Hæstiréttur íslands
Mál nr. 7/2009
Lykilorð
- Slysatrygging
- Vátryggingarsamningur
- Tómlæti
|
|
Fimmtudaginn 22. október 2009. |
|
Nr. 7/2009. |
Jón Pétur Kristjánsson(Hulda Rós Rúriksdóttir hrl.) gegn Vátryggingafélagi Íslands hf. (Hákon Árnason hrl. Hjördís Halldórsdóttir hdl.) |
Slysatrygging. Vátryggingarsamningur. Tómlæti.
J krafðist viðurkenningar á skyldu V til greiðslu bóta úr slysatryggingu launþega og sjúkra- og slysatryggingu vegna vinnuslyss, sem hann hafði orðið fyrir í desember 2006. Samkvæmt 1. mgr. 124. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingasamninga glatar sá, sem rétt á til bóta samkvæmt slysatryggingu, þeim rétti ef krafa er ekki gerð um þær til vátryggingafélagsins innan árs frá því hann fékk vitneskju um þau atvik sem hún er reist á. Sambærilegt ákvæði var einnig að finna í skilmálum V. V krafðist sýknu af kröfu J og bar því við að fresturinn hefði byrjað að líða þann dag, sem J hefði orðið fyrir vinnuslysi. Krafa J um bætur hefði verið gerð með tjónstilkynningu rúmum fjórum mánuðum eftir að fresturinn hefði verið á enda. Talið var að upphaf frests tjónþola til að hafa uppi kröfu á hendur vátryggingafélagi í skjóli slysatryggingar réðist eftir hljóðan 1. mgr. 124. gr. laga nr. 30/2004 af því tímamarki þegar tjónþoli fengi vitneskju um atvik, sem bótakrafa hans væri reist á. Ekki gæti hins vegar staðist að ávallt skyldi miðað við þann dag, sem slys yrði. Tjónþoli gæti ekki talist hafa vitneskju um atvik, sem leiddu af sér rétt hans til bóta, fyrr en afleiðingar slyss væru kunnar. Talið var að J hefði ekki haft vitneskju um slíkt atvik fyrr en 17. mars 2008. Því hefði frestur samkvæmt 1. mgr. 124. gr. laga nr. 30/2004 ekki verið liðinn 5. maí 2008 þegar J tilkynnti V um slysið. Var krafa J tekin til greina.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 8. janúar 2009. Hann krefst þess að viðurkennd verði skylda stefnda til að greiða sér bætur úr slysatryggingu launþega og sjúkra- og slysatryggingu vegna vinnuslyss, sem hann hafi orðið fyrir í desember 2006. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Samkvæmt gögnum málsins starfaði áfrýjandi í desember 2006 sem húsasmiður hjá fyrirtækinu Mótanda ehf., sem hann kveðst eiga ásamt öðrum. Stefndi gaf út til þess félags vátryggingarskírteini 9. maí 2005 vegna sjúkra- og slysatryggingar fyrir áfrýjanda, sem veitti honum rétt til örorkubóta og dagpeninga vegna slysa og sjúkdóma. Sú vátrygging hefur verið endurnýjuð eftir að lög nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga tóku gildi 1. janúar 2006 og er óumdeilt í málinu að um hana hafi síðan gilt skilmálar stefnda nr. SJ10. Þá gaf stefndi út vátryggingarskírteini 28. september 2006 til sama félags vegna slysatryggingar launþega, sem tók meðal annars til örorkubóta og dagpeninga handa starfsmönnum félagsins sökum tjóns af völdum slysa, en í skírteininu var vísað til skilmála stefnda nr. SÞ20. Í báðum skilmálunum, sem hér um ræðir, var tekið fram að sameiginlegir skilmálar stefnda nr. YY10 ættu einnig að gilda um þessar vátryggingar. Í þeim segir eftirfarandi í lið 6.3: „Vátryggður, eða hver sá sem á rétt til bóta glatar honum ef hann tilkynnir félaginu ekki um kröfu sína innan eins árs frá því að hann vissi um þau atvik sem hún er reist á.“
