Hæstiréttur íslands
Mál nr. 133/2000
Lykilorð
- Opinberir starfsmenn
- Uppsögn
- Valdþurrð
- Flýtimeðferð
|
|
Fimmtudaginn 18. maí 2000. |
|
Nr. 133/2000. |
Landspítali, háskólasjúkrahús (Skarphéðinn Þórisson hrl.) gegn Gunnari Þór Jónssyni (Jón Steinar Gunnlaugsson hrl.) |
Opinberir starfsmenn. Uppsögn. Valdþurrð. Flýtimeðferð.
Í nóvember 1982 var staða prófessors í slysalækningum við læknadeild Háskóla Íslands (HÍ) auglýst. Sagði í auglýsingunni að prófessorinn myndi fá starfsaðstöðu við slysadeild Borgarspítalans (B). Samningur milli HÍ og B um kennslu læknanema og hlutverk spítalans sem kennslusjúkrahúss tók gildi í ársbyrjun 1983. Þar kom m.a. fram að væri starfandi prófessor við sjúkrahúsið skyldi hann jafnframt vera yfirlæknir á viðkomandi deild. Skyldi HÍ velja þennan starfsmann, en leita álits stjórnar B áður en tillaga yrði gerð um ráðstöfun stöðunnar, en stjórn B skyldi ákveða hver hefði á hendi forstöðu viðkomandi deildar. Í desember 1983 var G skipaður í stöðu prófessors í slysalækningum við læknadeild HÍ. Jafnframt veitti hann forstöðu slysa- og bæklunarlækningadeild B auk þess að vera yfirlæknir. Á árinu 1990 var ráðinn sérstakur forstöðumaður deildarinnar, en G gengdi áfram starfi yfirlæknis. Í júlí 1999 var G sagt upp störfum sem yfirlækni sjúkrahússins, með bréfi undirrituðu af forstjóra þess, framkvæmdastjóra og lækningaforstjóra. Áður hafði HÍ verið tilkynnt um fyrirhugaða uppsögn og gerði rektor HÍ ekki athugasemd við þá ákvörðun. Talið var að ekki léki vafi á því að út frá því hefði verið gengið að yfirlæknisstaða á slysadeild B yrði hluti prófessorsembættis í slysalækningum og að starfi prófessors yrði ekki sinnt eins og til var ætlast nema umrædd staða á spítalanum fylgdi því. Var talið, eins og samningssambandi HÍ og sjúkrahússins var háttað, að það hafi eingöngu verið á valdi þeirra, sem veittu prófessorsembættið að víkja G úr starfi. Hafi forráðamönnum spítalans því borið að snúa sér til læknadeildar HÍ með ósk um atbeina hennar, teldu þeir nauðsynlegt að G yrði færður úr starfi við spítalann. Voru bréfaskipti spítalans og rektors HÍ í júlí 1999 ekki talin lögmætur grundvöllur starfsloka G. Var því talið að sjúkrahúsið hefði ekki verið réttur aðili til að segja G upp störfum og var staðfest niðurstaða héraðsdóms um ógildingu uppsagnar hans.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Haraldur Henrysson, Arnljótur Björnsson, Hjörtur Torfason og Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson dómstjóri.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 30. mars 2000 og krefst sýknu af kröfu stefnda auk málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Eins og fram kemur í héraðsdómi tók gildi hinn 1. janúar 1983 samningur milli Háskóla Íslands og Borgarspítalans í Reykjavík um kennslu læknanema og hlutverk spítalans sem kennslusjúkrahúss og er hann enn í gildi. Í 4. gr. hans er kveðið á um sameiginlegt starfslið, sem meðal annars skyldi vera prófessor, dósent eða lektor í fullu starfi við læknadeild Háskóla Íslands og jafnframt í hlutastarfi við sjúkrahúsið. Væri starfandi prófessor við sjúkrahúsið skyldi hann jafnframt vera yfirlæknir á viðkomandi deild. Átti háskólinn að velja þennan starfsmann, en leita bar álits stjórnar sjúkrahússins áður en tillaga yrði gerð um ráðstöfun stöðunnar. Samkvæmt sömu grein samningsins skyldi stjórn sjúkrahússins ákveða hver hefði á hendi forstöðu viðkomandi deildar.
