Hæstiréttur íslands
Mál nr. 661/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Málskostnaðartrygging
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. október 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 31. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. október 2017, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að sóknaraðila yrði gert að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í máli sínu á hendur þeim. Kæruheimild er í o. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að kröfu um málskostnaðartryggingu verði hafnað, en til vara að tryggingin verði lægri fjárhæðar en ákveðið var í héraði. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði hefur sóknaraðili höfðað mál það, sem hér um ræðir, í eigin nafni til riftunar á gjafagerningi Bús ehf., sem hann telur felast í kaupsamningi félagsins við varnaraðilann Þrjá frakka hjá Úlfari ehf. 31. janúar 2016 um rekstur veitingahússins Þriggja frakka, er þar var seldur fyrir 38.000.000 krónur. Sóknaraðili krefst þess jafnframt aðallega að varnaraðilum verði óskipt gert að greiða þrotabúi Bús ehf. 95.000.000 krónur, en til vara að varnaraðilinn Þrír Frakkar hjá Úlfari ehf. greiði þrotabúinu 38.000.000 krónur, hvort tveggja með tilgreindum vöxtum. Um heimild til málsóknarinnar vísar sóknaraðili til samþykkis skiptastjóra þrotabús Bús ehf., sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður staðfest sú niðurstaða að líkur hafi verið nægjanlega leiddar að því að sóknaraðili sé ófær um greiðslu málskostnaðar í fyrrgreindu máli.
Yfirlýsingu fyrirsvarsmanns sóknaraðila um að hann ábyrgist greiðslu málskostnaðar, sem kynni að falla á sóknaraðila vegna framangreinds dómsmáls, sem sóknaraðili höfðar sem fyrr segir í eigin nafni, verður ekki jafnað við yfirlýsinga opinberra stofnana um að þær ábyrgist greiðslu málskostnaðar, sem kynni að falla á þrotabú. Í slíkum tilvikum er um ábyrgð að ræða, þar sem aðili getur sótt greiðslu til ríkisins, svo sem um ræðir í dómum Hæstaréttar 12. nóvember 1996 í máli nr. 400/1996, sem er að finna í dómasafni réttarins það ár á bls. 3425, 1. nóvember 2002 í máli nr. 485/2002 og 20. febrúar 2003 í máli nr. 49/2003. Verður slíkum ábyrgðaryfirlýsingum því jafnað til málskostnaðartryggingar, þar sem fjármunir eru tiltækir í formi peningagreiðslu eða bankaábyrgðar. Um það er á hinn bóginn ekki að ræða í tilviki sóknaraðila, falli málskostnaður á hann, þar sem varnaraðilar myndu þurfa að leita dóms á hendur fyrirsvarsmanni sóknaraðila fyrir þeim kostnaði yrði hann ekki greiddur. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðilum málskostnað á báðum dómstigum, sem ákveðinn verður í einu lagi eins og segir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur að öðru leyti en því að frestur sóknaraðila, Lögmanna við Arnarhól ehf., til að setja fram tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar í máli sínu á hendur varnaraðilum, Þremur frökkum hjá Úlfari ehf. og Stefáni Úlfarssyni, skal vera tvær vikur frá uppsögu dóms þessa að telja.
Sóknaraðili greiði varnaraðilum, hvorum um sig, samtals 300.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. október 2017.
Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar 21. september 2017, er höfðað af Lögmönnum við Arnarhól ehf., kt. [...], Borgartúni 24, Reykjavík, með stefnu birtri 12. júní 2017, á hendur Stefáni Úlfarssyni, kt. [...], Ásbúð 76, Garðabæ persónulega og f.h. stefnda, Þriggja frakka hjá Úlfari ehf., Baldursgötu 14, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda í málinu eru eftirfarandi:
„1. Að rift verði með dómi gjafagjörningi Bús ehf. sem fólst í kaupsamningi félagsins við stefnda Þrjá frakka hjá Úlfari ehf., dagsettur 31. janúar 2016 um rekstur veitingahússins Þriggja frakka, að fjárhæð kr. 38.000.000.
2. Að stefndu Þremur frökkum hjá Úlfari ehf. og Stefáni Úlfarssyni verði in solidum gert að greiða þ.b. Bús ehf. kr. 95.000.000, auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 31. janúar 2016 til greiðsludags.
