Hæstiréttur íslands

Mál nr. 770/2012


Lykilorð

  • Ávana- og fíkniefni
  • Hæfi dómara


                                     

Fimmtudaginn 12. september 2013.

Nr. 770/2012.

Ákæruvaldið

(Stefanía G. Sæmundsdóttir settur saksóknari)

gegn

Armando Filipe Miranda Félix og

(Kristján Stefánsson hrl.)

Fernando Jorge T. Ducamp

(Magnús Björn Brynjólfsson hrl.)

Ávana- og fíkniefni. Hæfi dómara.

A og F voru sakfelldur fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni með því að hafa lagt á ráðin um og staðið saman að innflutningi á samtals 187 g af kókaíni, til Íslands frá Portúgal. Var refsing A ákveðin fangelsi í 8 mánuði og refsing F fangelsi í 9 mánuði. Þá voru fíkniefnin gerð upptæk.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 20. desember 2012 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur.

Ákærðu krefjast aðallega ómerkingar hins áfrýjaða dóms, til vara sýknu, en að því frágengnu að refsing verði milduð og hún bundin skilorði.

Eftir að aðalmeðferð málsins hófst í héraði var henni frestað með úrskurði 22. október 2012 sökum þess að fram hefðu komið upplýsingar við skýrslutöku fyrir dómi sem gætu leitt til útgáfu framhaldsákæru. Þeim úrskurði var skotið til Hæstaréttar sem felldi hann úr gildi með dómi 26. sama mánaðar í máli nr. 655/2012. Ákærðu benda á að málinu hafi verið frestað gegn andmælum þeirra og með þeirri málsmeðferð hafi verið brotið gegn rétti þeirra. Af þeim sökum hafi þeir héraðsdómarar sem fóru með málið orðið vanhæfir til að dæma það, sbr. g. lið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Í nefndum úrskurði héraðsdóms fólst engin slík afstaða til sakarefnisins að valdið gæti vanhæfi dómara. Kröfu um ómerkingu hins áfrýjaða dóms af þeirri ástæðu er því hafnað.

Ákærði Armando reisir kröfu sína um ómerkingu héraðsdóms jafnframt á því að einn þriggja dómara málsins hafi gert honum að sæta gæsluvarðhaldi í þágu rannsóknar málins og annar úrskurðað hann í farbann. Hafi þessir dómarar því verið vanhæfir til að fara með málið þar sem óhlutdrægni þeirra verði dregin í efa. Úrskurðir héraðsdómara á rannsóknarstigi valda almennt ekki vanhæfi hans til að leysa efnislega úr máli sakbornings nema fallist hafi verið á gæsluvarðhald samkvæmt 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 2. mgr. 6. gr. laganna. Að virtum þessum úrskurðum verður ekki fallist á með ákærða að ástæða sé til að draga hæfi umæddra dómara með réttu í efa. Kröfu um ómerkingu af þessum sökum er því einnig hafnað.

Samkvæmt því sem greinir í hinum áfrýjaða dómi verður staðfest niðurstaða hans um sakfellingu ákærðu, refsingu þeirra, upptöku fíkniefna og sakarkostnað.

Ákærðu verður gert að greiða málsvarnarlaun verjenda sinna fyrir Hæstarétti sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir. Einnig verður þeim gert að greiða óskipt annan áfrýjunarkostnað.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Armando Filipe Miranda Félix, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 376.500 krónur.

Ákærði, Fernando Jorge T. Ducamp, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Magnúsar Björns Brynjólfssonar hæstaréttarlögmanns, 376.500 krónur.

Ákærðu greiði óskipt annan áfrýjunarkostnað, 48.617 krónur.  

Dómur Héraðsdóms Reykjaness fimmtudaginn 13. desember 2012.

Mál þetta, sem dómtekið var að lokinni aðalmeðferð þann 26. nóvember 2012, er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Suðurnesjum útgefinni 9. júlí 2012 á hendur Armando Filipe Miranda Félix, kt. [...], [...], [...], Fernando Jorge T. Ducamp, kt. [...], [...], [...], og Z, kt. [...], [...], [...],

Gegn ákærðu öllum, fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa, föstudaginn 6. apríl 2012, lagt á ráðin um og staðið saman að innflutningi á samtals187 g af kókaíni, sem hefur 32% styrkleika, ætluðu til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni. Fíkniefnin sem unnt er að framleiða um 280 g af kókaíni úr miðað við 21,4% styrkleika, fluttu ákærðu frá Porto í Portúgal, til London og þaðan til Keflavíkurflugvallar, svo sem nánar er rakið í 1.-3. tölulið:

1. Ákærði Fernando lagði á ráðin skömmu áður um innflutning fíkniefnanna, þar með talið fjármögnun, skipulagningu og ferðatilhögun meðákærðu Armandos og Z.

2. Ákærði Armando fór til London ásamt meðákærða Z þriðjudaginn 3. apríl 2012, samkvæmt fyrirmælum meðákærða Fernandos, þar sem þeir nálguðust peninga sem þeir notuðu til uppihalds meðan á ferðinni stóð, til að greiða fyrir hótelgistingu í Porto og til að greiða fyrir fíkniefnin sem ákærði Armando fékk afhent í Porto. Fíkniefnin afhenti ákærði Armando meðákærða Z á hótelherbergi í Porto þar sem þeir komu þeim fyrir í Nivea-krembrúsa í því skyni að þau yrðu flutt til Íslands.

3. Ákærði Z fór til London og þaðan til Porto með meðákærða Armando í því skyni að taka á móti og flytja fíkniefnin til landsins. Hann tók við fíkniefnunum á hótelherbergi í Porto og kom þeim fyrir í Nivea-krembrúsa ásamt meðákærða Armando. Fíkniefnin setti ákærði Z síðan í farangur sinn þar sem tollverðir fundu þau við komu hans til Keflavíkurflugvallar föstudaginn 6. apríl 2012.

