Hæstiréttur íslands

Mál nr. 210/2001


Lykilorð

  • Gjaldþrotaskipti
  • Riftun
  • Gjöf


Fimmtudaginn 6

 

Fimmtudaginn 6. desember 2001.

Nr. 210/2001.

Ásgeir Ásgeirsson

(Sigurður G. Guðjónsson hrl.)

gegn

þrotabúi Sæunnar Axels ehf.

(Bjarni Þór Óskarsson hrl.)

 

Gjaldþrotaskipti. Riftun. Gjöf.

Þrotabú S ehf. krafðist riftunar á sölu S ehf. á bifreið til Á, sem var framkvæmdastjóri félagsins, en umrædd sala átti sér u.þ.b. einum mánuði fyrir frestdag. Í afsali var tekið fram að umsamið kaupverið, 4.500.000 krónur, væri að fullu greitt af kaupanda meðal annars með yfirtöku veðskulda að fjárhæð um 3.000.000 krónur. Af hálfu þrotabúsins var því haldið fram að raunvirði bifreiðarinnar hafi á þeim tíma, sem kaupin fóru fram, verið mun hærra en umsamið kaupverð. Bifreiðin hafi verið tæplega sjö mánaða gömul. Miðað við hefðbundin afföll hafi raunvirði verið 5.800.000 krónur, en upphaflegt kaupverð hafi verið 6.400.000 krónur. Því til stuðnings væri verðmat bifreiðaumboðs um að „uppítökuverð“ sambærilegrar bifreiðar, sem hafi verið ekið 20.000 km, væri 5.400.000 krónur en „ásett verð“ 5.800.000 krónur. Á taldi á hinn bóginn að söluverð bifreiðarinnar hafi samsvarað raunvirði hennar. Í þessu sambandi vísaði hann meðal annars til þess að endurskoðandi félagsins hafi metið verð bifreiðarinnar. Hæstiréttur taldi að verðmat endurskoðandans haggaði ekki mati á almennu markaðsverði bifreiða af þeirri gerð sem um væri að ræða, enda væri endurskoðandinn ekki sérfróður á því sviði. Var ráðstöfunin S ehf. virt sem gjafagerningur og fallist á kröfu þrotabúsins um riftun. Var Á gert að greiða þrotabúinu fjárhæð sem nam mismun á raunvirði bifreiðarinnar á söludegi og því endurgjaldi, sem hann hafði innt af hendi, að teknu tilliti til viðgerðarkostnaðar sem var skipt á milli aðila í hlutfalli við eignarhaldstíma þeirra á bifreiðinni.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. júní 2001. Hann krefst sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Með afsali 26. október 1999 seldi og afsalaði Sæunn Axels ehf., Ólafsfirði, áfrýjanda bifreiðinni PG 035, sem var af gerðinni Toyota Land Cruiser 100. Áfrýjandi var á þessum tíma framkvæmdastjóri félagsins. Í afsalinu sagði að á bifreiðinni hvíldi veðskuld frá SP fjármögnun hf. að fjárhæð um þrjár milljónir króna, sem kaupandi yfirtæki, að bifreiðin væri seld í núverandi ástandi og að umsamið kaupverð væri 4.500.000 krónur, sem væri að fullu greitt. Bifreið þessa hafði Sæunn Axels ehf. keypt  nýja fyrir 6.400.000 krónur og var hún fyrst skráð 30. mars 1999. Með úrskurði Héraðsdóms Norðurlands eystra 7. desember 1999 var bú Sæunnar Axels ehf. tekið til gjaldþrotaskipta. Birtist innköllun skiptastjóra dagsett 8. desember í Lögbirtingablaði 22. þess mánaðar og var þar tekið fram að frestdagur væri 7. desember 1999. Í skýrslu áfrýjanda á skiptafundi í þrotabúinu 22. febrúar 2000 kom fram að kaupverð bifreiðarinnar hafi byggst á mati endurskoðanda félagsins og að áfrýjandi áliti að mismunur kaupverðsins og yfirtekinnar veðskuldar við SP fjármögnun hf. hafi verið færður honum til skuldar í bókhaldi félagsins. Á fundinum vakti skiptastjóri athygli áfrýjanda á að salan kynni að vera riftanleg. Með bréfi 14. mars 2000 lýsti skiptastjóri yfir riftun á þeim gjafagerningi, sem falist hefði í afsali Sæunnar Axels ehf. á bifreiðinni til áfrýjanda, og krafði hann um greiðslu á 2.754.834 krónum. Var í bréfinu tekið fram að í bókhaldi Sæunnar Axels ehf. væri ekki að finna neina greiðslu frá áfrýjanda vegna bifreiðakaupanna. Höfðaði stefndi mál þetta 31. maí 2000.

I.

Stefndi heldur því fram að raunvirði bifreiðarinnar PG 035 hafi á þeim tíma, sem kaupin fóru fram, verið mun hærra en nam verði því, sem tilgreint er í framangreindu afsali 26. október 1999. Að auki hafi áfrýjandi aldrei greitt Sæunni Axels ehf. annan hluta umsamins kaupverðs en þann, er nam yfirtöku áhvílandi veðskuldar við SP fjármögnun hf., en um fjárhæð hennar er ekki ágreiningur milli aðila. Stefndi telur að á afsalsdegi hafi raunvirði bifreiðarinnar numið 5.800.000 krónum. Upphaflegt kaupverð bifreiðarinnar hafi numið 6.400.000 krónum. Verði að telja að 600.000 krónur eða rúmlega 9% séu ekki óeðlileg afföll af kaupverði hennar á þeim tæpu sjö mánuðum, sem hún var í eigu Sæunnar Axels ehf., enda verði ekki í ljós leidd sérstök atriði, er rýrt hafi verðgildi hennar. Fyrir liggur í málinu ódagsett símbréf Styrmis Guðmundssonar, sölumanns nýrra bíla hjá P. Samúelssyni ehf., sem styður þetta  verðmat á PG 035. Bréfið ber með sér að hafa verið símsent 15. desember 1999. Þar er segir að „uppítökuverð“ bifreiðarinnar, sem sé Land Cruiser 100 með aukasætum og leðri, sé 5.400.000 krónur og sé þá miðað við að hún sé ekin 20.000 kílómetra en „ásett verð“ á slíkan bíl sé hins vegar 5.800.000 krónur. Í bréfinu tekur Styrmir fram að matsatriði sé hvert raunverulegt verðmæti sé og að ofangreint verðmat miðist við góðan bíl, sem líti vel út og sé í góðu lagi. Þá tekur hann fram að söluskoðun fari fram á öllum bílum sem umboðið taki sem greiðslu upp í nýjan bíl, og komi bilanir og skemmdir þá til frádráttar framangreindu verði.

Áfrýjandi telur söluverð bifreiðarinnar hafa samsvarað raunvirði hennar. Byggir hann í þeim efnum meðal annars á verðþróun, sem síðar hafi orðið á bifreiðum þessarar gerðar, vegna breytinga, sem urðu á lögum um vörugjald af ökutækjum vorið 2000, og því verði sem áfrýjandi fékk fyrir bifreiðina þegar hann seldi hana aftur nærfellt tíu mánuðum eftir kaupin. Ekki verður fallist á að þessi atriði skipti máli varðandi ágreining aðila, enda er það raunvirði bifreiðarinnar á söludegi í október 1999, sem miða ber við varðandi riftunarkröfu stefnda. Þá vísar áfrýjandi til þess að Stefán Hilmarsson endurskoðandi hafi verðmetið bifreiðina. Í framburði Stefáns fyrir héraðsdómi kom fram að hann hafi verið staddur á Ólafsfirði við störf sín sem endurskoðandi Sæunnar Axels ehf. þegar félagið seldi áfrýjanda bifreiðina og hafi hann átt þátt í að leggja verðmat á hana. Hann kvaðst ekki hafa ráðfært sig við bílasölur við matið, en hafa vitað um markaðsverð slíkra bíla þar sem hann hafi átt sams konar bíl, að vísu eldri. Hann kvaðst hafa byggt á ástandi bílsins og notkun við matið. Taldi hann að einhver dæld hefði verið á bílnum framanverðum og að bíllinn hefði orðið fyrir einhverju öðru tjóni. Þá hefði svolítið verið farið að sjá á honum að innan eftir snjó og salt og verið komin í hann „fiskvinnslulykt“. Hann kvaðst ekki muna nákvæmlega hversu mikið bifreiðinni hafi þá verið ekið, en taldi það vera svona „langleiðina í 40.000“ kílómetra.

