Hæstiréttur íslands
Mál nr. 492/2011
Lykilorð
- Gæsluvarðhald
- Farbann
- Skaðabætur
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 8. mars 2012. |
|
Nr. 492/2011.
|
Rima Kavalskyte (Haukur Örn Birgisson hrl.) gegn íslenska ríkinu (Óskar Thorarensen hrl.) |
Gæsluvarðhald. Farbann. Skaðabætur. Gjafsókn.
R krafði Í um bætur vegna gæsluvarðhalds og farbanns sem hún taldi sig hafa sætt að ósekju í tengslum við rannsókn á innflutningi mikils magns fíkniefna hingað til lands. Hæstiréttur taldi að vegna tengsla R við málið hafi verið fullt tilefni til handtöku hennar og síðar gæsluvarðhalds í framhaldinu. Var því hafnað kröfu R fyrir að hafa sætt gæsluvarðhaldi í öndverðu. Hæstiréttur taldi gæsluvarðhaldið á hinn bóginn hafa staðið lengur en efni voru til og af þeim sökum ætti R rétt á bótum fyrir að hafa sætt gæsluvarðhaldi eftir 12. janúar 2010 þar sem eigi síðar en þá hefði þáttur hennar verið upplýstur. Þá var R einnig talin eiga rétt til nokkurra bóta vegna þeirrar skerðingar á frelsi sem af farbanninu leiddi. Þóttu bætur hæfilega ákveðnar 600.000 krónur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Þorgeir Örlygsson og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 18. ágúst 2011. Hún krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 10.927.830 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 13. ágúst 2010 til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar sem henni hefur verið veitt.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti en til vara að stefnukrafa verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.
I
Í málinu krefur áfrýjandi stefnda um bætur vegna gæsluvarðhalds sem hún sætti frá 6. janúar til 17. febrúar 2010 og farbanns frá þeim tíma til 4. júní sama ár. Í hinum áfrýjaða dómi eru að nokkru rakin atvik máls, allt frá því er lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust 11. nóvember 2009 upplýsingar frá lögreglunni í Litháen um að tveir þarlendir karlmenn hygðust flytja til Íslands talsvert magn fíkniefna í bifreið, og þar til áfrýjandi var með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 4. júní 2010 sýknuð af ákæru um tilraun til hlutdeildar í broti samkvæmt 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi er skaðabótakrafa áfrýjanda reist á 228. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. einnig 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar. Byggir áfrýjandi á því að aldrei hafi legið fyrir rökstuddur grunur um að hún hafi framið refsiverðan verknað sem fangelsisrefsing sé lögð við, hvorki fyrir né eftir handtöku hennar 5. janúar 2010. Þar af leiði að ekki hafi verið uppfyllt lagaskilyrði til handtöku hennar í öndverðu, gæsluvarðhaldi því er hún var látin sæta í framhaldi handtökunnar, framlengingu gæsluvarðhaldsins og síðar farbanni því er hún sætti.
Stefnda var sem fyrr greinir með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 4. júní 2010 sýknuð af ákæru um tilraun til hlutdeildar í fíkniefnabroti því sem áður er frá greint og eru í hinum áfrýjaða dómi raktar forsendur þess sýknudóms. Í 1. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008 er mælt á þann veg að maður sem borinn hafi verið sökum í sakamáli eigi rétt til bóta samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins, ef mál hans hefur verið fellt niður eða hann sýknaður með endanlegum dómi án þess að það hafi verið gert vegna þess að hann var talinn ósakhæfur. Samkvæmt 2. mgr. 228. gr. skal dæma bætur vegna aðgerða samkvæmt IX.-XIV. kafla laganna ef skilyrði 1. mgr. ákvæðisins eru fyrir hendi. Þó er sá fyrirvari settur í öðrum málslið 2. mgr. 228. gr. að bætur megi fella niður eða lækka ef sakborningur hefur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir kröfur sínar á. Af framangreindu leiðir að úrlausn þess hvort áfrýjandi hafi fyrirgert rétti þeim til bóta sem mælt er fyrir um í fyrri málslið 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008, eða hvort bætur skuli sæta lækkun, veltur á því hvort áfrýjandi hafi í skilningi annars málsliðar 2. mgr. 228. gr. valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem bótakröfur hennar eru reistar á. Er í þessu sambandi til þess að líta að ákvæði 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrárinnar og 5. mgr. 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, sem áfrýjandi vísar einnig til bótakröfu sinni til stuðnings, ber að túlka, eins og rakið er í dómi Hæstaréttar í máli nr. 175/2000 sem birtur er í dómasafni réttarins það ár á blaðsíðu 3135, með hliðsjón af almennum reglum skaðabótaréttar, þar á meðal um eigin sök.
II
Áfrýjandi mætti samkvæmt boðun til yfirheyrslu hjá lögreglu 5. janúar 2010 og var henni þá kynnt að í þágu rannsóknar fyrrgreinds fíkniefnamáls væri hún handtekin og nyti réttarstöðu sakbornings. Þann dag var gerð með samþykki áfrýjanda húsleit á dvalarstað hennar og hún daginn eftir úrskurðuð í gæsluvarðhald til 3. febrúar sama ár með vísan til a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.
Eins og málið horfði þá við lögreglu hafði áfrýjandi annast um kaup á farmiðum með ferjunni Norrænu til Íslands fyrir tvo Litháa sem tengdust málinu og greitt fyrir úr eigin vasa. Hún hafði og millifært peninga til aðila í Litháen sem líkur bentu til að tengdust málinu, annast um breytingar á farmiðum Litháanna sem sátu í gæsluvarðhaldi í Færeyjum og greitt úr eigin vasa fyrir þær breytingar, ítrekað hringt og komið á skrifstofu Norrænu ferðaskrifstofunnar ehf. og hringt til lögreglunnar í Færeyjum til að spyrjast fyrir um afdrif Litháanna tveggja þegar þeir skiluðu sér ekki til Íslands með Norrænu eins og til stóð. Loks hafði áfrýjandi í símtölum 18. og 20. nóvember 2009, sem lögreglan hleraði, látið orð falla við unnusta sinn Mindaugas Strimaitis sem gáfu til kynna að hún kæmi að undirbúningi og skipulagningu hins fyrirhugaða fíkniefnainnflutnings. Þannig greindi áfrýjandi Mindaugas frá því í símtali 18. nóvember að tilteknir símar virkuðu og bætir við: „Já! Ég var að reyna, og, ég fékk merki, það var samband.“ Í símtali síðar sama dag spyr hún Mindaugas hvort eitthvað sé að frétta en hann svarar: „Nei. Svo að hérna. Við erum búnir að hringja, en það svarar enginn.“ Taldi lögregla að í símtalinu vísaði áfrýjandi til síma Litháanna tveggja sem urðu strandaglópar í Færeyjum og sættu þar gæsluvarðhaldi.