Hinn 16. nóvember 1982 auglýsti menntamálaráðuneytið laust til umsóknar prófessorsembætti í slysalækningum við læknadeild Háskóla Íslands. Sagði í auglýsingunni að prófessorinn myndi fá starfsaðstöðu við slysadeild Borgarspítalans í Reykjavík. Með skipunarbréfi forseta Íslands 21. desember 1983 var stefnda veitt staða þessi frá 1. janúar 1984 að telja. Af hálfu læknadeildar háskólans var skipun hans tilkynnt stjórn sjúkrastofnana Reykjavíkurborgar og með bréfi 18. janúar 1984 tilkynnti stjórnin stefnda að hún staðfesti ráðningu hans sem yfirlæknis slysa- og sjúkravaktar Borgarspítalans.
Í málinu hefur komið fram að til ársins 1990 veitti stefndi forstöðu slysa- og bæklunarlækningadeild Borgarspítalans jafnframt því að vera yfirlæknir. Hinn 21. september 1990 tilkynnti stjórn sjúkrastofnana Reykjavíkur læknadeild háskólans hins vegar að hún hefði ákveðið í samræmi við 4. gr. ofangreinds samnings að ráða sérstakan forstöðumann deildarinnar. Stefndi gegndi áfram starfi yfirlæknis við deildina.
Í héraðsdómi er greint frá aðdraganda þess að stefnda var sagt upp störfum sem yfirlækni hjá Sjúkrahúsi Reykjavíkur með bréfi 22. júlí 1999, undirrituðu af forstjóra þess, framkvæmdastjóra og lækningaforstjóra. Einnig kemur fram í dóminum að af hálfu sjúkrahússins hafi Háskóla Íslands verið tilkynnt um fyrirhugaða uppsögn með bréfi 14. júlí 1999. Var þess þar óskað að upplýst yrði, hvort háskólinn hefði athugasemdir fram að færa við fyrirætlan spítalans, sérstaklega með vísan til framangreinds samkomulags frá 1983. Með bréfi háskólarektors 15. sama mánaðar til sjúkrahússins tilkynnti hann að ekki væri gerð athugasemd við þessa ákvörðun stjórnenda þess.
II.
Í 38. gr. laga nr. 131/1990 um Háskóla Íslands, sem enn er í gildi, sbr. ákvæði til bráðabirgða með lögum nr. 41/1999 um sama efni, er kveðið svo á, að prófessorar, dósentar og lektorar í tilteknum kennslugreinum geti jafnframt haft starfsaðstöðu við opinberar stofnanir utan háskólans, ef hann hefur ekki tök á að koma upp slíkri aðstöðu í viðkomandi fræðigrein. Þess skuli jafnan gætt, að starfsaðstaða og starfsskyldur fullnægi þeim kröfum, sem gerðar eru um slíkar stöður, samkvæmt háskólalögum. Heimild til slíkra starfa megi aðeins veita með samþykki háskólaráðs og viðkomandi háskóladeildar í hverju einstöku tilviki. Í 2. mgr. og 3. mgr. sömu greinar er meðal annars kveðið á um að prófessorar í tilteknum greinum læknisfræði skuli veita forstjórn samsvarandi deildum Landspítalans. Samhljóða ákvæði voru í 38. gr. laga nr. 77/1979 um Háskóla Íslands.
