Hæstiréttur íslands

Mál nr. 663/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Samningur
  • Lán
  • Innsetningargerð
  • Aðför


Mánudaginn 20. desember 2010.

Nr. 663/2010.

Lýsing hf.

(Árni Ármann Árnason hrl.)

gegn

Nábítum, böðlum og illum öndum ehf.

(Örn Gunnlaugsson

fyrirsvarsmaður  varnaraðila)

Kærumál. Samningur. Lán. Innsetningargerð. Aðför.

L hf. og N ehf. gerðu með sér svokallaðan kaupleigusamning í september 2008 sem fól í sér að L hf. lánaði N ehf. fé til kaupa á tölvustýrðri járnabeygjuvél. Samningurinn var til fimm ára frá og með október 2008 og skyldu mánaðarlegar afborganir greiðast 20. hvers mánaðar. Samningurinn var lánssamningur í skilningi VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og var fjárhæð samningsins bundin gengi tveggja erlendra gjaldmiðla með nánar tilgreindum hætti. N ehf. stóð í skilum samkvæmt samningnum til ágústmánaðar 2009 en greiddi ekki af samningnum eftir það. N ehf. ritaði L hf. bréf á árinu 2009 þar sem félagið lýsti skoðun sinn þess efnis að forsendur samningsins væru brostnar og gerði L hf. tillögur að uppgjöri samningsins. L hf. sendi N ehf. á hinn bóginn aðvörun og lýsti loks yfir riftun samningsins 22. desember 2009. Í málinu krafðist L hf. þess að járnabeygjuvélin yrði tekin úr umráðum G og fengin sér með beinni aðfaragerð. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að greiðslutilboð þau sem N ehf. gerði L hf. á árinu 2009 hefðu gengið lengra í þágu N ehf. en leiddi af dómi Hæstaréttar frá 16. september 2010 í máli nr. 471/2010. Í héraði lagði L hf. fram endurútreikning á samningsfjárhæðinni sem reyndist í samræmi við framangreindan dóm Hæstaréttar. Samkvæmt endurútreikningi hafði N ehf. ofgreitt af samningnum allt frá desembermánuði 2008. Ef inneign N ehf. hefði verið látin ganga til greiðslu afborgana samkvæmt samningnum, er þær féllu í gjalddaga, hefðu vanskil N ehf. við riftun samningsins 22. desember 2009 numið afborgunum í nóvember 2009, að hluta, og í desember 2009. Í dómi Hæstaréttar segir meðal annars að þegar litið væri til ofgreiðslu N ehf. sem leiddi til inneignar hans hjá L hf. og þess að ekki lægi fyrir hvort sú inneign ætti að bera vexti eða ekki og hver fjárhæð þeirra ætti að vera, yrði ekki talið að L hf. hefði sýnt fram á að N ehf. hefði verið í vanskilum með greiðslur fyrr en á gjalddaga 20. desember 2009, en samkvæmt ákvæði í samningi aðila þyrftu vanskil greiðslna að standa í 15 daga hið skemmsta til þess að riftun væri heimil. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur um að hafna aðfararbeiðni L hf.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. nóvember 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 3. desember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 15. nóvember 2010, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að vél af gerðinni Stema/Pedax Twinmaster 12X + tölvustýrð járnabeygjuvél – módel 031A, tegundarnúmer 031-181, yrði tekin með beinni aðfarargerð úr vörslum varnaraðila og fengin honum.  Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og innsetningarbeiðni hans samþykkt auk kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