III
Skýrsla sú sem gerð var af lögreglu um handtöku áfrýjanda 5. janúar 2010 og húsleit þá er gerð var hjá henni þann dag ber ekki með sér að áfrýjandi hafi verið spurð um atvik þau er felldu grun á hana um aðild að fíkniefnamáli því sem til rannsóknar var. Áfrýjandi var færð fyrir dómara næsta dag og þá kynnt krafa lögreglu um gæsluvarðhald yfir henni. Hún mótmælti þeirri kröfu og neitaði sök. Verjandi hennar benti á í þinghaldinu að rangt væri að áfrýjandi hefði verið yfirheyrð þann dag eins og fram kæmi í greinargerð lögreglu. Sækjandi málsins staðfesti að rétt væri hjá verjandanum að áfrýjandi hefði ekki verið yfirheyrð þann dag. Það hafi staðið til en vegna vandkvæða með að fá túlk hafi það ekki náðst fyrir þinghaldið. Hins vegar hafi sakarefnið verið borið undir kærðu daginn áður að viðstöddum verjanda og túlki og hún þá ekki viljað tjá sig um það.
Áfrýjandi var fyrst yfirheyrð hjá lögreglu 6. janúar 2010. Í samantekt lögreglu um yfirheyrsluna segir að áfrýjandi hafi neitað að koma nálægt innflutningi fíkniefna. „Sagði hún að varðandi þetta mál þá hefðu vinir vina hennar og Mindaugas, kærasta hennar, hringt í þau og beðið þau um að panta farmiða fyrir tvo menn með Norrænu vegna þess að þeir gætu það ekki sjálfir. Kvaðst hún hafa gert það fyrir þá og þau hefðu borgað miðana sjálf en átt að fá endurgreitt. [Áfrýjandi] var ítrekað spurð um hverjir væru þessir vinir þeirra en svaraði hún því ekki heldur sneri svarinu alltaf upp á vini vina þeirra sem hún kvaðst ekki vita hverjir væru. Ekki er hægt að útiloka að hún hafi ekki skilið spurninguna.“ Síðar í samantektinni segir: „[Áfrýjanda] var kynnt að lögreglan ætlaði að hún hefði bæði hringt og farið á ferðaskrifstofu Norrænu á Íslandi í því skyni að athuga með ferðir Andrej og Genrik. Var hún spurð hverju því sætti. Sagði hún að sömu aðilar og hefðu beðið hana um að bóka farmiðana hefðu beðið hana um það þar sem fjölskylda Andrej hefði áhyggjur af honum. [Áfrýjandi] var spurð hvort hún vildi bæta einhverju við í lok yfirheyrslunnar og kvaðst hún vera alsaklaus og ósátt við þá meðferð sem hún sætti.“
Næst var áfrýjandi færð til yfirheyrslu 8. janúar 2010. Fram kemur í samantekt lögreglu um þá yfirheyrslu að áfrýjandi hafi í upphafi verið spurð hvort hún vildi breyta eða bæta við fyrri framburð en hún kvaðst ekki vilja það að svo stöddu. Í samantektinni segir: „[Áfrýjandi] var spurð hvort það væri rétt eftir henni haft í síðustu skýrslutöku, að hún hefði verið beðin um að kaupa farmiða fyrir tvo menn sem væru að koma til Íslands með Norrænu. Sagði hún það ekki rétt eftir henni haft. Hún hefði verið beðin um að kaupa miða fyrir einn aðila. Hún var þá spurð hver hefði keypt miðann fyrir hinn aðilann. Kvaðst hún ekki vita það þar sem hún þekkir ekki þessa menn. [Áfrýjandi] var spurð hver hefði beðið hana um að kaupa farmiðann. Sagði hún að vinir vina kærasta hennar hefðu gert það. Hún var þá spurð hverjir væru þessir vinir kærasta hennar. Kvaðst hún ekki vita það. Mögulega væri kærasti hennar með símanúmerin þeirra en hún hefði aldrei haft samband við þessa menn sjálf. Hún var þá spurð hver hefði beðið hana um kaupa farmiðann. Sagði hún að „þeir“ hefðu beðið kærastann hennar og hana um það.“
Síðar segir í samantektinni um yfirheyrsluna 8. janúar 2010: „Aðspurð sagði [áfrýjandi] að hún hefði greitt um það bil 40.000-kr. fyrir farmiðann ... [og] greitt fyrir þetta með því að taka af sparifé sínu en hún hafi átt að fá upphæðina endurgreidda. Aðspurð sagðist hún ekki vera búin að fá endurgreitt. [Áfrýjandi] kvaðst ekki vera með vinnu heldur þiggja atvinnuleysisbætur ... [Áfrýjandi] var þá spurð hvort það væri réttur skilningur lögreglu að hún hefði keypt farmiða fyrir aðila sem hún þekkti ekkert og hefði aldrei hitt, að boði aðila sem hún þekkti ekkert og hefði aldrei hitt. Sagði hún það vera réttan skilning lögreglu. Hún hafi gert það í þeirri trú að hún myndi fá endurgreitt.“ Er áfrýjandi var um það spurð hvernig hún framfleytti sér kvaðst hún fá 130.000 krónur í atvinnuleysisbætur. Hún sæi um að borga allt í sambúð þeirra Mindaugas, leigu, síma, mat og fleira en hann borgaði ekkert. Er áfrýjanda var kynnt að þegar Mindaugas hefði verið handtekinn á Keflavíkurflugvelli 5. janúar 2010 hefði hann haft talsvert magn af peningum meðferðis. Kvað hún það vera peninga frá henni og móður hennar sem Mindaugas hefði átt að leggja inn á banka í Litháen. Samkvæmt skýrslu lögreglu um handtöku Mindaugas Strimaitis á Keflavíkurflugvelli 5. janúar 2010 fundust í handtösku hans meðal annars seðlaveski með 2940 evrum, 57 bandaríkjadölum, 40 litas, 250 dönskum krónum og 50 norskum krónum.