Í málinu liggur fyrir vottorð frá slysa- og bráðasviði Landspítala háskólasjúkrahúss, þar sem fram kemur að áfrýjandi hafi leitað þangað 27. desember 2006 sökum þess að hann hafi hlotið áverka þegar hann hafi þá skömmu áður „dottið í stiga í vinnunni“ og fengið högg á hnakka og hægri fótlegg. Í vottorðinu greinir frá því að tekin hafi verið röntgenmynd af fótleggnum, sem ekki hafi leitt í ljós brot, og sár á hnakka hafi verið saumað. Þar segir jafnframt að reikna megi með að áverkar áfrýjanda jafni sig og grói á tveimur til þremur vikum og sé ekki „ástæða til að ætla að þetta hafi neinar líkamlegar afleiðingar í för með sér annað en hugsanlega örmyndun í hársverði eða hnakka.“ Í vottorði frá Heilsugæslunni í Garðabæ kemur fram að áfrýjandi hafi í framhaldi af þessu leitað þangað 4. janúar 2007 vegna óþæginda í hægri fótlegg og eymsla í hægri öxl, en læknir hafi talið að rekja mætti þau eymsli til tognunar. Áfrýjandi hafi fengið bólgueyðandi lyf og verið ráðlagt að sækja sjúkraþjálfun, en af vottorðinu verður séð að hann hafi ekki farið að þeim ráðum fyrr en í desember 2007 eftir að hafa leitað tvívegis aftur til læknis vegna axlarmeins. Sjúkraþjálfunin hafi ekki borið árangur og hafi áfrýjandi gengist undir nánari rannsókn 17. mars 2008, sem hafi leitt í ljós allmikinn áverka á sin í öxlinni. Áfrýjanda hafi þá verið vísað til sérfræðings í bæklunarlækningum. Í framlögðu vottorði þess sérfræðings kemur meðal annars fram að áfrýjandi hafi greint frá því að eftir slysið í desember 2006 hafi hann ekki fundið mikið til í öxlinni, en honum hafi versnað sumarið 2007 og hann átt erfitt með svefn. Áfrýjandi hafi gengist undir aðgerð hjá þessum lækni 14. apríl 2008, þar sem meðal annars hafi verið saumuð saman sin í hægri öxl. Í vottorðinu var tekið fram að ráðgert væri að áfrýjandi yrði aftur orðinn vinnufær 5. ágúst 2008, en unnt yrði að meta varanlegar afleiðingar af áverkanum þegar um eitt og hálft ár væri liðið frá aðgerð. Líklegt væri að áfrýjandi fyndi í framtíðinni af og til fyrir verk í öxlinni og hefði hugsanlega minni styrk og hreyfanleika en annars hefði verið, en þetta ætti þó ekki að raska starfshæfni hans.
Áfrýjandi tilkynnti stefnda 5. maí 2008 um framangreint slys og læknismeðferð, sem hann hafi gengist undir vegna þess. Með bréfi 8. sama mánaðar hafnaði stefndi að áfrýjandi nyti réttar til bóta úr sinni hendi, en að undangengnum frekari bréfaskiptum þeirra höfðaði áfrýjandi mál þetta 24. júní 2008. Í málinu hefur stefndi hvorki andmælt að áfrýjandi hafi í vinnuslysi 27. desember 2006 hlotið áverka á hægri öxl, sem hafi leitt til þess að hann hafi orðið að gangast undir aðgerðina 14. apríl 2008, né að tjón hans af þessum sökum eigi undir þær vátryggingar, sem Mótandi ehf. keypti samkvæmt áðursögðu af stefnda. Hann ber á hinn bóginn fyrir sig að krafa áfrýjanda til bóta úr þessum vátryggingum hafi fallið niður vegna tómlætis.
II
Í 1. mgr. 124. gr. laga nr. 30/2004 er mælt svo fyrir að sá, sem rétt á til bóta samkvæmt slysatryggingu, glati þeim rétti ef krafa er ekki gerð um þær til vátryggingafélagsins „innan árs frá því að hann fékk vitneskju um þau atvik sem hún er reist á.“ Stefndi ber því við að frestur samkvæmt þessu ákvæði hafi byrjað að líða þann dag, sem áfrýjandi varð fyrir vinnuslysi, og krefst sýknu á þeim grunni að ekki hafi verið gerð krafa um bætur vegna þess fyrr en með tjónstilkynningu rúmum fjórum mánuðum eftir að fresturinn hafi verið á enda.
