Hæstiréttur íslands
Mál nr. 406/2011
Lykilorð
- Fjármálafyrirtæki
- Slitameðferð
- Riftun
- Gjöf
- Endurgreiðslukrafa
|
|
Fimmtudaginn 18. október 2012. |
|
Nr. 406/2011.
|
Helgi Þór Bergs (Hjörleifur B. Kvaran hrl.) gegn Kaupþingi hf. (Guðni Á. Haraldsson hrl.) |
Fjármálafyrirtæki. Slitameðferð. Riftun. Gjöf. Endurgreiðslukrafa.
Fjármálafyrirtækið K hf., sem tekið hafði verið til slitameðferðar, höfðaði mál gegn H og krafðist riftunar þeirrar ákvörðunar fyrrum stjórnar K hf. að fella niður ábyrgð H á lánum sem hann hafði tekið hjá K hf. til kaupa á hlutabréfum í fyrirtækinu er hann starfaði þar. H krafðist aðallega ómerkingar hins áfrýjaða dóms þar sem í honum hafi tvívegis verið vitnað til framburðar S fyrir dómi þótt hann hefði ekki komið fyrir héraðsdóm og gefið þar skýrslu. Hafnaði Hæstiréttur þessari kröfu H með vísan til þess að eins og gögn málsins væru úr garði gerð hefði það ekki haft nein áhrif á málsúrslit þótt S hefði gefið munnlega skýrslu fyrir dómi. Þá var hvorki fallist á með H að K hf. væri ekki eigandi kröfunnar né að H hefði verið lofað skaðleysi af hlutabréfakaupunum. Talið var að gjafatilgangur hefði búið að baki ákvörðun fyrrum stjórnar K hf. og að fyrirtækinu hefði því verið heimilt að rifta ráðstöfuninni á grundvelli 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti. Var því fallist á endurgreiðslukröfu K hf.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 30. júní 2011. Hann krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar, til vara að hann verði sýknaður af kröfu stefnda, en að því frágengnu að krafan verði lækkuð. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Krafa áfrýjanda um ómerkingu hins áfrýjaða dóms er reist á því að í dóminum sé tvívegis vitnað til framburðar Sigurðar Einarssonar, fyrrverandi stjórnarformanns stefnda, fyrir dómi, enda þótt hann hafi ekki komið fyrir héraðsdóm og gefið þar skýrslu. Þrátt fyrir að hér sé að sönnu um að ræða brot á 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er til þess að líta að við meðferð málsins í héraði var lagt fram bréf Sigurðar 26. janúar 2009 þar sem hann skýrir meðal annars, frá sínum sjónarhóli séð, ráðstöfun stefnda 25. september 2008 sem málið er sprottið af. Eins og gögn málsins eru úr garði gerð hefði það ekki haft nein áhrif á úrslit þess þótt Sigurður hefði gefið munnlega skýrslu fyrir dómi, svo sem fjallað verður nánar um í kafla III. Samkvæmt þessu verður ekki fallist á ómerkingarkröfu áfrýjanda.
II
Áfrýjandi hóf störf árið 1997 sem einn af framkvæmdastjórum stefnda. Á árinu 2005 tók hann við starfi framkvæmdastjóra fjárfestingarbankasviðs Kaupþingssamstæðunnar.
Hinn 1. desember 2005 gerði áfrýjandi lánssamning við stefnda þar sem endurfjármagnaðar voru skuldbindingar hans vegna kaupa á hlutum í stefnda. Samkvæmt samningnum nam fjárhæð lánsins 517.195.741 krónu og skyldi það endurgreiðast með einni greiðslu 1. desember 2010. Í 5.1. gr. samningsins var svofellt ákvæði: „Til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu skuldarinnar skv. lánssamningi þessum setur lántaki bankanum að handveði hluti í Kaupþingi banka hf., í eigu lántaka, að nafnverði kr. 1.165.200,- sbr. handveðsyfirlýsingu dags. 01.12.2005.“ Þá sagði í 6.1. gr.: „Ábyrgð lántaka á skuldinni skv. lánasamningi þessum takmarkast við andvirði handveðsins og hvers kyns viðbótartrygginga sem hann kann að leggja fram í samræmi við ákvæði 5. gr. en auk þess skal hann því til viðbótar bera ábyrgð á greiðslu 10% skuldarinnar eins og hún er á hverjum tíma með öðrum eignum sínum.“ Samkvæmt c. lið 7.1. gr. skuldbatt lántaki sig til að selja ekki eða veðsetja öðrum hina veðsettu hluti nema að fengnu skriflegu samþykki stefnda. Áþekkt ákvæði var í fyrrgreindri handveðsréttaryfirlýsingu sem áfrýjandi undirritaði 1. desember 2005 samhliða lánssamningnum. Hinn 28. apríl 2006 gerði áfrýjandi samning við stefnda vegna nýs láns sem hann tók til fjármögnunar hlutafjárkaupa. Fjárhæð þessa láns var 507.660.923 krónur og skyldi það greiðast með einni greiðslu 28. apríl 2011. Í 5.1. gr. samningsins var svohljóðandi ákvæði: „Til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu skuldarinnar skv. lánssamningi þessum setur lántaki bankanum að handveði hluti í Kaupþingi banka hf., í eigu lántaka, alls 1.915.200,- hlutir sbr. handveðsyfirlýsingu dags. 01.12.2005 og viðauka dags. 28.04.2006.“ Í samningnum var ekki að finna takmörkun á persónulegri ábyrgð lántaka á greiðslu lánsins, en samkvæmt c. lið 6.1. gr. skuldbatt lántaki sig til að selja ekki eða veðsetja öðrum hina veðsettu hluti nema að fengnu skriflegu samþykki stefnda. Í hvorugum lánssamningnum var kveðið á um það að stefndi skyldi tryggja áfrýjanda skaðleysi vegna umræddra lána.
Óumdeilt er að áfrýjandi notaði aðeins hluta síðara lánsins, 398.080.130 krónur, til kaupa á hlutum í stefnda. Þrátt fyrir veðsetningu hlutanna, sem að framan greinir, naut áfrýjandi arðs af þeim og voru honum á árunum 2005 til 2008 greiddar alls 120.768.480 krónur í arð af hlutum, sem keyptir höfðu verið fyrir lán frá stefnda, að frádregnum fjármagnstekjuskatti.
Á fundi stjórnar stefnda 25. og 26. september 2008 var lögð fram greinargerð frá starfskjaranefnd hans sem tekin hafði verið saman fyrr í þeim mánuði. Í henni var meðal annars tekið fram að í samræmi við launastefnu stefnda hafi hann gert starfsmönnum kleift að kaupa hluti í sér og fjármagnað þau kaup. Síðan sagði: „Nefndinni er áhyggjuefni að sumir háttsettir stjórnunarstarfsmenn eiga í alvarlegum fjárhagserfiðleikum vegna nýlegs falls verðs hlutabréfa. Nefndin er þeirrar skoðunar að taka ætti skref til úrbóta í máli þessu. Megináhersla bankans ætti að vera á að lykilstarfsmönnum hans sé unnt að einbeita sér að sóknarfærum bankans á erfiðum tímum.“ Á grundvelli tillagna nefndarinnar ákvað stjórnin að veita forstjóra stefnda heimild til að fella niður og ljúka persónulegri ábyrgð starfsmanna í tengslum við hlutafjárkaupalán þeirra með það að markmiði að stuðla að því að starfsmönnum væri kleift að einbeita sér að störfum sínum í bankanum. Samkvæmt því gaf forstjórinn 25. september 2008 út yfirlýsingu til áfrýjanda þar sem honum var tilkynnt að stefndi hafi ákveðið „að fullnusta ekki persónulega ábyrgð“ hans vegna lána til kaupa á hlutabréfum í stefnda.
Tveimur vikum síðar, 8. október 2008, fór stjórn stefnda þess á leit við Fjármálaeftirlitið að það tæki yfir vald hluthafafundar hans í samræmi við 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008. Daginn eftir, 9. sama mánaðar, tók Fjármálaeftirlitið yfir vald hluthafafundar stefnda og skipaði jafnframt skilanefnd sem tók við heimildum stjórnarinnar. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 21. október 2008 var öllum eignum stefnda, þar á meðal kröfuréttindum, ráðstafað til Nýja Kaupþings banka hf., nú Arion banka hf., að undanskildum nánar tilgreindum eignum. Samkvæmt því voru kröfur stefnda á hendur áfrýjanda vegna fyrrgreindra tveggja lánssamninga framseldar til umrædds banka.
Hinn 25. maí 2009 var stefnda skipuð slitastjórn sem ákvað að rifta þeirri ráðstöfun 25. september 2008 að fella niður persónulega ábyrgð áfrýjanda á greiðslu lánssamninganna tveggja. Var honum tilkynnt þessi ákvörðun slitastjórnarinnar með bréfi 17. maí 2010 og hann jafnframt krafinn um greiðslu tiltekinnar fjárhæðar vegna riftunarinnar.
III
Í máli þessu gerir stefndi aðallega þá kröfu að ráðstöfuninni 25. september 2008 verði rift á grundvelli 131. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sem í gildi var þegar til ráðstöfunarinnar var gripið, og áfrýjanda gert að endurgreiða sér 641.875.606 krónur eftir 1. mgr. 142. gr. sömu laga. Samkvæmt 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 7. gr. laga nr. 44/2009, má krefjast riftunar á ráðstöfunum fjármálafyrirtækis eins og stefnda eftir sömu reglum og gilda um riftun ráðstafana þrotamanns við gjaldþrotaskipti ef ekki er sýnt að eignir fyrirtækisins muni nægja til að efna skuldbindingar þess að fullu. Frestdagur við slit stefnda var 15. nóvember 2008, sbr. 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 129/2008.
Krafa áfrýjanda um sýknu er í fyrsta lagi byggð á aðildarskorti vegna þess að fyrrgreind fjárkrafa stefnda hafi verið framseld til Nýja Kaupþings banka hf. 21. október 2008 og hann þar með fyrirgert rétti til að sækja kröfuna á hendur áfrýjanda. Að því er þessa málsástæðu varðar ber að horfa til þess að þegar kröfur samkvæmt lánssamningunum tveimur voru framseldar voru þær einungis tryggðar með veði í hlutum í stefnda sem voru með öllu verðlausir eftir fall hans skömmu áður. Af þeim sökum verður að leggja til grundvallar að ekkert endurgjald hafi komið fyrir kröfurnar úr hendi Nýja Kaupþings banka hf. Einnig stofnaðist endurgreiðslukrafan, sem stefndi hefur uppi í málinu, ekki fyrr en 17. maí 2010 er hann lýsti yfir riftun gagnvart áfrýjanda. Að þessu virtu er stefndi réttur aðili að lögum til að beina síðastgreindri kröfu að áfrýjanda og verður því ekki fallist á sýknukröfu hans vegna aðildarskorts, en stefndi hefur ávallt haldið því fram í málatilbúnaði sínum að krafan tilheyri sér og hafi ekki verið framseld öðrum.
Sýknukrafa áfrýjanda er í öðru lagi reist á því að kröfur stefnda á hendur honum vegna lánssamninganna tveggja hafi hvorki verið réttmætar né lögmætar þegar persónuleg ábyrgð hans var felld niður. Helsta röksemdin, sem áfrýjandi hefur fært fyrir þessu, er að honum hafi af hálfu stefnda verið lofað skaðleysi af kaupum á þeim hlutum sem hann keypti fyrir lánin. Svo sem áður segir er ekki kveðið á um slíkt skaðleysi í lánssamningunum, heldur er ábyrgð áfrýjanda verulega takmörkuð í öðrum þeirra, en að engu leyti í hinum. Þótt fyrir liggi samkvæmt ýmsum gögnum, sem lögð hafa verið fram í málinu, að því hafi verið lýst yfir af stefnda og ýmsum stjórnendum hans á árunum 2004 til 2008 að æskilegt væri að starfsmenn yrðu ekki fyrir fjárhagslegu tjóni vegna kaupa á hlutum í honum kemur þar hvergi fram að áfrýjanda hafi verið lofað skaðleysi af þeim kaupum svo að skuldbindandi sé fyrir stefnda. Framburður áfrýjanda og vitna fyrir dómi breytir engu um það. Samkvæmt því sem að framan greinir verður ekki talið að áfrýjanda hafi tekist að færa sönnur á áðurgreinda staðhæfingu um að honum hafi verið lofað skaðleysi og verður hann að bera hallann af þeim sönnunarskorti. Með vísan til málsatvika verður ekki heldur fallist á þær röksemdir áfrýjanda að lánssamningar þeir, sem hér um ræðir, hafi verið ógildanlegir og óskuldbindandi fyrir hann á grundvelli reglna um brostnar forsendur eða vegna ákvæða III. kafla laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.
IV
Ákvæði 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 hefur verið skýrt svo að undir það falli hver sú ráðstöfun, sem rýrir eignir þrotamanns og leiðir til eignaaukningar hjá þeim sem nýtur góðs af henni, nema hún falli undir 3. mgr. sömu lagagreinar, enda búi gjafatilgangur að baki ráðstöfuninni.
Sem fyrr segir reisir stefndi riftunarkröfu sína aðallega á því að sú ráðstöfun stefnda 25. september 2008, tæpum tveimur mánuðum fyrir frestdag, að gefa eftir persónulega ábyrgð áfrýjanda á greiðslu lánssamninganna tveggja hafi verið gjafagerningur í merkingu 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991. Því mótmælir áfrýjandi, meðal annars vegna þess að af fyrirliggjandi gögnum um hvernig staðið hafi verið að ráðstöfun Fjármálaeftirlitsins á eignum og skuldum stefnda til Nýja Kaupþings banka hf. verði ráðið að ekkert endurgjald hefði komið fyrir kröfur stefnda vegna lánssamninganna tveggja, jafnvel þótt áfrýjandi hefði borið ábyrgð á greiðslu lánanna. Því til stuðnings vísar hann til þess að við yfirfærslu á útlánum stefnda til Nýja Kaupþings banka hf. hafi lán starfsmanna vegna kaupa á hlutum í stefnda, þar á meðal umrædd lán áfrýjanda, verið metin einskis virði án tillits til þess hvort starfsmennirnir báru á þeim ábyrgð. Við úrlausn um þetta verður að líta til þess að hér var um að ræða mat á heildarvirði lánasafna, en ekki einstakra lána, við gerð upphaflegs efnahagsreiknings hins nýja banka. Að því gættu hvíldi á áfrýjanda að renna stoðum undir þá staðhæfingu sína að umrædd lán með persónulegri ábyrgð lántaka hefðu verið einskis virði í uppgjöri milli stefnda og Nýja Kaupþings banka hf. vegna yfirtöku síðarnefnda bankans á eignum og skuldum þess fyrrnefnda. Þessari sönnunarbyrði gat áfrýjandi ekki velt yfir á stefnda með því að skora á hann að leggja fram ótilgreind skjöl um mat á nánar tilteknum eignum í stofnefnahagsreikningi Nýja Kaupþings banka hf. Samkvæmt þessu verður að leggja til grundvallar við úrlausn málsins að lánssamningarnir tveir hefðu verið metnir til verðs samkvæmt efni sínu ef ábyrgð áfrýjanda á efndum þeirra hefði staðið óbreytt þegar þeir voru framseldir til Nýja Kaupþings banka hf. Af þeim sökum hefur stefndi sannanlega orðið fyrir tjóni þegar ábyrgð áfrýjanda var felld niður 25. september 2008 sem nemur uppgreiðsluverðmæti 10% af fyrra láninu og þess hluta af síðara láninu, sem hafði verið notaður til hlutafjárkaupa, miðað við þann dag.
Áfrýjandi hefur andmælt því að um gjafagerning hafi verið að ræða umrætt sinn með því að hann hafi innt af hendi gagngjald um leið og ábyrgð hans á lánunum var felld niður. Gagngjaldið hafi verið í því fólgið að hann hafi skuldbundið sig sérstaklega til þess gagnvart stefnda að selja ekki hlutina sem settir höfðu verið að veði fyrir lánunum. Sökum þess að við eftirgjöfina á ábyrgð áfrýjanda varð ekki nein breyting á ráðstöfunarrétti hans yfir hlutunum, þar sem sala þeirra var eftir sem áður háð samþykki stefnda, verður þessi málstæða áfrýjanda ekki tekin til greina.
Sú ákvörðun stjórnar stefnda 25. september 2008 að fella niður persónulegar ábyrgðir starfsmanna á lánum, sem þeim höfðu verið veitt til hlutabréfakaupa, var augljóslega byggð á þeirri forsendu að verðmæti hlutanna gæti rýrnað verulega sem aftur kynni að valda starfsmönnunum slíkum áhyggjum að þeir gætu ekki einbeitt sér sem skyldi að störfum sínum fyrir stefnda. Þótt fallast megi á að ákvörðunin hafi að þessu leyti verið tekin með hagsmuni hans í huga var hún í því fólgin að aflétta fjárskuldbindingum af þeim starfsmönnum, sem tekið höfðu lánin, þar á meðal áfrýjanda. Samkvæmt því bjó einnig gjafatilgangur að baki ákvörðuninni þegar hún var tekin og mátti áfrýjanda vera það ljóst.
