Hæstiréttur íslands
Mál nr. 441/2004
Lykilorð
- Skattur
- Stjórnvaldsákvörðun
- Kröfugerð
- Frávísun frá héraðsdómi að hluta
|
|
Miðvikudaginn 20. apríl 2005. |
|
Nr. 441/2004. |
Íslenska ríkið(Skarphéðinn Þórisson hrl. Kristín Edwald hdl.) gegn Andvaraútgerðinni sf. (Erlendur Gíslason hrl. Guðrún Björk Bjarnadóttir hdl.) |
Skattar. Stjórnvaldsákvörðun. Kröfugerð. Frávísun máls að hluta frá héraðsdómi.
A sf. höfðaði mál gegn íslenska ríkinu og krafðist þess að nánar tiltekinn úrskurður ríkisskattstjóra yrði ógiltur og að skattframtal félagsins 1995 yrði lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda á það gjaldárið 1995. Deildu málsaðilar um breytingar sem skattstjóri hafði gert á opinberum gjöldum A sf. umrætt gjaldár með vísan til þess að félagið hefði ekki lagt fram gögn um kaup á fasteign, sem það hafði fært til eignar og fyrnt sérstaklega á móti skattskyldum söluhagnaði frá fyrri tíma. Að því er snerti fyrri kröfu sína var talið að A sf. ætti ekki frekar en aðrir skattaðilar kröfu til þess að ríkisskattstjóri beitti heimildum sínum samkvæmt 101. gr. þágildandi laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt. Hefði félagið ekki skýrt hvers vegna það kaus að nefna afgreiðslu ríkisskattstjóra á erindi þess úrskurð. Var kröfunni vísað frá héraðsdómi. Vegna síðari kröfunnar var talin fram komin næg sönnun fyrir því að kaupsamningur hafi verið gerður um áðurnefnda fasteign á árinu 1994. Var ekki fallist á að um væri að ræða málamyndagerning eða að 58. gr. laga nr. 75/1981 ætti við um kaupin. Var því fallist á kröfu A sf. um að skattframtal félagsins 1995 yrði lagt til grundvallar við álagningu opinberra gjalda á það.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. nóvember 2004 og krefst sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Með skattframtali stefnda árið 1995 fylgdi sérstakt yfirlit um kaup og sölu eigna, þar sem gerð var grein fyrir kaupum hans á fasteigninni Mjallargötu 6, Ísafirði, á árinu 1994. Var eignin færð í fyrningarskýrslu þar sem hún var fyrnd sérstaklega um 3.329.623 krónur á móti skattskyldum söluhagnaði frá fyrri tíma. Framtalið var lagt til grundvallar við álagningu skatta stefnda 1995. Í tengslum við þetta beindi skattstjórinn í Vestfjarðaumdæmi því til stefnda 20. nóvember 1995 að hann legði fram kaupsamning til staðfestingar á kaupum hans á umræddri fasteign auk annarra gagna, þar á meðal um þinglýsingu samningsins. Engin svör bárust frá stefnda og ekki heldur við síðari bréfum skattstjóra 17. febrúar 1997, 6. janúar 1999 og 9. mars sama árs. Með síðastnefnda bréfinu boðaði skattstjóri með vísan til 96. gr. þágildandi laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt að opinber gjöld stefnda árið 1995 yrðu endurskoðuð, þar sem umbeðin gögn hefðu ekki borist. Yrði aukafyrning vegna söluhagnaðar þá ekki tekin til greina, eignfærsla á Mjallargötu 6 felld út og gjaldfærð vaxtagjöld og skuldir lækkaðar. Með úrskurði um endurákvörðun álagningar 7. apríl 1999 hratt skattstjóri hinum boðuðu breytingum í framkvæmd. Var stefnda jafnframt bent á að kærufrestur til yfirskattanefndar væri þrír mánuðir.