Af lögskýringargögnum verður ekkert ráðið um hvernig ætlast hafi verið til að beitt yrði framangreindri reglu um frest tjónþola til að hafa uppi kröfu á hendur vátryggingafélagi í skjóli slysatryggingar. Með því að upphaf frestsins ræðst eftir hljóðan þessa ákvæðis af því tímamarki þegar tjónþoli fær vitneskju um atvik, sem bótakrafa hans er reist á, getur á hinn bóginn ekki staðist að ávallt skuli miðað í þeim efnum við þann dag, sem slys verður, enda liggur beint við að það hefði verið tekið berum orðum fram í ákvæðinu ef sú hefði verið ætlunin.
Eftir vátryggingarskilmálum stefnda fyrir slysatryggingu launþega, sem áfrýjandi leitar greiðslu úr, er réttur tjónþola til bóta í meginatriðum háður atvikum af tvennum meiði, annars vegar að orðið hafi slys, sem samkvæmt skilmálunum telst vera skyndilegur utanaðkomandi atburður sem veldur meiðslum á líkama þess vátryggða án vilja hans, og hins vegar að slíkt slys á þeim vátryggða leiði af sér andlát hans, varanlega læknisfræðilega örorku, tímabundinn missi starfsorku eða tannbrot. Ákvæði vátryggingarskilmála stefnda vegna sjúkra- og slysatryggingar, sem áfrýjandi leitar einnig greiðslu úr, eru efnislega á sama veg að því er varðar rétt þess vátryggða til bóta vegna slyss. Í skilningi 1. mgr. 124. gr. laga nr. 30/2004 getur tjónþoli samkvæmt þessu ekki talist hafa vitneskju um atvik, sem leiða af sér rétt hans til bóta úr þessum vátryggingum vegna tímabundins missis starfsorku eða varanlegrar læknisfræðilegrar örorku, fyrr en slíkar afleiðingar slyss eru kunnar. Í tilviki áfrýjanda er þess að gæta að í vottorði, sem læknir gaf vegna komu hans á slysadeild 27. desember 2006, var sem áður segir tekið fram að ekki væri ástæða til að ætla að slys hans hefði neinar líkamlegar afleiðingar í för með sér aðrar en örmyndun í hársverði eða á hnakka. Í fyrrnefndu vottorði Heilsugæslunnar í Garðabæ var þess meðal annars getið að áfrýjandi hafi snemma árs 2007 rætt um óþægindi í öxl, sem læknir hafi talið að rekja mætti til tognunar, og hafi áfrýjandi fengið við þessu lyf og ráð um að leita sjúkraþjálfunar. Eftir að einkenni í öxl áfrýjanda hafi versnað til muna hafi 17. mars 2008 verið tekin röntgenmynd af henni og ómskoðun gerð, en þá hafi komið fram „allmikill áverki á supraspinatus sinina“ og honum verið beint til sérfræðilæknis, sem tæpum mánuði síðar gerði aðgerð á öxlinni. Eins og málið liggur fyrir er ekkert fram komið um að áfrýjandi hafi orðið fyrir tímabundnu atvinnutjóni fyrir 17. mars 2008 eða verið kunnugt um að hann hafi orðið fyrir slíkum meiðslum vegna vinnuslyssins að af hlytist varanleg örorka. Fyrir síðastgreindan dag hafði áfrýjandi samkvæmt þessu ekki vitneskju um atvik, sem hann gæti reist bótakröfu á gagnvart stefnda á grundvelli þeirra vátrygginga, sem um ræðir í málinu. Var því frestur samkvæmt 1. mgr. 124. gr. laga nr. 30/2004 ekki liðinn 5. maí 2008 þegar áfrýjandi tilkynnti stefnda um vinnuslys 27. desember 2006. Þessu til samræmis verður krafa áfrýjanda tekin til greina á þann hátt, sem í dómsorði segir.