3. Að stefndu verði gert að greiða allan málskostnað að skaðlausu að mati dómsins og/eða síðar framlögðum málskostnaðarreikningi að meðtöldum virðisaukaskatti samkvæmt lögum nr. 50/1988.
4. Til vara er þess krafist að stefnda, Þremur frökkum hjá Úlfari ehf., verði gert að greiða þ.b. Bús ehf. kr. 38.000.000, auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 31. janúar 2016 til greiðsludags, auk málskostnaðar að skaðlausu að mati dómsins.“
Í stefnu kemur fram að Lögmenn við Arnarhól ehf. fari með mál þetta „vegna þ.b. Bús ehf. samkvæmt heimild skiptastjóra“ búsins. Þá liggur fyrir yfirlýsing skiptastjóra frá 31. maí 2017 þar sem staðfest er að þrotabúið hafi heimilað Lögmönnum við Arnarhól ehf. að fylgja eftir riftunarmálum vegna sölu á rekstri félagsins og annarra ráðstafana sem tengjast rekstri Þriggja frakka. Reksturinn hafi verið seldur Þremur frökkum hjá Úlfari ehf., kt. [...] með kaupsamningi 31. janúar 2016. Þá segir að heimildin sé bundin við að rekstur mála fyrir dómstólum og að annar kostnaður sé á eigin kostnað og áhættu ef aðgerðir bera ekki tilætlaðan árangur. Þá liggur fyrir sameiginleg yfirlýsing skiptastjóra Bús ehf. og fyrirsvarsmanns stefnanda sem undirrituð er 31. maí 2017 varðandi málarekstur þennan. Þar segir m.a. að þar sem þrotabúið hafi ekki fjármuni til þess að fylgja málunum eftir séu aðilar sammála um að Lögmenn við Arnarhól ehf. fjármagni og reki mál til þess að ná undir búið eignum þess og fjármunum. Aðilar séu sammála um að því sem komi út úr aðgerðum skuli, að frádregnum kostnaði, skipt til helminga á milli Lögmann við Arnarhól ehf. og þrotabúsins.
Við þingfestingu málsins, 7. september sl., kröfðust stefndu málskostnaðartryggingar úr hendi stefnanda með vísan til b-liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála að fjárhæð 5.890.000 krónur, þ.m.t. virðisaukaskattur, eða annarrar lægri fjárhæðar í formi bankabókar eða bankaábyrgðar og innan hæfilegs frests að mati dómsins. Stefnandi krefst þess að kröfunni verði hafnað en til vara að málskostnaðartrygging nemi 700.000 krónum.
Stefndu kveða stefnanda máls þessa, Lögmenn við Arnarhól ehf., vera félag sem hafi með höndum lögfræðiþjónustu, fjárfestingar, lánastarfsemi og annan skyldan rekstur og hafi svo verið frá fundi 18. mars 2010 og skráningu í hlutafélagaskrá 25. sama mánaðar. Stjórnarmaður félagsins sé Steinbergur Finnbogason hdl. og reki hann málið fyrir hönd þess. Hann sé jafnframt framkvæmdastjóri félagsins og hafi prókúruumboð fyrir það.
Stefndu vísa til þess að gert hafi verið árangurslaust fjárnám hjá stefnanda 13. mars 2017 og 31. júlí 2017. Þá hafi félagið ekki haft neinar tekjur á árinu 2015 samkvæmt ársreikningi þess fyrir það ár sem staðfestur hafi verið á aðalfundi þess 21. júlí 2016. Þá hafi það ekki átt neinar eignir í lok þess árs. Eina fjárhæðin sem ársreikningurinn hafi að geyma sé hlutafé í félaginu að fjárhæð 600.000 krónur. Í upplýsingum með ársreikningnum komi fram að Steinbergur Finnbogason hdl. sé eigandi 50% hlutafjár í félaginu og Hrafnhildur Valdimarsdóttir, sem muni vera eiginkona hans, sé eigandi 50% hlutafjárins. Hrafnhildur sé varamaður í stjórn félagsins og hafi prókúruumboð fyrir það. Ársreikningi félagsins fyrir árið 2016 hafi ekki verið skilað til ársreikningaskrár ríkisskattstjóra. Þá verði ekki byggt á því plaggi sem stefnandi hafi nú lagt fram sem ársreikning 2016 enda sé ljóst að hagur stefnanda hafi ekki vænkast sem skyldi svo hægt sé að draga þá ályktun að hann sé gjaldfær vegna hugsanlegs málskostnaðar í þessu máli.
Þá bendir stefndi jafnframt á að félagið Pro legal ehf. hafi verið úrskurðað gjaldþrota 14. desember 2016. Stjórnarmaður og prókúruhafi þess var áðurnefndur Steinbergur Finnbogason hdl. Tilgangur félagsins hafi verið rekstur lögmannsstofu, ráðgjafarþjónusta, fjárfestingar. lánastarfsemi og annar skyldur rekstur. Hafi sá verið tilgangur félagsins frá stofnun. Hafi rekstur lögfræðiþjónustu nefnds Steinbergs einnig verið í því félagi með sama hætti og stefnanda þess máls. Ársreikningi fyrir þetta félag vegna ársins 2010 hafi verið skilað til ársreikningskrár ríkisskattstjóra 18. apríl 2012, en ekki síðan vegna áranna 2011, 2012, 2013, 2014, 2015 og 2016.
Þá kveða stefndu að ábyrgðaryfirlýsing nefnds Steinbergs Finnbogasonar hdl., sem nú hafi verið lögð fram, sé að engu hafandi.
Aðild stefnanda að málinu sé reist á því að hann hafi lýst kröfu í þrotabú Bús ehf. að fjárhæð 1.247.093 krónur og muni hún hafa verið grundvölluð á lögfræðiþjónustu nefnds Steinbergs fyrir það félag. Vegna þeirrar lögfræðiþjónustu hafi Bú ehf. greitt m.a. 6.500.000 krónur til Pro Legal ehf. 27. maí 2014. Sömuleiðis hafi Bú ehf. átt kröfu á Steinberg vegna úttekta hans hjá því félagi. Byggja stefndu á því að Lögmenn við Arnarhól ehf. eigi enga réttmæta kröfu í þrotabú Bús ehf. Ekki verði þó betur séð en að skiptastjóri hafi hafnað kröfunni að svo stöddu samkvæmt fyrirliggjandi kröfulýsingaskrá. Stefndu halda því fram að stefnukröfur málsins og þær málsástæður sem þær séu reistar á séu haldlausar. Málshöfðunin sé því bæði tilefnis- og tilgangslaus af hálfu stefnanda sem ógjaldfærs aðila. Stefnandi geti enga möguleika átt á að fá hina minnstu fjárhæð viðurkennda til greiðslu úr hendi stefndu og hafi enga hagsmuni af því að sækja kröfur sínar í þessu máli, hvað þá 95.000.000 króna.
Krefjast stefndu því með vísan til b-liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. að stefnanda verði gert að setja stefndu sameiginlega málskostnaðartryggingu að fjárhæð 5.890.000 krónur, þ.m.t. virðisaukaskattur, eða aðra lægri fjárhæð að mati dómsins. Byggist fjárhæðin á gjaldskrá lögmanns stefndu og miðast við hagsmunatengingu miðað við stefnukröfu málsins en fyrir liggi að mál þetta sé og verði umfangsmikið, m.a. með dómkvaðningu matsmanns eða matsmanna, og verja þurfi miklum tíma í að halda uppi vörnum í málinu. Telja stefndu að fjárhæð í varakröfu stefnanda sé of lág við ákvörðun tryggingarfjárhæðarinnar. Þá beri að taka tillit til þess að stefnandi hafi höfðað málið að þarflausu, eða án tilefnis, og hafi uppi kröfur, staðhæfingar eða mótbárur sem hann viti eða megi vita að séu rangar, haldlausar, þarflausar og þýðingarlausar, svo sem fyrirhuguð dómkvaðning matsmanns, og þessar sakir hans séu miklar, sbr. 1.-3. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991.
Stefndu krefjast málskostnaðar úr hendi stefnanda og umboðsmanns hans, Steinbergs Finnbogasonar hdl., sameiginlega í þessum þætti málsins, sbr. 4. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991 að mati dómsins og með álagi í samræmi við framangreint.