Telst háttsemi þessi varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002 og auglýsingu nr. 232/2001.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar og að gerð verði upptæk framangreind 187 g af kókaíni, samkvæmt heimild í 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974, sbr. lög nr. 10/1997 og 68/2001, sbr. 2. mgr. 14. gr. reglug. nr. 233/2001, sbr. reglug. nr. 848/2002.

Ákærði Armando Filipe, sem játaði sök við yfirheyrslur hjá lögreglu, dró þá játningu til baka fyrir dómi og krafðist sýknu.

Ákærði Fernando Jorge hefur staðfastlega neitað sök og krafist sýknu.

Ákærði Z hefur viðurkennt fyrir dómi og hjá lögreglu að vera sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru að öðru leyti en því að hann kannast ekki við að hafa skipulagt innflutninginn eða unnið hann í samverknaði með hinum.

I.

Upphaf máls þessa bar að með þeim hætti að þann 6. apríl 2012 var lögregla kvödd til vegna ákærða Z sem tollgæslumenn höfðu stöðvað við komu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Var Z að koma með flugi frá Lundúnum og lék grunur á að hann væri með fíkniefni falin í sjampóbrúsa sem hann var með í fórum sínum við komuna til landsins. Við rannsókn tæknideildar kom í ljós að þessi grunur var á rökum reistur.

Við rannsókn reyndist, samkvæmt matsgerð Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði, vera um að ræða 187 g af 32% sterku kókaíni.

Við skoðun á farangri annars farþega með sömu vél, ákærða Armando Filipe, fannst kvittun fyrir hótel í Portúgal á nafni Z.

Voru þeir báðir handteknir og úrskurðaðir í gæsluvarðhald þar sem þeir voru í einangrun allt til 20. apríl 2012.

II.

Framburður ákærðu.

Framburður Z.

Ákærði Z kvaðst vitna til skýrslna sem hann hefur gefið hjá lögreglu vegna málsins og ítrekaði að hann gæti ekki bent á neinn vegna þess að hann þyrði það ekki. Sagði hann að ónafngreindir menn hefðu komið að máli við hann og beðið hann að fara í þessa ferð, sem honum var í upphafi sagt að ætti að vera til Spánar, en þegar hann var kominn upp á flugvöll reyndist förinni heitið til Portúgal. Kvaðst Z ekki hafa verið beittur neinum þvingunum til þess að fara í þessa ferð sem lagt var upp í þann 3. apríl sl. Sagði ákærði að tveir menn hefðu sótt hann heim til sín um kl. 05.30; hann hafi setið einn í aftursæti bifreiðarinnar á leiðinni suður á Keflavíkurflugvöll. Kvaðst ákærði sama sem ekkert hafa talað á leiðinni við þá sem í bílnum voru með honum, enda sé tungumálakunnátta hans mjög léleg og hann geti ekki gert sig skiljanlegan á ensku, en tvímenningarnir sem með honum voru og báðir voru útlendingar hefðu talað saman alla leiðina og báðir verið vakandi. Sagði ákærði að honum hafi verið ljóst að hann væri að fara þessa ferð til þess að sækja fíkniefni. Aðspurður hafnaði Z því, sem haft er eftir ákærða Armando, að honum hafi verið sagt í bílnum að hann ætti að gleypa fíkniefnin, heldur hafi það verið sagt við hann þegar hann var beðinn að fara í þessa ferð. Þá hafi hann strax látið í ljós efasemdir um að hann gæti gleypt þau vegna þess að honum hætti til að fá klígju. Sagði Z að hann hafi átt að fara á hótel þegar komið væri á leiðarenda og bíða þess þar að fá fíkniefnin afhent, en flugmiðann hafi hann fengið afhentan á Keflavíkurflugvelli og að það hafi verið sá sem fór með honum út sem afhenti honum hann. Sagði Z að sá sem bað hann að fara hafi komið til hans daginn áður og sagt að hann þyrfti að fá kortið hans til þess að kaupa farmiða. Hann kvaðst hafa látið þennan aðila fá kortið en skömmu eftir að hann var farinn með kortið hafi hann hringt og sagt að kortið hafi verið tekið af þeim en meiningin hafi verið að þeir legðu inn á kortið og borguðu síðan með því miðann. Sagðist Z hafa átt 30.000 krónur inni á kortinu, en eftir að hann hafði sótt kortið í bankann þá hafi það reynst vera tómt þegar hann ætlaði að nota það erlendis. Sagðist Z muna eftir því að maðurinn sem bað hann að fara hafi hringt til hans kvöldið áður en farið var og sagt honum hvenær hann yrði sóttur. Þessi aðili hafi verið íslenskur, enda tali hann sjálfur ekki önnur tungumál en íslensku þótt hann skilji örlítið í ensku. Sagði ákærði að sá sem fór með honum út hafi aðstoðað hann við að bóka sig inn á flugvellinum, en sá tali smávegis íslensku. Þegar komið var til Lundúna hafi fylgdarmaður hans horfið á braut um stund og síðan komið til baka með ferðatösku fulla af peningum, sem hann hafi náð í einhvers staðar á flugvellinum, og afhenti honum hluta af peningunum. Hann sagðist ekki vita hversu mikla peninga hann fékk í hendur en það hafi verið miklir peningar. Sagði ákærði að fylgdarmaður hans hafi séð um að innrita þá í áframhaldandi flug til Portúgal en hvernig flugmiðarnir voru fengnir eða hvenær muni hann ekki og ber hann því við að minni hans hafi verið slæmt vegna þess að hann hafi verið á fylleríi dagana áður. Þegar til Portúgal var komið hafi fylgdarmaður hans náð í bíl og keyrt hann beint á hótel og séð um að skrá hann inn á hótelið. Þegar ákærði var kominn upp á hótelherbergið lét hann fylgdarmanninn fá peningana aftur og lét fylgdarmaðurinn hann aftur hafa peninga svo hann gæti fengið sér mat og bjór, en það hafi verið skorið við nögl. Sagði ákærði að fylgdarmann sinn hefði hann ekkert hitt fyrr en hann kom með fíkniefnin til hans á hótelið um klukkan 02 um nóttina áður en þeir fóru aftur til Íslands þann 6. apríl. Þegar í ljós kom að ákærði gat ekki gleypt efnin hafi fylgdarmaðurinn hringt í einhvern tvívegis og hélt ákærði að þær samræður hafi farið fram á portúgölsku. Eftir þetta hafi fylgdarmaðurinn brugðið sér frá og komið til baka eftir hálfa til eina klukkustund og verið með brúsa sem hann tróð fíkniefnunum í. Ákærði sagði að hann hafi átt að fá 300.000 krónur fyrir að fara þessa ferð sem burðardýr en sá sem bað hann um að fara hafi vitað um bágan fjárhag hans. Tók ákærði fram að hann hafi ekki með neinum hætti komið að skipulagningu eða framkvæmd á flutningi fíkniefnanna og ekkert fé lagt fram utan áðurnefndra 30.000 króna, sem stolið var af kortinu hans, og fylgdarmanninn hafi hann aldrei séð áður. Kvaðst ákærði fyrst hafa hitt meðákærða Armando í bílnum sem þeir fóru á upp í Leifsstöð. Sagði ákærði að fylgdarmaður hans, meðákærði Armando, hefði sett fíkniefnin í sjampóbrúsa sem hann kom með og gengið frá honum í farangri ákærða en ákærði sjálfur hafi hvergi komið þar nærri.

