Hæstiréttur íslands

Mál nr. 265/2004


Lykilorð

  • Bifreið
  • Líkamstjón
  • Örorka
  • Skaðabætur


Fimmtudaginn 2

 

Fimmtudaginn 2. desember 2004.

Nr. 265/2004.

M

(Einar Gautur Steingrímsson hrl.)

gegn

Sigurbjörgu K. Karlsdóttur og

Sjóvá-Almennum tryggingum hf.

(Ólafur Haraldsson hrl.)

 

Bifreiðir. Líkamstjón. Örorka. Skaðabætur.

M slasaðist í árekstri í desember 1999. Voru árslaun hennar síðustu þrjú almanaksár fyrir slysdag lögð til grundvallar bótum í samræmi við meginreglu 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Talið var, að lagaskilyrði væru ekki uppfyllt til að meta árslaun M sérstaklega samkvæmt 2. mgr. sama ákvæðis, svo sem hún hafði haldið fram. Taldist hún því hafa fengið tjón sitt greitt að fullu og voru stefndu sýknuð af kröfu hennar.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Guðrún Erlendsdóttir og Hrafn Bragason.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 24. júní 2004. Hún krefst þess að stefndu verði í sameiningu dæmd til að greiða sér 1.627.170 krónur með 2% ársvöxtum frá 17. febrúar 2000 til 2. október 2002, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af samanlagðri fjárhæð höfuðstóls og áfallinna ársvaxta frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem hún naut fyrir héraðsdómi.

Stefndu krefjast aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Rétt er að aðilarnir beri hvert sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. mars 2004.

Mál þetta var þingfest 3. október 2002 og var dómtekið 10. desember sl. en flutt að nýju 22. mars 2004 og dómtekið sama dag.    

Stefnandi er M, [...], Reykjavík.

Stefndu eru Sigurbjörg K. Karlsdóttir, Flúðaseli 40, Reykjavík og Sjóvá-Almennar tryggingar hf., Kringlunni 5, Reykjavík.

Dómkröfur

Stefnandi krefst þess að stefndu verði in solidum gert að greiða stefnanda 1.627.170 krónur með 2% ársvöxtum frá 17. febrúar 2000 til stefnubirtingardags.  Þess er krafist að vextirnir höfuðstólsfærist á 12 mánaða fresti, í fyrsta skipti 17. febrúar 2001.  Krafist er dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af samanlagðri fjárhæð höfuðstóls og almennra vaxta frá stefnubirtingardegi til greiðsludags.

Krafist er málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefndu eins mál þetta væri eigi gjafsóknarmál.

Stefndu krefjast aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda en til vara að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega.

Í báðum tilvikum er þess krafist að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefndu málskostnað samkvæmt mati dómsins.

Málavextir

Málavextir eru þeir að þann 17. desember 1999 ók stefnda, Sigurbjörg K. Karlsdóttir, bifreið sinni XO-041, sem er af gerðinni Volkswagen Golf, aftan á bifreið stefnanda JK-[...], sem er af gerðinni Dodge Aries, á mótum Bjargarstígs og Bergstaðastrætis í Reykjavík.  Óumdeilt er að stefndu beri fébótaábyrgð á tjóni því sem af ákeyrslunni hlaust, á grundvelli 88.-90. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 91. gr.  Þegar stefnandi lenti í slysinu starfaði hún sem foringi hjá Hjálpræðishernum.

Þann 25. júní 2002 skiluðu læknarnir Guðmundur Björnsson og Atli Þór Ólason af sér matsgerð um afleiðingar slyssins fyrir stefnanda.  Niðurstaða matsgerðar var eftirfarandi:

Tímabundið atvinnutjón taldist ekki vera fyrir hendi.  Stefnandi var talin hafa verið veik í tvo mánuði, án þess að vera rúmliggjandi.  Stöðugleikapunktur         var talinn 17. febrúar 2002.  Varanlegur miski var metinn 8%, varanleg örorka 15% og varanleg læknisfræðileg örorka 8%.

Á grundvelli þessa mats fékk stefnandi greiddar bætur, þann 28. ágúst 2002, samtals að fjárhæð 3.727.440 krónur auk lögmannskostnaðar.  Voru árslaun stefnanda 1997-1999 lögð til grundvallar ákvörðunar bóta.

