Hæstiréttur íslands
Nr. 2024-140
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Fasteign
- Lögveð
- Sönnun
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
2. Með beiðni 6. nóvember 2024 leitar Árveig Aradóttir leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 10. október sama ár í máli nr. 332/2023: Árveig Aradóttir gegn Heiðarbyggð, félagi sumarbústaðaeigenda. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Ágreiningur málsins lýtur að skyldu leyfisbeiðanda til þátttöku í kostnaði við vegaframkvæmdir í sumarhúsahverfi. Á aðalfundi gagnaðila 7. júní 2020 var samþykkt tillaga um að lóðareigendur skyldu greiða tilgreinda upphæð til að standa straum af kostnaðinum. Leyfisbeiðandi taldi sig ekki bundna af ákvörðuninni þar sem ekki hefði verið boðað til fundarins í samræmi við lög nr. 75/2008 um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús.
4. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms staðfesti Landsréttur þá niðurstöðu að tilkynning í Facebook-hópi gagnaðila og auglýsing í vikuriti uppfylltu ekki nánar tilgreind skilyrði 2. mgr. 20. gr. laga nr. 75/2008. Þá hafi tillkynning í tölvupósti til félagsmanna ekki verið send innan þeirra tímamarka sem í ákvæðinu greinir. Í dómi Landsréttar var rakið að vegaframkvæmdirnar ættu sér langan aðdraganda auk þess sem litið væri til þess að eiginmaður leyfisbeiðanda hefði útvegað röralagnir fyrir framkvæmdirnar og flutt efnið á vettvang. Í söluyfirliti fasteignasölu sem hafði lóðir leyfisbeiðanda á svæðinu til sölumeðferðar hefðu einnig komið fram upplýsingar um vegaframkvæmdirnar og kostnað vegna þeirra. Að því virtu taldi Landsréttur að leyfisbeiðanda hafa verið fullkunnugt um áform gagnaðila um vegaframkvæmdir með tilheyrandi kostnaði og hún átt þess kost að koma sjónarmiðum sínum og andmælum þar að lútandi á framfæri. Hefði leyfisbeiðandi raunar skuldbundið sig til þess að taka þátt í kostnaði við slíkar framkvæmdir við undirritun lóðarleigusamnings árið 2009.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að sakarefnið sé mikilvægt og hafi verulegt almennt gildi. Í málinu reyni á lögmæti boðunar funda hjá skylduaðildarfélagi. Enginn afsláttur skuli gefinn af því hvernig staðið skuli að fundarboði í slíku félagi og þar skuli geta þess hvað til standi sem felur í sér bindingu til langs tíma fyrir félagið. Þá telur leyfisbeiðandi að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína. Hún hafi mátt reikna með því samkvæmt lóðarleigusamningi að greiða fyrir endurbætur á vegi innan svæðisins. Með samningi við landeigendur á öðru skipulögðu svæði hafi félagið skuldbundið sig til allrar framtíðar til þess að standa að vegagerð og í framhaldi af því að halda nýja veginum við um ókomna tíð. Gjaldið nemi fjörtíuföldum árgjöldum félagsins. Þá hafi á fundinum verið gefið eftir gagnvart landeiganda á öðru deiliskipulögðu svæði sem þurfi ekki að taka þátt í stofnkostnaði þegar hann selur þriðja aðila aðgang að veginum. Þá telur leyfisbeiðandi niðurstöðu Landsréttar bersýnilega ranga og í andstöðu við ófrávíkjanleg ákvæði laga nr. 75/2008.
6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðenda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að málsmeðferð fyrir héraðsdómi eða Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant eða dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað