Hæstiréttur íslands
Mál nr. 166/2005
Lykilorð
- Nauðung
- Líkamsárás
- Þjófnaður
- Ölvunarakstur
|
|
Fimmtudaginn 19. janúar 2006. |
|
Nr. 166/2005. |
Ákæruvaldið(Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari) gegn X (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) |
Nauðung. Líkamsárás. Þjófnaður. Ölvunarakstur.
X var ákærður fyrir brot gegn 108. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa beitt fyrrum sambýliskonu sína líkamlegu ofbeldi, hótun um líkamlegt ofbeldi og ólögmætri nauðung til að fá hana til að undirrita yfirlýsingu um að hún drægi til baka kæru á hendur honum fyrir nauðgun, sem hún hafði borið um hjá lögreglu og fyrir dómi. Þá var hann enn fremur ákærður fyrir þjófnað og umferðarlagabrot ásamt líkamsárás gegn fyrrgreindri konu. X játaði þjófnaðar- og umferðarlagabrotin og undi niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu fyrir líkamsárásina. Niðurstaða héraðsdóms, um að sannað væri að X hefði beitt konuna ólögmætri nauðung og hótun um líkamlegt ofbeldi, ef hún skrifaði ekki undir yfirlýsinguna, var staðfest í Hæstarétti og varðaði þessi háttsemi við 108. gr. almennra hegningarlaga. Við ákvörðun refsingar var talið að eldri brot X gegn konunni hefðu ítrekunaráhrif á líkamsárásina, sbr. 71. gr. sömu laga, og sama átti við um auðgunarbrot, sem hann hafði verið dæmdur fyrir árið 2000 og 2004, gagnvart þjófnaðarbrotunum. Þá var við mat á refsingu vísað til 72., 77., þágildandi 218. gr. a og 255. gr. laganna og X dæmdur til að sæta fangelsi í 2 ár og sviptingu ökuleyfis ævilangt. Honum var enn fremur gert að greiða konunni 300.000 krónur í miskabætur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson og Haraldur Henrysson fyrrverandi hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 15. apríl 2005 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingu héraðsdóms og þyngingar á refsingu.
Ákærði krefst þess að hann verði sýknaður af ákæru 2. júní 2004 og að refsing verði milduð.
Í málinu eru ákærða gefin að sök brot, sem nánar er lýst í fimm ákærum. Ákærði hefur játað þjófnaðarbrot samkvæmt ákæru 24. ágúst 2004 og umferðarlagabrot samkvæmt ákærum 23. ágúst 2004 og 17. janúar 2005. Þá unir hann niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu fyrir líkamsárás samkvæmt ákæru 18. janúar 2005. Hann neitar hins vegar sakargiftum samkvæmt ákæru 2. júní 2004, en í hinum áfrýjaða dómi var hann sakfelldur fyrir brot gegn 108. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem honum er þar gefið að sök. Þá krefst hann enn fremur mildunar refsingar fyrir aðrar sakargiftir.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um annað en sakarkostnað.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan sakarkostnað málsins í héraði og fyrir Hæstarétti samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en sakarkostnað.
Ákærði, X, greiði sakarkostnað málsins í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 657.208 krónur, þar með talin málsvarnarlaun og réttargæslulaun eins og þau voru ákveðin í hinum áfrýjaða dómi, svo og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, 124.500 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. mars 2005.
Mál þetta sem dómtekið var 8. mars 2005 er höfðað samkvæmt ákæru útgefinni af lögreglustjóranum í Reykjavík 24. ágúst 2004 á hendur X, kennitala [...], Reykjavík, og Y kt. [...], Reykjavík fyrir eftirtalin brot framin í Reykjavík á árinu 2004:
I
Ákærðu báðum fyrir þjófnað með því að hafa í félagi aðfaranótt föstudagsins 23. júlí farið í heimildarleysi inn í bílskúr við [...] og stolið hátalarakerfi, plastkörfu sem innihélt ýmsa muni, 5 lítra bensínbrúsa og leðurfílófaxi, samtals að verðmæti kr. 23.000.
II
Ákærða X fyrir:
1.
Þjófnað með því að hafa miðvikudaginn 9. júní í verslun Hans Petersen að Laugavegi 178 stolið Canon Ixux 400 stafrænni myndavél að verðmæti kr. 49.900.
Framangreind brot eru talin varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
2.
Fíkniefnalagabrot með því að hafa föstudaginn 23. júlí á þáverandi heimili sínu að [...] haft í vörslum sínum 0,32 g af amfetamíni.
Þetta er talið varða við 2. gr., sbr. 5. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65, 1974, sbr. lög nr. 13, 1985, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233, 2001, sbr. reglugerð nr. 848, 2002. Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og að upptækt verði gert framangreint fíkniefni, sem lagt var hald á, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65, 1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233, 2001.
