Hæstiréttur íslands

Nr. 2018-257

Grímsnes- og Grafningshreppur (Óskar Sigurðsson lögmaður)
gegn
íslenska ríkinu (Fanney Rós Þorsteinsdóttir lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Sveitarfélög
  • Stjórnarskrá
  • Reglugerð
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.

Með beiðni 11. desember 2018 leitar Grímsnes- og Grafningshreppur leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 16. nóvember sama ár í málinu nr. 400/2018: Grímsnes- og Grafningshreppur gegn íslenska ríkinu. Íslenska ríkið leggst ekki gegn beiðninni.

Málið höfðaði leyfisbeiðandi vegna skerðinga á fjárframlögum úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga sem hann kveðst hafa orðið fyrir vegna breytinga sem ráðherra hafi gert á reglugerð um sjóðinn, en með lögum nr. 139/2012 um breytingu á lögum nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga hafi verið mælt fyrir um að heimilt væri í reglugerð að kveða á um að sveitarfélög, sem hefðu heildarskatttekjur sem teldust verulega umfram landsmeðaltal, skyldu ekki njóta tiltekinna framlaga úr sjóðnum. Telur leyfisbeiðandi að með þessu hafi ráðherra verið falið að taka með reglugerð ákvörðun um tekjustofna sveitarfélaga í andstöðu við 2. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar. Íslenska ríkið var sýknað af kröfu leyfisbeiðanda í héraði og Landsrétti.

Leyfisbeiðandi vísar einkum til þess að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi þar sem það varði það álitaefni hvort ákvæði laga nr. 4/1995 standist kröfur 2. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar að þessu leyti, auk þess sem niðurstaða málsins geti haft víðtækari skírskotun varðandi þær kröfur sem stjórnarskrárákvæðið geri til löggjafans um inntak matskenndra heimilda sem skerði stjórnarskrárvarin réttindi. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að málið varði mikilvæga hagsmuni sína, enda nemi skerðingin verulegum fjárhæðum og hafi mikil áhrif á getu hans til að sinna þeim verkefnum sem framlögunum sé ætlað að standa undir.

Í málinu er deilt um hvort það standist ákvæði stjórnarskrárinnar að lög veiti ráðherra heimild til að skerða framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga með reglugerð en úr hliðstæðu álitaefni hefur ekki verið leyst í dómaframkvæmd Hæstaréttar. Í því ljósi verður að líta svo á að úrslit málsins geti haft verulegt almennt gildi og er umsókn leyfisbeiðanda um áfrýjunarleyfi því tekin til greina á þeim grunni.