Enn var áfrýjandi færð til yfirheyrslu 10. janúar 2010. Í samantekt um þá yfirheyrslu segir að áfrýjandi hafi aðspurð sagt „að vinur kærasta hennar hefði beðið um að farmiði yrði keyptur fyrir þessa menn frá Færeyjum til Íslands. Það hefði verið nokkrum dögum áður en farmiðarnir voru keyptir. [Áfrýjandi] var spurð hvernig þessi vinur kærasta hennar hefði beðið um að farmiðinn yrði keyptur. Kvaðst hún hafa fengið þau skilaboð frá kærasta sínum sem hefði aftur á móti fengið þau frá þessum vini sínum. Aðspurð kvaðst [áfrýjandi] ekki hafa átt bein samskipti við þann mann á nokkrum tímapunkti.“ Í yfirheyrslunni var spiluð fyrir áfrýjanda hljóðupptaka af símtali hennar og Mindaugas 18. nóvember 2009. Kvaðst hún í símtalinu vera að láta Mindaugas vita að sími bróður hans og konu hans væri kominn í lag. Henni var þá kynnt að frásögn hennar væri ótrúleg og hún spurð „af hverju hún hefði verið að hringja í fólk sem hún þekkti ekkert og hefði aldrei hitt og þar að auki úr símanum hans Mindaugas sem henni hefði verið bannað að nota, að eigin sögn ... Kvaðst hún ekki vita það. Hún hefði vitað að hún mætti ekki nota símann en samt hringt. Kvaðst hún ekki vita af hverju hún hefði gert það ... [Áfrýjanda] var bent á að hún hefði komið með sitthvort svarið við sömu spurningunni. Sagði hún þá að hún vissi ekki hvers vegna hún hefði hringt úr síma Mindaugas. [Áfrýjanda] var þá kynnt að á þeim tíma, sem hún hringdi í Mindaugas til að segja honum að símarnir væru virkir, höfðu rannsóknarlögreglumenn í Færeyjum kveikt á farsímum Andrej og Genrik. Slökkt hafði verið á símunum frá því þeir voru handteknir í Færeyjum. [Áfrýjandi] sagði þá að hún hefði bara verið beðin um að kaupa farmiða og hún vissi ekkert meira um þá Andrej og Genrik.“ Eftir stutt hlé á yfirheyrslunni var áfrýjandi spurð hvort hún vildi breyta eða bæta við fyrri framburð. Kvaðst hún nú vilja breyta svari sínu við síðustu spurningu. Orðrétt segir í samantektinni: „Sagði hún að þriðji aðili hefði beðið Mindaugas og hana um að leita og reyna að ná sambandi við Andrej og Genrik. Hún hefði reynt ítrekað að hringja í þá og svo hefði allt í einu náðst samband ... [Áfrýjandi] var spurð hvers vegna hún hefði ekki sagt satt og rétt frá fyrst þegar hún var spurð um þetta. Kvaðst hún vera hrædd. Hún þekkti ekki mennina sem voru handteknir í Færeyjum né þann aðila sem bað um að farmiðinn yrði keyptur og hún væri hrædd við þá.“
Í yfirheyrslu hjá lögreglu 12. janúar 2010 kvaðst áfrýjandi aðspurð einu sinni sumarið áður hafa sent peninga til útlanda. Hún hefði sent sparifé sitt til vinkonu Mindaugas í Litháen þar sem hún sjálf væri ekki með bankareikning þar. Þeir peningar sem Mindaugas hafði meðferðis þegar hann var handtekinn hefðu að hluta verið sparifé hennar og móður hennar. Aðspurð kvaðst hún ekki muna hversu miklu sparifé hún hefði náð að safna á þeim þremur og hálfa ári sem hún hefði búið hér á landi. Síðan segir í samantekt um yfirheyrsluna: „Hún var þá spurð hvar sparifé hennar væri. Sagði hún að það ætti að vera inn á bankabók vinkonu Mindaugas. [Áfrýjandi] var þá aftur spurð hversu miklu fé hún hefði safnað sér. Sagðist hún hafa verið komin upp í tæplega 2.800.000-kr. En eftir að hún kynntist Mindaugas og byrjað búskap með honum hefði gengið mjög hratt á þetta sparifé hennar ... [Áfrýjandi] var þá spurð hvenær hún hefði sent peningana til Litháen. Kvaðst hún hafa gert það síðasta sumar og vísaði á bankayfirlit sitt ef lögreglan vildi fá nánari tímasetningu. [Áfrýjanda] var þá kynnt að lögregla teldi hana vera segja ósatt. Það horfði einkennilega við að hún hefði sent peninga erlendis án þess að vita hvað upphæðin væri há og það til aðila sem hún þekkti ekki og einu tengslin við þann aðila væru í gegnum Mindaugas sem hún hefði þar að auki nýlega kynnst. [Áfrýjanda] var jafnframt kynnt að það væri ætlun lögreglu að þessir peningar sem hún hefði sent erlendis hefðu verið notaðir til fjármögnunar á flutningi fíkniefna til Íslands. [Áfrýjandi] ... svaraði því til að hún hefði treyst [Mindaugas] fyrir þessum peningum og þess vegna sent þá úr landi ... viðtakandi peninganna hefði verið kona að nafni Simona. Kvaðst hún hafa ætlað sér að fara frá Íslandi síðasta sumar, og engin önnur leið hefði verið fyrir hana að koma þessum peningum úr landi. [Áfrýjandi] var aftur spurð hver upphæðin hefði verið en hún kvaðst ekki vita það.“
Eftir stutt hlé á yfirheyrslunni 12. janúar 2010 skýrði áfrýjandi frá á þann veg „að hún hefði sent peninga til Simona en hún myndi ekki hversu há upphæðin var. Aðspurð sagði hún þetta ekki hafa verið sína peninga. Mindaugas hefði verið beðinn um af þriðja aðila, að senda þessa peninga út til Litháen. [Áfrýjandi] var spurð af hverju hún hefði sent peningana. Sagðist hún hafa verið beðinn um að gera þennan greiða og hún hefði ekki spurt neinna spurninga ... Aðspurð sagði [áfrýjandi] að það fyrsta sem Mindaugas hefði beðið sig um að gera, tengt þessu máli, hefði verið að senda peninga en það átti að vera greiði fyrir kunningja hans sem ekki hefði haft bankareikning í Litháen. Kvaðst hún hafa gert það en ekki muna hvenær nákvæmlega ... þessi sending átti sér stað; kannski í júlí eða ágúst. [Hún] kvaðst ekki muna hversu há upphæðin var. Móttakandi peninganna hefði verið áðurnefnd Simona. Aðspurð sagði [áfrýjandi] að kunningi Mindaugas sem bað um að peningarnir yrðu sendir hefði látið Mindaugas hafa umslag með peningum í. Hún hefði svo lagt féð inn á reikning sinn og millifært yfir á reikning Simona í Litháen ... Mindaugas hefði tekið við peningunum daginn áður en hún millifærði þá ... [Áfrýjandi] var spurð hvort hún hefði vitneskju um fleiri peningasendingar á vegum Mindaugas. Kvaðst hún ekki vita það né hvort hann hefði reynt að fá fleiri til að senda peninga úr landi. Aðspurð sagði [áfrýjandi] að hún hefði geymt sparifé sitt heima hjá sér og þeir peningar sem Mindaugas hefði haft á sér þegar hann var handtekinn hefðu verið hluti af því.“ Eftir yfirheyrslur hjá lögreglu 12. janúar 2010 var áfrýjandi ekki yfirheyrð fyrr en 11. febrúar 2010 og þá fyrir dómi. Í þeirri yfirheyrslu skýrði áfrýjandi frá atvikum máls mjög á sama veg og í yfirheyrslunni 12. janúar 2010.
IV
Áfrýjandi var handtekin og hneppt í gæsluvarðhald vegna rannsóknar á máli sem varðaði ætlaðan innflutning á miklu magni fíkniefna hingað til lands. Rannsóknin var umfangsmikil, margir komu þar við sögu og hún teygði anga sína til þriggja landa. Eins og atvikum málsins háttaði í aðdraganda þess að áfrýjandi var handtekin 5. janúar 2010 og með hliðsjón af því hvernig hún var við málið riðin samkvæmt framansögðu var fullt tilefni til handtöku áfrýjanda og að láta hana sæta gæsluvarðhaldi í framhaldinu. Þrátt fyrir sýknu af kröfum ákæruvalds í sakamáli því sem höfðað var á hendur henni, verða henni ekki dæmdar bætur fyrir að hafa sætt gæsluvarðhaldi í öndverðu þar sem hún hafði með háttsemi sinni í aðdraganda gæsluvarðhaldsúrskurðarins sjálf stuðlað að þeirri aðgerð vegna þeirra tengsla sinna við málið sem áður er gerð grein fyrir.