Við fyrirtöku málsins þann 20. október 2004 var þáttur Y klofinn frá máli þessu og dæmdur sér. Í þinghaldi þann 23. nóvember 2004 féll ákæruvaldið síðan frá þeim hluta ákæru þessarar sem tilgreindur er í 2. tl. II. kafla hennar.
Hinn 20. október sl. var sakamálið nr. 1178/2004 sameinað þessu máli en þar er ákærða gefið að sök, með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 2. júní 2004, hegningarlagabrot með því að hafa þriðjudaginn 20. apríl 2004 á gistiheimilinu Páfanum við Brautarholt 4 í Reykjavík beitt A líkamlegu ofbeldi og hótun um líkamlegt ofbeldi og jafnframt ólögmætri nauðung til að fá hana til að undirrita yfirlýsingu um að hún drægi til baka kæru á hendur honum fyrir nauðgun laugardaginn 31. maí 2003, sem hún hafði borið um hjá lögreglu og fyrir dómi.
Þetta er talið varða við 108. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 6. gr. laga nr. 39/2000.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Hinn 20. október sl. var sakamálið nr. 1623/2004 einnig sameinað þessu máli en þar er ákærða gefið að sök með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum í Reykjavík 23. ágúst 2004 umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreiðinni KD-[...], aðfaranótt föstudagsins 18. júní 2004, undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði 0,51) um Rauðarárstíg og Grettisgötu í Reykjavík.
Þetta er talið varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr., 45. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 48/1997.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 2. gr. laga nr. 23/1998.
Hinn 20. janúar sl. var sakamálið nr. 88/2005 sameinað þessu máli en þar er ákærða gefið að sök með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 18. janúar 2005 líkamsárás, með því að hafa að kvöldi föstudagsins 17. og aðfaranótt laugardagsins 18. september 2004, í svefnherbergi í íbúð að Z, Kópavogi, ítrekað veist að fyrrum sambýliskonu sinni, A, þar sem hún lá á grúfu í rúmi og slegið hana með krepptum hnefa í andlit og víðs vegar um líkamann. Enn fremur kýldi ákærði A á vinstri vangann er hún stóð upp úr rúminu en við það skall hún utan í vegg og meiddist á enni. Afleiðingar árása ákærða voru þær að andlit A varð blátt, marið og aumt en bogadregið mar var á neðanverðu enni upp af svæðinu milli augnabrúna, glóðarauga á báðum augum, mar á báðum kinnum og kringum munn. Á báðum handleggjum hennar voru dreifðir marblettir alveg frá handarbökum, upp framhandleggi og upphandleggi og upp á axlir. Mar var á baki hennar milli herðablaða og talsvert um grunn þreifieymsli þar.
Þessi háttsemi ákærða þykir varða við 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Af hálfu A, kennitala [...], er gerð sú krafa að ákærði verði dæmdur til að greiða henni skaðabætur að fjárhæð kr. 500.000 auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 18. september 2004 til þess dags er mánuður er liðinn frá því að krafan er birt ákærða, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Hinn 20. janúar sl. var sakamálið nr. 130/2005 einnig sameinað þessu máli en þar er ákærða gefið að sök, með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum í Reykjavík 17. janúar 2005, umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreiðinni KX-[...] sunnudaginn 25. júlí 2004, undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði 1,09) um Sóleyjargötu og Smáragötu í Reykjavík.
Þetta er talið varða við 1. mgr., sbr. 2. mgr., 45. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr., umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 48/1997.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 2. gr. laga nr. 23/1998.
Verjandi ákærða krefst þess að ákærði verði sýknaður af ákærum dags. 2. júní 2004 og 18. janúar 2005. Að öðru leyti krefst hann vægustu refsingar sem lög leyfa.
Ákæra dags. 2. júní 2004.
Málavextir.
Þriðjudaginn 20. apríl 2004 kl. 11.50 kom A á skrifstofu kærumóttöku lögreglunnar í Reykjavík til að leggja þar fram kæru á hendur ákærða fyrir að halda henni nauðugri á gistiheimilinu Páfanum við Brautarholt í Reykjavík og þvinga hana til að undirrita yfirlýsingu um afturköllun á kæru sem hún hafði lagt fram á hendur ákærða fyrir nauðgun.
Framburðir ákærða og vitna fyrir dómi.
