Hæstiréttur íslands

Mál nr. 309/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Verjandi


                                              

Föstudaginn 10. maí 2013.

Nr. 309/2013.

Ákæruvaldið

(Arnþrúður Þórarinsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Lárentsínus Kristjánsson hrl.)

Kærumál. Verjandi.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu ákæruvaldsins um að ekki yrði fallist á ósk X um að tiltekinn lögmaður yrði skipaður verjandi hans. Ekki þótti fram komið að lögmaðurinn væri svo við málið riðinn eða hefði hagsmuna að gæta sem væru ósamrýmanlegir hagsmunum varnaraðila sbr. 4. mgr. 33. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. maí 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. maí 2013 þar sem Lárentsínus Kristjánsson hæstaréttarlögmaður var skipaður verjandi varnaraðila. Kæruheimild er í d. lið 2. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 5. gr. laga nr. 52/2010. Sóknaraðili krefst þess að hafnað verði að skipa fyrrgreindan lögmann verjanda varnaraðila.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Eins og mál þetta liggur fyrir er ekki fram komið að lögmaður sá, er skipaður var verjandi varnaraðila með hinum kærða úrskurði, sé svo við málið riðinn eða hafi hagsmuna að gæta sem eru ósamrýmanlegir hagsmunum varnaraðila, þannig að hætta sé á að hann geti ekki gætt hagsmuna varnaraðila sem skyldi, sbr. 4. mgr. 33. gr. laga nr. 88/2008. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 6. maí 2013.

Með ákæru Sérstaks saksóknara, útgefinni 15. mars 2013, var höfðað mál á hendur sex fyrrverandi stjórnendum Landsbanka Íslands hf. vegna meintrar markaðsmisnotkunar og umboðssvika. Í III. og IV. kafla ákærunnar er ákærða X, fyrrverandi [...] Landsbankans, og ákærða Y, fyrrverandi [...], gefin að sök markaðsmisnotkun í tengslum við sölu Landsbankans á 399.000.000 hluta í Landsbankanum, sem voru í eigu bankans, til félaganna Imon ehf. og Azalea Resources Ltd. 3. október 2008. Er háttsemi ákærðu talin varða við a-lið 1. töluliðar og 2. tölulið 1. mgr. 117. gr., sbr. 1. tölulið 146. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007.

Við þingfestingu málsins 24. apríl sl. óskaði ákærði X eftir því að Lárentsínus Kristjánsson hrl. yrði skipaður verjandi sinn. Af hálfu sækjanda var því mótmælt að lögmaðurinn yrði skipaður verjandi ákærða, þar sem hann hafi átt sæti í skilanefnd Landsbanka Íslands hf. og vísaði sækjandi til ákvæðis 4. mgr. 33. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Lögmaður ákærða og sækjandi málsins reifuðu kröfur sínar í þinghaldi 3. maí sl.

Af hálfu ákæruvaldsins er á því byggt að vegna stöðu lögmanns ákærða í skilanefnd Landsbanka Íslands hf. sé hann svo viðriðinn málið að hætta sé á því að hann geti ekki gætt hagsmuna ákærða sem skyldi, sbr. 4. mgr. 33. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Skilanefndin hafi haft með höndum verkefni sem skiptastjóri hefur í þrotabúi, þ.m.t. meðferð eigna og krafna sem tengdust ætlaðri refsiverðri háttsemi ákærðu í málinu. Skilanefndin hafi verið skipuð 7. október 2008, en uppgjör viðskipta sem í III. og IV. kafla ákæru greinir, hafi verið fyrirhugað daginn eftir. Á þeim tíma hefði lögmaðurinn, sem átti sæti í skilanefndinni, þurft að taka afstöðu til viðskiptanna og uppgjörs þeirra, þ.m.t. hvort krefja ætti kaupendur hlutabréfanna um greiðslu vegna kaupanna. Þá bendir sækjandi á að Fjármálaeftirlitið hafi beint fyrirspurnum til skilanefndar vegna viðskipta bankans við Imon ehf. Í kjölfarið hafi Fjármálaeftirlitið og síðar Sérstakur saksóknari aflað gagna um viðskiptin sem ákæra lýtur að. Loks hafi Fjármálaeftirlitið og skilanefndin fengið endurskoðunarfyrirtæki til að gera úttekt á ýmsum atriðum í rekstri Landsbanka Íslands hf. Sú skýrsla hafi m.a. tekið til þeirra viðskipta sem eru sakarefni málsins og verið grundvöllur að rannsókn Fjármálaeftirlitsins, sem leiddi til kæru til Sérstaks saksóknara.