Stefnandi mótmælir kröfunni og vísar til þess að umræddar fjárnámsgerðir gefi ekki rétta mynd af fjárhagsstöðu stefnanda í dag. Ekki hafi verið mætt af hálfu stefnanda er aðfararbeiðnirnar voru teknar fyrir af sýslumanni m.a. vegna misskilnings. Skuldirnar hafi nú verið greiddar upp. Þá séu röksemdir stefndu hvað varðar félagið Pro legal ehf. og fyrirsvarsmanns þess félags og stefnanda, máli þessu óviðkomandi og að engu hafandi. Þá bendir stefnandi á að samkvæmt ársreikningi stefnanda fyrir árið 2016 sé ljóst að hagur hans fari batnandi. Þannig hafi verið hagnaður af rekstrinum upp á 1.130.854 krónur. Auk þessa byggir stefnandi á því að með ábyrgðaryfirlýsingu fyrirsvarsmanns stefnanda frá 21. september sl. ábyrgist hann greiðslu hugsanlegs málskostnaðar vegna máls þessa og nái ábyrgðin til alls tildæmds málskostnaðar sem kynni að falla á stefnanda. Felist þannig í yfirlýsingunni skuldbinding gagnvart stefndu í málinu. Vísar stefnandi til þess að fyrirsvarsmaðurinn eigi fasteign en fasteignamat hennar nemi liðlega 50 milljónum króna. Þá hvíli á henni liðlega 30 milljónir króna. Fasteignina eigi hann að helmingi á móti eiginkonu sinni. Ljóst sé því að fyrirsvarsmaðurinn sé borgunarmaður fyrir hugsanlegum málskostnaði. Telji dómurinn framangreint ekki fullnægjandi og að gera verði stefnanda að leggja fram málskostnaðartryggingu geri hann þá varakröfu að hún nemi 700.000 krónum.
Niðurstaða:
Samkvæmt b-lið 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála getur stefndi krafist þess, við þingfestingu máls, að stefnandi setji tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar megi leiða líkur að því að stefnandi sé ófær um greiðslu málskostnaðar sem á hann kunni að falla í málinu.
Stefnandi höfðar mál þetta til að ná fram riftun á grundvelli XX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. vegna sölu á rekstri veitingarstaðarins Þriggja frakka frá Búi ehf. til stefnda, Þriggja frakka hjá Úlfari ehf. Þá gerir hann þá kröfu að stefndu verði óskipt (in solidum) gert að greiða þrotabúi Bús ehf. 95.000.000 króna auk dráttarvaxta en til vara 38.000.000 auk dráttarvaxta. Aðild sína að málinu byggir stefnandi á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 21/1991, heimild skiptastjóra Bús ehf. og yfirlýsingar hans þar að lútandi en stefnandi kveðst hafa lýst kröfu í búið. Í áðurnefndu ákvæði er að finna heimild fyrir aðra en skiptastjóra til þess að halda uppi hagsmunum þrotabús. Þar segir m.a.: „Ákveði skiptastjóri að halda ekki uppi hagsmunum sem þrotabúið kann að njóta eða geta notið, hvort sem það er gert samkvæmt ályktun skiptafundar eða ekki, getur lánardrottinn sem hefur lýst kröfu á hendur búinu, sem hefur ekki þegar verið hafnað, gert það í eigin nafni til hagsbóta búinu hafi skiptastjóri ekki þegar skuldbundið það á annan veg.“
Yfirlýsing skiptastjóra verður ekki skilin öðruvísi en svo að hann hafi ákveðið að halda ekki sjálfur uppi hagsmunum þrotabúsins í þeim ágreiningi sem til úrlausnar er í málinu. Af gögnum, eins og þau liggja nú fyrir dóminum á þessu stigi málsins, verður á hinn bóginn ráðið að skiptastjóri hafi hafnað kröfu stefnanda að svo stöddu. Allt að einu er hér eingöngu til úrlausnar sú krafa stefnda að stefnanda verði gert að leggja fram málskostnaðartryggingu í málinu. Sú aðstaða sem lýst er hér að framan getur engu breytt um skyldu sóknaraðila til að setja tryggingu fyrir greiðslu málskostnaðar samkvæmt b-lið 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991 verði fallist á að skilyrði hennar séu fyrir hendi. Þá koma þau atriði er varða aðild stefnanda og heimild hans til málarekstrarins væntanlega til álita síðar við efnisúrslausn málsins.
