Hæstiréttur íslands
Mál nr. 481/2013
Lykilorð
- Ábyrgðartrygging
- Vátryggingarsamningur
|
|
Fimmtudaginn 13. febrúar 2014. |
|
Nr. 481/2013.
|
Tryggingamiðstöðin hf. (Viðar Lúðvíksson hrl.) gegn Jóni Sigurðssyni Lárusi Welding og Þorsteini M. Jónssyni (Hörður Felix Harðarson hrl.) |
Ábyrgðartrygging. Vátryggingarsamningur.
G hf. keypti á árinu 2008 svokallaða stjórnendatryggingu af T hf. með gildistíma frá 1. maí 2008 til 1. maí 2009. Í skilmálum tryggingarinnar kom fram að hún gilti einvörðungu um kröfur á hendur stjórnendum og yfirmönnum sem gerðar hefðu verið á vátryggingartímanum. Eftir að gildistíma tryggingarinnar lauk keypti skilanefnd bankans ábyrgðartryggingu fyrir stjórnendur af öðrum vátryggjanda. Vegna málsóknar G hf. á hendur J, L og Þ á árinu 2010 rituðu hinir síðarnefndu T hf. bréf þar sem lýst var þeim skilningi að þeir teldu kröfur G hf. auk kostnaðar vegna málsvarnar sinnar falla undir gildissvið stjórnendatryggingarinnar frá 2008. Því var hafnað af hálfu T hf. Höfðuðu J, L og Þ því mál og kröfðust tiltekinnar greiðslu úr hendi T hf. Eftir skiptingu sakarefnis í héraði var ágreiningur aðila tvíþættur. Annars vegar var deilt um það hvort fullnægt væri því skilyrði H-liðar III. hluta vátryggingaskilmála stjórnendatryggingarinnar fyrir framlengdum tilkynningarfresti í 72 mánuði að ekki hefði verið keypt önnur stjórnendatrygging og hvort vátryggingavernd J, L og Þ samkvæmt tryggingunni væri þannig ennþá virk. Hins vegar laut ágreiningur þeirra að því hvaða merking skyldi lögð í orðin „who retired“ samkvæmt H-liðnum. Í niðurstöðu Hæstaréttar var það rakið að til þess að tilkynningafrestur gæti framlengst í 72 mánuði frá lokum vátryggingartímabils þyrfti fimm skilyrðum að vera fullnægt samkvæmt ákvæðinu og þeim öllum í senn. Í fyrsta lagi að G hf. hefði hvorki endurnýjað hjá T hf. upphaflega vátryggingu né keypt í hennar stað aðra sem veitti stjórnendum og yfirmönnum ábyrgðartryggingu. Í öðru lagi að ekki hefði verið keyptur viðbótar tilkynningarfrestur samkvæmt A-lið III. hluta vátryggingaskilmálanna. Í þriðja lagi að um væri að ræða stjórnendur og yfirmenn sem hefðu látið af störfum hjá vátryggingataka áður en vátryggingin hefði fallið úr gildi. Í fjórða lagi að um væri að ræða kröfu sem hefði að öðrum kosti fallið undir gildissvið vátryggingaskírteinisins. Í fimmta lagi að á meðan stjórnandi eða yfirmaður hefði starfað hjá vátryggingartaka hefði átt sér stað saknæm háttsemi af hans hálfu eða að því væri haldið fram að slík háttsemi hefði átti sér stað. Vísaði Hæstiréttur til þess að G hf. hefði á árinu 2009 keypt aðra stjórnendatryggingu og hefði því verið keypt ný trygging hjá öðru vátryggingafélagi í stað hinnar upphaflegu í skilningi H-liðar III. hluta stjórnendatryggingarinnar frá 2008. Væri því samkvæmt skýru og afdráttarlausu orðalagi H-liðarins ekki fullnægt því skilyrði að ekki hefði í stað upphaflegu tryggingarinnar verið keypt önnur trygging sem veitti stjórnendum og yfirmönnum ábyrgðartryggingu. Skipti í því sambandi ekki máli þótt nýja tryggingin væri ekki að öllu leyti sama efnis og sú fyrri. Var T hf. þegar af þeirri ástæðu sýknuð af kröfu J, L og Þ.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson, Benedikt Bogason, Helgi I. Jónsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Þorgeir Örlygsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. júlí 2013. Hann krefst sýknu af kröfum stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti óskipt úr hendi þeirra.
Stefndu krefjast staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Með bréfi 25. febrúar 2008 óskaði Glitnir banki hf., sem nú ber heitið Glitnir hf., eftir tilboðum áfrýjanda í endurnýjun bankatryggingar fyrir tímabilið 1. maí 2008 til 30. apríl 2009 en um var að ræða samsetta tryggingu. Sagði í bréfinu að óskað væri tilboða „með þeim skilmálum sem almennt gilda um slíkar tryggingar auk þeirra viðauka og sérstakra ákvæða sem henta bankanum hverju sinni.“ Í framhaldinu áttu sér stað nokkur samskipti milli Glitnis banka hf. og áfrýjanda og tók sá fyrrnefndi tilboði hins síðarnefnda með tölvubréfi 30. apríl 2008. Milligöngu um að koma vátryggingarsamningnum á hafði miðlarinn Howden Insurance Brokers Ltd. í London.
Hin samsetta vátrygging er rituð á ensku og ber fyrirsögnina „Bankers Blanket Bond, Computer Crime, Professional Indemnity and Directors & Officers Liability Insurance.“ Hefur sú fyrirsögn samkvæmt gögnum málsins verið þýdd sem „Trygging gegn glæpum bankastarfsmanna, tölvuglæpir, starfsábyrgðartrygging og ábyrgðartrygging stjórnarmanna og yfirmanna“. Fram kemur í skilmálum vátryggingarinnar að gildistími hennar sé frá klukkan 00.01 að staðartíma 1. maí 2008 til sama tíma 1. maí 2009. Sá þáttur skilmálanna sem lýtur að ábyrgðartryggingu stjórnenda og yfirmanna ber fyrirsögnina „Directors´ and Officers´ Liability Insurance.“ Í upphafi hans kemur fram að vátryggingin gildi einvörðungu um kröfur á hendur stjórnendum og yfirmönnum sem gerðar eru á vátryggingartímanum. Þá kemur fram að stjórnendatryggingin gildi meðal annars um kröfur sem gerðar eru vegna tiltekinna óréttmætra athafna stjórnenda og yfirmanna og hún nái til tjónstilvika af völdum þessara starfsmanna vátryggingartaka hvort heldur þau bitni á honum eða þriðja manni.
Þessi þáttur vátryggingarskilmálanna skiptist í átta hluta og fjallar sá þriðji um viðbótar vátryggingarvernd undir fyrirsögninni „Extensions to Cover.“ Hann skiptist í ellefu stafliði, merkta A-K, og er í H-lið fjallað um fyrri stjórnendur undir fyrirsögninni „Previous Directors.“ Þar segir í enskum texta skilmálanna: „If the COMPANY does not renew or replace this Policy with any other policy affording directors and officers liability cover and a Discovery Period is not elected, a Discovery Period of 72 months after the date of such non-renewal will be provided under this Policy during which time written notice may be given to INSURERS of any CLAIM first made against any DIRECTOR or OFFICER who retired before the date of non-renewal and which CLAIM is otherwise covered by this Policy. Coverage only applies for WRONGFUL ACTS committed or alleged to have been committed while such DIRECTOR or OFFICER was employed by the COMPANY.“
Eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi lögðu aðilar fram við meðferð málsins í héraði mismunandi þýðingar á fyrrgreindum H-lið en komu sér saman um að leggja til grundvallar þýðingu sem frá áfrýjanda stafar ef frá er talin þýðing á orðunum „who retired“ í skilmálunum. Í umræddum þýðingum segir efnislega að endurnýi félagið hvorki þetta vátryggingarskírteini né kaupi annað í staðinn sem veiti stjórnendum og yfirmönnum ábyrgðartryggingu og tilkynningarfrestur hafi ekki verið valinn, verði veittur tilkynningarfrestur samkvæmt þessu vátryggingarskírteini sem nemi 72 mánuðum frá þeim degi að telja sem vátryggingarskírteinið var ekki endurnýjað, en á þeim tíma megi tilkynna vátryggjanda skriflega um sérhverja kröfu sem gerð sé í fyrsta sinn á hendur einhverjum stjórnanda eða yfirmanni sem lét af störfum fyrir þann dag sem vátryggingarskírteinið var ekki endurnýjað, enda falli umrædd krafa að öðru leyti undir gildissvið þessa vátryggingarskírteinis. Vátryggingin nái einungis til ólögmætra athafna sem framkvæmdar voru eða sem haldið er fram að hafi verið framkvæmdar meðan slíkur stjórnandi eða yfirmaður starfaði hjá félaginu.