 Þetta verðmat endurskoðandans verður ekki talið hagga því, sem að framan greinir, um mat á almennu markaðsverði bifreiða af þeirri gerð er hér um ræðir, enda er hann ekki sérfróður á því sviði. Ekki verður heldur lagður til grundvallar óljós framburður hans um hversu mikið bifreiðinni hafði verið ekið, enda er slíkur akstur á tæpum sjö mánuðum með ólíkindun og endurskoðandinn einn til frásagnar um þetta atriði. Hafa engar skýringar komið fram af hálfu áfrýjanda af hverju svo mikill akstur á stuttum tíma stafi. Frásögn endurskoðandans um að bifreiðin hafi verið farin að láta eitthvað á sjá fær hins vegar nokkra stoð í framburði Halldórs Lúðvígssonar vélvirkjameistara fyrir héraðsdómi, en Halldór lagfærði bifreiðina fyrir áfrýjanda áður en hann seldi hana aftur 24. ágúst 2000. Hann bar að þegar hann tók við bifreiðinni hafi hún ekki litið vel út. Hafi verið beygla á frambretti hennar og á henni mikið af smábeyglum og lakkskemdum. Þá hafi stigbretti verið illa farið öðru megin og framljós brotið og hugsanlega framrúða einnig. Er reikningur hans meðal gagna málsins og er kostnaður vegna réttinga og sprautunar á bifreiðinni og lagfæringa á stigbretti hennar 174.532 krónur samkvæmt honum. Enda þótt átta til níu mánuðir hafi liðið frá því að áfrýjandi eignaðist bifreiðina þar til Halldór gerði við hana, og telja verði frásögn áfrýjanda um að bifreiðin hafi staðið óhreyfð mikinn hluta þess tíma ósannaða, verður samt að telja, á grundvelli framburðar Stefáns Hilmarssonar, að eitthvað af þeim skemmdum á bifreiðinni, sem Halldór gerði við, geti hafa verið til staðar við sölu hennar til áfrýjanda 26. október 1999 og komi því réttilega til frádráttar við mat á raunvirði hennar þá. Þykir eftir atvikum mega skipta þessum viðgerðarkostnaði í hlutfalli við eignarhaldstíma Sæunnar Axels ehf. annars vegar og áfrýjanda hins vegar og komi því 72.000 krónur til frádráttar framangreindu matsverði. Telst því raunvirði bifreiðarinnar 26. október 1999 hafa numið 5.728.000 krónum.

