Hæstiréttur íslands
Mál nr. 622/2007
Lykilorð
- Skilorðsrof
- Tilraun
- Ítrekun
- Fíkniefnalagabrot
- Þjófnaður
|
|
Fimmtudaginn 5. júní 2008. |
|
Nr. 622/2007. |
Ákæruvaldið(Daði Kristjánsson, settur saksóknari) gegn Láru Magnúsdóttur (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Þjófnaður.
Tilraun. Fíkniefnalagabrot. Ítrekun. Skilorðsrof.
L var
sakfelld fyrir þjófnað og fíkniefnalagabrot, en sýknuð af ákæru um tilraun til
þjófnaðar. Með brotunum rauf hún skilorð dóms frá 30. júní 2005, þar sem hún
hlaut 4 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir þjófnað. Í samræmi við 60. gr.
almennra hegningarlaga var þessi dómur tekinn upp og bæði málin dæmd í einu
lagi. Við mat á refsingu þótti ekki hægt að fullyrða að ákærða hefði hlotið dóm
26. september 2005 í Danmörku og því ekki tækt að líta til heimildarákvæðis 2.
mgr. 71. gr. almennra hegningarlaga við ákvörðun refsingar. Þá voru fjórir
íslenskir dómar sem ákærða hlaut fyrir þjófnað allir skilorðsbundnir og því
ekki fallist á það með héraðsdómi að ákveða skyldi L refsingu með vísan til
255. gr. sömu laga. Var refsing L ákveðin fangelsi í fimm mánuði en talið var
að skilorðsrefsing myndi ekki bera árangur gagnvart henni.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 26. október 2007 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar héraðsdóms.
Ákærða krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing verði milduð.
Í 1. tölulið ákæru er ákærðu gefin að sök þjófnaður og tilraun til þjófnaðar með því að hafa 29. apríl 2006 farið í heimildarleysi inn í sameign og geymslu í íbúðarhúsnæði að Hringbraut 58 í Reykjavík „stolið geisladiskastandi að verðmæti kr. 5.000 og reynt að stela antikljósakrónu, gardínum, skálum, saumavél og grímum, samtals að verðmæti kr. 40.000 krónur sem ákærða hafði týnt saman en komið var að henni á vettvangi.“
Með vísan til forsendna héraðsdóms er sannað að ákærða er sek um þjófnað með því að hafa stolið umræddum geisladiskastandi úr sameign hússins.
Ákærða kveðst ekki hafa brotist inn í læsta geymslu í umræddu húsi heldur hafa falið sig bak við hurð þar eftir að hún heyrði umgang. Neitar ákærða að hafa tekið ýmsa muni til í geymslunni í því skyni að stela þeim. Eins og greinir í héraðsdómi kom lögregla að ákærðu þar sem hún var stödd í geymslu í húsinu. Aðspurð fyrir dómi kvaðst eigandi geymslunnar telja að hún hafi verið læst, það væri hún oftast, en komst þó svo að orði að það væru „kannski einhverjar 7% líkur á að hún hafi ekki verið í lás.“ Af framburði lögreglumanna verður ekki fullyrt að ákærða hafi komist inn í geymsluna með því að fara inn um glugga á henni. Verður því að miða við frásögn ákærðu um að geymslan hafi verið ólæst umrætt sinn. Samkvæmt frumskýrslu lögreglu var haft eftir eiganda geymslunnar að búið hefði verið „að róta í geymslunni“ en einskis væri saknað. Það var hins vegar ekki fyrr en 19. júní 2006 er lögregla hafði símsamband við eiganda geymslunnar að fram kom hjá honum að munir þeir sem tilgreindir eru í ákæru hefðu umrætt sinn verið færðir til í geymslunni og var þá jafnframt nefnt að þeir hefðu verið settir í svarta plastpoka. Engin rannsókn hafði farið fram hjá lögreglu á vettvangi um þetta atriði. Að þessu öllu virtu og með vísan til 45. gr. og 46. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála er ósannað að ákærða hafi ætlað að taka umrædda muni ófrjálsri hendi og verður hún því sýknuð af þessum hluta ákærunnar.