Þriðji hluti vátryggingarskilmálanna fjallar sem fyrr segir um viðbót við vátryggingarvernd. A-liður III. hluta ber á ensku fyrirsögnina „Discovery Period“ eða tilkynningarfrestur. Hann hefur að geyma átta undirliði og af þeim skipta fimm máli hér. Samkvæmt fyrsta undirlið bætist 30 daga tilkynningarfrestur sjálfkrafa við vátryggingartíma án viðbótariðgjalds ef vátryggingin er ekki endurnýjuð og félagið, stjórnendur og yfirmenn nýta ekki réttinn til að kaupa tilkynningarfrest í samræmi við nánari ákvæði þessa liðar. Í öðrum undirlið segir að hafni félagið, stjórnendur og yfirmenn að endurnýja trygginguna hafi þeir rétt til að kaupa 12 mánaða tilkynningarfrest frá því að vátryggingartímabili lauk. Í þriðja undirlið kemur fram að neiti vátryggjandi að bjóða endurnýjun skilmála og skilyrða eftir að vátryggingin rennur úr gildi skuli félagið, stjórnendur og yfirmenn eiga rétt á að kaupa 12, 24 eða 36 mánaða tilkynningarfrest að eigin vali. Samkvæmt fjórða undirlið er það skilyrði fyrir kaupum á tilkynningarfresti að skrifleg tilkynning þar um berist innan 30 daga frá lokum vátryggingartíma og skal þá greiða viðbótar iðgjald. Í tilviki 12 mánaða tilkynningarfrests er viðbótar iðgjald 25% af árlegu iðgjaldi samkvæmt upphaflegum vátryggingarsamningi, 50% þegar keyptur er 24 mánaða tilkynningarfrestur og 75% þegar keyptur er 36 mánaða tilkynningarfrestur. Í sjöunda undirlið segir að þótt vátryggjandi bjóði endurnýjun vátryggingar með skilmálum, skilyrðum, takmörkun ábyrgðar eða iðgjöldum sem eru frábrugðin því sem kveðið er á um í þeirri vátryggingu sem er að renna út, þá jafngildi það ekki því að vátryggjandi hafi neitað að bjóða endurnýjun skilmála.
Stefndu sem fyrrum stjórnarmenn og forstjóri Glitnis banka hf. munu ekki hafa leitað eftir því sjálfir að kaupa slíkan framlengdan tilkynningarfrest sem að ofan greinir. Með dómi Hæstaréttar 14. febrúar 2013 í máli nr. 390/2012 var áfrýjandi sýknaður af kröfu Glitnis hf. um viðurkenningu á rétti hans til að kaupa hjá áfrýjanda 36 mánaða viðbótar tilkynningarfrest samkvæmt framangreindu. Í dóminum var lagt til grundvallar að samkvæmt orðalagi vátryggingarsamnings þeirra gæti ekki reynt á rétt vátryggðs til kaupa á viðbótar tilkynningarfresti nema vátryggjandi hefði áður neitað að bjóða endurnýjun samningsins. Var ekki fallist á með Glitni hf. að áfrýjandi hefði leitast við að þæfa málið heldur bentu gögn skýrlega til þess að rekja mætti til háttsemi Glitnis hf. að áfrýjanda var gert ókleift að gera tilboð í endurnýjun fyrri vátryggingarsamnings. Þannig hefðu sakir enn staðið þegar Glitnir hf. tilkynnti 8. júlí 2009 að hann hefði tekið ábyrgðartryggingu fyrir stjórnendur hjá öðrum vátryggjanda og samningsumleitunum var hætt.
II
Stefndu Jón Sigurðsson og Þorsteinn M. Jónsson voru kosnir í stjórn Glitnis banka hf. á hluthafafundi 30. apríl 2007. Var Þorsteinn kjörinn formaður stjórnar á fundi hennar þann sama dag og Jón varaformaður. Að loknum hluthafafundi 20. febrúar 2008 vék Þorsteinn úr stjórninni en Jón sat þar til þess tíma er Fjármálaeftirlitið tók yfir vald hluthafafundar í bankanum 7. október 2008 með heimild í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, vék stjórn bankans frá og setti yfir hann skilanefnd. Á grundvelli laga nr. 44/2009, sem breyttu ákvæðum laga nr. 161/2002, var Glitnir banki hf. tekinn til slita.
Stefndi Lárus Welding hóf störf sem forstjóri Glitnis banka hf. 1. maí 2007 á grundvelli ráðningarsamnings 30. apríl sama ár og gegndi hann því starfi er bankinn féll í október 2008. Að beiðni skilanefndar mun Lárus hafa starfað áfram fyrstu vikurnar eftir fall bankans en í greinargerð stefndu í héraði kemur fram að í lok október 2008 hafi Lárusi verið gerð grein fyrir því að skilanefnd liti svo á að hann yrði í launalausu leyfi þar til ákvörðun yrði tekin um annað. Þá segir að frekari upplýsingar hafi ekki borist frá skilanefndinni um réttarstöðu Lárusar en með vanefndum á greiðslu launa 1. nóvember 2008 og ráðningu nýs framkvæmdastjóra til bankans síðar sama mánaðar hafi endanlega orðið ljóst að starfskrafta Lárusar væri ekki óskað.
Glitnir hf. höfðaði 29. mars 2010 mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á hendur stefnda Lárusi og nokkrum öðrum fyrrum stjórnendum bankans til heimtu skaðabóta að fjárhæð 6.000.000.000 krónur auk vaxta og kostnaðar vegna grófra brota sem Glitnir hf. taldi að umræddir stjórnendur og aðrir starfsmenn bankans hefðu gerst sekir um á starfsskyldum sínum gagnvart bankanum. Stefndu hafa allir tekið til varna í málinu sem eftir málatilbúnaði aðilanna er enn til meðferðar og hafna þeim sökum sem á þá eru bornar. Þá var þingfest 11. maí 2010 í Hæstarétti New York ríkis í Bandaríkjunum mál Glitnis hf. gegn stefndu, fjórum öðrum einstaklingum og endurskoðunarfyrirtækinu PricewaterhouseCoopers hf. til heimtu skaðabóta vegna tjóns sem umræddir aðilar hefðu valdið bankanum. Var málsóknin á því reist að stefndu í því máli hefðu í sameiningu og með skipulögðum og ólögmætum hætti fært allt að 2.000.000.000 bandaríkjadala úr bankanum. Því máli var 14. desember 2010 vísað frá þar sem bandaríski dómstóllinn taldi það lúta lögsögu íslenskra dómstóla. Samkvæmt því sem fram kemur í greinargerð áfrýjanda í héraði mun Glitnir hf. hafa lýst því yfir að málinu yrði fylgt eftir hér á landi.
Með tölvubréfi lögmanns stefndu 14. maí 2010 mun áfrýjanda hafa verið tilkynnt um kröfur þær á hendur stefndu sem að framan greinir. Í bréfinu mun hafa verið lýst þeim skilningi að kröfurnar auk kostnaðar vegna málsvarnar stefndu félli undir gildissvið fyrrgreindrar stjórnendatryggingar Glitnis banka hf. hjá áfrýjanda og óskað eftir afstöðu hans til fyrirkomulags greiðslna og hvernig samskiptum yrði háttað í framhaldinu. Jafnframt var óskað leiðbeininga um frekari tilkynningar ef þeirra væri þörf, svo sem til miðlarans Howden Insurance Brokers Ltd. Áfrýjandi hafnaði því í bréfi til stefndu 25. maí 2010 að framangreindar kröfur féllu undir trygginguna. Í framhaldinu áttu sér stað frekari samskipti milli áfrýjanda og stefndu þar sem þeir ítrekuðu sjónarmið sín. Það gerðu stefndu síðast í tveimur bréfum til áfrýjanda 31. ágúst 2010 sem hinn síðarnefndi svaraði með bréfi 23. september sama ár.
Mál þetta höfðuðu stefndu 5. október 2010 og gerðu kröfur á hendur áfrýjanda um greiðslu nánar tilgreindra fjárhæða. Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi féllst héraðsdómari með ákvörðun í þinghaldi 5. júlí 2012 á beiðni áfrýjanda um skiptingu sakarefnisins samkvæmt heimild í 1. mgr. 31. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Í ákvörðun héraðsdómara sagði að fyrst yrði dæmt um hvort kröfur stefndu hefðu borist fyrir eða eftir lok vátryggingartímabilsins, nánar tiltekið hvort uppfyllt væru skilyrði H-liðar III. hluta vátryggingarsamningsins fyrir framlengdri ábyrgð áfrýjanda. Með hinum áfrýjaða dómi var viðurkennt að skilyrði H-liðarins stæðu því ekki í vegi að kröfur stefndu, eins og þær væru settar fram í stefnu, yrðu teknar til greina.
III
Gildistíma stjórnendatryggingar þeirrar sem Glitnir banki hf. keypti á árinu 2008 hjá áfrýjanda lauk 1. maí 2009. Með tölvubréfi 8. júlí 2009 tilkynnti Glitnir hf. áfrýjanda að skilanefnd bankans hefði tekið tilboði vátryggingafélagsins United Insurance Brokers (UIB) í stjórnendatryggingu. Í staðfestingu UIB 25. ágúst 2009 um þá tryggingu sagði að vátryggingartaki væri Glitnir banki hf. og vátryggðir væru vátryggingartaki og „skilanefnd Glitnis banka, slitastjórn Glitnis banka, eða sérhver önnur staða sem íslenska ríkið, Héraðsdómur Reykjavíkur, Fjármálaeftirlitið eða annað opinbert yfirvald á Íslandi skipar í tengslum við slitameðferð Glitnis banka hf.“ Þá sagði að vátryggð starfsemi væri öll fyrri, núverandi og framtíðar starfsemi hinna vátryggðu og að vátryggðir einstaklingar væru sérhver „fyrrverandi, núverandi eða framtíðar meðlimur skilanefndar og slitastjórnar Glitnis banka hf. („Gamli Glitnir Banki“), umsjónaraðili nauðasamninga, skiptastjóri, forstjóri, framkvæmdastjóri, yfirmaður eða rekstrarstjóri vátryggðs félags.“ Í staðfestingunni kom enn fremur fram að afturvirk dagsetning eða „Retroactive Date“ væri 7. október 2008.