Stefndi kærði ekki úrskurðinn til yfirskattanefndar innan kærufrests. Með bréfi 20. mars 2000 óskaði hann hins vegar eftir því við ríkisskattstjóra að hann tæki „mál þetta til efnislegrar meðferðar að nýju“ og vísaði um það til 101. gr. laga nr. 75/1981. Erindinu fylgdu ýmis gögn, sem stefndi taldi styðja að kaupsamningur um eignina hefði verið gerður og efndur af aðilum hans. Meðal þessara gagna var óundirritað eintak af samningnum, sem var sagt hafa fundist í vörslum endurskoðanda stefnda. Ríkisskattstjóri mun hafa framsent erindið 18. maí 2000 til skattstjórans í Vestfjarðaumdæmi og tekið fram að sá fyrrnefndi hefði ekki heimild til að breyta úrskurði skattstjóra um endurákvörðun opinberra gjalda. Var bréf stefnda sent skattstjóra sem beiðni um endurupptöku samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Féllst skattstjóri á að endurupptaka málið, en hafnaði með úrskurði 17. janúar 2001 kröfu stefnda um að fasteignin að Mjallargötu 6 yrði eignfærð í framtali hans 1995. Stefndi kærði þennan úrskurð til yfirskattanefndar 17. apríl 2001, sem vísaði málinu frá sér og framsendi erindið til meðferðar hjá ríkisskattstjóra 27. febrúar 2002. Var tekið fram að lögboðinn kærufrestur til yfirskattanefndar vegna úrskurðar skattstjóra 7. apríl 1999 væri löngu liðinn og að synjun hans 17. janúar 2001 um að breyta fyrri úrskurði sætti ekki kæru til yfirskattanefndar. Var þess jafnframt getið að með kærunni hafi fylgt undirritað eintak áðurnefnds kaupsamnings, sem stefndi kvað hafa komið í leitirnar. Ríkisskattstjóri hafi ekki tekið afstöðu til þess gagns, sbr. 3. mgr. 101. gr. laga nr. 75/1981, og þætti því rétt að framsenda erindi stefnda til hans. Ríkisskattstjóri tók erindið til meðferðar og hafnaði því 20. mars 2002.
II.
Stefnda var unnt að skjóta úrskurði skattstjórans í Vestfjarðaumdæmi 7. apríl 1999 til yfirskattanefndar í því skyni að ná fram endurskoðun á honum, sbr. lög nr. 30/1992 um yfirskattanefnd. Áðurnefnd viðleitni stefnda til að neyta þessa úrræðis bar ekki árangur og stóð því úrskurður skattstjórans óhaggaður sem endanleg niðurstaða málsins á stjórnsýslustigi, sbr. einnig úrskurð hans 17. janúar 2001. Stefndi lagði málið hins vegar fyrir ríkisskattstjóra með vísan til 101. gr. laga nr. 75/1981. Í 1. mgr. þessarar lagagreinar var meðal annars kveðið á um eftirlit ríkisskattstjóra með störfum skattstjóra, en 2. og 3. mgr. höfðu að geyma ýmsar heimildir handa ríkisskattstjóra til þess meðal annars að kanna að eigin frumkvæði skattframtöl og breyta ákvörðun skattstjóra um skattstofn eða skattálagningu. Stefndi átti hins vegar ekki frekar en aðrir skattaðilar kröfu til þess að ríkisskattstjóri beitti þeim heimildum, sem honum voru þannig veittar. Erindi stefnda til ríkisskattstjóra fól í raun í sér beiðni um að hann beitti frumkvæðisrétti sínum samkvæmt nefndri lagagrein. Því hafnaði ríkisskattstjóri með bréfi til stefnda 20. mars 2002. Í bréfinu kemur ekki fram að um úrskurð sé að ræða og stefndi hefur ekki skýrt hvers vegna hann kýs að nefna afgreiðslu ríkisskattstjóra á erindi hans úrskurð, bæði í dómkröfu sinni og málatilbúnaði að öðru leyti. Krafa hans um að „ógiltur verði úrskurður ríkisskattstjóra ... frá 20. mars 2002“ er samkvæmt öllu framansögðu slíkum annmörkum háð að ekki verður komist hjá því að vísa henni af sjálfsdáðum frá héraðsdómi.
III.