Með skírskotun til þess, sem rakið hefur verið, var stefnda heimilt að rifta fyrrgreindri ráðstöfun, sem gerð var í þágu áfrýjanda, á grundvelli 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991. Af orðalagi 1. og 2. mgr. 142. gr. laganna, þar sem kveðið er á um endurgreiðslu úr hendi þess sem hefur haft hag af riftanlegri ráðstöfun, er ljóst að það tímamark, sem miðað er við í þeim ákvæðum, er hvenær riftun er lýst yfir eða eftir atvikum hvenær endurgreiðslukrafa er gerð upp. Þótt gögn málsins bendi til að verðmæti hlutanna, sem settir höfðu verið að veði til tryggingar greiðslu á skuldbindingum áfrýjanda samkvæmt lánssamningunum tveimur, hafi staðið undir þeim skuldbindingum þegar ábyrgð hans á lánunum var felld niður, er ljóst að tveimur vikum síðar voru hlutirnir orðnir verðlausir og þar með hefði ábyrgð hans orðið virk. Þar sem sú ábyrgð hafði verið gefin eftir með hinni riftanlegu ráðstöfun varð stefndi sem fyrr segir fyrir tjóni og með því að komast þannig hjá greiðslu auðgaðist áfrýjandi að sama skapi. Verður krafa stefnda um endurgreiðslu úr hendi hans því tekin til greina, en að öllu virtu eru ekki efni til að lækka hana með vísan til 145. gr. laga nr. 21/1991 eða af öðrum ástæðum.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Helgi Þór Bergs, greiði stefnda, Kaupþingi hf., 750.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. maí 2011.
Mál þetta, sem dómtekið var 14. apríl sl., er höfðað 28. júní 2010 af Kaupþingi banka hf., Borgartúni 19, Reykjavík, gegn Helga Þór Bergs, Frostaskjóli 93, Reykjavík.
Stefnandi gerir þær dómkröfur að rift verði með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, ráðstöfun Kaupþings banka hf. frá 25. september 2008, um að fella niður persónulega ábyrgð stefnda á greiðslu lánssamninga aðila nr. 3057, dagsettum 1. desember 2005 og nr. 3399, dagsettum 28. apríl 2006. Jafnframt er gerð sú krafa að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda 641.875.606 krónur með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá 25. september 2008 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.
Stefndi krefst aðallega sýknu, en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Þá krefst hann málskostnaðar.
I.
Málsatvik.
Stefnandi lýstir atvikum málsins þannig að málið lúti að riftanleika þeirrar ráðstöfunar Kaupþings banka hf. að fella niður persónulega ábyrgð stefnda samkvæmt lánssamningum vegna hlutabréfakaupa stefnda í Kaupþingi banka hf. Stefndi hafi verið yfirmaður fjárfestingabankasviðs samstæðu Kaupþings banka hf.
Stefndi hafi 1. desember 2005 ritaði undir lánssamning nr. 3057 við stefnanda um lán að fjárhæð 517.195.741 krónur. Lánið hafi verið veitt honum til endurfjármögnunar hlutabréfakaupa í bankanum sbr. gr. 2.3. í lánssamningi og viðauki nr. 1 er fylgdi lánssamningnum. Sama dag hafi stefndi gefið út handveðsyfirlýsingu með veði í 1.165.200 hlutum í Kaupþingi til tryggingar greiðslu lánsins. Lánið skyldi greitt með einni greiðslu 1. desember 2010 eða fyrr, léti stefndi fyrr af störfum hjá bankanum. Vextir af láninu skyldu vera breytilegir REIBOR vextir að viðbættu 1.2% vaxtaálagi. Þeir skyldu reiknast frá útgáfudegi á 3ja mánaða fresti í fyrsta sinn 1. mars 2006. Vextir auk álags skyldu leggjast við höfuðstól á 12 mánaða fresti í fyrsta sinn 1. desember 2006. Í 6. gr. í samningnum hafi verið ákvæði um 10% takmörkun ábyrgðar. Þannig hafi ábyrgð stefnda takmarkast við þann hundraðshluta af uppgreiðsluverðmæti lánsins eins og það hafi verið hverju sinni.
Stefndi hafi 28. apríl 2006 ritaði undir lánssamning nr. 3399 við Kaupþing um lán að fjárhæð 507.660.923 krónur. Hluti lánsins eða 398.080.130 krónur hafi verið notað til hlutabréfakaupa og stefndi keypti 750.000 hluti í Kaupþingi. Lánið skyldi greitt með einni greiðslu 28. apríl 2011 sbr. þó gr. 2.7. í lánasamningi en skv. henni skyldi lánið falla í gjalddaga léti stefndi fyrr af störfum í bankanum. Vextir skyldu vera breytilegir REIBOR vextir að viðbættu 1.2% álagi og skyldu reiknast á 3ja mánaða fresti frá útgáfudegi fyrst til 28. júlí 2008. Þá skyldu vextir og vaxtaálag leggjast við höfuðstól á 12 mánaða fresti í fyrsta sinn 28. apríl 2007.
Á fundi í stjórn stefnanda dagana 25. og 26. september 2008 hafi verið rædd greinargerð frá starfskjaranefnd stefnanda. Í henni hafi m.a. komið fram að starfskjaranefndin hefði áhyggjur af því að ýmsir háttsettir stjórnendur innan bankans ættu í verulegum fjárhagsörðugleikum vegna lækkunar virði hlutabréfa í bankanum. Nefndin hafi talið að bæta yrði úr þessu ástandi. Tryggja yrði að lykilstarfsmenn gætu einbeitt sér að starfsemi bankans á erfiðistímum. Á grundvelli tillagna starfskjaranefndar hafi stjórn bankans ákveðið að fela framkvæmdastjóra Kaupþings samstæðunnar að fella niður persónulega ábyrgð starfsmanna í tengslum við hlutafjárkaup þeirra í bankanum með það að leiðarljósi að tryggja að þeim væri kleift að einbeita sér að störfum sínum í þágu bankans, eins og sagði í fundargerð stjórnar. Ábyrgð starfsmanna skyldi þannig takmörkuð við þau hlutabréf sem sett hefðu verið að veði til tryggingar lánsskuldbindingum.
Stefnandi hafi 25. september 2008 gefið út yfirlýsingu til stefnda um að hann hefði ákveðið að krefja ekki stefnda, eða ,,not to enforce“, um persónulega ábyrgð hans vegna kaupa á hlutabréfum í stefnanda. Ábyrgð hans skyldi takmarkast því við þau hlutabréf í stefnanda sem sett hafi verið að veði til tryggingar lánsskuldbindingum hans. Stefndi hafi staðfest yfirlýsinguna með undirritun sinni. Litlu síðar eða 9. október 2008, hafi stefnanda verið skipuð skilanefnd af hálfu Fjármálaeftirlitsins í samræmi við lög nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. og 5. gr. hinna svokölluðu neyðarlaga nr. 125/2008. Hafði stjórn stefnanda farið þess á leit við Fjármálaeftirlitið að það tæki yfir vald hluthafafundar í bankanum og að stjórn bankans segði jafnframt af sér í heild sinni.
Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um ráðstöfun eigna og skulda Kaupþings banka hf. til Nýja Kaupþings banka hf., síðar Arion banki hf., frá 21. október 2008, hafi öllum eignum Kaupþings banka hf., þ.m.t. kröfuréttindum, sbr. lið 1 í ákvörðuninni, verið ráðstafað til Nýja Kaupþing banka hf. Í samræmi við þetta hafi lánssamningur Kaupþings banka hf. og stefnda verið framseldur til Arion banka hf. Mat þeirra í stofnefnahagsreikningi Arion banka hf., sem útbúinn hafi verið af Fjármálaeftirlitinu, hafi verið 0 krónur, sbr. yfirlýsingu PricewaterhouseCoopers hf. Hafi það mat eðli málsins samkvæmt helgaðist af því að engin persónuleg ábyrgð hafi lengur verið til staðar vegna lánveitinganna og lánin eingöngu tryggð með veði í hlutabréfum í Kaupþingi banka hf. sem að áliti stefnanda hafi án nokkurs vafa verið einskis virði.
Kaupþingi banka hf. hafi verið skipuð slitastjórn af Héraðsdómi Reykjavíkur 25. maí 2009 á grundvelli laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. og lög nr. 44/2009 um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki. Kaupþingi banka hf. hafi áður verið veitt heimild til greiðslustöðvunar 24. nóvember 2008 samkvæmt ákvæðum 2. þáttar laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og sérreglum um slíka heimild fjármálafyrirtækja í lögum um fjármálafyrirtæki, sbr. 2. gr. og 4. gr. laga nr. 129/2008, en sú greiðslustöðvun hafi síðar verið framlengd tvisvar. Í 4. mgr. 103. gr. laga um fjármálafyrirtæki, sbr. 7. gr. laga nr. 44/2009, sé kveðið á um að ef ekki sé sýnt að eignir fjármálafyrirtækis muni nægja til að efna skuldbindingar þess að fullu megi krefjast riftunar á ráðstöfunum þess eftir sömu reglum og gildi um riftun ráðstafana þrotamanns við gjaldþrotaskipti. Fyrir liggi að eignir stefnanda dugi hvergi nærri til að efna skuldbindingar hans að fullu og sé stefnanda því heimilt að krefjast riftunar ráðstafana eftir sömu reglum og gildi um riftun ráðstafana þrotamanns samkvæmt lögum nr. 21/1991. Frestdagur í skilningi laga nr. 21/1991 sé 15. nóvember 2008, sbr. ákvæði III til bráðabirgða í lögum nr. 44/2009 um breyting á lögum um fjármálafyrirtæki.
Þar sem stefnandi telji að eftirgjöf hinnar persónulegu ábyrgðar stefnda samkvæmt áður greindum lánssamningum hafi verið ólögmæt hafi stefnandi rift ráðstöfuninni, aðallega á grundvelli 131. gr. en til vara á grundvelli 141. gr. laga nr. 21/1991, sbr. bréf stefnanda til stefnda dagsett 17. maí 2010. Hafi stefndi samfara riftuninni verið krafinn um endurgreiðslu þeirrar auðgunar, til vara skaðabóta að sömu fjárhæð, sem stefnandi telji að stefndi hafi haft af ráðstöfuninni auk áfallinna vaxta, eða alls 641.875.606 krónur. Hafi stefnda verið gefinn kostur á að greiða skuldina við stefnanda en að öðrum kosti að leggja fram viðeigandi tryggingar og semja um greiðslukjör. Þar sem stefndi hafi ekki orðið við framangreindu sé málshöfðun þessi óhjákvæmileg.
Stefndi lýsir atvikum málsins þannig að stefndi hafi byrjað störf hjá stefnanda á árinu 1997. Á starfsferli sínum hafi stefndi aldrei setið í stjórn stefnanda né í lánanefndum. Í þeim tilgangi að laða til sín starfsfólk og halda í starfsmenn hafi stefnandi samþykkt þá starfskjarastefnu á aðalfundi sínum 27. mars 2004 að kaup- og söluréttir til starfsmanna gætu á hverjum tíma numið í heild allt að 9% af útgefnum hlutum í bankanum. Hafi stjórn verið falið að framfylgja þeirri stefnu, sbr. fréttatilkynninga bankans frá 29. mars 2004. Í ræðu formanns starfskjaranefndar, sem flutt hafi verið á áðurnefndum aðalfundi, sé þess sérstaklega getið að starfsmenn bankans ættu að njóta þeirrar hækkunar sem verða kynni á verðmæti bankans, en að sama skapi sé það krafa stefnanda að þeir njóti jafnframt söluréttar á keyptum hlutum til þess að starfsmenn myndu ekki tapa á starfskjarastefnu bankans ef verð hlutabréfa lækkaði. Stjórn stefnanda hafi innleitt samþykkta starfskjarastefnu með gerð hefðbundinna kaup- og söluréttarsamninga við starfsmenn.
Í kjölfar innleiðingar IFRS reikningsskilastaðla árið 2005 hafi verið gerð krafa um að stefnandi myndi draga sölurétti frá eiginfjárgrunni sínum. Til þess að söluréttir starfsmanna hefðu ekki neikvæð áhrif á eiginfjárgrunn stefnanda hafi stjórnendur stefnanda, ásamt endurskoðanda, unnið að því að útfæra hvatakerfið með öðrum hætti. Lausnin hafi falist í því að fella niður kaup- og sölurétti og veita starfsmönnum þess í stað lán til hlutabréfakaupa. Hafi ábyrgð starfsmanna í einhverjum tilvikum verið takmörkuð við 10% af stöðu lánsins hverju sinni. Í tengslum við þá breytingu hafi stefndi fallið frá söluréttum sínum vegna bréfa í stefnanda og í framhaldinu tekið lán hjá stefnanda fyrir hlutabréfakaupum í samræmi við starfskjarastefnu stefnanda. Hinir keyptu hlutir hafi verið settir stefnanda að veði til tryggingar greiðslum á lánunum sem veitt voru til kaupana. Sala hinna veðsettu hluta hafi verið óheimil, nema stefnandi veitti sérstakt skriflegt samþykki fyrir því.
Fjallað sé um kaup á starfsmanna á hlutum í bankanum í minnisblaði lögfræðisviðs stefnanda frá 19. september 2005. Þar sé sérstaklega fjallað um mikilvægi þess að stefnandi sé lánveitandi starfsmanna, en ekki önnur lánastofnun, til þess að starfsmenn séu ekki háðir lánveitanda sem sé í samkeppni við stefnanda. Þá sé jafnframt vikið að því að það sé nauðsynlegt að starfsmenn eigi þess kost að losa hlutafjáreign í stefnanda ef virði hlutanna tæki að lækka. Í tölvupósti formanns starfskjaranefndar til stjórnar, forstjóra og framkvæmdastjóra stefnanda 21 september 2005 veki formaðurinn athygli á þeirri stöðu sem upp kynni að koma ef hlutabréf sem starfsmenn hafi keypt lækkuðu. Komi fram í póstinum að hann telji hagsmuni stefnanda vera að takmarka áhættutöku starfsmanna af fjárfestingum. Á stjórnarfundi stefnanda 28. september 2005 hafi verið fjallað um hlutabréfakaup starfsmanna og stjórn farið fram á það við starfskjaranefnd bankans að gripið væri til ráðstafanna sem lágmarki áhættu starfsmanna af hlutabréfaeign sinni í stefnanda.
Þegar gengi hlutabréfa í stefnanda hafi tekið að lækka á árinu 2007 hafi stefnandi ekki nýtt sér heimild í lánssamningunum um veðköll, heldur hafi starfsmenn fengið þá fullvissu frá stjórn að ekki yrði gengið á þá persónulega vegna greiðslu útistandandi lána vegna hlutabréfanna. Komi það fram í bréfi fyrrum stjórnarformanns stefnanda á dskj. 23 og í tölvupósti viðskiptastjóra stefnanda til starfsmanns stefnanda á dskj. 21. Á fundi stjórnar stefnanda 25. september 2008 hafi verið fjallað um stöðu starfsmanna vegna lána til hlutabréfakaupa og þar komið fram í máli formanns starfskjaranefndar að nefndin væri meðvituð um stöðu mála og að starfsmenn hefðu verið fullvissaðir um að leyst yrði úr stöðu þeirra. Á fundinum hafi stjórn ákveðið að veita forstjóra heimild til að fella niður persónulegar ábyrgðir starfsmanna af lánum sem stefnandi hafi veitt til hlutabréfakaupa. Hafi starfsmönnum verið send slík tilkynning.
Við aðalmeðferð málsins gaf stefndi aðilaskýrslu. Stefndi kvaðst hafa ráðið sig til starfa hjá stefnanda á árinu 1997. Kvaðst hann hafa byrjað hlutabréfakaup sín í stefnanda í kjölfar þess að stefnandi hafi boðið slíka hluti til sölu á árunum eftir 2000. Hafi markmið stefnanda með slíkri sölu verið að tengja saman hagsmuni eigenda bankans og starfsmanna. Kvaðst stefndi aldrei hafa selt nein hlutabréf í bankanum. Um hafi verið að ræða hvatakerfi fyrir starfsmenn stefnanda. Kvaðst stefndi ekki hafa vitað að lykilstarfsmenn í stefnanda hefðu selt bréf sín. Í upphafi hafi starfsmenn verið tryggðir fyrir skaðleysi af hlutafjárkaupum með svonefndum sölurétti bréfanna. Er stefndi hafi fallið frá söluréttinum hafi hann ekki fengið neitt endurgjald í staðinn. Hafi stefndi treyst því að sú starfskjarastefna sem ákveðin hafi verið á árinu 2004 tryggði skaðleysi stefnda af hlutafjárkaupum í stefnanda tengdum hvatakerfi bankans. Bæri hann því ekki persónulega ábyrgð á þeim lánum er hann hafi fengið til hlutabréfakaupa. Lykilstarfsmenn stefnanda hafi flestir verið svonefndir innherjar og af þeim ástæðum átt erfitt með að selja bréf sín. Stefndi kvaðst hafa litið svo á að honum væri óheimilt að selja þau hlutabréf í stefnanda er hann hafi keypt í gegnum hvatakerfi bankans. Hann hafi þó aldrei óskað formlega eftir heimild til slíkrar sölu. Er best lét hafi hlutabréfaeign stefnda numið samtals 2.6 milljörðum króna. Af því hafi eigið fé stefnda numið 1.1 milljarði króna. Kvaðst stefndi hafa verið skilgreindur sem fruminnherji frá árinu 2005. Ekki hafi hann þó að jafnaði verði fruminnherji þar sem hann hafi ekki haft aðgang að slíkum upplýsingum. Hafi hann t.a.m. ekki haft aðgang að lánabókhaldi stefnanda. Stefndi kvaðst hafa verið að vinna að ytri málefnum stefnanda seinni hluta árs 2008. Hafi hann ekki vitað af þeim ákvörðunum er teknar hafi verið á stjórnarfundinum 25. september 2008 og varðar niðurfellingu ábyrgða. Hafi hann fyrst fengið vitneskju um niðurfellinguna 7. október 2008, en það megi sjá af skjali því sem lagt hefur verið fram um staðfestingu á móttöku stefnda á tilkynningunni. Hafi hann ritað undir móttöku sama dag og hann hafi fengið tilkynninguna. Stefndi kvaðst almennt hafa gert sér grein fyrir áhættu samfara hlutabréfakaupum. Stefndi kvaðst hafa fengið arð af hlutabréfaeign sinni á árunum 2005 til 2007. Stefndi kvaðst hafa frétt af því að fyrrverandi forstjóri stefnanda hafi fengið að setja hlutabréfaeign sína og lán tengd þeim í sérstakt einkahlutafélag.