Í bréfi UIB 13. desember 2010 kemur í upphafi fram að fyrirtækið hafi verið beðið um að upplýsa um gildissvið stjórnenda- og yfirmannatryggingar sem skilanefnd og slitastjórn Glitnis hf. hafi keypt hjá fyrirtækinu. Nýja tryggingin hafi fyrst verið tekin 1. júlí 2009, nokkrum mánuðum eftir að gamla tryggingin sem Glitnir banki hf. keypti hjá áfrýjanda féll úr gildi. Orðrétt segir að það hafi aldrei verið „tilgangurinn, yfirlýstur eða óyfirlýstur, að þessi trygging næði til eða kæmi í stað gömlu tryggingarinnar. Tryggingunni var þvert á móti augljóslega ætlað að tryggja einstaklinga sem voru meðlimir skilanefndar og slitastjórnar Glitnis og sérhverja aðra einstaklinga innan félagsins „nýi Glitnir“ sem gætu þurft að sæta persónulegri ábyrgð. Það var skýrt í huga hins vátryggða, miðlarans og vátryggjendanna að andlag vátryggingarinnar væri einungis starfsemi „nýja Glitnis“. Það hefði verið algerlega ókleift að fá tryggingu sem tryggði einnig gjörðir „gamla Glitnis“ með afturvirkum hætti.“ Sama sjónarmið var ítrekað í bréfi af hálfu Glitnis hf. 10. júní 2013 til stefndu.
IV
Ágreiningur í máli þessu er í aðalatriðum tvíþættur og lýtur að skýringu H-liðar III. hluta vátryggingarskilmála stjórnendatryggingar þeirrar sem Glitnir banki hf. keypti á árinu 2008 hjá áfrýjanda. Í fyrsta lagi er um það deilt hvort fullnægt sé því skilyrði H-liðarins fyrir framlengdum tilkynningarfresti í 72 mánuði að ekki hafi verið keypt önnur stjórnendatrygging og í öðru lagi hvaða merking skuli lögð í orðin „who retired“ í umræddum H-lið.
Hvað fyrra ágreiningsefnið varðar halda stefndu því fram að vátryggingarvernd þeirra samkvæmt stjórnendatryggingunni sem keypt var 2008 sé enn virk á grundvelli H-liðarins. Fyrir liggi að skilanefnd Glitnis hf. hafi keypt stjórnendatryggingu hjá UIB sem taki einvörðungu til þeirra sem sitji í skilanefnd eða slitastjórn bankans eða starfi á þeirra vegum. Samkvæmt því veiti nýja tryggingin fyrrum stjórnendum og yfirmönnum Glitnis banka hf. ekki vernd í skilningi H-liðarins. Sé þetta rökrétt þegar horft sé til þess að vátryggingafélög hafi væntanlega verið treg til að taka á sig nýja áhættu vegna fyrri tímabila í ljósi þess hvernig fór fyrir bankanum. Áfrýjandi heldur því á hinn bóginn fram að engu skipti hvort tryggingin sem skilanefndin keypti veiti stefndu eða öðrum fyrri stjórnendum bankans vernd því það eitt nægi að fyrir liggi ný trygging sem taki til síðari stjórnenda og skilanefnd og slitastjórn bankans falli þar undir. Þar sem slík trygging sé fyrir hendi geti stefndu ekki átt neinar kröfur á hendur áfrýjanda.
Áður er gerð grein fyrir stjórnendatryggingu þeirri sem Glitnir banki hf. keypti hjá áfrýjanda á árinu 2008. Um er að ræða svokallaða kröfugerðartryggingu en í því heiti vátryggingar felst að tilkynna verður vátryggjanda um kröfu sem fellur undir gildissvið hennar á vátryggingartímabilinu en eftir það innan tilkynningarfrests samkvæmt skilmálum tryggingarinnar. Ábyrgðartrygging sem þessi nær til krafna sem beint er að fyrirtæki eða stjórnendum þess persónulega og eiga rætur að rekja til atvika í starfsemi fyrirtækis sem virt verða starfsmönnum þess til sakar. Með vátryggingunni er meðal annars leitast við að koma í veg fyrir að stjórnendur og yfirmenn verði fyrir fjárhagslegum skaða vegna atvika sem er að rekja til starfa þeirra í þágu fyrirtækis. Þegar metið er hvort fyrir hendi er réttur til greiðslu úr kröfugerðartryggingu er samkvæmt framansögðu ekki horft til þess hvort atvik sem leiða til bótaskyldu urðu á gildistíma vátryggingarinnar heldur hvort krafa í tilefni vátryggingaratburðar er höfð uppi á gildistíma vátryggingarinnar eða innan framlengds tilkynningarfrests sé honum til að dreifa.
Stjórnendatrygging Glitnis banka hf. gilti fyrir tímabilið 1. maí 2008 til jafnlengdar 2009. Engum kröfum var beint að stefndu vegna starfa þeirra í Glitni banka hf. á vátryggingartímabilinu og gerðist það ekki fyrr en með málsóknum þeim í mars og maí 2010 sem áður var getið en þá var liðið tæpt ár frá lokum vátryggingartímabilsins. Í beinu framhaldi var áfrýjanda sem vátryggjanda tilkynnt um fram komnar kröfur á hendur stefndu. Stefndu reisa tilkall sitt til greiðslna úr vátryggingunni á ákvæðum H-liðar III. hluta vátryggingarskilmálanna og telja að á grundvelli hans hafi réttur þeirra til að krefjast greiðslna úr vátryggingunni framlengst endurgjaldslaust um 72 mánuði frá þeim degi að telja er vátryggingartímabili lauk.
Svo tilkynningarfrestur geti framlengst um 72 mánuði frá lokum vátryggingartímabils þarf fimm skilyrðum samkvæmt umræddum H-lið að vera fullnægt og þeim öllum í senn. Í fyrsta lagi því skilyrði að Glitnir banki hf. hafi hvorki endurnýjað hjá áfrýjanda upphaflega vátryggingu né keypt í hennar stað aðra sem veitir stjórnendum og yfirmönnum ábyrgðartryggingu. Í öðru lagi því skilyrði að ekki hafi verið keyptur viðbótar tilkynningarfrestur samkvæmt A-lið III. hluta vátryggingarskilmálanna. Í þriðja lagi að um sé að ræða stjórnendur og yfirmenn sem létu af störfum hjá vátryggingartaka áður en vátryggingin féll úr gildi. Í fjórða lagi að einvörðungu sé um að ræða kröfu sem hefði að öðrum kosti fallið undir gildissvið vátryggingarskírteinisins. Í fimmta lagi þarf að fullnægja því skilyrði að meðan stjórnandi eða yfirmaður starfaði hjá vátryggingartaka hafi átt sér stað háttsemi sem virt verði viðkomandi til sakar eða því sé haldið fram að slík háttsemi hafi átt sér stað.
Fyrir liggur samkvæmt því sem áður greinir að Glitnir hf. endurnýjaði ekki stjórnendatrygginguna sem Glitnir banki hf. keypti hjá áfrýjanda á árinu 2008 þegar gildistíma þeirrar tryggingar lauk. Á hinn bóginn er upplýst að Glitnir hf. keypti á árinu 2009 aðra stjórnendatryggingu hjá vátryggingarfélaginu UIB eins og áður er rakið. Var því keypt ný trygging hjá öðru vátryggingafélagi í stað hinnar upphaflegu í skilningi H-liðar III. hluta stjórnendatryggingarinnar frá 2008. Er því samkvæmt skýru og afdráttarlausu orðalagi H-liðarins ekki fullnægt því skilyrði að ekki hafi í stað upphaflegu tryggingarinnar verið keypt önnur trygging sem veitir stjórnendum og yfirmönnum ábyrgðartryggingu. Skiptir í því sambandi ekki máli þótt nýja tryggingin sé ekki að öllu leyti sama efnis og sú fyrri. Eins og áður segir þarf öllum framangreindum fimm skilyrðum að vera fullnægt í senn svo tilkynningarfrestur samkvæmt umræddum H-lið geti framlengst. Þegar af þessari ástæðu verður áfrýjandi sýknaður af kröfum stefndu í málinu.
Eftir framangreindum málsúrslitum verða stefndu dæmdir til að greiða áfrýjanda óskipt málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðst í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Tryggingamiðstöðin hf., er sýkn af kröfum stefndu, Jóns Sigurðssonar, Lárusar Welding og Þorsteins M. Jónssonar.
Stefndu greiði óskipt áfrýjanda samtals 6.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. apríl 2013.
Mál þetta var höfðað 5. október 2010 af Jóni Sigurðssyni, Unnarbraut 17, Seltjarnarnesi, Lárusi Welding, Bretlandi og Þorsteini M. Jónssyni, Laufásvegi 73, Reykjavík á hendur Tryggingamiðstöðinni hf., Síðumúla 24, Reykjavík.
Í þinghaldi 5. júlí 2012 féllst dómari á beiðni stefnda um skiptingu sakarefnis málsins samkvæmt heimild 1. mgr. 31. gr. laga nr. laga 91/1991 um meðferð einkamála. Málið var flutt um þennan þátt málsins 26. febrúar 2013 og dómtekið að því loknu. Dómsuppsaga dróst í málinu en dómari og aðilar töldu ekki þörf á að flytja málið að nýju, sbr. 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.
Dómkröfur aðila í þessu þætti málsins eru eftirfarandi:
Stefnendur krefjast þess að viðurkennt verði með dómi að skilyrði H-liðar III. hluta skilmála stjórnendatryggingar sem stefndi veitti Glitni banka hf., með gildistíma frá 1. maí 2008 til 1. maí 2009, fyrir 72 mánaða tilkynningarfresti til handa stefnendum, standi því ekki í vegi að kröfur stefnenda, eins og þær eru fram settar í stefnu verði teknar til greina. Þá krefjast stefnendur hver um sig málskostnaðar að mati dómsins.
Stefndi krefst sýknu og málskostnaðar úr hendi stefnenda in solidum að mati dómsins.
I.