Auk þess, sem greinir að framan, krefst stefndi að skattframtal hans fyrir gjaldárið 1995 verði lagt til grundvallar við ákvörðun opinberra gjalda hans. Þrátt fyrir víðtækt orðalag kröfunnar er ágreiningslaust að hún tekur einungis til þess þáttar í framtalinu, sem lýtur að kaupum á Mjallargötu 6 á árinu 1994, en hér áður var getið ágreiningsefna, sem því tengjast. Að þessu virtu verður fallist á með stefnda að honum sé heimilt að gera þessa kröfu fyrir dómi og breytir þá engu þótt hann krefjist ekki jafnframt ógildingar á úrskurðum skattstjórans í Vestfjarðaumdæmi, sem ekki hefur verið hnekkt á æðra stigi innan stjórnsýslunnar.
Stefndi reisir kröfu sína á því að hann hafi keypt umrædda fasteign 30. desember 1994 af Þóri Hinrikssyni og að samningurinn hafi verið efndur. Hafi það verið sannað með framlagningu ýmissa gagna og framburði vitna. Áfrýjandi vefengir að umrædd kaup hafi verið gerð. Bendir hann á að um hafi verið að ræða viðskipti tengdra aðila og að virða beri samning þeirra sem annars konar ráðstöfun en kaup, sem ætlað hafi verið það eitt að ná fram hagstæðari skattalegri niðurstöðu en ella hefði orðið. Beri að virða ætlaðan kaupsamning sem málamyndagerning eða þannig að í honum felist svokölluð skattasniðganga, sem leiði til skattalegrar meðferðar í samræmi við ákvæði 58. gr. laga nr. 75/1981, sbr. nú 57. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt og eignarskatt. Ber áfrýjandi fyrir sig að framlagður kaupsamningur um eignina hafi verið gerður síðar en dagsetning hans hljóðar um. Málsástæður aðilanna eru nánar raktar í héraðsdómi.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest sú niðurstaða hans að fram sé komin næg sönnun fyrir því að kaupsamningur hafi verið gerður um Mjallargötu 6 á þeim tíma, sem stefndi heldur fram. Er hafnað þeirri viðbáru áfrýjanda að um málamyndagerning sé að ræða. Þá hefur því ekki verið haldið fram að verð eignarinnar eða samningsskilmálar að öðru leyti, sem lýst er í kaupsamningnum, hafi á einhvern hátt verið óvenjulegir eða óeðlilegir, eða að ekki hefði komið til viðskipta milli óskyldra með slíkum kjörum. Hefur ekki verið sýnt fram á að sú aðstaða, sem greindi í 58. gr. laga nr. 75/1981, sé hér fyrir hendi og getur þessi ástæða því ekki heldur leitt til þess að krafa áfrýjanda nái fram að ganga. Að öllu framanröktu virtu verður staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að skattframtal stefnda fyrir gjaldárið 1995 verði lagt til grundvallar við ákvörðun opinberra gjalda hans.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem er ákveðinn í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Vísað er frá héraðsdómi kröfu stefnda, Andvaraútgerðarinnar sf., um að ógiltur verði úrskurður ríkisskattstjóra nr. 2002/0287 frá 20. mars 2002.
Skattframtal stefnda fyrir gjaldárið 1995 skal lagt til grundvallar við ákvörðun opinberra gjalda hans.
Áfrýjandi, íslenska ríkið, greiði stefnda samtals 500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. ágúst 2004.
Mál þetta, sem dómtekið var í dag, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Andvaraútgerðinni sf., [...], Silfurtorgi 1, Ísafirði, gegn íslenska ríkinu með stefnu áritaðri um birtingu 7. nóvember 2003.
Dómkröfur stefnanda eru þær að ógiltur verði úrskurður ríkisskattstjóra nr. 2002/0287 frá 20. mars 2002 og að framlagt skattframtal stefnanda fyrir gjaldárið 1995 verði lagt til grundvallar við ákvörðun opinberra gjalda hans. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi.
Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og tildæmdur málskostnaður úr hans hendi að mati dómsins.
