Hæstiréttur íslands
Mál nr. 83/2016
Lykilorð
- Húsaleigusamningur
- Riftun
- Efndabætur
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 2. febrúar 2016. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda en til vara að hún verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Svo sem rakið er í hinum áfrýjaða dómi gerðu aðilar með sér samning 31. október 2007 þar sem áfrýjandi tók á leigu af stefnda hluta af efri hæð hússins Faxafen 12 í Reykjavík. Samningurinn var tímabundinn og var eignin leigð frá 1. nóvember 2007 til 30. október 2022. Mánaðarleg leiga nam 476.300 krónum bundið vísitölu neysluverðs. Í samningnum var tekið fram að um væri að ræða iðnaðarhúsnæði sem áfrýjandi hygðist nýta undir slíka starfsemi. Þar sagði einnig að áfrýjandi hefði verið með starfsemi í húsnæðinu í nokkur ár og þekkti því til ástands þess. Hafði það verið í eigu áfrýjanda en með kaupsamningi og afsali 20. nóvember 2007 var því ráðstafað til stefnda.
Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi rak áfrýjandi útsölumarkað í húsnæðinu fyrir fatnað og útivistarvörur sem hann framleiddi og seldi. Í svonefndum gátlista Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu frá 8. október 2012 vegna athugunar á eldvörnum í húsnæðinu var meðal annars gerð sú athugasemd að flóttaleið vantaði úr því. Með bréfi áfrýjanda til stefnda 12. júní 2013 var þess krafist að gerðar yrðu viðeigandi lagfæringar á húsnæðinu í samræmi við kröfur slökkviliðsins svo því yrði komið í það horf sem samningur aðila gerði ráð fyrir. Að öðrum kosti yrði samningnum rift eða nýtt heimild í 20. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994 til að láta framkvæma úrbætur á kostnað stefnda. Í kjölfarið gerði stefndi ýmsar lagfæringar á eldvörnum og fólust þær meðal annars í því að setja upp fellistiga.
Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu mun aftur hafa gert úttekt á húsnæðinu 21. ágúst 2013 og heldur áfrýjandi því fram að það hafi metið fellistigann frá efri hæð hússins ófullnægjandi sem flóttaleið úr verslun. Með þeirri úttekt taldi áfrýjandi að leiddar hefðu verið í ljós vanefndir stefnda á leigusamningnum og því lýsti hann yfir, með bréfi 11. september sama ár, riftun á samningnum á grundvelli 1. mgr. 60. gr. húsaleigulaga. Þó var tekið fram í bréfinu að stefndi hefði eftir samningnum sjö daga frest til að bæta ráð sitt frá því erindið sannanlega bærist honum en yrði þeirri áskorun ekki sinnt væri samningurinn fallinn úr gildi. Með bréfi stefnda, sem mun hafa borist áfrýjanda 18. september 2013, var riftuninni hafnað og sú krafa gerð að áfrýjandi efndi samninginn eftir efni sínu.
Áfrýjandi greiddi síðast leigu fyrir nóvember 2013, en hann mun hafa rýmt húsnæðið í þeim mánuði. Með innheimtubréfi 8. apríl 2014 krafðist stefndi þess að áfrýjandi greiddi gjaldfallna leigu fyrir húsnæðið frá 1. desember 2013. Í tölvupósti lögmanns áfrýjanda til lögmanns stefnda 30. maí 2014 var vísað til þess að áfrýjandi hefði rýmt húsnæðið í nóvember 2013 og spurt hvort stefndi hefði gripið til ráðstafana til að leigja það aftur út. Þessa fyrirspurn ítrekaði lögmaðurinn með tölvupóstum 4. og 18. júní, 1. og 29. júlí og 12. ágúst 2014 án þess að séð verði af gögnum málsins að þeim erindum hafi verið svarað. Aftur á móti ritaði lögmaður stefnda áfrýjanda bréf 24. september 2015 vegna fyrirhugaðrar sölu eignarinnar. Þar var spurt hvort áfrýjandi héldi fast við riftun leigusamningsins og teldi því að fallinn væri niður forkaupsréttur að eigninni samkvæmt samningnum. Þessu erindi var ekki svarað en fram kom við flutning málsins fyrir Hæstarétti að stefndi hafi selt eignina í árslok 2015.