Ágreiningur í máli þessu lýtur aðallega að viðmiðunartekjum sem leggja á til grundvallar ákvörðun bóta.

Tekjur stefnanda á árunum 1996 til og með 2001 voru samkvæmt skattframtölum þessar:

1996    824.893  kr.

1997  1.111.272 kr.

1998  1.699.599 kr.

1999  1.735.940 kr.

2000  1.712.099 kr.

2001  1.365.575 kr.

Á árinu 1996 var stefnandi í námi og ekki í fullri vinnu það ár.  Aðilar málsins eru sammála um að það sé ekki nothæft til útreiknings viðmiðunarlauna.  Af hálfu stefnda Sjóvár- Almennra trygginga hf. var, við uppgjör bóta, miðað við tekjur áranna 1997-1999 og grundvelli þeirrar viðmiðunar greiddar bætur, þann 28. ágúst 2002. samtals að fjárhæð 3.727.440 krónur, auk lögmannskostnaðar.  Við uppgjörið var því miðað við eftirfarandi launatekjur:

Launavísitala á viðmiðunardegi              189,3              Launavísitala                     Samtals

Tekjur ársins 1997              1.111.272              155,8              1.350.217

Tekjur ársins 1998              1.699.599             170,4              1.888.111

Tekjur ársins 1999              1.735.940              182              1.805.568

Meðaltal                           1.681.299

Töpuð lífeyrisréttindi             100.878

Samtals                           1.782.177

Ef tekjur þessara ára skuli leggja til grundvallar við útreikning viðmiðunarlauna, telur stefnandi ekki vera ágreining um að stefndi hafi bætt tjón stefnanda að fullu.

Stefnandi hafnar því hins vegar, með vísan til 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, að framangreind ár verði notuð til útreiknings viðmiðunarlauna í andstöðu við fyrirliggjandi gögn.  Þau gögn sýni, svo ekki verði um villst, að framtíðartekjur í starfi stefnanda, sem foringi í Hjálpræðishernum, hefðu á árunum 2000 og um fyrirsjáanlega framtíð orðið verulega hærri en á árunum á undan, vegna varanlegrar stefnubreytingar Hjálpræðishersins í launamálum.  Í máli þessu blasi við að þegar stefnandi hefði kosið að hætta störfum hjá Hjálpræðishernum hefði beðið hennar hærra launað starf, sem framhalds­skólakennari.

Málsástæður stefnanda og lagarök

Stefnandi byggir kröfur sínar á því að á bak við 7. gr. skaðabótalaga sé sú hugsun að ákvarða bætur að töluverðu leyti staðlað svo að þeir, sem eins standi á um, fái sömu bætur.  Með þessu sé tryggt jafnræði þeirra sem eins standi á um.  Hér sé verið að bæta verndarandlag sem njóti einna mestrar verndar í íslenskum rétti, sem sé aflahæfi manna.  Sem dæmi um þá ríku réttarvernd sem aflahæfi njóti þá sé hvorki hægt að selja það, veðsetja né gera nokkra slíka hluti sem mönnum væri annars heimilt með eigur sínar.  Hafi aflahæfi verið talið njóta stjórnarskrárverndar í tengslum við skaðabótaréttinn, sbr. Hrd. 1998:2233.  Svo mikillar verndar njóti aflahæfið að menn verði t.d. ekki krafðir um efndir á ráðningarsamningum in natura.

Til þess að tryggja markmiðin sé ákvæði 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, sem hafi það að markmiði að notast við það sem sannara reynist og tryggja sömuleiðis að þeir, sem verði fyrir sömu skerðingu, fái sömu bætur.  2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga sé til að koma í veg fyrir að notaðar séu launaviðmiðanir sem séu óviðmiðunarhæfar með tilliti til raunveruleikans.  Þetta ákvæði sé nauðsynlegt m.t.t. ákvæða stjórnarskrár, því óheimilt sé að setja í lög reglu sem myndi leiða til að einn fái tjón sitt bætt að fullu en annar ekki.