Ákærði skýrði svo frá að hann hefði hringt í A í umrætt sinn og beðið hana um að koma til sín til að skrifa undir skjal sem lögfræðingur hans hefði útbúið vegna kæru sem hún hafði lagt fram á hendur ákærða. Auk þessa hafi hann nefnt við hana að hann þyrfti á fá ákveðnar upplýsingar um son þeirra vegna lífeyrismála. Hafi hún komið á staðinn í fylgd vinkonu sinnar, B. Hafi hún ekki verið alveg tilbúin að skrifa undir skjalið til að byrja með og hafi þau þá lent í smárifrildi vegna þess. Hafi það aðallega snúist um að A hefði margsinnis verið búinn að lofa honum að draga kæruna til baka en alltaf svikið það. Rifrildinu hafi síðan lokið með því að hún hafi beðið hann um að fara þá og ná í blaðið til að skrifa undir. Um orðalagið í þessari yfirlýsingu sagði ákærði að það væri í raun komið frá A því hún hafi lýst því yfir áður að hún hafi verið undir pressu frá lögreglu og hjúkrunarfræðingum með að kæra. Kvaðst ákærði alfarið neita því að hann hefði neytt hana til að skrifa undir og hann hafi ekki beitt hana neinum hótunum. Hún hafi hins vegar eitthvað talað um að hún myndi skrifa undir með því skilyrði að ákærði hætti að drekka. Þarna hafi einnig verið viðstaddir, ásamt B, þeir C og D, en D hafi verið húsvörður þarna.
Vitnið, A, sagði að ástæða þess að hún kom á staðinn ásamt vinkonu sinni, B, hafi verið sú að ákærði hafi ætlað að láta hana hafa peninga og eins hafi hann ætlað að láta þær hafa fjarstýringu fyrir B. Þegar þær hafi komið á staðinn hafi ákærði hins vegar rétt henni blað sem hann hafi sagt að lögfræðingur sinn hefði útbúið vegna nauðgunarkæru hennar á hendur ákærða. Hún hafi fyrst í stað neitað að skrifa undir og hafi þau rifist vegna þess þarna á ganginum. Hún myndi þó ekki eftir að ákærði hefði ýtt við sér eða komið við sig með öðrum hætti. Hún kvaðst heldur ekki minnast þess að hann hefði hótað henni ofbeldi seinna. Hún eigi hins vegar erfitt með að muna hvað hann sagði þarna á staðnum því hún hafi í raun reynt að ýta frá sér öllum hugsunum um það sem ákærði hafi gert sér í gegnum tíðina. Hún kvaðst þó minnast þess að hann hefði staðið í vegi fyrir henni og hindrað för hennar út úr húsinu. Hafi hann verið mjög ógnandi í allri sinni framkomu, öskrað á sig og æpt. Kvaðst hún að lokum ekki hafa þorað annað en að skrifa undir blaðið þar sem hún hafi vitað af fenginni reynslu að ekkert þýddi að standa gegn ákærða því hann myndi þá bara ráðast á hana. Þau hafi síðan farið saman inn í eldhúsið og ritað þar undir. Ákærði hafi sagt að einhver vottur þyrfti að skrifa undir. Kvaðst vitnið þá hafa sagt við B að hún skyldi skrifa undir sem vottur. Hafi þetta eingöngu verið gert til að sleppa sem fyrst út. Þarna inni í eldhúsinu hafi einnig verið tveir menn, annar þeirra húsvörður. Hafi sá maður þá stuttu áður komið fram á gang og sagt við ákærða að róa sig aðeins.
Aðspurð hvort hún hafi einhvern tímann áður samþykkt gagnvart ákærða að skrifa undir slíka yfirlýsingu með einhverjum skilyrðum sagði vitnið að hún hefði einhvern tímann nefnt það við ákærða að ef hann hætti öllu rugli og dópi þá myndi hún fallast á að rita undir afturköllun á kærunni. Hún hafi þó eingöngu sagt það til að friða hann því hann hafi sífellt verið að þrýsta á hana með að samþykkja slíka afturköllun. Aðspurð hvort hún hafi ekki getað beðið mennina tvo í eldhúsinu um að hjálpa sér þegar þau komu þar inn sagði vitnið að hún hefði ekki viljað blanda þeim í málið því oft áður hefði það gerst við slíkar aðstæður að ákærði hafi þá ráðist beint að viðkomandi.
