Hæstiréttur íslands
Mál nr. 468/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Þinglýsing
- Fasteign
|
|
Fimmtudaginn 18. september 2008. |
|
Nr. 468/2008. |
Hofstorfan slf. (Othar Örn Petersen hrl.) gegn Guðbjörgu Pálsdóttur Guðrúnu Pálsdóttur Sigrid Bjarnason og Önnu Pálu Guðmundsdóttur (Karl Axelsson hrl.) |
Kærumál. Þinglýsing. Fasteign.
H krafðist þess að lagt yrði fyrir þinglýsingarstjóra að afmá úr þinglýsingabók land 214232, Skagafirði, og breyta bókinni til þess horfs er hún var í fyrir 30. janúar 2008, er þinglýsingarstjóri leiðrétti þinglýsingabækur embættisins með vísan til 1. mgr. 27. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978. Í niðurstöðu héraðsdóms, sem staðfest var í Hæstarétti, sagði að mál þetta sætti úrlausn dómsins samkvæmt 1. mgr. 3. gr. þinglýsingarlaga. Í slíku máli yrði úr því skorið hvort leiðrétting þinglýsingarstjóra hefði verið réttmæt eins og málið horfði við honum en ekki yrði skorið úr um efnisatvik að baki einstökum skjölum. Þá yrði í máli þessu eingöngu tekin afstaða til réttmætis þeirrar ákvörðunar þinglýsingarstjóra að færa umrædda spildu sem sérstaka eign í bókum embættisins, en engu slegið föstu um eignarhald á því landsvæði sem um ræddi. Við ákvörðun þinglýsingarstjóra lá fyrir í þinglýstum gögnum að spildan hafði verið skilin frá Hofi árið 1922. Varð því að líta svo á að strax árið 1922 hefði spildan orðið að sjálfstæðri eign en engin haldbær gögn lágu fyrir þinglýsingarstjóra þess efnis að umrædd spilda hefði eftir þinglýsingu afsalsins 1922 orðið hluti annarrar jarðar á ný. Var þinglýsingarstjóra því rétt eins og málið lá fyrir honum að færa spilduna sem sjálfstæða eign í þinglýsingabókum. Var kröfu H því hafnað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Páll Hreinsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. júlí 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. ágúst sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands vestra 11. júlí 2008, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að lagt yrði fyrir sýslumanninn á Sauðárkróki að afmá úr þinglýsingabók Hof land 214232, Skagafirði, og breyta bókinni aftur til þess horfs er hún var í fyrir ákvörðun hans 30. janúar 2008. Kæruheimild er í 5. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978, sbr. 1. gr. laga nr. 6/1992. Sóknaraðili krefst þess að lagt verði fyrir sýslumanninn á Sauðárkróki að afmá fyrrnefnda fasteign úr þinglýsingabók, sem verði breytt aftur til þess horfs sem hún var í fyrir 30. janúar 2008. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur svo sem í dómsorði greinir.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og nánar segir í dómsorði.
Dómsorð:
Hafnað er kröfu sóknaraðila, Hofstorfunnar slf., um að lagt verði fyrir sýslumanninn á Sauðárkróki að afmá úr þinglýsingabók fasteignina Hof land 214232, Skagafirði, og að breyta bókinni aftur til þess horfs er hún var í fyrir 30. janúar 2008.
Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað er staðfest.