Fyrir Hæstarétti hefur áfrýjandi ekki krafist málskostnaðar í héraði og verður því látið standa óraskað ákvæði hins áfrýjaða dóms um að hann falli niður. Stefnda verður gert að greiða áfrýjanda málskostnað hér fyrir dómi eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Viðurkenndur er réttur áfrýjanda, Jóns Péturs Kristjánssonar, til greiðslu bóta úr hendi stefnda, Vátryggingafélags Íslands hf., á grundvelli slysatryggingar launþega og sjúkra- og slysatryggingar vegna tjóns af völdum vinnuslyss áfrýjanda 27. desember 2006.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað skal vera óraskað.
Stefndi greiði áfrýjanda 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. desember 2008.
Mál þetta var höfðað 24. júlí 2008 og dómtekið 27. f.m.
Stefnandi er Jón Pétur Kristjánsson, Krókamýri 76, Garðabæ.
Stefndi er Vátryggingafélag íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að viðurkennd verði með dómi greiðsluskylda stefnda á greiðslu vátryggingabóta til stefnanda úr slysatryggingu launþega (SÞ 20) og sjúkra- og slysatryggingu (SJ 10) vegna vinnuslyss sem stefnandi varð fyrir við vinnu sína í desembermánuði 2006. Einnig krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.
Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans.
Í stefnu greinir frá málsatvikum á þá leið að stefnandi, sem sé smiður að atvinnu, hafi dottið við vinnu sína í desembermánuði 2006. Hann hafi fallið úr stiga og lent á annarri öxlinni. Fyrirtækið Mótandi ehf. hafi keypt allar nauðsynlegar tryggingar fyrir þá starfsmenn, sem unnu á vegum fyrirtækisins, og hafi stefnandi verið einn þeirra. Í kjölfar slyssins hafi stefnandi farið til skoðunar á slysadeild en haldið svo áfram vinnu sinni þar sem engin meinsemd hafi komið fram við skoðun á slysadeild. Það hafi svo verið haustið 2007, eftir að stefnandi hafi farið að finna fyrir verulegum og stigvaxandi óþægindum í þeirri öxl, sem hann hafi fallið á, að hann hafi leitað til heimilislæknis síns, Bjarna Jónassonar á heilsugæslustöðinni í Garðabæ. Heimilislæknirinn hafi sent stefnanda til Sjúkraþjálfunar Garðabæjar þar sem hann hafi verið til meðferðar tvisvar sinnum í viku frá 11. desember 2007 þar til 28. mars sl. Í framhaldinu hafi heimilislæknirinn sent stefnanda til sérfræðings, Örnólfs Valdimarssonar bæklunarlæknis, vegna verkjarins. Eftir að hafa tekið myndir af hendi og öxl stefnanda hafi Örnólfur tjáð honum að gera þyrfti aðgerð á öxl hans. Aðgerðin hafi verið gerð 14. apríl sl. og stefnanda hafi verið tjáð að hann yrði frá vinnu í a.m.k. þrjá mánuði.
Hinn 5. maí 2008 tilkynnti stefnandi stefnda um slys sem hann hefði orðið fyrir í desember 2006 að Stórakrika 16, Mosfellsbæ, nafn vátryggingartaka: Mótandi ehf. Slysinu og meiðslum er þannig lýst: „Slasaði vann við mótasmíði. Stigi rann undan slasaða svo hann féll niður ca. 2 metra og lenti á hægri öxl, fékk einnig gat á höfuð og meiddist á fæti. Slasaði hefur haft veruleg óþægindi af verk í öxl allt frá slysi. Hefur farið vaxandi og endaði með því að gerð hefur verið aðgerð á öxl.“ Samkvæmt vottorði úr sjúkraskrá slysadeildar Landspítala í Fossvogi kom stefnandi þangað 27. desember 2006 út af áverkum sem hann hafi orðið fyrir skömmu áður og muni hann hafa dottið í stiga í vinnunni og fengið högg á hnakkann og hægri fótlegg. Hann hafi fengið sár á hnakkann og kvartað um verki yfir fótleggnum, rétt neðan hnés, en stigið þó í fótinn. Í vottorði Bjarna Jónassonar læknis, Heilsugæslunni Garðabæ, segir að við komu stefnanda á heilsugæsluna 4. janúar 2007 hafi hann haft eymsli í hægri öxlinni auk áframhaldandi óþæginda í hægri sköflungi og í hægra hné. Síðan er lýst ítrekuðum komum stefnanda á heilsugæsluna vegna einkenna frá hægri öxl. Vegna þess var stefnanda ráðlögð sjúkraþjálfun og að lokum var hann sendur hinn 28. mars 2008 til Örnólfs Valdimarssonar bæklunarlæknis. Samkvæmt vottorði Örnólfs framkvæmdi hann aðgerð á öxl stefnanda 14. apríl sl. Gert var ráð fyrir að stefnandi yrði með fatla í sex vikur frá aðgerðardegi og að hann yrði að fullu vinnufær frá 5. ágúst 2008.