I
Málsatvik
Málsatvik eru þau að með skattframtali stefnanda árið 1995 var gerð grein fyrir kaupum stefnanda á fasteigninni Mjallargötu 6, Ísafirði, á árinu 1994. Var eignin færð í fyrningarskýrslu árið 1994 og fyrnd sérstakri fyrningu að fjárhæð 3.329.623 kr. á móti skattskyldum söluhagnaði frá fyrra ári.
Með bréfi skattstjórans í Vestfjarðarumdæmi, dags. 20. nóvember 1995, var stefnandi beðinn að leggja fram kaupsamning til staðfestingar á kaupum á Mjallargötu 6 og einnig var óskað eftir gögnum til staðfestingar þinglýsingu.
Engin viðbrögð urðu af hálfu stefnanda við þessu bréfi skattstjóra.
Með bréfi, dags. 17. febrúar 1997, tilkynnti skattstjóri stefnanda að hann hygðist endurákvarða opinber gjöld hans fyrir tekjuárið 1994, þar sem ekki hefðu verið lögð fram umbeðin gögn varðandi kaup á Mjallargötu 6, Ísafirði. Tók skattstjóri fram að aukafyrningum eignarinnar vegna söluhagnaðar væri hafnað og myndi tekjuskattsstofn því hækka um 3.329.623 kr. ásamt 25% álagi.
Næst gerðist það í málinu að með bréfi 6. janúar 1999 lagði skattstjóri fyrir stefnanda að láta í té skýringar og/eða gögn varðandi skattframtal hans fyrir tekjuárið 1994. Jafnframt kom fram að skattstjóri teldi eignfærslu á húseigninni að Mjallargötu 6 samkvæmt ársreikningum stefnanda ótrúverðuga, þar sem Þórir G. Hinriksson væri sagður þinglýstur eigandi fasteignarinnar þar til 26. ágúst 1998 þegar Landsbanki Íslands varð eigandi fasteignarinnar. Þá kom fram að skattstjóri hefði í hyggju að endurákvarða álagningu á stefnanda þar sem færð aukafyrning á móti frestuðum söluhagnaði ætti ekki rétt á sér. Húseignin að Mjallargötu 6 hafi aldrei verið þinglýst eign stefnanda.
Með bréfi, dags. 9. mars 1999, tilkynnti skattstjóri stefnanda að hann hygðist endurákvarða álagningu fyrir gjaldárið 1995, þar sem ekki hefðu borist umbeðin gögn og engin svör við bréfum skattstjóra.
Þann 7. apríl 1999 kvað skattstjóri svo upp úrskurð um endurákvörðun álagningar vegna framtals 1995. Voru breytingar gerðar á framtalsskilum stefnanda þar sem ekki hafði verið sýnt fram á að húseignin að Mjallargötu 6, Ísafirði, hefði verið keypt af stefnanda. Eignfærsla á húseigninni, samkvæmt ársreikningum stefnanda, þótti ótrúverðug og var hafnað.
Með bréfi dags. 20. mars 2000, sendi stefnandi óundirritaðan kaupsamning til ríkisskattstjóra ásamt ósk um að ríkisskattstjóri tæki málið til efnislegrar meðferðar að nýju. Í bréfi stefnanda kemur fram að þrátt fyrir ítrekaða leit hafi ekki enn fundist undirritaður kaupsamningur um kaupin. Þá kemur þar fram að aðilar kaupsamningsins hafi efnt hann að fullu, stefnandi hafi yfirtekið allar veðskuldir sem tilgreindar voru í kaupsamningnum og seljandi, Þórir Hinriksson, hafi ekki greitt neitt af þeim eftir að kaupin voru gerð.
Erindið var framsent skattstjóranum í Vestfjarðaumdæmi með beiðni um endurupptöku samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Skattstjóri kvað upp úrskurð þann 17. janúar 2001. Skattstjóri féllst ekki á kröfu gjaldanda um eignfærslu á Mjallargötu 6 í skattframtali fyrir gjaldárið 1995. Í úrskurðinum er m.a. vísað til þess að sýslumaðurinn á Ísafirði hafi afsalað Landsbanka Íslands hf. fasteigninni að Mjallargötu 6 og að fasteignin hafi áður verið þinglýst eign Þóris Hinrikssonar. Þá liggi undirritaður kaupsamningur ekki fyrir. Úrskurður skattstjóra frá 7. apríl 1999 stóð því óbreyttur.