Ákvæði 2. mgr. 7. gr. skbl. sé einnig í samræmi við þá grundvallarreglu skaðabóta­réttarins að sá, sem verði fyrir tjóni, skuli fá fullar bætur, hvorki of né van. Það sé markmið skaðabótalaga.  Þetta sé það sem stefnt sé að og allar viðmiðanir miðist við að ná þessu marki. 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga verði ekki beitt ef hún er í andstöðu við þetta markmið.  Í Hrd. 1998:2233 komi skýrt fram að það færi gegn 72. gr. stjórnarskrárinnar ef markmið skaðabótalaga yrði eitthvað annað en að menn fengju fullar bætur.

Þeir, sem eins standi á um, verði að fá sömu bætur, sbr. Hrd. 1998:2233, en þá sé átt við þá sem verði fyrir sömu skerðingu á framtíðartekjum.

Með 6. gr. laga nr. 37/1999 hafi 7. gr. skaðabótalaga verið breytt í þeim tilgangi að fá sem réttastan mælikvarða á framtíðartjón. Það hafi verið gert með því að ákveða meðalatvinnutekjur síðustu þriggja ára til þess að jafna áhrif sveiflna í tekjum manna og með því að breyta 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga með því að lögfesta sérstaklega að hafa það sem sannara reynist til að finna út framtíðartekjur.

Hin sérstöku atvik sem varði stefnanda:

Í ljósi framangreindrar umfjöllunar um efni 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga verði nú vikið að þeim atriðum sem varpi ljósi á að beita verði þeirri grein til að fá réttmætan mælikvarða á framtíðartjón stefnanda. 

Þegar stefnandi fæddist, árið 1960, hafi foreldrar hennar verið foringjar í Hjálpræðishernum, þau A og B.  Þau hafi jafnframt verið gistihússtjórar og hafi stefnandi búið í "Herkastalanum" til sjö ára aldurs.  Foringjar í Hjálpræðishernum séu kallaðir til ýmissa starfa, ekki alltaf í sama landinu, og hafi stefnandi oft flutt búferlum þegar foreldrar hennar hafi verið færðir til í starfi.  Um 15 ára aldur hafi stefnandi fengið brennandi áhuga á starfi Hjálpræðishersins og framgangi á hugsjónum hans og markmiðum.  Hugur hennar hafi þá stefnt til að verða foringi í Hjálpræðishernum.  Hafi hún gengið í herinn 14 ára gömul.

Árið 1979 hafi stefnandi hafið tveggja ára nám í foringjaskóla Hjálpræðishersins í Lundúnum.  Að því loknu hafi hún hafið nám í bréfaskóla sem hafi tekið þrjú ár.

Áður en lengra sé haldið sé rétt að gera grein fyrir því hvernig launamálum sé háttað hjá Hjálpræðishernum.  Samband foringja í Hjálpræðishernum og hersins sé ekki venjulegt samband atvinnurekanda og launþega.  Hjálpræðisherinn sé félags­skapur sem samanstandi af fólkinu sjálfu og séu hermennirnir að framkvæma sameiginlega hugsjón og líti ekki svo á að þeir séu í starfi fyrir einhvern annan en sjálfa sig.  Launamál Hjálpræðishersins beri keim af þessu.  Laun séu almennt skömmtuð lág og séu hugsuð þannig að menn geti unnið að markmiðum Hjálpræðis­hersins en hafi samt til hnífs og skeiðar.  Ef foringi í Hjálpræðishernum hafi aflað sér tekna annars staðar lækki laun frá hernum að sama skapi þannig að heildarlaunin breytist ekki.  Ástæður þess að foringjar sækist eftir launum annars staðar sé fyrst og fremst til að létta undir starfinu og litið sé á þetta sem eigið framlag til sameiginlegrar hugsjónar.  Annar mikilvægur þáttur í launamálum Hjálpræðishersins sé sá að foringjar, sem starfi í sama landi, fái sömu laun.  Þetta þýði að ef foringi fari frá hálaunasvæði til láglaunasvæðis þá lækki launin, þveröfugt við það sem gerist hjá flestum vestrænum hjálparstofnunum.  Þar séu menn frá Vesturlöndum yfirleitt á margföldum launum þeirra sem þeir starfa með.  Þessu sé öfugt farið hjá Hjálpræðis­hernum.