I

Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði gerðu málsaðilar með sér samning, sem þeir nefndu kaupleigusamning, 8. september 2008, en nafn varnaraðila var þá Bindir og vír ehf. Samningur þessi var í raun lánssamningur í skilningi VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og fól í sér að sóknaraðili lánaði varnaraðila fé til kaupa á tölvustýrðri járnabeygjuvél sem nánar er lýst í úrskurðinum. Fyrirsögn 2. gr. samningsins er ,,Leigugrunnur“, sem samtals er með virðisaukaskatti sagður vera í íslenskri mynt 23.083.723 krónur. Var sú fjárhæð bundin gengi tveggja erlendra gjaldmiðla með nánar tilgreindum hætti. Í 5. gr. er ákvæði um greiðslutilhögun. Þar kemur fram að varnaraðili hafi greitt hluta andvirðis vélarinnar og virðisaukaskatt við undirritun samningsins. Í 4. gr. er ákvæði um leigutíma en hann skyldi vera frá 20. október 2008 til 19. október 2013. Varnaraðili skyldi greiða lánsfjárhæðina til baka með 60 mánaðarlegum greiðslum 20. hvers mánaðar, í fyrsta sinn 20. október 2008. Ekki er umdeilt að varnaraðili stóð í skilum samkvæmt ákvæðum samningsins fram til 20. ágúst 2009 en þann dag greiddi hann umkrafða fjárhæð, sem þá var á gjalddaga, 291.472 krónur. Hann hefur ekki greitt af samningnum eftir þetta.

Varnaraðili ritaði sóknaraðila bréf 6. ágúst 2009 og lýsti þá meðal annars þeirri skoðun sinni að forsendur framangreinds samnings væru brostnar vegna verulegrar lækkunar á gengi íslensku krónunnar miðað við gengi þeirra erlendu gjaldmiðla, sem samningsfjárhæðin var bundin við. Í bréfinu gerði hann tillögu að uppgjöri á samningum, sem miðaði við tilgreindar forsendur. Varnaraðili ritaði annað bréf til sóknaraðila 30. október 2009 þar sem hann áréttaði fyrra tilboð um uppgjör samningsins ,,á þann hátt sem rúmaðist innan ákvæða laga 38/2001“. Hvorugu þessara bréfa var svarað. Sóknaraðili mun hafa sent varnaraðila aðvörun 9. desember 2009 um að samningi þeirra yrði rift ef honum yrði ekki komið í skil. Varnaraðili sendi enn tillögu að uppgjöri 14. desember 2009. Sóknaraðili lýsti yfir riftun samningsins í símskeyti 22. desember 2009 og taldi þá að ógreiddar væru 1.893.047 krónur. Þar kemur einnig fram að uppgreiðsluverð með vanskilum og kostnaði sé 14.545.846 krónur. Krafðist hann þess jafnframt að varnaraðili skilaði vélinni þegar í stað.

II

Með dómi Hæstaréttar Íslands 16. júní 2010 í máli nr. 153/2010 var dæmt að lög nr. 38/2001 heimiluðu ekki lánssamninga þar sem lánsfjárhæðin væri greidd út í íslenskum krónum en tryggð miðað við gengi erlendra gjaldmiðla. Með dómi réttarins 16. september 2010 í máli nr. 471/2010 var enn fremur dæmt að lánsfjárhæðin í sambærilegum samningi skyldi í stað svonefndrar gengistryggingar vera óverðtryggð en bera vexti samkvæmt 4. gr., sbr. 3. gr., laga nr. 38/2001, sem væru jafn háir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákvæði með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir eru samkvæmt 10. gr. sömu laga.

Ekki er ágreiningur um það í máli þessu að skilmálar í samningi aðila skuli vera í samræmi við það sem síðast greinir.

III

Þegar sóknaraðili rifti samningi aðila 22. desember 2009 taldi hann, eins og áður greinir, að ógreiddar samkvæmt samningnum væru þá 1.893.047 krónur. Sú fjárhæð miðaði við skilmála lánsins, sem síðar voru dæmdir ólögmætir. Greiðslutilboð þau sem varnaraðili gerði sóknaraðila, og getið er að framan, miðuðu við að skilmálum láns yrði breytt og gengu þær breytingar lengra í þágu varnaraðila en leiddu af dómi Hæstaréttar í máli nr. 471/2010.