Stefnandi skaut úrskurði þessum til yfirskattanefndar með kæru dags. 17. apríl 2001 og fylgdi bréfinu undirritaður kaupsamningur, dags. 30. desember 1994, sem fundist hafði eftir mikla leit.
Niðurstaða yfirskattanefndar var sú að kæru stefnanda var vísað frá nefndinni og var málið sent ríkisskattstjóra til meðferðar. Ríkisskattstjóri tók erindið til skoðunar en hafnaði því með bréfi dags. 20. mars 2002.
Ágreiningsefni málsins varðar eignfærslu stefnanda á fasteigninni Mjallargötu 6 Ísafirði samkvæmt kaupsamningi dags. 30. desember 1994.
II
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi telur framangreinda úrskurði skattyfirvalda ranga. Niðurstaða þeirra sé reist á þeirri forsendu að þinglýsing kaupsamnings sé það tímamark sem miða beri eignfærslu fasteignar við. Forsenda þessi sé einfaldlega röng. Samkvæmt almennum reglum eignaréttar verður kaupandi að fasteign eigandi hennar með kaupsamningi. Framangreind regla hafi m.a. verið staðfest í dómaframkvæmd, sbr. Hrd. 1969, 145.
Skattyfirvöldum sé annað ókleift en að miða við almennar reglur eignaréttar þegar ákvarðað sé hvenær skattaðilum sé rétt að telja fasteign sína eign. Í því sambandi leggur stefnandi áherslu á að samkvæmt skattalögum nr. 75/1981 hvíli sú skylda á lögaðilum að greiða eignaskatt af öllum sínum eignum, sbr. 73. gr. laganna. Lögin kveði jafnframt á um að eignaskatt skuli miða við eignaskattsstofn skattaðila í árslok, sbr. 79. gr. laganna. Hér sé vísað án frekari skýrgreiningar til eigna skattaðila og samkvæmt því sé ljóst að túlka beri hugtakið "eign" samkvæmt lögum nr. 75/1981 samkvæmt almennum reglum.
Stefnandi telur jafnframt ljóst að skattyfirvöld ætlist til þess að skattaðilar geri grein fyrir kaupum og sölum eigna á því ári sem kaupin fari fram. Samkvæmt því verði að telja að stefnanda hafi borið skylda til að gera grein fyrir kaupum sínum á fasteigninni á skattframtali sínu fyrir tekjuárið 1994.
Af ofangreindu sé ljóst að miða beri eignfærslu á Mjallargötu 6 við dagsetningu kaupsamnings. Eignarréttur hafi færst til stefnanda á því tímamarki og eftir þann tíma komi hann í alla staði fram sem eigandi eignarinnar. Stefnandi hafi greitt orkureikninga og opinber gjöld vegna húseignarinnar frá 1. janúar 1995. Hann hafi greitt af lánum vegna fasteignarinnar, hirt af henni arð og tekjufært á skattframtölum. Húseignin hafi verið í leigu við eigendaskipti og stefnandi hafi fengið fyrstu leigutekjur sínar greiddar þann 18. maí 1995. Vanhöld á þinglýsingu kaupsamningsins hafi ekki áhrif á gildi hans milli aðila, heldur aðeins gagnvart grandlausum þriðja manni sem byggir rétt sinn á þinglýsingunni, sbr. meginreglu 29. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978.
Kaupsamningur stefnanda við Þóri G. Hinriksson um fasteignina sé dagsettur 30. desember 1994 og hafi stefnanda því verið heimilt að eignfæra fasteignina á skattframtali sínu fyrir tekjuárið 1994. Er sérstaklega bent á að frá og með söludegi hafi Þórir G. Hinriksson ekki talið eignina fram á skattframtali sínu.