Sóknaraðili greiði varnaraðilum, Guðbjörgu Pálsdóttur, Guðrúnu Pálsdóttur, Sigrid Bjarnason og Önnu Pálu Guðmundsdóttur, 50.000 krónur hverri í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands vestra 11. júlí 2008,
Með bréfi til héraðsdóms Norðurlands vestra, dagsettu 25. febrúar 2008 og mótteknu 26. febrúar 2008, kærði Jón Eðvald Malmquist hdl., fyrir hönd Hofstorfunnar slf., kt. 410703-3940, þá ákvörðun sýslumannsins á Sauðárkróki að leiðrétta þinglýsingarbækur embættisins með vísan til 1. mgr. 27. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978 og færa spildu úr landi jarðarinnar Hofs sem sérstaka eign í þinglýsingabækur embættisins. Gerði sóknaraðili þær kröfur að lagt yrði fyrir þinglýsingarstjóra að afmá úr þinglýsingarbók Hof land 214232, Skagafirði, og breyta bókinni til þess horfs sem hún hafi verið í fyrir hina kærðu úrlausn. Þá var krafizt kærumálskostnaðar úr hendi sýslumannsins á Sauðárkróki. Eftir að ofangreindir varnaraðilar, Guðbjörg Pálsdóttir, kt.020618-3539, Guðrún Pálsdóttir, kt. 140837-2299, Sigrid Bjarnason, kt. 010723-2489 og Anna Pála Guðmundsdóttir, kt. 020923-2299, tóku til varna í málinu krefst sóknaraðili þess að einnig þeim verði gert að greiða sér málskostnað.
Varnaraðilar krefjast þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað og að staðfest verði úrlausn þinglýsingarstjóra að skrá Hof, land, fastanúmer 214232, sem sérstaka eign í þinglýsingarbækur embættisins. Þá krefjast varnaraðilar þess að sóknaraðili verði dæmdur til að greiða málskostnað samkvæmt reikningi.
Sýslumaðurinn á Sauðárkróki hefur sent dóminum athugasemdir með vísan til heimildar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 39/1978. Krefst sýslumaður málskostnaðar úr hendi sóknaraðila og þess að málskostnaðarkröfu á hendur sér verði vísað frá dómi.
Með úrskurði uppkveðnum 6. marz 2008 vék dómstjóri Héraðsdóms Norðurlands vestra sæti í málinu og í framhaldi af því fól dómstólaráð undirrituðum dómara málsins meðferð þess. Var málið tekið til úrskurðar hinn 11. júní 2008 og endurupptekið til munnlegs málflutnings að nýju og tekið til úrskurðar hinn 8. júlí 2008.
Málavextir
Með bréfi til sýslumannsins á Sauðárkróki, dags. 3. október 2007, fór Guðjón Ármannsson hdl. fram á það, fyrir hönd erfingja Páls Erlendssonar, að í landsskrá fasteigna yrði stofnuð spilda úr landi Hofs í Skagafirði og skyldi spildan vera í eigu erfingja Páls Erlendssonar. Kvað hann Pál Erlendsson hafa búið á Þrastarstöðum í Skagafirði á árunum 1918-1940. Árið 1922 hefði Páll keypt spildu úr landi Hofs af Jóni Jónssyni, bónda þar, sbr. afsal dagsett 18. júní 1922, og þinglýst 20. júní það ár. Með þinglýstri yfirlýsingu, dagsettri 18. nóvember 1921, hefði spildan verið leyst úr veðböndum Hofs. Væri spildan um 115 hektarar að stærð og væri mörkum hennar lýst svo í afsali og veðbandslausn að þau væru „að norðan af Urriðalæk, að vestan af sýsluveginum að austan af Kýlalæk að sunnan af beinni áframhaldandi línu er sker sundur þrætulandið í flóanum, milli Hofs og Þrastarstaða“. Árið 1938 hefðu Þrastarstaðir farið á nauðungaruppboð en Ræktunarsjóður Íslands verið hæstbjóðandi og eignazt jörðina. Páll Erlendsson hefði hins vegar haldið eftir spildunni og væri ljóst af heimildum að hún hefði ekki verið veðsett og uppboðið ekki tekið til hennar. Þá væri í síðari kaupsamningum er tækju til Þrastarstaða vísað til merkjalýsinga sem ekki tækju til spildunnar úr Hofi. Börn Páls Erlendssonar hefðu ætíð vitað að spildan hefði verið eign föður þeirra eftir að hann hefði flutt frá Þrastarstöðum. Þeim hefði hins vegar ekki verið kunnugt um þinglýst gögn um það fyrr en síðar og væri það með öðru skýring þess að spildan hefði ekki fylgt með þegar bú Páls hefði verið tekið til skipta árið 1966. Hefðu börn Páls verið fjögur; varnaraðilarnir Kristín Guðbjörg og Guðrún, auk Erlendar Pálssonar og Jóns Ragnars Pálssonar sem væru látnir. Ekkja Erlendar væri varnaraðilinn Sigrid og ekkja Jóns Ragnars væri varnaraðilinn Anna Pála. Kvað lögmaðurinn að umrædd landspilda væri ekki til í landskrá fasteigna og væri því misræmi milli þinglýsingarbókar og skráningar fasteignamats og þess krafizt að sýslumaður leiðrétti það með stofnun spildunnar.