Ásgeir Thorodssen kvaðst hafa verið kjörinn í stjórn stefnanda á árinu 2003 og setið í stjórn allt til falls bankans á árinu 2008. Undirnefnd stjórnar hafi verið svokölluð starfskjaranefnd og hafi Ásgeir verið formaður þeirrar nefndar. Hlutverk starfskjaranefndar hafi verið að móta launastefnu í bankanum og að semja um laun við forstjóra og stjórnarformann bankans. Ný heildstæð launastefna hafi verið kynnt á aðalfundi í bankanum á árinu 2004. Þá hafi verið farið yfir grundvallaratriðin í stefnunni. Í þeirri stefnu hafi verið tengdir saman hagsmunir lykilstarfsmanna bankans og hluthafa bankans sjálfs. Með lykilstarfsmönnum hafi verið átt við æðstu stjórnendur bankans, eins og framkvæmdastjóra mismunandi sviða og æðstu stjórnendur í aðalbanka og sviða hans. Eins hafi fallið undir skilgreininguna æðstu stjórnendur í stærstu útibúum bankans. Slík stefna hafi ekki verið nein nýlunda á þeim tíma þar sem slíkt hafi verið alþekkt í fjármálaheiminum. Stefnan hafi falið það í sér að bankinn hafi fjármagnað kaup lykilstarfsmanna á hlutabréfum í bankanum sjálfum. Útgangspunkturinn hafi verið sá að bankinn fjármagnaði kaupin sjálfur þannig að starfsmennirnir færu ekki að gera það sjálfir t.d. með lánum í öðrum bönkum. Með þessum hætti hafi verið við það miðað að starfsmenn gætu eignast allt að 9% af heildarhlutafé í bankanum. Gengið hafi verið út frá því að um langtímafjárfestingu væri að ræða. Á henni gætu starfsmenn hagnast ef bréf myndu hækka umfram kostnað starfsmanna af þeim. Lykilatriði hafi hins vegar verið að viðkomandi starfsmenn tækju ekki of mikla áhættu samfara kaupunum. Það atriði hafi endurspeglast í starfskjarastefnunni sem samþykkt hafi verið 2004 og áréttuð fyrir árin 2005 til 2008. Umræddir lykilstarfsmenn hafi átt að eiga bréfin sem ígildi lífeyrissjóðs á meðan þeir störfuðu hjá bankanum. Að mati nefndarmanna í starfskjaranefndinni hafi þeir ekki mátt selja bréfin á meðan þeir væru við störf í bankanum. Útfærsla á því fyrirkomulagi hafi hins vegar verið í höndum forstjóra bankans. Stjórn bankans eða nefndarmenn í starfskjaranefnd hafi ekki komið að þeirri útfærslu. Þannig hafi bankinn átt að móta stefnu sem tryggði skaðleysi lykilstarfsmanna og kæmi skaðleysisákvæðið fram í starfskjarastefnu sem samþykkt hafi verið 2004 og endurnýjuð árin 2005 til 2008. Það hafi t.d. verið gert með þeim hætti að bankinn yrði að kaupa hlutabréf af þessum lykilstarfsmönnum ef gengi bréfa færi niður fyrir tiltekin viðmiðunarmörk. Starfskjaranefndin hafi fjallað um skaðleysið en ekki útfært það. Vandamál hafi risið varðandi útreikning á eigin fé bankans. Það vandamál hafi í raun ekki komið til starfskjaranefndarinnar en vitað hafi verið um að afnema hafi þurft sölurétt starfsmanna vegna útreikninga á eigin fé bankans. Í staðinn hafi komið ákvæði um veðþekju og 10% ábyrgð starfsmanna á lánum. Þessi útfærsla hafi leitt til vandræða á árinu 2008 sem ekki hafi verið séð fyrir. Forstjóri félagsins hafi á árinu 2006 óskað eftir því að fá að færa hlutabréfaeign sína í sérstakt einkahlutafélag. Málið hafi verið tekið upp í stjórn stefnanda. Samþykkt hafi verið að heimila forstjóranum þetta. Skýrt hafi komið fram að það fyrirkomulag að lykilstarfsmenn ættu bréf í bankanum ætti aldrei að geta leitt til þess að þeir yrðu persónulega gjaldþrota. Á árinu 2008 hafi verðmæti hlutabréfa lækkað. Ekki hafi lykilstarfsmenn stefnanda snúið sér sérstaklega til starfskjaranefndarinnar vegna beiðna um sölu bréfa. Í febrúar 2008 hafi ástandið verið rætt þar sem einhverjir lykilstarfsmanna hafi verið með miklar áhyggjur af stöðu sinni. Þá hafi verið ákveðið að gera ekki veðköll gagnvart þeim þar sem bankinn hafi ekki viljað að lykilstarfsmenn seldu bréf sín. Á fundi í stjórn 25. september 2008 hafi verið ákveðið að fella niður persónulegar ábyrgðir starfsmanna. Þá hafi ekki legið fyrir að bankinn væri ógjaldfær. Á fundi 25. og 26. september 2008 hafi verið farið yfir stöðu bankans og útlitið verið mjög gott miðað við horfur á markaði.
Bjarnfreður Ólafsson, Gunnar Páll Pálsson og Brynja Halldórsdóttir áttu öll sæti í stjórn stefnanda. Bjarnfreður tók sæti í stjórn á árinu 2003, Gunnar Páll á árinu 2001 eða 2002 og Brynja á árinu 2004. Staðfestu þau öll að starfskjarastefna fyrir stefnanda hafi verið samþykkt á aðalfundi á árinu 2004. Í þeirri stefnu hafi falist að starfsmenn stefnanda hafi átt að eiga þess kost að kaupa allt að 9% af heildarhlutabréfum í stefnanda. Með því hafi verið tengdir saman hagsmunir hluthafa í stefnanda og hagsmunir lykilstarfsmanna stefnanda. Út frá því hafi verið gengið að stefnandi veitti umræddum starfsmönnum lán til hlutabréfakaupanna. Með þessum hætti hafi starfsmenn átt að njóta ávinnings af hækkun bréfa en ekki þurfa að taka á sig tap ef illa færi. Starfsmennirnir hafi í upphafi verið með sölurétt sem hafi átt að tryggja skaðleysi þeirra af hlutabréfakaupunum, en skaðleysið hafi verið útgangspunktur við kaupin. Þá hafi starfsmennirnir átt að eiga bréfin til langframa, en það hafi verið hin almenna stefna. Þó svo einstök lán hafi verið í tilteknum tímaramma hafi fjárfestingin verið til langframa. Vandkvæði hafi komið upp varðandi sölurétt starfsmanna og áhrif hans á útreikning á eigin fé stefnanda. Hafi það leitt til þess að starfsmenn hafi fallið frá söluréttinum. Stjórn stefnanda hafi ákveðið að finna aðra leið til að tryggja skaðleysið og falið forstjóra og stjórnarformanni að finna leið til þess. Hafi stjórnin sjálf ekki verið með á sinni hendi að útfæra skaðleysisákvæðin. Ekki hafi gengið auðveldlega að finna leið við að tryggja áframhaldandi skaðleysi en ljóst væri að algert skaðleysi hafi ekki verið fyrir hendi þar sem starfsmenn hafi borið ábyrgð á 10% af lánaskuldbindingum tengdum kaupum á hlutabréfum í stefnanda. Hafi starfsmönnum stefnanda verið kunnugt um þá afstöðu stjórnenda stefnanda að þeir ættu að eiga bréfin til langframa. Ekki hafi legið fyrir algjört bann við sölu bréfa en almennt hafi verið við það miðað að starfsmenn seldu ekki bréf sín þar sem um væri að ræða langtímafjárfestingu. Af þessum ástæðum hafi legið ljóst fyrir að dræmt yrði tekið í beiðnir um sölu bréfa. Ljóst hafi legið fyrir að ekki ætti að ganga að einstökum lykilstarfsmönnum vegna skaðleysisákvæðanna. Hafi hagur bankans þar verið hafður að leiðarljósi. Staðfestu stjórnarmann að á stjórnarfundi 25. og 26. september 2008 hafi verið tekin sú ákvörðun að fella niður persónulegar ábyrgðir lykilstarfsmanna. Á þessum fundi hafi staða bankans verið rædd og legið fyrir það mat að staða bankans væri góð.
Hreiðar Már Sigurðsson kvaðst hafa verið gerður að aðstoðarforstjóra stefnanda á árinu 1998 og forstjóra stefnanda á árinu 2003. Því starfi hafi hann gegnt þar til yfir lauk. Er hugað hafi verið að því að skrá bankann á markað á árinu 2000 hafi starfskjarastefna fyrir bankann verið til umræðu. Þá hafi verið stefnt að því að tengja saman hagsmuni eigenda bankans og einstaka lykilstarfsmanna. Það hafi verið algeng aðferð á fjármálamarkaði á þeim tíma. Á árunum 2003 og 2004 hafi stefnan verið útfærð. Við það hafi verið miðað að einstaka lykilstarfsmenn gætu keypt hlutabréf í bankanum. Hlutabréfin ættu starfsmennirnir lánstímann. Af þessum kaupum hafi starfsmenn átt að geta hagnast við starfslok. Skaðleysi starfsmannanna af kaupunum yrði tryggt með sölurétti þeirra á bréfunum. Vegna ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins hafi stefnunni lítillega verið breytt á þann veg að bankinn sjálfur myndi lána fyrir kaupum á bréfunum. Á sama tíma hafi söluréttur starfsmanna verið felldur niður vegna reglna um útreikning á eigin fé bankans. Þrátt fyrir þá ráðstöfun hafi verið fært til bókar að skaðleysi starfsmanna yrði áfram tryggt. Hafi starfsmenn fallist á að falla frá söluréttinum. Hafi verið gerður við þá skriflegur samningur þar sem miðað hafi verið við að þeir bæru takmarkaða ábyrgð á lánaskuldbindingum. Þá hafi verið ákvæði í lánssamningum sem hafi miðað við að bankinn myndi selja bréf starfsmanna ef gengi þeirra færi niður fyrir viðmiðunarmörk. Ekki kvaðst Hreiðar viss um hver samið hafi ákvæðin sem taka hafi átt við afnámi söluréttarins, þ.e. um hina 10% ábyrgð og um veðþekjuna. Seinni hluta árs 2007 hafi komið í ljós að útfærslan á skaðleysinu hafi farið á skjön við starfskjarastefnu þá sem gilt hafi. Útfærslan hafi leitt til þess að starfsmenn hafi nánast verið þvingaðir til sölu við ákveðnar aðstæður. Í upphafi árs 2008 hafi verið tekin sú ákvörðun að þvinga starfsmenn ekki til sölu. Í skýrslu ytri endurskoðanda, KPMG, á þeim tíma hafi komið fram að stjórn stefnanda hafi ákveðið að nýta ekki veðköll vegna bréfanna. Margir starfsmenn hafi haft áhyggjur af stöðunni og verið í sambandi við forstjóra. Hafi þeir verið að spyrjast fyrir um stöðu mála. Í þágu bankans og stefnu hans hafi verið að þvinga ekki fram sölur á bréfum. Lykilstarfsmönnum hafi verið gerð grein fyrir því að kaup þeirra í bankanum væri langtímafjárfesting og að ekki hafi verið ætlast til að þeir seldu bréfin á meðan þeir væru við störf. Einhver dæmi hafi þó verið um að starfsmenn hafi fengið að selja. Hafi það verið vegna persónulegra aðstæðna viðkomandi. Þau mál hafi þó ekki verið á borði Hreiðars sjálfs. Ekki kvaðst Hreiðar viss um hvort einhver dæmi hafi verið þess efnis að lykilstarfsmenn hafi selt bréf sín án heimildar. Hann hafi sjálfur fengið heimild stjórnar til að færa hlutabréfaeign sína í einkahlutafélag á árinu 2006. Þessi mál hafi m.a. verið rædd við starfsmannastjóra stefnanda eftir að bréf hafi tekið að falla í verði. Skilaboð til starfsmanna hafi verið þau að unnið væri að lausn málsins. Erfitt væri þó að segja til um hvernig brugðist hafi verið við einstaka beiðni um sölu. Í upphafi árs 2008 hafi þessi vandi verið til umræðu. Stjórnarfundir í stefnanda hafi verið haldnir í september ár hvert. Það hafi því legið fyrir að á fundi í september 2008 yrðu þessi mál til meðferðar, en starfskjarastefnan hafi jafnan verið til meðferðar á þeim fundi. Á fundinum 25. og 26. september 2008 hafi stjórn ákveðið að fella niður ábyrgðir starfsmanna. Á þeim tíma hafi staða bankans verð mjög góð. Hafi það verið skoðun stjórnar eftir þann fund að bankinn væri að komast út úr þeim stormi er ríkt hafi á fjármálamörkuðum heims. Hafi lausafjárstaða bankans verið að batna á þeim tíma en innlánasöfnun hafi gengið vel. Fall Glitnis banka og Landsbanka Íslands hafi gert það að verkum að yfirvöld í Bretlandi hafi tekið yfir Singer og Friedland. Lánasamningar hafi gert það að verkum að bankinn hafi fallið þar sem í öllum samningum hafi verið gjaldfellingarákvæði sem hafi orðið virkt við aðgerðirnar í Bretlandi.
Svali Björgvinsson kvaðst hafa verið starfsmannastjóri hjá stefnanda frá í september 2003. Hafi hann gegnt því starfi þar til í febrúar eða mars 2009. Kvaðst hann þekkja þá starfskjarastefnu er samþykkt hafi verið á aðalfundi stefnanda á árinu 2004. Meginatriðin hafi verið þau að lykilstarfsmenn ættu að eiga hlut í bankanum sem væru fjármagnaðir með lánum úr bankanum sjálfum. Hlutina hafi starfsmennirnir átt að eiga til langframa og væri engin fjárhagsleg áhætta fyrir starfsmennina tengd því. Með eign til langframa hafi verið átt að lykilstarfsmennirnir myndu ekki selja bréfin. Söluréttur hafi verið felldur niður af bréfunum á árinu 2005 án þess að breytingar hafi verið gerðar á starfskjarastefnunni. Öll þessi atriði hafi komið fram í samtölum Svala við stjórnendur bankans og afstaða stjórnendanna verið skýr. Eftir að gengi bréfa hafi tekið að lækka hafi fjöldi starfsmanna komið að máli við Svala og lýst áhyggjum sínum af stöðu mála. Eins hafi starfsmenn spurst fyrir um hvort þeir mættu setja hlutabréfaeign sína í einkahlutafélög. Hafi Svali komið þeim skilaboðum áleiðis til stjórnenda stefnanda. Eins hafi hann sjálfur hvatt starfsmenn til að hafa samband við stjórnendurna. Skýr afstaða stjórnenda hafi verið að starfsmenn myndu ekki selja bréf sín og að verið væri að vinna að lausn málsins. Þá hafi Svali vitað að ekki væri vel tekið í hugmyndir um að setja eignir í einkahlutafélög. Hafi Svali m.a. farið á fund með forstjóra 17. júlí 2008 þar sem þetta hafi komið skýrt fram. Ekki kvaðst Svali hafa haft vitneskju um að lykilstarfsmenn hafi selt bréf sín í bankanum fyrir fall hans. Hann hafi hins vegar frétt eftirá að einhverjir slíkir hafi sett hluti sína í einkahlutafélög.