Eins og að framan er rakið er ekki ágreiningur milli aðila um að áfrýjandi hafi með kaupunum yfirtekið áhvílandi veðskuld á bifreiðinni við SP fjármögnun hf. og að eftirstöðvar skuldabréfsins hafi þá numið 3.016.757 krónum að viðbættum vöxtum af láninu til loka október 1999 að fjárhæð 28.407 krónum. Áfrýjandi heldur því einnig fram að hann hafi um haustið 1999 greitt lögmanni sínum og Sæunnar Axels ehf. 1.500.000 krónur og hafi þetta átt að vera fyrirframgreiðsla eða tryggingargreiðsla í þágu félagsins vegna þeirrar vinnu, sem fyrirsjáanlegt hafi verið að lögmaðurinn myndi inna af höndum meðal annars við nauðasamningsumleitanir þess. Þessarar greiðslu er ekki getið í bókhaldi Sæunnar Axels ehf. og verður ekki annað séð en hún sé málinu óviðkomandi. Verður raunvirði bifreiðarinnar á söludegi því talið 2.682.836 krónum umfram það endurgjald, sem áfrýjandi innti af hendi. Ráðstöfun þrotamanns með afsalinu verður því virt sem gjafagerningur og er fullnægt skilyrðum 131. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. til að verða við kröfu stefnda um riftun. Verður áfrýjandi á grundvelli 142. gr. sömu laga dæmdur til að greiða stefnda 2.682.836 krónur með dráttarvöxtum eins og í dómsorði greinir.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað verður staðfest. Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður að því er varðar riftun á sölu Sæunnar Axels ehf. á bifreiðinni PG 035 til áfrýjanda, Ásgeirs Ásgeirssonar, og um málskostnað.

Áfrýjandi greiði stefnda, þrotabúi Sæunnar Axels ehf., 2.682.836 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 26. október 1999 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Áfrýjandi greiði stefnda 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 19. mars 2001.

Mál þetta, sem dómtekið var 19. febrúar s.l., hefur þrotabú Sæunnar Axels ehf., kt. 691189-1559, Múlavegi 3, Ólafsfirði, höfðað hér fyrir dómi með stefnu, þingfestri 8. júní 2000, á hendur Ásgeiri Ásgeirssyni, kt. 050137-3849, Hlíðarvegi 51, Ólafsfirði.

Krefst stefnandi þess að rift verði gjafagerningi milli stefnanda og stefnda um bifreiðina PG-035 og að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 2.754.834,27 með dráttarvöxtum skv. 10. gr. laga nr. 25, 1987 frá 26.10.1999 til greiðsludags auk málskostnaðar. 

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og málskostnaðar úr þess hendi.

Kveður stefnandi málavexti þá að fiskvinnslu- og útgerðarfyrirtækið Sæunn Axels ehf. Ólafsfirði, hafi verið úrskurðað gjaldþrota með úrskurði Héraðsdóms Norðurlands eystra upp kveðnum þann 07.12.1999.  Sama dag hafi þrotabúinu verið skipaður skiptastjóri.  Auglýsing um gjaldþrotið og innköllun hafi birst í 131. tbl. Lögbirtingablaðsins, sem út hafi komið miðvikudaginn 22.12.1999.  Innköllunarfresti hafi lokið 22.02.2000.  Skiptafundur um lýstar kröfur í þrotabúinu hafi verið haldinn þann 03.03.2000.  Við athugun á bókhaldi þrotabúsins hafi komið í ljós að með afsali dagsettu 26.10.1999 hafi Sæunn Axels ehf. selt stefnda bifreiðina PG-035, Toyota Landcruiser 100 árgerð 1999.  Kaupverð sé tilgreint kr. 4.500.000,- og tekið fram að það sé að fullu greitt m.a. með yfirtöku láns við S.P. fjármögnum að fjárhæð „um 3.000.000,-.“  Í bókhaldi þrotabús Sæunnar Axels ehf. sé ekki að finna neinar greiðslur frá stefnda Ásgeiri Ásgeirssyni til Sæunnar Axels ehf. vegna bifreiðakaupanna.  Þann 28.10.1999 hafi Sæunn Axels ehf. greitt tvær afborganir af bifreiðinni til S.P. fjármögnunar, samtals að fjárhæð kr. 333.361.  Eftirstöðvar höfuðstóls lánsins eftir gjalddaga 01.10.1999 hafi verið kr. 3.016.757,93.  Samkvæmt upplýsingum frá P. Samúelssyni ehf., umboðsaðila Toyota bifreiða á Íslandi, hafi ásett söluverð á PG-035 verið kr. 5.800.000,- og „uppítökuverð“ kr. 5.400.000,-.  Mismunurinn á endursöluverði og eftirstöðvum áhvílandi láns ásamt samningsvöxtum til októberloka 1999, sem kaupandi hafi yfirtekið, hafi verið kr. 2.754.834,27.  Þann 14.03.2000 hafi lögmanni stefna, Sigurði G. Guðjónssyni hrl., verið ritað bréf þar sem stefndi hafi verið krafinn um endurgreiðslu á þeirri fjárhæð.  Bréfið hafi verið ritað lögmanninum í samráði við hann þar sem vitað hafi verið að stefndi dvaldist erlendis.  Kröfunni hafi ekki verið svarað.