Er málið var tekið fyrir í héraðsdómi 27. ágúst 2010 lagði sóknaraðili fram endurútreikning á samningsfjárhæðinni, sem ekki hefur verið andmælt tölulega af varnaraðila. Sá útreikningur miðaði við sömu skilmála og voru síðar lagðir til grundvallar í dómi Hæstaréttar í máli nr. 471/2010. Þar kemur fram að miðað við þá skilmála hafði varnaraðili ofgreitt 477.769 krónur af samningnum 20. ágúst 2009, er hann innti af hendi síðustu greiðslu sína. Samkvæmt endurútreikningum hafði varnaraðili, miðað við forsendur þær sem lagðar voru til grundvallar í honum, ofgreitt allt frá 20. desember 2008, og fór inneign hans vaxandi frá þeim degi og varð hæst 20. ágúst 2009. Ef inneign varnaraðila hefði verið látin ganga til greiðslu á afborgunum samkvæmt samningnum, er þær féllu í gjalddaga, hefðu vanskil fyrst orðið 20. nóvember 2009 og þá numið 70.679 krónum. Þegar sóknaraðili rifti samningnum 22. desember 2009 voru vanskil varnaraðila samkvæmt endurútreikningnum 245.567 krónur. Tveir dagar voru þá liðnir frá síðasta gjalddaga samningsins.

Í 28. gr. samnings málsaðila er ákvæði um riftun, en þar segir meðal annars: ,,Lýsingu hf. er heimilt að rifta samningi þessum og öðrum þeim samningum/lánum sem leigutaki er með hjá Lýsingu hf. án fyrirvara vanefni eða brjóti leigutaki einhverja grein samningsins eða Lýsing hf. telur að grundvelli samningsins eða annarra þeirra samninga/lána sem leigutaki er með hjá Lýsingu hf. er verulega raskað af öðrum orsökum. Sem dæmi má nefna: a) Ef leigutaki innir ekki af hendi tilskildar greiðslur samkvæmt samningi þessum á umsömdum gjalddögum eða Lýsing hf. hefur orðið að greiða vangreiddar bætur eða gjöld eða sektir sem skráður eigandi er ábyrgur fyrir gagnvart 3ja aðila sbr. 22. gr. og 26. gr. samningsins. Vanskil lengri en 15 dagar telst riftunarákvæði.“

Þegar litið er til ofgreiðslu varnaraðila frá 20. desember 2008, sem leiddi til  inneignar hans hjá sóknaraðila allt fram til 20. nóvember 2009 og þess að ekki liggur fyrir hvort sú inneign á að bera vexti eða ekki og hver fjárhæð vaxta yrði, verður ekki talið að sóknaraðili hafi sýnt fram á að varnaraðili hafi verið í vanskilum með greiðslur fyrr en á gjalddaga 20. desember 2009. Samkvæmt áður tilvitnuðu ákvæði 28. gr. samnings málsaðila þurfa vanskil greiðslna samkvæmt honum að standa í 15 daga hið skemmsta til þess að riftun sé heimil. Sóknaraðili hefur því ekki sýnt fram á að honum hafi verið heimilt að rifta samningum 22. desember 2009 svo sem hann gerði. Hann hefur því ekki sýnt fram á að fullnægt sé skilyrðum 1. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989 til þess að fallast megi á beiðni hans.

Samkvæmt öllu framanröktu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 15. nóvember 2010.

Mál þetta barst dóminum 28. maí 2010 og var tekið til úrskurðar 20. október 2010. Gerðarbeiðandi er Lýsing hf., Ármúla 3, Reykjavík. Gerðarþoli er  NÁBÍTAR, BÖÐLAR & ILLIR ANDAR ehf., Melabraut 22, Hafnarfirði.

            Gerðarbeiðandi krefst dómsúrskurðar um að vél af gerðinni Stema/Pedax Twinmaster 12X + tölvustýrð  járnabeygjuvél – módel 031A, týpunúmer 031-181, verði tekin með beinni aðfarargerð úr vörslum fyrirsvarsmanns gerðarþola og fengin gerðarbeiðanda. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi gerðarþola samkvæmt mati dómsins.

            Gerðarþoli krefst þess að kröfu gerðarbeiðanda verði hafnað. Þá krefst gerðarþoli málskostnaðar úr hendi gerðarbeiðanda. 

                                                                              I.