Framburður Armandos Filipe Felix.

Ákærði Armando sagðist hafa farið fljúgandi til Lundúna þann 3. apríl 2012 og þaðan til Portúgal og síðan heim aftur þann 6. sama mánaðar og með honum í för hafi verið Z. Segist ákærði Armando hafa hitt meðákærða Z sem hafi beðið hann að koma með sér til Portúgal. Aðspurður um það hvernig á því standi að hann hafi, þegar hann var í einangrun í gæsluvarðhaldi, ítrekað sagt að meðákærði Fernando hafi fengið hann til þess að fara í ferðina, svarar Armando því til að hann hafi verið hræddur og það hafi verið það fyrsta sem honum datt í hug að benda á Fernando. Segir ákærði Armando að eftir að hann losnaði úr gæsluvarðhaldi hafi enginn reynt að hafa áhrif á framburð hans. Kvaðst Armando hafa beðið meðákærða Fernando að kaupa fyrir sig flugmiða vegna þess að hann hafi ekki átt peninga á korti sínu sjálfur en hann muni ekki hvað miðinn hafi kostað. Hann hafi látið Fernando hafa peninga, sem meðákærði Z lét hann fá mánudaginn áður, til þess að nota til miðakaupanna. Peningana hafi hann fengið eftir lokun banka kl. 16.00 og þess vegna hafi hann ekki getað lagt inn á kortið sitt og borgað sjálfur. Hann hafi sjálfur verið viðstaddur þegar meðákærði Fernando keypti miðann og gaf allar upplýsingar þar að lútandi, eins og nafn og kennitölu farþegans en símanúmerið [...], sem meðákærði Fernando gaf þar upp, telur ákærði Armando að sé símanúmer meðákærða Fernandos, vinar síns. Sjálfur hafi hann alltaf haft símanúmerið [...]. Um morguninn 3. apríl hafi það verið hann sem ók bifreiðinni á flugvöllinn en meðákærði Fernando hafi farið með til þess að keyra bílinn til baka að beiðni sinni. Sagði ákærði Armando að meðákærði Fernando hafi verið hálfsofandi á leiðinni út á völl. Þegar komið var til Lundúna lét meðákærði Z hann hafa miða til þess að sækja töskuna sem í voru evrur sem þeir skiptu á milli sín að ósk Z. Kvaðst Armando hafa keypt fyrir peningana miða til Portúgal en þegar þangað var komið fóru þeir á tiltekið hótel, sem Z benti á, þar sem Armando sá um að skrá Z inn á, en Armando kvaðst hafa greitt fyrir hótelið með peningum úr töskunni. Kvaðst Armando síðan hafa látið Z fá afganginn. Sagðist Armando einu sinni hafa hitt Z á hótelherberginu eftir miðnætti áður en hann sótti hann í flugið heim. Kannast Armando ekki við að hafa látið Z hafa nein fíkniefni á hótelherberginu. Sagðist Armando ekki hafa verið í neinum símasamskiptum við Fernando umrædda nótt áður en hann flaug heim til Íslands en hann hafi hins vegar hringt í yfirmann sinn í vinnunni heima á Íslandi. Sagði Armando að hans hlutverk í umræddri ferð hafi verið að aðstoða Z við að sinna viðskiptaerindum í Portúgal að hans beiðni. Sagðist Armando hafa hitt Z niðri í bæ fyrir tilviljun og hafi hann boðið sér greiðslu fyrir flugmiða og eitthvað að auki fyrir að aðstoða hann í ferðinni. Sagði Armando að hann og Z hafi ekki komið sér saman um það fyrir fram hvað þeir ættu að segja við lögreglu kæmi til þess að þeir kæmust undir hennar hendur. Sagði Armando að Z hafi aldrei beðið hann um að taka fíkniefnin og hann viti ekkert um þau viðskipti sem fyrir dyrum stóðu hjá Z, enda hafi þau ekkert borið á góma. Sagði Armando að hann hefði verið hræddur við Z þegar hann var yfirheyrður hjá lögreglu og það sé skýring á breyttum framburði sínum nú frá þeim framburði sem hann gaf hjá lögreglu. Kvað Armando framburð sinn hjá lögreglu í meginatriðum rangan en hann hafi aldrei rætt um hann við meðákærða Z.