Við túlkun á samningi Háskóla Íslands og Borgarspítalans í Reykjavík, sem áður er getið, ber að hafa hliðsjón af ofangreindum ákvæðum. Markmið samningsins var augljóslega að læknadeild háskólans fengi aðstöðu, sem Borgarspítalinn bauð upp á, til kennslu í viðeigandi fræðigreinum, þar á meðal slysalækningum. Af honum þykir ljóst að stefnt hafi verið að sams konar starfslegum tengslum milli prófessorsembættis við háskólann og yfirlæknisstöðu við Borgarspítalann og lögbundið var, að því er Landspítalann varðaði. Greinilega kom fram í auglýsingu um prófessorsembætti það, sem stefnda var veitt, að starfsaðstaða á Borgarspítalanum myndi fylgja starfinu. Þykir ekki leika vafi á um það, að út frá því hafi verið gengið að yfirlæknisstaða á slysadeild spítalans yrði hluti prófessorsembættis í slysalækningum. Verður ekki séð að þessu starfi prófessors verði sinnt eins og til var ætlast nema umrædd aðstaða á spítalanum fylgi því.
Eins og áður er fram komið átti Háskóli Íslands samkvæmt samningi aðilanna að velja mann til að gegna framangreindu prófessorsembætti. Verður að telja, eins og samningssambandi aðilanna var háttað samkvæmt framansögðu, að það hafi eingöngu verið á valdi þeirra, sem veittu stefnda prófessorsembættið, að víkja honum úr starfi. Uppsögn stefnda úr starfi yfirlæknis við spítalann einu saman þýddi í raun, að hann var sviptur starfsaðstöðu, sem byggt var á við skipun hans í embætti prófessors og var forsenda þess að hann gæti sinnt því. Verður ekki á það fallist að staða stefnda við sjúkrahúsið hafi verið óháð starfi hans sem prófessors, þannig að sjúkrahúsið gæti á eigin spýtur sagt honum upp starfi yfirlæknis. Bar forráðamönnum þess að snúa sér til læknadeildar háskólans með ósk um atbeina hennar, teldu þeir nauðsynlegt að stefndi yrði færður úr starfi við spítalann. Væri slíku erindi ekki sinnt átti sjúkrahúsið það úrræði að segja upp samningnum við háskólann í samræmi við 9. gr. hans. Bréfaskipti sjúkrahússins og háskólarektors 14. og 15. júlí 1999 geta þannig á engan hátt talist lögmætur grundvöllur starfsloka stefnda.
Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða málsins að Sjúkrahús Reykjavíkur hafi ekki verið réttur aðili til að segja stefnda upp störfum. Verður því staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um ógildingu uppsagnar hans 22. júlí 1999. Jafnframt er staðfest ákvæði dómsins um málskostnað.
Dæma ber áfrýjanda til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði segir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Landspítali, háskólasjúkrahús, greiði stefnda, Gunnari Þór Jónssyni, 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 28. mars 2000.
I
Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 25. október 1999.
Stefnandi er Gunnar Þór Jónsson, kt. 190642-3219, Laugavegi 39 B, Reykjavík.
Stefndi er Sjúkrahús Reykjavíkur, kt. 53119-2999, Fossvogi í Reykjavík sem heitir nú Landspítali, háskólasjúkrahús, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 127/2000 um sameiningu heilbrigðisstofnana.
Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði með dómi að uppsögn stefnda 22. júlí 1999 á ráðningu sinni við spítalann sé ógild og að stefnda verði gert að greiða sér málskostnað.
Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans.
Málið sætir flýtimeðferð eftir XIX. kafla laga nr. 91/1991.
Dómur var kveðinn upp 28. desember 1999. Málinu var skotið til Hæstaréttar og með dómi réttarins 8. þ.m. (mál nr. 6/2000) var hinn áfrýjaði dómur ómerktur og málinu vísað heim í hérað til munnlegs flutnings og dómsálagningar á ný. Það var dómtekið að loknum málflutningi 24. þ.m.