Helgi Sigurðsson kvaðst hafa verið gerður að framkvæmdastjóra lögfræðisviðs stefnanda 2002 og hafi hann gegnt því starfi til falls bankans. Fyrirkomulag tengt starfskjarastefnu starfsmanna bankans hafi verið til umræðu í tengslum við skráningu bankans á markað á árinu 2000. Þá hafi verið uppi hugmyndir um að starfsmenn gætu fengið lán til kaupa á hlutabréfum í bankanum. Málið hafi verið rætt við Fjármálaeftirlitið og hvort einstaka starfsmenn gætu stofnað einkahlutafélög til að halda utan um hlutabréfaeign sína. Það hafi að mati eftirlitsins ekki reynst unnt og fyrir því verið færðar tilteknar ástæður. Í tenglum við það hafi verið umræða um atriði eins og hver mætti veita slík lán og stærð hluta. Þá hafi verið rætt um skaðleysi starfsmanna og söluréttur nefndur í því sambandi. Helgi kvaðst hafa verið ritari stjórnar á aðalfundum í stefnanda. Starfskjarastefna bankans hafi verið kynnt á aðalfundi bankans á árinu 2004. Í tengslum við aðalfundinn á árinu 2004 hafi Helgi komið að máli við Ásgeir Thorodssen formann starfskjaranefndar til að ræða það efni. Þá hafi m.a. verið rætt um hvort heppilegt gæti verið að stofna félag eða sjóð utan um eign starfsmanna á hlutabréfum. Söluréttur starfsmanna hafi verið felldur niður á árinu 2005 vegna breyttra reglna um útreikning á eigin fé bankans. Skýrt hafi legið fyrir að tryggja hafi átt skaðleysi starfsmanna af hlutabréfakaupum í stefnanda. Afgreiðsla stjórnar á árinu 2005 hafi áfram miðað við að tryggja skaðleysi starfsmanna. Stjórnin hafi hins vegar ekki komið að útfærslu þess kerfis er nota hafi átt í þeim efnum, heldur hafi það verið í verkahring forstjóra að hafa það með höndum. Helgi kvaðst sjálfur ekki hafa komið að því máli. Sú útfærsla sem komið hafi í ljós hafi hins vegar verið slæm. Ekki hafi lengur verið til staðar hjá starfsmönnum forræði á efninu, heldur hafi það alfarið verið hjá bankanum sjálfum. Starfsmenn hafi getað staðið allt af sér tengt hlutabréfaeigninni á meðan þeir hafi haft söluréttinn. Ekkert sambærilegt því hafi komið með hinu nýja fyrirkomulagi. Inn hafi verið tekin ákvæði um handveðsrétt í bréfunum en eftir það og samkvæmt lögum um samningsveð hafi forræðið eftir það allt verið hjá bankanum. Eftir þetta hafi einstaka starfsmenn ekki getað selt bréf án heimildar frá bankanum. Aflétta hafi þurft handveðsetningunni ef til sölu hafi átt að koma. Ekki hafi Helga verið ljóst að lykilstarfsmenn hafi selt bréf sín fyrr en eftir fall bankans. Upplýst hafi verið um þau tilvik í tengslum við álitsgerð sem Viðar Már Matthíasson lagaprófessor hafi unnið fyrir bankann. Bankinn hafi ákveðið að gera engin veðköll eftir að veðþekja hjá einstaka starfsmönnum hafi farið undir viðmiðunarmörk. Hafi það m.a. komið fram í skýrslu ytri endurskoðanda félagsins fyrir árið 2008. Hið umrædda sölubann hafi tekið til lykilstarfsmanna hjá stefnanda. Ef þessir starfsmenn hafi keypt bréf í bankanum fyrir utan þetta fyrirkomulag hafi ekkert verið til staðar sem bannað hafi starfsmönnunum að selja þau bréf. Einhver tilvik hafi verið þar sem starfsmenn hafi óskað eftir sölu bréfa og þá við sérstakar aðstæður. Hafi það verið heimilað við aðstæður eins og vegna hjónaskilnaða, fjölskylduerfiðleika og þess háttar. Þá hafi legið ljóst fyrir að einstaka starfsmenn hafi getað selt bréf sín væru þeir að hætta störfum fyrir bankann. Afstaða stjórnar stefnanda hafi verið skýr um það að lykilstarfsmenn mættu ekki selja bréf sín. Sú aðgerð stjórnar bankans að fella niður persónulega ábyrgð á aðalfundinum 25. og 26. september 2008 hafi verið sjálfgefin í ljósi forsögu málsins. Bankinn hafi verið að uppfylla áður gefin loforð um skaðleysi.
Vignir Rafn Gíslason staðfesti dskj. nr. 38 og lýsti einstökum atriðum varðandi framkvæmd og úrvinnslu álitsgerðarinnar. Fram kom að verkið hafi verið unnið samkvæmt nánar tilgreindri verkbeiðni, sem fram kæmi í álitsgerðinni hver væri.
II.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Stefnandi máls þessa kveðst byggja aðild til sóknar á 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 7. gr. laga nr. 44/2009, þar sem kveðið sé á um að ef ekki sé sýnt að eignir fjármálafyrirtækis muni nægja til að efna skuldbindingar þess að fullu megi krefjast riftunar á ráðstöfunum þess eftir sömu reglum og gildi um riftun ráðstafana þrotamanns við gjaldþrotaskipti. Enda þótt lánssamningar þeir, sem hin persónuleg ábyrgð stefnda hafi lotið að, hafi verið framseldir Nýja Kaupþing banka hf. með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins standi slíkt ekki í vegi því að stefnandi krefjist riftunar umræddra ráðstafana enda verið að endurheimta verðmæti sem Kaupþing banki hf. hafi gefið eftir fyrir framsal kröfuréttindanna til Arion banka hf. Stefnandi og kröfuhafar hans hafi þannig orðið fyrir verðmætamissi sem stefnandi vilji endurheimta með málshöfðun þessari. Á því sé byggt að lánssamningar stefnda við Kaupþing banka hf. hafi 25. september 2008 verið eign bankans. Þann sama dag hafi verðmæti hans verið að rýrt með því að fella niður persónulega ábyrgð lántakanda. Þannig hafi sú rýrnun átt sér stað á þeim tíma sem bankinn hafi átt lánssamningana. Sú staðreynd að lánin hafi eftir það verið flutt yfir til Nýja Kaupþing banka hf. með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 21. október 2008 breytir ekki þeirri staðreynd að niðurfelling ábyrgðarinnar hafi þá verið búin að eiga sér stað. Því sé krafan um endurgreiðslu á auðgun stefnda eign stefnanda.
Stefnandi byggi aðallega á því að eftirgjöf hinnar persónulegu ábyrgðar stefnda sé gjöf á grundvelli 131. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt 1. mgr. 131. gr. laganna megi krefjast riftunar á gjafagerningi ef gjöfin hafi verið afhent á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag. Umþrætt niðurfelling og þar með gjafagerningur að mati stefnanda, hafi átt sér stað 25. september 2008. Frestdagur sé 15. nóvember 2008. Gjöfin hafi þannig verið afhent á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag í skilningi tilvísaðs ákvæðis.
Gjafahugtak 131. gr. laga nr. 21/1991 sé talið hafa þrjú meginskilyrði. Í fyrsta lagi að gjöfin rýri eignir skuldara, í annan stað að gjöfin leiði til auðgunar móttakanda og í þriðja lagi að tilgangurinn með gerningnum sé að gefa. Stefnandi telji öll þessi skilyrði uppfyllt. Að því er varði fyrsttalda skilyrðið þá telji stefnandi óumdeilt að það skilyrði teljist uppfyllt. Stefnandi bendi í þessu sambandi á að niðurfærsla hinnar persónulegu ábyrgðar hafi falið í sér eftirgjöf kröfuréttinda af hálfu stefnanda, en eftirgjöf kröfuréttinda geti m.a. talist til gjafagernings í skilningi 131. gr. laga nr. 21/1991. Af ráðstöfuninni hafi leitt að stefnandi hafi ekki lengur átt lögvarða fjárkröfu á hendur stefnda á grundvelli lánssamnings. Ráðstöfunin hafi þegar af þessum ástæðum leitt til rýrnunar á eignum stefnanda.
Að því er varði annað skilyrðið, um auðgun móttakanda, þá telji stefnandi að það skilyrði sé jafnframt uppfyllt. Niðurfelling hinnar persónulegu ábyrgðar hafi leitt til þess að stefndi sé laus undan persónulegri greiðsluskyldu og njóti um leið fjármuna sem hefðu að öðrum kosti runnið til stefnanda og um leið kröfuhafa hans. Af framangreindu sé ljóst að ráðstöfunin hafi leitt til auðgunar stefnda, enda tilgangur ráðstöfunarinnar beinlínis að fella niður persónulegar skuldbindingar stefnda.
Að því er þriðja skilyrðið varði, þ.e. að gjafatilgangi sé til að dreifa, þá telji stefnandi jafnframt ljóst að þetta skilyrði sé uppfyllt. Að mati stefnanda verði ekki séð að ráðstöfunin hafi haft annan tilgang en að ívilna stefnda, ásamt öðrum starfsmönnum, og létta af þeim fjárhagslegar byrðar á kostnað bankans þannig að þeir hafi getað einbeitt sér að störfum sínum í þágu bankans á erfiðleikatímum. Hafi stefndi og aðrir starfsmenn verið leyst undan persónulegri greiðsluábyrgð og um leið á kostnað stefnanda og kröfuhafa hans. Ákvörðun bankans hafi verið tekin þegar fyrirsvarsmönnum hafi verið, eða mátti vera ljóst, að tekið hafi verið að fjara undan fjárhag bankans eða a.m.k. hætt við að svo yrði í ljósi þess ástands sem þá hafi ríkt í bankakerfinu, en stefnanda hafi verið skipuð skilanefnd einungis rúmum tveimur vikum eftir að ráðstöfunin hafi átt sér stað. Telji stefnandi að um sé að ræða gjöf í skilningi 131. gr. laga nr. 21/1991, enda hafi umrædd ákvörðun bankans hvorki byggst á viðskiptalegum forsendum né samningsbundinni skyldu hans.
Verði ekki falist á að ráðstöfunin sé riftanleg á grundvelli 131. gr. laga nr. 21/1991 byggi stefnandi til vara á því að hún sé riftanlega á grundvelli almennu riftunarreglunnar í 141. gr. sömu laga. Samkvæmt tilvísuðu ákvæði megi krefjast riftunar ráðstafana sem á ótilhlýðilegan hátt séu kröfuhafa til hagsbóta á kostnað annarra, leiði til þess að eignir þrotamannsins verði ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum eða leiði til skuldaaukningar kröfuhöfum til tjóns, ef þrotamaðurinn hafi verið ógjaldfær eða orðið það vegna ráðstöfunarinnar og sá sem hag hafi haft af henni hafi vitað eða mátti vita um ógjaldfærni þrotamannsins og þær aðstæður sem leitt hafi til þess að ráðstöfunin væri ótilhlýðileg. Samkvæmt 141. gr. sé það þannig skilyrði riftunar að ráðstöfun hafi verið ótilhlýðileg, hin ótilhlýðilega ráðstöfun falli í einn hinna þriggja flokka sem taldir séu upp í ákvæðinu, skuldari hafi verið ógjaldfær eða orðið það vegna ráðstöfunarinnar og sá sem hag hafi haft af ráðstöfuninni hafi vitað eða mátt vita um ógjaldfærnina og þær aðstæður sem leiddu til þess að ráðstöfunin var ótilhlýðileg. Stefnandi telji öll þessi skilyrði uppfyllt.
Stefnandi telji ráðstöfunina hafa verið ótilhlýðilega þar sem með henni hafi verið felld niður kröfuréttindi í eigu stefnanda gagnvart stefnda án þess að nokkuð endurgjald hafi komið fyrir. Ekki verði séð að niðurfelling persónulegrar ábyrgðar stefnda, svo og annarra starfsmanna bankans, hafi verið framkvæmd með hagsmuni stefnanda eða önnur málefnaleg sjónarmið að leiðarljósi heldur gagngert til þess að ívilna starfsmönnum í þeirri stöðu sem upp hafi verið komin. Ráðstöfunin hafi verið óvenjuleg og framkvæmd á miklu erfiðleikatímabili í starfsemi bankans og fyrirsvarsmönnum bankans, sem tóku ákvörðun um ráðstöfunina, mátt vera það ljóst. Af þessu leiði að eftirgjöf kröfuréttindanna geti ekki talist tilhlýðileg ráðstöfun eins og á hafi staðið. Þá telji stefnandi ljóst að hin ótilhlýðilega ráðstöfun hafi leitt til þess að eignir stefnanda, hér kröfuréttindi, hafi ekki getað orðið til reiðu til fullnustu kröfuhöfum. Niðurfelling hinnar persónulegu ábyrgðar stefnda hafi leitt til þess að stefndi hafi losnað undan persónulegri greiðsluskyldu. Með því hafi stefnandi og kröfuhafar hans orðið fyrir tjóni sem því nemi, enda ljóst að eftir það hafi ekki verið unnt að ganga að stefnda persónulega um greiðslu skuldarinnar.
Stefnandi byggi jafnframt á því að stefnandi hafi verið ógjaldfær á tímamarki ráðstöfunarinnar í skilningi 141. gr. laga nr. 21/1991. Nánar tiltekið sé á því byggt að fjárhagsstaða stefnanda á tímamarki ráðstöfunarinnar, 25. september 2008, hafi verið orðin slík að hann hafi í raun ekki verið fær um að greiða skuldir sem fallið hafi á gjalddaga í fyrirsjáanlegri framtíð og ekki hafi verið líklegt að úr rættist. Sé þannig á því byggt að á þessu tímamarki hafi í raun að óbreyttu verið ljóst, eða því sem næst, að fyrirsjáanlegt greiðsluþrot hafi blasað við stefnanda og eins og síðar hafi komið á daginn. Þannig hafi stefndi orðið greiðsluþrota skömmu síðar og fyrir frestdag í skilningi laga um gjaldþrotaskipti, en stefnanda hafi verið skipuð skilanefnd einungis rúmum tveimur vikum eftir að ráðstöfunin hafi átt sér stað.
Stefnandi byggi jafnframt á því að stefndi hafi vitað, eða í öllu falli mátt vita, um ógjaldfærni stefnanda á tímamarki ráðstöfunarinnar og þær aðstæður sem leitt hafi til þess að ráðstöfunin hafi verið ótilhlýðileg. Stefnandi bendi á að grandsemiskilyrði 141. gr. sé talið fullnægt ef móttakanda hefði átta að gruna að skuldari væri ógjaldfær. Í ljósi þess sé á því byggt að stefndi, stöðu sinnar vegna sem framkvæmdarstjóri viðskiptaþróunar Kaupþings banka hf., hafi vitað eða mátt vita að stefnandi væri ógjaldfær í skilningi 141. gr. laga nr. 21/1991 og jafnframt um þær aðstæður sem leitt hafi til þess að ráðstöfunin væri ótilhlýðileg í þeim skilningi sem getið er hér að framan.
Stefnandi vísi til þess að í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 sé kveðið á um að fari riftun fram með stoð í 131. 138. gr. laganna skuli sá sem hag hafði af riftanlegri ráðstöfun greiða þrotabúinu, hér stefnanda, fé sem svari til þess sem greiðsla þrotamanns hafi orðið honum að notum, en þó ekki hærri fjárhæð en sem nemi tjóni þrotabús. Af þessu leiði jafnframt að sé fallist á riftun umþrættrar ráðstöfunar á grundvelli 131. gr. laga nr. 21/1991, svo sem stefnandi krefjist, eigi stefnandi rétt á að krefja stefnda um endurgreiðslu þeirrar auðgunar sem af ráðstöfuninni hafi leitt.
Stefnandi byggi á því að auðgun stefnda svari til hinnar persónulegu ábyrgðar sem hafi verið felld niður. Ef ekki hefði komið til niðurfellingar persónulegrar ábyrgðar stefnda á láni gagnvart stefnanda, hefði stefnandi getað krafið stefnda persónulega um greiðslu eftirstöðva lánsins. Með umræddri ákvörðun bankans hafi sá möguleiki stefnanda verið felldur niður og hafi það leitt til samsvarandi auðgunar stefnda. Tjón stefnanda svari jafnframt til þeirrar auðgunar stefnda.
Krafan sundurliðist þannig:
Lán nr. 3057.
1.Uppgreiðsluverðmæti lánssamnings 25. september 2008 765.329.744 krónur
2. Fjárhæð vegna 10% takmörkunar á ábyrgð 76.532.974 krónur
Lán nr. 3399.
1.Uppgreiðsluverðmæti lánssamnings 25. september 2008 720.966.310 krónur
2. Hluti sem notaður hafi verið til annars en hlutabréfakaupa -155.623.678 krónur
3. Uppgreiðsluverðmæti þess hluta sem notaður hafi verið til hlutabréfakaupa 565.342.632 krónur
Samtals krafa stefnanda 641.875.606 krónur (76.532.974+565.342.632).
Krafist sé dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 25. september 2008 til greiðsludags. Vísist um það til dómvenju Hæstaréttar Íslands þess efnis að riftunarkröfur beri dráttarvexti frá þeim degi sem hin riftanlega ráðstöfun fór fram.
Stefnandi vísi til þess að verði riftun ekki viðurkennd á grundvelli 131. gr. laga nr. 21/1991, en þess í stað á grundvelli 141. gr. laganna, þá eigi stefnandi skaðabótakröfu á hendur stefnda eftir almennum reglum, sbr. 3. mgr. 142. gr. laganna. Stefnandi byggi á því að tjón stefnanda, í skilningi skaðabótareglna, sé hið sama og samkvæmt auðgunarkröfu stefnanda. Sé þannig á því byggt að niðurfelling hinnar persónulegu ábyrgðar hafi leitt til þess að stefnandi og kröfuhafar hans hafi ekki fengið notið þeirra kröfuréttinda á hendur stefnda sem þau hefðu ellegar átt á grundvelli lánssamninga stefnanda og stefnda. Tjón stefnanda svari til fjárhæðar hinna niðurföllnu kröfuréttinda eða 641.875.606 krónum. Sé jafnframt krafist dráttavaxta frá sama tímamarki og í auðgunarkröfu en til vara frá dagsetningu riftunarbréfs stefnanda. Af framansögðu leiði að fjár- og dráttarvaxtakrafa stefnanda, bæði að því er varðar auðgunar- og skaðabótakröfu, sé hin sama.
Um lagarök vísar stefnandi einkum til 131., 141. og 142. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki með áorðnum breytingum, sbr. meðal annars lög nr. 44/2009. Kröfu sína um málskostnað styður stefnandi við 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
III.
Málsástæður og lagarök stefnda.
