4 smáskilaboð í farsíma hennar sem er með númerið [...] úr síma með númerið [...]:
[...]
mánudaginn 3. febrúar sent A 1 smáskilaboð í farsíma hennar sem er með númerið [...]0 úr síma með númerið [...]:
[...]
miðvikudaginn 5. febrúar sent A 5 smáskilaboð í farsíma hennar sem er með númerið [...] úr síma með númerið [...]:
[...]
fimmtudaginn 6. febrúar sent A 1 smáskilaboð í farsíma hennar sem er með númerið [...] úr síma með númerið [...]:
[...]
föstudaginn 7. febrúar sent A 5 smáskilaboð í farsíma hennar sem er með númerið [...] úr síma með númerið [...]:
[...]
laugardaginn 8. febrúar sent A 2 smáskilaboð í farsíma hennar sem er með númerið [...] úr síma með númerið [...]:
[...]
sunnudaginn 9. febrúar sent A 3 smáskilaboð í farsíma hennar sem er með númerið [...] úr síma með númerið [...]:
[...]
miðvikudaginn 12. febrúar sent A 4 smáskilaboð í farsíma hennar sem er með númerið [...] úr síma með númerið [...]:
[...]
fimmtudaginn 13. febrúar sent A 6 smáskilaboð í farsíma hennar sem er með númerið [...] úr síma með númerið [...]:
[...]
föstudaginn 14. febrúar sent A 2 smáskilaboð í farsíma hennar sem er með númerið [...] úr síma með númerið [...]:
[...]
laugardaginn 15. febrúar sent A 3 smáskilaboð í farsíma hennar sem er með númerið [...] úr síma með númerið [...]:
[...]
sunnudaginn 16. febrúar sent A 1 smáskilaboð í farsíma hennar sem er með númerið [...] úr síma með númerið [...]:
[...]
þriðjudaginn 18. febrúar sent A 1 smáskilaboð í farsíma hennar sem er með númerið [...] úr síma með númerið [...]:
[...]
fimmtudaginn 20. febrúar sent A 1 smáskilaboð í farsíma hennar sem er með númerið [...] úr síma með númerið [...]:
[...]
föstudaginn 21. febrúar sent A 7 smáskilaboð í farsíma hennar sem er með númerið [...] úr síma með númerið [...]:
[...]
laugardaginn 22. febrúar sent A 38 smáskilaboð í farsíma hennar sem er með númerið [...] úr síma með númerið [...]:
[...]
sunnudaginn 23. febrúar sent A 56 smáskilaboð í farsíma hennar sem er með númerið [...] úr síma með númerið [...]:
[...]
föstudaginn 28. febrúar sent A 2 smáskilaboð í farsíma hennar sem er með númerið [...] úr síma með númerið [...]:
kl. 19:19
[...]
laugardaginn 1. mars sent A 2 smáskilaboð í farsíma hennar sem er með númerið [...] úr síma með númerið [...]:
[...]
sunnudaginn 2. mars sent A 14 smáskilaboð í farsíma hennar sem er með númerið [...] úr síma með númerið [...]:
[...]
mánudaginn 3. mars sent A 2 smáskilaboð í farsíma hennar sem er með númerið [...] úr síma með númerið [...]:
[...]
L
fimmtudaginn 6. mars sent A 4 smáskilaboð í farsíma hennar sem er með númerið [...]0úr síma með númerið [...]:
[...]
sunnudaginn 9. mars sent fyrrum unnustu sinni A 1 smáskilaboð í farsíma hennar sem er með númerið [...] úr síma með númerið [...]:
[...]
þriðjudaginn 11. mars sent A 1 smáskilaboð í farsíma hennar sem er með númerið [...] úr síma með númerið [...]:
[...]
fimmtudaginn 17. apríl, sent A 6 smáskilaboð í farsíma hennar sem er með númerið [...] úr síma með númerið [...]:
[...]
föstudaginn 18. apríl sent A 29 smáskilaboð í farsíma hennar sem er með númerið [...] úr síma með númerið [...]:
[...]
laugardaginn 19. apríl sent A 34 smáskilaboð í farsíma hennar sem er með númerið [...] úr síma með númerið [...]:
[...]
sunnudaginn 20. apríl sent A 34 smáskilaboð í farsíma hennar sem er með númerið [...] úr síma með númerið [...]:
[...]
mánudaginn 21. apríl sent A 25 smáskilaboð í farsíma hennar sem er með númerið [...] úr síma með númerið [...]:
[...]
mánudaginn 21. apríl sent A 3 smáskilaboð í farsíma hennar sem er með númerið [...] úr síma með númerið [...]:
[...]
þriðjudaginn 22. apríl sent A 48 smáskilaboð í farsíma hennar sem er með númerið [...] úr síma með númerið [...]:
[...]
miðvikudaginn 23. apríl sent A 26 smáskilaboð í farsíma hennar sem er með númerið [...] úr síma með númerið [...]:
[...]
fimmtudaginn 24. apríl sent A 13 smáskilaboð í farsíma hennar sem er með númerið [...] úr síma með númerið [...]:
[...]
föstudaginn 25. apríl sent A 14 smáskilaboð í farsíma hennar sem er með númerið [...] úr síma með númerið [...]:
[...]
föstudaginn 25. apríl sent A 2 smáskilaboð í farsíma hennar sem er með númerið [...] úr síma með númerið [...]:
[...]
laugardaginn 26. apríl sent A 23 smáskilaboð í farsíma hennar sem er með númerið [...] úr síma með númerið [...]:
[...]
fimmtudaginn 1. maí sent A 1 smáskilaboð í farsíma hennar sem er með númerið [...] úr síma með númerið [...]:
[...]
föstudaginn 2. maí sent A 11 smáskilaboð í farsíma hennar sem er með númerið [...] úr síma með númerið [...]:
[...]
sunnudaginn 4. maí sent A 3 smáskilaboð í farsíma hennar sem er með númerið [...] af vefsvæðinu alterna.is
[...]
sunnudaginn 4. maí sent A 16 smáskilaboð í farsíma hennar sem er með númerið [...] úr síma með númerið [...]:
[...]
sunnudaginn 4. maí sent A 1 smáskilaboð í farsíma hennar sem er með númerið [...] úr síma með númerið [...]:
[...]
mánudaginn 5. maí sent A 43 smáskilaboð í farsíma hennar sem er með númerið [...] úr síma með númerið [...]:
[...]
þriðjudaginn 6. maí sent A 28 smáskilaboð í farsíma hennar sem er með númerið [...] úr síma með númerið [...]:
[...]
miðvikudaginn 7. maí sent A 60 smáskilaboð í farsíma hennar sem er með númerið [...] úr síma með númerið [...]:
[...]
fimmtudaginn 8. maí sent A 51 smáskilaboð í farsíma hennar sem er með númerið [...] úr síma með númerið [...]:
[...]
föstudaginn 9. maí sent A 34 smáskilaboð í farsíma hennar sem er með númerið [...] úr síma með númerið [...]:
[...]
laugardaginn 19. janúar sent A eftirfarandi tölvupósta af póstfanginu [...] á póstfang [...]
[...]
miðvikudaginn 23. janúar sent A eftirfarandi tölvupósta ásamt mynd af leiði ömmu hennar af póstfanginu [...] á póstfang [...]
[...]
laugardaginn 24. janúar sent A eftirfarandi skilaboð á samskiptavefnum Facebook undir nafninu [...]
[...]
laugardaginn 8. febrúar sent A eftirfarandi tölvupósta af póstfanginu [...] á póstfang [...]:
[...]
sunnudaginn 9. febrúar sent eftirfarandi tölvupóst af póstfanginu [...] á póstfang [...] og [...]:
[...]
laugardaginn 15. febrúar sent eftirfarandi tölvupóst af póstfanginu [..] póstfang [...]
[...]
þriðjudaginn 18. febrúar sent A eftirfarandi tölvupósta af póstfanginu [....] á póstfang [...] og [...]
[...]
fimmtudaginn 20. febrúar sent eftirfarandi tölvupósta af póstfanginu [...] á póstfang [..] og [...]
[...]
þriðjudaginn 11. mars sent tölvupóst af póstfanginu [...] á póstfang [...] og [...]með viðhengi sem innihélt skannað handskrifað skjal þar sem kom fram:
[...]
föstudaginn 14. febrúar sent A eftirfarandi tölvupósta af póstfanginu [...] á póstfang [...]
[...]
laugardaginn 15. febrúar sent A eftirfarandi tölvupósta af póstfanginu [...] á póstfang [...]
[...]
laugardaginn 22. febrúar sent A eftirfarandi skilaboð á samskiptavefnum Facebook undir nafninu [...]
[...]
sunnudaginn 2. mars sent A, eftirfarandi skilaboð á samskiptavefnum Facebook undir nafninu [...]
[...]
þriðjudaginn 4. mars sent A eftirfarandi tölvupósta af póstfanginu [...] á póstfang [...]
[...]
fimmtudaginn 6. mars sent A eftirfarandi tölvupósta af póstfanginu [...] á póstfang [...]
[...]
sunnudaginn 9. mars sent A eftirfarandi tölvupósta af póstfanginu [..] á póstfang [...]
[...]
miðvikudaginn 12. mars sent A eftirfarandi tölvupósta af póstfanginu [...] á póstfang [...]
[...]
Ákærði kom fyrir dóminn við þingfestingu málsins og neitaði sök í öllum ákæruliðum. Hófst aðalmeðferð 24. apríl og var framhaldið 29. maí sl. Var málið dómtekið að málflutningi loknum.
Málsatvik.
A-kafli ákærunnar.
Rétt fyrir klukkan þrjú, aðfaranótt 4. febrúar 2012, var lögreglan kvödd að [...] í [...] vegna óláta í búð þar. Þegar lögreglan kom á staðinn hitti hún fyrir á stigaganginum sex ára son brotaþola en inni í íbúðinni voru ákærði, brotaþoli og annar sonur brotaþola þá fimm ára. Voru brotaþoli og drengirnir í miklu uppnámi. Fyrir liggur að fyrr um kvöldið höfðu aðilar verið með matarboð fyrir foreldra og bræður brotaþola. Var áfengi haft um hönd. Þegar líða fór á kvöldið fór brotaþoli inn í hjónaherbergi með drengina og sofnaði. Eftir að gestirnir voru farnir urðu átök á milli brotaþola og ákærða. Ber þeim ekki saman um hvernig þau átök hófust eða hvað gerðist. Brotaþoli fór í kjölfarið á bráðamóttöku og segir í læknisvottorði sem liggur fyrir í gögnum málsins að við skoðun sjáist svolítið mar undir húð á miðjum vinstri framhandlegg, væg þreifieymsli séu um allt og grunnt hrufl á húðinni. Þá sé sýnilegt mar í andliti utanvert á hægri augabrún og út á hægra gagnauga. Þar sé sömuleiðis hruflsár og sýnilegt storknað blóð. Roði og bólga yfir nefrót og þar sé hrufl á húð og væg þreifieymsli. Þá megi sjá mar yfir vinstra kinnbeini og talsverð eymsli við þreifingu. Þá sé sjúklingur með mar og bólgu á hálsi neðan við kjálkabarð beggja vegna og framkallist eymsli við þreifingu á hálsvöðvum upp undir kjálkana. Þá sé hún með mar framarlega vinstra megin uppí hársverði og annað marsvæði aftan við hægra eyra. Brotaþoli lýsti á bráðamóttökunni að hún hafi orðið fyrir ofbeldi af hendi sambýlismanns síns, fengið endurtekin högg í höfuð og vinstri höndina og einnig verið tekin hálstaki. Kvartaði hún um verki efst í hálsi rétt upp við kjálka beggja vegna á hálsinum.
Samkvæmt gögnum málsins óskaði brotaþoli ekki eftir frekari aðkomu lögreglu að kærum hennar á hendur ákærða þann 16. maí 2012. Brotaþoli kærði síðan atvikið til lögreglu þann 16. nóvember 2013.
B-kafli ákærunnar.
Í gögnum málsins liggur fyrir tölvupóstur ásamt skilaboðum ákærða til einstaklinga á [...] þar sem gögn milli Barnaverndarnefndar [...] og brotaþola voru send með sem fylgigögn.
C-kafli ákærunnar.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness þann 10. desember 2013 var staðfest ákvörðun lögreglustjórans á [..] frá 4. desember 2013 um að X skyldi gert að sæta nálgunarbanni í sex mánuði þannig að lagt sé bann við því að hann nálgist A og syni hennar. Jafnframt er X bannað að hafa á sama tíma síma-, bréfa-, fjarskipta- og netsamskipti við hana og syni hennar, þar með talið að senda SMS-skeyti og tölvupóst eða setja sig á annan hátt í beint samband við þau. Á sama tíma er honum bannað að koma á eða í námunda við heimili hennar og barna hennar að [...] á [...], á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus frá miðju hússins. Einnig er honum bannað að nálgast vinnustað hennar að [...] á [...] sem nemi byggingu og lóð umhverfis húsið.
Þann 27. júní 2014 var þingfest mál nr. S-309/2014 í Héraðsdómi Reykjaness á hendur ákærða fyrir hluta af þeim brotum sem honum er gefið að sök í þessum ákærukafla. Játaði ákærði þá sök og gekk dómur þann 9. júlí 2014. Var þeim dómi áfrýjað til Hæstaréttar Íslands en því máli var vísað frá Héraðsdómi með dómi Hæstaréttar nr. 530/2014, kveðnum upp 27. nóvember 2014, þar sem hluti ákæruatriða heyrði ekki undir ákæruvald lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Í kjölfar var gefin út ný ákæra og þá einnig ákært fyrir brot framin eftir útgáfu þeirrar ákæru.
Ákærði hefur játað fyrir dóminum að hafa sent ofangreind skilaboð en neitað sök. Er ekki þörf á að reka málsatvik frekar vegna þessa ákæruliðar.
D-kafli ákærunnar.
Í gögnum málsins liggur fyrir mynddiskur sem sýnir brotaþola í kynferðislegum athöfnum. Fer ekki á milli mála á myndupptökunni að um brotaþola er að ræða. Ekki er ágreiningur um að ákærði hafi tekið umrætt atvik upp með samþykki brotaþola en samkvæmt brotaþola átti það einungis að vera fyrir þau tvö gert. Þá er ekki ágreiningur um að ákærði sendi myndskeiðið á þá aðila með tölvupósti sem tilgreindir eru í þessum kafla ákærunnar þann 7. maí 2014.
Skýrslur fyrir dómi.
Ákærukafli A.
Ákærði kom fyrir dóminn og kvaðst hafa kynnst brotaþola í mars 2011 og sambúð þeirra hafist í september 2011 fram í október 2012. Þau hafi þó verið í daglegu sambandi fram í nóvember 2013.
Ákærði lýsti atvikum í þessum ákærukafla svo að foreldrar brotaþola, bræður og mágkonur hafi verið í mat. Brotaþoli fari ætíð í „blackout“ þegar hún smakki vín og þannig hafi ákærði þurft að bera hana inn í rúm þetta kvöld fyrir framan gestina. Gestirnir hafi síðar farið en sífellt áreiti hafi verið frá barnsföður brotaþola í formi sms-skilaboða. Ákærði hafi því vakið brotaþola og bent henni á að þessu yrði að ljúka, það væri ekki búandi við þetta en áður hafi hann verið búinn að færa drengina inn í sitt herbergi. Þeir hafi áður sofnað inni í hjónarúmi. Brotaþoli hafi enn verið dauðadrukkin þegar hann vakti hana og hún hafi umturnast. Þau hafi farið að rífast og síðan tekist á. Brotaþoli hafi hótað ákærða lífláti með hníf. Ákærði kvaðst ekki vilja lýsa átökum þeirra neitt frekar. Ákærði neitaði því að hafa dregið brotaþola út úr rúminu og kannaðist ekki við að hafa slegið hana né sparkað í hana. Ákærði hafi ekki tekið brotaþola hálstaki né haft í hótunum við hana. Brotaþoli hafi þó eyðilagt tölvu sem var inni í eldhúsi umrætt sinn. Aðspurður kvað ákærði þau hafa hnakkrifist um alla íbúð, í eldhúsi, stofu og baðherbergi. Brotaþoli hafi sennilega náð í hnífinn inni í eldhúsi. Ákærði kvað blóð úr sér hafa verið á eldhúsgólfi þar sem hann hafi stigið í glerbrot á eldhúsgólfinu en brotaþoli hafi grýtt myndum í gólfið ofan af vegg. Ákærði kvaðst hafa verið með áverka eftir árás brotaþola en hann hafi ekki leitað til læknis vegna þess. Áverkavottorð brotaþola var borið undir ákærða. Ákærði kvað áverka á höndum brotaþola geta verið af sínum völdum en hann kvaðst ekki geta skýrt út áverka í andliti hennar. Ákærði kvað brotaþola þó ekki hafa verið með áverka fyrr um kvöldið. Aðspurður um framburð sinn hjá lögreglu um að hann hafi tekið brotaþola léttu hálstaki kvaðst ákærði ekki kannast við það. Ákærði kvaðst ekki hafa orðið var við það hvenær drengirnir komu fram en þeir hafi sennilega fært sig inn í hjónaherbergi á meðan átökin áttu sér stað. Aðspurður um framburð sinn hjá lögreglu að hann hafi reynt að róa drengina niður áður en lögreglan kom, kvað hann það vera rétt. Örugglega hafi drengirnir verið í uppnámi en hann gæti ekki lýst því frekar. Ákærði kvaðst einnig hafa verið drukkinn umrætt kvöld.
Aðspurður kvaðst ákærði ekki hafa haft vitneskju um að hann væri sakaður um brot gegn barnaverndarlögum fyrr en honum var birt umrædd ákæra.
Vitnið A kom fyrir dóminn og lýsti atvikum svo að foreldrar og bræður hennar hafi verið í mat hjá þeim þetta kvöld. Vitnið hafi farið að sofa með drengjum sínum um kvöldið uppi í hennar rúmi. Vitnið hafi vaknað við að ákærði réðst á vitni, kýldi það og dró fram úr rúminu. Vitnið hafi sparkað á móti og ákærði við það fallið aftur á bak. Í framhaldi hafi verið eltingaleikur um alla íbúð þar sem ákærði hafi ítrekað lamið vitnið og drengirnir verið hlaupandi á eftir þeim. Ákærði hafi kýlt vitnið í andlitið, gripið vitnið hálstaki. Ákærði hafi verið með hníf og hótað vitninu lífláti. Kvaðst vitnið aðspurt visst um að ákærði hafi hótað sér lífláti. Þegar lögreglan kom hafi vitnið verið að safna saman föggum sínum til að geta farið að heiman og þá hafi annar drengurinn verið kominn fram á gang með föggur í poka. Árásin hafi staðið yfir í um klukkustund. Vitnið kvaðst hafa farið inn í rúm til að svæfa drengina og vitnið sofnað við það. Ákærði hafi borið því við að skilaboð hafi borist frá barnsföður hennar fyrr um kvöldið í síma hennar. Ákærði hafi verið mjög afbrýðisamur og bannað vitninu að hafa samband við hann. Vitnið kvað drengina hafa verið í hjónarúminu þegar árásin hófst og þeir hafi tryllst úr hræðslu. Vitni kvaðst einnig hafa verið hrætt um drengina. Vitnið hafi reynt að loka sig og drengina inni í þvottahúsi og herbergi drengjanna en ákærði komist inn. Vitnið kvaðst ekki geta lýst í smáatriðum hvernig hver atlaga var því að ákærði hafi slegið vitnið svo oft. Vitnið hafi verið með glóðarauga á báðum augum eftir þetta, verið marið á kjálka og ekki farið í vinnu í mánuð á eftir. Vitnið kvað ákærða hafa brotið fulla vínflösku á gólfinu í miðrými íbúðarinnar. Þau hafi bæði verið búin að stíga í glerbrot og því verið blóð úti um allt. Þá hafi ákærði tekið brotaþola hálstaki og ógnað henni með hníf og sagt henni að hann gæti vel drepið vitnið. Vitnið kvaðst hafa verið hrætt því að þau bjuggu á áttundu hæð og hafi það óttast að ákærði myndi henda henni fram af svölunum. Vitnið kvað ákærða breytast í ófreskju þegar hann fari í þennan ham en ákærði hafi áður ráðist á vitnið. Allan tímann hafi drengirnir verið innan um þau. Vitnið kvað annan drenginn hafa verið mjög brotinn eftir þetta og hafa gengið til skólasálfræðings í kjölfarið. Aðspurt um það hvers vegna vitnið hafi sagt lögreglu að það myndi ekki kæra atvikið, kvaðst vitnið í fyrsta lagi hafa verið mjög hrætt, það hafi verið búið að slíta tengslin við foreldra sína og fleiri og ákærði hafi í raun verið sá eini sem það var í samskiptum við. Vitnið hafi upplifað sig sem aleitt og því ekki kært. Vitnið kvað aðspurt frásögn ákærða alranga en ákærði hafi fyrir utan þetta atvik oft ráðist á vitnið. Þá sé rangt að ákærði hafi verið búinn að bera drengina upp í sín rúm áður en hann vakti vitnið. Vitnið kvað rétt að ákærði hafi fengið áverka í andlit þar sem vitnið hafi sparkað frá sér þegar ákærði dró það fram úr rúminu en það hafi verið í sjálfsvörn.
Aðspurt kvaðst vitnið hafa átt við áfengisvanda að stríða á þessum tíma og ákærði einnig en vitnið sé búið að vinna sig út úr þeim vanda. Vitnið kvað rangt að ákærði hafi borið sig inn í rúm umrætt sinn. Vitnið kvaðst ekki kannast við að myndarammar hafi brotnað í átökunum heldur hafi ákærði brotið vínflösku á gólfinu sem foreldrar hennar höfðu komið með. Þá kvaðst vitnið ekki hafa brotið tölvu umrætt sinn eins og ákærði haldi fram. Vitnið kvað rétt að barnaverndaryfirvöld hafi haft afskipti af heimilinu þessa nótt. Í framhaldi hafi drengirnir farið í viðtöl hjá félagsmálayfirvöldum reglulega. Það hafi vitnið einnig gert þar til vitnið flutti til [...] Málinu hafi lokið í kjölfar þess. Samningur hafi verið gerður við barnsföður vitnisins um að drengirnir yrðu hjá honum í tvo mánuði og vitnið tæki á sínum áfengisvanda á meðan og sliti sambandinu við ákærða. Það hafi gengið mjög illa þar sem vitnið hafi verið mjög brotið. Vitnið kvaðst ekki hafa þorað að kæra ákærða á þessum tíma og ekki lagt í þann slag fyrr en löngu síðar.
Vitnið I lögreglumaður kom fyrir dóminn og kvaðst hafa fengið útkall vegna [...]. Íbúi hafi vaknað upp við barnsgrát frammi á stigagangi og séð um sex ára gamalt barn standa þar með sængina sína. Drengurinn hafi verið þar þegar lögreglan kom á staðinn. Hurðin inn í íbúðina hafi verið hálfopin svo að lögreglan hafi farið inn. Þar hafi kona verið með annan dreng og í ljós hafi komið að þar höfðu orðið átök. Lögreglumaður hafi farið með drengina inn í herbergi þeirra til að róa þá niður. Starfsmaður barnaverndarnefndar hafi verið kallaður út. Rætt hafi verið við ákærða og brotaþola. Ákærði hafi verið handtekinn og konan flutt á slysadeild. Vitnið kvaðst hafa rætt við konuna en hún tjáð sér að hún hafi verið farin að sofa ásamt drengjunum þegar ákærði kom inn í rúm og réðst á hana. Þrír aðrir lögreglumenn hafi komið á vettvang. Kvað vitnið konuna hafa verið að undirbúa sig við það að fara af svæðinu þegar lögreglan kom. Báðir drengirnir hafi verið grátandi með miklum ekkasogum og greinilega mjög brugðið. Konan hafi einnig verið í áfalli en hún hafi verið með áverka í andliti. Vitnið kvaðst hafa greint að konan hafi verið eitthvað undir áhrifum áfengis en ekki mjög drukkin. Vitnið minnti að ákærði hafi verið í skrýtnu ástandi og í og með hlegið að lögreglunni. Vitnið minnti að flöskubrot hafi verið á gólfi í eldhúsi og blóð hafi verið þar úr þeim báðum eftir glerbrot. Vitnið kvaðst ekki muna eftir hnífi á vettvangi. Vitnið mundi ekki til þess að brotaþoli hafi minnst á hótanir við sig um nóttina. Vitnið kvaðst hafa séð skurð í andliti brotaþola og aðra áverka en ekki brotna tönn.
Vitnið J læknir gaf símaskýrslu fyrir dómi og lýsti þeim áverkum sem voru á brotaþola þegar hún kom á bráðamóttöku aðfaranótt 4. febrúar 2012. Vitnið kvað brotaþola hafa gefið sér þá skýringu að hún hafi orðið fyrir árás sambýlismanns síns fyrr um nóttina. Vitnið minntist þess ekki að brotaþoli hafi minnst á hótanir eða hníf þegar hún kom. Beiðni um áfallahjálp hafi verið send fyrir brotaþola.
Vitnið K gaf skýrslu fyrir dóminum og kvaðst hafa verið í matarboði hjá systur sinni umrætt kvöld. Hann ásamt öðrum aðilum, bróður sínum og foreldrum, hafi snætt kvöldmat og vín hafi verið haft við hönd. Vitnið kvaðst muna eftir því að hafa séð áfengisáhrif á brotaþola. Vitnið mundi eftir að brotaþoli hafi farið inn í rúm, sennilega um ellefuleytið, og strákarnir líklega á eftir henni eða um leið og hún því að þeir hafi verið sofandi inni í rúmi hjá henni þegar vitnið fór. Vitnið mundi ekki til þess að nein leiðindi hafi verið á milli ákærða og brotaþola þetta kvöld og ekki að ákærði hafi hjálpað henni inn í rúm. Vitnið minnti að það hafi farið heim um miðnætti en vitnið hafi kíkt á brotaþola inn í hjónaherbergi þegar það fór og drengirnir verið þar líka. Vitnið kvaðst ekki hafa frétt af atvikinu fyrr en fyrir um sex mánuðum. Vitnið kvaðst ekki hafa verið í miklum samskiptum við brotaþola, hún hafi verið mikið upptekin og samskiptin því ekki mikil. Vitnið minntist þess ekki að brotaþoli hafi verið að fá smáskilaboð frá barnsföður sínum umrætt kvöld.
Vitnið L, bróðir brotaþola, gaf skýrslu fyrir dóminum og kvaðst hafa verið í matarboði umrætt kvöld ásamt bróður sínum mökum og foreldrum. Minnti vitnið að þau hafi farið heim upp úr miðnætti. Allir hafi fengið sér áfengi en vitnið mundi ekki til þess að mikil drykkja hafi verið. Ákærði og brotaþoli hafi einnig verið undir áhrifum. Brotaþoli hafi verið uppi í rúmi þegar vitnið fór en brotaþoli hafi farið inn í rúm um hálftíma áður en vitnið fór af staðnum. Synir hennar hafi verið uppi í rúmi hjá brotaþola þegar vitnið fór. Vitnið kvaðst ekki muna til þess að brotaþoli hafi verið að fá skilaboð frá barnsföður sínum um kvöldið. Kvað vitnið brotaþola hafa haft lítið samband við vitnið eftir þennan atburð og í framhaldi en þau hafi verið mjög náin áður. Vitnið kvað brotaþola hafa sagt sér frá því síðar að ákærði hafi komið að henni sofandi uppi í rúmi og ráðist á hana. Þá hafi hún einnig sagt sér frá öðrum árásum ákærða á hana. Vitnið kvaðst ekki telja brotaþola hafa verið ofurölvi og ekki farið inn í rúm þess vegna. Þá kvað hann brotaþola hafa sagt sér síðar að synir hennar ættu í sálrænum erfiðleikum eftir árásina.
Vitnið M lögreglumaður kom fyrir dóminn og kvaðst hafa farið að [...] umrætt sinn ásamt I varðstjóra. Íbúi í blokkinni hafi hringt og tilkynnt um grátandi barn frammi á stigagangi. Þegar vitnið kom hafi það hitt barnið sem hafi greinilega grátið lengi. Barnið var með einhverjar föggur með sér og kvaðst vera farið. Greinilegt hafi verið inni í íbúðinni að eitthvað hafði gengið á. Ákærði hafi sagt vitninu að brotaþoli hafi dáið áfengissvefni fyrr um kvöldið en fyrrverandi maður brotaþola hringt og þau rifist og slegist þess vegna. Blóð hafi verið á gólfi. Ákærði hafi verið ölvaður og fannst honum málið svolítið fyndið, hann hafi hlegið þegar vitnið talaði við hann. Barnaverndarnefnd hafi verið kölluð til og ákærði færður á lögreglustöð. Vitnið kvað áverka hafa verið á andliti konunnar en ekki hafi verið áverkar á ákærða þannig að lögreglan hafi talið að ákærði væri gerandi en ekki konan. Konan hafi verið í miklu uppnámi og hafi hún verið að taka sig til til að komast út úr aðstæðum. Konan hafi verið með það mikla áverka í andliti að lögreglunni hafi fundist nauðsynlegt að flytja hana á bráðamóttöku. Vitnið kvað engan hávaða eða læti hafa komið frá íbúðinni þegar lögreglan kom. Þá hafi vín sést á konunni en hún greinilega verið minna drukkin en ákærði. Drengurinn á stigaganginum hafi verið í miklu uppnámi en yngri drengurinn kannski ekki áttað sig eins á aðstæðum. Vitnið kvaðst minnast þess að hafa séð hníf á gólfi en mundi ekki hvar hann var. Vitnið mundi ekki til þess að ákærði hafi talað um að konan hafi ógnað sér með hnífi.
Vitnið N félagsráðgjafi gaf símaskýrslu fyrir dóminum og kvaðst hafa meðhöndlað syni brotaþola eftir líkamsárásina 4. febrúar 2012. Í kjölfar þess hafi drengirnir komið nokkuð nokkuð oft í viðtöl eða alls sautján sinnum. Eftir að skólinn byrjaði um haustið hafi hún hitt þá í skólanum. Vitnið hafi komið á heimilið umrædda nótt og þá hafi þeir verið skelfingu lostnir. Það hafi tekið tíma að tengjast þeim drengjunum. Aðspurt kvað vitnið að drengirnir hafi átt mjög erfitt með að tjá sig um árásina sem slíka en þeir hafi verið mjög óttaslegnir um líf móður sinnar.
Ákærukafli B. Barnaverndarupplýsingar
Ákærði kvaðst fyrir dóminum hafa sent barnaverndargögn tilheyrandi brotaþola til þeirra aðila sem nefndir séu í ákæruliðnum. Ástæða þess hafi verið áhyggjur hans af drengjum hennar en ekki hafi verið ætlun hans að meiða æru brotaþola. Hann hafi ekkert verið að velta því fyrir sér hvort tölvupóstssendingin myndi eyðileggja atvinnuhorfur eða koma í veg fyrir framtíðaráætlanir brotaþola. Ákærði hafi verið að reyna að ná sambandi við brotaþola til að gera upp þeirra sambúðarslit. Þetta hafi verið gögn sem hafi verið í báðum tölvum aðila. Aðspurður kvað hann brotaþola væntanlega hafa fengið þessi gögn send frá barnaverndarnefnd en þetta hafi verið þeirra sameiginlegu mál. Ákærði kvaðst ekki hafa vitað að G hafi verið fréttaritari[...]. Ákærði neitaði að tjá sig frekar um þennan ákærulið.
Vitnið A kvaðst fyrir dóminum hafa reynt að slíta sambandi við ákærða m.a. þar sem hún gat ekki boðið börnum sínum upp á slíkt ofbeldissamband. Vitnið hafi vitað að ef það ætlaði að halda forsjá drengja sinna hafi vitnið orðið að slíta sambandinu við ákærða. Vitnið kvað ákærða hafa elt sig ítrekað eftir að vitnið reyndi að slíta sambandinu. Í nóvember 2013 hafi vitninu verið ljóst að það yrði að stöðva ákærða á einhvern hátt. Aðspurt kvað vitnið ákærða hafa skannað umrædd skjöl, sem ákært er fyrir að hann hafi sent í þessum ákærulið, og vistað í tölvu sinni og sent þau til dóttur sinnar fyrr um árið auk vinnuveitanda síns. Vitnið hafi þess vegna farið og rætt við vinnuveitanda ákærða. Umrædd gögn hafi verið samkomulag milli vitnisins og barnsföður þess um að drengirnir yrðu vistaðir hjá honum í tvo mánuði á meðan vitnið væri að vinna í sínum málum. Vitnið hafi fengið þessi skjöl send og ákærði hafi tekið þau ófrjálsri hendi og skannað þau inn í tölvu sína. Vitnið hafi alls ekki gefið ákærða leyfi til þess. Vitnið kvað það hafa verið ömurlega reynslu þegar ákærði sendi umrædd skjöl á fræðslunefnd, barnaverndarnefnd og skólanefnd Grunnskólans [...] en vitnið hafi þá verið að hefja sinn feril sem kennari á staðnum og aðstoðarskólastjóri. Þetta hafi verið algjör niðurlæging. Ákærði hafi einnig hringt mikið í það fólk sem starfaði í ofangreindum nefndum og marga fleiri. Vitnið kvað ákærða hafa margbrotið nálgunarbannið sem á hann var sett. Fyrir utan öll þau smáskilaboð, sem ákært sé fyrir, hafi ákærði ítrekað hringt daglega í vitnið og til annarra í [...] sem hafi verið mjög truflandi. Vitnið kvaðst aldrei hafa sett sig í samband við ákærða að fyrra bragði á þessum tíma. Vitnið kvað rétt að vitnið og barnsfaðir hennar hafi gert samkomulag um að börnin yrðu vistuð hjá föður sínum og mættu ekki koma inn á heimili vitnisins á meðan ákærði væri inni eða við heimili vitnisins.
Vitnið E kom fyrir dóminn. Kvaðst vitnið hafa starfað sem sveitarstjóri á [...] á árinu 2014. Vitnið kvaðst hafa fengið tölvupóst sendan sem ákært er fyrir í þessum kafla en vitnið kvaðst þekkja til þessa málaflokks. Vitnið kvaðst hafa séð um hvað gögnin fjölluðu sem fylgdu tölvupóstinum en hann hafi einnig verið sendur á fleiri aðila í samfélaginu. Vitnið kvaðst hafa rætt þetta stuttlega við brotaþola. Fyrst og fremst hefði vitnið spurt um það hvernig stæði á því að ákærði hefði þessi gögn undir höndum. Efnislega hefði vitnið ekki rætt innihald gagnanna við brotaþola.
Vitnið F gaf símaskýrslu fyrir dóminum. Kvaðst vitnið hafa starfað með brotaþola frá því í ágúst 2013 en engin kynni séu við ákærða. Aðspurt um tölvupóst kvaðst vitnið hafa fengið 10. nóvember 2013 til júní 2014 um fimmtíu tölvuskeyti sem hafi einnig verið send á samstarfsfólk vitnisins. Vitnið kvaðst vera kerfisstjóri á vinnustaðnum. Ákvörðun hafi verið tekin um að setja upp svokallaða síu á tölvupóst þannig að samstarfsmenn vitnisins hafi ekki fengið tölvupóstinn frá ákærða. Eftir það hafi vitnið áframsent tölvupóstinn til lögreglunnar en innihald þeirra hafi verið ærumeiðingar, hótanir, myndir, persónuleg skjöl, myndbrot og fleira. Vitnið kvaðst hafa fengið tölvupóst þar sem skjöl frá Barnavernd [...] fylgdu með í fylgiskjali. Vitnið hafi skoðað þann póst í samráði við brotaþola. Í þeim tölvupósti hafi ákærði varað vinnuveitanda brotaþola við að hafa hana í vinnu o.fl. Vitnið kvaðst ætíð hafa verið í sambandi við brotaþola þegar þessi tölvupóstur barst en brotaþoli hafi greinilega borið þess merki að þessi tölvupóstur og áreiti hafi farið illa með hana. Vitnið kvað brotaþola hafa nánast verið óvinnufæra þennan vetur og greinilega liðið mjög illa þrátt fyrir að hún hafi sinnt sínu starfi. Vitnið kvað ákærða einnig hafa áreitt sig með símhringingum og tölvupósti. Vitnið kvaðst ekki geta fullyrt í dag hvort tölvupóstur sendur 10. nóvember 2013 hafi farið í síuna.
Vitnið G, kennari við Grunnskólann á [...], gaf símaskýrslu fyrir dóminum og kvaðst hafa fengið tölvupóst frá ákærða þennan vetur. Vitnið kvaðst hafa m.a. fengið tölvupóst með viðhengi sem voru gögn frá Barnaverndarnefnd [...]. Vitnið kvaðst hafa opnað skjalið því að það hafi ekki vitað hvað var verið að senda vitninu. Vitnið kvaðst hafa fengið tvö tölvuskeyti frá ákærða en ekki svarað þeim. Vitnið kvaðst ekki vita hvers vegna það hafi fengið þennan póst. Um hafi verið rætt að þessi tölvupóstur væri sendur af sjúkri manneskju. Vitnið kvaðst ekki hafa rætt þennan tölvupóst við brotaþola. Vitnið kvað starf sitt fyrir [...] vera aukastarf og vitnið hafi fengið umræddan tölvupóst á netfang sitt í skólanum.
Ákærukafli C.
Aðspurður um þennan ákærukafla kvaðst ákærði bara eitt hafa um þetta að segja, að hann sjái eftir því að hafa sent þessi skilaboð en hann kannist við að hafa sent þau. Ákærði kvað rétt vera að honum hafi verið birt niðurstaða um nálgunarbannið á sínum tíma en hann hefði ekkert meira um þetta að segja. Nokkur skilaboð voru borin undir ákærða og kvað hann þau hljóma eins og þau hafi komið frá honum.
Vitnið E lögreglumaður kom fyrir dóminn og kvað brotaþola ítrekað hafa komið og kært áreiti ákærða og tölvupóst. M.a. hafi ákærði sent mynd af leiði ömmu brotaþola og nöfnu og sagt að svona færi einnig fyrir henni. Þá hafi ákærði í sumum skeytum sagst vera að koma til [...] og hafi lögreglan reynt í því tilefni að fylgjast með ferðum hans, m.a. með aðstoð frá lögreglunni í Reykjavík. Svo langt hafi það gengið að vitnið hafi þurft að kalla út aðstoð til að lögreglan væri í stakk búin að taka á móti ákærða og stoppa ef hann kæmi til [..]. Þannig hafi það gengið í nokkur skipti. Brotaþoli hafi verið mjög hrædd. Vitnið kvaðst búa í næsta húsi við brotaþola og á tímabili lagt lögreglubifreiðinni út við götu fyrir framan íbúð brotaþola þannig að það virtist vera lögregluvakt við íbúð brotaþola ef ákærði kæmi.
Ákærukafli D.
Aðspurður um þennan ákærulið kvaðst ákærði kannast við að hafa sent umræddan tölvupóst en kvaðst ekki kannast við að neitt myndskeið hafi fylgt póstinum. Það gæti hafa verið einhver „linkur“ með en þá hafi það verið mistök. Tölvupóstur frá þessum tíma var borinn undir ákærða og kvaðst ákærði hafa verið að fá sér í glas á þessum tíma og myndi þetta ekki. Nokkur tölvuskeyti voru borin undir ákærða þar sem hann ræðir um vídeóupptökurnar. Kvaðst ákærði ýmist kannast við að hafa sent þennan tölvupóst eða ekki en kannaðist ekki við að myndbandið hafi fylgt með.
Vitnið A kvaðst fyrir dóminum hafa komist að því að umrætt myndband væri farið á veraldarvefinn þegar E hringdi í vitnið og sagði því að nú væri myndbandið komið á netið. Hótanir ákærða um að senda umrætt myndband á netið hafi staðið yfir í nokkurn tíma. Vitnið kvaðst ekkert vita hvert þetta myndband væri búið að fara en það hafi verið mjög mikil niðurlæging. Vitnið kvaðst hafa samþykkt að umrætt myndband yrði tekið upp því að þá ætlaði ákærði að hætta þessu og hætta hinu. Að sjálfsögðu hafi myndbandið ekki átt að fara í dreifingu, það hafi ákærði vitað en um mjög persónulegt myndband sé að ræða. Vitnið kvað sendingu ákærða á myndbandinu hafa verið í þeim tilgangi að niðurlægja vitnið. Vitnið kvaðst aðspurt hafa sjálft séð tölvupóstinn sem ákærði sendi með myndskeiðinu en smella hafi þurft á myndbandið og opnaðist það þá strax.
Vitnið kvaðst ekki hafa haft tök á því að sækja sér markvissa sálfræðiaðstoð vegna fjarlægðar frá [...] en vitnið hafi rætt við hjúkrunarfræðing á staðnum varðandi sín mál og sótt sér aðstoð þar. Hins vegar sé nauðsyn fyrir vitnið að sækja sér sálfræðiaðstoð. Vitnið kvaðst hafa fengið frið fyrir ákærða frá maí 2014 en ákærði hafi verið að senda í skólann tölvupóst fram í júlí 2014 auk þess sem eldri börn hennar hafi orðið fyrir ónæði af hans hálfu, m.a. hafi eldri dóttir vitnisins fengið nálgunarbann á hann.