II
Frammi liggur ódagsettur samningur milli Háskóla Íslands og borgarspítalans í Reykjavík „um kennslu læknanema og hlutverk spítalans sem kennslusjúkrahúss.“ Hann gilti upphaflega frá 1. janúar 1983 til 1. júlí 1984 en hefur síðan framlengst um eitt ár í senn.
Í samningnum er kveðið á um samvinnu um kennslu í læknisfræði, nýtingu nýjunga og framfara í læknisfræði, rannsóknarstarfsemi í læknisfræði og heilbrigðisþjónustu, áætlanagerð og framhaldsmenntun lækna. Hann hefur að geyma reglur um stjórnunarleg tengsl, starfslið, vinnuaðstöðu kennara, vísindastörf, aðstöðu fyrir læknanema og skiptingu kostnaðar.
Í 4. gr. samningsins segir:
„1. Sameiginlegt starfslið er þrenns konar:
a) Prófessor, dósent eða lektor í fullu starfi við læknadeild og jafnframt í hlutastarfi við sjúkrahúsið. Sé starfandi prófessor við sjúkrahúsið skal hann jafnframt vera yfirlæknir á viðkomandi deild, samanber 2. tölulið þessarar greinar. . .
Háskólinn velur starfsmann skv. a lið hér að framan, en leitað skal álits stjórnar sjúkrahússins áður en Háskólinn gerir tillögu um ráðstöfun stöðunnar. . .
2. Forstöðumaður kennslugreinar skv. skilgreiningu læknadeildar skal hafa yfirlæknisstöðu en stjórn sjúkrahússins ákveður hver hefur á hendi forstöðu viðkomandi deildar. . .“
Þann 21. desember 1983 skipaði forseti Íslands/menntamálaráðherra stefnda prófessor í slysalækningum við læknadeild Háskóla Íslands frá 1. janúar 1984 að telja. Auglýsing menntamálaráðuneytisins frá 16. nóvember 1983 um að prófessorsembættið væri laust til umsóknar kvað jafnframt á um að prófessorinn mundi fá starfsaðstöðu við slysadeild Borgarspítalans. Þá segir í auglýsingunni að laun séu samkvæmt launakerfi starfsmanna ríkisins.
Í bréfi framkvæmdastjóra stjórnar sjúkrastofnana Reykjavíkurborgar, dags. 18. janúar 1984, til stefnanda segir að á fundi stjórnarinnar 13. s.m. hafi verið lagt fram bréf deildarforseta læknadeildar Háskóla Íslands, dags. 11. s.m., ásamt afriti af skipunarbréfi stefnanda sem prófessors í slysalækningum við læknadeild Háskóla Íslands. Í bréfi deildarforsetans sé vísað til bréfaskipta læknadeildar og stjórnar sjúkrastofnana um að stefnandi verði jafnframt yfirlæknir slysadeildar. Segir í bréfi framkvæmdastjórans að stjórnin staðfesti samhljóða ráðningu stefnanda í embætti yfirlæknis slysa- og sjúkravaktar Borgarspítalans.
Þann 1. janúar 1996 voru Borgarspítalinn og St. Jósefsspítali, Landakoti, sameinaðir í eina stofnun, Sjúkrahús Reykjavíkur. Stefnandi starfaði við sjúkrahúsið frá því í janúar 1984 til 30. nóvember 1999, sbr. það sem síðar verður greint. Samkvæmt samningi ríkisins og Reykjavíkurborgar tók ríkið frá og með 1. janúar 1999 við rekstri og stjórnun allra deilda Sjúkrahúss Reykjavíkur. Samkvæmt 8. gr. samningsins tók ríkið frá sama tíma við öllum réttindum og skyldum borgarinnar gagnvart starfsmönnum Sjúkrahúss Reykjavíkur og fer frá þeim degi með samningsaðild vinnuveitanda.