Ákærði Fernando Jorge segir að aðkoma hans að þessu máli sé ekki önnur en að hann hafi keypt flugmiða með korti fyrir Armando sem borgaði honum til baka með reiðufé. Hann kvaðst hafa kynnst Armando fyrir mörgum árum, en Z hafi hann aðeins séð þegar hann var hálfsofandi sjálfur í bílnum á leið suður á flugvöll. Fernando sagðist ekki hafa hringt í Z þegar þeir sóttu hann til þess að fara á flugvöllinn. Fernando kannast við að hafa sett sitt netfang á farmiða Armandos en getur ekki upplýst hver lét skrá símanúmerið [...] á farseðilinn. Borið var undir Fernando hvort hann hafi skrifað á skjal sem merkt er IV-2 bls. 6 í gögnum málsins. Sagði hann í fyrstu að hann hafi skrifað á það en þegar hann var spurður að því hvers vegna þar væru bókunarnúmer meðákærðu Armandos og Z sagði hann að hann hafi ekki skrifað allt sem þar stendur heldur aðeins bókunarnúmer Armandos. Ekki kannast Fernando við að hafa látið Armando hafa miða að geymsluskáp í Lundunum en segist hafa talað við hann tvisvar eða þrisvar á meðan hann var erlendis þrátt fyrir að hann hafi ekki vitað að Armando hafi verið í Portúgal, Fernando segir það ekki satt sem haft er eftir Armando hjá lögreglu þegar hann benti á að Fernando hefði beðið hann að fara í umrædda ferð til Portúgal. Armando hafi verið kominn í erfið mál og reynt að bjarga sér með því að benda á hann. Fernando vill ekki kannast við það sem haft er eftir honum hjá lögreglu þann 18. apríl um vitneskju sína um ferðir Armandos og símtöl sem hann átti við hann í Portúgal og í Lundúnum. Sagði Fernando að hann hefði verið svo syfjaður á leiðinni upp á Keflavíkurflugvöll að hann viti ekkert hvort Armando hafi verið hræddur við Z. Sagði Fernando að hann hafi spurt Armando hvers vegna hann hafi bendlað hann við þetta mál og hafi hann sagt að það væri af því að hann hefði verið í fangelsi. Sagðist Fernando ekki hafa spurt Armando hvers vegna hann hafi verið að keyra Z upp á Keflavíkurflugvöll, hvaða erindi hann hafi átt til útlanda og hvers vegna Armando væri að fara með honum.

Bjarki Freyr Sigurðarson lögreglumaður sagðist hafa tekið við rannsókn þessa máls fljótlega eftir að það kom upp og yfirheyrt sakborninga, tveir voru handteknir í byrjun málsins og einn síðar. Sagði vitnið að tveir sakborninganna hefðu játað aðild sína að málinu en sá þriðji ekki. Sagði vitnið að það teldi engar líkur á því að ákærði Z hefði burði til þess að standa í svona máli sem skipuleggjandi, enda væri hann búinn að vera atvinnulaus og óreglusamur og ætti engan feril í svona málum, hins vegar gæti hann sem best tekið að sér að vera burðardýr. Sagði vitnið að við rannsókn á bankagögnum hafi komið í ljós að peningar hafi komið af korti ákærða Z til greiðslu á hluta verðs farmiða hans en ekkert fé frá honum komið til greiðslu fyrir aðra. Sagði vitnið að Armando hafi fljótlega sagt að Fernando hafi beðið hann að fara í þessa ferð og látið hann hafa farmiða og sagt að hann fengi ferðina að launum fyrir að aðstoða Z við að sækja fíkniefnin og túlka fyrir Z sem er mállaus á portúgölsku og tali litla sem enga ensku. Sagði vitnið að Armando hafi sagt að hann ætlaði að nota ferðina til þess að ná sáttum við [...] sína eða [...] og [...] en þau hafi átt í samskiptaerfiðleikum. Sagði vitnið að í síma [...] Fernandos hafi verið símanúmer sem voru merkt [...] og þar hafi númerið [...]  verið merkt [...]. Sagði vitnið að Armando hafi upplýst, við skýrslutöku, að þegar upp kom, á hótelherberginu í Portúgal, að ákærði Z gæti ekki gleypt efnin þá hafi hann haft símasamband við Fernando, milli kl. 02 og 03 um nóttina, og talað um það hvað ætti að gera. Kannast vitnið ekki við að minnst hafi verið á það að Armando hafi haft samband við vinnuveitanda sinn þar um nóttina. Sagði vitnið að ákærðu Z og Armando hafi verið með nokkuð líkan framburð í yfirheyrslum en hins vegar hafi það verið svo að ákærði Armando hafi sagt að Fernando hafi beðið sig um að taka verkið að sér en Fernando hafi hins vegar sagt að Armando væri að ljúga þessu upp á sig til þess að koma sér í vandræði. Sagði vitnið að það hafi aldrei verið ýjað að því, í þeim yfirheyrslum sem vitnið sá um, að ákærði Z væri höfuðpaurinn í málinu.

Niðurstaða.

Í ákæru eru ákærðu allir sakaðir um fíkniefnalagabrot, með því að hafa, föstudaginn 6. apríl 2012, lagt á ráðin um og staðið saman að innflutningi á samtals 187 g af kókaíni, sem hefur 32% styrkleika, sem unnt er að framleiða um 280 g af kókaíni úr miðað við 21,4% styrkleika, frá Porto í Portúgal, til London og þaðan til Keflavíkurflugvallar, til söludreifingar í ágóðaskyni hér á landi.

Þáttur ákærða Z.

Þykir rétt að fjalla fyrst um þátt ákærða Z í málinu, því næst þátt ákærða Armandos og loks ákærða Fernandos.