Vísað er til almennra reglna eignaréttar um yfirfærslu eignarréttar við kaup á fasteignum.
Þá vísar stefnandi sérstaklega til ákvæða laga nr, 75/1981, um tekju- og eignarskatt, sérstaklega 73. og 79. gr. laganna.
Um málskostnað er vísað til 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála.
III
Málsástæður og lagarök stefnda
Í ljósi málsatvika véfengir stefndi að raunveruleg eignatilfærsla um fasteignina að Mjallargötu 6, Ísafirði hafi farið fram. Kaupsamningurinn er véfengdur og því hafnað að hann sé lagður til grundvallar í skattalegu tilliti. Því er haldið fram að kaupsamningurinn hafi verið gerður til málamynda af hálfu stefnanda og Þóris Hinrikssonar með það að markmiði m.a. að hægt væri að fyrna söluhagnað þann sem stefnandi átti og þar með að lækka álagninu stefnanda. Er á því byggt að stefnandi hafi sönnunarbyrðina fyrir því að hann hafi í raun keypt eignina 30. desember 1994. Stefndu telja að sú sönnun hafi ekki tekist.
Skattstjórinn á Ísafirði hafi óskað eftir því 20. nóvember 1995 að stefnandi legði fram kaupsamning til staðfestingar kaupum um fasteignina. Samningur þessi hafi ekki verið lagður fram þrátt fyrir nokkrar ítrekanir skattstjóra og boðun hans á breytingum á álögðum gjöldum og síðan endurákvörðunar hans á opinberum gjöldum stefnanda. Það hafi ekki verið fyrr en 20. mars 2000 í bréfi stefnanda til ríkisskattstjóra, að sendur var óundirritaður kaupsamningur og upplýst að hann hafí verið í vörslum endurskoðanda fyrirtækisins, en undirritaður kaupsamningur hafi ekki fundist þrátt fyrir ítrekaða leit. Stefnandi hafi síðan sent undirritaðan kaupsamning með kæru til yfirskattanefndar, dags. 17. apríl 2001, og þá sé upplýst að kaupsamningurinn hafi fundist eftir mikla leit. Samningur þessi liggi fyrir í málinu. Fyrir hönd seljanda undirriti hann Þórir Hinriksson og sem kaupandi fyrir hönd stefnanda undirriti hann að því er virðist bræðurnir Amar G. Hinriksson, Þórir G. Hinriksson og Daði Hinriksson. Samningur þessi sé ekki vottaður og honum sé ekki þinglýst sem óneitanlega rýri sönnunargildi hans.
Við þetta bætist að fasteignin að Mjallargötu 6 hafi verið seld á nauðungaruppboði og afsal gefið út til hæstbjóðanda, Landsbanka Íslands, 26. ágúst 1998. Samkvæmt nauðungarsölumálinu hafi gerðarþoli verið Þórir G. Hinriksson. Aldrei hafi hann né Arnar Þ. Hinriksson upplýst, að Þórir væri ekki eigandi fasteignarinnar og kaupsamningur hafi verið gerður um fasteignina 30. desember 1994, þar sem stefnandi hefði keypt eignina. Því beri að hafna kröfu stefnanda og er til hliðsjónar vísað til grunnreglu 58. gr. tsk.
Varðandi málskostnað vísast til 130. gr. laga um meðferð einkamála.
IV
Niðurstaða
Með úrskurði ríkisskattstjóra nr. 2002/0287 frá 20. mars 2002, sem stefnandi krefst að verði ógiltur, var hafnað kröfum hans um að fasteign að Mjallargötu 6, Ísafirði, teldist vera eign hans samkvæmt kaupsamningi dags. 30. desember 1994. Var sú niðurstaða eingöngu byggð á því að þar sem stefnandi var ekki þinglýstur eigandi fasteignarinnar á þeim tíma gæti hann ekki talist eigandi hennar. Í málsvörn sinni byggir stefndi hins vegar á því að hafna beri kröfu stefnanda þar sem um málamyndagerning hafi verið að ræða og er til hliðsjónar vísað til grunnreglu 58. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt.