Með bréfi formanns stjórnar sjúkrastofnana Reykjavíkurborgar 21. september 1990 var læknadeild Háskóla Íslands tilkynnt að ákveðið hefði verið í samræmi við 4. gr. samnings Borgarspítalans og Háskóla Íslands frá 1983 að ráða sérstakan forstöðumann fyrir slysa- og bæklunarlækningadeild Borgarspítalans. Stefnandi máls þessa láti því af forstöðu deildarinnar en honum verði sköpuð aðstaða á deildinni til að sinna prófessorsstöðu sinni við læknadeild Háskóla Íslands í samræmi við áðurnefndan samning.
Með bréfi, dags. 1. desember 1997, veitti Jóhannes M. Gunnarsson, lækningaforstjóri stefnda, stefnanda skriflega áminningu vegna slælegra vinnubragða hans varðandi skil á umbeðnum vottorðum og greinargerðum til landlæknis. Segir í lok þess að ekki verði hjá því komist að veita stefnanda formlega áminningu og verði hann leystur frá störfum við sjúkrahúsið ef vanræksla af þessu tagi endurtæki sig. Afrit bréfsins voru send landlækni, Jóhannesi Pálmasyni, forstjóra stefnda, og Brynjólfi Mogensen, yfirlækni bæklunarlækningadeildar stefnda.
Samkvæmt starfslýsingu lækningaforstjórans er forstjóri stefnda næsti yfirmaður hans. Hann hefur m.a. yfirumsjón með rekstri lækningaþáttar sjúkrahússins, er yfirlæknir þess og kemur út á við fram sem læknisfróður forsvarsmaður þess. Um verksvið lækningaforstjórans segir m.a. að hann hafi umsjón með framkvæmd læknisþjónustu á sjúkrahúsinu og sjái um samhæfingu læknisfræðilegu sviðanna ásamt því að ráða og leysa frá störfum forstöðulækna og yfirlækna sjúkrahússins.
Af hálfu stefnda var stefnanda sent bréf, dags. 27. maí 1999, undirritað af Magnúsi Péturssyni, forstjóra SHR, Jóhannesi M. Gunnarssyni, lækningaforstjóra SHR, og Jóhannesi Pálmasyni, framkvæmdastjóra SHR. Afrit þess voru send menntamálaráðherra, rektor og forseta læknadeildar Háskóla Íslands, landlækni og yfirlækni bæklunarlækningadeildar stefnda. Í bréfinu er stefnanda tjáð að stefndi hafi í hyggju að segja upp ráðningarsamningi hans við spítalann vegna ítrekaðra kvartana sem fram hafi verið bornar á hendur honum. Stefnanda var gefinn kostur á að koma að athugasemdum og andmælum vegna fyrirhugaðrar uppsagnar. Upphaflegur frestur, sem var til 17. júní 1999, var lengdur að beiðni lögmanns stefnanda sem sendi stefnda síðan bréf 25. s.m. og mótmælti fyrirætlunum hans.