Ákærði Z hefur að mestu játað á sig þær sakir sem á hann eru bornar í ákæru að því slepptu að hann telur sig ekki hafa lagt á ráðin um innflutninginn og ekki hafi verið um samverknað að ræða. Tók ákærði fram að hann hafi ekki með neinum hætti komið að skipulagningu eða framkvæmd á flutningi fíkniefnanna og ekkert fé lagt fram utan áðurnefndra 30.000 króna, sem stolið var af kortinu hans. Fylgdarmanninn, meðákærða Armando, hafi hann aldrei séð áður en reiknar með að hann hafi verið sá sem hringdi til ákærða um morguninn þegar hann var sóttur til þess fara út á flugvöll. Kvaðst ákærði fyrst hafa hitt Armando í bílnum sem þeir fóru á upp í Leifsstöð. Sagði ákærði að fylgdarmaður hans, meðákærði Armando, hefði sett fíkniefnin í brúsann sem hann kom með og gengið frá honum í farangri ákærða en ákærði sjálfur hafi hvergi komið þar nærri. Sagði Z að hann þekki nú manninn sem fór með honum til Portúgal og benti á hann í dómsalnum. Dómendur telja að ákærði Z hafi verið í hlutverki svokallaðs burðardýrs í umræddum innflutningi á kókaíni og að taka beri mið af því við ákvörðun refsingar hans. Að mati dómenda hefur ekki verið leitt í ljós að ákærði hafi lagt á ráðin um innflutninginn og það hafi ekki náð lengra en að hann hafi lagt sjálfan sig til sem burðardýr. Á hinn bóginn er ekki fallist á að hann hafi ekki að neinu leyti staðið ásamt meðákærðu saman að innflutningnum, enda var hann sem flutningsmaður kókaínsins nauðsynlegur hlekkur í því að koma brotinu í kring. Hann tók við efnunum í Portúgal og flutti þau hingað til lands gegn greiðslu og hann vissi frá upphafi ferðarinnar í hvaða tilgangi hún var farin og hvert hlutverk hans var í framkvæmd þess þótt hann nyti leiðsagnar meðákærða Armandos við framkvæmd þá sem að honum sneri.

Þáttur ákærða Armandos.

Í umfjöllum um þátt ákærða Armandos verður ekki hjá því komist að byrja á því að rekja framburð ákærða hjá lögreglu, meðan hann var í einangrun í gæsluvarðhaldi, meðan á rannsókn málsins stóð, eins og meðákærðu voru líka. Í því sambandi er haft í huga að hann sagði fyrir dómi að hann og Z hefðu ekki komið sér saman um það fyrirfram hvað þeir ættu að segja við lögreglu kæmi til þess að þeir lentu í hennar höndum. Því liggur fyrir að í einangruninni höfðu sakborningarnir ekki tök á því að samræma framburð sinn á nokkurn hátt. Á rannsóknarstigi gaf ákærði þá skýringu á þátttöku sinni í málinu að það hefði verið vegna erfiðleika í sambandi við fjölskyldu hans í Portúgal að hann lét til leiðast og sagði þá við yfirheyrslur að meðákærði og vinur hans, Fernando Duchamp, hefði boðist til þess að borga fyrir hann ferð til Portúgal gegn því að hann fylgdi íslenskum manni þangað, sækti og borgaði fíkniefnapakka og léti íslenska manninn fá hann til þess að flytja hann til Íslands. Af samhenginu er ljóst að umræddur Íslendingur hlýtur að vera meðákærði Z. Sagði ákærði Armando að meðákærða Fernando hafi verið kunnugt um vandræði hans vegna [...] í Portúgal og þess vegna boðið honum til Portúgal og látið hann hafa flugmiða um kvöldið eftir að þetta var bundið fastmælum. Sagði ákærði að næsta morgun hafi hann og meðákærði Fernando farið að sækja meðákærða upp í Breiðholt á leiðinni út á Keflavíkurflugvöll og að Fernando hafi verið með miða með heimilisfangi Z. Sagði ákærði að Fernando hefði látið hann hafa miða til þess að leysa út tösku í læstum geymsluskáp á Gatwick-flugvelli og að í töskunni hafi verið rúmlega 21.000 evrur og hafi hann látið Z geyma helminginn af peningunum. Hefði hann átt að nota peningana til farmiðakaupa og til þess að greiða fyrir hótel í Portúgal og til uppihalds Z. Þá hafi Fernando sagt honum að hann ætti að borga aðilanum sem afhenti honum fíkniefnin í Portúgal 19.500 evrur. Í stuttu máli þá gekk þetta eftir eins og fyrirhugað var þar til kom að því að Z skyldi gleypa fíkniefnapakkningarnar, sem gekk ekki. Sagðist ákærði þá hafa hringt í Fernando sem sagði honum að kaupa sjampóbrúsa til þess að setja fíkniefnin í en þetta hafi verið seint um kvöld og allar búðir lokaðar og því hafi hann farið heim til [...] sinnar og sótt brúsann þar og þeir síðan komið kókaíninu fyrir í honum. Sagði ákærði að hann hafi átt að fá ferðina fría fyrir aðstoð sína í málinu og einhverjar 100 evrur að auki og hugsanlega meira ef vel gengi.