Áfrýjandi sætti gæsluvarðhaldi frá 6. janúar til 3. febrúar 2010 en þann dag var gæsluvarðhaldsvist hennar framlengd til 17. febrúar sama ár. Með úrskurði 17. febrúar 2010 var áfrýjanda gert að sæta farbanni til og með 17. mars 2010. Farbannið var síðan framlengt fjórum sinnum og áfrýjanda því bönnuð för af landinu allt þar til dómur gekk í máli ákæruvalds á hendur henni 4. júní 2010. Í kafla III hér að framan eru raktar skýrslur áfrýjanda við yfirheyrslur hjá lögreglu eftir að gæsluvarðhaldsvist hennar hófst um þau atriði er helst þóttu tengja hana við undirbúning og skipulagningu fíkniefnamáls þess er til rannsóknar var. Á það er fallist með stefnda að skýringar áfrýjanda á ástæðum þess að hún keypti farmiða með Norrænu fyrir Litháana tvo sem síðar voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald í Færeyjum og fjármagnaði þau kaup voru mjög á reiki og því ótrúverðugar. Gerði áfrýjandi í yfirheyrslunum enga tilraun til að benda á þá aðila sem höfðu óskað eftir milligöngu hennar og Mindaugas um kaupin, en til þess var brýn ástæða svo ganga mætti úr skugga um sannleiksgildi frásagnar hennar. Þá skýrði áfrýjandi eins og áður er rakið í upphafi rangt frá um peningasendingar sínar til Litháen, bæði hvað varðar ástæður sendinganna og eignarhald á því fé sem yfirfært var, en framburð sinn um þau atriði leiðrétti hún í lok yfirheyrslu 12. janúar 2010. Einnig skýrði hún í upphafi rangt frá um það hvort hún hefði reynt að hringja í síma Litháanna tveggja sem sættu gæsluvarðhaldi í Færeyjum, en rangan framburð sinn um það atriði leiðrétti hún í yfirheyrslu 10. janúar 2010.
Áfrýjandi hélt við rannsókn málsins stöðugt fram sakleysi sínu og var með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 4. júní 2010 sem fyrr greinir sýknuð af sakargiftum. Segir í þeim dómi að enginn framburður eða vitnisburður sé um það að hún hafi vitað að farmiðarnir sem hún keypti yrðu notaðir af einstaklingum sem ætluðu að flytja fíkniefni til landsins. Önnur gögn málsins séu ekki til þess fallin að fella á hana sök gegn eindreginni neitun. Sé því ósannað að áfrýjandi hafi vitað að farmiðakaupin tengdust fyrirhuguðum fíkniefnainnflutningi. Þótt áfrýjanda, sem hafði réttarstöðu sakbornings, hafi verið frjálst að svara ekki spurningum í yfirheyrslum lögreglu varð hún eigi að síður að skýra satt og rétt frá kysi hún að svara, sbr. 2. og 3. mgr. 64. gr. laga nr. 88/2008. Samkvæmt þessu er óhjákvæmilegt að líta svo á að með afstöðu sinni hafi áfrýjandi stuðlað að því að gæsluvarðhald það sem hún í máli þessu krefst bóta fyrir dróst á langinn, sbr. 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008. Stóð svo allt til þess er hún leiðrétti framburð sinn í yfirheyrslu 12. janúar 2010. Verða henni því ekki dæmdar bætur fyrir gæsluvarðhald að ósekju frá 6. til 12. janúar 2010 og fær í þeim efnum engu breytt að hún var í sakamálinu sýknuð af kröfum ákæruvalds.
Sem fyrr greinir breytti áfrýjandi í yfirheyrslu hjá lögreglu 10. og 12. janúar 2010 framburði sínum um aðkomu sína að máli því sem til rannsóknar var en hélt sem fyrr fram sakleysi sínu. Fékk sú afstaða hennar stoð í framburðum annarra sem skýrslur gáfu. Áfrýjandi var næst yfirheyrð 11. febrúar 2010 og þá fyrir dómi. Engin skýring hefur komið fram af hálfu stefnda á þessu. Þegar þetta er haft í huga og gögn málsins virt eins og þau horfðu á þessu tímamarki við þeim er með rannsókn fíkniefnamálsins fóru verður að líta svo á að þáttur áfrýjanda í málinu hafi að mestu verið upplýstur ekki síðar en 12. janúar 2010. Að þessu virtu verður að líta svo á að áfrýjandi hafi sætt gæsluvarðhaldi lengur en efni stóðu til og á hún rétt á bótum af þeim sökum samkvæmt 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008. Eins og atvikum málsins háttaði var ekki óeðlilegt að áfrýjandi sætti farbanni þar til dómur gengi í máli ákæruvalds á hendur henni. Er þá meðal annars litið til þess að ákæra í máli á hendur áfrýjanda var gefin út 31. mars 2010 og dómur í málinu gekk 4. júní sama ár. Með vísan til þess að þáttur áfrýjanda í málinu var að mestu upplýstur 12. janúar 2010 þykir áfrýjandi einnig eiga rétt til nokkurra bóta úr hendi stefnda vegna þeirrar skerðingar á frelsi sem af farbanninu leiddi. Í ljósi allra atvika og þess þáttar sem áfrýjandi átti sjálf í þeim aðgerðum sem lögregla greip til gagnvart henni eru bætur hæfilega ákveðnar 600.000 krónur. Ber stefnda að greiða áfrýjanda þá fjárhæð með vöxtum eins og í dómsorði greinir.
Ákvæði hin áfrýjaða dóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað verða staðfest. Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður, en um gjafsóknarkostnað hér fyrir dómi fer samkvæmt því sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Stefndi, íslenska ríkið, greiði áfrýjanda, Rima Kavalskyte, 600.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 13. ágúst 2010 til greiðsludags.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað skulu vera óröskuð.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 450.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. maí 2011.
Mál þetta, sem dómtekið var hinn 28. mars sl., að lokinni aðalmeðferð, var höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Rima Kavalskyte, Grettisgötu 96, Reykjavík, á hendur íslenska ríkinu, með stefnu áritaðri um birtingu 13. ágúst 2010.
Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda 10.927.830 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðbætur frá 13. ágúst 2010 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda eins og mál þetta væri ekki gjafsóknarmál.
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og stefnandi dæmd til þess að greiða honum málskostnað, en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega og málskostnaður látinn niður falla.
Gætt var ákvæða 115. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, áður en dómur var kveðinn upp.
II
Málavextir eru þeir, að hinn 11. nóvember 2009 bárust lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu upplýsingar frá lögreglunni í Litháen um að tveir litháískir karlmenn hygðust flytja til landsins talsvert magn fíkniefna í bifreið. Ætluðu þeir að ferðast til landsins með ferjunni Norrænu ásamt bifreiðinni hinn 12. nóvember. Hinn 13. nóvember 2009 handtók lögreglan í Færeyjum mennina tvo, en þeir höfðu misst af ferjunni daginn áður. Við leit í bifreiðinni fundust rúmlega 4000 MDMA-töflur og um 3 kíló af metamfetamíni.
Við rannsókn lögreglu kom í ljós að tveir litháískir karlmenn hér á landi voru viðriðnir innflutninginn og að stefnandi var í vinfengi við þá. Rannsókn leiddi einnig í ljós að stefnandi hafði keypt farmiða með ferjunni Norrænu fyrir þá menn sem handteknir voru í Færeyjum. Stefnandi lagði út eigin fjármuni vegna þessara miðakaupa. Þá hafði stefnandi látið gera breytingar á umræddum farmiðum og greitt fyrir þær. Stefnandi hafði einnig verið í sambandi við ferðaskrifstofu ferjunnar í því skyni að spyrjast fyrir um ferðir þeirra þegar þeir skiluðu sér ekki til landsins á tilsettum tíma.