Þann 7. október 2008 tók Fjármálaeftirlitið yfir vald hluthafafundar í Glitni banka hf., sem nú ber heitið Glitnir hf., samkvæmt heimild 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008. Jafnframt vék Fjármáleftirlitið stjórn bankans frá og skipaði bankanum skilanefnd.
Vorið 2008 keypti Glitnir hf. bankatryggingar af stefnda, þ.á m. svokallaða stjórnendatryggingu eða „ábyrgðartryggingu stjórnarmanna og yfirmanna“. Tryggingin tók gildi 1. maí 2008 og gilti í eitt ár eða til 1. maí 2009 og án sjálfkrafa endurnýjar eins segir í tryggingaryfirlýsingu vegna tryggingarinnar. Samkvæmt skilmálum tryggingar gekkst stefndi m.a. við því að greiða fyrir hönd stjórnarmanna og yfirmanna allt tjón sem hlýst af bótakröfu fyrir óréttmætar aðgerðir, enn fremur að greiða þeim kostnað, gjöld og útgjöld sem þeir verða fyrir vegna sérstakra málshöfðana og einnig kostnað sem þeir verða fyrir við að verjast bótakröfum vegna óréttmætra aðgerða sem tryggingin nær til. Tryggingin er svokölluð kröfugerðartrygging eða eins og segir í skilmálunum: „Þessi TRYGGING ER Á GRUNDVELLI KRÖFUGERÐARREGLU. Nema þar sem skilgreint er á annan hátt í þessari tryggingu þá dekkar hún einungis BÓTAKRÖFUR sem fyrst voru gerðar á hendur STJÓRNARMÖNNUM OG YFIRMÖNNUM Á TRYGGINGAR-TÍMABILINU. Í III. kafla skilmálanna sem ber yfirskriftina „VIÐBÓT VIÐ VÁTRYGGINGARVERND“, er finna þess háttar undanþágur frá aðalreglunni um að hún gildi um kröfur sem gerðar eru á vátryggingartíma. Þar er m.a. í A-lið kveðið á um skilyrði tilkynningarfrest er bætist sjálfkrafa við „VÁTRYGGINGARTÍMA“ án viðbótariðgjalds og í H-lið undir yfirskriftinni „Fyrri stjórnarmenn“ er ákvæði um skilyrði 72 mánaða tilkynningarfrest frá þeim degi að telja sem vátryggingarskírteinið var ekki endurnýjað.
Stefnendurnir Jón Sigurðsson og Þorsteinn M. Jónsson eru fyrrum stjórnarmenn Glitnis banka hf. Þeir voru kosnir í stjórn félagsins á hluthafafundi 30. apríl 2007. Á stjórnarfundi sama dag var Þorsteinn kjörinn formaður stjórnar en Jón varaformaður. Þorsteinn vék úr stjórn bankans að loknum hluthafafundi 20. febrúar 2008. Jón átti sæti í stjórn bankans þangað til Fjármálaeftirlitið tók yfir vald hluthafafundar bankans 7. október 2008. Stefnandinn Lárus Welding er fyrrum forstjóri Glitnis. Hann undirritaði ráðningarsamning við bankann 30. apríl 2007 og hóf störf degi síðar. Hann var enn forstjóri bankans þegar Fjármálaeftirlitið tók yfir vald hluthafafundar bankans 7. október 2008 og gegndi starfi sínu eitthvað áfram eða þar til í lok október s.á. Ágreiningur er á milli aðila hvenær nákvæmlega og hvernig starfslok hans bar að.
Stefnendur eiga það allir sameiginlegt að hafa tekið til varna fyrir dómstólum vegna skaðabótamála sem Glitnir hf. höfðaði á hendur þeim, bæði hér á landi og fyrir dómstól í New York í Bandaríkjunum.
Með bréfi dagsettu 10. júní 2010 frá lögmanni Glitnis hf. til lögmanns stefnenda vegna fyrirspurnar þess síðarnefnda um vátryggingarmál Glitnis hf. staðfesti lögmaðurinn að Glitnir hf. væri með stjórnendatryggingu hjá stefnda. Vátryggingartímabilið samkvæmt vátryggingarskírteininu væri frá 1. maí 2008 til 1. maí 2009. Stefndi hefði í samskiptum við Glitni hf. áskilið sér allan rétt varðandi gildi tryggingarinnar eftir hrun bankans 7. október 2008 en það mál væri enn óútkljáð. Þá kemur fram að viðræður hafi átt sér stað milli Glitnis hf. og stefnda um hugsanlega endurnýjun tryggingarinnar en að þær hafi verið árangurslausar og ekki leitt til framlengingar eða endurnýjunar tryggingarinnar hjá stefnda. Þá staðfesti lögmaður Glitnis hf. í bréfinu að félagið hefði tekið nýja tryggingu hjá öðrum vátryggjanda. Gildistími þeirrar tryggingar væri frá þeim degi þegar Fjármálaeftirlitið hefði tekið yfir stjórn Glitnis hf. eða þann 8. október 2008. Tryggingin tæki einvörðungu til þeirra aðila sem skipaðir hefðu verið í skilanefnd bankans og í slitastjórn bankans auk þeirra stjórnenda Glitnis hf. sem hefðu starfað á vegum skilanefndar og/eða slitastjórnar eftir að Fjármálaeftirlitið tók yfir bankann.
Stefnendur tilkynntu stefnda 14. maí 2010 með tölvubréfi um fram komnar kröfur á hendur stefnendum. Í bréfinu var lýst þeim skilningi stefnenda að framangreindar kröfur, auk kostnaðar vegna málsvarnar stefnenda, féllu undir fyrrgreinda stjórnendatryggingu Glitnis hjá stefnda. Með bréfi, dagsettu 25. maí 2010, hafnaði stefndi því að framangreindar kröfur á hendur stefnendum féllu undir trygginguna. Aðilar málsins áttu í frekari samskiptum í kjölfarið en ágreiningur þeirra varð ekki jafnaður.
Stefnendur höfðuðu því mál þetta til staðfestingar á greiðsluskyldu stefnda samkvæmt ákvæðum stjórnendatryggingarinnar. Stefnukröfur stefnenda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda Jóni Sigurðssyni 67.788,70 Bandaríkjadali, Lárusi Welding 62.096,39 Bandaríkjadali og 2.910.031 krónu og stefnanda Þorsteini M. Jónssyni 67.788,70 Bandaríkjadali. Allir krefjast þeir dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 14. júní 2010 til greiðsludags.
Í stefnu er á því byggt að samkvæmt ákvæðum stjórnendatryggingar Glitnis hf. beri stefnda að greiða þeim allan kostnað sem þeir hafi þegar orðið fyrir og muni verða fyrir vegna framangreindra málshöfðana á hendur þeim hér á landi og í Bandaríkjunum. Málið sé höfðað til að fá skorið úr um greiðsluskyldu stefnda án þess að sú krafa taki til alls áfallins kostnaðar en stefnendur áskilja sér rétt til að koma að frekari kröfum með framhaldsstefnu eða í öðru dómsmáli. Á þessu stigi sé ekki krafist viðurkenningar á bótaskyldu stefnda komi til þess að stefnendur verði taldir bótaskyldir vegna starfa þeirra hjá Glitni banka hf.
Stefnendur byggja málsóknina m.a. á því að vernd þeirra samkvæmt tryggingunni sé enn virk. Hún hafi framlengst um 72 mánuði frá 1. maí 2009 að telja á grundvelli fyrrgreinds H-liðar III. kafla skilmála stjórnendatryggingarinnar. Stefndi mótmælir því alfarið. Hann heldur því fram að kröfur stefnenda hafi borist eftir lok vátryggingartímabilsins. Kaup Glitnis hf. á nýju tryggingunni hafi einnig ein og sér þau áhrif að ekki verði um neina slíka framlengingu á vátryggingarvernd stefnanda að ræða. Skilyrði vátryggingarverndar samkvæmt ákvæðinu sé enn fremur að viðkomandi stjórnandi hafi farið á eftirlaun eða hætt störfum sjálfviljugur.
II.
Eins og áður sagði varð dómari við þeirri ósk stefnda í þinghaldi 5. júlí sl. að skipta sakarefni málsins þannig að fyrst yrði dæmt um hvort uppfyllt væru skilyrði H-liðar III. hluta skilmála vátryggingarsamnings fyrir framlengdri ábyrgð stefnda. Það var mat dómara að skipting sakarefnisins með þeim hætti fæli í sér réttarfarslegt hagræði þar sem skiptingin myndi einfalda og létta meðferð málsins sem er bæði flókið og umfangsmikið. Í þessum þætti málsins er því til úrlausnar ágreiningur aðila um túlkun H-liðar III. hluta skilmála stjórnendatryggingar sem stefndi veitti Glitni banka hf., með gildistíma frá 1. maí 2008 til 1. maí 2009, þ.e. túlkun skilyrða ákvæðisins fyrir 72 mánaða tilkynningarfresti til handa stefnendum. Nánar tiltekið hvort fyrrgreindur samningsskilmáli standi því í vegi að kröfur stefnenda, eins og þær eru fram settar í stefnu verði teknar til greina á meðan þeir þættir málsins sem krefjast m.a. viðamikillar sönnunarfærslu fyrir dóminum bíða. Í þessum þætti málsins kemur því ekki til skoðunar hvort upplýsingaskylda hafi verið vanrækt við töku tryggingarinnar, hvort vátryggingarsamningurinn sé ógildur eða ógildanlegur, hvort honum hafi verið sagt upp eða rift, hvort skilyrði um undanþágu um peningaþvætti og óheiðarlega, sviksamlega háttsemi og/eða persónulegan ávinning stefnanda eða annarra vátryggðra í viðauka við skilmála tryggingarinnar eigi við, ábyrgð sé fallin niður þar sem stefnendur hafi valdið vátryggingaratburði og álitaefni um sönnun á tjóni stefnenda o.fl. eins og stefndi heldur einnig fram í málinu.