Ákærði hefur fyrir dóminum gjörbreytt þessum framburði sínum sem hann gaf á rannsóknarstigi og við þær aðstæður sem áður er lýst. Hefur ákærði dregið til baka játningu sína varðandi sína háttsemi við að hafa milligöngu um að nálgast fíkniefnin í Portúgal og koma þeim á meðákærða Z. Þá hefur hann dregið til baka framburð sinn varðandi þátt meðákærða Fernandos í málinu og segir nú að hann hafi ekki komið nálægt innflutningnum að neinu leyti. Loks hefur ákærði sagt fyrir dóminum að meðákærði Z hafi staðið fyrir innflutningnum sjálfur, m.a. með því að greiða fyrir flugmiðann fyrir ákærða, og því verið höfuðpaurinn og aðalskipuleggjandi í málinu. Má segja að staða kærða Armandos sé að nokkru leyti lík stöðu ákærða Z í málinu á þann hátt að hann hafi ekki haft alla þræði varðandi skipulag innflutningsins í höndum sér en þó verið hlekkur í áætluninni sem stefndi að því að flytja hingað til lands 187 g af kókaíni. Verður því stuðst við það að lýsingar ákærða Armandos, sem hann gaf er hann var í haldi lögreglu, séu réttar og að hlutverk hans hafi verið að fylgja ákærða Z til Portúgal með viðkomu í Lundúnum og nálgast þar þá peninga sem þeir notuðu sér til uppihalds þar og til þess að greiða þar fyrir kókaínið. Hann hafi séð um að koma ákærða Z á hótel, þar sem hann kom efnunum til hans, og leitað ráða hjá Fernando þegar ákærði Z gat ekki gleypt efnin, sett þau í brúsa og afhent Z. Þátttaka ákærða Armandos hafi því verið grundvallarþáttur í því að koma brotaferlinu í kring því án hans aðkomu hefði ákærði Z ekki getað flutt efnin til Íslands. Í sambandi við sönnunarfærslu í málinu er til þess litið að ákærði Armando gaf þrjár skýrslur hjá lögreglu þar sem framburður hans var stöðugur og tók litlum breytingum frá fyrstu skýrslu til þeirrar síðustu og samræmdist þeim rannsóknargögnum, sem hafði verið aflað og liggja fyrir í málinu, eins og síma og bankagagna. Þá er þess að geta að framburður ákærða Z, hjá lögreglu og fyrir dómi, er í öllum atriðum sem máli skipta í samræmi við framburð ákærða Armandos hjá lögreglu og hefur þýðingu varðandi þátttöku Armandos og Fernandos. Má þar nefna hvernig þeir nálguðust peningana í London, innritun ákærða Z á hótelið í Portúgal og hvernig þeir fengu kókaínið í hendur og bjuggu það undir flutning. Telja dómendur þessa kúvendingu ákærða Armandos að engu hafandi, enda fær hún engan stuðning af rannsóknargögnum. Hið rétta í málinu komi fram í skýrslum ákærða Z og ákærða Armandos hjá lögreglu og skýrslu ákærða Z hér fyrir dómi eins og rakið hefur verið. Þá leggja dómendur áherslu á það að þeir telji framburð Armandos hjá lögreglu, eftir að hann játaði þann 7. apríl 2012 þátttöku sína í fíkniefnainnflutningnum, í alla staði trúverðugan og koma heim og saman við þá atburðarás sem gögn málsins gefa tilefni til að álykta að átt hafi sér stað. Armando hefur ekki komið fram með neina trúverðuga skýringu á viðsnúningi sínum í framburði fyrir dóminum frá því sem hann bar hjá lögreglu en þessi viðsnúningur virðist af einhverjum ástæðum fram settur til þess að freista þess að bera sakir af meðákærða Fernando. Frásögn Armandos um að hann hafi hitt ákærða Z niðri í bæ fyrir tilviljun á förnum vegi, og hafi hann boðið sér greiðslu fyrir flugmiða og eitthvað að auki fyrir að aðstoða hann í ferðinni, þykir vægast sagt frumleg þegar til þess er litið að ákærði Z hefur sagt að hann tali ekki annað tungumál en íslensku sem ákærði Armando segist lítið skilja í. Þegar framangreint er virt þykir dómendum ljóst að sekt ákærða Armandos í málinu sé hafin yfir allan vafa og að ákæruvaldinu hafi tekist að leiða fram sönnun þess í málinu. Verður hann því sakfelldur fyrir þá háttsemi sem hann er sakaður um í ákæru.

Þáttur ákærða Fernandos.

Ákærði Fernando segir að aðkoma hans að þessu máli sé ekki önnur en að hann hafi keypt með korti flugmiða fyrir meðákærða Armando sem borgaði honum til baka með reiðufé. Hann kvaðst hafa kynnst meðákærða Armando fyrir mörgum árum, en meðákærða Z hafi hann aðeins séð þegar hann var hálfsofandi sjálfur í bílnum á leið suður á flugvöll. Aðspurður bæði fyrir dómi og hjá lögreglu sagði ákærði Z að þeir tvímenningarnir hefðu talað saman alla leiðina og báðir verið vakandi. Þá sagði ákærði Armando hjá lögreglu að Fernando hafi sagt ákærða Z á leiðinni upp á Keflavíkurflugvöll að um flutning á kókaíni væri að ræða auk þess að gefa frekari leiðbeiningar. Í framburði Armandos hjá lögreglu, sem dómendur telja trúverðugan, kemur fram að áður en lagt var af stað upp á Keflavíkurflugvöll hafi hann og ákærði Fernando farið heim til ákærða Z og sótt hann. Sagði ArmandoFernando hefði fyrir utan hjá Z hringt í hann og verið með miða með heimilisfangi hans í höndunum áður en þeir héldu suður á Keflavíkurflugvöll. Ákærði Fernando sagði á hinn bóginn að hann hafi ekki vitað hvers vegna meðákærði Armando hafi keyrt ákærða Z til Keflavíkurflugvallar. Ekki kannaðist Fernando við að hafa látið Armando hafa miða að geymsluskáp í Lundunum en segist hafa talað við hann tvisvar eða þrisvar á meðan hann var erlendis þrátt fyrir að hann hafi ekki vitað að Armando hafi verið í Portúgal. Í trúverðugum framburði Armandos hjá lögreglu kemur fram að Fernando hefði látið hann hafa miða til þess að leysa út tösku í læstum geymsluskáp á Gatwick-flugvelli og að í töskunni hafi verið rúmlega 21.000 evrur og hafi hann látið Z geyma helminginn af peningunum. Hefði hann átt að nota peningana til farmiðakaupa og til þess að greiða fyrir hótel í Portúgal og uppihald Z. Þá hafi Fernando sagt honum að hann ætti að borga aðilanum, sem afhenti honum fíkniefnin í Portúgal, 19.500 evrur. Fernando segir það ekki satt sem haft er eftir Armando hjá lögreglu þegar hann benti á að Fernando hefði beðið hann að fara í umrædda ferð til Portúgal. Armando hafi verið komin í erfið mál og reynt að bjarga sér með því að benda á hann.