Vitnið, B, kvaðst hafa farið með A á gistiheimilið Páfann í Brautarholti. Ástæðu heimsóknar þeirra til ákærða sagði vitnið vera þá að A hafi ætlað að ná í eitthvert plagg til ákærða en sjálf kvaðst hún hafa ætlað að ná í fjarstýringu sem hún hefði lánað ákærða fyrir videótæki. Þegar þær hafi síðan komið á staðinn hafi skjalið ekki verið það sem A hafi átt von á heldur hafi ákærði viljað láta hana skrifa undir yfirlýsingu sem A hafi augljóslega ekki verið sátt við að skrifa undir. Hafi hún sagt að rétt skyldi vera rétt og hafi hún reynt að færast undan að skrifa undir skjalið sem ákærði vildi að hún skrifaði undir. Hafi orðið af þessu nokkuð hávært rifrildi á milli þeirra. Kvaðst hún sjálf hafa orðið nokkuð skelfd við þetta og augljóslega hafi A líka verið hrædd. Hafi þær síðan ætlað að fara út en ákærði hafi þá staðið í vegi þeirra og hindrað að þær kæmust burtu. Hann hafi þó ekki lagt hendur á A vegna þessa en sagt við hana ógnandi að hann færi létt með að láta taka í hana og láta eitthvað henda hana ef hún skrifaði ekki undir skjalið. Hann hafi ekki sagst ætla að gera eitthvað sjálfur heldur hafi hann alltaf sagt að hann myndi fá einhvern annan til að taka í hana. Hafi þetta síðan endað með því að A hafi sagt við ákærða: „Sýndu mér þá þetta blað. Ég skal þá skrifa undir þetta helvítis skjal.” Síðan hafi A sagt: „Komdu [B]. Við skulum þá skrifa undir þetta helvítis blað”. Kvaðst vitnið ekki hafa þorað að gera annað þar sem mikill hávaði hafi verið þarna í gangi og sjálf sé hún ekki það mikill bógur að hún megi við slíkum látum. Hafi hún helst vilja losna af staðnum sem allra fyrst. Hafi þau síðan farið öll upp í eldhús sem þarna sé. Hafi ákærði þá farið og náð í skjalið inn í herbergi sitt og þær hafi síðan skrifað undir það við eldhúsborðið. Hún kvaðst hins vegar ekkert hafa vitað hvað hún var að skrifa þarna undir og hún hafi ekki fengið neina vitneskju um það fyrr en þær A voru komnar niður á lögreglustöð til að gefa skýrslu um atburðinn.
Vitnið sagði að í eldhúsinu hafi verið tveir menn. Hafi annar þeirra verið búinn að koma fram á ganginn í tvö eða þrjú skipti til að segja þeim að lækka róminn og hafa lægra, enda hafi mikið verið öskrað og æpt í þessum látum öllum saman. Maður þessi hafi þó líklega ekkert séð af því sem fram fór á milli ákærða og A. Aðspurt sagði vitnið að ef hún hefði verið í sporum A þá geti vel verið að hún hefði reynt að hlaupa út á meðan ákærði sótti skjalið inn í herbergi sitt því þá hefði kannski verið möguleiki á að komast undan.
Vitnið, C, sagðist hafa verið staddur í eldhúsinu í Brautarholti í umrætt sinn ásamt félaga sínum, D. Hafi mikill hávaði þá borist frá ganginum. Vitnið, sem kvaðst hafa verið eins konar húsvörður þarna á staðnum, hafi þá farið í dyragættina. Hafi ákærði þá staðið þarna niðri á stigapalli ásamt tveimur stúlkum. Sagðist vitnið hafa kallað til fólksins að þau skyldu hafa lægra því annars yrðu þau að fara út. Þetta hafi síðan endurtekið sig og hafi hann þá farið fram í dyrnar niður á stigapall sem þarna sé og hafi fólkið þá staðið á stigapalli sem sé á milli hæða og hafi þau þar sýnilega verið að rífast. Þau hafi hins vegar lækkað róminn þegar hann birtist þannig að hann hefði ekkert heyrt um hvað var rifist. Stuttu síðar hafi þau svo komið upp í eldhúsið og hafi stúlkan þá sagt við ákærða: „Komdu þá með þetta” og hafi ákærði þá farið og náð í blað sem hún hafi skrifað undir og hafi stúlkan síðan sagt vinkonu sinni að skrifa líka undir á blaðið sem vottur. Vitnið sagði að ákærði hefði síðan snúið sér að þeim D og beðið þá um að votta á blaðið. Þeir hafi þá báðir sagt að þeir vildu ekki blanda sér í þeirra einkamál og votta eitthvað sem þeir vissu ekki hvað var. Hafi hann því ekkert vitað hvað stóð á blaðinu. Aðspurður kvaðst C ekki hafa orðið var við að nein handalögmál ættu sér stað á milli fólksins.
Vitnið, D, kvaðst hafa verið staddur ásamt C í eldhúsinu í gistiheimilinu að Brautarholti í umrætt sinn. Kvaðst hann minnast þess að þeir hafi heyrt hávaða sem kom frá ganginum þar sem ákærði og fyrrum sambýliskona hans voru að rífast. Stuttu síðar hafi þau komið inn í eldhúsið og hafi stúlkan þar ritað undir plaggið. Hafi hún gert það án þess að hún sætti nokkrum þvingunum af hálfu ákærða svo hann sæi til.
Niðurstaða.
Ákærði neitar hér sök. Hann kannast við að A hafi í fyrstu neitað að skrifa undir umrædda yfirlýsingu en heldur því fram að henni hafi síðan snúist hugur og að hún hafi ritað undir yfirlýsinguna án þess að hann hafi hótað henni eða beitt hana nauðung í því skyni.