Skilmálar stjórnendatryggingarinnar sem deilt er um í málinu eru á ensku. Ákvæðið sem ágreiningurinn í þessum þætti snýst um ber yfirskriftina „Previous Directors“ og hljóðar svo á ensku: „If the COMPANY does not renew or replace this Policy with any other policy affording directors and officers liability cover and a Discovery Period is not elected, a Discovery Period of 72 months after the date of such non-renewal will be proveded under this Policy against any DIRECTOR or OFFICER who retired before the date of non-renewal and which CLAIM is otherwise covered by this Policy. Coverage only applies for WRONGFUL ACTS committed or alleged to habe been committed while such DIRECTOR or OFFICER was employed by the COMPANY.“
Stefndi hefur lagt fram þýðingar á þeim hlutum skilmála vátryggingarinnar sem byggt er á í málinu, þ. á m. á framangreindu ákvæði H-liðar III. hluta, en frá upphafi gerðu stefnendur athugasemdir við þá þýðingu. Stefnendur öfluðu þýðingar löggilts skjalaþýðanda á hinu umdeilda ákvæði, þ.e. H-liðnum, þar sem þeir voru ósáttir við þýðinguna sem stefndi aflaði og lögðu hana fram í þinghaldi 13. nóvember 2012. Lögmaður stefnda áréttaði þá að þýðingin sem stefndi hefði lagt fram væri rétt þýðing en honum var veittur frestur til að kynna sér þýðingu stefnenda. Í þinghaldi 18. janúar sl. lýsti lögmaður stefnda því yfir að hann hefði orðið þess áskynja að þýðandinn sem hann hefði lagt fram þýðingar frá væri ekki enn orðinn löggiltur skjalaþýðandi eins og stefndi hefði talið. Aðilar voru sammála um að þetta hefði ekki þýðingu í þessum þætti málsins. Í sama þinghaldi lögðu bæði stefnendur og stefndi fram þýðingar fleiri en eins löggiltra skjalaþýðenda á ákvæði H-liðar ásamt hugleiðingum þeirra um hvernig þýða beri orðin „who retired“. Í þinghaldi 22. janúar sl. fór dómari m.a. yfir þýðingar í málinu og innti aðila eftir því með vísan til 3. mgr. 10. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála hvort þeir hefðu komið sér saman um rétta þýðingu á skilmálum tryggingarinnar. Aðilar lýstu því yfir að ekki væri ágreiningur um þýðinguna sem stefndi hefði lagt fram á skilmálunum og að leggja bæri til grundvallar þá þýðingu að því undanskildu að þeir deildu enn um þýðingu H-liðar III. hluta skilmálanna. Dómari beindi því til lögmanna aðila, með vísan til 3. mgr. 10. gr. laga nr. 91/1991, að þar sem aðilar hefðu ekki komið sér saman um rétta þýðingu á H-liðnum bæri að leggja til grundvallar þýðingu löggilts skjalaþýðanda. Lögmaður stefnenda kvaðst þegar hafa lagt fram þýðingu löggilts skjalaþýðanda á H-liðnum. Lögmaður stefnda óskaði eftir fresti til að bregðast við þessu en áréttaði þann skilning hans að í síðasta þinghaldi hefði komið fram að ekki ágreiningur um þýðingu H-liðar í þessum þætti málsins. Dómari benti þá á að fyrir lægi að aðilar hefðu ekki komið sér saman um þýðingu H-liðar III. hluta og báðir aðilar hefðu lagt fram þýðingar löggiltra skjalaþýðenda á umdeildu ákvæði. Þýðing H-liðar sem ekki hefði verið unnin af löggiltum skjalaþýðandi gæti því ekki komið til álita. Með vísan til framanritaðrar ákvörðunar undir rekstri málsins og samkvæmt 3. mgr. 10. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er hér lögð til grundvallar þýðing hins löggilta skjalaþýðanda á H-lið III. hluta skilmála tryggingarinnar sem stefnendur lögðu fram. Sú þýðing á orðunum „who retired“ samræmist þýðingum annarra löggiltra skjalaþýðanda á ákvæðinu sem báðir aðilar öfluðu og lögðu fram en þeir hafa ýmist þýtt hugtakið sem „sem lét af störfum“ eða „sem hætti störfum“. Að öðru leyti er í samræmi við samkomulag aðila lögð til grundvallar þýðingin sem stefndi lagði fram á skilmálum tryggingarinnar.
Hið umdeilda ákvæði ber yfirskriftina „Fyrri stjórnarmenn“ og hljóðar svo: „Ef FÉLAGIÐ endurnýjar hvorki þetta vátryggingarskírteini né kaupir annað vátryggingarskírteini í staðinn sem veitir stjórnarmönnum og yfirmönnum ábyrgðartryggingu og tilkynningarfrestur er ekki valinn, þá verður tilkynningarfrestur veittur samkvæmt þessu vátryggingarskírteini sem nemur 72 mánuðum frá þeim degi að telja sem vátryggingarskírteinið var ekki endurnýjað, en á þeim tíma má tilkynna VÁTRYGGJENDUNUM skriflega um sérhverja KRÖFU sem gerð er í fyrsta sinn á hendur einhverjum STJÓRNARMANNI eða YFIRMANNI sem lét af störfum fyrir þann dag sem vátryggingarskírteinið var ekki endurnýjað, enda falli umrædd KRAFA að öðru leyti undir gildissvið þessa vátryggingarskírteinis. Vátryggingin nær einungis til ÓLÖGMÆTRA ATHAFNA sem framkvæmdar eru eða sem haldið er fram að hafi verið framkvæmdar á meðan slíkur STJÓRNARMAÐUR eða YFIRMAÐUR starfaði hjá FÉLAGINU.“
III.
Verður nú gerð grein fyrir málsástæðum aðila. Kröfur stefnenda byggja á þeirri málsástæðu að vernd þeirra samkvæmt stjórnendatryggingunni sé enn virk á grundvelli H-liðar III. hluta skilmála tryggingarinnar. Stefnendur vísa til þess að samkvæmt ákvæðinu framlengist ábyrgð stefnda gagnvart fyrrum stjórnendum félagsins um 72 mánuði hafi tryggingin hvorki verið endurnýjuð eða gengið frá nýjum samningi fyrir gildistöku né keypt sérstök framlenging sem tryggi stjórnendum fullnægjandi vernd. Framlengingin taki til þeirra stjórnenda sem hætti áður en tryggingin hefði fallið úr gildi samkvæmt upphaflegum gildistíma sínum og kröfur á hendur þeim falli að öðru leyti undir gildissvið tryggingarinnar. Framlengingin taki jafnframt aðeins til ólögmætrar háttsemi sem stjórnendur hafi orðið uppvísir að eða séu sakaðir um og eigi að hafa átt sér stað meðan þeir hafi gegnt störfum fyrir vátryggingartaka.
Stefnendur segja upplýst að í gildi sé stjórnendatrygging hjá Glitni hf. sem hafi tekið gildi er Fjármálaeftirlitið hafi tekið yfir vald hluthafafundar bankans og skipað honum skilanefnd. Lögmaður bankans hafi staðfest að sú trygging taki eingöngu til þeirra aðila sem sitji í skilanefnd eða slitastjórn bankans eða starfað hafi á þeirra vegum. Það sé rökrétt þegar horft sé til þess að vátryggingafélög hafi væntanlega verið treg til að taka á sig nýja áhættu vegna fyrri tímabila í ljósi þess hvernig hafi farið fyrir bankanum. Síðastnefnd trygging verði þar af leiðandi ekki talin hafa veitt fyrrum stjórnendum Glitnis vernd í skilningi framangreinds ákvæðis H-liðar III. hluta skilmálanna.
Stefnendur mótmæla þeim sjónarmiðum stefnda að það geti engu skipt hvort þessi síðari trygging Glitnis veiti stefnendum eða öðrum fyrri stjórnendum vernd eða ekki. Þar sem slík trygging sé fyrir hendi í dag geti stefnendur ekki átt neina kröfu á hendur stefnda.
Stefnendur segja þessar skýringar stefnda hvorki í samræmi við orðalag né tilgang ákvæðisins. Það sé eðli trygginga af þessum toga að stjórnendur njóti verndar á grundvelli þeirrar tryggingar sem í gildi sé hverju sinni, óháð því hvort atvik sem kröfur séu reistar á hafi átt sér stað á gildistíma þeirrar tryggingar. Í ákvæðinu sé tiltekið hvað gerist ef trygging er ekki endurnýjuð eða ný sambærileg trygging tekin eða ef samkomulag tekst ekki um framlengingu þeirra fresta sem gefnir eru til að tilkynna um kröfur í trygginguna. Við þær kringumstæður geti fyrrum stjórnendur eftir sem áður komið að kröfum í allt að 72 mánuði frá lokum gildistíma stjórnendatryggingarinnar.
Með ákvæðinu sé tekið á þeirri stöðu sem kunni að koma upp gagnvart fyrrum stjórnendum ef síðari stjórnendur fyrirtækis ákveða að leita ekki trygginga gegn þessari áhættu eða ef slíkir samningar takast ekki. Ef þessi aðstaða leiddi til brottfalls þeirrar verndar sem stjórnendur hafi notið vegna verka sinna í þágu fyrirtækisins sé ljóst að réttarverndin væri í reynd afar takmörkuð. Fyrrum stjórnendur séu ekki í stöðu til að tryggja að þessum vátryggingum verði viðhaldið og sú vernd sem þeir hafi talið sig njóta í fyrri verkum gæti samkvæmt þessu fallið niður án fyrirvara. Án efa sé algengast að kröfur komi fram nokkru eftir að þau atvik hafi átt sér stað sem talin eru grundvöllur kröfunnar.