Árið 1984 hafi stefnandi farið til Panama á vegum Hjálpræðishersins og hafi stjórnað þar upptökuheimili fyrir börn.  Hún hafi síðan verið flokksforingi í Panama árin 1987-1989 og hafi tekið við stjórn skóla þar til ársins 1990 þegar hún varð æskulýðsleiðtogi fyrir alla flokka í Panama til ársins 1992.  Þá hafi hún snúið aftur heim til Íslands.

Þegar hér var komið sögu hafi stefnandi verið orðin 32 ára gömul og hafi þurft að skoða sín mál.  Hún hafi verið þreytt eftir 8 ára veru í Panama á lágum launum og hugðist leita fyrir sér á hinum almenna vinnumarkaði, a.m.k. fyrst um sinn.  Hafi hún strax rekið sig á að hún væri ekki gjaldgeng án menntunar.  Hafi hún þá ákveðið að söðla um og fara í skóla.

Á árunum 1992-94 hafi stefnandi verið við BA-nám í Háskóla Íslands í spænsku, sem aðalfagi, en hafi tekið norsku og sænsku sem aukafög.  Hún hafi unnið fyrir sér á gistiheimili Hjálpræðishersins með náminu.  Eftir það hafi hún starfað í eitt ár í Hjálpræðishernum sem flokksforingi á Akureyri en hafi síðan hafið nám í Háskóla Íslands árið 1995-96 til að afla sér kennsluréttinda í samræmi við þær hugmyndir sem hafi vaknað hjá henni þegar hún hafi komið aftur til Íslands árið 1992.  Árið 1996 hafi hún fengið kennsluréttindi.

Þegar stefnandi hafði fengið kennsluréttindi hafi henni boðist spennandi starf á vegum Hjálpræðishersins sem hafi verið að vera æskulýðsleiðtogi hans á Íslandi og í Færeyjum á árunum 1996-97.  Stefnandi, sem hafi verið einhleyp, hafi séð þarna spennandi starf og möguleika á að ferðast mikið, m.a. að heimsækja bróður sinn öðru hvoru, en hann hafi þá búið í Noregi og hafi glímt við alvarleg veikindi.  Að þessu ári liðnu hafi stefnandi ákveðið, þrátt fyrir að vera orðin fullgildur kennari, að gefa hugsjónum Hjálpræðishersins enn skerf af ævi sinni og hafi ákveðið að gerast um tíma flokksforingi við Hjálpræðisherinn í Reykjavík og vera fulltrúi í æskulýðsstarfinu.  Með þessu hafi hún ekki lagt á hilluna þær hugmyndir sínar að gerast framhaldsskólakennari og starfa að hugsjónum Hjálpræðishersins í frístundum sínum, eins og menn geri í hverju öðru félagsstarfi.  Þá hafi hún orðið fyrir slysinu.

Rétt sé í þessu sambandi að skoða hvaða framtíðartekjur hefðu beðið stefnanda.

Vafasamt teljist að miða við laun Hjálpræðishermanna, enda hafi stefnandi, eins og að framan er rakið, verið farin að huga að framtíð sinni og nauðsyn þess að afla tekna sem styrktu lífeyrissjóðsmál hennar og gæfu henni möguleika til eignamyndunar, enda yrði hún ekki alltaf ung.  Hafi þá ekki skipt öllu þótt hún ætti annars farsælan feril innan Hjálpræðishersins.  Frá þessu sjónarmiði væri eðlilegast að miða framtíðartekjur hennar við meðallaun framhaldsskólakennara.  Á hinn bóginn sé ljóst að Hjálpræðisherinn hafi haft töluvert aðdráttarafl og ekki sé ljóst hvernig ævitekjur hennar myndu skiptast milli starfa hjá Hjálpræðishernum og kennslu.  Við það verði að miða að hún hefði gert alvöru úr því að skipta um starfsvettvang.

Til að stilla kröfum stefnanda í hóf sé miðað við að 2/3 hlutar framtíðarlauna hennar hefðu verið vegna kennarastarfa og 1/3 í þjónustu Hjálpræðishersins.

Samkvæmt fréttariti Kjararannsóknarnefndar opinberra starfsmanna hafi meðaltekjur framhaldsskólakennara í febrúar 2000 verið 223.402 krónur.  Á þeim tíma hafi atvinnurekandi greitt 11,5% í lífeyrissjóð, sem geri 25.691 krónu, eða samtals 249.093 krónur.