Stefnandi var boðuð á lögreglustöðina við Hverfisgötu hinn 5. janúar 2010. Við komu hennar þangað var henni kynnt að hún væri handtekin í þágu lögreglurannsóknar er varðaði ætlaðan innflutning á fíkniefnum til Íslands. Þann sama dag var gerð húsleit á heimili stefnanda og að henni lokinni var stefnanda tilkynnt að hún yrði vistuð í fangageymslu lögreglunnar í þágu rannsóknarinnar.
Hinn 6. janúar 2010 var tekin lögregluskýrsla af stefnanda. Í skýrslutökunni neitaði stefnandi sök. Stefnandi upplýsti lögreglu um að hún hefði pantað farmiða fyrir tvo menn með farþegaferjunni Norrænu. Hafi hún gert það fyrir kunningja Mindaugas, kærasta síns, að beiðni Mindaugusas, þar sem hún hafi verið sú eina þeirra sem talaði ensku. Þá kvað hún ástæðu þess að hún hefði lagt út fyrir farmiðunum hafa verið þá að fjárhagur þeirra Mindaugas hefði verið sameiginlegur. Kvaðst hún ekki hafa haft vitneskju um fyrirhugaðan innflutning fíkniefna í bifreið með Norrænu. Stefnandi hafi talið að mennirnir væru að koma hingað til lands sem ferðamenn til að skoða landið, enda hafi það verið sú skýring sem Mindaugas hafi gefið henni.
Hinn 6. janúar 2010 var stefnandi úrskurðuð í gæsluvarðhald á grundvelli a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, til 3. febrúar sama ár. Þann dag var gæsluvarðhaldsvistin framlengd, með vísan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, með úrskurði til 17. febrúar sama ár. Stefnandi var látin vera í einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stóð, sbr. b-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008. Báðir þessir úrskurðir voru kærðir til Hæstaréttar Íslands, sem staðfesti þá.
Hinn 17. febrúar 2010, var stefnandi úrskurðuð í farbann til og með 17. mars 2010, á grundvelli b-liðar 1. mgr. 95. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2008. Farbannið var svo framlengt fjórum sinnum og því stefnanda bönnuð för af landinu allt þar til dómur gekk í máli ákæruvaldsins á hendur henni 4. júní 2010.
Mennirnir tveir sem handteknir voru hér á landi voru sakfelldir í Héraðsdómi Reykjavíkur 4. júní 2010, annar fyrir brot gegn 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með síðari breytingum, sbr. 20. gr. sömu laga, en hinn fyrir hlutdeild í því broti. Stefnandi var einnig sökuð um tilraun til hlutdeildar í sama broti, en var sýknuð.
Með bréfi stefnanda til dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins, dagsettu 13. júlí 2010, setti stefnandi fram sundurliðaða skaðabótakröfu á hendur stefnda vegna ólögmætrar frelsisskerðingar. Stefndi svaraði ekki því bréfi.
III
Stefnandi byggir kröfur sínar á því, að hún hafi saklaus verið látin sæta gæsluvarðhaldi frá 6. janúar til 17. febrúar 2010 og farbanni frá þeim tíma til 4. júní sama ár. Byggir hún kröfu sína á 228. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, sbr. einnig 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 5. gr. laga nr. 97/1995. Stefnandi byggir á því að ekki hafi legið fyrir rökstuddur grunur um að hún hafi framið verknað sem fangelsisvist sé lögð við og þar af leiðandi hafi ekki verið lögmæt skilyrði til handtöku hennar, fyrir gæsluvarðhaldi og farbanni.
Í fyrsta lagi byggir stefnandi á því, að ekki hafi verið kominn fram rökstuddur grunur um refsiverðan verknað stefnanda þegar hún hafi verið látin sæta gæsluvarðhaldi með úrskurði 6. janúar 2010 og því eigi hún rétt til bóta úr hendi stefnda. Í þessu sambandi vísar stefnandi til þess að hún hafi neitað sök frá upphafi. Þá hafi stefnandi með engu móti hafa getað torveldað rannsókn málsins, þar sem umrædd fíkniefni hafi verið haldlögð í Færeyjum og grunaðir í málinu verið handteknir. Þá beri lögregluskýrslur í málinu með sér að aðrir hinna grunuðu hafi strax í upphafi borið að stefnandi hafi ekkert vitað um innflutninginn á fíkniefnunum og hennar eina aðkoma að málinu hafi verið sú að kaupa farmiða fyrir tvo menn með farþegaferjunni Norrænu án þess að hafa hugmynd um hvað til hafi staðið.
Hátterni stefnanda við farmiðakaupin hafi eindregið bent til þess að hún hafi ekki haft minnsta grun um að til stæði að flytja inn fíkniefni hingað til lands þegar hún hafi keypt farmiðana. Af gögnum málsins megi sjá að stefnandi hafi bæði haft samband við söluskrifstofu úr rekjanlegu númeri og farið sjálf á skrifstofuna til að athuga með ferðalag mannanna tveggja, auk þess sem hún hafi gefið þar upp símanúmer og nafn sitt svo hægt væri að hafa samband við hana. Stefnandi hafi einnig haft samband við lögregluna í Færeyjum, þar sem fyrrgreindir menn hafi verið í haldi, til að spyrjast fyrir um stöðu mála. Það sé því ljóst að stefnandi hefði aldrei gefið slíkar upplýsingar hefði hún vitað að til stæði að smygla fíkniefnum til landsins.
Sú staðreynd að stefnandi hafi keypt farmiða með Norrænu sé ein og sér ekki refsiverð. Eins og fyrr hafi verið nefnt hafi grandleysi stefnanda verið ljóst frá upphafi og engar vísbendingar hvað þá rökstuddur grunur um vitneskju stefnanda um fyrirætlan um innflutning fíkniefna. Niðurstaða í áðurnefndu máli nr. S-249/2010 sé afar skýr hvað þetta varði, en þar segi orðrétt:
„Enginn framburður eða vitnisburður er um það að hún hafi vitað að farmiðarnir sem hún keypti yrðu notaðir af einstaklingum sem ætluðu að flytja fíkniefni til landsins.“
Stefnandi byggir einnig á því, að ekki hafi verið skilyrði til að framlengja gæsluvarðhald hennar hinn 3. febrúar 2010 og af þeim sökum eigi hún bótarétt á hendur stefnda. Á gæsluvarðhaldstímanum frá 6. janúar til 3. febrúar 2010 hafi verið teknar fjórar lögregluskýrslur af henni. Stefnandi hafi staðfastlega neitað sakargiftum. Sömu sögu sé að segja um framburð annarra grunaðra í málinu, sem ítrekað hafi borið um það hjá lögreglu að stefnandi hafi ekki haft minnstu hugmynd um innflutning fíkniefna þegar farmiðarnir hafi verið keyptir. Engin önnur sönnunargögn hafi heldur komið fram um aðild kæranda að innflutningi. Það hafi því engar vísbendingar verið um aðild stefnanda að fíkniefnamisferli þegar gæsluvarðhaldið hafi verið framlengt.