Þá er fallist á með héraðsdómi að sannað sé að ákærða hafi gerst sek um fíkniefnalagabrot með því að hafa í umrætt sinn haft í fórum sínum 1,46 grömm af amfetamíni, eins og greinir í 2. tölulið ákæru. Fram er komið að efnið var í duftformi og breytir ójós framburður bróður ákærðu um að hann noti ýmis efni í töfluformi að læknisráði ekki þessari niðurstöðu.
Með framangreindri háttsemi sinni hefur ákærða unnið sér til refsingar samkvæmt 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 5. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni. Sakarferill ákærðu er réttilega rakinn í hinum áfrýjaða dómi að öðru leyti en því að ákæruvaldið lýsti yfir því við flutning málsins fyrir Hæstarétti að ekki væri hægt að fullyrða að ákærða hefði hlotið þann dóm sem á að hafa gengið 26. september 2005 í Danmörku. Því verður ekki litið til heimildarákvæðis 2. mgr. 71. gr. almennra hegningarlaga við ákvörðun refsingar ákærðu. Þá ber að líta til þess að þeir fjórir íslensku dómar er ákærða hlaut fyrir þjófnað voru allir skilorðsbundnir og er ekki fallist á með héraðsdómi að ákærða skuli ákveðin refsing með vísan til 255. gr. almennra hegningarlaga. Hins vegar er skilorðsbundin refsing ákærðu samkvæmt dómi 30. júní 2005 réttilega tekin upp í héraðsdómi og dæmd með þeirri refsingu sem ákærðu var gerð. Að öllu virtu er refsing ákærðu ákveðin fangelsi í fimm mánuði. Verður að telja að skilorðsrefsing beri ekki árangur gagnvart ákærðu.
Niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað er staðfest. Ákærðu verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, allt eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærða, Láru Magnúsdóttir, sæti fangelsi í fimm mánuði.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal óraskað.
Ákærða greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 298.417 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 186.750 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. mars 2007.
Mál þetta var höfðað
með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum í Reykjavík, 28. desember 2006, á
hendur Láru Magnúsdóttur, kt. 250151-7219, Miðtúni 17, Reykjavík,
„fyrir eftirtalin brot framin laugardaginn 29. apríl 2006:
1.
Þjófnað og tilraun
til þjófnaðar, með því að hafa farið í heimildarleysi inn í sameign og geymslu
í íbúðarhúsnæði að Hringbraut 58 í Reykjavík, stolið geisladiskastandi að
verðmæti kr. 5000 og reynt að stela antikljósakrónu, gardínum, skálum, saumavél
og grímum, samtals að verðmæti kr. 40.000, sem ákærða hafði tínt saman en komið
var að henni á vettvangi.
Telst þetta varða
við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. 1. mgr. 20. gr. hvað viðkemur tilraun til þjófnaðar.
2.
Fíkniefnalagabrot,
með því að hafa í sama skipti haft 1,46 af amfetamíni í vörslum sínum en
lögreglan fann efnið við leit í bifreiðinni PD-003.
Telst þetta varða
við 2. gr., sbr. 5. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65, 1974, sbr. lög nr.
13, 1985 og 2. gr. , sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni
og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233, 2001, sbr. reglugerð nr. 848, 2002.
Þess er krafist að
ákærða verði dæmd til refsingar og að upptækt verði gert framangreint
fíkniefni, sem lagt var hald á, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65, 1974 og 2.
mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233, 2001.“
Málavextir
Samkvæmt frumskýrslu
lögreglu barst lögreglunni tilkynning hinn 29. apríl 2006 kl. 7:37, um
mannaferðir í geymslu að Hringbraut 58. Á vettvangi hittist fyrir tilkynnandi,
N, sem kvaðst hafa heyrt hljóð úr kjallara hússins þá um nóttina en ekki leitt
hugann að því fyrr en hún heyrði það aftur nokkru síðar. Við nánari athugun
hafi hún séð ljós loga og hljóð koma úr læstri geymslu sinni. Kvað hún þessa
geymslu ávallt vera læsta og glugga lokaðan með krækjum. Kvað hún hurð
bakdyramegin oftast hafa verið læsta en hún hafi í þetta sinn verið ólæst.