Stefnendur halda því fram vátryggingar af þessu tagi hefðu takmarkað gildi fyrir stjórnendur ef réttarverndin væri að þessu leyti háð síðari gerðum stjórnenda. Þvert á móti taki ákvæði H-liðar III. hluta skilmálanna einmitt til þessara aðstæðna. Skýring stefnda sé ekki í samræmi við þá staðreynd að hvort heldur sem er endurnýjun vátryggingarinnar eða framlenging þess tímabils sem unnt sé að setja fram kröfu á grundvelli tryggingarinnar myndi tryggja hagsmuni fyrrum stjórnenda og þar með stefnenda. Það skjóti því skökku við að allt annað eigi að gilda um þau tilvik þar sem síðari stjórnendur ákveði að leita nýrrar vátryggingar. Í slíkum tilvikum væri hægt að rjúfa öll tengsl við atvik frá fyrri vátryggingartímabilum, án þess að 72 mánaða frestur samkvæmt ákvæðinu verði virkur fyrir fyrrum stjórnendur. Hafi þetta verið ætlun stefnda sé ljóst að nauðsynlegt hefði verið að orða það afdráttarlaust í ákvæðinu.
Stefnendur segja skýringu stefnda á því hvað felist í því að hafa látið af störfum, þ.e. orðinu „retired“ sé langsótt, þ.e. að það taki eingöngu til þeirra sem láti af störfum að eigin frumkvæði. Samkvæmt þessu taki það ekki til starfsmanna og/eða stjórnarmanna sem hætt hafi störfum hjá Glitni hf. þegar bankanum hafi verið skipuð skilanefnd. Stefnendur telja hins vegar ljóst að hér sé vísað til starfsloka óháð því með hvaða hætti þau beri að. Leiki einhver vafi á því hvernig skýra beri ákvæðið að þessu leyti beri að skýra slíkan vafa stefnendum í hag. Stjórnarmenn séu kjörnir á aðalfundi og þeir láti sjaldnast af þeim störfum að eigin frumkvæði. Ágreiningslaust sé að stjórnendatryggingin taki til stjórnarmanna. Af framsetningu stefnda ætti þá að leiða að stjórnarmenn nytu alla jafna ekki verndar á grundvelli H-liðar III. hluta skilmálanna, nema þá e.t.v. í tilvikum þar sem þeir láti sjálfir af störfum á milli aðalfunda. Slík niðurstaða sé ekki tæk og ekki í samræmi við þá staðreynd að enginn greinarmunur sé gerður á þeirri vernd sem stjórnarmenn eða aðrir stjórnendur njóti samkvæmt tryggingunni. Þeir hagsmunir sem H-lið sé ætlað að vernda séu ekki síst þeirra stjórnenda sem láti óviljugir af störfum.
Af ákvæði H-liðar III. hluta leiði að fyrrum stjórnendur geti í 72 mánuði eftir lok vátryggingartímabilsins gert kröfu í trygginguna, að öðrum skilyrðum uppfylltum. Ekki þurfi að koma til samþykki vátryggjanda fyrir umræddu tímabili eða sérstök greiðsla af hálfu vátryggingartaka. Engan slíkan fyrirvara sé að finna í ákvæðinu. Það sé eðlilegt þegar horft sé til þess að ákvæðinu sé sýnilega ætlað að auka réttarvernd fyrrum stjórnenda með því að tryggja að þeir séu ekki háðir ákvörðunum síðari stjórnenda vátryggingartaka um endurnýjun trygginga.
Fram kemur í stefnu að stefnendur höfði málið í félagi með vísan til heimildar í 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála enda séu kröfur stefnenda á hendur stefndu að rekja til sömu atvika og sama löggernings. Krafa um málskostnað er byggð á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Stefndi heldur því fram að stjórnendatryggingin taki ekki til krafna stefnenda þar sem þær hafi borist eftir lok vátryggingartímabilsins. Óumdeilt sé að stjórnendatryggingin taki einungis til tjóns vegna krafna sem hafðar séu uppi á hendur vátryggðum á vátryggingartímabilinu, svo sem fram komi í upphafsorðum skilmála hennar, þ.e. hún sé kröfugerðartrygging. Vátryggingartímabil tryggingarinnar hafi verið frá 1. maí 2008 til 1. maí 2009. Engum kröfum virðist hafa verið beint að stefnendum fyrr en með málsóknum á hendur þeim í apríl og maí 2010, en þá hafi verið liðið um eitt ár frá lokum vátryggingartímabilsins. Stefnendur eigi því ekki rétt á bótum úr stjórnendatryggingunni.
Stefndi hafnar því m.ö.o. að H-liður III. hluta skilmála stjórnendatryggingarinnar taki til krafna stefnenda og að þeir njóti 72 mánaða viðbótarverndar á grundvelli ákvæðisins. Meginreglan samkvæmt skilmálum tryggingarinnar sé sú að til ábyrgðar stefnda geti einungis komið ef (auk annarra skilyrða) kröfur berast á vátryggingartímabilinu. Frá þessu sé gerð undantekning í H-lið III. hluta tryggingarinnar þar sem veitt sé viðbótarvernd ef vátryggður getur sýnt fram á að tiltekin skilyrði séu öll uppfyllt. Í fyrsta lagi þurfi hann að sýna fram á að vátryggingartaki hafi hvorki endurnýjað stjórnendatrygginguna né tekið einhverja aðra tryggingu sem veiti stjórnendum vernd. Í öðru lagi megi ekki hafa verið keypt framlenging verndar, samkvæmt A-lið III. hluta skilmálanna. Í þriðja lagi þurfi vátryggðir að hafa hætt störfum. Í fjórða lagi taki framlengingin aðeins til krafna sem annars hefðu notið verndar stjórnendatryggingarinnar. Í fimmta lagi þurfi saknæm háttsemi sem leiði til kröfunnar að hafa átt sér stað þegar vátryggður hafi verið starfsmaður vátryggingartaka. Öll þessi skilyrði þurfi að vera uppfyllt svo að til viðbótarverndar geti komið. Þar sem um undantekningu frá meginreglu sé að ræða beri að skýra hana þröngt en stefnendur beri sönnunarbyrðina fyrir því að ákvæðið taki til þeirra, sbr. orðið „Ef“ í upphafi ákvæðisins.
Stefndi telur ljóst að skilyrði ákvæðisins séu ekki uppfyllt í tilviki stefnenda og því hafi þeim ekki verið veitt umrædd 72 mánaða viðbótarvernd.
Í fyrsta lagi hafi Glitnir hf. keypt nýja stjórnendatryggingu, með gildistíma frá 8. október 2008. Hið rúma orðalag ákvæðisins, og tilvísun þess til stjórnenda almennt (stjórnarmanna og yfirmanna) með lágstöfum og án greinis feli í sér að kaup Glitnis hf. á nýrri tryggingu, sem nái til stjórnenda Glitnis hf., leiði til þess að stefnendur eigi engan rétt á greiðslu úr stjórnendatryggingunni hjá stefnda, þar sem einhver önnur ábyrgðartrygging hafi verið keypt fyrir stjórnendur Glitnis hf. Þegar af þeirri ástæðu að Glitnir hf. hafi keypt „einhverja aðra ábyrgðartryggingu fyrir stjórnendur“ sé ljóst að skilyrði H-liðar III. hluta skilmálanna séu ekki uppfyllt. Samkvæmt ákvæðum H-liðar III. hluta skilmálanna skipti engu máli hvert sé gildissvið hinnar nýju tryggingar Glitnis hf., þar sem nægjanlegt sé að hún taki til stjórnenda Glitnis hf. til þess að ekki komi til 72 mánaða viðbótarverndar. Því sé rangt að það sé skilyrði fyrir því að viðbótarvernd falli niður, að hin nýja trygging taki til fyrrum stjórnenda. Ekkert slíkt sé gert að skilyrði í H-lið III. hluta skilmálanna.
Þegar vísað sé til „vátryggðra“ í skilmálunum sé alltaf notast við hugtökin „STJÓRNARMENN OG YFIRMENN“ með hástöfum. Það sé ekki gert í H-lið III. hluta skilmálanna („sem veitir stjórnarmönnum og yfirmönnum ábyrgðartryggingu“), enda sé alls ekki verið að vísa til vátryggðra í því sambandi.
Stefnendur hafi heldur ekki sýnt fram á að þeir falli ekki undir skilgreininguna á vátryggðum í nýju tryggingu Glitnis. Því sé hugsanlegt að stefnendur eigi með réttu að beina kröfum að öðrum vátryggjanda. Stefndi áréttar þó sérstaklega að það sé ekki skilyrði fyrir því að stefndi sé laus úr ábyrgð að stefnendur falli undir þá tryggingu eða aðra tryggingu yfirleitt. Í því sambandi bendir stefndi á að í stefnu komi fram að stefnandi Lárus Welding hafi starfað fyrir slitastjórn Glitnis hf. eftir hrun bankans. Þá komi fram í stefnunni að hin nýja trygging sem Glitnir hf. hafi keypt taki til starfsmanna slitastjórnarinnar. Það sé því ljóst að stefnandi Lárus njóti verndar annarrar tryggingar sem Glitnir hf. hafi tekið síðar hjá öðrum vátryggjanda en stefnda. Hann geti því ekki notið verndar undir þeirri tryggingu sem til skoðunar sé í þessu máli.
Stefndi bendir einnig á að stjórnendatrygging sé ekki lögboðin skyldutrygging á Íslandi. Hún hafi verið keypt til hagsbóta fyrir Glitni hf. ekki síður en stjórnendur hans. Þannig komi fram í tölulið 2 í I. hluta skilmála stjórnendatryggingarinnar að Glitnir hf. eigi rétt til bóta úr stjórnendatryggingunni vegna tjóns sem sé afleiðing kröfu vegna saknæmrar háttsemi stjórnenda bankans og Glitni hf. sé heimilt eða skylt að greiða.