II
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður fallist á þá niðurstöðu að áfrýjandi hafi ekki öðlast rétt til að rifta leigusamningi aðila eins og hann telur sig hafa gert með bréfi 11. september 2013. Verður því ekki fallist á sýknukröfu áfrýjanda af þeirri ástæðu.
Eins og áður greinir mun áfrýjandi hafa rýmt húsnæðið í nóvember 2013 og hefur hann ekki greitt leigu eftir það. Verður að leggja til grundvallar við úrlausn málsins að stefndi hafi frá sama tíma tekið við umráðum eignarinnar, enda verður ekki séð að staðhæfingu áfrýjanda þess efnis hafi verið mótmælt við meðferð málsins í héraði. Skiptir þá ekki máli hvort lyklum að húsnæðinu hafi samhliða verið skilað til stefnda, eins og fyrst var haldið fram við flutning málsins hér fyrir dómi.
Þótt riftun áfrýjanda hafi verið ólögmæt gat stefndi ekki krafist efnda samkvæmt aðalefni leigusamningsins eftir að hann tók við húsnæðinu. Eftir atvikum kann hann þó að hafa öðlast rétt til efndabóta, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 10. nóvember 2011 í máli nr. 648/2010. Það sama leiðir einnig af reglum kröfuréttar um rétt skuldara til að hafna greiðslu gegn því að fella á sig skyldur til greiðslu slíkra bóta, en það úrræði tekur til húsaleigusamninga. Samkvæmt almennum reglum um efndabætur ber leigusala að grípa til viðeigandi ráðstafana til að draga úr tjóni sínu, svo sem með því að leigja húsnæðið á ný eða ráðstafa því með öðru móti. Vanræki hann þá tillitsskyldu gegn gagnaðila sínum verða bætur lækkaðar að því marki sem honum hefði verið kleift að takmarka tjónið.
Stefndi höfðaði málið í héraði til heimtu leigu fyrir tímabilið frá desember 2013 til mars 2015. Var málsóknin reist á því að leigusamningur aðila væri í fullu gildi þótt áfrýjandi hefði rýmt húsnæðið og skilað því svo sem áður er rakið. Jafnframt gerði stefndi áskilnað um að auka við kröfur sínar vegna leigu sem félli í gjalddaga undir rekstri málsins og fékk bókað í þinghaldi 14. október 2015 að hann geymdi sér rétt til að sækja í nýju máli frekari kröfur á hendur áfrýjanda. Í þessu fólst aðeins krafa um efndir eftir aðalefni samningsins en ekki krafa um efndabætur sem ákveðnar verða eftir þeim reglum sem áður eru raktar. Stefndi á samkvæmt framansögðu ekki rétt á þeim efndum og verður áfrýjandi því sýknaður.
Eftir atvikum er rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af rekstri málsins á báðum dómstigum.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Sjóklæðagerðin hf., er sýkn af kröfu stefnda, Heimiliskaupa ehf.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. nóvember 2015.
Mál þetta var höfðað 19. mars 2015 og dómtekið 14. október 2015.
Stefnandi er Heimiliskaup ehf., Suðurlandsbraut 8, Reykjavík.
Stefndi er Sjóklæðagerðin hf., Miðhrauni 11, Garðabæ.
Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 14.430.728 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, af 892.444 krónum frá 1. desember 2013 til 1. janúar 2014, af 1.788.112 krónum frá þeim degi til 1. febrúar 2014, af 2.688.509 krónum frá þeim degi til 1. mars 2014, af 3.582.458 krónum frá þeim degi til 1. apríl 2014, af 4.482.425 krónum frá þeim degi til 1. maí 2014, af 5.384.541 krónu frá þeim degi til 1. júní 2014, af 6.289.452 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2014, af 7.195.008 krónum frá þeim degi til 1. ágúst 2014, af 8.103.788 krónum frá þeim degi til 1. september 2014, af 9.011.063 krónum frá þeim degi til 1. október 2014, af 9.920.488 krónum frá þeim degi til 1. nóvember 2014, af 10.828.838 krónum frá þeim degi til 1. desember 2014, af 11.738.478 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2015, af 12.643.389 krónum frá þeim degi til 1. febrúar 2015, af 13.540.244 krónum frá þeim degi til 1. mars 2015 og af 14.430.728 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.
Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda, en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Þá krefst stefndi málskostnaðar.
Málavextir
Hinn 31. október 2007 gerðu stefnandi og stefndi með sér húsaleigusamning um húsnæði á annarri hæð að Faxafeni 12 í Reykjavík. Stefnandi, Heimiliskaup ehf., er eigandi húsnæðisins, sem stefndi, Sjóklæðagerðin hf., tók á leigu. Í 1. gr. samningsins kemur fram að um sé að ræða atvinnuhúsnæði sem leigutaki hyggist nýta sem iðnaðarhúsnæði. Þá kemur fram að húsnæðið sé skráð hjá Fasteignamati ríkisins sem iðnaðarhúsnæði. Samkvæmt 2. gr. samningsins skyldi leigutími vera frá 1. nóvember 2007 til 30. október 2022. Í 3. gr. kemur fram að grunnleiga skuli vera 476.300 krónur fyrir hvern byrjaðan mánuð og leigugreiðsla greiðast fyrir fram fyrir hvern mánuð í senn. Skuli grunnleigan vera bundin við vísitölu neysluverðs. Í 1. málsl. 4. gr. er tekið fram að leigutaki hafi haft starfsemi í húsnæðinu í nokkur ár og þekki því ástand þess. Stefndi, sem framleiðir og selur útivistar- og íþróttabúnað, rak útsölumarkað fyrir vörur sínar í hinu leigða húsnæði.
Hinn 8. október 2012 fór fram rekstrarskoðun Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu í húsnæðinu. Í gátlista vegna eldvarna, sem unninn var við skoðunina, kemur fram að um sé að ræða verslun á 2. hæð hússins. Gerðar voru athugasemdir við að flóttaleið vantaði úr húsnæðinu, auk þess sem huga þyrfti að slökkvitæki og eldvarnarhurð. Með bréfi lögmanns stefnda til stefnanda, dagsettu 12. júní 2013, var þess krafist að stefnandi „komi húsnæðinu í það horf sem um var samið með húsaleigusamningi milli aðila.“ Tekið var fram að ef úrbótum yrði ekki sinnt innan tveggja mánaða myndi stefndi nýta sér úrræði húsaleigulaga nr. 36/1994 og rifta húsaleigusamningnum, eða hafa samband við byggingarfulltrúa og láta framkvæma úrbætur á kostnað stefnanda. Í kjölfarið vann stefnandi nokkrar úrbætur á húsnæðinu með því að koma fyrir slökkvitækjum, merkja útgönguleiðir og setja upp svokallaðan Jomy-fellistiga.
Í bréfi lögmanns stefnda til stefnanda, dagsettu 11. september 2013, var lýst riftun húsaleigusamningsins, með vísan til 1. mgr. 60. gr. laga nr. 36/1994, að liðnum sjö daga fresti. Kemur fram í bréfinu að við úttekt af hálfu slökkviliðsins 21. ágúst 2013 hafi komið í ljós að brunastigi sem stefnandi hefði látið setja upp uppfyllti ekki þær kröfur sem gerðar væru til brunaútgönguleiða í verslun. Þar sem verslunarrekstur sé ekki leyfilegur í húsnæðinu samkvæmt upplýsingum slökkviliðsins telji stefndi verulegan forsendubrest fyrir áframhaldandi leigu þess. Með bréfi lögmanns stefnanda, sem mun hafa borist stefnda 18. september 2013, var riftunaryfirlýsingu, kröfum og röksemdum með henni, hafnað.