Eftir að hafa rætt við tilkynnanda fékk lögreglan lykil að geymslunni. Þar
fyrir innan hafi ákærða verið en hún hafi neitað að koma út úr geymslunni. Hafi
lögreglan því ruðst inn í geymsluna og handtekið ákærðu, sem hafi orðið æst og
var því færð í lögreglutök. Reyndist hún vera með skrúfjárn í hendi.
Í skýrslu lögreglu
segir að ekki hafi mátt sjá merki um innbrot í geymsluna frá geymslugangi. Búið
hafi verið að róta í geymslunni en tilkynnandi hafi í fljótu bragði ekki séð að
nokkuð hafi verið tekið úr geymslunni.
Fyrir aftan húsið
hafði bifreið ákærðu, PD-003, verið lagt við kjallaratröppur. Í henni fannst
handtaska ákærðu en í henni hafi verið tvö seðlaveski. Í báðum hafi fundist
poki með hvítu dufti. Samkvæmt efnaskýrslu lögreglu, sem liggur frammi í
málinu, reyndist duft þetta vera amfetamín, samtals 1,46 g.
Ákærða hafi verið
flutt á slysadeild eftir að hún fór að kvarta undan verkjum í höfði og fótum.
Hún hafi farið þaðan án þess að vera útskrifuð af læknum en hafði samband við
lögreglu og lét vita af sér. Hafi lögregla farið heim til ákærðu og framkvæmt
húsleit með hennar samþykki en ekkert hafi fundist saknæmt.
Loks segir í skýrslu
lögreglu að við leit í bifreið ákærðu hafi fundist geisladiskastandur en
athugun hafi leitt í ljós að hann var í eigu P, íbúa að Hringbraut 58. Hafi
geisladiskastandurinn verið tekinn úr sameign hússins.
Við yfirheyrslu hjá
lögreglu greindi ákærða svo frá að hún hafi verið að skemmta sér fram til um 7
um morguninn. Hafi henni verið boðið í partý í Vesturbænum og þangað hafi hún
ekið, enda verið allsgáð. Hún hafi mætt einhverju fólki og villst inn í
eitthvert hús. Skyndilega hafi orðið mikil læti og hún hafi hlaupið skelfingu
lostin inn í einhverja geymslu. Kvaðst hún ekki geta sagt til um það hvers
vegna geisladiskastandurinn hafi fundist í bifreið hennar. Hún kvað fíkniefnin
vera í eigu bróður síns en hún tæki að sér að skammta honum efnin, sem honum
bæri að taka samkvæmt læknisráði.
Í skýrslu lögreglu
frá 19. október 2006 er vísað í símtöl við N og P. Kvaðst N hafa séð að búið
var að taka saman í svarta plastpoka alls kyns dót, t.d. antikljósakrónu,
gardínur, gamlar skálar og dót frá börnum hennar, m.a. grímur. Einnig hafi
verið búið að taka til saumavél. Áætlaði hún heildarverð á þessu um 40.000
krónur. Þá kvaðst hún hafa tekið eftir því að búið var að spenna upp gluggann á
geymslunni. Haft er eftir P í skýrslunni að geisladiskastandurinn hafi verið
inni í þurrkherberginu og að hann kostaði 5000 kr.
Verður nú rakinn
framburður ákærðu og vitna fyrir dómi.