Hinn 30. janúar 2008 skrifaði sýslumaður sóknaraðila og fleirum og greindi frá því, að við skoðun embættisins hefði komið í ljós, að á manntalsþingi á Hofsósi hinn 20. júní 1922 hefði verið þinglesið tveggja daga gamalt afsal þess efnis að Páll Erlendsson hefði keypt umrædda spildu af þáverandi eigendum jarðarinnar Hofs. Væri það mat sitt að umrædd spilda hefði átt að færast sem sérstök eign í þinglýsingarbækur embættisins. Sýslumaður hefði því farið þess á leit við Fasteignamat ríkisins að spildunni yrði fengið sérstakt landnúmer í Landskrá fasteigna og hefði hún þar fengið númerið 214232. Með vísan til 1. mgr. 27. gr. laga nr. 39/1978 hefði áðurnefnt afsal, dagsett 18. júní 1922, verið fært inn á landnúmer spildunnar í þinglýsingabókum ásamt veðbandslausn sem varði eignina og þinglesið hafi verið á umræddu manntalsþingi á Hofsósi hinn 20. júní 1922. Væri Páll Erlendsson skráður þinglýstur eigandi spildunnar.
Hinn 25. febrúar 2008 kærði sóknaraðili þessa ákvörðun sýslumanns til héraðsdóms eins og áður er rakið. Tilkynnti sóknaraðili sýslumanni um kæruna samdægurs.
Hinn 29. febrúar 2008 var þinglýst skiptayfirlýsingu á umrædda spildu. Segir í henni að í marz 1991 hafi farið fram einkaskipti á búi Hólmfríðar Rögnvaldsdóttur er setið hafi í óskiptu búi eftir eiginmann sinn, Pál Erlendsson. Við þau skipti „láðist að taka til skipta spildu úr landi Hofs í Skagafirði, landnúmer 214232, sem fram til þessa hefur verið skráð á mann hennar“. Hafi nú einkaskiptum þeirrar spildu verið lokið fyrir sýslumanninum í Reykjavík og skiptist hún milli varnaraðila þessa máls, og hafi hver hlotið fjórðung í sinn hlut.
Í málinu liggur fyrir afrit afsals, dagsetts 18. júní 1922, þar sem Jón Jónsson, eigandi Hofs, kveðst selja og afsala Páli Erlendssyni, bónda á Þrastarstöðum, nánar afmarkaða landspildu úr Hofi og sé kaupverðið, 1.250 krónur, að fullu greitt. Sé Páll því réttur eigandi spildunnar.
Þá liggur fyrir í málinu afrit síðu úr þinglýsingabók um Hof í Hofshreppi. Er þar færð inn svo látandi færsla: „Landsspilda seld Páli Erlendss (undir Þrastastaði)“ og tímasetningin 18. júní 1922. Þá segir í næstu færslu „Sama landsspilda leyst úr veðböndum“ og tímasetningin 18. nóvember 1921.
Í málinu liggur afrit síðu úr þinglýsingabók um Þrastarstaði. Kemur þar fram að jörðin hefur verið afsöluð Páli Erlendssyni 17. júlí 1916 en síðar Friðbirni Jónassyni 19. marz 1941 og Jarðakaupasjóði ríkisins 7. nóvember 1941. Er getið um nokkurrar veðsetningar og umboð á síðunni, en hvergi minnzt á margnefnda spildu úr Hofi.