A segist ekki minnast þess að hafa orðið fyrir líkamlegu ofbeldi af hendi ákærða í umrætt sinn. Hins vegar hafi ákærði verið mjög ógnandi í allri sinni framgöngu gagnvart henni þarna á staðnum og aftrað henni að fara á brott án þess að hún skrifaði undir yfirlýsinguna. Sagðist hún hafa þá reynslu af ákærða að ekki þýddi neitt að standa gegn honum þegar hann væri í þessum ham því það endi þá yfirleitt með því að hann ráðist á hana. Hún kvaðst fyrir dómi ekki minnast nákvæmlega einstakra orðaskipta milli þeirra því hún hafi reynt að ýta frá sér minningum er snúi að ákærða. Þegar hún kærði atburðinn hjá lögreglu lýsti hún yfirlýsingum ákærða um að hann gæti látið taka í hana og að eitthvað gæti hent hana. Vitnisburður B var að þessu leyti mjög á sama veg. Lýsti hún því fyrir dómi að ákærði hefði verið mjög ógnandi og hafi hann hótað A að hann færi létt með að láta einhvern taka í hana og láta eitthvað henda hana ef hún skrifaði ekki undir skjalið. Hafi ákærði hindrað að þær kæmust út af staðnum. Vitnin, C og D, vitnuðu um mikið rifrildi og hávaða á gangi gistiheimilisins áður en þær A og B komu inn í eldhúsið til að rita undir umrætt skjal.
Ákærði hefur ítrekað verið fundinn sekur um gróft ofbeldi gagnvart A og ber að líta til þess við mat á þeirri ógn sem henni stóð af ákærða þegar hún féllst á að undirrita umrædda yfirlýsingu. Þykir með framangreindum vitnisburði B, A, C og D og að virtri hegðun A strax eftir undirritun yfirlýsingarinnar, þar sem hún fer beint til lögreglu og kærir atburðinn, sannað að ákærði hafi beitt hana ólögmætri nauðung og hótun um líkamlegt ofbeldi skrifaði hún ekki undir umrædda yfirlýsingu. Hins vegar þykir ekki fram komin sönnun um að hann hafi beitt hana líkamlegu ofbeldi í þessu skyni.
Verjandi ákærða heldur því fram að ákvæði 108. gr. almennra hegningarlaga taki ekki til þeirrar háttsemi ákærða sem hér um ræðir þar sem yfirlýsing sú sem hann fékk A til að undirrita hafi verið utanréttarskjal en ekki skýrsla hennar fyrir lögreglu eða dómi. Á þetta verður ekki fallist. Skjal það sem hér um ræðir var stílað á æðsta handhafa ákæruvalds í landinu, ríkissaksóknara, og fól efnislega í sér yfirlýsingu A um að þær skýrslur sem hún hefði gefið, bæði hjá lögreglu og fyrir dómi, vegna kæru hennar á hendur ákærða fyrir nauðgun, væru rangar í veigamiklum atriðum. Verður því að telja að hin tilgreinda háttsemi ákærða gagnvart A hafi verið höfð uppi vegna skýrslugjafar hennar fyrir lögreglu og dómi og falli því undir umrædda 108. gr. almennra hegningarlaga.
Samkvæmt þessu er því niðurstaða dómsins að ákærði sé sekur um þá háttsemi sem í ákæru greinir að öðru leyti en því að hann er sýknaður af því að hafa beitt A líkamlegu ofbeldi í umrætt sinn. Telst háttsemi ákærða rétt færð til refsiákvæða.
Ákæra dags. 23. ágúst 2004.
Sannað er með skýlausri játningu ákærða fyrir dómi og með öðrum gögnum
málsins að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og eru brot hans rétt færð til refsiákvæða.
Ákæra dags. 24. ágúst 2004.
Sannað er með skýlausri játningu ákærða fyrir dómi og með öðrum gögnum málsins að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og er brot hans rétt fært til refsiákvæða.
Ákæra dags. 17. janúar 2005.
Sannað er með skýlausri játningu ákærða fyrir dómi og með öðrum gögnum málsins að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og eru brot hans rétt færð til refsiákvæða.
Ákæra dags. 18. janúar 2005.
Mánudaginn 27. september 2004 kom A á skrifstofu rannsóknardeildar lögreglunnar í Kópavogi og lagði fram kæru á hendur ákærða fyrir líkamsárás sem átt hefði sér stað að Z í Kópavogi þann 17. september sama ár. Lýsti hún hjá lögreglu hvernig ákærði hefði ítrekað slegið sig í andlit og bak og hafi þessar barsmíðar staðið yfir í um fimm klukkustundir.
A leitaði á slysa- og bráðadeild Landspítala-háskólasjúkrahúss í Fossvogi rétt eftir miðnætti þann 19. september 2004. Í læknisvottorði Stefáns Steinssonar læknis segir svo: „Andlit konunnar var meira og minna blátt og marið og fjarska aumt: Bogadregið mar á neðanverðu enni upp af svæðinu milli augabrúna. Glóðarauga á báðum kinnum og kringum munn. Á báðum handleggjum voru dreifðir marblettir frá 1 x 1 cm upp í 5 x 5 cm, alveg frá handarbökum, upp framhandleggi og upphandleggi og upp á axlir. Mar var á bakinu milli herðablaðanna og talsvert um grunn þreifieymsli þar. Ekki voru merki um áverka á sjálfri hryggsúlunni. Púls var 108 á mín.”