Ákærði Fernando vildi fyrir dómi ekki kannast við það sem haft er eftir honum hjá lögreglu þann 18. apríl um vitneskju sína um ferðir Armandos og símtöl sem hann átti við hann í Portúgal og í Lundúnum. Hjá lögreglu sagði ákærði Fernando að ákærði Armando væri að ljúga upp á hann sökum til þess að losa sig út úr vandræðum. Sagði ákærði Armando hjá lögreglu að meðákærða Fernando hafi verið kunnugt um vandræði hans vegna [...] [...]í Portúgal og þess vegna hafi Fernando boðið honum til Portúgal og látið hann hafa flugmiða um kvöldið eftir að þetta var bundið fastmælum. Dómendur telja framburð Fernandos fyrir dóminum að engu hafandi. Hann beri báða meðákærðu sökum, án þess að geta fært fyrir því nokkur rök, meðákærði Armando sé að ljúga upp á sig til þess að bjarga sér út úr einhverjum vandræðum sem hann gerir enga grein fyrir. Ákærði Fernando sagði í skýrslu sinni hjá lögreglu þann 18. apríl sl. að meðákærði Armando væri augljóslega að reyna að koma sér úr klípu með því að koma þessu yfir á sig, enda kannski auðvelt fyrir hann að nefna sig til sögunnar þar sem hann hafi keypt fyrir hann farmiðann. Í sama skipti segir ákærði einnig að hann og meðákærði Armando séu góðir vinir og tali saman oft í viku, þó hafi hann ekki haft hugmynd um að hann væri að fara til Portúgal. Hann hefði ekki frétt það fyrr en Armando hringdi til hans frá Portúgal. Fyrr í margnefndri skýrslu segist ákærði Fernando hafa vitað að meðákærði Armando hafi viljað fara til London og að það hafi verið eitthvert neyðartilfelli og í sömu skýrslu kannast ákærði Fernando við að hafa innritað meðákærða Armando uppi á flugvelli og að hann hafi keypt ferðina handa honum til Portúgal. Ákærði Fernando hefur haldið því fram bæði fyrir dóminum og í skýrslutöku hjá lögreglu að hann hafi lánað meðákærða Armando Visa-kort til þess að kaupa farmiða til London vegna þess að Armando hafi ekki átt neitt inni á kortinu. Armando sagði í skýrslu sinni hjá lögreglu að þetta væri ekki rétt hjá Fernando, hann sé með sitt eigið kort og að ekkert sé til í því að hann hafi borgað Fernando í reiðufé fyrir að lána sér Visa-kortið. Ákærði Armando hefur verið algerlega stöðugur í skýrslum sínum hjá lögreglu varðandi það að Fernando hafi beðið hann að fara með meðákærða Z út til Portúgal, með viðkomu í London, í þeim tilgangi að sækja þangað og greiða fyrir kókaín sem meðákærði Z hafi átt að gleypa og flytja þannig til Íslands.

Eins og áður er rakið um þátt ákærða Armandos er það álit dómenda að sannleikurinn í málinu komi fram í skýrslum ákærða Z hjá lögreglu og hér fyrir dómi og ákærða Armandos hjá lögreglu. Þá leggja dómendur áherslu á það að þeir telji framburð Armandos hjá lögreglu, eftir að hann játaði þann 7. apríl 2012 þátttöku sína í fíkniefnainnflutningnum, í alla staði trúverðugan og koma heim og saman við þá atburðarás sem gögn málsins gefa tilefni til að álykta að átt hafi sér stað. Dómendur telja þá staðreynd að framburður ákærðu Armandos og Z, sem stuðst er við, var gefinn er þeir sættu báðir einangrun í gæsluvarðhaldi auka mjög á trúverðugleika hans. Telja verður útilokað að þeir geti lýst atburðarás með svo sambærilegum hætti sem raun ber vitni án undangengins samráðs, sem fyrir liggur að ekki var haft, en ákærði Armando sagði í dóminum að hann hafi aldrei rætt framburð sinn hjá lögreglu við meðákærða Z.

Eins og áður segir telja dómendur að endurtekinn stöðugur framburður Armandos í skýrslutökum eftir 7. apríl 2012, sem fær trúverðugan stuðning í framburði meðákærða Z, renni sterkum stoðum undir sakfellingu ákærða Fernandos fyrir þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru.

Framburður ákærða Fernandos fyrir dóminum einkennist af því að hann viti ekkert og hafi einskis spurt og er fullur af mótsögnum eins og rakið hefur verið. Þegar horft er til þess sem meðákærðu eru sammála um og dómendur telja ekki ástæðu til að vefengja verður ekki fram hjá því litið að framburður ákærða Fernandos hefur á sér slíkan ólíkindablæ að ekkert sé á honum að byggja. Vitnið Bjarki Freyr Sigurðsson kannast ekki við að minnst hafi verið á það við yfirheyrslur hjá lögreglu að Armando hafi haft samband við vinnuveitanda sinn umrædda nótt. Þykir hin síðbúna skýring Armandos nú fyrir dóminum á símtali, sem hann sannanlega átti við einhvern á Íslandi þarna um nóttina, ekki marktæk. Telja dómendur að hann hafi verið að ráðfæra sig við meðákærða Fernando eins og hann hélt fram í skýrslum sínum hjá lögreglu frá 7. apríl 2012 og síðar.