Kveður stefnandi það málsástæðu sína að bifreiðakaupin frá 26.10.1999 séu riftanleg af þeirri ástæðu að um hafi verið að ræða gjafagerning í skilningi 131. gr. gjaldþrotalaga nr. 20,1991.  Stefndi hafi aldrei greitt neitt af kaupverðinu til seljanda Sæunnar Axels ehf. heldur aðeins yfirtekið áhvílandi lán með vöxtum samtals að upphæð kr. 3.045.165,73.  Eftir standi mismunur kr. 2.754.834,27, sem sé stefnufjárhæðin, sem gjöf Sæunnar Axels ehf. til stefnda. 

Stefnda hafi mátt vera ljóst sem framkvæmdastjóri Sæunnar Axels ehf. að fyrirtækið var á leið í gjaldþrot sbr. 145. gr. laga nr. 21, 1991 og ráðstöfunin hafi verið óhlýðileg og með henni hafi stefndi hagnast verulega á kostnað kröfuhafa Sæunnar Axels ehf.  Endurgreiðslukrafan sé gerð með stoð í 142. gr. laga nr. 21, 1991 þar sem segi að sá sem hag hafi af riftanlegri ráðstöfun skuli greiða fé sem svari til þess sem eign þrotamanns hafi orðið honum að notum.  Stefndi hafi fengið umráð bifreiðarinnar PG-035 við gerð afsals 26.10.1999.  Vaxtakrafan sé miðuð við dagsetningu afsals bifreiðarinnar PG-035 frá Sæunni Axels ehf. til stefnda þann 26.10.1999. 

Til stuðnings riftunarkröfu sinni vísar stefnandi til 1. og 2. mgr. 131. gr. og 141. gr. laga nr. 21, 1999 og til 142. gr. sömu laga um skyldu stefnda til endurgreiðslu.  Um vaxtakröfuna kveðst stefnandi vísa til III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987 og um málskostnaðarkröfuna vísi hann í 21. kafla laga nr. 91, 1991.