Með bréfi, dags. 22. júlí 1999, sem var undirritað af hinum sömu og framangreint bréf frá 27. maí s.á., var stefnanda tilkynnt að stefndi segði upp ráðningarsamningi spítalans við hann. Uppsagnarfrestur var tiltekinn fjórir mánuðir frá 31. júlí 1999 að telja og síðasti starfsdagur stefnanda skyldi samkvæmt því vera 30. nóvember 1999. Í uppsagnarbréfinu er vísað til aðvörunarbréfs frá 27. maí 1999 og til formlegrar áminningar sem stefndi hafi veitt stefnanda með bréfi 1. desember 1997 vegna slælegra vinnubragða við skil á vottorðum og greinargerðum. Stefnandi hafi ekki bætt ráð sitt og hafi ítrekað verið fundið að störfum hans frá þeim tíma.Eftir þetta áttu sér stað bréfaskipti milli lögmanns stefnanda og fyrirsvarsmanna stefnda. Lögmaðurinn skýrði viðhorf sín um réttarstöðu stefnanda og óskaði eftir skýringum frá stefnda á heimildum hans til uppsagnarinnar. Með bréfi forstjóra stefnda til lögmannsins, dags. 26. ágúst 1999, fylgdi ljósrit af bréfi háskólarektors, dags. 15. júlí 1999, til stefnda. Í því er vísað til bréfs Jóhannesar Pálmasonar, framkvæmdastóra stefnda, þar sem lýst sé ákvörðun stjórnenda sjúkrahússins um að segja upp ráðningarsamningi sjúkrahússins og stefnanda og aðdragandi þeirrar ákvörðunar rakinn. Síðan segir: „Með vísan til samkomulags Borgarspítalans (nú Sjúkrahúss Reykjavíkur) og Háskóla Íslands um kennslu læknanema og hlutverk spítalans sem kennslusjúkrahúss frá árinu 1983 vil ég staðfesta að Háskóli Íslands gerir ekki athugasemd við ákvörðun stjórnenda sjúkrahússins um að slíta ráðningarsamningnum.“ Í bréfi heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins til stefnda frá 1. október 1999 er greint frá því að lögmaður stefnanda hafi leitað til heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og borið fram kvörtun þess efnis að stefndi hafi ekki farið að lögum við uppsögn hans. Af því tilefni óskaði ráðuneytið eftir því að stefndi veitti ráðuneytinu upplýsingar um lagagrundvöll uppsagnarinnar. Það var gert með bréfi 20. október 1999. Þar er annars vegar vísað til þess að gagnkvæmur uppsagnarfrestur á grundvelli gildandi kjarasamnings ríkisins og Reykjavíkurborgar og Læknafélags Íslands og Læknafélags Reykjavíkur sé fjórir mánuðir í tilviki stefnanda og hins vegar til þess að um ráðningarslitin gildi ákvæði IX. kafla en ekki VI. kafla laga nr. 70/1996.
III
Meginmálsástæða stefnanda er að starf hans við Sjúkrahús Reykjavíkur hafi byggst á fyrrgreindum samningi milli sjúkrahússins og Háskóla Íslands sem fari með aðild vinnuveitanda gagnvart sér. Stefndi verði að beina athugasemdum um samninginn til viðsemjanda síns. Uppsögn stefnda, sem beint sé til stefnanda, sé ógild og að engu hafandi.
Stefnandi kveðst ekki kannast við ráðningarsamning og hafi hann starfað á grundvelli framangreinds samnings um samvinnu Háskóla Íslands og Borgarspítalans. Sé þrátt fyrir þetta talið að stefndi eigi beina aðild að ráðningu stefnanda í starf á sjúkrahúsinu hljóti hann að njóta réttarstöðu samkvæmt VI. kafla laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sbr. 3. mgr. ákvæðis til bráðabirgða með þeim lögum. Er á því byggt af hálfu stefnanda, verði ekki fallist á þá málsástæðu sem áður greinir, að hann hafi ekki verið látinn njóta réttar síns að þessu leyti.
Því er mótmælt að fyrrgreint bréf, dags. 1. desember 1997, hafi falið í sér áminningu sem uppfylli kröfur 21. gr. starfsmannalaga. Í fyrsta lagi hafi það ekki verið "forstöðumaður stofnunar" sem sendi stefnanda bréfið heldur lækningaforstjóri. Í öðru lagi hafi tilefni bréfsins verið ónógt til að þjóna þessu markmiði. Segir stefnandi starfshætti sína við skil á vottorðum hafa verið að öllu leyti í samræmi við það sem tíðkist um slík efni og hafi hann gert grein fyrir því áður en hann fékk bréf þetta. Eftir að stefnanda hafi verið sent uppsagnarbréfið 22. júlí 1999 hafi samstarfsmenn hans við bæklunardeild sjúkrahússins, læknar og hjúkrunarfræðingar, sent frá sér yfirlýsingar, þar sem m.a. sé talið óskiljanlegt að slíkar ávirðingar geti leitt til brottvikningar úr starfi.