Málsástæður sóknaraðila
Sóknaraðili kveður deilur um landamerki Hofs og Þrastarstaða ekki ný tíðindi. Í apríl 1920 hafi þáverandi eigandi, Eggert Jónsson, selt jörðina bróður sínum, Jóni Jónssyni. Á manntalsþingi hinn 22. maí það ár hafi Eggert látið þinglesa landamerki milli Hofs og Þrastastaða, en eigandi Þrastastaða, Páll Erlendsson, mótmælt. Deila sú hafi verið leidd til lykta með dómi landamerkjadóms Skagafjarðarsýslu hinn 2. október 1920. Megi ráða af dagbókarfærslum Jóns Jónssonar í janúar 1921 að þegar Eggert hafi keypt Hofi árið 1916 hafi ekki verið eignhugur milli manna um mörk jarðanna. Þá megi ráða af færslum í sömu dagbók, fyrir ágúst 1921, að þeir Jón og Páll hafi reynt að semja um landamerki og hafi niðurstaðan orðið sú, að þeir skipti „þrætulandinu“, eins og það sé orðað, í tvennt, og kaupi Páll spildu úr landi Hofs fyrir 1.250 krónur. Sé afsali fyrir spildunni þinglýst á manntalsþingi á Hofsósi í júní 1922.
Sóknaraðili segir, að undirritun afsalsins hafi verið niðurstaða í landamerkjadeilum milli Hofs og Þrastastaða. Ætlunin með sölu á landspildunni hafi verið að ráða til lykta landamerkjadeilum milli Hofs og Þrastastaða en ekki að til yrði sjálfstæð jörð eða spilda sem færast skyldi sem sjálfstæð eign í þinglýsingarbækur, eins og sýslumaður álíti nú.
Sóknaraðili segir, að í þinglýsingabókum sé getið um afsalið í blöðum er varði jörðina Hof og segi þar: „Landsspilda seld Páli Erlendss (undir Þrastastaði)“. Sýni þessi færsla að ekki hafi átt að færa landspilduna sem sérstaka eign í þinglýsingarbækur.
Sóknaraðili segir Pál Erlendsson hafa átt Þrastastaði til ársins 1939 er Ræktunarsjóður Íslands hafi eignazt jörðina á uppboði. Frá þeim tíma og til dauðadags hafi Páll hvorki skipt sér af spildunni né gert nokkurt tilkall til hennar. Hafi hann aldrei óskað eftir að hún yrði skráð í þinglýsingabókum sem sjálfstæð eign. Bendi þetta eindregið til þess að spildan hafi aldrei átt að verða sjálfstæð eign.
Sóknaraðili segir, að samkvæmt lögum nr. 1/1884 um bygging, ábúð og úttekt jarða skuli hver maður er jörð eigi, og ekki nýtir hana sjálfur, selja hana öðrum á leigu. Páll hafi aldrei nýtt spilduna né selt hana öðrum á leigu eins og honum hefði borið að gera ef um sjálfstæða jörð hefði verið að ræða. Aldrei hafi verið greidd lögboðin gjöld eða skattar af landspildunni. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 1/1884 hafi þeim, er hvorki byggði jörð sína né leigði út eða lét bjóða hana upp til afnota, borið að greiða öll lögboðin gjöld er á henni hvíldu. Páli hlyti að hafa verið ljóst, að honum bæri að greiða opinber gjöld af eigninni ef hún ætti að vera sjálfstæð eign, óháð Þrastarstöðum. Það hafi hann aldrei gert og sé það vísbending um að hann hafi ekki talið spilduna sérstaka jörð.
Loks segir sóknaraðili, að erfingjar Páls hafi sýnt af sér tómlæti sem bendi til þess að þeir hafi ekki talið spilduna vera sjálfstæða eign Páls. Þannig hafi hún ekki verið tekin með er dánarbú Páls hafi verið tekið til skipta árið 1966. Auðvelt hefði verið fyrir erfingjana að grafast fyrir um eignarheimildir ef þeir hefðu talið spilduna til Páls. Það sé fyrst nú, rúmum fjörutíu árum eftir skiptin, sem beðið sé um leiðréttingu þinglýsingarbókar.