Ákærða kvað sér hafa
verið boðið í samkvæmi. Hún hafi keyrt um göturnar og séð fólk koma út úr þessu
húsi. Hún hafi ákveðið að líta þangað inn og skildi því bílinn sinn eftir
opinn. Hún hafi gengið inn bakdyramegin og hafi hurðin verið opin. Kvaðst hún
hafa farið inn í þessa geymslu sem hafi staðið opin en skyndilega hafi allt orðið
„vitlaust“ og hún hafi ekkert vitað hvað var á seyði. Hún hafi „lamast af
hræðslu“ og falið sig á bak við hurð geymslunnar, sem hafi staðið opin. Hún
hafi ekki vitað að þetta hafi verið lögreglan og talið einhverja aðra á
ferðinni. Aðspurð kvaðst hún enga skýringu geta gefið á því hvers vegna
geisladiskastandurinn var í bifreiðinni. Hún hafi séð þetta fólk, sem kom út úr
húsinu, með eitthvað í höndunum, trúlega hafi þau komið því fyrir í
bifreiðinni. Þá kvaðst hún ekki kannast við að hafa rótað í dóti í geymslunni.
Aðspurð kannaðist hún við að hafa verið með skrúfjárn í hendinni þegar lögreglan
kom en gat ekki skýrt það frekar. Kvaðst hún sennilega hafa fundið það í
geymslunni.
Spurð um fíkniefnin
sem fundust í veski hennar kvað hún þau vera í eigu bróður hennar. Hann þyrfti
að taka inn mikið magn af lyfjum samkvæmt læknisráði og hún sæi um að skammta
honum það. Hún kvað um ýmsar tegundir lyfja að ræða.
Ákærða kvaðst vera
sjúklingur og geti því ekki sinnt vinnu lengur. Hún hafi fengið höfuðhögg og
eigi því við brjósklos í hnakka að stríða. Þá kvaðst hún vera með
MS-sjúkdóminn.
Vitnið, N, íbúi
að Hringbraut 58, greindi svo fá að hún hafi heyrt eitthvert þrusk niðri í
kjallara snemma morguns. Hafi hún séð ljós í geymslunni og hringt strax á
lögreglu enda hafi hún orðið mjög hrædd. Eftir að hún fór niður í geymsluna
hafi hún séð í hverju hafði verið rótað enda hafi hún geymt allt dótið í hillum
eftir að það hafði flætt í kjallarann. Hafi verið búið að róta hlutum úr hillu
og niður á gólf. Einnig hafi hún séð að hlutir hafi verið færðir til, m.a.
saumavél flutt inn í þvottahús. Þetta hafi verið „drasl“, gardínur, ljósakrónur
o.fl. en engin verðmæti. Þá hafði hlutum verið raðað ofaní svarta poka sem í
geymslunni voru og þar hafði verið búið vel um þá, m.a. var gardínum vafið utan
um vasa. Einnig hafi verið í pokanum gömul ljósakróna, vasi, skálar og dót í
eigu barna hennar, m.a. grímur. Aðspurð kvað hún geymslu þessa hafa verið læsta
en gluggi hennar væri „hálfónýtur“, en hann snúi út að götu. Hægt væri að læsa geymslunni
innan frá með smekklás. Þá hafi húsið verið læst.