Hinn 8. september 2008 gerðu gerðarbeiðandi og Bindir og vír ehf., nú NÁBÍTAR, BÖÐLAR & ILLIR ANDAR ehf., með sér kaupleigusamning um vélina „Twinmaster 12x tölvustýrð járnabeygjuvél módel 031A, sn:031-181, skv. reikn. seljanda nr. Ro81136. dags. 4.9.2008“. Samkvæmt samningnum var leigutíminn frá 20. október 2008 til 19. október 2013. Í samningnum segir að leigugrunnur sé samtals 23.083.723 kr. og hún sé tengd japönskum jenum (JPY), 11.541.862 kr. og svissneskum frönkum (CHF), 11.541.862 kr., samtals 23.083.723 kr. Greiðslur áttu að skiptast á 60 mánuði.

Gerðarbeiðandi lýsti yfir riftun umrædds samnings með skeyti 22. desember 2009 vegna vanskila. Í riftunaryfirlýsingunni segir að ógreiddar séu 1.893.047 kr. og uppgreiðslugjald með vanskilum og kostnaði sé 14.545.846 kr. miðað við gengi/vísitölu riftunardags. Þar af væri lögmannsþóknun 642.066 kr. Eftirstöðvar samningsins skv. myntkörfu væru: „JPY 4.709.007 CHF 48.881,58.“ Þess var krafist að ofangreindum leigumun yrði skilað þegar í stað til gerðarbeiðanda ella mætti gerðarþoli búast við vörslusviptingu.  

Gerðarbeiðandi kveður gerðarþola í kjölfarið hafa skilað vél til gerðarbeiðanda, en að um allt aðra og eldri vél hafi verið að ræða. Til að villa um fyrir gerðarbeiðanda hafi gerðarþoli málað eldri vélina og sett á hana límmiða. Hafi þetta  verið gert í því skyni að láta líta út fyrir að eldri vélin væri sú vél sem gerðarbeiðandi krefjist nú innsetningar í. Gerðarbeiðanda hafi aftur á móti strax verið ljóst að ekki hafi verið um sömu vél að ræða og það verið staðfest af þjónustustjóra framleiðanda hinnar leigðu vélar. Gerðarþoli hafi ekki orðið við tilmælum gerðarbeiðanda um að skila réttri vél og hafi gerðarbeiðandi því kært háttsemi gerðarþola til efnahagsbrota­deildar ríkislögreglustjóra. Gerðarþoli mótmælir þessari atvikalýsingu.

Eins og áður segir barst dóminum aðfararbeiðni gerðarbeiðanda 28. maí 2010 og var málið tekið til úrskurðar 20. október 2010.

                                                                                              II.

 Gerðarbeiðandi byggir aðfararbeiðni sína á því að gerðarþoli hafi átt að greiða honum tiltekið leigugjald frá 20. október 2008 til 19. október 2013, en gerðarþoli hafi ekkert greitt inn á samninginn síðan í ágúst 2009. Gerðarbeiðandi hafi því rift samningnum 22. desember 2009 samkvæmt heimild í 28. gr. samningsins. Kveður gerðarbeiðandi skuld gerðarþola hinn 6. maí 2010 hafa verið 13.783.068 kr. Gerðarbeiðandi segir að þar sem gerðarþoli hafi ekki staðið í skilum samkvæmt kaupleigusamningi aðila og hann hafi neitað að afhenda gerðarbeiðanda eign sína sé krafist umráða yfir umræddri vél með vísan til 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.

                                                                                              III.

           Í greinargerð sinni segir gerðarþoli að umræddur samningur sé að formi til svokallaður kaupleigusamningur, en efnislega sé hins vegar um að ræða lánasamning til fjármögnunar á tölvustýrðri járnabeygjuvél.