Stefnandi byggir og á því, að ekki hafi verið skilyrði til að úrskurða hana í farbann hinn 17. febrúar, 17. mars, 31. mars, 28. apríl og 25. maí 2010. Samkvæmt þessum úrskurðum hafi stefnandi verið í farbanni í tæpa fjóra mánuði frá því að gæsluvarðhaldsvist hennar hafi lokið. Byggir stefnandi á því, að skilyrði farbanns hafi aldrei verið fyrir hendi meðan á farbanninu stóð, þ.e. frá 17. febrúar 2010 til 4. júní sama ár. Þegar hér hafi verið komið sögu, og í raun einnig frá upphafi, hafi fullkomlega verið orðið ljóst að stefnandi hafi enga vitneskju haft um innflutning á fíkniefnum hingað til lands. Ekkert hafi komið fram í skýrslum annarra sakborninga eða í öðrum gögnum að hún hafi átt hlut að máli. Þá hafi ekkert bent til þess að hún myndi reyna að komast úr landi, enda hafi hún verið búsett hér um árabil og einnig öll fjölskylda hennar.
Stefnandi byggir á því, verði fallist á að skilyrði gæsluvarðhalds og farbanns hafi verið fyrir hendi, að hún hafi verið höfð of lengi í gæsluvarðhaldinu sem og farbanni. Skipti þá engu tímalengd gæsluvarðhalds samkvæmt dómsúrskurði, þar sem lögreglu beri stöðugt að endurskoða forsendur gæsluvarðhaldsins meðan á því standi, enda sé slík frelsisskerðing afdrifarík aðgerð og eigi ekki að beita henni nema brýn þörf sé á.
Stefnandi kveðst hafa orðið fyrir verulegum miska vegna frelsissviptingarinnar, sem hún hafi þurft að þola vegna tilhæfulausra sakargifta. Það sé erfitt að gera sér í hugarlund þá sálarangist sem einstaklingur þurfi að ganga í gegnum sem sitji saklaus í gæsluvarðhaldi og einangrun í svo langan tíma, sem raunin hafi verið eða í fulla fjörtíu og tvo daga. Þá kveðst stefnandi einnig hafa orðið fyrir verulegum mannorðsmissi vegna málsins, enda hafi málið fengið umfjöllun í fjölmiðlum þar sem stefnandi hafi verið nafngreind. Málið hafi einnig reynt mjög á fjölskyldu hennar og haft miklar þjáningar í för með sér fyrir hana, enda sé samfélag Litháa hér á landi ekki fjölmennt og fréttir af handtöku stefnanda hafi breiðst hratt út meðal þeirra. Þetta hafi gert það að verkum að stefnandi hafi verið hrædd við að fara út eftir að gæsluvarðhaldsvistinni lauk og sé enn þann dag í dag hrædd við að fara á mannamót með samlöndum sínum þrátt fyrir að hún hafi verið sýknuð með endanlegum dómi. Þá kveðst hún hafa misst húsnæði sem hún hafi haft á leigu í miðborginni þegar leigusali hennar hafi fengið upplýsingar um hvaða sökum hún væri borin og húsleit framkvæmd í leiguhúsnæðinu. Enn fremur hafi ekkert orðið af námi hennar sem hún hafi haft í hyggju að stunda á vorönn 2010.
Stefnandi sundurliðar kröfur sínar um miskabætur vegna ólögmæts gæsluvarðhalds á þann veg að telja 70.470 krónur fyrir hvern dag í einangrun í 43 daga, þ.e. samtals 3.030.210 krónur.
Stefnandi sundurliðar miskabætur vegna ólögmæts farbanns á þann veg að telja 70.470 krónur fyrir hvern dag í 106 daga, þ.e. samtals 7.469.820 krónur.
Stefnandi kveðst einnig hafa orðið fyrir verulegu fjárhagstjóni vegna frelsisskerðingarinnar og hafi hún m.a. ekki fengið greiddar atvinnuleysisbætur frá 25. febrúar 2010 til 19. apríl það ár, auk þess sem 9 dagar hafi verið dregnir af henni, þar sem hún hafi setið inni á þeim tíma sem bæturnar hafi verið greiddar. Hún hafi samtals glatað atvinnuleysisbótum í 62 daga, sbr. 53. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar. Kröfu vegna missis atvinnuleysisbóta séu miðaðar við fullan bótarétt sem stefnandi hafi haft, en bæturnar hafi verið 6.900 krónur á dag.
Kröfu sína sundurliðar stefnandi svo í stefnu:
Miskabætur vegna ólögmæts gæsluvarðhalds kr. 3.030.210
Miskabætur vegna ólögmæts farbanns kr. 7.469.820
Bætur vegna missis atvinnuleysisbóta kr. 427.800
Samtals kr. 10.927.830
Um lagarök vísar stefnandi til XXXVII. kafla laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, 67. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 5. gr. laga nr. 97/1995, og 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.
Kröfu um dráttarvexti byggir stefnandi á III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, með síðari breytingum.
Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun byggir stefnandi á lögum nr. 50/1987, um virðisaukaskatt, en nauðsynlegt sé að taka tillit til virðisaukaskatts við ákvörðun málskostnaðar, þar sem stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur.
IV
Stefndi byggir kröfu sína um sýknu á því, að öll skilyrði hafi verið fyrir hendi til þeirra aðgerða sem lögregla hafi gripið til gagnvart stefnanda, m.a. handtöku, gæsluvarðhalds og farbanns.
Byggir stefndi á því, að er stefnandi hafi verið handtekin og úrskurðuð í gæsluvarðhald hinn 6. janúar 2010 hafi verið kominn fram rökstuddur grunur um að hún hefði framið refsiverðan verknað, sem fangelsisrefsing sé lögð við.
Þegar stefnandi hafi verið handtekin hinn 5. janúar 2010 hafi rannsókn málsins verið á algjöru frumstigi. Fyrir hafi legið gögn sem staðfest hafi að stefnandi hefði haft samband við skrifstofu ferjunnar Norrænu og spurst fyrir um Litháana sem þá hafi setið í gæsluvarðhaldi í Færeyjum. Stefnanda hafi ekki verið veittar umbeðnar upplýsingar og hafi hún þá farið þess á leit að haft yrði samband við hana í ákveðið símanúmer. Í ljós hafi komið að það símanúmer tilheyrði öðrum sakborninga í málinu, þeim sem sakfelldur hafi verið í Héraðsdómi. Einnig hafi rannsókn lögreglu leitt í ljós að stefnandi hafi staðið fyrir breytingum á farmiðum þeirra tveggja Litháa, sem hafi verið í gæsluvarðhaldi í Færeyjum, og greitt fyrir þær breytingar. Þá hafi einnig verið ljóst að stefnandi ætti samneyti við þá tvo Litháa sem handteknir hafi verið hér á landi í tengslum við rannsókn málsins. Í símasamtölum, sem lögregla hafi hlustað á og hljóðritað, áður en til handtöku hafi komið, hafi komið fram upplýsingar sem bent hafi til þess að stefnanda væri kunnugt um fyrirhugaðan innflutning fíkniefna. Það hafi því verið ætlan lögreglu að stefnandi ætti þátt í tilraun til innflutnings á fíkniefnum hingað til lands og að hún hefði staðið að skipulagningu innflutningsins ásamt fleirum. Stefnandi hafi því verið undir rökstuddum grun um að hafa framið refsiverðan verknað sem varðað gat fangelsisrefsingu. Talið hafi verið að stefnandi gæti torveldað rannsókn málsins með því að koma undan sönnunargögnum eða hafa áhrif á vitni eða samseka, gengi hún laus. Á þessari stundu hafi ekki verið vitað hvort fleiri aðilar væru viðriðnir málið. Brýnir rannsóknarhagsmunir hafi því staðið til þess að tryggt yrði að stefnandi gengi ekki laus. Á það mat hafi Héraðsdómur fallist og talið að skilyrði a-liðar 95. gr. laga nr. 88/2001, um meðferð sakamála, væri uppfyllt, og féllst því á kröfu lögreglu um gæsluvarðhald stefnanda allt til 3. febrúar 2010. Sá úrskurður hafi verið kærður til Hæstaréttar Íslands, sem staðfest hafi úrskurðinn með vísan til forsendna hans.