Stefndi sendi lögmanni stefnanda bréf 8. maí 2008 og tilkynnti að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum væri framangreint atvik ekki bótaskylt úr slysatryggingu hans. Vísað var til 124. gr. laga um vátryggingasamninga og þess að formleg tjónstilkynning hefði borist félaginu 5. maí 2008. Lögmaður stefnanda mótmælti þessari ákvörðun með bréfi til stefnda 20. maí 2008. Ákvörðun stefnda var ítrekuð með svarbréfi 28. maí 2008. Þar er vísað til þess að um vátrygginguna gildi lög nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga, vátryggingarskírteinið, vátryggingarskilmálar slysatryggingar launþega nr. SÞ 20 og sameiginlegir skilmálar félagsins nr. YY10.
Þegar slysið varð voru í gildi tryggingar, sem Mótandi ehf. hafði sem vátryggingartaki hjá stefnda; sjúkra- og slysatrygging og slysatrygging launþega til handa starfsmönnum fyrirtækisins, þ.á m. stefnanda. Í skírteinum beggja trygginganna voru svofelld ákvæði: „Sá, sem á rétt til bóta, glatar honum ef hann tilkynnir félaginu ekki um kröfu innan eins árs frá því að hann vissi um þau atvik sem hún er reist á.“ Afrit skírteinanna voru send vátryggingartakanum. Vátryggingarskilmálar slysatryggingar launþega eru nr. SÞ 20 og vátryggingarskilmálar sjúkra- og slysatryggingar eru nr. SJ 10. Í sameiginlegum vátryggingarskilmálum stefnda nr. YY10 segir í grein 6.3: „Vátryggður, eða hver sá sem á rétt til bóta, glatar honum ef hann tilkynnir félaginu ekki um kröfu sína innan eins árs frá því að hann vissi um þau atvik sem hún er reist á.“
Framangreindir skilmálar eru í samræmi við ákvæði 1. mgr. 124. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga: „Sá sem rétt á til bóta samkvæmt slysatryggingu, sjúkratryggingu eða heilsutryggingu með eða án uppsagnarréttar glatar þeim rétti ef krafa er ekki gerð um bætur til félagsins innan árs frá því að hann fékk vitneskju um þau atvik sem hún er reist á.“ Ágreiningur aðila varðar það hvernig skilja beri þetta ákvæði og þó öðru fremur hvernig skýra beri orðið atvik í þessu samhengi.
Stefnandi reisir kröfugerð sína á því að ársfresturinn hafi byrjað að líða þegar stefnandi vissi að eitthvað væri að honum í öxl og handlegg, þ.e. haustið 2007 og lagastoð skorti fyrir því að miða upphafstíma eins árs frestsins við slysdaginn. Hafi það verið ætlunin með 124. gr. laga um vátryggingasamninga að alltaf skuli tilkynna hvert einasta óhapp þegar það verður væru lögin að leggja svo íþyngjandi byrðar á starfsmenn og fyrirtæki og auk þess tryggingafélögin að það hefði verið tekið skýrt fram í lögunum þannig að ekki væri um villst við hvað væri átt. Lögin geri það ekki heldur veiti þau þvert á móti ákveðið svigrúm og tekið sé fram í greinargerð með lögunum að leidd séu í lög rýmri ákvæði á garð vátryggðs en fyrri lög hafi gert. Aldrei hafi verið send ný vátryggingarskírteini eða sent nokkurt bréf frá stefnda þar sem tilkynnt væri að skilyrði greiðslu væri að slys væri tilkynnt innan eins árs.