Stefndi byggir aðalkröfu sýna um sýknu á aðildarskorti til sóknar, enda hafi stefnandi ekki sýnt fram á lögvarða hagsmuni af úrlausn í málinu. Í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um ráðstöfun eigna og skulda milli stefnanda og Nýja Kaupþings banka hf. frá 21. október 2008 segi að Nýja Kaupþing hf. taki við öllum eignum, hverju nafni sem nefnast, nema þeim sem tilgreindar séu í viðauka. Nýja Kaupþing hf. hafi jafnframt tekið yfir öll tryggingarréttindi og önnur sambærileg réttindi sem og allar óefnislegar eignir og réttindi, hverju sem þau kunna að byggjast á, nema þau hafi verið sérstaklega undanskilin. Í samræmi við meginreglur kröfuréttar eignist framsalshafi öll þau réttindi sem framseljandi, þ.e. stefnandi, hafi átt við framsalið. Stefnandi byggi riftunarkröfu sína á ákvæðum XX. kafla laga nr. 21/1991. Réttur til beitingar þeirra heimilda sem um sé fjallað í kaflanum sé bundinn við þrotabú. Stefndi byggi á því að réttur stefnanda til beitingar reglna XX. kafla laga nr. 21/1991 verði að hafa verið orðin virkur fyrir framsal þeirra réttinda sem riftunarkrafan varði.
Við framsal réttindanna til Nýja Kaupþings banka hf., með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 21. október 2008, hafi Nýja Kaupþing banki hf. öðlast öll réttindi stefnanda á grundvelli lánssamninga, enda þau ekki sérstaklega undanskilin. Eftir þann tímapunkt geti stefnandi engan rétt byggt á umræddum lánssamningum né réttinda sem hann kynni síðar öðlast á grundvelli réttarsambands síns við stefnda. Ef um sé að ræða réttindi sem framsalshafi geti ekki öðlast, sé ómögulegt að álykta annað en að riftunarréttur skv. XX. kafla laga nr. 21/1991 hafi tapast við framsalið. Þar sem stefnandi hafi ekki verið undir gjaldþrotaskiptum er framsalið hafi átt sér stað, né í öðru því ferli sem veiti aðila heimild til að rifta ráðstöfunum samkvæmt XX. kafla laga nr. 21/1991 hafi hann ekki öðlast riftunarheimildir fyrr en eftir að réttarsambandi hans og stefnda hafi verið lokið. Riftunarréttur sé því ekki til staðar varðandi ráðstafanir sem byggi á lánssamningum þeim sem tilteknir séu í stefnu.
Jafnvel þó að talið yrði að riftunarrétti á niðurfellingu persónulegrar ábyrgðar starfsmanna hafi ekki verið ráðstafað til Nýja Kaupþing banka hf., í samræmi við það sem ofan greini, sé ómögulegt að aðskilja persónulega ábyrgð skuldara frá þeim lánssamningum sem um ræði í máli þessu. Persónuleg ábyrgð skuldara teljist órjúfanlegur hluti af hinum framseldu réttindum, enda veigamikill þáttur í þeim viðskiptum sem stefnandi og stefndi hafi átt sín á milli og geti því riftunarréttur ekki staðið einn og sér óhaggaður hjá fyrrum kröfuhafa eftir framsal réttinda. Í stefnu komi fram að yfirfærsla kröfuréttinda stefnanda á hendur stefnda yfir til Nýja Kaupþings banka hf. hafi verið framkvæmd án endurgjalds. Hafi sú ákvörðun verið byggð á mati PricewaterhouseCoopers hf. Telji stefnandi að verðmat þetta staðfesti að niðurfelling ábyrgðar hafi valdið honum tjóni.
Skaðabótakrafa stefnanda sé verulega vanreifuð. Í samræmi við meginreglur skaðabótaréttar beri stefnanda að sýna fram á að niðurfelling á persónulegri ábyrgða stefnda hafi haft í för með sér raunverulegt tjón fyrir hann og umfang þess. Stefnandi hafi ekki lagt fram nein gögn sem sýni fram á að mismunur sé á verðmæti kröfunnar annars vegar með persónulegri ábyrgð stefnda og hins vegar án hennar. Af hálfu stefnda sé byggt á því að niðurfelling persónulegrar ábyrgðar hafi engu máli skipt varðandi verðmætamat á lánssamningunum enda hafi lánssamningar með veði í hlutabréfum þar sem veðandlagið var einskis virði almennt verið metnir á 0. kr. við yfirfærslu, óháð því hvort fyrir lægi persónulega ábyrgð skuldara eða ekki. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á að útséð hafi verið um heimtur af lánunum í kjölfar niðurfelldrar ábyrgðar. Þvert á móti hafi stefndi ítrekað sett sig í samband við Arion banka hf., í þeim tilgangi að hefja viðræður um heildaruppgjör útistandandi skuldbindinga sinna gagnvart bankanum. Endurtekið á árinu 2008 og svo aftur snemma árs 2009 hafi stefndi komið þeim boðum í gegnum viðskiptaútibú sitt, en á seinni stigum gegnum lögmenn Arion banka hf. Allar óskir um viðræður hafi verið hundsaðar af fyrirsvarsmönnum Arion banka hf.
Fyrir liggi lögfræðileg álitsgerð sem Arion banki hf. hafi aflað í tengslum við hina framseldu kröfu, þar sem talinn sé verulegur vafi á réttmæti framseldra krafna á hendur starfsmönnum bankans vegna áðurnefndra takmarkanna á ráðstöfunarrétti starfsmanna á keyptum hlutabréfum í bankanum sem og aðstöðumuni milli lántaka og lánveitanda, algerlega óháð því hvort fyrir liggi persónuleg ábyrgð eða ekki.
Hvort sem riftunarkrafa stefnanda byggi á 131. gr. eða 141. gr. laga nr. 21/1991 og hvort sem fjárkrafa stefnanda byggi á reglum 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 um endurgreiðslu auðgunar eða 3. mgr. 142. gr. laganna um skaðabætur sé ljóst að kröfur stefnanda ná ekki fram að ganga nema krafa sú sem persónuleg ábyrgð hafi verið felld niður á hafi verið réttmæt og lögmæt fjárkrafa sem unnt hefði verið að innheimta á hendur stefnda ef ekki hefði komið til ráðstöfunar þeirrar sem krafist sé riftunar á. Þegar litið sé til þeirra aðstæðna sem grundvalli gerð þeirra tveggja lánssamninga sem séu til umfjöllunar í máli þessu og þeirra viðskipta sem stefndi og stefnandi hafi átt sín á milli verði ekki séð að stefnanda hafi verið stætt á að halda kröfum um endurgreiðslu lánanna á lofti þann 25. september 2008. Ef litið sé til stöðu aðila máls við lánssamningsgerð sé ljóst að hún hafi verið eins ójöfn og hugsast geti, en á þeim tíma hafi stefnandi verið vinnuveitandi stefnda. Fyrir liggi að stefnandi hafi haldið hlutabréfakaupum að starfsmönnum með umtalsverðum þrýstingi, eins og ráða megi af skýrslum starfsmanna fyrir Rannsóknarnefnd Alþingis: Þá hafi ráðstöfunarréttur starfsmanna á bréfunum verið verulega takmarkaður. Í fyrsta lagi hafi skrifleg heimild stefnanda verið áskilin fyrir sölu bréfanna. Í öðru lagi hafi stjórnendur stefnanda sent starfsmönnum þau skilaboð að hlutabréfaeign þeirra ætti að vera langtíma, í samræmi við samþykkta starfskjarastefnu. Stefnandi hafi haft mikla hagsmuni af kaupum starfmanna á hlutabréfunum. Þannig hafi stefnandi viðhaldið markaðsvirði þeirra og laðað að starfskrafta og tryggt hollust þeirra. Því hafi stefnandi reynt að greiða hvað hann hafi getað fyrir kaupum. Á hinn bóginn hafi sala komið starfsmönnum sér verulega illa og stefnandi því reynt að hindra þær.
Ennfremur liggi fyrir að allt frá því að stefnandi hafi aflagt að veita starfsmönnum sölurétt af keyptum bréfum hafi starfskjaranefnd og stjórn verið uggandi vegna þeirrar stöðu sem upp kynni að koma ef hlutabréfaverð lækkaði. Hafi starfsmenn fengið skýr skilaboð frá stjórnendum um að ekki yrði gengi á þá persónulega vegna lána til hlutabréfakaupa.
Skuldbindingargildi loforða felist að íslenskum rétti fyrst og fremst í þeim væntingum sem vaktar séu hjá loforðsmóttakanda. Vísist um það til umfjöllunar á aðalfundi bankans árið 2004, stjórnarfundi 28. september 2005 og samskipti lögfræðisviðs, starfskjaranefndar og æðstu stjórnenda. Í ljósi þeirra ákvarðana, samskipta og skilaboða sé ljóst að löngu fyrir 25. september 2008 hafi stefnandi verið búinn að marka þá stefnu að starfsmenn skyldu eigi bera skaða af þátttöku í starfskjarastefnu hans. Þannig hafi starfsmenn átt lögmætar væntingar til þess að þeim væri tryggt skaðleysi vegna lækkunar a hlutabréfavirði stefnanda í samræmi við margítrekuð loforð æðstu stjórnenda stefnanda. Í því samhengi megi benda á að lykilstjórnendur hafi þegar hafið ferli við að takmarka sínar persónulegu ábyrgðir með því að færa hlutabréfaeign og lán þeim tengt í einkahlutafélög, sbr. heimild sem veitt hafi verið forstjóra stefnanda með ákvörðun stjórnarfundar 24. maí 2006.
Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis komi fram að starfsmenn hafi einungis selt 0,9% af heildarhlutafé sínu á árinu 2006, 2,2% á árinu 2007 og 0,6% á árinu 2008, þrátt fyrir þær lækkanir sem átt hafi sér stað á þessu tímabili. Vakin sé sérstök athygli á því að hvenær sem stefnandi hafi talið að verðmæti trygginga væri ekki fullnægjandi hafi hann upp á eigin spýtur og án atbeina stefnda getað kosið að selja veðsetta hluti til að forða tjóni, sbr. d liður gr. 9.1 lánssamnings nr. 3057, sbr. dskj. 11 og d liður gr. 8.1 gr. lánssamnings nr. 3399, sbr. dskj. 12 og handveðsyfirlýsing dags. 1. desember 2005, sbr. dskj. 13.
Fyrir 25. september 2008 hafi stefnandi ekki nýtt sér nein þeirra úrræða sem verið hafi honum tæk til að forða tjóni, hvort sem um hafi verið að ræða að gefa út veðköll eða með einhliða sölu hlutabréfa. Þvert á móti hafi stefnandi sent starfsmönnum tölvupóst í janúar 2008, þar sem þeim hafi verið tilkynnt staða tryggingaþekju þeirra og jafnframt að bankinn myndi ekki nýta sér heimildir lánssamningana til veðkalla, sbr. tölvupóst frá viðskiptastjóra stefnanda á dskj. 34. Stefndi hafi ekki átt kost á að grípa til slíkra aðgerða, enda það gengið gegn starfskjarastefnu bankans um langtímaeignarhald starfsmanna á hlutum í bankanum og óskir um slíkt haft verulega neikvæð áhrif á möguleika stefnda til frekari starfsframa hjá stefnanda.
Í þeim tilvikum er starfsmenn hafi óskað eftir heimild stefnanda til að selja bréf sín hafi slík heimild ekki verið veitt heldur hafi starfsmenn fengið upplýsingar um að málin væru í skoðun. Komi það m.a. fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis í kafla 10.5.2.2 á dskj. 19. Skoðun þeirra mála hafi endað með því að starfsmenn hafi verið fullvissaðir um að ekki yrði gengið að þeim persónulega vegna skuldbindinganna eins og getið sé um í fundargerð stjórnar frá 25. og 26. september 2008.
Við gerð lánssamningana milli stefnanda og stefnda hafi fjárhagslegur styrkleiki bankans verið settur fram með villandi hætti sem vart verði séð að sé í samræmi við lagaáskilnað 5. mgr. 84. gr. laga nr. 161/2002. Því til viðbótar hafi stjórnendur bankans markvisst haldið uppi verði á bréfum bankans með ólögmætum aðgerðum, eins og nánar sé fjallað um í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis á dskj. 19. Sem fjármálafyrirtæki megi stefnandi vita að verðmæti eigna og veðrými sé ávallt frumforsenda og hvati fyrir hverskonar lánaviðskiptum. Hefði stefndi haft vitneskju um að villandi upplýsingum hefði verið haldið á lofti um fjárhagslegan styrkleika og að stjórnendur stefnanda hefðu haldið uppi hlutabréfavirði hans með aðgerðum sem séu ólögmætar og að öllum líkindum refsiverðar, sjái hver að litlar ef nokkrar líkur séu fyrir því að hann eða nokkur annar hefði tekið svo gríðarlega áhættu í hlutabréfaviðskiptum sínum. Þannig hafi stefnandi beitt stefnda stórfelldum blekkingum og svikum við gerð lánssamninga og hafi sú blekking staðið kerfisbundið yfir allt fram að hruni stefnanda, eins og vitnað sé um í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis á dskj. 19.
Í samræmi við meginreglur samningaréttar teljist samningur ekki skuldbindandi hafi gagnaðili beitt svikum eða mátti vita að samningurinn hafi verið gerður fyrir svik annars manns, sbr. 30. gr. laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936. Miðað við aðfarir stjórnenda stefnanda sem fjallað sé um í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og drepið hafi verið á hér að framan, sé það yfir allan vafa hafið að stefnandi hafi beitt stefnda svikum. Í krafti stöðu sinnar hafi stefnandi beitt stefnda miklum þrýstingu til hlutabréfakaupa, vitandi það að hlutabréfavirði hinna seldu bréfa væri haldið uppi með svikum og blekkingum.
Þá sé samningur eigi skuldbindandi fyrir aðila sem hann geri ef forsendur sem annar aðilinn hafi fyrir samningsgerðinni séu rangar og hinn aðilinn vissi, eða mátti vita, að forsendurnar væru rangar, sbr. 32. gr. laga nr. 7/1936. Augljóst sé að stefnandi hafi ekki aðeins verið grandsamur um rangar forsendur, heldur hafi það fyrst og fremst verið aðgerðir hans til að blása upp markaðsverð hlutabréfa í sér sem skapað hafi hinar röngu forsendur. Virði hinna keyptu bréfa hafi verið frumforsenda fyrir gerð og fjárhæð lánsviðskiptanna. Það hafi stefnandi mátt vita og ekki geti það undir nokkrum kringumstæðum talist ósanngjarnt að halda þeim forsendubresti fram gagnvart stefnanda.
Þá geti stefnandi ekki haldið stefnda við lánssamning, ef það yrði talið óheiðarlegt vegna atvika sem fyrir hendi voru við samningsgerðina, og ætla megi að hann hafi haft vitneskju um, sbr. 33. gr. laga nr. 7/1936.
Jafnframt skuli þess getið að það sé andstætt góðri viðskiptavenju að bera samninginn fyrir sig, eins og málum sé háttað, sbr. 36. gr. laga nr. 7/1936.
Í ljósi þess sem ofan greini verði ekki séð að stefnanda hafi með nokkru móti verið unnt að halda umræddri kröfu á lofti á hendur stefnda með vísan til ofangreindra ákvæða laga nr. 7/1936, sem og almennra óskráðra reglna um góða viðskiptahætti, enda stjórnendur stefnanda þegar í krafti stöðu sinnar komið í veg fyrir sölur starfsmanna á bréfum sínum og með ólögmætum aðgerðum markvisst blekkt hluthafa og viðsemjendur sína við lánssamningsgerð. Ljóst sé að niðurfelling persónulegrar ábyrgðar stefnda sé algerlega gerð að frumkvæði og forræði stefnanda. Sú aðgerð hafi aðeins miðað að því að forða því að starfsmenn hæfu stórfelldar sölur á hlutum sínum sem komið hefðu sér afar illa fyrir stefnanda eins og ráða megi af áðurnefndu bréfi fyrrum forstjóra bankans, yfirlýsingu stjórnar stefnanda og minnisblað lögfræðisviðs stefnanda.
Sala stefnda, sem hafi verið fruminnherji í bankanum, hefði verið tilkynningaskyld, sbr. XIII. kafli laga nr. 108/2007. Skyldi tilkynningin birt í fjölmiðlum í samræmi við 11. gr. reglugerðar nr. 707/2008. Þau viðskipti hefðu því vakið athygli og tortryggni á markaði og þannig haft veruleg áhrif á gengi hlutabréfa í stefnanda. Þá hefði salan vakið athygli annarra starfsmanna í bankanum og verið verulega líkleg til hafa keðjuverkandi áhrif á að starfsmenn hæfu stórfelldar sölur hlutabréfa.
Öll skilyrði 131. gr. laga nr. 21/1991 þurfa að vera uppfyllt til þess að riftun sé tæk á grundvelli ákvæðisins. Ekki verði fallist á að gerningurinn hafi rýrt eigur stefnanda. Helgist það fyrst og fremst á tvennu. Annars vegar verði ekki séð að nokkur verðmæti hafi verið fólgin í kröfum stefnanda þegar litið sé til heildarstöðu viðskipta stefnanda og stefnda og ólögmætrar markaðsmisnotkunar stjórnenda stefnanda. Hins vegar verði ekki framhjá því litið að stefnandi hafi uppskorið ríkulega af því að fella niður persónulegar ábyrgðir starfsmanna af umræddum lánum. Þannig hafi margföld verðmæti komið í stað hinnar niðurfelldu ábyrgðar ýmist með beinum hætti þannig að fyrirsjáanlegum sölum hafi verið forðað eða með óbeinum hætti með því að slaknaði hafi á söluþrýstingi starfsmanna. Þessi afstaða komi fram í lögfræðilegu áliti á dskj. nr. 25 og sé hún jafnframt staðfest með yfirlýsing stjórnar á dskj nr. 28 sem og með þeirri ákvörðun að yfirfæra lánin án endurgjalds yfir til Nýja Kaupþing banka hf., þrátt fyrir að ekkert lægi fyrir um könnun á greiðslugetu og greiðsluvilja stefnda.