Stefndi innti síðast af hendi leigugreiðslu vegna nóvembermánaðar 2013. Í málinu liggja fyrir innheimtuseðlar sem sendir voru stefnda vegna leigugreiðslna fyrir desember 2013 til mars 2015, að báðum mánuðum meðtöldum, auk ítrekunarbréfa.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi reisir kröfur sínar á því að stefnda beri að greiða endurgjald fyrir leiguafnot af húsnæðinu í samræmi við ákvæði húsaleigusamnings aðila. Fjárkrafa stefnanda byggir á ákvæði 3. gr. samningsins um fjárhæð og greiðslu leigu. Samkvæmt ákvæðinu sé gjalddagi húsaleigu fyrsta hvers mánaðar, en eindagi fimmta sama mánaðar. Samkvæmt 1. mgr. 33. gr. laga nr. 36/1994 skuli greiða húsaleigu fyrsta dag hvers mánaðar fyrir fram fyrir einn mánuð í senn nema um annað sé samið, sem ekki hafi verið í þessu tilviki.
Við flutning málsins fyrir dómi var því alfarið hafnað að vanefndir hefðu orðið á húsaleigusamningnum af hálfu stefnanda. Var það reifað að stefnandi hefði ráðist í úrbætur á húsnæðinu, sbr. 19. gr. laga nr. 36/1994. Með þeim úrbótum hefði verið fullnægt kröfum sem gerðar séu til brunavarna í iðnaðarhúsnæði en húsnæðið hafi verið leigt sem slíkt. Þá liggi ekkert fyrir um það í málinu að forsenda samnings aðila hafi verið að stefndi gæti selt vörur sínar í húsnæðinu. Samkvæmt framangreindu hefði stefnda ekki verið heimilt að rifta samningnum á grundvelli 4., 5. eða 8. tölul. 1. mgr. 60. gr. laga nr. 36/1994.
Af hálfu stefnanda var varakröfu stefnda jafnframt hafnað við flutning málsins fyrir dóminum. Telur stefnandi samninginn vera í fullu gildi, sbr. 1. mgr. 58. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Því hefði stefnanda ekki borið skylda til að takmarka tjón sitt eins og stefndi hafi haldið fram. Þá eigi tilvísun til 2. mgr. 62. gr. laga nr. 36/1994 ekki við í málinu.
Um lagarök vísar stefnandi til meginreglna samninga-, leigu- og kröfuréttar, einkum meginreglunnar um skuldbindingargildi samninga og efndir loforða, og ákvæða húsaleigulaga nr. 36/1994. Um aðild er vísað til III. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, um varnarþing til 34. gr. og um málskostnað til 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. sömu laga.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi byggir aðalkröfu sína um sýknu á því að húsaleigusamningi við stefnanda hafi verið rift með framangreindu bréfi lögmanns stefnda, dagsettu 11. september 2013. Hafi samningurinn fallið niður sjö dögum síðar þar sem stefnandi hefði ekki sinnt með fullnægjandi hætti áskorun um úrbætur á hinu leigða húsnæði.
Stefndi byggir á því að honum hafi verið heimil riftun samningsins á grundvelli 4. tölul. 1. mgr. 60. gr. laga nr. 36/1994. Við rekstrarskoðun slökkviliðsins hefði komið í ljós að hið leigða húsnæði uppfyllti ekki kröfur um brunavarnir. Í kjölfarið hafi stefndi farið fram á úrbætur af hálfu stefnanda, sbr. 1. mgr. 23. gr. laga um brunavarnir nr. 75/2000. Stefndi hafi ekki talið sér annað fært en að rifta samningnum þegar ljóst hefði verið að stefnandi hygðist ekki mæta kröfum eftirlitsaðila svo að húsnæðið fengist notað til verslunarrekstrar. Þá hafi stefnanda sem leigusala borið að halda hinu leigða húsnæði í jafn góðu ástandi og samið var um í leigusamningi, sbr. 19. gr. laga nr. 36/1994. Í leigusamningnum hefði komið fram að stefnandi myndi leigja stefnda atvinnuhúsnæði. Hefði stefnanda á þeim tíma verið kunnugt um að stefndi rak verslun í húsnæðinu.