Samkvæmt yfirliti Turid Gramst majors yfir þær tekjur sem stefnandi hefði fengið í laun árin 2000 til 2002, væri hún í fullri vinnu hjá Hjálpræðishernum, sé ljóst að Hjálpræðisherinn hafi tekið nýja stefnu í launamálum sem felist í verulegri hækkun launa.  Það sé því ljóst að ekki komi til álita að miða við tekjur hennar í tímabundnu starfi hjá Hjálpræðishernum, sem hafi verið á grundvelli launakjara sem Hjálpræðisherinn hafi endanlega verið fallinn frá og hafi ekkert haft með framtíðartekjur foringja í Hjálpræðishernum að gera.

Miðað við framangreindar forsendur séu viðmiðunarlaunin þannig fundin út:

Laun framhaldsskólakennara í febrúar 2000     2.680.824 kr.

Framlag atvinnurekanda í lífeyrissjóð, 11,5%               308.295 kr.

Samtals                                                                             2.989.119 kr.       

 

Laun hjálpræðishermanna eftir að varanlegar breytingar

voru yfirgengnar á árinu 2001                                 2.350.550 kr.

Lækkun til launavísitölu í febrúar 2000                 - 62.842 kr.

Samtals                                                                             2.287.708 kr.

Framlag Hjálpræðishersins í lífeyrissjóð, 6%              137.263 kr.

Samtals                                                                           2.424.970 kr.

2/3 af árslaunum miðað við laun kennara                           1.992.746 kr.

1/3 af launum foringja í Hjálpræðishernum          808.323 kr.

Samtals                                                                             2.801.069 kr.

 

Stefndi reiknar kröfuna út þannig:

Viðmiðunarlaun    1.782.177 kr.

Stuðull                           10,646

Örorka                           15%

Tjón                              2.845.857 kr.

 

Stefnandi reiknar kröfuna út þannig:

Viðmiðunarlaun    2.801.069 kr.

Stuðull                           10,646

Örorka                           15%

Tjón                              4.473.027 kr.

 

Ágreiningsefni málsins:

Útreikningur stefnanda              4.473.027 kr.

Útreikningur stefnda              2.845.857 kr.

Mismunur, sem er stefnufjárhæðin 1.627.170 kr.

 

Um málskostnað vísist til XXI. kafla l. nr. 91/1991, sérstaklega 129. gr. og 130. gr.  Stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyld og beri að taka tillit til þess við ákvörðun málskostnaðar.

Málsástæður stefndu og lagarök

Aðalkrafa um sýknu.

Stefndu byggja aðalkröfu sína um sýknu á því að með þegar greiddum bótum sé tjón stefnanda að fullu bætt.  Hafi stefnandi, sem beri sönnunarbyrðina um umfang tjóns síns, ekki sannað að tjón hennar hafi verið meira en þegar hafi verið bætt.

Stefndu byggja á því að bætur til stefnanda vegna varanlegrar örorku beri að ákvarða á grundvelli 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.  Samkvæmt orðanna hljóðan ætti að miða við tekjur áranna 1996-1998 sem séu þrjú síðustu almanaksár fyrir slysdag.  Þar sem slysið varð í lok ársins 1999 hafi hins vegar þótt sanngjarnt og stefnanda í hag að miða við tekjur áranna 1997-1999.  Hafi þær tekjur því verið lagðar til grundvallar ákvörðunar bóta.

Stefnandi hafi ekki sannað að annar mælikvarði en meginregla skaðabóta­laganna í 1. mgr. 7. gr. gefi réttari mynd af líklegum framtíðartekjum hennar.  Miða beri við aðstæður stefnanda eins og þær hafi verið á slysdegi en ekki taka mið af aðstæðum hennar síðar og breytingum sem kunni að hafa orðið þar á.

Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga skuli árslaun metin sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður eru fyrir hendi og ætla megi að annar mælikvarði en árslaun þriggja síðustu almanaksára fyrir slys sé réttari á líklegar framtíðartekjur tjónþola.

Stefnandi hafi á slysdegi verið foringi í Hjálpræðishernum.  Hafi stefnandi ekki sannað að þá hafi hún haft í hyggju að skipta um starfsvettvang.  Stefnandi hafi ekki starfað sem framhaldsskólakennari þótt hún hafi aflað kennsluréttinda árið 1996.  Réttindin sem slík nægi ekki til að uppfylla skilyrði 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga.

