Hæstiréttur íslands
Mál nr. 356/2005
Lykilorð
- Þjófnaður
- Ítrekun
- Vanaafbrotamaður
- Reynslulausn
|
|
Fimmtudaginn 3. nóvember 2005. |
|
Nr. 356/2005. |
Ákæruvaldið(Ragnheiður Harðardóttir vararíkissaksóknari) gegn Þórði Pétri Péturssyni (Bjarni Þór Óskarsson hrl.) |
Þjófnaður. Ítrekun. Vanaafbrotamaður. Reynslulausn.
Þ var fundinn sekur um tvö innbrot og tvær tilraunir til innbrots í október og desember 2004 og í febrúar 2005. Þ átti langan brotaferil að baki og með fyrrnefndum brotum sínum rauf hann skilorð reynslulausnar á 130 daga eftirstöðvum refsingar. Var refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í tólf mánuði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 21. júlí 2005 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst nú staðfestingar héraðsdóms.
Ákærði krefst þess að refsing verði milduð og hún skilorðsbundin.
Í héraðsdómi er ákærði fundinn sekur um tvö innbrot og tvær tilraunir til innbrots í október og desember 2004 og í febrúar 2005. Ákærði, sem er 33 ára gamall, á að baki langan sakarferil. Hann hefur fimm sinnum gengist undir sektargreiðslur, síðast á árinu 2000 fyrir eignaspjöll. Þá hefur hann tuttugu sinnum verið dæmdur fyrir brot gegn almennum hegningarlögum nr. 19/1940, umferðarlögum nr. 50/1987 og lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, fyrst á árinu 1990 er hann var dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir þjófnað, nytjastuld og umferðalagabrot. Refsingar ákærða hafa ekki verið bundnar skilorði eftir það, en ákærði var dæmdur til fangelsisvistar fyrst 1992. Frá árinu 2000 hefur ákærði fimm sinnum hlotið refsidóma. Á því ári var hann dæmdur í 45 daga fangelsi fyrir þjófnaði, umferðarlagabrot og fíkniefnalagabrot, en ári síðar í sex mánaða fangelsi fyrir sams konar brot. Í júní 2003 var ákærði dæmdur í þriggja mánaða fangelsi fyrir tvo þjófnaði og þjófnaðartilraun, en brotin voru framin í júlí 2001 og febrúar 2003. Í október 2003 hlaut hann 10 mánaða fangelsi fyrir átta þjófnaðarbrot, þjófnaðartilraun, hilmingu, eignaspjöll og fíkniefnalagabrot sem framin voru á tímabilinu frá 22. september 2001 til 1. maí 2003. Þá var ákærði í október 2004 dæmdur til 30.000 króna sektar fyrir fíkniefnalagabrot.
Að þessu gættu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms, verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða og refsingu hans.
Samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara nam sakarkostnaður í héraði 249.000 krónum, sem voru dæmd málsvarnarlaun skipaðs verjanda beggja ákærðu þar fyrir dómi að viðbættum virðisaukaskatti. Var ákærðu gert að greiða þann kostnað. Verður sú niðurstaða staðfest að því er ákærða snertir. Samkvæmt sama yfirliti hefur rekstur málsins fyrir Hæstarétti ekki leitt til útlagðs kostnaðar. Ákærði verður dæmdur til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem eru ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Þórður Pétur Pétursson, greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Bjarna Þórs Óskarssonar hæstaréttarlögmanns, 186.750 krónur.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 2. júní 2005
Mál þetta, sem dómtekið var 30. maí s.l. hefur lögreglustjórinn á Akureyri höfðað hér fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra með þremur ákærum útgefnum 1. mars, 2. mars og 20. maí 2005 á hendur N, [...], Akureyri og Þórði Pétri Péturssyni, kt. 011271-4139 Hafnarstræti 35 Akureyri.
I.
„fyrir þjófnað, með því að hafa miðvikudagsmorguninn 27. október 2004, staðið að því í sameiningu að brjótast inn í bifreiðina DE-[...], sem lagt hafði verið á bifreiðastæði við sundlaugina í Glerárskóla á Akureyri og stolið út bifreiðinni fartölvu af gerðinni Dell.
Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.“
II.
„fyrir eftirtalin þjófnaðarbrot, sem þau frömdu í sameiningu aðfaranótt fimmtudagsins 23. desember 2004:
A.
Að hafa brotist inn í Icehobby (B.B. búðina ehf.) að Draupnisgötu 6 á Akureyri og stolið þaðan fjarstýrðum bíl af gerðinni Cen Genesis að verðmæti um 79.000 krónum Iridium fartölvu í t-ösku ásamt lausum diskum, DVD myndbandsupptökutæki af gerðinni 2302 Panda í tösku, Nokia GSM síma, Sony/Erikson GSM síma, hleðslutæki fyrir GSM síma, Sony stafrænni myndavél, 8-12 settum af hjólbörðum fyrir fjarstýrða bíla, svartri vélsleðatösku, Leatherman hnífi í brúnu leðurhulstri, 10 lyklum af innihurðum, einum bíllyklum, ýmiskonar verkfærum og 20.000 til 25.000 krónum í peningum.