Að því er varði skilyrði um að gerningur þurfi að mynda eignaauka hjá þeim sem njóti vísist til þess sem áður segi um verðmæti kröfuréttindanna í höndum stefnanda. Til viðbótar sé þess getið að 25. september 2008 hafi markaðsvirði veðsettra hluta verið 1.445.976.000 krónur og persónuleg ábyrgð stefnda á skuldbindingum samkvæmt lánssamningum til hlutabréfakaupa verið 793.062.941 krónur. Tryggingaþekja stefnda hafi staðið í 97,29% og markaðsverð hinna veðsettu hluta verið 182% af persónulegri ábyrgð hans á þeim degi. Um þetta megi vísa til dskj. nr. 29. Sé litið til þeirra röksemdafærslu sem stefnandi leggi upp með í þessu máli, þ.e. að heimtur af lánum séu ekki umfram fjárhæð persónulegrar ábyrgðar skuldara, sé ljóst að ekki nokkur eignaauki hafi myndast hjá stefnda við niðurfellingu ábyrgðarinnar, jafnvel þó svo að litið sé fram hjá öllum sjónarmiðum um annmarka á kröfum stefnanda.
Að því er varði skilyrði um að tilgangur gernings þurfi að vera að gefa hafi tilgangur niðurfellingar ábyrgðar verið að vernda stefnanda fyrir afleiðingum þess að starfsmenn, sem margir hafi verið innherjar, hæfu stórfelldar sölur á bréfum í stefnanda. Gerningurinn hafi fyrst og fremst verið hugsaður í þágu stefnanda með það fyrir augum að forða honum frá tjóni. Yfirlýsing stjórnar stefnanda á dskj. nr. 28 staðfesti það svo ekki sé um villst. Þannig sé ljóst að niðurfelling ábyrgðar hafi hvorki falið í sér rýrnun eigna hjá stefnanda né eignaauka hjá stefnda. Því síður sé unnt að fallast á að tilgangur niðurfellingarinnar hafi verið að gefa. Teljast því engin af skilyrðum 131. gr. laga nr. 21/1991 vera uppfyllt.
Það sé meginskilyrðið fyrir beitingu 141. gr. laga nr. 21/1991 að stefnandi hafi verið ógjaldfær eða orðið það vegna ráðstöfunar og að stefndi hafi verið grandsamur um ógjaldfærnina. Þann 25. september 2008 hafi engan órað fyrir þeim atburðum sem þá hafi átt eftir að eiga sér stað á komandi vikum. Þann dag hafi hið eiginlega bankahrun hér á landi ekki hafist og yfirvöld og eftirlitsaðilar unnið að því að koma bankakerfinu í gegnum ógnanir sem að geiranum hafi steðjað. Þann 22. september 2008 hafi stefnandi birt fréttatilkynningu þess efnis að hans hátign Seikh Mohammed Bin Khalifa hafi fjárfest í hlutabréfum í stefnanda.
Eftir setningu neyðarlaganna 6. október 2008 og eftir að rekstur Landsbanka Íslands hf. hafi verið tekinn yfir af Fjármálaeftirlitinu hafi stjórnendur stefnanda ennþá staðið keikir á afstöðu sinni um stöðu hans. Þannig hafi verið um það rætt 8. október sama ár að vegna sterkrar stöðu sinnar tæki stefnandi yfir starfsemi Landsbanka Íslands. Sá fréttaflutningur sýni glögglega að þeir atburðir sem markað hafi endalok reksturs stefnanda hafi ekki verið fyrirsjáanlegir í upphafi október 2008. Þá síður hafi það verið 25. september 2008. Í ljósi skilaboða sem stafað hafi frá stefnanda á þessum tíma sé fjarstæðukennt er að halda því fram að stefndi, sem ekki hafi haft þær upplýsingar sem stjórnendur bankans, Fjármálaeftirlitið eða Seðlabanki Íslands hafi haft, hafi getað séð fyrir ógjaldfærni stefnanda. Sönnunarbyrði um grandsemi hvíli á stefnanda í máli þessu, en ekkert sem fram hafi komið gefi minnstu ástæðu til að ætla að stefndi hafi mátt vita að stefnandi væri ógjaldfær. Ekki verði hjá því komist að benda á skyldur stefnanda til að um að krefjast gjaldþrotaskipta ef ljóst hefði verið að stefnandi var ógjaldfær, 3. mgr. 101. gr. laga um nr. 161/2002 og 2. mgr. 64. gr. laga um nr. 21/1991.
Jafnvel þó talið verði sannað að meginskilyrði um grandsemi stefnda sé uppfyllt verði ekki séð að ráðstöfunin hafi verið ótilhlýðileg. Vísist til þess sem fram hafi komið um niðurfellingu ábyrgðar stefnda, þ.e. að hún hafi fyrst og fremst verið gerð til að vernda stefnanda og að hann hafi með þeim hætti forðað stórfelldar og tilkynningarskyldar sölur starfsmanna á hlutum í félaginu. Þá hafi kröfuréttindi stefnanda ekki verið tæk m.t.t. ólögmætra aðgerða stjórnenda hans og stöðu lántaka og lánveitanda. Þannig geti ráðstöfunin ekki hafa verið stefnda sérstaklega til hagsbóta, rýrt eigur né leitt til skuldaaukningar stefnanda og því skilyrði 141. gr. laga nr. 21/1991 fyrir riftun ekki uppfyllt.
Samkvæmt 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 geti endurkrafa vegna riftun gerninga, sem fram fari á grundvelli 131. gr. sömu laga, aðeins numið þeirri fjárhæð sem kom þrotamanni að notum og eigi hærri fjárhæð en sem nemi tjóni þrotabúsins. Í 3. mgr. 141. gr. laga nr. 21/1991 segi að sá sem hag hafi af riftanlegri ráðstöfun skuli greiða bætur eftir almennum reglum. Eins og á hafi verið bent hafi ábyrgðarniðurfelling komið stefnda að litlum eða engum notum, enda markaðsvirði hinna veðsettu hluta numið 182% af fjárhæð persónulegrar ábyrgðar hans af lánssamningunum þann 25. september 2008. Sé litið til uppgreiðsluverðmætis lánssamningana sama dag megi ráða að heildarverðmæti hinna veðsettu hluta nemi um 97,3% hlut af þeirri fjárhæð, en aðeins hafi 40.278.623 krónur vantað upp á fulla tryggingaþekju. Um þetta megi vísa til dskj. nr. 29. Af því er varði umfang tjóns stefnanda geti ýtrasta lögmæta krafa stefnanda aðeins numið mismuni á uppgreiðsluverðmæti lánssamningana og markaðsvirði veðsettra hluta 25. september 2008, án þess að tillit sé tekið til nokkurra andmæla eða málsbóta stefnda.
Sérstaka heimild sé að finna í 145. gr. laga nr. 21/1991 til lækkunar eða niðurfellingar kröfu á hendur aðila sem talin er hafa haft hag af riftanlegri aðgerð, ef greiðsla kröfunnar sé svo miklum erfiðleikum bundin að ósanngjarnt megi teljast og önnur atvik leiði til hins sama. Að teknu tilliti til þess að veruleg rýrnun hafi átt sér á eignum stefnda frá 25. september 2008 og þeirra sjónarmiða sem lögð hafi verið fram um tilurð og gildi lánssamningana og annarra atriða sem framan séu greind sé þess krafist að kröfufjárhæð stefnanda verði felld niður eða lækkuð verulega.
Til vara lýsi stefndi yfir skuldajöfnuði við kröfu stefnanda. Krafa stefnda á hendur stefnanda sem nýtt sé til skuldajafnaðar sé skaðabótakrafa hans á hendur stefnanda fyrir að hafa með saknæmum og ólögmætum hætti komið í veg fyrir að hann gæti selt skuldabréf sín í stefnanda á almennum markaði áður en bréf stefnda í stefnanda urðu verðlaus vegna háttsemi stefnanda. Tjón stefnda vegna hinnar saknæmu og ólögmætu háttsemi stefnanda nemi verðmæti hlutabréfa hans í stefnanda á þeim tíma sem hin meinta riftanlega ráðstöfun hafi átt sér stað eða 1.445.976.000 krónur. Þess sé krafist að fjárhæð þessi verði metin sem full greiðsla á hverjum þeim skaðabótum sem komist verði að niðurstöðu um að stefnda beri að greiða stefnanda á grundvelli 3. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 og í raun einnig til greiðslu á auðgunarkröfu samkvæmt 1. mgr. 142. gr. sömu laga. Skaðabótakrafa stefnda byggi á hinni almennu sakarreglu. Verði ráðstöfun stefnanda rift sé ljóst að til hennar hafi verið stofnað með ólögmætum hætti. Þá sé einnig ljóst að stefnandi hafi með saknæmum hætti komið því til leiðar að stefndi teldi sig ekki bera persónulega ábyrgð á greiðslu lánssamninga sem tengdust hlutabréfakaupum hans í stefnanda. Með þessu hafi stefnandi komið í veg fyrir að stefndi seldi hlutabréf sín í stefnanda á meðan enn hafi verið verðmæti í þeim. Krafa stefnda á hendur stefnanda sé af sömu rót runnin og dómkröfur stefnanda í máli þessu. Þá séu báðar kröfur gjaldkræfar verði stefndi dæmdur til að greiða stefnanda skaðabætur. Þá sé augljóst að um gagnkvæmar kröfur sé að ræða. Að lokum sé öllum skilyrðum 100. gr. laga nr. 21/1991 fullnægt. Um heimild til að koma fram með skuldajafnaðarkröfu í greinargerð vísist til 1. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991.
Um lagarök vísar stefndi aðallega til ákvæða laga nr. 91/1991, sérstaklega 16. gr. Auk ofangreindar laga vísar stefndi til ákvæða laga nr. 7/1936, sérstaklega 30., 32., 33. og 36. gr., laga nr. 161/2002 og XX. kafla laga nr. 21/1991. Loks vísar stefndi til meginreglna skaðabótaréttar. Málskostnaðarkrafa er byggð á 129. gr., sbr. 130. gr. laga nr. 91/1991.
IV.
Niðurstaða:
Mál þetta varðar lánssamninga milli aðila þessa máls, annars vegar nr. 3057, sem undirritaður var 1. desember 2005 og hins vegar nr. 3399 sem undirritaður var 28. apríl 2006, hvoru tveggja í tilefni af kaupum stefnda á hlutabréfum í stefnanda. Samkvæmt lánssamningunum setti stefndi hin keyptu hlutabréf að handveði til tryggingar greiðslu skuldarinnar. Var undirrituð sérstök handveðsyfirlýsing þar að lútandi 1. desember 2005 og viðauki gerður við hana 28. apríl 2006. Samkvæmt ákvæðum í lánssamningi frá 1. desember 2005 undir yfirskriftinni takmörkun ábyrgðar skyldi ábyrgð stefnda takmarkast við andvirði handveðsins og viðbótartrygginga, en auk þess skyldi hann til viðbótar bera persónulega ábyrgð á greiðslu 10% skuldarinnar. Enga samsvarandi takmörkun varðandi persónulega ábyrgð var að finna í lánssamningi frá í apríl 2006. Þá höfðu báðir samningar að geyma ákvæði þess efnis að færi svonefnt veðhlutfall samkvæmt samningi niður fyrir 120% í a.m.k. 5 bankadaga samfleytt, skyldi stefndi að fenginni tilkynningu frá bankanum leggja fram frekari tryggingar þannig að veðhlutfall næði aftur 150%. Skyldi viðbótartryggingin lögð fram innan tilskilins frests. Samkvæmt ákvæðum um uppsögn samnings var stefnanda heimilt að segja upp samningnum m.a. í því tilviki ef stefndi legði ekki fram viðbótartryggingar innan hins tilskylda frests.
Með yfirlýsingu 25. september 2008 lýsti stefnandi því yfir að fallið væri frá allri persónulegri ábyrgð stefnda á greiðslu lánssamninga og að ábyrgð hans takmarkaðist við þau hlutabréf í stefnanda sem stefndi hefði sett að veði til tryggingar lánsskuldbindingunum. Með bréfi stefnanda til stefnda 17. maí 2010 lýsti stefnandi því yfir að rift væri þeirri ráðstöfun að fella niður persónulega ábyrgð stefnda á báðum lánssamningunum. Samfara því var stefndi krafinn um endurgreiðslu á þeirri auðgun sem stefnandi taldi stefnda hafa haft af ráðstöfuninni. Til vara var gerð skaðabótakrafa á hendur stefnda sömu fjárhæðar.
Sýknukrafa stefnda er í fyrsta lagi reist á aðildarskorti af hálfu stefnanda, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Í annan stað er hún reist á forsendum um skaðleysi starfsmanna vegna kaupa þeirra á hlutabréfum í stefnanda. Í þriðja lagi er sýknukrafan reist á ákvæðum 30., 32., 33., og 36. gr. laga nr. 7/1936. Loks er sýknukrafan reist á því að skilyrðum XX. kafla laga nr. 21/1991 fyrir riftun, endurgreiðslu eða greiðslu skaðabóta sé ekki fullnægt. Fyrst verður leyst úr því álitaefni hvort stefnandi þessa máls sé réttur eigandi þeirrar kröfu sem hann gerir í málinu.
Að því er aðild í málinu varðar reisir stefnandi hana á 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 7. gr. laga nr. 44/2009. Samkvæmt nefndu ákvæði megi krefjast riftunar á ráðstöfunum þrotamanns eftir sömu reglum og gildi um riftun ráðstafana þrotamanns við gjaldþrotaskipti, ef ekki sé sýnt að eignir fjármálafyrirtækis muni nægja fyrir efndum skuldbindinga þess að fullu. Enda þótt lánssamningar þeir sem hin persónulega ábyrgð stefnda hafi lotið að hafi verið framseldir Nýja Kaupþing banka hf. með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 21. október 2008 standi slíkt ekki í vegi því að stefnandi krefjist riftunar umræddra ráðstafana enda verið að endurheimta verðmæti sem stefnandi hafi gefið eftir fyrir framsal kröfuréttindanna til Nýja Kaupþings banka hf. Stefnandi og kröfuhafar hans hafi þannig orðið fyrir verðmætamissi sem stefnandi vilji endurheimta.
Stefndi rökstyður sýknukröfu sína að þessu leyti með því að stefnandi geti ekki krafist riftunar á grundvelli XX. kafla laga nr. 21/1991 eftir að kröfuréttindi samkvæmt lánssamningunum hafi verið framseld Nýja Kaupþing banka hf. Stefnandi sé ekki lengur eigandi fjárkröfunnar eða skaðabótakröfunnar. Stefnandi hafi ekki verið undir gjaldþrotaskiptum er framsalið hafi átt sér stað né í öðru því ferli sem veiti honum heimild til að rifta ráðstöfun samkvæmt XX. kafla laga nr. 21/1991. Hafi hann ekki öðlast riftunarheimildir fyrr en eftir að réttarsambandi hans og stefnda hafi lokið. Þá sé skaðabótakrafan vanreifuð.
Með auglýsingu 9. október 2008 tók Fjármálaeftirlitið yfir vald hluthafafundar í stefnanda og vék félagsstjórn í heild sinni frá störfum þegar í stað. Skipaði Fjármálaeftirlitið jafnframt skilanefnd sem tók við öllum heimildum stjórnar félagsins samkvæmt ákvæðum laga um hlutafélög nr. 2/1995 í samræmi við 100. gr. a laga nr. 161/2002. Skyldi skilanefndin m.a. hafa umsjón með allri meðferð bankans, svo og að annast rekstur hans. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 21. október 2008 um ráðstöfun eigna og skulda stefnanda til Nýja Kaupþing banka hf. var öllum eignum stefnanda ráðstafað til Nýja Kaupþing banka hf. Samkvæmt 1. tl. í ákvörðuninni gilti það m.a. um öll kröfuréttindi stefnanda. Í samræmi við það voru lánssamningar stefnanda og stefnda framseldir Nýja Kaupþing banka hf. Á dskj. nr. 8 liggur fyrir að bókfært verð útlána tengdum hlutabréfakaupum lykilstarfsmanna stefnanda 21. október 2008 hafi verið 55.360.430.370 krónur en mat þeirra í stofnefnahagsreikningi Nýja Kaupþing banka hf. sem útbúinn hafi verið af Fjármálaeftirlitinu hafi verið 0 krónur. Stefnanda var veitt heimild til greiðslustöðvunar 24. nóvember 2008. Að beiðni skilanefndar skipaði Héraðsdómur Reykjavíkur slitastjórn fyrir stefnanda 25. maí 2009. Með auglýsingu í Lögbirtingablaði 30. júní 2009 var lýst eftir kröfum í stefnanda og rann kröfulýsingafrestur út 30. desember 2009.