Þó að launakerfi Hjálpræðishersins kunni að hafa breyst frá því slysið varð beri ekki að taka tillit til þess við ákvörðun bóta enda koma eftirfarandi atvik ekki til skoðunar hvað árslaun varðar.

Ákvæði 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga sé undantekningarregla sem skýra beri þröngt.  Við mat á því hvort beita beri ákvæði 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga um tilvik beri að miða við aðstæður tjónþola á slysdegi.

Stefnandi hafi ekki sýnt fram á að óvenjulegar aðstæður séu fyrir hendi og að árslaun ákveðin á grunni 1. mgr. 7. gr. gefi ranga eða ósanngjarna mynd af framtíðartekjum hennar.

Verði ekki fallist á aðalkröfu stefndu um sýknu er varakrafa stefndu byggð á því að árslaun þau sem stefnandi byggir kröfu sína á gefi ekki rétta mynd af líklegum tekjum stefnanda.  Sérstaklega er mótmælt að miðað sé við tekjur framhaldsskóla­kennara.  Stefnandi hafi fengið kennsluréttindin árið 1996 en hafi ekki starfað sem kennari við framhaldsskóla og hafi ekki sýnt fram á að hún hafi haft í hyggju að skipta um starfsvettvang þegar hún hafi lent í slysinu.

Þá er mótmælt að miðað sé við hærra lífeyrissjóðsframlag frá atvinnurekanda en 6%.

Upphafstíma dráttarvaxta er mótmælt.

Um lagarök vísa stefndu til skaðabótalaga nr. 50/1993, umferðarlaga nr. 50/1987 einkum XIII. kafla, reglna skaðabótaréttar um sönnun tjóns og sönnunarbyrði, reglur um orsakatengsl og sennilega afleiðingu.

Um málskostnað er vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Niðurstaða

Ágreiningur aðila lýtur að því hvort beita eigi 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga við ákvörðun bóta til stefnanda eða hvort beita eigi 2. mgr. sömu greinar.  Eins og rakið er hér að framan telur stefndi tjón stefnanda að fullu bætt með þeim bótum sem hún þegar hefur fengið greiddar en við ákvörðun þeirra var miðað við tekjur stefnanda árin 1997 – 1999.  Stefnandi byggir kröfur sínar hins vegar á því, með vísan til 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga, að við útreikning bóta til stefnanda beri að miða við að 2/3 hlutar framtíðarlauna hennar verði vegna kennarastarfa en 1/3 vegna þjónustu í Hjálpræðishernum.

Stefnandi lenti í umræddu slysi í desember 1999.  Var stefnandi þá 39 ára gömul.  Samkvæmt framburði stefnanda fyrir dómi stundaði hún BA nám frá árinu 1992 til ársins 1995. Stundaði stefnandi nám í spænsku og norsku.  Með náminu kveðst stefnandi hafi unnið fyrir Hjálpræðisherinn og m.a. kennt norsku við grunnskólann á Akureyri.  Á árinu 1996 kveðst stefnandi hafa unnið hjá Hjálpræðishernum auk þess sem hún hafi kennt við Kvennaskólann.  Kveðst hún hafa unnið sem fullgildur kennari enda þótt hún hafi ekki haft réttindi.  Hafi sú kennsla verið í tengslum við námið.  Kveðst hún hafa útskrifast úr námi þá um vorið.  Árin 1997 til 1999 var stefnandi í fullu starfi hjá Hjálpræðishernum.

Á árinu 1999 stóð stefnandi frammi fyrir versnandi heilsufari vegna bakverkja.  Áður en slysið varð hafði hún stefnt að dvöl á Reykjalundi og þar dvaldi hún í tvo mánuði og fór eftir það í sjúkraþjálfun og var undir eftirliti læknis.  Frá 1. mars 2001 var stefnandi metin til fullrar almennrar örorku hjá Tryggingastofnun ríkisins.