A leitaði síðan á Læknavaktina í Smárahvammi síðar þann 19. september 2004. Í læknisvottorði Björn Guðmundssonar læknis vegna þessa segir svo:
„Kvaðst hafa orðið fyrir heiftarlegri árás af hendi barnsföður síns tveimur dögum áður. Hafði leitað á Slysadeild LSH þar sem hún var skoðuð vandlega og tekin skýrsla en ekki fengið nein lyf. Verið illa haldin af verkjum auk þess sem hún hafði verið með slæman kvíða.
Skoðun sem fram fór var því ekki mjög nákvæm en um hana segir: Marin og blá á baki og þar mikil eymsli. Einnig marin vinstri kinn og rauð innan í munni. Mar víðar en ekki skoðað sérstaklega. Það sem undirritaður man en var ekki skráð á samskiptaseðil var að [A] leit hörmulega út var mjög kvíðin og illa stemmd.”
Framburðir ákærða og vitna fyrir dómi.
Ákærði sagðist í sjálfu sér ekki muna neitt sérstaklega eftir heimsókn A til sín í íbúðina að Z þann 17. september sl. Hún hefði oft komið þangað til sín í heimsókn. Aðspurður hvort hann kannist við að hafa ráðist á hana umrætt kvöld eða um nóttina sagði ákærði að þessar ásakanir hennar væru bölvað bull. Hún hafi logið þessu upp á sig eins og mörgu öðru. Þegar ákærði var spurður um hugsanlegar skýringar á þeim áverkum sem hún hlaut umrædda nótt og hún kvaðst hafa hlotið af hans völdum sagðist ákærði ekki geta gefið neinar skýringar á því. Þegar ákærði var spurður út í framburð sinn hjá lögreglu varðandi það að þau hefðu hist í umrætt sinn og þá hafi þau haft kynmök sagði ákærði að þau hefðu alltaf haft kynmök þegar þau hittust. Um það hvort Y hafi verið viðstaddur þetta kvöld sagði ákærði að það gæti verið því hann hefði oft verið hjá sér á þessum tíma. Skýrsla ákærða hjá lögreglu var síðan borin undir hann og staðfesti hann að rétt væri þar eftir sér haft.
Vitnið, A, sagðist hafa farið umrætt kvöld til ákærða þar sem hann dvaldi að Z í því skyni að ræða málin og að fá sér þar í glas með honum. Ákærði hefði hins vegar eyðilagt það strax í byrjun með því að byrja að rífast við sig í bílnum á leiðinni þangað. Vegna þessa hafi hún síðan afþakkað að fá sér í glas með ákærða þegar þau komu á staðinn. Vinur ákærða, Y, hafi einnig verið þarna á staðnum en hann hafi lítið tekið þátt í samræðum þeirra. Á einhverjum tímapunkti hafi ákærði síðan farið að æsa sig við hana yfir því að þurfa að sitja inni vegna kæru hennar á hendur honum. Hafi þau þá farið að rífast og síðan hafi það þróast mjög fljótlega út í að ákærði hafi farið að slá hana. Hafi hann síðan barið hana með einhverjum hléum alla nóttina. Hafi hann barið hana nokkrum sinnum inni í svefnherberginu. Hafi hún reynt að verja andlit sitt með því að leggjast á grúfu og hafi það gerst nokkrum sinnum um nóttina. Hún minntist þess einnig að hafa staðið við hurð í íbúðinni. Hafi hann þá slegið hana fast högg í andlitið og hún þá skollið með ennið í vegginn. Vitnið sagði að hún hefði orðið vör við að Y hefði einhvern tímann um nóttina skroppið frá því hann hefði kallað að hann væri að fara. En hún hafi einhvern tímann síðar um nóttina orðið vör við að hann var kominn aftur á staðinn. Taldi hún að Y hefði alla vega orðið vitni að einhverju af því sem þarna gerðist á milli hennar og ákærða umrædda nótt.
Aðspurð hvort hún hafi reynt að komast burtu frá ákærða sagði vitnið að það væri ekki um slíkt að ræða þegar ákærði væri annars vegar. Undir lok næturinnar hafi ákærði síðan læst herbergisdyrunum þannig að hún hafi ekki komist út. Hann hafi síðan eitthvað róast í kjölfarið og hafi hann þá fallist á að hún fengi að fara heim til sín. Hafi þau síðan safnað dótinu hennar saman sem ákærði hefði verið búinn að dreifa út um alla íbúð. Hafi hún þá farið beint til E, vinkonu sinnar. Sagðist vitnið ekki hafa þorað strax að segja E frá hvað raunverulega hefði gerst vegna þess að hún hafi skammast sín fyrir að hafa farið að hitta ákærða.