Sóknaraðili segir, að réttara sé sýslumanni, telji hann þörf á að leiðrétta þinglýsingarbók, að fara eftir gildandi lögum. Þannig eigi hann að fara eftir þeim reglum er nú gildi um stofnun og skráningu nýrra landspildna úr jörðum, „sbr. m.a. eftur þinglýsingarlögum nr. 39/1978, lögum um skráningu og mat fasteigna 6/2001 og jarðalögum nr. 81/2004.“
Málsástæður varnaraðila
Varnaraðilar segja, að úrlausn um þinglýsingu hafi farið fram árið 1922 er afsali um spilduna hafi verið þinglýst. Sé löngu líðinn þriggja mánaða frestur til að bera þá úrlausn undir héraðsdóm. Sú aðgerð, að stofna spilduna í landsskrá fasteigna og færa afsalið þar inn, sé ekki úrlausn um þinglýsingu.
Varnaraðilar segja að af lögum nr. 6/2001 um skráning og mat fasteigna, leiði skráning allra þinglýstra eigna í landsskrá fasteigna. Komi fram í athugasemdum með lögunum að eitt af markmiðum þeirra sé að sameina helztu skrár um fasteignir í landinu; fasteignaskrá fasteignamats ríkisins og þinglýsingabækur sýslumanna.
Þegar landsskrá fasteigna hafi verið sett á fót með fyrrgreindum lögum hafi hver sýslumaður mátt leggja í mikið verk við að færa þar inn fasteignir. Einhverra hluta vegna hafi farizt fyrir að færa umþrætta landspildu inn í skrána. Hafi skráning spildunnar, með sérstöku landsnúmeri, verið eðlileg leiðrétting þeirra mistaka. Hér hafi því ekki verið á ferð úrlausn um þinglýsingu heldur skráning fyrirliggjandi þinglýstra gagna. Varnaraðilar taka sérstakega fram, að þeir krefjist ekki frávísunar málsins af þessum sökum.
Varnaraðilar segjast mótmæla því að umþrætt landspilda hafi fyrst orðið sjálfstæð eign með stofnun í landskrá fasteigna. Þvert á móti hafi hún orðið sjálfstæð eign árið 1922 er henni hafi verið skipt úr annarri jörð með ákveðnum merkjum og orðið annars eign en Hof.
Varnaraðilar segjast vísa til laga nr. 94/1976 um skráningu og mat fasteigna, en þar hafi verið að finna skilgreiningu hugtaksins fasteignar. Hafi í 2. gr. laganna verið sagt að fasteign væri hver sá skiki lands sem vegna sérgreinds eignar- eða afnotaréttar, hagnýtingar, auðkenna eða landamerkja geti talizt sjálfstæð eind. Í núverandi lögum um sama efni, nr. 6/2001, sé sama skilgreining fasteignar og segi í 2. mgr. 3. gr. laganna að fasteignir skuli skrá í landsskrá fasteigna. Þá segi í 12. gr. laganna að hver fasteign skuli bera auðkenni þannig að hver landskiki fái sérstakt landnúmer. Af þessu leiði, að landspildan sem seld var úr Hofi sé sjálfstæð eign í skilningi laga um skráningu og mat fasteigna. Hafi sýslumanni því borðið að leiðrétta þinglýsingabækur embættisins með vísan til 27. gr. laga nr. 39/1978. Með því spildan hafi verið skipt úr Hofi árið 1922 hafi ekki þurft að skrá eignina með þar til gerðu stofnskjali samkvæmt 14. gr. laga um skráningu og mat fasteigna, en ekki hafi verið ætlunin með lögunum að gera þyrfti stofnskjal um allar fasteignir á landinu heldur aðeins þá nýjar yrðu til eftir gildistöku laganna.