Verði ekki fallist á að stefnda hafi verið heimil riftun samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. 60. gr. laga nr. 36/1994 vísar hann til 5. tölul. sömu lagagreinar. Stefndi hafi rekið útsölumarkað í húsnæðinu til fjölda ára án afskipta opinberra yfirvalda. Ekki hafi komið í ljós fyrr en við framangreinda rekstrarskoðun slökkviliðsins að brunavarnir væru ekki í samræmi við opinber fyrirmæli. Í kjölfarið hefði stefndi fengið upplýsingar um hvers konar brunavarnir þyrfti að setja upp svo að halda mætti útsölumarkað í húsnæðinu. Það hefði komið stefnda í opna skjöldu þegar komið hefði fram hjá eftirlitsaðilanum að slíkur rekstur yrði bannaður ef brunaútgöngum yrði ekki komið í viðunandi horf, þ.e. að brunastigi yrði frá annarri hæð. Stefnandi hefði látið undir höfuð leggjast að fara að kröfum yfirvalda í þessu efni, þrátt fyrir áskorun stefnda. Því hefðu forsendur verið brostnar fyrir leigu stefnda á húsnæðinu.
Verði ekki fallist á að stefnda hafi verið heimil riftun samkvæmt 4. og 5. tölul. 1. mgr. 60. gr. laga nr. 36/1994 vísar hann til almennrar riftunarreglu í 8. tölul. sömu lagagreinar. Nauðsynlegt og eðlilegt hafi verið að rifta leigusamningnum við þær aðstæður sem upp voru komnar vegna fyrirmæla eftirlitsaðila um úrbætur við brunaútgönguleiðir. Stefndi vísar til forsendubrests í þessu sambandi. Við undirritun leigusamnings til 15 ára hefði legið ljóst fyrir að að tilgangur hans var að selja vörur sínar í húsnæðinu. Hafi heimild til sölu á varningnum verið ákvörðunarástæða stefnda við undirritun leigusamningsins. Telur stefndi að líta megi svo á að opinber fyrirmæli sem banni slíka verslun hafi áhrif á skuldbindingargildi samningsins og að fella megi hann úr gildi á grundvelli óskráðra réttarreglna þar sem um verulegan forsendubrest hafi verið að ræða.
Varakrafa stefnda um að dómkrafa stefnanda verði lækkuð verulega er reist á því að stefnandi hafi látið undir höfuð leggjast að auglýsa eignina til leigu eða gera aðrar ráðstafanir í því skyni að takmarka tjón sitt í samræmi við ákvæði húsaleigulaga eftir að ljóst var að stefndi hefði yfirgefið húsnæðið og afhent lykla að því. Í málflutningi var vísað til 2. mgr. 62. gr. laga nr. 36/1994 í því sambandi.