Samkvæmt 3. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002 má krefjast riftunar eftir sömu reglum og gilda um riftun ráðstafana við gjaldþrotaskipti, ef ekki er sýnt að eignir fjármálafyrirtækis í slitameðferð muni nægja til að efna skuldbindingar þess að fullu. Samkvæmt XX. kafla laga nr. 21/1991, sbr. lög nr. 161/2002, er það einungis fjármálafyrirtæki í slitameðferð sem getur beitt riftunarúrræðum kaflans. Framsalshafi kröfuréttindanna á þess á ekki kost, en af því leiðir að Nýja Kaupþing banki hf. eða Arion banki hf. gátu ekki nýtt riftunarúrræði XX. kafla laga nr. 21/1991. Riftunar- og endurgreiðsluákvæði XX. kafla laga nr. 21/1991 eru opinbers réttar eðlis og hafa það að markmiði að endurheimta verðmæti sem gefin hafa verið eftir í aðdraganda gjaldþrots. Á meðan frestir til slíkra ráðstafana eru virtir eru heimildir þessar tiltækar þrotabúum, í þessu tilviki fjármálafyrirtæki í slitameðferð, þar sem þessar ráðstafanir geta einungis leitt til þess að krafan auðgist. Reglur gjaldþrotaréttar víkja í veigamiklum atriðum til hliðar reglum kröfuréttar er annars gilda. Þannig getur stefnandi beitt þessum úrræðum, óháð framsali kröfu, svo lengi sem lögbundnir frestir til ráðstafana eru virtir. Önnur niðurstaða gæti leitt til óeðlilegrar auðgunar þess sem notið hefur góðs af ráðstöfuninni. Mál þetta varðar ráðstöfun sem gerð var innan 6 mánaða frá frestdegi, sem var 15. nóvember 2008, sbr. ákvæði III til bráðabirgða í lögum nr. 44/2009. Rann frestur til að lýsa kröfum í stefnanda út 30. desember 2009. Mál það sem hér er til meðferðar var höfðað með stefnu birtri 28. júní 2010. Var stefnandi innan þess frests sem mælt er fyrir um í 4. mgr. 103. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 7. gr. laga nr. 44/2009 og 148. gr. laga nr. 21/1991. Með hliðsjón af þessu verður hafnað kröfu stefnda um sýknu á grundvelli aðildarskorts. Þá hefur stefnandi gert nægjanlega grein fyrir kröfu sinni þannig að á hana verði lagður dómur. Verður henni ekki vísað frá dómi á grundvelli vanreifunar.
Næst verður leyst úr þeim efnisvörnum stefnda að fyrir hafi legið loforð af hálfu stefnanda um að hann tryggði skaðleysi lykilstarfsmanna vegna kaupa þeirra á hlutabréfum í stefnanda. Að því er þessa málsástæðu varðar byggir stefndi sýknukröfu sína á því að margsinnis hafi verið lýst yfir að hálfu fyrirsvarsmanna stefnanda að stefndi skyldi verða skaðlaus af þátttöku sinni í því hvatakerfi bankans sem varðar kaup á hlutabréfum í bankanum ef verðfall yrði á bréfum í bankanum. Hafi komið skýrt fram í almennri stefnu stefnanda að lykilstarfsmenn stefnanda sem þeirra kjara nytu að kaupa hlutabréf í stefnanda skyldu vera skaðlausir af kaupunum ef verð þeirra félli. Hafi stefnandi ákveðið að nýta sér ekki ákvæði í lánssamningum um uppsögn lánssamninga og samhliða sölu bréfa til að takmarka tjón sitt eins og forsendur samkomulagsins hafi gert ráð fyrir og yfirlýst stefna stefnanda um að tryggja skaðleysi starfsmanna sinna hafi byggst á. Þá hafi stefnandi beinlínis lagst gegn því að yfirmenn seldu hlutabréf sín í stefnanda.
Við úrlausn um að hvaða marki fyrir liggi yfirlýsing um skaðleysi lykilstarfsmanna stefnanda af hlutabréfakaupum verður fyrst leyst úr því á hvern veg fjallað hafi verið um skaðleysið í þeim skriflegu sönnunargögnum sem lögð hafa verið fram í máli þessu og til urðu fyrir 9. október 2008. Samkvæmt fundargerð stjórnarfundar í stefnanda 7. júní 2000 lá fyrir fundinum að gera tillögu til hluthafafundar 19. júní 2000 vegna skráningar stefnanda á Verðbréfaþing Íslands. Hluti tillögunnar varðaði útboðsskilmála. Samkvæmt 4. tl. þeirrar tillögu yrði samhliða útboði og skráningu á Verðbréfaþingi Íslands gengið frá kaupréttarsamningi við starfsmenn. Samkvæmt tillögunni skyldu allir starfsmenn sem hefðu unnið a.m.k. 12 mánuði samfellt í fullu starfi fá kauprétt í mismunandi hlutföllum samkvæmt ákvörðun forstjóra og stjórnar. Samsvarandi tillaga er aftur tekin fyrir á stjórnarfundi í stefnanda 7. júní 2000 sem skyldi lögð fyrir hluthafafundinn 19. júní 2000. Þá liggur fyrir í gögnum málsins yfirlit af vef stefnanda frá 29. mars 2004. Samkvæmt því yfirliti á aðalfundur stefnanda 27. mars 2004 að hafa fjallað um valrétt á hlutabréfum til starfsmanna og stjórnenda bankans. Fram kemur að stefnandi hafi gert starfsmönnum kleift að kaupa hluti í stefnanda. Þá kemur fram að aðalfundur staðfesti að rétt sé að viðhalda sömu stefnu og að kaup- og söluréttur til starfsmanna geti á hverjum tíma numið í heild allt að 9% af útgefnum hlutum í bankanum. Í gögnum málsins liggur fyrir ræða formanns launanefndar stefnanda, sem hann flutti á aðalfundi stefnanda 27. mars 2004. Í ræðunni víkur formaðurinn að því að við samruna Kaupþings og Búnaðarbanka Íslands hafi stjórn stefnanda skipað launanefnd til að sinna skyldum stjórnar í málum sem vörðuðu laun og kaupréttaráætlanir stjórnenda. Hafi launanefnd verið falið það verkefni að tryggja að stjórnendur hefðu hvata til að auka verðmæti félagsins fyrir hluthafa til langs tíma. Síðar í ræðunni víkur formaður launanefndar að því að starfandi stjórnarformanni og forstjóra verði boðinn valréttur á hlutum í stefnanda. Verði þeim skylt að eiga bréfin í hverri árlegri úthlutun í a.m.k. 3 ár. Fyrirkomulagið veiti lykilstarfsmönnum hvata til að halda tryggð við bankann til lengri tíma og samtvinni fjárhagslega hagsmuni þeirra við hagsmuni hluthafa. Muni stefnandi bjóða þeim lán til að gera þeim kleift að kaupa bréfin. Enginn viti hvert gengi bréfa verði eftir 3 eða 8 ár. Valréttir gætu leitt til mikils fjárhagslegs tjóns fyrir þá einstaklinga sem um ræði ef valréttarsamningar innihéldu ekkert öryggisnet. Það væri sannarlega óásættanlegt fyrir viðkomandi einstaklinga og slík áhætta einnig óásættanleg fyrir bankann. Þá kemur fram að á sama tíma og stefnandi vilji gefa lykilstarfsmönnum kost á að njóta talsverðs ávinnings til samræmis við aðra hluthafa geri stefnandi þá kröfu að lykilstarfsmenn taki ekki sjálfir óásættanlega fjárhagslega áhættu ef svo færi að gengið lækkaði. Stjórn telji mikilvægt að söluréttir séu til staðar ef svo færi að gengi bréfa lækkaði með hliðsjón af meginreglu áhættustýringar. Söluréttur sé hugtak sem merki að aðilar valréttarsamnings geti selt stefnanda bréfin aftur ef gengi þeirra lækki niður fyrir kaupgengið að viðbættum vaxtakostnaði. Þannig séu þeir varðir gegn persónulegu tjóni. Þá liggur fyrir í gögnum málsins afrit fundargerðar stjórnarfundar stefnanda frá 28. september 2005. Undir 8. tl. fundargerðar var fjallað um launamál og kaup starfsmanna á hlutabréfum í stefnanda. Fram kemur að starfsmenn, forstjóri og stjórnarformaður skuli fjármagna kaup á hlutabréfum með lánum frá stefnanda. Í niðurlagi er tekið fram að stjórn óski eftir því að ,,measures be adressed“ til að takmarka áhættu lykilstarfsmanna vegna hugsanlegrar lækkunar hlutabréfaverðs. Í þýðingu á dskj. nr. 41 hefur hin enska setning verið þýdd þannig að hugað yrði að ráðstöfunum en á dskj. nr. 63 liggur frammi endurskoðuð þýðing sama þýðanda þar sem hann hefur þýtt setninguna þannig að gripið verði til ráðstafana. Á dskj. nr. 65 er skýrsla ytri endurskoðanda stefnanda frá í febrúar 2008. Undir umfjöllun um lán til tengdra aðila eða starfsmanna kemur fram að lán til nokkurra starfsmanna, bæði almennra starfsmanna og lykilstarfsmanna hafi hækkað og verið hærri en markaðsverð trygginga þeirra í árslok 2007. Stjórn stefnanda hafi ákveðið að hún myndi hvorki óska eftir frekari tryggingum frá starfsmönnum né knýja á um að þeir seldu hlutabréf sín. Loks liggur frammi afrit fundargerðar frá stjórnarfundi sem haldinn var í stefnanda 25. og 26. september 2008. Undir lið um launanefnd er fært að formaður launanefndar hafi rætt skýrslu launanefndar. Helsta áhyggjuefni væru ákvæði um lán til starfsmanna til að fjármagna kaup á hlutabréfum í stefnanda. Launanefndinni hafi verið kunnugt um vandamálið í nokkurn tíma og rætt það. Ráðstafanir hefðu verið gerðar til að sporna við neikvæðum áhrifum á starfsmenn og þeir fullvissaðir um að leyst yrði úr vandanum. Sú staðreynd að stefnandi hafi lagt áherslu á að lykilstarfsmenn ættu hlutabréf til lengri tíma hefði í raun takmarkað möguleika þeirra til að selja hlutabréfin í þeim tilgangi að draga úr persónulegri áhættu. Loks er tekið fram að samkvæmt tillögu launanefndar hafi stjórn samþykkt að veita forstjóra leyfi til að fella úr gildi persónulegar ábyrgðir starfsmanna vegna lána sem þeir hafi fengið til hlutabréfakaupanna í þeim tilgangi að tryggja að þeir gætu einbeitt sér að því að sinna skyldum sínum fyrir stefnanda. Ábyrgð starfsmanna skyldi takmarkast við hlutabréfin sem sett hafi verið að veði.
Óumdeilt er að engar skriflegar yfirlýsingar liggi fyrir í málinu, sem út hafa verið gefnar fyrir 25. september 2008 og beint hefur verið til stefnda sérstaklega, þar sem skýrt er tekið fram af hálfu fyrirsvarsmanna stefnanda að stefndi skuli vera öldungis skaðlaus af hlutabréfakaupum sínum í stefnanda í því tilviki að verðfall verði á hlutabréfum í stefnanda. Við aðalmeðferð málsins voru leiddir fyrir dóminn fyrrverandi formaður launanefndar stefnanda, þrír fyrrverandi stjórnarmenn í stefnanda, fyrrverandi forstjóri stefnda, fyrrverandi framkvæmdastjóri lögfræðisviðs stefnanda og fyrrverandi starfsmannastjóri stefnanda. Það var einróma afstaða þeirra sem skýrslu gáfu að fyrir hafi legið með skýrum hætti að lykilstarfsmenn sem tekið hafi þátt í hvatakerfi bankans með því að kaupa hlutabréf í stefnanda gegn láni frá stefnanda, skyldu vera skaðlausir ef gengi bréfa í stefnanda myndi falla. Var því lýst hvernig hvatakerfi bankans hafi verið byggt upp þar sem tengdir hafi verið saman hagsmunir eigenda stefnanda og hagsmunir lykilstarfsmanna. Kom fram í þessum framburðum að skaðleysi starfsmanna hafi í upphafi verið tryggt með svonefndum sölurétti starfsmanna á hlutabréfum. Vegna nýrra reglna um útreikning eiginfjár stefnanda hafi þurft að fella niður sölurétt starfsmanna og hafi það verið gert í lok árs 2005. Hafi stjórn bankans ekki haft með höndum útfærslu á skaðleysisákvæðinu en af því verður að álykta að forstjóra stefnanda hafi verið falið það hlutverk að leysa úr því máli. Ekki varð upplýst við skýrslutökur hver hafi haft það hlutverk með höndum en þeir er skýrslur gáfu voru sammála um að í stað söluréttar hafi verið tekin upp ákvæði um svonefnda veðþekju og 10% ábyrgð á lánssamningum. Reynslan hafi hinsvegar leitt í ljós að hin nýju ákvæði hafi ekki tryggt algert skaðleysi lykilstarfsmanna. Þá hafi legið fyrir að starfsmennirnir mættu ekki selja bréf sín þar sem þau hafi verið langtímafjárfesting, auk þess sem samþykki stefnanda hafi þurfti fyrir hverri og einni sölu í ljósi handveðssamninga.
Svo sem áður er rakið hefur stefndi staðhæft að söluréttur hafi fylgt þeim hlutabréfum sem keypt hafi verið á grundvelli þeirra lánssamninga sem gerðir hafi verið frá því starfsmenn áttu þess kost að kaupa hlutabréf í stefnanda þar til í lok árs 2005. Með sölurétti hafi skaðleysi stefnda verið tryggt. Að sölurétti er vikið í ræðu formanns launanefndar hér að framan. Er lýst yfir mikilvægi þess að söluréttir séu til staðar. Söluréttur sé hugtak sem merki að aðilar valréttarsamnings geti selt bréfin aftur ef gengi þeirra lækki niður fyrir kaupgengið að viðbættum vaxtakostnaði. Þá kemur fram á yfirliti um aðalfund stefnanda 27. mars 2004 að aðalfundur hafi staðfest að rétt væri að viðhalda sömu stefnu og að kaup- og söluréttur til starfsmanna geti á hverjum tíma numið í heild allt að 9% af útgefnum hlutum í bankanum. Aðilar þessa máls undirrituðu samning 19. nóvember 2003 um kaup, sölurétt og kauprétt á hlutum í Kaupþingi Búnaðarbanka hf. í tilefni af kaupum stefnda á hlutum í bankanum. Í 9. gr. þessa samnings er kveðið á um sölurétt á hlutum og verð á sölurétti. Í greininni er lýst hvernig söluréttur er reiknaður út. Að sölurétti var auk þess vikið í framburðum þeirra er skýrslur gáfu hér fyrir dómi svo sem áður var rakið.
Stefndi heldur því fram að skaðleysi af hlutabréfakaupum hafi verið eðlilegur fylgifiskur þess að stefnda hafi verið óheimilt að selja þau hlutabréf sem hann hafi keypt sem hluta af hvatakerfi stefnanda. Þessari staðhæfingu hefur stefnandi mótmælt. Hefur stefnandi staðhæft að stefndi hafi getað selt hlutabréf í bankanum hafi hann eftir því leitað. Það hafi hann hins vegar ekki gert með formlegum hætti. Að framan er rakið úr fundargerðum stjórnarfunda stefnanda og úr ræðu formanns launanefndar að stefnt hafi verið að því að fjárfestingar lykilstarfsmanna í hlutabréfum í stefnanda skyldu vera langtímafjárfestingar. Hafi stjórnarformanni stefnanda og forstjóra stefnanda verið óheimilt að selja hlutabréf þau er keypt hafi verið sem hluti af hvatakerfi stefnanda. Í framburðum þeirra er fyrir dóminn komu kom einnig skýrt fram að ætlast hafi verið til að lykilstarfsmenn sem tækju þátt í hvatakerfinu myndu eiga hlutabréf þau sem keypt væru til langframa. Fyrrverandi stjórnarformaður stefnanda og fyrrverandi forstjóri lýstu því að skilaboð hafi átt að vera starfsmönnum ljós, að þeir hafi átt að eiga hlutabréfin til langframa. Fyrrverandi stjórnarformaður kvaðst ekki muna eftir tilviki þar sem starfsmanni hafi verið neitað um sölu. Fyrrverandi forstjóri lýsti því að einhver dæmi hafi verið um það að starfsmenn fengju að selja hlutabréf. Hafi það verið vegna persónulegra aðstæðna viðkomandi. Fyrrverandi framkvæmdastjóri lögfræðisviðs kvað einnig ljóst vera að ef lykilstarfsmaður hafi hætt í bankanum hafi honum verið heimilt að selja bréf sín. Þá liggur fyrir að á árinu 2006 færði fyrrverandi forstjóri stefnda hlutabréfaeign sína og lán þeim tengdum í einkahlutafélag. Stefnandi hefur lagt fram skýrslu PricewaterhouseCoopers hf. frá 1. desember 2010 varðandi lán til starfsmanna stefnanda vegna hlutabréfakaupa í bankanum. Í skýrslunni er tekið fram að PricewaterhouseCoopers hf. hafi rannsakað starfsemi stefnanda fyrir slitastjórn stefnanda samkvæmt sérstökum samningi þar um. Fram kemur að framkvæmd hafi verið ítarleg rannsókn á hlutabréfaviðskiptum starfsmanna stefnanda og lánveitingar þeim tengdum á árunum fyrir fall bankans. Viðskipti starfsmanna hafi verið tekin til skoðunar á árunum 2007 og 2008 og meðal þeirra gagna sem rannsökuð hafi verið hafi verið listi regluvarðar yfir hlutabréfaviðskipti starfsmanna, en samkvæmt reglum stefnanda hafi starfsmönnum borið skylda til að tilkynna regluverði um öll verðbréfaviðskipti sín. Hafi regluvörður í framhaldinu tekið afstöðu til viðskiptanna með tilliti til stöðu viðkomandi og hvort viðkomandi byggi yfir innherjaupplýsingum á viðskiptadegi. Skýrsluhöfundur kemst að þeirri niðurstöðu að á árunum 2007 til 2008 hafi 42 starfsmenn sem fengið hafi lánafyrirgreiðslu vegna hlutabréfakaupa í 94 tilvikum selt hlutabréf í bankanum. Að því verður að gæta að ekki kemur fram í framangreindri rannsókn hvort rannsóknin hafi tekið mið af því hvort starfsmenn stefnanda hafi í einhverju tilvika verið að selja hlutabréf utan hvatakerfis bankans.