Varnaraðilar segja sóknaraðila halda því fram í senn, að umrædd landspilda hafi aldrei átt að færast sem sérstök eign í þinglýsingabækur og að merki Þrastarstaða og Hofs eigi að miðast við þinglýst landamerkjabréf Hofs frá 1882. Sé þannig, með „óútskýranlegum hætti“, byggt á því að landspilda sem seld hafi verið úr Hofi árið 1922 sé aftur orðin hluti af jörðinni og eign sóknaraðila. Varnaraðilar segja að svo lengi sem engin gögn liggi fyrir um eigendaskipti að landspildunni beri sýslumanni að leggja þinglýst gögn til grundvallar. Væri sá skilningur sóknaraðila réttur, að spildan hafi átt að tilheyra Þrastarstöðum en aldrei verða sjálfstæð eign, hefðu sóknaraðilar ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn þessa máls.
Þá segjast varnaraðilar mótmæla þeim sjónarmiðum að fyrst Páll Erlendsson og síðar þeir hafi sýnt af sér tómlæti. En jafnvel þó svo hefði verið, myndi slíkt tómlæti ekki raska þinglýstum eignarheimildum. Þaðan af síður hefði það áhrif á gildandi formreglur um hvernig standa skuli að skráningu fasteigna í samræmi við lög nr. 6/2001.
Varnaraðilar segjast mótmæla því að Páll Erlendsson hafi brotið gegn ábúðarlögum nr. 1/1884 og því að slíkt brot hans sýni að spildan hafi aldrei átt að teljast sjálfstæð eign. Lög þessi hafi fallið úr gildi árið 1933 og hafi þau fjallað um jarðir en ekki landspildur. Ekki sé hlutverk sóknaraðila eða fyrri eigenda Hofs að framfylgja þessum brottfelldu lögum og brot á þeim leiði ekki til þess að eignarréttur að landi falli brott og við taki eignarréttur eldri eiganda.
Þá segja varnaraðilar, að sú málsástæða sóknaraðila að undirritun afsalsins árið 1922 hafi verið niðurstaða í landamerkjamáli þeirra Páls á Þrastarstöðum og Jóns á Hofi skipti hér ekki máli. Jón hafi selt Páli spilduna, verð hafi komið fyrir, og afsali verið þinglýst. Þetta skipti máli, en ekki hvaða ástæður kunni þar að hafa verið að baki.
Varnaraðilar segja einnig að engu máli skipti að Páll Erlendsson hafi aldrei greitt skatta og lögboðin gjöld af eigninni. Innheimta skatta sé á könnu ríkisins en ekki sóknaraðila og séu allar skattakröfur auk þess fyrndar. Þá geti þetta atriði engin áhrif haft á eignarhald spildunnar eða hvernig hún sé skráð í þinglýsingabækur og landskrá fasteigna. Þá segjast varnaraðilar nú sjálfir hafa greitt fasteignagjöld af spildunni.
Loks segja varnaraðilar að jafnvel þó fallizt yrði á kröfu sóknaraðila í þessu máli leiddi það ekki til loka þrætu aðila. Eftir stæði þinglýst eignarheimild Páls Erlendssonar sem og þinglýst skiptayfirlýsing frá febrúar 2008.
Athugasemdir sýslumannsins á Sauðárkróki
Sýslumaðurinn á Sauðárkróki sendi dóminum athugasemdir með vísan til heimildar í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 39/1978. Segir þar, að í kjölfar erindis lögmanns varnaraðila hafi farið fram skoðun á gögnum hjá embættinu, en í þinglýsingarbókum þess hafi verið til afsal fyrir kaupum Páls Erlendssonar á spildu úr Hofslandi, en sú spilda væri ekki til í landsskrá fasteigna. Hafi sýslumaður metið gögn svo, að skilyrði væru hér til að hann leiðrétti bækur sínar og hafi því umrædd spilda verið gerð að sérstakri eign í þinglýsingarbókum. Segir sýslumaður að þó afsalshafi, Páll Erlendsson, hafi verið bóndi á Þrastarstöðum hafi spildan ekki verið lögð formlega til þeirrar jarðar. Það hafi verið mistök árið 1922 að fá spildunni ekki sjálfstætt blað í þinglýsingarbókum. Ekki hafi hins vegar þurft sérstakt stofnskjal fyrir spilduna, en afsalið, sem þinglýst hafi verið árið 1922, sé nægjanlega afmarkað um landamerki. Fasteignamat ríkisins hafi litið svo á, að ekki þurfi stofnskjöl vegna lóða þegar fyrir liggi afsal eða lóðarleigusamningur í þinglýsingabókum.