Að þessu sögðu tekur dómurinn fram að í máli þessu liggur fyrir að gerð hafa verið tvö árangurslaus fjárnám hjá stefnanda á síðustu mánuðum, það fyrra 13. mars 2017 og það síðara 31. júlí 2017. Fjárnámsgerð, sem hefur verið lokið að hluta eða í heild án árangurs, gefur sterka vísbendingu um ógjaldfærni gerðarþola, enda felst í þeim málalyktum að gerðarþoli á hvorki handbært fé til að greiða þá kröfu sem krafist er fjárnáms fyrir, né eignir sem taka má fjárnámi til tryggingar kröfunni. Hafa stefndu því leitt líkur að því að stefnandi sé ófær um greiðslu málskostnaðar.
Stefnandi hefur greint svo frá fyrir dóminum að fjárnámsgerðirnar gefi ekki rétta mynd af fjárhagsstöðu hans nú. Í fyrsta lagi hafi hann nú greitt þær skuldir sem lágu að baki fjárnáminu auk þess sem ársreikningur fyrir árið 2016 sýni að reksturinn standi ágætlega.
Dómurinn telur að ársreikningur stefnanda verði ekki talinn gefa nægilega skýrar vísbendingar um að fjárhagsstaða félagsins sé nú með þeim hætti að það standi undir greiðslu málskostnaðar sem kunni að falla á stefnanda í máli þessu. Er til þess að líta að þrátt fyrir að hagnaður sé þar sagður nema 1.130.854 krónum eru skammtímaskuldir félagsins þar sagðar 2.954.469 krónur en handbært fé 1.705.607 krónur. Þá er einnig óhjákvæmilegt að líta til þess að ársreikningurinn er óundirritaður og ekki staðfestur af endurskoðanda félagsins.
Hvað varðar ábyrgðaryfirlýsingu fyrirsvarsmanns stefnanda tekur dómurinn fram að atvik í máli þessu séu ekki sambærileg og í Hæstaréttarmálunum nr. 49/2003 og 485/2002. Eins og atvikum er háttað telur dómurinn að framlagning ábyrgðaryfirlýsingarinnar geti ekki leyst stefnanda undan þeirri skyldu að leggja fram málskostnaðartryggingu í máli þessu. Er óhjákvæmilegt að líta til þess að örðugra kann að vera fyrir stefnda að sækja greiðslu úr hendi fyrirsvarsmannsins enda liggja ekki fyrir gögn í málinu sem sýna að fjármunir séu nú tiltækir eða standi til reiðu, heldur er vísað til þess að fyrirsvarsmaðurinn eigi fasteign að helmingshlut á móti eiginkonu sinni.
Hafa stefndu því, þegar á allt er litið, leitt að því fullnægjandi líkur að stefnandi kunni að vera ófær um greiðslu málskostnaðar sem félaginu hefur ekki tekist að hnekkja og ber því að fallast á kröfu stefndu um málskostnaðartryggingu með vísan til b-liðar 1. mgr. 133. gr. laga nr. 91/1991. Er um umfang tryggingar horft til atvika málsins, eðlis þess og sýnilegs umfangs á þessu stigi. Þá fer um fjárhæð tryggingar, form og frest til að leggja hana fram eins og í úrskurðarorði segir.
Þá verður stefnanda gert að greiða stefndu sameiginlega málskostnað í þessum þætti málsins sem þykir hæfilega ákveðinn 250.000 krónur, sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Dómurinn telur þó ekki efni til að fallast á kröfu stefndu um álag á málskostnað eða að umboðsmanni sóknaraðila verði gert að greiða málskostnað með umbjóðanda sínum, sbr. 131. gr. laga nr. 91/1991.
Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Stefnandi, Lögmenn við Arnarhól ehf., skal innan þriggja vikna frá uppkvaðningu úrskurðar þessa setja málskostnaðartryggingu, að fjárhæð 2.000.000 króna, í formi peningagreiðslu eða bankaábyrgðar.
Stefnandi greiði stefndu sameiginlega 250.000 krónur í málskostnað í þessum þætti málsins.