Lögmaður ákærða bendir á að samkvæmt 1. mgr. 31. gr. laga nr. 88/2008 er það meginregla að sakborningur á rétt á því að njóta aðstoðar verjanda að eigin vali. Vísar lögmaðurinn jafnframt til c-liðar 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og 70. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944.  Ákvæði 4. mgr. 33. gr. laga nr. 88/2008 horfi til þess að vernda hagsmuni sakbornings og tryggja réttláta málsmeðferð. Ákærði hafi óskað eftir því að lögmaðurinn verði skipaður verjandi sinn og telji hagsmunum sínum best borgið þannig. Lögmaðurinn hafnar því að vegna setu í skilanefnd Landsbanka Íslands hf. sé hann viðriðinn málið svo að hætta sé á því að hann geti ekki gætt hagsmuna ákærða sem skyldi. Túlka verði ákvæðið svo að það eigi við um tilvik þar sem lögmaður hefur haft þá aðkomu að máli að hann geti haft hagsmuni af því að niðurstaða málsins verði með tilteknum hætti.  Lögmaðurinn bendir á að ákærði hafi hætt störfum hjá bankanum 7. október 2008, sama dag og skilanefndin var skipuð. Þá hafi ekki komið til uppgjörs vegna þeirra viðskipta sem í III. og IV. kafla ákæru greinir hinn 8. sama mánaðar, eins og fyrirhugað hefði verið. Loks hafnar lögmaðurinn því að samskipti skilanefndar við eftirlitsaðila hafi verið með þeim hætti að hann geti ekki sinnt verjendastarfi af hlutlægni.

Niðurstaða

Lögmaður ákærða var skipaður í skilanefnd Landsbanka Íslands hf. 7. október 2008 og varð síðar formaður hennar, en skilanefndin var lögð niður í árslok 2011. Hlutverk skilanefndarinnar fólst einkum í því að annast um eignir bankans með svipuðum hætti og skiptastjóra gjaldþrota fyrirtækis ber skylda til samkvæmt ákvæðum gjaldþrotalaga. Skilanefndarmenn höfðu því stöðu opinberra sýslunarmanna og verður ekki talið að vegna starfa þeirra hafi myndast hagsmunatengsl við bankann. Viðskipti og tilkynningar til Kauphallarinnar, sem III. og IV. kafli ákæru lúta að, áttu sér stað áður en skilanefndin var skipuð og fyrir liggur að ekki varð af fyrirhuguðu uppgjöri vegna þeirra 8. október 2008. Lögmaður ákærða hefur engin tengsl við sakarefni málsins og hefur sækjandi upplýst að ekki sé fyrirhugað að hann verði kvaddur til að gefa skýrslu sem vitni í málinu. Óumdeilt er að skilanefndin hafði milligöngu um gagnaöflun vegna rannsóknar Fjármálaeftirlitsins og síðar Sérstaks saksóknara, sem leiddi til ákæru í málinu. Að mati dómsins er þó ekkert komið fram um þau samskipti sem bendir til þess að lögmaðurinn muni ekki rækja skyldur sínar af kostgæfni og lögum samkvæmt. Með vísan til framangreinds verður ekki fallist á það með ákæruvaldinu að vegna stöðu lögmannsins í skilanefnd bankans teljist hann svo viðriðinn málið að hætta sé á því að hann geti ekki gætt hagsmuna ákærða sem skyldi, svo sem greinir í 4. mgr. 33. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Þá er það meginregla sakamálaréttarfars að sakborningur á rétt á því að njóta aðstoðar verjanda að eigin vali, sbr. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 88/2008. Samkvæmt framansögðu er fallist á kröfu ákærða um að Lárentsínus Kristjánsson hrl. verði skipaður verjandi hans.

Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Fallist er á kröfu ákærða, X, um að Lárentsínus Kristjánsson hrl. verði skipaður verjandi hans.