Stefndi kveðst byggja sýknukröfu sína í málinu á því að hann hafi keypt bifreiðina PG-035 á sannvirði hennar, þ.e. kr. 4.500.000,-.  Kaupin hafi átt sér stað þann 26. október 1999.  Kaupverðið hafi m.a. verið greitt með þeim hætti að stefndi yfirtók skuld við S.P. fjármögnun h.f. samtals kr. 3.116.757,16 sem hvílt hafi sem veðskuld á bifreiðinni.  Mismuninn hafi stefndi greitt með skuldajöfnuði vegna greiðslna sem hann hafði innt af hendi fyrir Sæunni Axels ehf.  Bendi stefndi á í því sambandi að hann hafi sjálfur sett lögmanni Sæunnar Axels ehf. tryggingu fyrir greiðslu fyrir þá vinnu sem stjórn félagsins hafi talið nauðsynlegt að unnin yrði áður en ákvörðun yrði tekin um framtíð félagsins, m.a. það hvort óska ætti eftir gjaldþrotaskiptum á því.  Þann reikning hafi lögmaðurinn gefið út 30. desember 1999 og sent skiptastjóra þrotabúsins.  Reikningurinn hafi verið að fjárhæð kr. 496.755,-.  Fé til að mæta þessum reikningi hafi stefndi lagt fram fyrir Sæunni Axels ehf. um mánaðamótin október/nóvember 1999 þegar kaup bifreiðarinnar voru að ganga í gegn.  Stefndi hafi ávallt verið reiðubúinn til að skila bifreiðinni gegn því að þrotabúið endurgreiddi honum kaupverð bifreiðarinnar. Því hafi stefnandi hafnað.  Með fullri vitneskju og samkomulagi við skiptastjóra hafi bifreiðin því verið seld Guðmundi Kristjánssyni, Lambhaga 6, Bessastaðahreppi þann 24. ágúst 2000 fyrir kr. 4.400.000,-.  Þetta verð hafi fengist fyrir bifreiðina eftir að farið hafði fram á henni viðgerð sem kostnað hafi kr. 315.945,-.  Við söluna hafi eftirstöðvar lánsins hjá S.P. fjármögnun h.f. verið gerðar upp með greiðslu á kr. 2.040.703,-.  Auk þessa hafi við sölu bifreiðarinnar þurft að gera upp skuld bifreiðagjalda sem numið hafi kr. 85.439,-.  Stefndi hafi ávallt verið fús til að afhenda skiptastjóra þrotabús Sæunnar Axels ehf. þá fjármuni sem kunni að standa á milli stefnda og búsins og greiddar hafi verið með skuld Sæunnar Axels ehf. við stefnda og til hafi verið komin fyrir kaup bifreiðarinnar um mánaðamótin október/nóvember.  Fjárhæð þeirrar greiðslu geti að hámarki verið mismunur á kaupverði bifreiðarinnar 26. október 1999 og þess sem stefndi hafi greitt beint fyrir hana vegna hennar, þ.e. kr. 585.103,84. 

Stefndi kveðst benda á að hvorki hann né aðrir hafi notað bifreiðina að neinu ráði eftir áramótin 1999/2000 þar sem stefndi hafi búið á Spáni.  Stefndi kveður bifreiðina hins vegar hafa verið mikið keyrða á árinu 1999 í þágu Sæunnar Axels ehf. og hafi mælir hennar staðið í liðlega 40.000 km við söluna í ágúst 2000.  Af því leiði að verðmat það sem fyrir liggi í málinu hafi ekkert gildi.  Sá sem það mat skrifaði hafi aldrei séð eða skoðað bifreið þá sem mál þetta snúist um.  Í matinu sé sérstaklega tekið fram að það sé miðað við góðan bíl, keyrðan um 20.000 km.  Hvorugu hafi verið til að dreifa varðandi bifreiðina PG-035.  Stefndi bendi á að í gögnum málsins hafi kaupverð m.a. verið ákveðið eftir viðræður við endurskoðanda Sæunnar Axels ehf., sem þekkt hafi til bifreiðarinnar og notkunar hennar í þágu félagsins.  Það sem skipti svo í raun máli um mat á því hvort um gjöf hafi verið að ræða sé sú staðreynd að aðeins hafi verið hægt að fá kr. 4.400.000,- fyrir bifreiðina eftir gagngera viðgerð hjá henni í ágúst 2000.  Þegar bifreiðin hafi verið sýnd í því ástandi sem hún var í við kaup stefnda á haustdögum 1999 hafi bifreiðasala talið hugsanlegt að verð gæti verið á bilinu 3,8 til 4 milljónir.  Kveðst stefndi því að fullu hafa sannað að ekki hafi verið um gjöf til hans að ræða og því engin skilyrði til að beita riftunarreglum gjaldþrotalaga.  Kaupin hafi gerst fyrir gjaldþrot félagsins og hluti kaupverðsins verið greiddur með skuldajöfnuði sem kunni að vera andstæður lögum um gjaldþrotaskipti og því sé stefndi fús til að greiða búinu allt að kr. 585.103,84.