Gerðarþoli byggir á því að við gerð samningsins hafi fyrirsvarsmanni gerðarþola ekki verið ljóst að gengisbinding í samningum sem þessum hafi ekki verið heimil samkvæmt lögum nr. 38/2001. Fyrirsvarsmaður gerðarþola sé ekki sérfræðingur á sviði fjármála ólíkt gerðarbeiðanda, en hafi gefið sér við gerð samningsins að gerðarbeiðandi hafi hagað starfsemi sinni í samræmi við landslög og að staðlaðir lánasamningar gerðarbeiðanda innihéldu ekki ákvæði sem gengu gegn gildandi lögum. Um leið og fyrirsvarsmanni gerðarþola hafi verið ljóst að ákvæði umrædds samnings hafi gengið gegn lögum nr. 38/2001, hvað varði bindingu fjárhæða í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla, hafi hann gert gerðarbeiðanda það ljóst. Þá hafi gerðarþoli boðið gerðarbeiðanda ítrekað að gera upp fyrrnefndan samning innan þeirra marka sem kveðið sé á um í 13. gr., sbr. og 14. gr., laga nr. 38/2001. Gerðarþoli vísar í þessu sambandi til ábyrgðarbréfs fyrirsvarsmanns gerðarþola til gerðarbeiðanda, dags 6. ágúst 2009 og 30. október 2009. Hvorugu þessara bréfa hafi nokkurn tímann verið svarað af gerðarbeiðanda.

Þá vísar gerðarþoli til tölvupósts fyrirsvarsmanns gerðarþola til gerðarbeiðanda 14. desember 2009, ásamt viðhengi, þar sem tillaga að uppgreiðslu samningsins sé lögð fram af fyrirsvarsmanni gerðarþola. Þeirri tillögu hafi verið hafnað af gerðarbeiðanda eins og tölvupóstsamskipti sýni. Nú hafi Hæstiréttur Íslands staðfest með niðurstöðu sinni 16. júní 2010 að óheimilt hafi verið að binda fjárhæðir í samningum af þessu tagi við gengi erlendra gjaldmiðla. Fyrirsvarsmaður gerðarþola, sem sé jafnframt sjálfskuldarábyrgðaraðili umrædds samnings, lýsi enn og aftur vilja sínum til að ganga frá fullnaðaruppgjöri við gerðarbeiðanda á umræddum samningi þannig að samrýmist lögum nr. 38/2001. Uppreiknaðar eftirstöðvar höfuðstóls umrædds samnings 20. ágúst 2009, þegar síðasta greiðsla hafi verið innt af hendi, hafi verið, með tilliti til nýfenginnar niðurstöðu Hæstaréttar Íslands í sambærilegum málum, 6.849.459 kr. Fyrirsvarsmaður gerðarþola gerir í greinargerð tillögu um að greiða strax 6.849.459 kr., að viðbættum þeim vöxtum sem kveðið sé á um í samningnum frá og með 21. ágúst 2009 til greiðsludags, en að frádregnum málskostnaði gegn fullnaðarkvittun og afsali fyrir umræddri vél. Þá skuli gerðarbeiðandi einnig skila þeirri vél sem gerðarþoli hafi ranglega verið sviptur með gerræði vörslusviptingar­aðila. Gerðarþoli segir að svo illa hafi tekist til hjá vörslusviptingaraðila að hann hafi hirt ranga vél og verði ekki litið á slíkt öðruvísi en sem þjófnað.

Þá sýni tölvupóstsamskipti milli gerðarbeiðanda og fyrirsvarsmanns gerðarþola frá 13. desember 2009 til 27. desember 2009 undanfara vörslusviptingar sem gerðarbeiðandi hafi falið Lárusi Viggóssyni frá Vörslusviptingum ehf. að framkvæma. Einnig séu skeyti sama efnis svo og umboð gerðarbeiðanda til Vörslusviptinga ehf., ásamt staðfestingu á viðtöku sem undirrituð sé af Lárusi Viggóssyni.