Jafnvel þótt gengið væri út frá því að bréfið frá 1. desember 1997 teldist hafa að geyma fullgilda áminningu samkvæmt starfsmannalögum geti það ekki heimilað stefnda endanlega brottvikningu stefnanda úr starfi. Ávirðingarnar, sem bréfið geti um, mundu þá teljast falla undir 2. mgr. 26. gr. laganna. Í stefnu kveðst stefnandi mótmæla því sérstaklega að eitthvað hafi verið athugavert við starfshætti sína á þessu sviði að undanförnu. Þótt talið yrði að stefnandi hefði brotið af sér að þessu leyti þannig að áminningu hafi varðað og stefndi teldi hann ekki hafa bætt ráð sitt eftir það gæti slíkt aldrei réttlætt brottvikningu. Við slíkar aðstæður ætti að veita starfsmanninum lausn um stundarsakir meðan mál væri rannsakað að hætti 27. gr. laganna.
Hvernig sem á málið sé litið sé því ljóst að uppsagnarbréfið 22. júlí 1999 sé að engu hafandi.
IV
Af hálfu stefnda er því mótmælt að Háskóli Íslands fari með aðild vinnuveitanda vegna starfa stefnanda hjá sjúkrahúsinu. Skipun stefnanda í stöðu prófessors hafi tekið til starfa hans við læknadeild. Ráðning stefnanda hjá stefnda hafi byggst á sérstökum samningi Háskólans og Borgarspítalans. Ekki hafi verið gerður skriflegur ráðningarsamningur við stefnanda þar sem slíkt hafi ekki tíðkast hjá Reykjavíkurborg á þeim tíma. Um laun stefnanda gildi að Háskóli Íslands hafi greitt að fullu laun hans vegna stöðu hans sem prófessors en Sjúkrahús Reykjavíkur vegna starfa hans sem yfirlæknis. Þegar litið sé einnig á faglegar starfsskyldur stefnanda og verksvið sé fráleitt að líta á starf hans hjá stefnda annars vegar og Háskólanum hins vegar sem eitt og hið sama.
Því er mótmælt að um ráðningarslit stefnanda hjá stefnda skuli fara samkvæmt ákvæðum VI. kafla laga nr. 70/1996, sem fjalli um lausn embættismanna, heldur gildi ákvæði IX. kafla laganna um uppsögn á ráðningarsamningi hans og hafi þau verið uppfyllt. Á það er bent að kröfugerð stefnanda lúti að því að uppsögn verði dæmd ógild og miði að því að hann fái með dómi starf sitt aftur. Samkvæmt grundvallarreglum vinnuréttar hafi vinnuveitandi rétt til að ráða starfsmenn og segja þeim upp störfum. Honum sé því heimilt að hafna vinnuframlagi þeirra. Ákvörðun vinnuveitanda um uppsögn ráðningarsamnings verði því aldrei ógilt. Í þeim tilvikum sem starfsmönnum hafi tekist að sýna fram á ólögmæti uppsagnir hafi skaðabætur verið dæmdar.
Þá er á því byggt af hálfu stefnda að málsmeðferð hans við uppsögn á ráðningarsamningi við stefnanda hafi að öllu leyti uppfyllt ákvæði laga. Því er mótmælt að áminning fái ekki staðist þar sem forstöðumaður stofnunar hafi ekki gefið hana heldur lækningaforstjóri. Á stofnuninni starfi u.þ.b. 2.500 starfsmenn. Hún sé deildaskipt og samkvæmt stjórnskipulagi hennar sé lækningaforstjóri æðsti yfirmaður lækningahlutans og staðgengill forstjórans. Ljóst megi vera að æðstu stjórnendur sjúkrahússins hafi stöðuumboð til slíkra gerninga og séu því til þess bærir að neyta heimilda forstjóra í þessu tilliti.