Sýslumaður segir, að yrði fallizt á kröfu sóknaraðila yrði sýslumaður að afmá umrædda spildu úr þinglýsingabókum sínum. Sú aðgerð breyti þó ekki hinu, að til væri á þinglýsingarblaði Hofs afsal frá árinu 1922. Þinglýsingastjóra beri að huga að áreiðanleika bóka sinna og ekki megi fleiri eignir en ein vera á þinglýsingarblaði hverrar jarðar.
Þá segir sýslumaður að hinn 29. febrúar hafi skiptayfirlýsingu verið þinglýst á spilduna. Óvíst væri hvernig færi með þá yfirlýsingu ef fallizt yrði á kröfu sóknaraðila, en skiptayfirlýsingunni hafi verið þinglýst á „Hof land 214232“ og verði vart færð á nokkurt annað land, hvort sem vera ætti Hof eða annað. Sé það mat sýslumanns að ekki sé unnt að fallast á kröfu sóknaraðila því óframkvæmanlegt sé nú að færa eignina til fyrra horfs.
Niðurstaða
Varnaraðilar segja í greinargerð sinni að úrlausn um þinglýsingu hafi farið fram árið 1922 og sé því úti frestur til að bera hana undir héraðsdóm. Sú aðgerð að stofna spilduna í landskrá fasteigna og færa afsalið þar inn hafi ekki verið úrlausn um þinglýsingu. Ekki verður á það fallizt, en sú ákvörðun sýslumanns að leiðrétta bækur sínar með þeim hætti sem margrakið hefur verið, verður talin kæranleg þinglýsingarákvörðun. Er krafa sóknaraðila sett fram innan lögmælts frests.
Mál þetta sætir úrlausn dómsins samkvæmt 1. mgr. 3. gr. þinglýsingalaga. Í slíku máli verður úr því skorið hvort leiðrétting þinglýsingastjóra á grundvelli 1. mgr. 27. gr. þinglýsingalaga hafi verið réttmæt eins og málið horfði við honum en ekki verður skorið úr um efnisatvik að baki einstökum skjölum. Þá verður í máli þessu eingöngu tekin afstaða til réttmætis þeirrar ákvörðunar sýslumannsins á Sauðárkróki að færa umrædda spildu sem sérstaka eign í bókum embættisins, en engu slegið föstu um eignarhald á því landsvæði er um ræðir.
Í málinu liggur fyrir að árið 1922 afsalaði þáverandi eigandi Hofs, Jón Jónsson, umræddri spildu úr Hofslandinu til eignar Páli Erlendssyni. Var þinglýst afsali þar sem Jón tjáði Pál réttan eiganda spildunnar.
Á þeim tíma var Páll bóndi á Þrastarstöðum. Í málinu liggur fyrir afrit síðu um Þrastarstaði í þinglýsingarbókum og er þess þar í engu getið að undir landið hafi verið lögð umrædd spilda árið 1922 eða síðar. Á síðu um Hof í þinglýsingabókum segir hins vegar, eins og áður er rakið, „Landsspilda seld Páli Erlendss (undir Þrastarstaði)“.
Engin þinglýst gögn liggja fyrir í málinu þess efnis að spildan hafi, eftir þinglýsingu afsals Jóns Jónssonar til Páls Erlendssonar árið 1922, verið lögð til Hofslands að nýju.