Vitnið O, fyrrverandi sveitastjóri á [...] kom fyrir dóminn. Kvað vitnið ákærða hafa verið búinn að hóta því frá því í október árinu áður að senda umræddan tölvupóst. Ákærði hafi lagt stofnanir á svæðinu í herkví með sífelldum tölvupóstsendingum og hótunum. Vitnið kvaðst rétt hafa opnað myndbandið en eytt því um leið. Minnti vitnið að myndbandið hafi verið sent sama dag og viðtal við brotaþola kom í [...] Vitnið kvaðst hafa rætt við brotaþola um þessi mál. Brotaþoli hafi komið til starfa í september 2013 og áreitið á hana hafi sennilega byrjað í október s.á. Vitnið hafi orðið þess áskynja í byrjun nóvember s.á. Brotaþoli hafi þá sett vitnið inn í fjölskyldumál sín. Vitnið hafi þurft að ræða við aðra kennara en þeir hafi einnig fengið bæði símtöl og tölvupóst frá ákærða. Hafi kennarasamfélagið verið mjög truflað út af þessu og brotaþola hafi greinilega liðið mjög illa vegna þessa. Það hafi hins vegar ekki komið niður á kennslu hennar. Vitnið kvað fylgiskjalið sem fylgdi tölvupóstinum hafa verið myndskeið sem opnaðist strax og smellt var á myndina.
Vitnið P rannsóknarlögreglumaður kom fyrir dóminn. Kvað hann brotaþola hafa ítrekað leitað til lögreglunnar vegna ónæðis ákærða. Nálgunarbann hafi verið sett á ákærða en þrátt fyrir það hafi áreitinu ekki linnt. Vitnið kvað rétt að það hafi fengið tölvupóst frá ákærða 7. maí 2014, eftir að [...] i lauk í sjónvarpinu, og fylgdi með myndskeið af brotaþola í kynferðislegum athöfnum. Vitnið kvað áreiti ákærða hafa haft mikil áhrif á brotaþola.
Forsendur og niðurstöður.
Ákærukafli A.
Ákærði neitar sök í þessum ákærukafla en viðurkennir að hafa lent í átökum við brotaþola umrætt kvöld. Ákærði neitar að hafa hótað brotaþola og haldið hnífi upp að hálsi hennar. Þá kvað ákærði áverka á brotaþola, utan mar á handleggjum, ekki stafa frá sinni hendi. Ákærði kveður sök samkvæmt 217. gr. almennra hegningarlaga fyrnda og að brot gegn barnaverndarlögum hafi aldrei verið kært né rannsakað af hálfu lögreglu. Því beri að vísa því frá dómi ella sýkna ákærða af þeim ásökunum.
Ekki er ágreiningur um að átök hafi átt sér stað umrædda nótt milli aðila. Ákærði kvað fyrir dóminum brotaþola hafa farið í „blackout“ inni í stofu þetta kvöld og kvaðst þess vegna hafa þurft að bera hana inn í rúm sökum ölvunar. Vitnin K og L könnuðust ekki við þessa lýsingu ákærða. Báru þeir báðir eins og brotaþoli sjálf að hún hafi farið sjálf inn í rúm um kvöldið. Vitnin K og L voru ekki vissir um það hvort hún hafi farið með drengina með sér inn í rúm en þeir hafi allavega farið á eftir henni og báðir kváðust hafa séð drengina sofandi í hjónarúminu hjá brotaþola þegar þeir yfirgáfu íbúðina. Aðspurðir að því hvort brotaþoli hafi fengið mikið af smáskilaboðum eða orðið fyrir áreiti barnsföður eða fyrrverandi eiginmanns brotaþola um kvöldið könnuðust þeir ekki við það. Ákærði kvaðst hafa farið, vegna þessara síendurteknu skilaboða, inn til brotaþola þar sem hún hafi sofið áfengissvefni, borið drengina inn í sitt herbergi og síðan vakið brotaþola til að segja henni að þessu áreiti yrði að linna. Brotaþoli ber að drengirnir hafi verið uppi í rúmi hjá sér þegar ákærði réðst að henni. Ekki er hægt að byggja á framburði drengjanna um þetta. Brotaþoli hefur verið staðföst í framburði sínum fyrir dómi. Framburður ákærða um að hann hafi þurft að bera brotaþola inn í rúm fær ekki stoð í framburði annarra sem voru heima hjá þeim um kvöldið og þrátt fyrir tengsl vitna við brotaþola telur dómurinn framburð þeirra trúverðugan. Ákærði skýrði fyrir dóminum að glerbrot á gólfi hafi verið myndarammar sem brotaþoli hafi brotið í átökunum. Brotaþoli kvað ákærða hafa mölvað rauðvínsflösku á gólfinu. Fær sú frásögn stoð í frumskýrslu lögreglu um að brotnar léttvínsflöskur hafi verið á gólfi íbúðarinnar. Að auki bar vitnið I að flöskubrot hafi verið á gólfinu þegar lögreglan kom á vettvang. Er framburður ákærða ótrúverðugur að þessu leyti.
Brotaþoli lýsti því að hún hafi vaknað við að ákærði barði hana og var að draga hana fram úr rúminu. Hún hafi sparkað frá sér í vörn og hafi sparkið lent í andliti hans. Eins og áverkavottorð, sem ekki hefur verið véfengt, ber með sér var brotaþoli með þó nokkra áverka í andliti og hálsi. Sögðu þau bæði að slagsmálin hafi verið úti um alla íbúð, inni í herbergi drengjanna, eldhúsi og stofu en það sé opið rými. Ákærði kannaðist ekki við að hafa valdið brotaþola þeim áverkum sem lýst er í ákæru. Brotaþoli fór beint á slysavarðstofu eftir að lögreglan kom á staðinn og er ekkert annað fram komið sem getur skýrt áverkana á brotaþola en atlaga ákærða. Þá sagði brotaþoli lögreglu frá því strax á vettvangi að ákærði hefði ráðist á sig auk þess sem hún lýsti því einnig fyrir lækni síðar um nóttina. Telur dómurinn hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærði hafi veitt brotaþola þá áverka.
Ákærði telur háttsemina fyrnda og því beri að vísa málinu frá dómi eða sýkna hann. Samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 81. gr. laga nr. 19/1940 fyrnist sök á tveimur árum ef ekki liggur þyngri refsing við broti en eins árs fangelsi eða refsing sú, sem til er unnið, fer ekki fram úr sektum. Broti ákærða gegn 217. gr. hegningarlaga lauk 4. febrúar 2012. Brotaþoli kærði árásina fyrst 16. nóvember 2013. Með þeirri kæru rofnaði fyrningarfresturinn. Ákærði gaf skýrslu 3. desember 2013 og brotaþoli 16. september 2014. Telur dómurinn því málið ekki hafa fyrnst skv. 81. gr. laganna.
Verður ákærði sakfelldur fyrir ofangreinda háttsemi.
Í þessum ákærulið er ákærði einnig sakaður um að hafa haldið hníf upp að hálsi brotaþola og hótað henni lífláti og háttsemin heimfærð til 233. gr. almennra hegningarlaga. Lýsti brotaþoli þessari háttsemi ekki er lögreglan hafði afskipi af þeim í upphafi. Gegn neitun ákærða, og því að hnífur sem einn lögreglumaður sá á gólfi var ekki rannsakaður, er ósannað hver hélt á hnífnum. Telur dómurinn því ákæruvaldið ekki hafa fært fram sönnun þess að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi. Verður ákærði því sýknaður af henni.
Ákærði er einnig sakaður um að hafa brotið gegn 1. og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Óumdeilt er að drengirnir, fimm og sex ára voru í íbúðinni umrætt sinn. Þá telur dómurinn sönnur hafa verið færðar fyrir því, með vætti K og L, að þeir hafi verið sofandi í hjónarúminu þegar gestirnir fóru um miðnætti. Ósannað er hvort ákærði færði drengina á milli herbergja áður en hann réðst að brotaþola en samkvæmt vætti beggja aðila var atlagan um alla íbúð og einnig í herbergi drengjanna. Hvort sem þeir hafa vaknað þar upp eða í hjónaherberginu, breytir það engu um að þeir sannanlega urðu vitni að árásinni og voru mjög skelkaðir þegar lögreglu bar að garði. Þá staðfesti vitnið N að drengirnir hafi verið í miklu uppnámi og hræddir þegar hún kom að þeim um nóttina. Það hafi þeir einnig verið lengi á eftir. Dómurinn hefur komist að þeirri niðurstöðu að ákærði hafi veist að brotaþola og valdið henni þeim áverkum sem lýst er í þessum ákærulið. Með þeirri háttsemi að fimm og sex ára drengjum ásjáandi braut ákærði gegn drengjunum og 1. og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga. Verður ákærði sakfelldur fyrir þá háttsemi.