Skýrslur fyrir dómi gáfu vitnin Halldór Lúðvíksson, vélvirkjameistari og Stefán Hilmarsson, endurskoðandi. 

Samkvæmt gögnum málsins var umrædd bifreið skráð ný á nafn Sæunnar Axels ehf. þann 3. mars 1999.  Með afsali dagsettu 26. október 1999 afsalaði Sæunna Axels ehf. stefnda bifreiðinni og fór umskráning hennar fram þann 2. nóvember sama ár.  Í afsali var söluverð bifreiðarinnar talið 4.500.000,- „sem er að fullu greitt“ eins og segir í afsalinu.  Í afsalinu kemur fram að kaupverð er m.a. greitt með yfirtöku veðláns að fjárhæð kr. 3.000.000,- að öðru leyti kemur ekki fram með hvaða hætti kaupverðið var greitt, en samkvæmt gögnum málsins bárust greiðslur þessar ekki Sæunni Axels ehf. og síðar þrotabúinu.

Stefndi telur sig hafa greitt kaupverðið umfram yfirtökulánsins með því að greiða lögmanni Sæunnar Axels ehf. þóknunarreikninga og hafa slíkir reikningar verið lagðir fram í málinu.  Þessa er ekki gefið í bókhaldi Sæunnar Axels ehf. 

Í málinu liggur fyrir yfirlýsing Styrmis Guðmundssonar sölumanns nýrra bíla hjá P. Samúelssyni ehf. umboðsaðila bílsins, þar sem hann verðleggur téðan bíl á söludegi hans.  Samkvæmt vottorðinu telur hann uppítökuverð bílsins hafa numið 5,4 milljónum, en ásett verð á slíkan bíl séu 5,8 milljónir.  Sé miðað við góðan bíl sem líti vel út og sé í góðu lagi, þá miðar hann við að bifreiðinni hafi verið ekið 20.000 km. 

Stefndi hefur haldið því fram að bifreiðin hafi verið nokkuð illa farin og þurft hafi að kosta verulegum fjármunum til endurbóta á henni.  Þá hafi hún verið ekin allmiklu meira heldur gert er ráð fyrir í mati umboðsmannsins.

Í málinu liggur ekki fyrir nein skoðunargerð á bifreiðinni þá er salan fór fram, né heldur mat á eðlilegu verðmæti hennar.  Kaupverð það er stefndi telur sig hafa greitt fyrir bifreiðina er augljóslega verulega lægra heldur en það verð er umboðsmaður bifreiðarinnar telur eðlilegt verð.  Verður stefndi að sanna að ástand bifreiðarinnar hafi verið það lélegt að verðmismun þennan verði til þess rakið, en svo sem að framan er rakið var bifreiðin ekki nema örfárra mánaða gömul.  Verður stefndi að bera hallann af því að eigi liggur ljóst fyrir hvert hið raunverulega verðmæti bifreiðarinnar var þá er stefndi keypti hana.  Þykja því vera skilyrði til riftunar svo sem stefnandi krefst og ber að dæma stefnda til endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar sem krafist er ásamt umkröfðum vöxtum. 

Eftir þessum úrslitum þykir rétt að stefndi greiði stefnanda kr. 200.000 í málskostnað.

Dóm þennan kveður upp Freyr Ófeigsson dómstjóri.

D Ó M S O R Ð:

Sölu Sæunnar Axels ehf. á bifreiðinni PG-035 til stefnda, Ásgeirs Ásgeirssonar, er rift.

Stefndi greiði stefnanda, þb. Sæunnar Axels ehf. kr. 2.754.834,27 ásamt dráttarvöxtum skv. 10. gr. laga nr. 25, 1987 frá 26.okt. 1999 til greiðsludags og kr. 200.000 í málskostnað.