Hæstiréttur íslands
Nr. 2019-30
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Lögmaður
- Þóknun verjanda
- Stjórnarskrá
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar.
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.
Með beiðni 15. janúar 2019 leitar Lögskil ehf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 19. desember 2018 í málinu nr. 507/2018: Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu gegn Lögskilum ehf., á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu leggst ekki gegn beiðninni.
Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um greiðslu mismunar á annars vegar samanlagðri fjárhæð tiltekinna reikninga til gagnaðila vegna verjandastarfa lögmanna í þjónustu leyfisbeiðanda við rannsókn sakamála hjá gagnaðila, sem gerðir hafi verið á grundvelli tímagjalds samkvæmt viðmiðunarreglum dómstólaráðs og reglugerð nr. 715/2009 um tímagjald við ákvörðun þóknunar til verjenda og réttargæslumanna, og hins vegar fjárhæð sem leyfisbeiðandi telur sig eiga kröfu til á grundvelli tímagjalds samkvæmt gjaldskrá sinni á hverjum tíma. Landsréttur sýknaði gagnaðila af kröfu leyfisbeiðanda þar sem ekki þótti sýnt fram á að tímagjald verjenda á grundvelli viðmiðunarreglnanna og reglugerðarinnar hafi verið óhæfilega lágt eða að ákvarðanir þar um hafi falið í sér ólögmæta skerðingu á aflahæfi verjendanna og þar með brotið gegn 72. gr. stjórnarskrárinnar.
Beiðni sinni til stuðnings vísar leyfisbeiðandi til þess að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi þar sem tekist sé á um stjórnarskrárvernd aflahæfis og atvinnufrelsis lögmanna við verjandastörf undir lagaskyldu 20. gr. laga nr. 77/1998 um lögmenn andspænis því fyrirkomulagi um tímagjald sem íslenska ríkið hafi ákveðið á grundvelli heimildar í 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þá vísar leyfisbeiðandi til þess að málið varði mikilvæga fjárhagslega hagsmuni sína auk þess sem dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til.
Að virtum gögnum málsins er ekki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi í ljósi þess að fyrrnefndar viðmiðunarreglur og reglugerð nr. 715/2009 eru nú fallnar niður. Af sömu ástæðu getur málið heldur ekki talist varða mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Er beiðninni því hafnað.