Samkvæmt ákvæðum H-liðar III. hluta skilmálanna hafi Glitni hf. vitaskuld verið heimilt að kaupa aðra tryggingu og að ákveða við þau kaup hvort fyrrverandi stjórnendur félagsins féllu undir hina nýju tryggingu eða ekki. Sú heimild sé sjálfsögð og eðlileg í þessu tilliti enda sé Glitnir hf. vátryggingartaki og hafi sem slíkur ákvörðunarvald yfir því hvaða tryggingar hann kaupi, fyrir hvern og hvenær. Stefndi fái ekki skilið og mótmæli þeirri ráðagerð stefnenda sem fram komi í stefnu að stefnendur telji sig nánast eiga heimtingu á því að njóta vátryggingarverndar. Sú sé ekki raunin.
Stefndi segir að ákvæði skilmála stjórnendatryggingarinnar séu skýr að þessu leyti og í þeim komi hvergi fram sá skilningur sem stefnendur virðist byggja á að stefnendur ættu þá að njóta vátryggingarverndar hjá stefnda ef Glitnir hf. tekur ekki nýja tryggingu fyrir þá. Ákvæðum H-liðar III. hluta skilmálanna hafi öðrum þræði verið ætlað að taka af öll tvímæli um að kaupi vátryggingartaki (í þessu tilviki Glitnir hf.) nýja tryggingu, en vilji af einhverjum ástæðum ekki að fyrrum stjórnendur njóti hennar, t.d. vegna þess að fyrri háttsemi þeirra stjórnenda gerði Glitni hf. ómögulegt að kaupa slíka tryggingu, þá breyti það engu um að 72 mánaða viðbótarverndin gildi ekki.
Ef tilgangur aðila hefði hins vegar verið sá að stefnendur nytu framlengingar í 72 mánuði, nema Glitnir tæki nýja tryggingu sem tæki til stefnenda, þá hefði ákvæði H-liðar III. hluta skilmálanna einfaldlega verið orðað með slíkum hætti. Það hafi ekki verið gert, heldur sé þvert á móti tekið fram í H-lið III. hluta skilmálanna að kaup á öðru vátryggingarskírteini leiði til þess að 72 mánaða viðbótarvernd verði ekki veitt. Hvað sem framangreindu líði hafi engar sannanir verið lagðar fram af hálfu stefnenda til staðfestingar því að Glitnir hf. hafi ekki endurnýjað stjórnendatrygginguna eða látið einhverja aðra tryggingu, sem nái til stjórnenda, koma í hennar stað, svo vísað sé til orðalags H-liðar III. hluta skilmálanna. Stefnendur verði að bera hallann af þeim sönnunarskorti samkvæmt skýru orðalagi ákvæðisins.
Í öðru lagi byggir stefndi á því að undantekningarákvæði H-liðar III. hluta skilmála tryggingarinnar taki einungis til stjórnenda sem hafi hætt störfum / farið á eftirlaun. Orðið „retired“ á ensku þýði einfaldlega „að fara á eftirlaun“. Stefnendur fullnægi ekki því skilyrði, þar eð þeir hafi ekki farið á eftirlaun.
Hvað sem því líði, og jafnvel þótt gengið yrði svo langt að telja að „retired“ vísi aðeins til þess að hætta störfum, þá sé það skilyrði fyrir vátryggingarvernd í þessu tilviki að viðkomandi einstaklingur hafi sjálfviljugur tekið þá ákvörðun, sem ákvæðið lýtur að, sbr. orðin „who retired“. Með öðrum orðum sé það skilyrði fyrir vátryggingarvernd í þessu tilviki að viðkomandi einstaklingur hafi sjálfviljugur tekið þá ákvörðun sem ákvæðið lúti að. Ákvæðið sé afar skýrt að þessu leyti og ekkert rými fyrir vangaveltur eða vafa um merkingu þess.
Ákvæðið taki því ekki til stjórnenda sem vikið hafi verið frá störfum eða aðgerða gegn vilja þeirra, svo sem við aðstæður eins og þær sem uppi hafi verið við fall Glitnis haustið 2008. Stefnanda Jóni Sigurðssyni hafi verið vikið frá störfum þegar bankanum hafi verið skipuð skilanefnd. Stefnanda Lárusi Welding hafi verið vikið frá störfum skömmu síðar. Sá brottrekstur geti ekki með nokkru móti talist hafa verið sjálfviljug háttsemi stefnanda Lárusar. Einstaklingur sem rekinn hafi verið úr starfi geti ekki haldið því fram að hann hafi hætt störfum. Þessi skilningur á ákvæðinu sé eðlilegur, enda eðlilegt að stefndi beri ekki framlengda ábyrgð á fyrrverandi stjórnendum hafi vátryggingartaki kosið að víkja þeim frá störfum.
Stefndi hafnar þeim málatilbúnaði stefnenda að stjórnarmenn í félagi láti sjaldnast af störfum að eigin frumkvæði og að ef skilningur stefnda væri réttur ættu engir stjórnarmenn rétt til bóta nema þeir hættu störfum milli aðalfunda. Það felist í eðli stjórnarstarfa að þau séu tímabundið starf, og stjórnarmenn taki við stöðunni á þeirri forsendu. Sú staða að stjórnarmaður hætti í stjórn með hefðbundnum hætti við lok kjörtímabils sé gjörólík því þegar einstaklingur sé rekinn úr stöðu sinni.
Stefndi mótmælir einnig þeim fullyrðingum stefnenda að H-lið III. hluta skilmála tryggingarinnar sé ætlað að vernda hagsmuni þeirra stjórnenda sem fari óviljugir frá störfum. Þessi túlkun stefnenda eigi sér ekki nokkra stoð í skilmálum stjórnendatryggingarinnar eða þeim röksemdum sem búi að baki stjórnendatryggingunni. Þvert á móti sé eðlilegt að þeir stjórnendur, sem sagt sé upp eða reknir séu úr stöðum sínum af einhverjum ástæðum, njóti lakari kjara en þeir stjórnendur sem áfram sitji eða hætti af sjálfsdáðum. Vátryggjendur vilji eðli máls samkvæmt ekki veita brottreknum stjórnendum framlengingu á kröfugerðar vátryggingu, nema hugsanlega eftir atvikum gegn greiðslu frekara iðgjalds, vegna þess að slíkir stjórnarmenn séu líklegri til að sækja í trygginguna. Hefðu brottreknir stjórnendur átt að njóta sömu kjara að þessu leyti og þeir sem lokið hefðu störfum af sjálfsdáðum hefði ákvæði H-liðar III. hluta skilmálanna verið orðað með öðrum hætti. Stefnendur hafi engin rök fært fyrir þeirri kröfu að þeir eigi að njóta ókeypis framlengingar á vátryggingarvernd hjá stefnda, hvað þá í 72 mánuði. Hér beri að hafa í huga að ákvæði H-liðar III. hluta skilmálanna sé undantekningarákvæði um 72 mánaða viðbótarvernd við sérstakar aðstæður sem stefnendur beri sönnunarbyrðina fyrir að séu uppi. Það sé ekki verið að svipta stefnendur neinum rétti heldur sé það svo að stefnendur hafi ekki sannað að öll skilyrði viðbótarverndar séu uppfyllt.
Loks byggir stefndi einnig á því að við fall Glitnis hf. haustið 2008 hafi áhætta stefnda samkvæmt tryggingunni aukist gríðarlega. Það hafi aldrei verið ætlun aðila málsins og Glitnis hf. að stefnda væri skylt að veita stefnendum og öðrum vátryggðum viðbótarvernd við slíkar aðstæður. Stefnendur hefðu getað óskað eftir tryggingu á almennum markaði hefðu þeir kosið. Það hafi þeir ekki gert og verði að bera hallann af því.
Stefndi byggir á almennum óskráðum reglum samningaréttar um skuldbindingargildi samninga. Hvað varðar skýringu og túlkun vátryggingarskilmálanna byggir stefndi á því að fullt jafnræði hafi verið milli stefnda og Glitnis við töku tryggingarinnar. Andskýringarreglu vátryggingaréttar og samningaréttar verði því ekki beitt í málinu. Krafa um málskostnað byggist á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa stefnda um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er byggð á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Stefndi sé ekki virðisaukaskattskyldur, sbr. 9. tölulið 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt, og sé því nauðsynlegt að taka tillit til virðisaukaskattsins við ákvörðun málskostnaðar.
IV.
Óumdeilt er að umrædd trygging sem Glitnir hf. tók hjá stefnda vorið 2008 og gilti frá 1. maí 2008 til 1. maí 2009 var ekki endurnýjuð og að Glitnir hf. keypti nýja ábyrgðartryggingu stjórnarmanna og yfirmanna hjá tryggingafélaginu UIB Nordic AB sem tók gildi 1. júlí 2009. Við flutning málsins byggði lögmaður stefnenda enn fremur á því að skorið hefði verið úr um það með dómi Hæstaréttar, sem kveðinn var upp 14. febrúar 2013 í máli nr. 390/2012, að því skilyrði H-liðar III. hluta skilmálanna að ekki hefði verið valinn tilkynningarfrestur, væri einnig fullnægt. Samkvæmt dóminum lægi ljóst fyrir að Glitnir hf. hefði ekki fullnægt skilyrðum til þess að kaupa viðbótartilkynningarfrest samkvæmt A-liðum III. hluta skilmála. Af hálfu lögmanns stefnda var því haldið fram að það væri ekki alveg útkljáð fyrir dómstólum hvort Glitnir hf. hefði keypt viðbótartilkynningarfrest samkvæmt A-liðum III. hluta tryggingarskilmálanna. Því til stuðnings vísaði lögmaður stefnda til þess að með fyrrgreindum dómi Hæstaréttar hefði varakröfu Glitnis hf., þess efnis að viðurkennt yrði að stefnda væri skylt að selja Glitni hf. allt að 72 mánaða tilkynningarfrest, verið vísað frá. Í greinargerð stefnda er ekki á því byggt að tilkynningarfrestur hafi verið valinn, enda ljóst af kröfugerð stefnda og öðrum atvikum í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar sem kveðinn var upp 14. febrúar sl., að stefndi er þeirrar skoðunar að sú sé alls ekki raunin, þ.e. að Glitnir hf. hafi fullnægt skilyrðum A-liðar III. hluta vátryggingarskilmálanna til kaupa á viðbótartryggingarvernd. Ber því að leggja til grundvallar að tilkynningarfrestur hafi ekki verið valinn í skilningi H-liðar III. hluta vátryggingarskilmálanna.