Ákærði krefst sýknu af þessari háttsemi þar sem henni er fyrst lýst í ákæru sem gefin var út 14. janúar 2015. Broti ákærða gegn 217. gr. hegningarlaga lauk 4. febrúar 2012. Brotaþoli kærði árásina fyrst 16. nóvember 2013. Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu 3. desember 2013 og brotaþoli 16. september 2014.
Taka má undir það með ákærða að að þessu leyti er rannsókn málsins ábótavant. Þrátt fyrir það telur dómurinn hægt að leggja efnisdóm á málið eins og málatilbúnaður þess er og það ekki koma niður á vörn ákærða þótt ekki hafi verið tekin sérstaklega skýrsla af honum hjá lögreglu vegna ætlaðs brots gegn barnaverndarlögum. Brotaþoli lýsti árásinni fyrir lögreglu fyrst 4. febrúar 2012. Í upplýsingaskýrslu lögreglu þann 16. maí 2012 kemur fram að brotaþoli ætli ekki að kæra umrædda árás. Brotaþoli kærði árásina til lögreglu þann 16. nóvember 2013 og gaf aftur skýrslu vegna hennar 16. september 2014. Þann 5. febrúar 2012 var tekin skýrsla af ákærða vegna árásarinnar og aftur 3. desember 2013. Ákæruvaldið lýsti því svo fyrir dóminum að rannsókn þessa kafla ákærunnar hafi dregist þar sem lögreglan hafi verið í samskiptum við ákærða vegna ákærukafla C og ef ákærði hefði látið af þeirri háttsemi, hafi ekki verið ætlun brotaþola að kæra árásina. Svo hafi ekki verið og því hafi kæra verið lögð fram þótt seint hafi verið.
Ákærukafli B.
Ákærði játaði í þessum ákærukafla að hafa sent umræddan tölvupóst og kvaðst eingöngu hafa haft velferð sona brotaþola að leiðarljósi við sendingu þeirra. Neitaði hann að öðru leyti sök. Báru vitnin D,E, F og G öll fyrir dóminum að efni tölvupóstsins hafi verið í þeim tilgangi að meiða æru brotaþola auk þess að þau gögn sem fylgdu með tölvupóstinum hafi verið gögn sem stöfuðu frá Barnaverndarnefnd [...] og væru trúnaðargögn og höfðu ekkert til þessara aðila að gera.
Ákærði kvað brot þetta eiga undir 229. gr. laga nr. 19/1940 ef um brot væri að ræða. Því bæri að sýkna hann af þessari háttsemi. Þá sé háttseminni ekki lýst í ákæru sbr. c-lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 og því beri að vísa þessum ákærulið frá dómi.
Telur dómurinn, eðli málsins samkvæmt, ekki nauðsynlegt að tilgreina í ákærunni með hvaða hætti umrædd barnaverndargögn væru ærumeiðandi þegar þau komast með slíkum hætti til vandalausra. Um er að ræða mjög viðkvæm gögn sem ekki er þörf á að lýsa sérstaklega í ákæru. Telur dómurinn lýsinguna í ákæru fullnægja c-lið 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008 og ekki hafi komið niður á vörn ákærða að gögnunum sé ekki efnislega lýst í ákærunni.
233. gr. b laga nr. 19/1940 var lögfest með 3. gr. laga nr. 27/2006. Í greinargerð með frumvarpinu segir að í ákvæðinu sé lýst þeim verknaðaraðferðum að móðga eða smána þann sem manni er nákominn. Móðgun í merkingu þessa ákvæðis geti átt sér stað í orðum eða athöfnum. Um skýringu þessa hugtaks beri að miða við þá merkingu sem lögð hefur verið í það hugtak í réttarframkvæmd um beitingu 234. gr. almennra hegningarlaga og í skrifum fræðimanna um það ákvæði. Sama gildi um hugtakið smánun sem fram komi í 233. gr. a almennra hegningarlaga. Lögð sé á það áhersla að samkvæmt orðalagi 3. gr. frumvarpsins sé refsinæmi verknaðarins bundið við að hann verði talinn fela í sér „stórfelldar ærumeiðingar“. Að þessu leyti sé því stigsmunur á grófleika þess verknaðar sem falla mundi undir 3. gr. frumvarpsins annars vegar og 234. gr. almennra hegningarlaga hins vegar. Falli verknaður ekki undir það nýmæli sem hér sé lagt til, sökum þess að ærumeiðing verði ekki talin stórfelld, sé sem fyrr sá möguleiki fyrir hendi að sá sem telji sig hafa orðið fyrir ærumeiðingum í samskiptum við nákominn geranda höfði einkarefsimál á grundvelli 234. gr., sbr. og 3. tl. 242. gr., almennra hegningarlaga og ákvæði í IV. kafla sömu laga. Ákvæði 3. gr. frumvarpsins hafi það því einkum að markmiði að sporna við því að höfð séu í frammi ummæli eða athafnir á milli nákominna sem taldar verði á grundvelli almenns og hlutlægs mælikvarða fela í sér stórfelldar ærumeiðingar, svo sem ýmsar athugasemdir eða athafnir geranda sem beinist m.a. að útliti, persónulegum eiginleika eða hátterni brotaþola. Meiri líkur verði taldar á því að fullnægt sé skilyrðinu um stórfelldar ærumeiðingar ef fyrir liggi að móðgandi eða smánandi orðbragð eða athafnir á milli nákominna sé endurtekið eða að aðstæður séu að öðru leyti þess eðlis að móðgun eða smánun verði talin alvarleg skerðing á friðhelgi brotaþola. Af þessu leiðir að almennt séð þurfi talsvert mikið til að koma að einstakar athugasemdir eða athafnir á milli nákominna eða önnur einangruð tilvik fullnægi þessu skilyrði, en leggja þarf sem fyrr heildstætt mat á hvert tilvik fyrir sig.
Í umræddum tölvupósti segir eftirfarandi: „Góða kvöldið. Það er á mína ábyrgð að koma á framfæri þeim upplýsingum sem skipta máli. A sem er kennari við Grunnskólann á [...] var fyrir rúmu ári svift forræði yfir drengjum sínum vegna áfenigneyslu, vanræklsu og ofbeldis. Meðfylgjandi eru skjöl þessu til staðfestingar. Hún á við langvarandi áföll að glíma. Með von um að finnist lausn og sátt hjá foreldrafélagi. Kveðja, [...]... Meðfylgjandi pappírar þessu til staðfestingar.“ Meðfylgjandi pappírar liggja fyrir í málinu og eru efnislega um samkomulag milli Barnaverndar [...], föður drengjanna og brotaþola um að drengirnir búi hjá föður sínum í tímabundið á meðan brotaþoli vinni úr aðstæðum sínum. Fól samkomulagið meðal annars í sér að ákærði kæmi ekki á heimili brotaþola og yrði ekki annars staðar í umhverfi þeirra.
Fyrir liggur í gögnum málsins afrit af tölvupósti sem ákærði sendi á þá aðila sem nafngreindir eru í þessum ákærukafla þann 22. nóvember 2013. Í þeim tölvupósti beinir ákærði skilaboðum og fylgiskjölum til móttakanda sérstaklega. Er þessi póstur sendur á starfsmenn foreldrafélags Grunnskólans á [...]. Í skýrslutöku hjá lögreglu kannast ákærði við að hafa sent sveitastjóra [...], O, D, skólastjóra Grunnskólans og G, fréttarritara [...], tölvupóst sem innihélt nánar tilgreind skjöl frá Barnaverndarnefnd [...] og varðaði málefni A og barna hennar. Ástæða þess að ákærði hafi sent þessi skjöl kvað hann vera að vekja athygli yfirvalda á hagsmunum barnanna. Ákærði hafi komist yfir þessi gögn þegar aðilar voru í sambúð og fengið þau í hendur með lögmætum hætti. Afrit þeirra gagna sem um ræðir liggur fyrir í skjölum málsins og varða eingöngu brotaþola, syni hennar og barnsföður og eru sérstaklega viðkvæm einkamálefni sem hafa ekkert til almennings að gera.