Sýknukrafa stefnda er reist á því að honum sé ekki skylt að greiða vátryggingarbætur úr slysatryggingu launþega eða sjúkra- og slysatryggingu stefnanda samkvæmt lögum um vátryggingarsamninga nr. 30/2004 og vátryggingarskilmálum stefnda þar sem stefnandi hafi glatað rétti sínum til bóta með því að krefjast ekki vátryggingarbóta innan frests samkvæmt 124. gr. fyrrgreindra laga. Þau atvik, sem nefnd séu í 1. mgr. 124. gr. laganna, séu atvikin sem valdi því að til greiðslu bóta geti komið, þ.e. vátryggingaratburður. Í tilvitnaðri lagagrein komi efnislega fram að sá, sem rétt eigi til bóta, skuli gera kröfu um bætur til félagsins. Ljóst sé að löggjafinn ætlist ekki til að á bak við slíka kröfu verði að vera fullkomin gögn og nákvæmlega útreiknuð kröfufjárhæð. Þá er á því byggt af hálfu stefnda að þótt komist yrði að þeirri niðurstöðu að ekki ætti að miða upphaf frestsins við vátryggingaratburð sé ljóst að sýkna verði stefnda á grundvelli þess að hann hafi ekki fært fram sönnur um hvenær vitneskja hans um líkamstjón sitt hafi komið til.
Ekki er fram komið að á hafi skort um upplýsingagjöf af hálfu stefnda til vátryggingartakans þannig að það geti haft áhrif á niðurstöðu málsins.
Í g-lið 62. gr. framangreindra laga nr. 30/2004 er vátryggingaratburður skilgreindur sem „atvik sem samkvæmt vátryggingarsamningi veldur því að til greiðslu bóta getur komið.“
Hin ófrávíkjanlega regla 1. mgr. 124. gr. laga nr. 30/2004 um eins árs tilkynningarfrest um kröfu er hagfelldari vátryggðum en hin frávíkjanlega regla 30. gr., sbr. 3. gr., eldri laga um vátryggingarsamninga, nr. 20/1954.
Í athugasemdum með frumvarpi, sem varð að lögum nr. 30/2004, er um skýringar á 124. gr. vísað til skýringa við 1. mgr. 51. gr. Þar segir. „Í 1. mgr. er kveðið á um að vátryggður glati rétti til bóta ef krafa hans er ekki tilkynnt innan árs frá því að hann vissi um atvik sem eru tilefni kröfu hans. Geri hann það ekki fellur réttur hans brott vegna tómlætis. Reglan kann að virðast ströng en er þó mun rýmri en heimild stendur til eftir ákvæðum VSL (laga um vátryggingarsamninga nr. 20/1954 innskot dómara). Félögin hafa af því mikla hagsmuni að kröfur komi fram sem fyrst og það hefur samfélagslega þýðingu að ljúka slíkum málum án óþarfa dráttar. Upphaf frestsins miðast við þann tíma er vátryggður fékk upplýsingar um þau atvik sem eru tilefni kröfu hans um vátryggingarbætur. Ákvæðið gerir kröfur til vátryggðs af því að það er á hans ábyrgð ef hann gerir sér ekki grein fyrir að atvikin, sem hann hefur fengið upplýsingar um, veita honum rétt til vátryggingarbóta. Er óhjákvæmilegt að skipa reglum með þessum hætti, enda verður að ætlast til að vátryggður hafi sjálfur vara á sér í þessum efnum og í raun ekki öðrum til að dreifa.“
Það atvik, sem um ræðir í 1. mgr. 124 gr. laga nr. 30/2004, er í því tilviki, sem hér um ræðir, slys það sem stefnandi varð fyrir í desember 2006 og krafa hans um bætur er reist á. Upphaf ársfrests er slysið sjálft en engin rök eru til að miðað verði við síðara tímamark þegar tilteknar afleiðingar voru fram komnar. Í þessu sambandi ber einnig að líta til þess að samkvæmt tilkynningu stefnanda til stefnda hafði hann veruleg óþægindi af verk í öxl allt frá slysi.
Samkvæmt þessu er niðurstaða dómsins sú að vegna tómlætis stefnanda beri að sýkna stefnda af kröfum hans. Ákveðið er að málskostnaður skuli falla niður.
Mál þetta dæmir Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari.
D ó m s o r ð:
Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., er sýkn af kröfum stefnanda, Jóns Péturs Kristjánssonar.
Málskostnaður fellur niður.