Stefndi kveður að á tímabilinu frá 6. janúar 2010 til 3. febrúar 2010 hafi stefnandi verið yfirheyrður fjórum sinnum. Við þær yfirheyrslur hafi hún neitað allri vitneskju um innflutning fíkniefnanna, en sagst hafa keypt áðurnefnda farmiða með ferjunni og greitt fyrir þá. Þá hafi stefnandi sagst hafa staðið fyrir því að bókunum hafi verið breytt og jafnframt greitt fyrir þær breytingar. Einnig hafi stefnandi viðurkennt að hafa hringt á skrifstofu ferjunnar og reynt að grennslast fyrir um ferðir Litháanna. Jafnframt hafi komið fram að hún hefði millifært peninga til aðila í Litháen. Hafi stefnandi sagst hafa gert þetta að beiðni annars sakbornings í málinu, Mindaugas Strimaitis, en sá sé eða hafi verið unnustu hennar. Stefnandi hafi, að eigin sögn, ekki vitað hvers vegna hún keypti farmiðana eða millifærði peningana. Misræmi hafi verið í framburði hennar og Mindaugas um aðkomu stefnanda. Í yfirheyrslu lögreglu yfir Mindaugas hinn 8. janúar 2010, hafi hann haldið því fram að maður að nafni Marias eða Martynas hefði leitað til hans og stefnanda og beðið þau um að annast farmiðakaupanna og hafi stefnandi síðan verið í sambandi við þennan mann vegna farmiðakaupin, en ekki hann sjálfur. Það hafi ekki verið fyrr en í skýrslutöku 31. janúar 2010 sem Mindaugas hafi borið að stefnandi tengdist ekki innflutningi fíkniefnanna. Ríkir rannsóknarhagsmunir hafi því verið fyrir hendi til að framlengja gæsluvarðhald stefnanda. Rannsóknin hafi verið umfangsmikil og miðað að því að finna út hverjir stæðu að baki skipulagningu fíkniefnainnflutningsins og hverjir væru eigendur hinna haldlögðu fíkniefna. Á þessum tíma hafi legið fyrir játning Mindaugas um aðild hans að innflutningnum. Gagnaöflun hafi enn verið í gangi og rannsaka hafi þurft fjármál stefnanda og upplýsa nánar um samskipti hennar og tengsl við mögulega samverkamenn. Enn hafi því verið talið að skilyrði a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 væru fyrir hendi.
Stefndi byggir á því, að nauðsynlegt hafi verið að úrskurða stefnanda í farbann frá 17. febrúar 2010 til 8. júní sama ár. Stefnandi hafi á þessum tíma verið undir rökstuddum grun um hlutdeild í fíkniefnalagabroti. Ætluð brot hennar hafi verið talin varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga, sbr. 20. gr. og 22. gr. sömu laga, en brot gegn ákvæðinu geti varðað allt að 12 ára fangelsi. Stefnandi sé litháískur ríkisborgari, en skráð til heimilis hér á landi. Á þessum tíma hafi hún verið atvinnulaus og með takmörkuð tengsl við landið. Hafi því mátt ætla að hún myndi reyna að komast úr landi og þannig komast undan málsmeðferð fyrir dómi og fullnustu refsingar. Skilyrði b-liðar 1. mgr. 95. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 88/2010 hafi því verið fyrir hendi.
Stefndi byggir á því, að þó svo að stefnandi hafi verið sýknuð í refsimáli, eigi hún ekki kröfu á hendur stefnda með vísan til 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008, þar sem stefnandi hafi valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hún reisi kröfur sínar á. Athafnir stefnanda fyrir handtökuna sem og mjög ruglingslegur framburður hennar eftir að hún var handtekin hafi valdið því eða stuðlað að þeim aðgerðum.
Stefndi telur að ekki séu skilyrði til að dæma stefnanda bætur samkvæmt 228. gr. laga nr. 88/008, sbr. 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrár, 5. gr. laga nr. 97/1995 eða 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þá telur stefndi að krafa stefnanda á grundvelli 26. gr. laga nr. 50/1993, sé algjörlega vanreifuð.
Stefndi telur að rökstuddur grunur hafi legið fyrir um að stefnandi hefði framið refsiverðan verknað strax í upphafi og áfram á meðan rannsókn málsins stóð yfir. Skilyrði hafi verið til þess að framlengja gæsluvarðhald yfir stefnanda, en rannsókn hafi leitt til þess að stefnandi hafi verið ákærð.
Stefndi verði ekki gerður bótaskyldur vegna umfjöllunar fjölmiðla og telur stefndi fullyrðingar stefnanda um fyrirhugað nám hennar vera ósannaðar og einnig það að hún hafi misst leiguhúsnæði sitt vegna aðgerða lögreglu.
Stefndi telur fullt tilefni hafa verið til handtöku, gæsluvarðhalds og farbanns yfir stefnanda, en að baki hafi legið úrskurðir dómara. Lögregla hafi nýtt rannsóknartíma sinn sem skyldi og ekki sé unnt að gera ríkari kröfur til hraðari málsmeðferðar, að mati stefnda. Sakarefni málsins hafi verið alvarlegt og hafi aðgerðir lögreglu verið bæði málefnalegar og í fullu samræmi við lagaheimildir. Hafi verið algjörlega nauðsynlegt að stefnandi sætti gæsluvarðhaldi og farbanni.
Stefndi mótmæli fjárhæð bótakröfu sérstaklega, sem ósannaðri.
Varakröfu sína byggir stefndi á því að miskabótakröfur stefnanda séu í engu samræmi við dómaframkvæmd, fjárkrafa stefnanda sé með öllu ósönnuð og ósannað sé að skilyrði séu fyrir því að stefnandi eigi rétt á bótum vegna missis atvinnuleysisbóta.
Stefndi krefst og lækkunar bóta vegna eigin sakar stefnanda sbr. 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008.
Um lagarök vísar stefndi til laga nr. 88/2008.
Kröfu um málskostnað byggir stefndi á 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
V
Í máli þessu krefur stefnandi stefnda um greiðslu miskabóta og bóta fyrir fjártjón vegna ólögmæts gæsluvarðhalds og ólögmæts farbanns, sem og að hún hafi, að óþörfu, verið látin sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldsvistinni stóð.
Byggir stefnandi málatilbúnað sinn á þeim grunni að henni beri réttur til skaðabóta með vísan til 228. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, en byggir einnig á 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, 67. gr. stjórnarskrárinnar og 5. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994.
Skilyrði skaðabóta í tilviki eins og um ræðir í málinu lúta ákvæði 228. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála. Ákvæði 5. mgr. 67. gr. stjórnarskrár og skaðabótalaga, hafa verið skýrð svo að þau veiti ekki ríkari bótarétt en reglur laga nr. 88/2008.