Það er viðurkennd regla í eignarétti að yfirfærsla eignarréttar á sér stað við kaupsamningsgerð. Þinglýsing kaupsamnings skiptir engu máli varðandi þá yfirfærslu eignarréttar eða skuldbindingargildi samnings milli aðila. Samkvæmt 29. gr. laga um þinglýsingu nr. 39/1978 skal þinglýsa réttindum yfir fasteign til þess að þau haldi gildi sínu gegn þeim, er reisa rétt sinn á samningum um eignina, og gegn skuldheimtumönnum eiganda eða annars rétthafa að eign. Tilgangur þinglýsingar er þannig fyrst og fremst að tryggja réttarvernd gagnvart þriðja aðila. Þinglýsingar er ekki þörf til þess að eigandi geti haft full eignarráð og not eignar sinnar, hann þarf einungis að geta sýnt fram á að hann sé raunverulegur eigandi eignarinnar, þegar á reynir. Verður því ekki fallist á röksemdir ríkisskattstjóra í fyrrnefndum úrskurði fyrir því að stefnandi geti ekki talist eigandi fasteignarinnar að Mjallargötu 6.
Þótt ekki sé beinlíns vikið að málamyndagerningi í meðferð skattyfirvalda varðandi mál stefnanda þá var á því byggt í úrskurði skattstjórans í Vestfjarðaumdæmi frá 7. apríl 1999 að eignfærsla á húseigninni að Mjallargötu 6 þætti ótrúverðug. Stefndi véfengir að raunveruleg eignatilfærsla um fasteignina hafi farið fram.
Stefnandi gerði grein fyrir kaupum sínum á fasteigninni Mjallargötu 6, Ísafirði, á sérstöku yfirliti um kaup og sölu eigna með skattframtali sínu 1995. Aðilar kaupsamningsins hafa allir borið fyrir dómi að undirritun hafi átt sér stað 30. desember 1994, eins og kaupsamningur ber með sér. Þá liggur fyrir samkvæmt gögnum máls að kaupandi hefur uppfyllt samningsskyldur sínar í raun með greiðslum og yfirtökum lána og leigt eignina út og tekjufært þá leigu í bókhaldi sínu. Skortur á vottun og þinglýsingu samningsins hefur ekki þýðingu í innbyrðis samskiptum aðila, ef samningur er efndur þeirra á milli í samræmi við efni sitt. Þá ræður hér ekki úrslitum þótt stefnandi hafi ekki upplýst um það við nauðungarsölumeðferð eignarinnar að uppboðsþoli væri ekki raunverulegur eigandi hennar. Verður því að telja að eignatilfærsla hafi átt sér stað, eins og stefnandi heldur fram.
Ekki verður séð að skattasniðgöngusjónarmið 1. mgr. 58. gr. laga nr. 75/1981, nú 1. mgr. 57. gr. laga um tekju-og eignarskatt nr. 90/2003, eigi við í máli stefnanda og er þeirri málsástæðu stefnda hafnað.
Samkvæmt framansögðu hefur ekki verið sýnt fram á að kaupsamningur um fasteignina að Mjallargötu 6, Ísafirði, hafi verðið málamyndagerningur, hvorki milli aðilanna sjálfra né í skattalegu tilliti. Verður því fallist á þær dómkröfur stefnanda að ógiltur verði úrskurður ríkisskattstjóra nr. 2002/0287 frá 20. mars 2002 og að framlagt skattframtal stefnanda fyrir gjaldárið 1995 verði lagt til grundvallar við ákvörðun opinberra gjalda hans.
Eftir þessum úrslitum málsins verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað, sem telst hæfilega ákveðinn 500.000 krónur. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð:
Ógiltur er úrskurður ríkisskattstjóra nr. 2002/0287 frá 20. mars 2002. Framlagt skattframtal stefnanda fyrir gjaldárið 1995 skal lagt til grundvallar við ákvörðun opinberra gjalda hans.
Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, Andvaraútgerðinni sf., 500.000 krónur í málskostnað.