Telur dómurinn að ákærða hafi verið fulljóst að ofangreindur tölvupóstur hafi verið ærumeiðandi fyrir brotaþola, enda báru ofangreindir aðilar sem fengu tölvupóstinn að sendingarnar hafi haft mikil áhrif á andlega líðan brotaþola. Þrátt fyrir neitun ákærða telur dómurinn með hliðsjón af þeim tölvupósti og framburði vitna sannað að ákærði hafi sent umræddan tölvupóst af ásetningi og með því ráðist með stórfelldum ærumeiðingum á brotaþola í þeim tilgangi að niðurlægja hana, misbjóða og rýra álit hennar í augum vinnuveitanda og samstarfsmanna. Er um einbeittan ásetning ákærða að ræða, að meiða æru brotaþola og brjóta gegn friðhelgi hennar með því að senda trúnaðarupplýsingar á aðila sem höfðu engan aðgang að þeim gögnum né áttu gögnin nokkurt erindi til þeirra aðila. Telur dómurinn háttsemi þessa réttilega heimfærða til 233. gr. b laga nr. 19/1940. Verður ákærði sakfelldur fyrir þessa háttsemi.
Ákærukafli C.
Ákærði játaði fyrir dóminum að hafa sent þau skilaboð sem tilgreind eru í fylgiskjali með ákærunni, samtals 868 skilaboð í gengum farsíma, samskiptaveginn Facebook og tölvupóst. Þá staðfesti ákærði að honum hafi verið kunnugt um nálgunarbann sem honum var gert að sæta frá 4. desember 2013. Þrátt fyrir það hélt ákærði áfram uppteknum hætti. Þá verður einnig að líta til þess að ákærði sendi brotaþola á öllum tímum sólahrings, frá 19. desember 2013 til 9. maí 2014, samtals 868 sinnum skilaboð, ýmist ógnandi eða með óbeinum hótunum, beinlínis í þeim tilgangi að halda brotaþola óttaslegnum, auk fjölda sendinga á Fésbók og með tölvupósti, m.a. ljósmynd af legsteini ömmu brotaþola sem ber sama nafn og hún. Þrátt fyrir að ákærði hafi verið ósáttur við sambúðarslit aðila, þá á hann sér engar málsbætur og eru brot hans gróf og ítrekuð og ná yfir langt tímabil og beindust brotin að nákominni manneskju, sem er ákærða til refsiþyngingar, sbr. 2. mgr. 70. gr. laga nr. 19/1940. Verður ákærði sakfelldur fyrir þessa háttsemi.
Ákærukafli D.
Ákærði játaði fyrir dóminum að hafa sent umræddan tölvupóst til þeirra sem tilgreindir eru í ákæruskjali en kvaðst ekki hafa ætlað að senda myndskeiðið með. Hafi það farið með póstinum hafi það verið vegna mistaka. Umrætt myndskeið liggur fyrir í málinu og fer ekki á milli mála að það er afar persónulegt og eins og brotaþoli sagði, einungis ætlað til einkanota. Samkvæmt tölvupósti frá ákærða til brotaþola hótaði hann því margsinnis að senda umrætt myndskeið á netheima, ýmist sagðist hann vera búinn að því eða væri að fara að gera það. Að lokum lét hann verða af því að senda það þann 7. maí 2014 á sveitastjóra [...], rannsóknarlögreglumann á [...] og brotaþola. Öllum þeim sem einhverja tölvuþekkingu hafa er ljóst að myndskeið er ekki sent með tölvupósti fyrir mistök, það þarf að hafa sérstaklega fyrir því að sækja myndskeið í tölvu eða síma og festa það við tölvupóstsendinguna. Mögulegt er að einhverjir móttakendur séu á póstlista fyrir mistök en dómurinn telur það af og frá að myndskeið geti farið fyrir mistök sem fylgiskjal með tölvupósti. Eru skýringar ákærða með ólíkindum og að engu hafandi.
Umrætt myndskeið eitt og sér sýnir brotaþola í kynferðislegum athöfnum. Samkvæmt 209. gr. almennra hegningarlaga skal hver sem með lostugu athæfi særir blygðunarsemi manna eða er til opinbers hneykslis, sæta fangelsi allt að fjórum árum, en fangelsi allt að sex mánuðum eða sektum ef brot er smávægilegt. Er brot ákærða réttilega heimfært til 209. gr. Brotið er einnig heimfært til 233. gr. b laga nr. 19/1940. Ákærði kvað ákvæði 209. gr. tæma sök gagnvart 233. gr. b. Í 233. gr. b segir að sá sem móðgar eða smánar maka sinn eða fyrrverandi maka, barn sitt eða annan mann sem er nákominn geranda, og verknaður verður talinn fela í sér stórfelldar ærumeiðingar, skal sæta fangelsi allt að tveimur árum.
Með því að senda umrætt myndskeið til sveitarstjóra [...] og rannsóknarlögreglumanns, sem höfðu ekkert með málið að gera, fellur háttsemin undir 209. gr. laganna. Með því að senda myndskeiðið til annarra en brotaþola, braut ákærði gegn brotaþola með þeim hætti sem lýst er í 233. gr. b laganna. Er brotið því réttilega heimfært til refsiákvæða í ákæru og verður ákærði sakfelldur fyrir það.
Samkvæmt sakavottorði ákærða hafa refsingar sem hann hefur hlotið ekki áhrif við ákvörðun refsingar nú.
Við ákvörðun refsingar verður að líta til þess að hluti brotanna voru framin á meðan ákærði sætti nálgunarbanni samkvæmt ákvörðun sýslumanns frá 4. desember 2013 og staðfest var með úrskurði héraðsdóms þann 10. desember 2013 en úrskurðarorð var lesið upp að ákærða viðstöddum í því þinghaldi. Er um einbeitan ásetning ákærða að ræða. Þrátt fyrir að ákærði hafi verið ósáttur við sambúðarslit aðila, þá á hann sér engar málsbætur og eru brot hans gróf og ítrekuð og ná yfir langt tímabil og beindust brotin að nákominni manneskju, sem er ákærða til refsiþyngingar sbr. 3. mgr. 70. gr. laga nr. 19/1940. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í fimmtán mánuði. Með vísan þess að verulegur dráttur hefur verið á rekstri málsins frá upphafi, sem ákærða verður ekki kennt um, og þess að ákærði hefur látið af áreitni sinni gagnvart brotaþola, þykir rétt að skilorðsbinda tólf mánuði refsingarinnar og skal hún niður falla, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 í þrjú ár frá uppkvaðningu dómsins.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan sakarkostnað, sem er samkvæmt yfirliti 32.400 krónur vegna læknisvottorðs, og málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hrl., sem eru hæfilega ákveðin 613.800 krónur. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Ákærði verður einnig dæmdur til að greiða þóknun skipaðs réttargæslumanns, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur hdl., á rannsóknarstigi og fyrir dóminum, 613.800 krónur. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Einkaréttarkrafa.
Í málinu gerir brotaþoli kröfu um að ákærða verði gert að greiða henni miskabætur að fjárhæð 3.000.000 króna auk tilgreindra vaxta.
Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir líkamsárás, brot gegn barnaverndarlögum, stórfelldar ærumeiðingar og ítrekað brot á nálgunarbanni. Eru öll þessi brot fallin til þess að valda brotaþola miklum miska en brotin hafa átt sér stað í langan tíma og verið gróf, unnin af ásetningi og til þess fallin að særa og meiða æru, virðingu og sjálfsmat brotaþola. Þrátt fyrir að engin sýnileg sönnunargögn liggi fyrir í málinu um miska brotaþola þá liggur fyrir vitnisburður vitna um að brotin hafi fengi mjög á brotaþola og hún liðið fyrir þau. Þá eru framantalin brot til þess fallin að valda miska, bæði á meðan á þeim stendur og í framtíðinni. Telur dómurinn miskabætur til brotaþola hæfilega ákveðnar 2.000.000 króna ásamt vöxtum eins og tilgreint er í dómsorði. Miskabótakrafan var birt ákærða 13. desember 2013.
Ástríður Grímsdóttir kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð :
Ákærði, X skal sæta fangelsi í fimmtán mánuði en fresta skal fullnustu tólf mánaða refsingarinnar og skal hún niður falla, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 í þrjú ár frá birtingu dóms þessa.
Ákærði greiði sakarkostnað, samtals að fjárhæð 646.200 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hrl., 613.800 krónur. Ákærði greiði einnig þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur hdl., 613.800 krónur. Hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts í báðum tilvikum.
Ákærði greiði A 2.000.000 króna í miskabætur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 10. nóvember 2013 til 13. janúar 2014, en með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.