Bæði þau sönnunargögn er til urðu fyrir 9. október 2008 sem og þeir framburðir er gefnir voru fyrir dóminum leiða í ljós tiltekin meginatriði varðandi kaup lykilstarfsmanna á hlutabréfum í stefnanda. Er þar vikið að áhættu því samfara að lykilstarfsmenn eigi hlutabréf í stefnanda sem keypt hafi verið fyrir lán frá stefnanda sjálfum og nauðsyn á því að takmarka þá áhættu. Þó svo ýmis gögn hafi verið lögð fram er varða atburði fyrir 9. október 2008 felst að mati dómsins í engu þeirra afdráttarlaus yfirlýsing um algert skaðleysi starfsmanna af hlutabréfakaupum ef frá er talin yfirlýsingin frá 25. september 2008 og fundargerð tengd henni. Loks liggja engin ótvíræð skrifleg sönnunargögn frammi um algert sölubann lykilstarfsmanna á bréfum, en framlögð gögn þykja fremur benda til að slíkt hafi verið heimilað hafi eftir því verið leitað. Þá verða ummæli fyrrverandi stjórnarformanns stefnanda í niðurlagi dskj. nr. 23 ekki skilin á annan veg en að nánast allir starfsmenn stefnanda hafi getað selt hluti sína og greitt upp skuldir. Skýrslugjafar hér fyrir dómi hafa hins vegar lýst því yfir að skaðleysið skyldi vera algert og um ótvírætt sölubann hafi verið að ræða. Við mat á þeim yfirlýsingum verður ekki fram hjá því litið að þær eru til komnar eftir að mál þetta var höfðað og varða auk þess persónulega hagsmuni sumra þeirra er skýrslu gáfu. Fallast má á með stefnda að söluréttur á hlutabréfum hafi tryggt stefnda fyrir áhættu tengdri hlutabréfakaupum. Hins vegar liggur ekki fyrir af hvaða ástæðu ákveðið hafi verið samhliða afnámi söluréttar að takmarka persónulega ábyrgð lykilstarfsmanna við 10% lánsfjárhæðarinnar. Liggur jafnframt ekki fyrir hver hafi annast þessa útfærslu ákvæðanna, auk ákvæðanna um veðþekju. Þessi ákvæði þykja á hinn bóginn veita vísbendingar um að ákveðið hafi verið að starfsmenn skyldu bera einhverja takmarkaða persónulega ábyrgð á lánum sem þeir tóku til hlutabréfakaupa. Að öllu framangreindu virtu er óhjákvæmilegt að líta svo á að ósannað sé gegn andmælum stefnanda að stefnda hafi frá því hann tók fyrst lán hjá stefnanda til hlutabréfakaupa verið lofað algeru skaðleysi af hlutabréfakaupum í stefnanda. Verður sýknukröfu stefnda á þessari forsendu því hafnað.
Þriðja sýknukrafa stefnda er reist á ákvæðum laga nr. 7/1936. Í því efni er vísað til 30., 32., 33. og 36. gr. laganna. Umrædd ákvæði varða svik við samningsgerð, rangar forsendur, óheiðarleg atvik við samningsgerð og loks að ósanngjarnt sé af stefnanda og andstætt góðri viðskiptavenju að bera fyrir sig lánssamningana sem gerðir hafi verið vegna kaupa á hlutabréfum í stefnanda. Byggir stefndi á því varðandi svik að fram komi í skýrslu rannsóknanefndar Alþingis að stjórnendur stefnanda hafi beitt svikum í starfsemi stefnanda. Hafi þeir í krafti stöðu sinnar beitt stefnda miklum þrýstingi til hlutabréfakaupa þess vitandi að verði hlutabréfa væri haldið uppi með svikum og blekkingum. Að því er varði rangar forsendur hafi aðgerðir stefnanda við að ,,blása upp“ markaðsvirði hlutabréfa í stefnanda skapað rangar forsendur. Þá geti stefnandi ekki haldið við lánssamninga þar sem það væri óheiðarlegt vegna atvika sem fyrir hendi hafi verið við samningsgerðina. Þá hafi stefnandi ekki hegðað sér eins og gott og gegnt fjármálafyrirtæki með því að hafa ekki selt hlutabréf stefnda þrátt fyrir að veðhlutfall lánssamninga hafi verið komið niður fyrir mörk að næði til að fullnægja kröfum um veðhlutfall samninga. Aðgerðarleysi stefnanda hafi ekki verið í samræmi við væntingar stefnda til þess hvernig samningar yrðu framkvæmdir.
Lánssamningar þeir er mál þetta varða hafa að geyma uppsagnarákvæði, sbr. 9. gr. samningsins frá 2005 og 8. gr. samningsins frá 2006. Eru ákvæði samninganna samhljóða að þessu leyti til. Samkvæmt d. lið uppsagnarákvæða beggja samninga var stefnanda heimilt að segja upp láninu einhliða og fyrirvaralaust ef stefndi legði ekki fram viðbótartryggingar innan tilskilins frests samkvæmt 5. gr. samningsins, ef tryggingaábyrgðir að baki láni væru ekki fullnægjandi eða lántaki bryti gegn ákvæðum um handveðsyfirlýsingar sem gefnar hafi verið út í tengslum við samninginn. Samkvæmt þessu var gjaldfellingarákvæði samninganna tengt veðhlutfalli heimildarákvæði til handa stefnanda en honum bar engin skylda til þess þó svo skilyrðum ákvæðisins væri fullnægt. Stefndi var yfirmaður fjárfestingabankasviðs samstæðu stefnanda er stefnanda var skipuð skilanefnd og því einn af lykilstarfsmönnum stefnanda. Hóf hann störf hjá stefnanda á árinu 1997. Hafði hann því að baki langan starfsferil í bankanum. Honum var því mæta vel ljós áhætta tengd viðskiptum með hlutabréf sem fólst í von um hagstæða framvindu að gjalddaga. Sú áhætta verður almennt ekki takmörkuð. Hann naut töluverðs arðs af hlutabréfakaupum sínum, svo sem hann sjálfur hefur viðurkennt, en samkvæmt yfirliti PricewaterhouseCoopers hf. frá 24. mars 2011 nam arður stefnda af hlutabréfaeign sinni, að frádregnum 10% fjármagnstekjuskatti, alls 34.473.250 krónum fyrir árið 2008. Áður var komist að þeirri niðurstöðu að ósannað sé að stefnda hafi verið óheimilt að selja hlutabréf sín í stefnanda. Fram hefur komið að starfsmenn stefnanda sendu starfsmönnum tilkynningar um veðþekju lána þegar þekjan fór niður fyrir viðmiðunarmörk. Stefndi hafði því fulla yfirsýn yfir verðmæti hlutabréfa sinna og þróun virðis þeirra í tengslum við lánssamninga. Stefndi hefur staðhæft að stefnandi hafi með ólögmætum hætti haldið uppi markaðsverði hlutabréfa í stefnanda og vísað um það til skýrslu rannsóknanefndar Alþingis. Réttmæti þeirrar málsástæðu er ósannað. Þegar þessi atriði eru virt verður ekki fallist á með stefnda að atvik leiði til þess að stefndi geti borið fyrir sig ákvæði laga nr. 7/1936 um svik, óheiðarleika eða forsendubrest samhliða framferði stefnanda í tengslum við lánssamningana eða að atvik valdi því að ósanngjarnt sé af hálfu stefnanda að bera fyrir sig lánssamningana. Aðrar röksemdir stefnda að þessu leyti breyta ekki þessari niðurstöðu.
Stefnandi byggir riftunarkröfu sína aðallega á því að eftirgjöf hinnar persónulegu ábyrgðar stefnda sé gjöf sem sé riftanleg á grundvelli 131. gr. laga nr. 21/1991, en samkvæmt ákvæðinu megi krefjast riftunar á gjafagerningi ef gjöfin hafi verið afhent á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag. Hin umþrætta niðurfelling og þar með gjafagerningurinn hafi átt sér stað 25. september 2008 en frestdagur sé 15. nóvember 2008. Uppfyllt séu þau skilyrði ákvæðisins að gjöfin hafi rýrt eignir skuldara, að gjöfin hafi leitt til auðgunar móttakanda og að tilgangurinn með gerningnum hafi verið að gefa.
Stefndi reisir sýknukröfu sína að þessu leyti til á því að ekki verði séð að nein verðmæti hafi verið fólgin í kröfum stefnanda þegar litið sé til heildarstöðu viðskipta stefnanda og stefnda og ólögmætrar markaðsmisnotkunar stjórnenda stefnanda. Hins vegar verði ekki litið fram hjá því að stefnandi hafi uppskorið ríkulega af því að fella niður persónulegar ábyrgðir af umræddum lánum. Þannig hafi fyrirsjáanlegum sölum verði forðað auk þess sem slaknað hafi á söluþrýstingi starfsmanna. Markaðsvirði veðsettra hluta 25. september 2008 hafi verið 1.445.976 krónur og persónuleg ábyrgð stefnda á skuldbindingum 793.062.941 króna. Enginn eignaauki hafi myndast hjá stefnda við niðurfellingu ábyrgðarinnar. Þá hafi gerningurinn verið hugsaður í þágu stefnanda til að forða honum frá tjóni og því ekki því skilyrði fullnægt að tilgangurinn hafi verið að gefa.
Samkvæmt þeim lánssamningum er mál þetta varðar bar stefndi persónulega ábyrgð á 10% af lánsfjárhæðinni af fyrri samningnum en persónulega ábyrgð á öllum þeim síðari. Áður hefur dómurinn komist að þeirri niðurstöðu að stefnda hafi ekki tekist sönnun þess að honum hafi verið óheimilt að selja hlutabréf sín í stefnanda og að stefnda hafi ekki borið skylda til að selja hlutabréfin eftir að veðþekjan tók að lækka. Þá hafi stefndi ekki sýnt fram á að stefnandi hafi lofað honum algeru skaðleysi af kaupum á hlutabréfum í bankanum. Samkvæmt yfirliti PricewaterhouseCoopers hf. frá 25. mars 2010 nam uppgreiðsluverðmæti lánssamnings nr. 3057 þann 25. september 2008 alls 765.329.744 krónum. Ef miðað er við 10% af þeirri fjárhæð nemur uppgreiðsluverðmæti þess hluta sama dag 76.532.974 krónum. Að því er varðar samning nr. 3399 nam uppgreiðsluverðmæti þess samnings á þessum degi 720.966.310 krónum. Af lánsfjárhæðinni var 155.623.678 krónum varið til annars en hlutabréfakaupa. Uppgreiðsluverðmæti þess hluta sem var varið til hlutabréfakaupa nam því 565.342.632 krónum. Ef miðað er við uppgreiðsluverðmæti beggja samninga að því er varðar persónulega ábyrgð stefnda nemur fjárhæðin 641.875.606 krónum. Samkvæmt þessu bar stefndi 25. september 2008 persónulega ábyrgð á greiðslu fjárskuldbindingar sem á þeim degi nam alls 641.875.606 krónum. Með yfirlýsingu fyrrverandi forstjóra stefnanda þann dag var sú ábyrgð felld niður. Af því leiðir að eign stefnandi rýrnaði með samsvarandi hætti. Stefndi auðgaðist í réttu hlutfalli við það. Með hliðsjón af þeirri niðurstöðu dómsins að stefnda hafði ekki verið lofað algjöru skaðleysi af hlutabréfakaupum í stefnanda verður ekki litið á yfirlýsingu fyrrverandi forstjóra stefnanda sem annað en gjöf í skilningi 131. gr. laga nr. 21/1991. Með hliðsjón af þessu verður fallist á kröfu stefnanda um að rift verði með dómi ráðstöfun Kaupþings banka hf. 25. september 2008 um að fella niður persónulega ábyrgð stefnda á greiðslu lánssamnings nr. 3005 sem dagsettur er 1. desember 2005 og lánssamnings nr. 3399 sem dagsettur er 28. apríl 2006.
Þá gerir stefnandi kröfu samkvæmt 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 að stefndi verði dæmdur til að endurgreiða stefnanda þá fjárhæð sem hann auðgaðist um við ákvörðun um niðurfellingu hinnar persónulegu ábyrgðar. Gegn þeirri kröfu teflir stefndi fram kröfu um að gagngjald sem komi til frádráttar, enda mæli 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 fyrir um greiðslu fjármuna sem svari til þess sem greiðsla þrotamanns komi riftunarþola að notum. Stefndi byggir á því að sér sé einungis skylt að endurgreiða þá auðgun sem hann hafi haft af ráðstöfuninni. Í því sambandi verði að meta þau fjárhagslegu verðmæti sem felist í gagngjaldi hans. Það sé óhjákvæmilegt að draga frá láni starfsmanna verðmæti þess hlutafjár sem sett hafi verið að veði fyrir skuldinni miðað við gengi hlutabréfa í stefnanda 25. september 2008. Verðmæti hinna veðsettu hluta þann dag hafi numið 1.445.976.000 krónum. Verði litið svo á að stefndi hafi haft hagsmuni af ráðstöfuninni og hún talin riftanleg byggi stefndi á að ráðstöfunin hafi aðeins komið sér að notum að svo miklu leyti sem hann hafi borið persónulega ábyrgð á greiðslu krafna hans í stefnanda þann dag sem ráðstöfunin hafi átt sér stað. Að teknu tilliti til þess sé hagnaður stefnda auðsjáanlega enginn.
Samkvæmt 1. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 skal sá sem hag hafði af riftanlegri ráðstöfun greiða þrotabúinu fé sem svarar til þess sem greiðsla þrotamannsins hefur orðið honum að notum, þó ekki hærri fjárhæð en sem nemur tjóni þrotabúsins. Með hliðsjón af því sem áður sagði nam fjárkrafa stefnanda á hendur stefnda 28. september 2008 samtals 641.875.606 krónum. Að auki setti stefndi stefnanda að handveði hluti í stefnanda. Fjárhæðin 641.875.606 krónur hefði komið stefnanda að notum ef ekki hefði komið til sú yfirlýsing er nú hefur verið rift. Ekki verður fallist á með stefnda að rétt sé að draga frá fjárhæðinni andvirði hinna veðsettu hlutabréfa miðað verðmæti þeirra 25. september 2008. Er málið ófullbúið varðandi slíka kröfu en stefndi hefur t.a.m. ekki sýnt fram á verðmæti bréfanna á þeim degi með öðru en eigin yfirliti á dskj. nr. 29. Nemur verðmæti fjárkröfunnar miðað við 10% ábyrgð stefnda 25. september 2008 á láni nr. 3057 og fulla ábyrgð á láni nr. 3399 tjóni þrotabúsins.
Að síðustu gerir stefndi þá kröfu samkvæmt 145. gr. laga nr. 21/1991 að krafa stefnanda verði lækkuð eða felld niður með vísan til hinnar sérstöku heimildar í 145. gr. Samkvæmt ákvæðinu má lækka eða fella niður kröfu á þann sem hag hafði af ráðstöfun eða fullnustugerð ef sérstaklega stendur á ef greiðsla kröfunnar væri svo miklum erfiðleikum bundin að ósanngjarnt megi teljast og önnur atvik leiða til þess sama. Að því er þessa kröfu varðar hefur stefndi með engu móti sýnt fram á fjárhagslegar aðstæður sínar að krafa þessi sé tæk til meðferðar. Verður henni af þeim sökum hafnað. Þá er skuldajafnaðarkrafa stefnda og röksemdir fyrir henni allsendis ófullnægjandi. Kemur hún af þeim ástæðum ekki heldur til álita við úrlausn málsins.
Samkvæmt öllu framansögðu verður stefndi dæmdur til að endurgreiða stefnanda 641.875.606 krónur. Stefnandi gerir kröfu um dráttarvexti frá 25. september 2008 til greiðsludags, en til vara miðað við riftunarbréf stefnanda. Dómurinn telur rétt að miða upphafstíma dráttarvaxta við 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001, enda hér um endurgreiðslukröfu að ræða.
Rétt þykir að málskostnaður falli niður.
Af hálfu stefnanda flutti málið Guðni Á. Haraldsson hæstaréttarlögmaður en af hálfu stefnda Gunnar Egill Egilsson héraðsdómslögmaður.
Dóm þennan kveður upp Símon Sigvaldason héraðsdómari.
D ó m s o r ð:
Rift er ráðstöfun stefnanda, Kaupþings banka hf., frá 25. september 2008 um að fella niður persónulega ábyrgð stefnda, Helga Þórs Bergs, á greiðslu lánssamnings aðila nr. 3057, sem dagsettur er 1. desember 2005 og lánssamnings aðila nr. 3399 sem dagsettur er 28. apríl 2006.
Stefndi greiði stefnanda 641.875.606 krónur, ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 28. júní 2010 til greiðsludags.
Málskostnaður fellur niður.