Gerðarþoli kveðst ekki hafa veitt nokkurt viðnám gegn umræddri vörslusviptingu þrátt fyrir að hún hafi verið framkvæmd án dómsúrskurðar. Það þýði þó ekki að gerðarþoli hafi samþykkt réttmæti vörslusviptingarinnar. Eins og fram komi í bréfum fyrirsvarsmanns gerðarþola til gerðarbeiðanda á þessum tíma þá hafi fyrirsvarsmaður gerðarþola verið þess fullviss að þá þegar hafi verið inntar af hendi greiðslur umfram greiðsluskyldu samningsins að teknu tilliti til laga nr. 38/2001. Hinn 22. desember 2009, þegar gerðarbeiðandi hafi rift samningnum vegna meintra vanefnda, hafi gerðarþoli átt að hafa staðið skil á samtals 2.747.298 kr., að meðtöldum vöxtum upp á 92.534 kr., frá útborgunardegi lánsins til 19. október 2008, að teknu tilliti til ákvæða 14. gr. laga nr. 38/2001. Gerðarþoli hafi þá þegar innt af hendi greiðslur að fjárhæð 3.124.837 kr. í 11 greiðslum og því hafi samningurinn alls ekki verið í vanskilum þegar gerðarbeiðandi rifti honum 22. desember 2009. Riftunin hafi því með öllu verið ólögmæt og því geti gerðarbeiðandi ekki byggt rétt á henni gagnvart gerðarþola í máli þessu.

Þá hafnar gerðarþoli fullyrðingu gerðarbeiðanda í aðfararbeiðni um að fyrirsvarsmaður gerðarþola hafi við aðgerðir Vörslusviptingar ehf. haft uppi einhverjar fullyrðingar. Gerðarþoli hafnar einnig sem ósannaðri fullyrðingu gerðarbeiðanda um að hafa reynt að villa um fyrir gerðarbeiðanda með annarri vél en lánað hafi verið til kaupa á. Þau mistök vörslusviptingaraðila að hafa hirt ranga vél verði ekki skrifuð á fyrirsvarsmann gerðarþola. Lárus Viggósson hafi staðfest með undirskrift sinni móttöku á umræddri vél og vörubifreið með krana hafi komið nokkru síðar á hans vegum og híft þá vél á bílinn sem gerðarbeiðandi hafi nú í vörslu sinni. Það sé því beinlínis rangt að gerðarþoli hafi skilað gerðarbeiðanda umræddri vél. Hið rétta sé að vörslusvipting þessi hafi farið fram án dómsúrskurðar og umboðsaðili gerðarbeiðanda komið og hirt þá vél sem hann hafi talið sig hafa staðfest móttöku á. Mikill bægslagangur hafi verið hjá vörslusviptingaraðila og hann ekki gefið sér tíma til að sannreyna að hirða rétta hluti af gerðarþolum. Þessi vörslusvipting sé skýr sönnun þess. Fyrirsvarsmaður gerðarþola hafi ekki séð ástæðu til að koma í veg fyrir þessi mistök vörslusviptingaraðila, enda beri honum sannanlega ekki leiðbeiningaskylda við gripdeildir fyrirtækja sem undanfarin ár hafi stundað ólöglega fjármálastarfsemi, eins og nú hafi verið staðfest af Hæstarétti Íslands. Það verði að teljast sérstakt að ekki hafi verið gerðar athugasemdir við þetta þá þegar en athugasemdir hafi fyrst komið fram um miðjan mars 2010 þegar Lárus Viggósson hafi hringt í fyrirsvarsmann gerðarþola til að tjá honum að hann hefði hirt ranga vél. Engin bein krafa hafi verið gerð um að gerðarþoli skilaði þeirri vél sem vísað sé til í aðfararbeiðni gerðarbeiðanda.