Niðurstaða
Með húsaleigusamningi aðila, dagsettum 31. október 2007, tók stefndi á leigu umrætt húsnæði, sem skráð er iðnaðarhúsnæði hjá Fasteignamati ríkisins og kemur fram í samningnum að stefndi hyggist nýta það sem slíkt. Leigusamningurinn var tímabundinn og skyldi gilda til 30. október 2022. Í samningnum kemur jafnframt fram að stefndi hafi haft starfsemi í húsnæðinu í nokkur ár og þekki því ástand þess. Samkvæmt 1. mgr. 23. gr. laga um brunavarnir nr. 75/2000 ber eigandi mannvirkis ábyrgð á að það fullnægi kröfum um brunavarnir sem settar eru fram í lögum og reglugerðum og að brunavarnir taki mið af þeirri starfsemi sem fram fer í húsinu. Að kröfu stefnda lét stefnandi vinna úrbætur á húsnæðinu eftir að opinber eftirlitsaðili hafði gert athugasemdir við brunavarnir í því. Verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en að þær úrbætur hafi fullnægt kröfum sem gerðar eru til brunavarna í iðnaðarhúsnæði, enda hefur stefndi ekki haldið öðru fram. Þykir stefnandi með aðgerðum sínum hafa fullnægt skyldum sínum til að halda húsnæðinu í leiguhæfu ástandi, sbr. 19. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994. Samkvæmt því verður ekki fallist á það með stefnda að stefnandi hafi gerst sekur um vanrækslu á skyldum sínum samkvæmt húsaleigusamningnum svo að heimilaði að honum yrði rift á grundvelli 4. tölul. 1. mgr. 60. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994. Þá verður ekki séð að réttur stefnda samkvæmt samningnum hafi verið verulega skertur vegna laga eða annarra opinberra fyrirmæla svo að heimilaði riftun á grundvelli 5. tölul. sömu málsgreinar. Loks verður ekki ráðið af húsaleigusamningnum, eða gögnum málsins að öðru leyti, að fram hafi komið af hálfu stefnda að forsenda samningsins væri að unnt yrði að nýta hið leigða sem verslunarhúsnæði. Með hliðsjón af því sem að framan er rakið þykir ekki hafa verið sýnt fram á að stefnandi hafi vanefnt skyldur sínar samkvæmt samningnum og húsaleigulögum svo að heimilaði riftun á grundvelli 8. tölul. 1. mgr. 60. gr. laga nr. 36/1994. Samkvæmt framangreindu verður að hafna sýknukröfu stefnda.
Samkvæmt 1. mgr. 58. gr. laga nr. 36/1994 lýkur tímabundnum húsaleigusamningi á umsömdum degi án sérstakrar uppsagnar eða tilkynningar. Leigusamningur aðila var því í gildi á því tímabili sem krafa stefnanda tekur til. Ákvæði 2. mgr. 62. gr. laga nr. 36/1994 lýtur að skyldum leigusala sem neytt hefur heimildar til að rifta leigusamningi og á því ekki við um réttarsamband aðila í máli þessu. Þá verður skylda stefnanda til aðgerða sem þar greinir ekki leidd af öðrum ákvæðum húsaleigulaga. Verður því jafnframt hafnað varakröfu stefnda um að dómkröfur stefnanda sæti verulegri lækkun.
Að framangreindu virtu verður stefnda gert að greiða stefnanda hina umkröfðu skuld vegna leigugreiðslna og verður dómkrafa stefnanda tekin til greina eins og hún er fram sett.
Í samræmi við þessa niðurstöðu málsins og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 verður stefnda gert að greiða stefnanda málskostnað sem ákveðinn er 500.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Ragnheiður Harðardóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.
Dómsorð:
Stefndi, Sjóklæðagerðin hf., greiði stefnanda, Heimiliskaupum ehf., 14.430.728 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, af 892.444 krónum frá 1. desember 2013 til 1. janúar 2014, af 1.788.112 krónum frá þeim degi til 1. febrúar 2014, af 2.688.509 krónum frá þeim degi til 1. mars 2014, af 3.582.458 krónum frá þeim degi til 1. apríl 2014, af 4.482.425 krónum frá þeim degi til 1. maí 2014, af 5.384.541 krónu frá þeim degi til 1. júní 2014, af 6.289.452 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2014, af 7.195.008 krónum frá þeim degi til 1. ágúst 2014, af 8.103.788 krónum frá þeim degi til 1. september 2014, af 9.011.063 krónum frá þeim degi til 1. október 2014, af 9.920.488 krónum frá þeim degi til 1. nóvember 2014, af 10.828.838 krónum frá þeim degi til 1. desember 2014, af 11.738.478 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2015, af 12.643.389 krónum frá þeim degi til 1. febrúar 2015, af 13.540.244 krónum frá þeim degi til 1. mars 2015 og af 14.430.728 krónum frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 500.000 krónur í málskostnað.