B.
Að hafa í þjófnaðarskyni brotist inn á veitingastaðinn Setrið að Sunnuhlíð 12 á Akureyri, en horfið af vettvangi án þess að stela nokkru, þegar aðili inni í húsinu hafi afskipti af athöfnum þeirra.
Brot ákærðu samkvæmt A kafla ákærunnar teljast varað við 244 gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, en brot ákærðu samkvæmt B kafla ákærunnar teljast varða við 244. gr., sbr. 20. gr. sömu laga.“
III.
„ með því að hafa föstudaginn 18. febrúar 2005, staðið saman að því að brjótast inn í Varpholtsskóla í Hörgárbyggð, en horfið af vettvangi án þess að stela nokkur þegar þjófavarnarkerfi skólans fór í gang.
Telst þetta varða við 244. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.“
Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar og vegna fyrstu ákærunnar gerir Guðmundur V. Gunnarsson f.h. GV grafa ehf., kt. 500795-2779, Óseyri 2 Akureyri, bótakröfu á hendur ákærðu að fjárhæð kr. 475.327 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt lögum nr. 38, 2001, frá 29. janúar 2005 til greiðsludags.
Vegna ákæru tvö gerir BB búðin ehf., kt. 550604-2640, Draupnisgötu 6 Akureyri, bótakröfu á hendur ákærðu að fjárhæð kr. 290.250.
Af hálfu ákærðu er krafist vægustu refsingar sem lög leyfa og að bótakröfum verði vísað frá dómi, en til vara að þær verði stórlega lækkaðar.
Hér fyrir dóminum hafa bæði hin ákærðu viðurkennt brot sín eins og þeim er lýst í framangreindum ákærum. Er sú játning þeirra í samræmi við gögn málsins. Teljast brot þeirra því nægjanlega sönnuð og varða þau við tilgreind lagaákvæði.
Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins á ákærði Þórður Pétur langan brotaferil að baki og hefur hann frá árinu 1990 til ársins 2004, samtals 25 sinnum hlotið refsidóma fyrir brot á hegningarlögum, umferðarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni. Þann 9. júlí 2004 var ákærða veitt reynslulausn af eftirstöðvum refsingar, 130 daga í 1 ár. Með brotum sínum nú rauf ákærði skilorð reynslulausnarinnar og ber því að dæma eftirstöðvar þeirrar refsingar nú ásamt refsingu fyrir brot þau er ákært er út af í þessu máli, sbr. 42. gr. og 60. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940. Við ákvörðun refsingar þykir eiga að taka mið af 72. gr. og 255. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 12 mánuði.
Ákærða, N, hefur samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins eigi sætt refsingu áður. Við ákvörðun refsingar hennar þykir eiga að taka tillit til þess að hún lét stjórnast af meðákærða við framningu brotanna. Þykir refsing hennar hæfilega ákveðin fangelsi í 2 mánuði, en rétt þykir að fullnustu refsingar verði frestað og hún falli niður að 2 árum liðnum, haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22, 1955.
Bótakrefjendur hafa eigi fylgt eftir kröfum sínum hér fyrir dóminum.
Í málinu liggja frammi nokkrir reikningar, stílaðir á GV gröfur ehf. og í samantekt bótakrefjanda, sem fram var lögð við lögreglurannsókn eru ýmsir liðir m.a. vegna vinnu, sem ekki er gerð sérstök grein fyrir. Þykir bótakrafan það óljós að eigi verði lagður efnisdómur á hana og verður henni vísað frá dómi ex officio. Þá þykir bótakrafa frá BB búðinni ehf. ekki nægjanlega rökstudd til að á hana verði lagður efnisdómur og verður henni því einnig vísað frá dómi ex officio.
Dæma ber ákærðu til greiðslu alls sakarkostnaðar, þ.m.t. réttargæslu- og málsvarnarlaun skipaðs verjanda þeirra, Ólafs Rúnars Ólafssonar hdl., kr. 200.000.
Dóm þennan kveður upp Freyr Ófeigsson dómstjóri.
D Ó M S O R Ð :
Ákærði, Þórður Pétur Pétursson, sæti fangelsi í 12 mánuði.
Ákærða, N, sæti fangelsi í 2 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingar og hún falla niður að 2 árum liðnum frá uppkvaðningu dómsins, haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22, 1955.
Framangreindum bótakröfum er vísað frá dómi.
Ákærðu greiði allan sakarkostnað, þ.m.t. réttargæslu- og málsvarnarlaun skipaðs verjanda þeirra, Ólafs Rúnars Ólafssonar hdl., kr. 200.000.