Þá segir gerðarþoli að hið góða ástand þeirrar vélar sem vörslusviptingaraðili hafi hirt úr umsjá gerðarþola megi rekja til þess að í framhaldi af kaupum á umræddri vél, sem fjármögnuð hafi verið að hluta til af gerðarbeiðanda, hafi fyrirtækið Einingar ehf. sýnt áhuga á að kaupa gömlu vélina. Í þessu augnamiði hafi hún verið yfirfarin og máluð. Hins vegar hafi hrunið í október 2008 sett strik í reikninginn og það dregist að gengið yrði frá kaupunum. Starfsmenn verktaka, sem hafi haft aðstöðu í húsinu sem gerðarþoli hafi verið með rekstur sinn, hafi síðan verið að gantast með skreytingu á vélinni og límt umrædda stafi á hana í byrjun árs 2009. Fyrirsvarsmaður gerðarþola hafi hvergi komið þar nærri, en ekki séð ástæðu til að gera athugasemdir við þennan gjörning, enda hafi öllum mátt vera ljóst að um leikaraskap hafi verið að ræða sem enginn hafi tekið alvarlega. Umrædd vél sé meira en 30 ára gömul og engan sérfræðing þurfi til að sjá á augabragði að hún hafi verið talsvert meira en tveggja ára gömul þótt ástand hennar væri gott. Vélin hafi síðan staðið með þessum límstöfum á, fyrir allra augum í marga mánuði á athafnasvæði gerðarþola. Það sé hreinlega fjarstæðukennt að ætla að slíkar merkingar hafi verið til þess fallnar að blekkja nokkurn. Auk þess sé engin tölva í gömlu vélinni og a.m.k. það átt að vekja vörslusviptingaraðila til vitundar um mistök sín.

Í niðurlagi greinargerðar gerðarþola áréttar hann að hafna beri kröfu gerðarbeiðanda þar sem samningur aðila hafi sannanlega ekki verið í vanskilum 22. desember 2009 þegar gerðarbeiðandi rifti honum, sbr. ákvæði laga nr. 38/2001 og dóm Hæstaréttar Íslands nýlega. Gerðarbeiðandi hafi ekki sýnt fram á að riftun samningsins sé gerð á réttmætum forsendum heldur aðeins vísað til vanskila sem grundvölluð séu á ólögmætum uppreikningi vegna breytinga á gengi erlendra gjaldmiðla. Riftunar­yfirlýsingin geti því ekki skapað gerðarbeiðanda rétt til innsetningar í tækið, þar sem forsendur hennar standist ekki lög.

Vörslusvipting sem gerðarbeiðandi hafi framkvæmt í framhaldi af riftun samningsins 22. desember 2009 hafi verið gerð án dómsúrskurðar og því sé um að ræða gertæki samkvæmt 260. gr. almennra hegningarlaga og varði sektum.

Gerðarbeiðandi hafi hafnað öllum málaleitunum gerðarþola og í raun gert honum ókleift að greiða upp samninginn með tilliti til ákvæða 13. gr., sbr. og 14. gr., laga nr. 38/2001, þrátt fyrir ítrekaðar umleitanir fyrirsvarsmanns gerðarþola.

Gerðarþoli vísar til 3. mgr. 83. gr. laga nr. 90/1989, en varhugavert verði að telja að gerðin geti náð fram að ganga á grundvelli þeirra sönnunargagna sem heimilt sé að afla.

Gerðarþoli telur verulegar líkur á að gerðarbeiðandi verði ófær um að bæta gerðarþola það tjón sem hann kunni að verða fyrir verði aðfararbeiðnin samþykkt. Verði síðar staðfest með dómi að ekki hafi verið efni til gerðarinnar megi leiða að því líkur að gerðarbeiðandi hafi ráðstafað umræddri vél og verði þá jafnvel kominn í gjaldþrot. Slíkur skaði kunni því að öllum líkindum að verða óafturkræfur.

Fyrirsvarsmaður gerðarþola ítrekar að lokum í greinargerð sinni enn og aftur boð sitt um að ganga frá fullnaðaruppgjöri til gerðarbeiðanda með greiðslu á 6.849.459 kr., að viðbættum þeim vöxtum sem kveðið sé á um í umræddum samningi frá og með 21. ágúst 2009 til greiðsludags að frádregnum málskostnaði gegn fullnaðarkvittun og afsali fyrir umræddri vél. Því til viðbótar skili gerðarbeiðandi gerðarþola hinni ranglega vörslusviptu vél. Í framhaldi af slíkum lokum málsins skuldbindi fyrirsvarsmaður gerðarþola sig til að kæra ekki til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra hina ólögmætu fjármálastarfsemi gerðar­beiðanda né stjórnendur hans eða starfsmenn vegna framgöngu þeirra í málinu. Þá muni fyrirsvarsmaður gerðarþola einnig samþykkja að sækja ekki skaðabætur til gerðarbeiðanda, stjórnenda hans eða starfsmanna að loknu málinu með þeim hætti sem hér er lagt til.