Vitnið, D, lögreglumaður,
kvaðst hafa komið á vettvang eftir að tilkynning barst um mannaferðir að
Hringbraut 58. Þegar þangað kom hafi eigandi afhent henni lykla að geymslu,
þaðan sem hún hafði heyrt þrusk. Vitnið kvað sig og félaga sinn hafa heyrt að
einhver var inni, sem ekki svaraði kalli. Hafi þau þá farið inn en þurftu að
ýta á hurðina til að komast inn. Innandyra hafi ákærða verið en hafi ekki
viljað koma fram. Hafi þau lent í smávegis átökum við hana á geymslugangi og
þurftu að setja hana í lögreglutök. Hafi allt sem hún sagði verið mjög
ruglingslegt og virtist hún ekkert vita hvar hún væri. Kvað vitnið ástand
ákærðu hafa verið mjög annarlegt. Við skoðun á geymslunni virtist ákærða ekkert
hafa tekið úr geymslunni heldur raðað einhverju saman í hrúgur. Erfitt væri að
átta sig á því hvað þetta hafi verið því heilmikið af dóti hafi verið í
geymslunni. Hún hafi tekið eftir einhverjum svörtum plastpokum. Aðspurð kvaðst
vitnið ekki muna alveg hvort átt hafi verið við gluggann, en taldi svo ekki
hafa verið. Hafi ekkert verið hægt að átta sig á því hvar farið hafði verið
inn. Vitnið kvað ákærðu hafa byrjað að kvarta undan verkjum og að hún gæti ekki
gengið og var hún því flutt á slysadeild. Þaðan hafi hún farið sjálf í burtu og
því hafi verið farið heim til hennar og gerð húsleit. Eftir það hafi hún verið
flutt niður á lögreglustöð til yfirheyrslu. Vitnið kvað bifreið ákærðu hafa
verið fyrir utan húsið og í henni hafi fundist efni. Minnti hana að það hafi
verið duft. Taldi hún að ef um lyfseðilsskylt lyf hefði verið að ræða hefði hún
tekið það fram í lögregluskýrslu.
Vitnið, J, lögreglumaður,
kvaðst hafa sinnt útkalli umrætt sinn með vitninu D. Reyndist einhver vera inni
í geymslu tilkynnanda sem ekki vildi opna fyrir þeim. Fengu þau lykil hjá
tilkynnanda og opnuðu. Það hafi verið haldið á móti og því hafi þau ýtt
hurðinni „hressilega“ upp. Þar innandyra hafi ákærða verið. Hún hafi verið í
mjög annarlegu ástandi og virtist ekki vera með sjálfri sér né vita hvar hún
væri stödd. Hafi þetta endað í átökum því hún hafi látið „öllum illum látum“ og
þau þurft að handjárna ákærðu. Kvað hann helst mætti lýsa ástandi hennar sem
„sorglegu“. Aðspurður kvað vitnið ákærðu hafa verið með skúfjárn í hendinni.
Vitnið kvaðst ekki geta lýst því hvernig var umhorfs í geymslunni. Hún hafi
verið „venjuleg“. Einhverju hafi verið búið að safna saman að hann minnti í
poka. Hann kvaðst ekki hafa skoðað glugga geymslunnar. Hins vegar hafi hann
farið út í bíl ákærðu og þar hafi hann fundið hvítt duft í veski hennar. Hann
kvað þetta ekki hafa verið lyf sem framvísað væri frá lækni enda hefði hann
meðhöndlað það á annan hátt ef svo hefði verið.
Vitnið, S, lögreglumaður,
kvaðst hafa tekið við fíkniefnum þeim sem haldlögð voru umrætt sinn. Kvaðst
hann ekki muna nákvæmlega hvernig búið var um það en hann kvað það hafa verið í
duftformi, enda viktað í grömmum.
Vitnið, V, bróðir
ákærðu, kvaðst þurfa að taka inn fjórar tegundir af lyfjum sem ákærða sæi um að
skammta honum. Þetta væru lyfseðilsskyld lyf í töfluformi. Hann tæki a.m.k. 6
töflur inn á dag. Töflurnar væru í boxum sem væru sérstaklega merkt honum.
Vitnið, P, kvaðst
hafa búið að Hringbraut 58 á þeim tíma sem um ræðir. Aðspurður kvaðst hann ekki
hafa verið samkvæmi í húsinu þetta kvöld eða nótt. Hann kvaðst eiga
geisladiskastand þann sem var í þurrkherbergi sameignarinnar en þar hafi hann
verið því að það hafði flætt inn í geymslu hans. Kvaðst hann hafa keypt
geisladiskastandinn á 2000 krónur en fengið smið til að gera hann upp og það
hafi kostað hann a.m.k. 3000 krónur til viðbótar.
Niðurstaða
1. liður
Í máli þessu er
óumdeilt að ákærða var í heimildarleysi í geymslu íbúðarhúss að Hringbraut 58.