Kemur þá til skoðunar þýðing nýju stjórnendatryggingarinnar sem Glitnir hf. keypti hjá UIB Nordic AB. Í greinargerð skoraði stefndi á stefnendur að leggja fram nánari upplýsingar um trygginguna sem Glitnir hf. keypti af UIB Nordic AB. Undir rekstri málsins kröfðust stefnendur skilmála nýju stjórnendatryggingarinnar úr hendi Glitnis hf. með vísan til 3. mgr. 67. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Stefndi tók undir þá kröfu stefnenda. Glitnir hf. synjaði til að byrja með kröfunni en lagði fram yfirlýsingu aðalmiðlara UIB Nordic AB um gildissvið stjórnendatryggingarinnar frá 13. desember 2010. Glitnir hf. varð síðan að lokum við kröfunni um afhendingu skilmálanna.
Samkvæmt vátryggingarskírteini er gildistími stjórnendatryggingarinnar sem Glitnir hf. keypti af Nordic AB frá 1. júlí 2009 til 30. júní 2010. Eins og stjórnendatryggingin sem Glitnir hf. keypti af stefnda er tryggingin á grundvelli kröfugerðarreglu. Í skilmálunum segir að nema kveðið sé á um annað gildi hún eingöngu um bótakröfur sem fyrst voru gerðar á hendur stjórnarmönnum eða yfirmönnum á gildistíma tryggingarinnar. Í staðfestingu vátryggingar segir að vátryggður sé: „Vátryggingartaki og skilanefnd Glitnis banka hf., slitastjórn Glitnis banka hf. og sérhverjir aðrir aðilar sem skipaðir séu af íslenska ríkinu, Héraðsdómi Reykjavíkur, íslenska Fjármálaeftirlitinu (FME) eða öðrum opinberum yfirvöldum á Íslandi til þess að stýra Glitni banka hf.“ Vátryggðir einstaklingar eru: „Sérhver fyrri, núverandi eða síðari meðlimur skilanefndar og slitastjórnar Glitnis banka hf. („gamli Glitnir banki“), aðstoðarmaður við greiðslustöðvun, skiptastjóri, stjórnarmaður, framkvæmdastjóri, yfirmaður eða meðlimur framkvæmdastjórnar vátryggðs aðila. Sérhver fyrri, núverandi eða síðari starfsmaður sem sinnir stjórnunarstörfum fyrir vátryggt félag og getur þurft að bera persónulega ábyrgð. Sérhver fyrri, núverandi eða síðari einstaklingur sem sinnir stjórnunarstörfum fyrir utanaðkomandi aðila samkvæmt fyrirmælum vátryggðs félags.“ Þá er kveðið á um afturvirka dagsetningu 7. október 2008.
Í fyrrgreindu bréfi frá aðalmiðlara UIB Nordic AB til lögmanns Glitnis banka hf., sem ber yfirskriftina Stjórnarmanna- og yfirmannatrygging Glitnis hf., segir að tryggingin nái einungis til krafna sem gerðar séu á hendur hinum vátryggða á vátryggingartímanum og að tjónið eða tapið sem haldið sé fram að hafi orðið samkvæmt kröfunni megi ekki hafa átt sér stað fyrir afturvirku dagsetninguna, þ.e. 7. október 2008. Þá segir einnig í bréfinu að það hafi aldrei verið tilgangurinn að tryggingin næði til eða kæmi í stað gömlu tryggingarinnar, heldur sé henni þvert á móti augljóslega ætlað að tryggja einstaklinga sem voru meðlimir skilanefndar og slitastjórnar Glitnis og sérhverja aðra einstaklinga innan félagsins „nýi Glitnir“ sem gætu þurft að sæta persónulegri ábyrgð. Það hafi verið skýrt í huga hins vátryggða, miðlarans og vátryggjendanna að andlag vátryggingarinnar væri einungis starfsemi „nýja Glitnis“. Það hefði verið algerlega ókleift að fá tryggingu sem tryggði einnig gjörðir „gamla Glitnis“ með afturvirkum hætti.
Samkvæmt framangreindu verður ekki betur séð en að nýja stjórnendatryggingin sem Glitnir hf. keypti af UIB Nordic AB hafi mun takmarkaðra gildissvið en stjórnendatryggingin sem Glitnir hf. keypti af stefnda og henni sé einungis ætlað að tryggja starfsemi Glitnis hf. eftir 7. október 2008 enda var fjárhagsleg staða Glitnis hf. gjörbreytt frá því sem verið hafði við gerð vátryggingarsamningsins við stefnda ári fyrr vegna bankahrunsins í byrjun október 2008. Þykir ljóslega verða ráðið af fyrrgreindum ákvæðum um vátryggða og afturvirka dagsetningu 7. október 2008 að nýju stjórnendatryggingunni sé eingöngu ætlað að tryggja starfsemina frá því að bankinn var yfirtekinn af Fjármálaeftirlitinu en ekki fyrri starfsemi og þar með störf fyrri stjórnenda fram að þeim tíma. Með öðrum orðum þykir í máli þessu sýnt fram á að stefnendur séu ekki vátryggðir samkvæmt nýju tryggingunni. Kemur þá til skoðunar hvort sú staðreynd leiði til þess að telja verði að því skilyrði H-liðar, að ekki hafi verið keypt annað vátryggingarskírteini í staðinn sem veitir stjórnarmönnum og yfirmönnum ábyrgðartryggingu, sé fullnægt. Stefndi heldur því fram að engu máli skipti hvert sé gildissvið nýju tryggingarinnar og það sé ekki skilyrði að nýja tryggingin taki til fyrrum stjórnenda. Stefnendur halda því hins vegar fram að vátryggingin hefði takmarkað gildi fyrir stjórnendur ef réttarverndin væri að þessu leyti háð síðari gerðum stjórnenda. Þvert á móti sé ákvæði H-liðar III. hluta skilmálanna ætlað að taka til slíkra aðstæðna.
Eins og fram hefur komið gekkst stefndi samkvæmt skilmálum vátryggingarinnar við því að greiða fyrir hönd stjórnarmanna og yfirmanna allt tjón sem hlýst af bótakröfu fyrir óréttmætar aðgerðir, enn fremur að greiða þeim kostnað, gjöld og útgjöld sem þeir verða fyrir vegna sérstakra málshöfðana og kostnað sem þeir verða fyrir við að verjast bótakröfum vegna óréttmætra aðgerða sem tryggingin nær til. Þegar horft er til þessa, þ.e. áhættunnar sem vátryggt er gegn, verður að telja að það sé einmitt markmið umdeilds ákvæðis að veita fyrri stjórnendum, eins og yfirskrift ákvæðisins ber með sér, sem eru sakaðir um „óréttmætar aðgerðir“ í skilningi ábyrgðartryggingarinnar, viðbótarvernd við óvanalegar aðstæður sem hafa leitt til þess að trygging er ekki endurnýjuð, ný trygging keypt eða tilkynningarfrestur ekki valinn. Samkvæmt þessu er það niðurstaða dómsins að túlka verði ákvæði H-liðar III. hluta skilmálanna svo, að til að unnt yrði að fallast á það með stefnda að keypt hefði verið önnur trygging sem veitir stjórnarmönnum og yfirmönnum ábyrgðartryggingu í skilningi ákvæðisins, hefði hún þurft að ná til stefnenda, þ.e. veita þeim ábyrgðartryggingu.
Sömu sjónarmið, en ekki síður túlkun eftir orðanna hljóðan, leiða til þess að útilokað er að fallast á þá málsástæðu stefnda að það sé skilyrði samkvæmt ákvæðinu að viðkomandi stjórnandi hafi farið á eftirlaun eða sjálfviljugur látið af störfum.
Að öllu framangreindu virtu er fallist á kröfu stefnenda eins og nánar greinir í dómsorði. Í samræmi við niðurstöðu málsins og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ber stefnda að greiða stefnendum málskostnað sem þykir eftir atvikum og miklu umfangi málsins, hæfilega ákveðinn 1.000.000 króna fyrir hvern stefnenda.
Áslaug Björgvinsdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.
D Ó M S O R Ð
Viðurkennt er að skilyrði H-liðar III. hluta skilmála stjórnendatryggingar sem stefndi veitti Glitni banka hf., með gildistíma frá 1. maí 2008 til 1. maí 2009, fyrir 72 mánaða tilkynningarfresti til handa stefnendum, stendur því ekki í vegi að kröfur stefnenda, eins og þær eru fram settar í stefnu, verði teknar til greina.
Stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., greiði stefnanda Jóni Sigurðssyni 1.000.000 króna í málskostnað, stefnanda Lárusi Welding 1.000.000 króna í málskostnað og stefnanda Þorsteini M. Jónssyni 1.000.000 króna í málskostnað.