Gerðarþoli kveðst hafa leitað aðstoðar lögmanns við hagsmunagæslu gagnvart gerðarbeiðanda í máli þessu og haft af því kostnað. Hann gerir kröfu um málskostnað að fjárhæð 500.000 kr.

                                                                                              III.

                Í máli þessu krefst gerðarbeiðandi þess að járnabeygjuvél verði tekin með beinni aðfarargerð úr vörslum gerðarþola og fengin gerðarbeiðanda. Gerðarbeiðandi byggir kröfu sína á riftun hinn 22. desember 2009 á kaupleigusamningi sem gerður var 8. september 2008. Í samningnum var kveðið á um greiðslur með gengistryggingu við erlenda gjaldmiðla og innheimti gerðarbeiðandi greiðslur í samræmi við það. Gerðarþoli hefur lagt fram bréf sitt til gerðarbeiðanda, dags. 6. ágúst 2009, þar sem hann vefengir lögmæti þess að gengistryggja leigugreiðslur í samningnum og setti hann fram tillögu um uppgjör. Gerðarþoli áréttaði í bréfi 30. október 2009 að hann teldi gengistrygginguna ólögmæta og kvaðst reiðubúinn til að greiða upp samninginn, þ.e. höfuðstól í íslenskum krónum að viðbættum vöxtum og frádregnum þeim greiðslum sem hafi verið inntar af hendi. Gerðarbeiðandi svaraði ekki þessum bréfum heldur hélt áfram innheimtu með óbreyttum hætti og lagði fram aðfararbeiðni sína í  maí 2010. Með dómi 16. júní 2010, í máli nr. 153/2010, komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að óheimilt væri að binda greiðslur af samningi, eins og þeim sem hér er fjallað um, við gengi erlendra gjaldmiðla. 

Í þinghaldi 27. ágúst 2010 lagði gerðarbeiðandi fram endurútreikning á samningi aðila. Útreikningurinn tekur til tímabilsins 20. október 2008 til 20. ágúst 2010. Þar kemur fram að gerðarþoli hafi í ágúst 2009, þegar hann lagði fram greiðslutillögu, verið búinn að ofgreiða 477.769 kr. Í desember 2009, þegar samningnum var rift, hafi hann verið 245.567 kr. í skuld. Höfuðstóll hinn 20. ágúst 2010 er sagður vera 6.671.249 kr. Eins og fram hefur komið lýsti gerðarþoli því yfir í greinargerð sinni, áður en endurútreikningur var lagður fram, að hann væri reiðubúinn til að greiða meira en það, að viðbættum vöxtum tiltekið tímabil. Þá hefur gerðarþoli ítrekað lýst sáttavilja í fyrirtökum máls þessa en það sama verður ekki sagt um gerðarbeiðanda. 

Þegar allt framangreint er virt verður að telja að slík óvissa hafi verið um ætluð vanskil gerðarþola við riftun samnings málsaðila að ekki séu uppfyllt skilyrði 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför til að fallast á kröfu gerðarbeiðanda. Samkvæmt framansögðu og með vísan til dóms Hæstaréttar í máli nr. 347/2010 verður kröfu gerðarbeiðanda hafnað.

Eftir þessum úrslitum verður gerðarbeiðanda gert að greiða gerðarþola málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 200.000 kr.

                Úrskurð þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Hafnað er kröfu gerðarbeiðanda, Lýsingar hf., um að vél af gerðinni Stema/Pedax Twinmaster 12X + tölvustýrð  járnabeygjuvél – módel 031A, týpunúmer 031-181, verði tekin með beinni aðfarargerð úr vörslum gerðarþola, NÁBÍTUM, BÖÐLUM & ILLUM ÖNDUM ehf., og fengin honum.

Gerðarbeiðandi greiði gerðarþola 200.000 krónur í málskostnað.