Vitnið, E, skýrði frá því að A hefði komið heim til hennar í Þ í Kópavogi þann 18. september sl. Hafi hún þá verið mjög illa útlítandi og hafi í raun verið hryllingur að sjá hana. Hafi hún virkað mjög hrædd, beinlínis hrædd um líf sitt. Hafi hún grátið mikið og augljóslega átt mjög erfitt með að tjá sig um hvað gerst hefði. Hafi hún verið mjög bólgin í andliti og á skrokknum. Vitnið sagði að frásögn A af því sem gerst hefði hafi í fyrstu ekki verið alveg skýr. Hún hafi þá sagt að ákærði hafi komið í heimsókn í íbúðina að Z þar sem hún hefði þá verið stödd og að ákærði hefði ráðist þar á hana. Hún hafi síðan dvalið hjá vitninu til að jafna sig fram eftir degi. A hafi hins vegar ekki viljað leita til læknis eða fara á sjúkrahús vegna áverka sinna og hafi hún sagst ekki þora það.
Vitnið, Y, kvaðst í fyrstu lítið muna eftir því sem gerðist umrædda nótt. Sagði hann að í byrjun kvöldsins hafi þau setið saman við spil. Ákærði og A hafi síðan eitthvað byrjað að deila vegna kærumáls sem hafi verið í gangi. Kvaðst vitnið síðan lítið muna hvað gerðist. Aðspurður hvort eitthvert ofbeldi hafi verið haft í frammi þessa nótt sem hann hafi orðið vitni að sagði hann að erfitt væri fyrir sig að muna eftir þessu, eitthvert ofbeldi hefði verið í gangi. Aðspurður hver hefði beitt ofbeldi í umrætt sinn sagðist vitnið ekki geta eða vilja tjá sig um það. Vegna tregðu vitnisins á að svara spurningum um atburðinn fór sækjandi fram á við dómara að ákærði yrði beðinn um að víkja úr dómsal þar sem augljóst væri að hann hefði áhrif á vitnið með nærveru sinni. Tók dómari undir þá ósk sækjanda og féllst ákærði á að víkja úr dómsal á meðan yfirheyrslur héldu áfram yfir vitninu.
Eftir að ákærði vék úr dómsal skýrði vitnið frá því að ákærði hefði í umrætt sinn verið verulega undir áhrifum áfengis. Hann hefði kastað húsgögnum í veggi og ryskingar og átök hafi verið í gangi á milli þeirra og hafi þau átt sér stað bæði inni í stofu þar sem hann var sjálfur staddur og eins inni í svefnherberginu. Hafi ákærði slegið A einhver högg en ekki endilega svo föst. Kvaðst vitnið hafa eitthvað farið síðan út á meðan á þessu stóð en komið svo aftur. Sagðist hann hafa séð ryskingar og átök þeirra í milli inni í stofunni og dyrnar inni í svefnherbergið hafi ekki verið lokaðar svo hann hafi líka skynjað að þar væru átök í gangi. Hann hafi þó ekki endilega séð átökin inni í svefnherberginu heldur frekar heyrt að þau ættu sér stað. Vitnið kvaðst ekki hafa sérstaklega séð einhverja áverka á A þessa nótt.
Niðurstaða.
Vísað er til vitnisburðar A, bæði hjá lögreglu og fyrir dómi, um atburði þá sem hér um ræðir. Hún lýsti því að barsmíðar ákærða gagnvart henni hafi staðið lengi yfir, líklega um fimm klukkustundir. Hafi þetta verið fjölmörg hnefahögg í andlit hennar, bak og víðar. Hafi barsmíðarnar aðallega átt sér stað inni í svefnherberginu og hafi hún reynt að verjast með því að leggjast á grúfu í rúmið. Mundi hún sérstaklega eftir einu höggi sem ákærði hefði slegið hana í andlitið með þeim afleiðingum að hún skall utan í vegg herbergisins. Hún lýsti því að dyrnar hefðu verið opnar og hafi Y, vinur ákærða, því væntanlega orðið vitni að þessum árásum ákærða.
Vitnið, Y, lýsti því að ákærði hefði fleygt húsgögnum í veggi, ryskingar hafi átt sér stað á milli ákærða og A og að ákærði hefði slegið hana einhver högg. Hafi þessi átök átt sér stað bæði inni í stofu og í svefnherberginu.
Vitnið, E, vitnaði um ástand A þegar hún kom frá ákærða. Lýsti vitnið hræðslu hennar, slæmu andlegu ástandi og áverkum í andliti og á skrokknum. Í vottorðum lækna sem skoðuðu A tveimur dögum eftir árásina kemur og fram lýsing þeirra á áverkum hennar. Sögðu þeir andlitið hafa verið meira og minna blátt og marið, mar á enni, báðum kinnum og kring um munn, á báðum handleggjum frá handarbökum og upp úr og einnig mar á baki á milli herðablaða. Eins hafi hún verið með glóðarauga á báðum augum.