V
Úrlausnarefni dómsins einskorðast við gildi uppsagnar en í stefnu er áskilnaður stefnanda um „rétt til skaðabóta úr hendi stefnda vegna þess tjóns sem hin ólögmæta uppsögn veldur honum.“ Stefnandi hefur lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um gildi uppsagnarinnar. Verði uppsögnin metin ógild vegna þess hvernig að henni var staðið mun þegar af því leiða að hún hafi verið ólögmæt. Ekki er fram komið að kröfugerð stefnanda miði að því að hann fái með dómi starf sitt aftur.
Í tilvitnuðum samningi milli Háskóla Íslands og Borgarspítalans í Reykjavík er kveðið á um val á prófessor í fullt starf við læknadeild og jafnframt í hlutastarf við sjúkrahúsið. Störfin voru samkvæmt þessu tvö og launagreiðendur voru tveir; annars vegar ríkissjóður vegna Háskóla Íslands og hins vegar þá stefnandi laun frá Borgarspítalanum síðar Sjúkrahúsi Reykjavíkur - sem var lengst af borgarstofnun en hefur verið ríkisstofnun frá 1. janúar 1999. Allt frá ráðningu stefnanda að sjúkrahúsinu 18. janúar 1984 hafði stefndi aðild vinnuveitanda gagnvart honum. Aðspurður við aðalmeðferð málsins 15. desember 1999 kvaðst stefnandi hafa látið af störfum við Sjúkrahús Reykjavíkur þann 30. nóvember s.á. en gegna enn embætti prófessors við læknadeild Háskóla Íslands.
Aðila greinir á um það hvort borið hafi við ráðningarslit stefnanda að fara að samkvæmt VI. kafla laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sem hefur að fyrirsögn „Lausn frá embætti“, eða IX. kafla sem hefur að fyrirsögn „Starfslok“ og tekur til annarra en embættismanna.
Staða yfirlæknis er ekki skilgreind sem embætti samkvæmt 22. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Við úrlausn málsins ber hins vegar að gæta að efni 3. mgr. ákvæðis til bráðabirgða með lögunum: „Um starfslok þeirra starfsmanna ríkisins, sem skipaðir hafa verið eða ráðnir í störf ótímabundið fyrir gildistöku laga þessara, án gagnkvæms uppsagnarfrests, gilda ákvæði 25. gr. og VI. kafla laga þessara eftir því sem við á . . .“ Ákvæði þetta tekur til stefnanda þar sem engum vafa er undirorpið að ætlan þeirra, sem í hlut áttu, og forsenda hafi verið að ráðning hans gilti ótímabundið, þ.e. eins lengi og hann gegndi embætti prófessors.
Hinar ætluðu ávirðingar stefnanda lutu að vanrækslu í starfi, sbr. 2. mgr. 26. gr, sbr. einnig 1. tl. 25. gr., laga nr. 70/1996. Áður en stefnanda yrði að fullu vikið úr starfi bar að veita honum lausn um stundarsakir meðan nefnd þriggja sérfróðra manna rannsakaði hvort rétt hafi verið að víkja honum frá störfum um stundarsakir, sbr. 4. mgr. 26. gr. og 27. gr. greindra laga. Þegar af þeirri ástæðu að þessa var eigi gætt er niðurstaða dóms þessa sú að fallast beri á kröfur stefnanda.
Málskostnaður er ákveðinn 450.000 krónur.
Mál þetta dæmir Sigurður Hallur Stefánsson héraðsdómari.
D ó m s o r ð:
Viðurkennt er að uppsögn stefnda, Landspítala, háskólasjúkrahúss, 22. júlí 1999 á ráðningu stefnanda, Gunnars Þórs Jónssonar, við sjúkrahúsið sé ógild.
Stefndi greiði stefnanda 450.000 krónur í málskostnað.