Veitti eigandi hennar því athygli að í geymslunni logaði ljós og kvaddi til
lögregluna sem þurfti lykil til að
opna. Neitaði ákærða að gefa sig fram og þurfti lögreglan að beita afli til að
komast inn í geymsluna. Í hendi ákærðu fannst skrúfjárn. Þá var bifreið hennar
lagt upp við kjallaratröppurnar, þaðan sem gengið var inn í húsið bakdyramegin.
Ekki liggur ljóst fyrir hvernig ákærða komst inn í geymsluna en að sögn
vitnisins N var gluggi geymslunnar, sem snéri út að götu, „hálflélegur“. Hann
var hins vegar ekki sérstaklega rannsakaður af lögreglu.
Ákærða hefur neitað
sök hvað varðar þjófnað og tilraun til þjófnaðar. Hefur hún gefið þær skýringar
á veru sinni í geymslunni að hún hafi orðið viti sínu fjær af hræðslu þegar hún
heyrði umgang og því hafi hún falið sig þar. Eftir það muni hún vart hvað hún
hafi gert eða sagt sökum ástands síns. Ákærða kvaðst hafa verið alsgáð þennan
morgunn og liggur ekkert annað fyrir í málinu.
Í bifreið ákærðu
fannst geisladiskastandur sá sem hún er ákærð fyrir að hafa stolið. Ber
vitnunum, N og P, saman um að hann hafi verið í þurrkherbergi sameignarinnar.
Ákærða kvað fólk sem hún hafi mætt á útleið úr kjallara sennilega hafa komið
honum fyrir í bifreið hennar. Ekkert í málinu styður þessa frásögn ákærðu.
Fram kemur í
frumskýrslu lögreglu að vitnið N hafi einskis saknað úr geymslu sinni en
samkvæmt skýrslu lögreglu, frá 19. október 2006, hafi hún síðar tekið eftir því
að munir þaðan höfðu verið settir í plastpoka. Þá hafi einnig verið búið að
færa saumavél úr geymslu og yfir í þvottahús. Þetta staðfesti vitnið fyrir dómi
og lýsti því m.a. hvernig búið hafði verið um hlutina í pokanum, sem hún kvað
þó ekki vera verðmæta. Þá ber lögreglumönnunum D og J saman um að þau hafi
veitt eftirtekt svörtum plastpoka á gólfi geymslunnar án þess þó að hafa kannað
innihaldið sérstaklega.
Í ljósi þess að
ákærða var í læstri upplýstri geymslunni með skrúfjárn í hendi, þegar lögreglan
handtók hana, og að í bifreið hennar fannst munur sem geymdur hafði verið í
sameign kjallarans, verður allur framburður ákærðu að teljast einkar ótrúverðugur.
Að mati dómsins þykir ekki leika vafi á því að ákærða hafði athafnað sig um
hríð, bæði í geymslu og sameign hússins, og að hún ætlaði að kasta eign sinni á
þá hluti sem taldir eru upp í ákæru. Óumdeilt er, þegar litið er til
vitnisburðar lögreglumannanna D og J, að ástand ákærðu hafi verið annarlegt
en það má allt eins skýra með hliðsjón af því að komið var að henni í
geymslunni. Eins og áður var rakið var ákærða að eigin beiðni flutt á sjúkrahús
vegna óútskýrðra verkja en þaðan fór hún sama dag án þess að vera útskrifuð af
lækni.
Að mati dómsins er,
að öllum atvikum virtum, talið hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærða hafi
gerst sek um þau brot sem hún er ákærð fyrir. Þá hafa þeir hlutir sem um ræðir
fjárhagslegt gildi og eru því gild þjófnaðarandlög. Hefur það ekki þýðingu þó
að ekki sé staðreynt að verðmæti þeirra hafi verið samtals 45.000 kr.
Ákæruliður 2.