Telja dómendur að öllu virtu, einkum þó því sem sagt hefur verið um framburð meðákærðu, að fallast megi á að sækjanda hafi tekist lögfull sönnun þess að ákærði Fernando sé sekur um þá háttsemi sem í ákæru greinir.

Ákvörðun refsingar.

Ákærði Z er fæddur í [...] [...]. Samkvæmt sakavottorði hefur hann ekki sætt refsingum sem hér skipta máli. Á sakaferli hans eru fjögur umferðarlagabrot og brot gegn 259. gr. almennra hegningarlaga samkvæmt dómi frá 1992. Ákærði hefur játað háttsemi sína sem er virt honum til málsbóta. Þá hefur hann verið samvinnufús og gert sér far um að upplýsa um aðild annarra þótt hann hafi ekki treyst sér til að standa við ábendingu sína um það hver var aðalskipuleggjandi innflutningsins. Fallist er á að ákærði hafi ekki staðið að skipulagningu innflutningsins en hins vegar talið að hann hafi unnið að honum í samvinnu við meðákærðu. Ekki þykir unnt að fullyrða annað en hann hafi verið svokallað burðardýr. Ekki þykja efni til þess að taka nokkurt tillit til aldurs ákærða við ákvörðun refsingar. Til refsiþyngingar er litið til þess sem áður segir um magn og styrkleika kókaínsins. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fjögurra mánaða fangelsi.

Ákærði Armando Filipe er fæddur [...] 1971. Samkvæmt sakavottorði hefur hann ekki sætt refsingum hérlendis. Verður að telja honum til málsbóta að hann játaði háttsemi sína við rannsókn málsins og átti mikinn þátt í því að upplýsa um aðild annarra. Á móti kemur að fyrir dómi hvarf hann frá játningu sinni með nýrri frásögn sem hafði ekki við nein rök að styðjast. Til refsiþyngingar er einnig litið til þess sem áður segir um magn og styrkleika kókaínsins. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin 8 mánaða fangelsi.

Ákærði Fernando Jorge er fæddur [...] 1971. Samkvæmt sakavottorði hefur hann ekki sætt refsingum hérlendis. Hann á sér engar málsbætur og hefur gert sér far um að reyna til hins ýtrasta að hylja slóð sína í málinu. Þykir refsing hans hæfilega ákveðin 9 mánaða fangelsi.

Sakarkostnaður.

Með vísan til 219. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála ber að dæma ákærðu til að greiða sakarkostnað. Samkvæmt yfirliti um sakarkostnað ber ákærðu að greiða óskipt 316.320 krónur, vegna matsgerða Rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði og reikninga frá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Ákærða Z ber jafnframt að greiða sem sakarkostnað þóknun verjanda síns, Bjarna Haukssonar hrl., sem þykir hæfilega ákveðin, með hliðsjón af tímaskýrslu, 690.250 krónur auk 34.000 króna vegna ferðakostnaðar. Ákærða Armando Filipe ber að greiða sem sakarkostnað þóknun verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hrl., sem þykir hæfilega ákveðin, með hliðsjón af tímaskýrslu, 502.000 krónur. Honum ber einnig að greiða þóknun verjanda síns á rannsóknarstigi, Björgvins Jónssonar hrl., sem er hæfilega ákveðin, með hliðsjón af tímaskýrslu, 370.225 krónur auk 34.000 króna vegna ferðakostnaðar. Þá skal ákærði Fernando Jorge greiða sem sakarkostnað þóknun verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar hrl., sem er hæfilega ákveðin, með hliðsjón af tímaskýrslu, 564.250 krónur. Við ákvörðun þóknana verjenda hefur verið tekið tillit til vinnu á rannsóknarstigi, eftir því sem við á, og einnig hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Ákærðu skulu sæta upptöku á 187 g af kókaíni, samkvæmt heimild í 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974, sbr. lög nr. 10/1997 og 68/2001, sbr. 2. mgr. 14. gr. reglug. nr. 233/2001, sbr. reglug. nr. 848/2002.

Dómendur láta þess getið að ekki var unnt að ljúka aðalmeðferð fyrr en þann 26. nóvember s.l. vegna anna dómenda í hinum fjölskipaða dómi.

Dóm þennan dæma héraðsdómararnir Sveinn Sigurkarlsson, Ástríður Grímsdóttir og Sandra Baldvinsdóttir.

D ó m s o r ð:

Ákærði Z sæti fangelsi í 4 mánuði. Til frádráttar refsingu komi gæsluvarðhald ákærða frá 7. til 20. apríl 2012.

Ákærði Armando Filipe Miranda Felix sæti fangelsi í 8 mánuði. Til frádráttar refsingu komi gæsluvarðhald ákærða frá 7. til 20. apríl 2012.

Ákærði Fernando Jorge Duchamp sæti fangelsi í 9 mánuði. Til frádráttar refsingu komi gæsluvarðhald ákærða frá 18. til 25. apríl 2012.

Ákærðu skulu sæta upptöku á 187 g af kókaíni.

Ákærði Z greiði sem sakarkostnað þóknun verjanda síns, Bjarna Haukssonar hrl., 690.250  krónur, auk 34.000 króna vegna ferðakostnaðar.

Ákærða Armando Filipe ber að greiða sem sakarkostnað þóknun verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hrl., 502.000 krónur. Honum ber einnig að greiða þóknun verjanda síns á rannsóknarstigi, Björgvins Jónssonar hrl., 370.225 krónur, auk 34.000 króna vegna ferðakostnaðar hans.

Ákærði Fernando Jorge skal greiða sem sakarkostnað þóknun verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar hrl., 564.250 krónur.

Annan sakarkostnað, 316.320 krónur, greiði ákærðu óskipt.