Er það mat dómsins að vitnisburður þeirra A og Y hafi verið mjög trúverðugur en framburður ákærða að sama skapi ótrúverðugur. Telur dómurinn að með vitnisburðum þeirra tveggja, vitnisburði E og gögnum málsins að öðru leyti, varðandi ástand og áverka A, sé fram komin sönnun um að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem í ákæru greinir og þar telst rétt heimfærð til refsiákvæða.
Refsiákvörðun og skaðabætur.
Ákærði hefur frá árinu 1991 hlotið 23 refsidóma fyrir ýmiss konar afbrot og telst því vanaafbrotamaður. Hann hefur í fjölmörg skipti verið dæmdur fyrir auðgunarbrot og fjórum sinnum áður hefur hann hlotið dóma fyrir líkamsárásir. Þann 23. september 2004 staðfesti Hæstiréttur dóm Héraðsdóms Reykjavíkur sem kveðinn var upp þann 5. mars 2004 þar sem ákærða var gert að sæta fangelsi í 3 ár og 6 mánuði fyrir frelsissviptingu, nauðgun, eignaspjöll og þjófnað. Beindust ofbeldisbrot ákærða í því máli gegn fyrrum sambýliskonu hans og barnsmóður, A, sem einnig er brotaþoli vegna ofbeldisbrota ákærða í þessu máli. Með dómi uppkveðnum í mars 2003 var hann og dæmdur í 6 mánaða fangelsi fyrir tvær líkamsárásir gegn A. Hafa fyrrgreindir héraðsdómar ítrekunaráhrif á brot hans samkvæmt ákæru dags. 18. janúar 2005.
Ákærði var dæmdur fyrir auðgunarbrot í fjögurra mánaða fangelsi 7. apríl 2000 og tveggja mánaða fangelsi þann 2. október sama ár. Hafa dómar þessir, ásamt fyrrgreindum héraðsdómi þann 5. mars 2004, ítrekunaráhrif á þjófnaði hans 9. júní og 23. júlí 2004, sbr. ákæru dags. 24. ágúst 2004.
Samkvæmt þessu verður refsing ákærða ákveðin með vísan til 71. gr., 72., 77., 218. gr.a og 255. gr. almennra hegningarlaga. Brot ákærða eru framin eftir að ákærði hafði verið dæmdur til þungrar refsingar í héraðsdómi, meðal annars fyrir gróft ofbeldi gegn A. Eru brot hans ófyrirleitin og sýna einbeittan brotavilja. Þykir refsing hans hæfilega ákvörðuð fangelsi í 2 ár.
Ákærði hefur tvívegis áður gerst sekur um ölvunarakstur. Var hann fyrst dæmdur þann 28. febrúar 1995 til að greiða 27.000 króna sekt og að sæta sviptingu ökuréttar í 4 mánuði. Hann gekkst síðan undir 100.000 króna sekt og sviptingu ökuréttar í 2 ár með sátt þann 24. nóvember 1999. Brot ákærða samkvæmt ákærum dagsettum 23. ágúst 2004 og 17. janúar 2005 teljast ítrekuð brot öðru sinni. Með vísan til 101. og 102. gr. umferðarlaga er ákærði því sviptur ökurétti ævilangt frá og með birtingu dóms þessa að telja.
A krefst þess að ákærði verði dæmdur til að greiða henni 500.000 krónur í miskabætur. Samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 á hún rétt á miskabótum úr hendi ákærða og teljast þær hæfilega ákvarðaðar 300.000 krónur auk vaxta eins og í dómsorði greinir en upphafsdagur dráttarvaxta reiknast frá þeim degi er mánuður var liðinn frá því ákærða var kynnt bótakrafan.
Ákærði greiði 60.000 krónur í réttargæsluþóknun til Huldu Elsu Björgvinsdóttur héraðsdómslögmanns, skipaðs réttargæslumanns A.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með taldar 300.000 krónur til Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, skipaðs verjanda ákærða á rannsóknarstigi og fyrir dómi.
Af hálfu ákæruvaldsins var málið flutt af Kolbrúnu Sævarsdóttur, fulltrúa ríkissaksóknara.
Ásgeir Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.
D ó m s o r ð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í 2 ár.
Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt frá og með birtingu dóms þessa að telja.
Ákærði greiði A, kt. [...], 300.000 krónur í skaðabætur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 18. september 2004 til 20. febrúar 2005, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með taldar 60.000 krónur í réttargæsluþóknun til Huldu Elsu Björgvinsdóttur héraðsdómslögmanns, skipaðs réttargæslumanns A, og 300.000 krónur til skipaðs verjanda síns, Sveins Andra Sveinssonar hæstaréttarlögmanns.