Í 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008, er heimilað að dæma bætur vegna aðgerða samkvæmt IX. XIV. kafla laga þessara ef skilyrði 1. mgr. eru fyrir hendi, þ.e. ef maður hefur verið borinn sökum í sakamáli, en mál hans hefur verið fellt niður eða hann verið sýknaður með endanlegum dómi, án þess að það hafi verið gert vegna þess að hann hafi verið talinn ósakhæfur. Þó má fella niður eða lækka bætur ef sakborningur hefur valdið eða stuðlað að þeim aðgerðum sem hann reisir kröfu sína á. Ákvæði um heimild til gæsluvarðhalds og farbanns er í XIV. kafla laga nr. 88/2008.
Stefnandi var sem fyrr greinir úrskurðuð í Héraðsdómi Reykjavíkur í gæsluvarðhald, á grundvelli rannsóknarhagsmuna með vísan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, frá 6. janúar 2010 til 3. febrúar 2010 og var gæsluvarðhaldsvistin framlengd með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 3. febrúar til 17. febrúar sama ár. Hæstiréttur Íslands staðfesti báða þessa úrskurði og féllst á að skilyrði a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála væri fyrir hendi. Stefnandi sat í gæsluvarðhaldi til 17. febrúar 2010 er hún var úrskurðuð í farbann. Ákæra var síðan gefin út á hendur stefnanda hinn 31. mars 2010, þar sem henni var gefið að sök hlutdeild í broti Mindaugas, en hann var ákærður fyrir tilraun til innflutnings á miklu magni af fíkniefnum, í félagi við aðra, ætluðum til söludreifingar hér á landi, í ágóðaskyni, með því að hafa að beiðni Mindaugas keypt farmiða fyrir tvo menn með farþegaferjunni Norrænu til Íslands vitandi að miðarnir yrðu notaðir af einstaklingum sem ætluðu að flytja til landsins fíkniefni, og fyrir að hafa greitt að hluta til fyrir farmiðana með eigin fé. Stefnandi var sýknuð í ákærumálinu með þeim rökum að enginn framburður eða vitnisburður væri um það að hún hefði vitað að farmiðarnir sem hún keypti yrðu notaðir af einstaklingum sem ætluðu að flytja fíkniefni til landsins. Önnur gögn málsins væru ekki til þess fallin að fella á hana sök gegn eindreginni neitun hennar. Ósannað væri því að stefnandi hefði vitað að farmiðakaupin tengdust fyrirhuguðum fíkniefnainnflutningi, en Mindaugas Strimaitis, sem var meðákærði stefnanda hlaut tveggja ára og sex mánaða fangelsisdóm fyrir brot sitt.
Eins og að framan greinir var stefnandi hneppt í gæsluvarðhald vegna rannsóknar á stórfelldu fíkniefnabroti er varðaði ætlaðan innflutning á fíkniefnum hingað til lands. Fyrir liggur að stefnandi annaðist kaup á farmiðum með ferjunni Norrænu fyrir tvo Litháa, sem tengdust málinu, og millifærði peninga til aðila í Litháen. Þá annaðist hún breytingar sem gerðar voru á farmiðum Litháanna og greiddi fyrir þær, en Litháarnir sátu í gæsluvarðhaldi í Færeyjum vegna málsins og sættu þar síðar ákæru.
Af því sem nú hefur verið rakið er ljóst að nauðsynlegt var að afla frekari gagna um hin meintu brot en rannsókn málsins var skammt á veg komin þegar stefnandi var hneppt í gæsluvarðhald. Skilyrði fyrir því að gæsluvarðhaldi sé beitt í þágu rannsóknar sakamáls eru þau að fram sé kominn rökstuddur grunur um að sakborningur hafi framið verknað sem fangelsisrefsing er lögð við og að ætla megi að hann muni torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að afmá merki eftir brot, skjóta undan munum eða hafa áhrif á vitni eða samseka, eins og fram kemur í a-lið 95. gr. laga nr. 88/2008. Þegar virt eru þau atriði sem fyrir lágu og hér hafa verið rakin verður að telja að fullt tilefni hafi verið til að stefnandi sætti gæsluvarðhaldi, enda var þá, vegna þessara sömu atriða, kominn fram rökstuddur grunur um aðild hennar að meintu fíkniefnalagabroti sem fangelsisrefsing er lögð við, samkvæmt almennum hegningarlögum, eins og hér að framan hefur verið lýst og fram kemur í gæsluvarðhaldsúrskurðunum, sem staðfestir voru með dómi Hæstaréttar 11. janúar 2010 og 10. febrúar 2010. Þá liggur fyrir að margir aðilar tengdust ætluðu broti sem rannsóknin beindist að og skýringar stefnanda og framburður annarra sakborninga stönguðust á um þátt hennar og aðstoð við aðra sakborninga í málinu, skipulagningu þess og fjármögnun. Verður þar með ekki fallist á að stefnanda hafi verið gert að sæta gæsluvarðhaldi að ósekju, sbr. 2. mgr. 228. gr. laga nr. 88/2008. Einnig verður að telja að þörf hafi verið á að stefnandi sætti gæsluvarðhaldi þar sem ætla mátti að hún myndi torvelda rannsókn málsins, svo sem með því að hafa áhrif á samseka eða vitni. Rannsókn málsins, þar með talið skýrslutökum, var fram haldið allan gæsluvarðhaldstímanna, en, eins og áður greinir, voru margir aðilar grunaðir um að eiga aðild að brotinu og rannsókn málsins, sem var allumfangsmikil, önnuðust lögregla og tollgæsla á Íslandi, í Færeyjum og í Litháen. Þegar það er virt verður ekki fallist á, að tími sá sem stefnandi sætti gæsluvarðhaldi hafi verið óhóflegur og lengri en efni stóðu til.
Að þessu virtu verður ekki talið að skort hafi á lögmæt skilyrði þess að gæsluvarðhaldinu var beitt eða að ákvæði stjórnarskrárinnar, mannréttindasáttmála Evrópu eða annarra laga, sem stefnandi vísar til, leiði til þess að hún eigi rétt á bótum úr hendi stefnda. Þá verður að telja að skilyrðum b-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 100. gr. sömu laga, um að banna stefnanda för frá Íslandi, hafi verið fullnægt, en stefnandi er erlendur ríkisborgari, hún var á þessum tíma atvinnulaus og hafði takmörkuð tengsl við landið. Verður því að telja, með vísan til þess sem að framan greinir, að nauðsynlegt hafi verið að tryggja nærveru hennar til að koma í veg fyrir að hún gæti komið sér undan frekari rannsókn, saksókn, og málsmeðferð fyrir dómi, vegna þeirra brota sem hún var grunuð um að hafa átt aðild að.
Ber með vísan til þess að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í málinu.
Rétt þykir að málskostnaður milli aðila falli niður.
Stefnandi fékk gjafsókn með bréfi dómsmálaráðherra, dagsettu 16. september 2010.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, sem er lögmannsþóknun hennar 650.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Við ákvörðun málskostnaðar hefur ekki verið litið til virðisaukaskattsskyldu stefnanda.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfum stefnanda, Rima Kavalskyte, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 650.000 krónur, sem er málflutningsþóknun lögmanns hennar, greiðist úr ríkissjóði.