Ákærða kannaðist við
að hafa haft umrædd fíkniefni í sínum vörslum. Hins vegar hefur hún borið því
við að um lyfseðilsskyld lyf bróður hennar hafi verið að ræða. Með vísan til
framburðar hans, sem fær stoð af vitnisburði lögreglumannanna, D, J og S, hefur
ekki verið sýnt fram á að vörslur þessar hafi verið lögmætar. Verður hún því
sakfelld fyrir fíkniefnalagabrot það sem henni er gefið að sök í ákæru.
Refsiákvörðun.
Samkvæmt sakavottorði
ákærðu var hún með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 20. febrúar 2002 dæmd til
greiðslu sektar fyrir ölvunarakstur. Þá gekkst hún undir sátt hjá
lögreglustjóranum í Reykjavík 16. maí 2003, fyrir þjófnað. Með dómi Héraðsdóms
Reykjaness frá 28. nóvember 2003 var hún dæmd í 1 mánaðar fangelsi fyrir
þjófnað en refsingin var skilorðsbundið til 2 ára. Hún hlaut tvo dóma árið
2004, í 3. mars og 21. desember, enn fyrir þjófnað. Var ákærða annars vegar
dæmd í 60 daga fangelsi, skilorðsbundið til 3 ára og hins vegar 90 daga
fangelsi einnig skilorðsbundið til 3 ára. Ákærða hlaut dóm fyrir þjófnað 30.
júní 2005 og var þá dæmd í 4 mánaða skilorðsbundið fangelsi til 3 ára. Loks
var hún með dómi dómstólsins í Jakobshavn, Danmörku, frá 26. september, dæmd í
40 daga fangelsi fyrir þjófnað auk landvistarbanns í 3 ár.
Við ákvörðun
refsingar ákærðu fyrir brot hennar nú verður ekki hjá því komist að líta til
sakarferils ákærðu sem gefur vísbendingu um hvatir hennar í þessu tilliti. Eins
og rakið hefur verið hefur hún hlotið 4 skilorðsdóma hér á landi fyrir þjófnað.
Í dómi frá 21. desember 2004 er sérstaklega getið að ákærða hafi upplýst að hún
ætti við andlega erfiðleika að etja og hafi leitað sér læknishjálpar vegna
þess. Í dómi frá 30. júní 2005 er þetta jafnframt tekið fram. Af þessu má sjá
að andleg veikindi ákærðu og vilji hennar til að leita sér lækningar hefur haft
áhrif á refsiákvörðun fram að þessu.
Með brotum sínum nú
hefur ákærða rofið skilorð dómsins frá 30. júní 2005. Verður því með vísan til
60. gr, sbr. 77. gr. almennra hegningarlaga, dæmt um bæði málin nú. Við
ákvörðun refsingar verður litið til 255. gr. almennra hegningarlaga og
jafnframt 77. gr. almennra hegningarlaga, þar sem hún er sakfelld fyrir fleiri
brot en eitt. Þá hefur refsidómur sá sem kveðinn var upp, af dómstólnum í
Jakobshavn frá 26. september, ítrekunaráhrif að mati dómsins, sbr. 2. mgr. 71.
gr. almennra hegningarlaga. Einnig horfir til þyngingar að ákærða fór í
heimildarleysi inn í íbúðarhús. Á móti kemur að um smáræði var að ræða og að
brot hennar var aðeins fullframið að hluta til. Telst refsing hennar hæfilega
ákveðin 6 mánaða fangelsi.
Um málsvarnarlaun
skipað verjanda ákærðu, Hilmars Ingimundarsonar, hrl., fer svo sem í dómsorði
greinir. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts. Annan sakarkostnað
leiddi ekki af máli þessu.
Sigríður Hjaltested
settur héraðsdómari kvað upp dóminn.
D ó m s o r ð:
Ákærða, Lára Magnúsdóttir, sæti fangelsi í 6 mánuði.
Ákærða greiði 99.600 krónur í málsvarnarlaun til skipaðs verjanda síns,
Hilmars Ingimundarsonar, hrl., að meðtöldum virðisaukaskatti.