Þegar sýslumaður tók hina umþrættu ákvörðun sína nú, lá fyrir honum afsal þar sem margumrædd spilda er skilin úr Hofslandi og seld Páli Erlendssyni. Telja verður að spildan hafi ekki verið sameinuð Þrastarstaðalandi án þess að um það yrði getið á blaði Þrastarstaða í þinglýsingabókum. Þó að á þinglýsingarblaði um Hof standi innan sviga að spildan hafi verið seld Páli „undir Þrastarstaði“, þá verði jarðspilda ekki lögð undir aðra jörð með þeim hætti. Hafi því engin áreiðanleg gögn legið fyrir sýslumanni um að þessi spilda hafi, með einum eða öðrum hætti, orðið hluti annarrar jarðar eftir að hún var með þinglýstu afsali skilin frá Hofslandi og seld Páli Erlendssyni í hendur. Spilda, sem með þinglýstu afsali hefur verið skilin frá þeirri jörð sem hún tilheyrði, og ekki liggur fyrir að hafi réttilega verið sameinuð annarri jörð, verður að teljast sjálfstæð eign í þinglýsingabókum. Verður að álíta að umrædd spilda hafi strax árið 1922 orðið að sjálfstæðri eign, og að ekki hafi legið fyrir sýslumanni nein haldbær gögn um að það hafi breytzt síðan.
Eins og áður segir, er í máli sem þessu eingöngu horft til málsins eins og það horfði við sýslumanni þegar hann tók hina umþrættu ákvörðun, en ekki efnisatriða að baki einstakra skjala.
Sóknaraðili hefur í málinu bent á ýmis þau atriði sem hann telur benda til þess að sjálfur hafi Páll ekki lengur talið spilduna sína eign. Ekki verður talið að þau sjónarmið ráði úrslitum í þessu máli. Við ákvörðun sýslumanns lá fyrir í þinglýstum gögnum að spildan hafði verið skilin frá Hofi, en ekkert áreiðanlegt um að hún hefði verið sameinuð annarri jörð. Eins og áður segir, verður að álíta að strax árið 1922 hafi spildan orðið að sjálfstæðri eign, þó hún hafi þá verið í eigu þess manns er einnig átti Þrastarstaði. Hvernig sem síðar kann að hafa farið um eignarhald spildunnar, og hvað sem Páli Erlendssyni eða erfingjum hans kann að hafa fundizt um það, lágu engin haldbær gögn fyrir sýslumanni þess efnis að margumrædd spilda hefði nokkuru sinni eftir þinglýsingu afsalsins árið 1922 orðið hluti annarrar jarðar. Var sýslumanni því rétt, eins og málið lá fyrir honum, að færa spilduna sem sjálfstæða eign í þinglýsingabókum.
Í ljósi framanritaðs verður að hafna kröfum sóknaraðila í máli þessu.
Í ljósi þessara úrslita verður að gera sóknaraðila að greiða varnaraðilum málskostnað. Fer um hann eins og í úrskurðarorði greinir. Ekki verður fallizt á kröfu sýslumanns um málskostnað.
Af hálfu sóknaraðila flutti mál þetta Jón Eðvald Malmquist héraðsdómslögmaður.
Af hálfu varnaraðila flutti mál þetta Guðjón Ármannsson héraðsdómslögmaður.
Þorsteinn Davíðsson kveður upp úrskurð þennan.
ÚR S K U R Ð A R O R Ð
Kröfu sóknaraðila, Hofstorfunnar slf., um að lagt verði fyrir þinglýsingarstjórann á Sauðárkróki að afmá úr þinglýsingarbók Hof land 214232, Skagafirði, og að breyta bókinni aftur til þess horfs er hún var í, fyrir hina kærðu úrlausn, er hafnað.
Sóknaraðili greiði varnaraðilum, Guðbjörgu Pálsdóttur, Guðrúnu Pálsdóttur, Önnu Pálu Guðmundsdóttur og Sigrid Bjarnason, málskostnað, 125.000 krónur til hverrar.