Stefnandi hafði fyrir slysið starfað sem foringi hjá Hjálpræðishernum og kveðst hún hafa byrjað að vinna sem slík eftir dvölina á Reykjalundi.  Hún hafi fundið að hún réði ekki við starfið af heilsufarsástæðum, en starfinu fylgi mikið áreiti og álag.  Á árinu 2001 kveðst stefnandi nánast hafa dottið út af launaskrá hjá Hjálpræðishernum en hafa tekið að sér einstaka störf.

Síðastliðið haust byrjaði stefnandi í meistaranámi í uppeldis- og menntunarfræði.  Samkvæmt framlagðri námsáætlun er gert ráð fyrir að námi hennar ljúki vorið 2005.

Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laga nr. 50/1993, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 37/1999, skal meta árslaun sérstaklega, þegar óvenjulegar aðstæður eru fyrir hendi hjá tjónþola og ætla má, að annar mælikvarði sé réttari á líklegar framtíðartekjur tjónþola, en sá, sem fæst með því að beita aðalreglu 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga um meðalvinnutekjur tjónþola sjálfs síðustu 3 árin fyrir þann dag er tjón varð.

Í athugasemdum með 6. gr. frumvarps þess, er varð að lögum nr. 37/1999, um breytingu á 7. gr. segir, að launatekjur liðinna ára séu ekki góður mælikvarði, ef fullyrða má, að breytingar á högum tjónþola standi fyrir dyrum. Sé í slíkum tilvikum eðlilegra að ákveða viðmiðunarlaunin miðað við nýjar aðstæður.

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga skal miða við tekjur 3 síðustu ár fyrir slys.  Þar sem stefnandi slasaðist svo seint á árinu 1999 varð að samkomulagi milli málsaðila við bótauppgjör að miða við tekjuárin 1997 – 1999.

Við mat á því hvort heimilt sé að beita ákvæði 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga í tilviki stefnanda verður að líta til þess hvort aðstæður hennar hafi á einhvern hátt verið óvenjulegar að því er tekjuöflun varðar þannig að annar mælikvarði teljist réttari en þær tekjur sem stefnandi hafði síðustu 3 ár fyrir slys.

Fram er komið að stefnandi hefur átt farsælan starfsferil hjá Hjálpræðishernum í gegnum árin og var hún í fullu starfi þar 3 síðustu árin fyrir slys.    Stefnandi telur að við ákvörðun bóta verði að miða við að stefnandi hefði gert alvöru úr því að skipta um starfsvettvang þannig að hún starfaði að 2/3 hluta sem framhaldsskólakennari en að 1/3 hluta sem starfsmaður Hjálpræðishersins.

Enda þótt stefnandi hefði áunnið sér kennsluréttindi sem framhaldsskólakennari þegar slysið varð starfaði hún ekki sem slíkur.  Stefnandi átti á þeim tíma við heilsufarserfiðleika að stríða en ekki lá fyrir á þeim tíma hvaða áhrif þau veikindi myndu hafa á tekjuöflunarmöguleika stefnanda til framtíðar.  Hvaða starf kunni að henta viðkomandi síðar getur ekki, samkvæmt skaðabótalögum, orðið mælikvarði viðmiðunartekna á tjónsdegi.  Var ekki um það að ræða hjá stefnanda að fyrir dyrum stæðu breytingar á högum hennar sem fullyrða hafi mátt, á þeim tíma, að úr yrði.  Að þessu virtu verður að telja að tekjur stefnanda síðustu 3 ár fyrir slys gefi rétta mynd af aflahæfi stefnanda á tjónsdegi.

Samkvæmt framansögðu þykja lagaskilyrði ekki uppfyllt til að meta árslaun stefnanda  sérstaklega samkvæmt 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga.  Telst stefnandi því hafa fengið tjón sitt greitt að fullu og ber því að sýkna stefndu af kröfum stefnanda.

Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 315.940 krónur, þ.e. málflutningsþóknun lögmanns hennar, Einars Gauts Steingrímssonar hrl., 300.000 krónur, og útlagður kostnaður, 15.940 krónur, greiðist úr ríkissjóði.  Við ákvörðun málflutningsþóknunar er ekki tekið tillit til virðisaukaskatts.

Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Stefndu, Sigurbjörg K. Karlsdóttir og Sjóvá-Almennar tryggingar hf., skulu vera sýkn af kröfum stefnanda.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 315.940 krónur, þ.e. málflutningsþóknun lögmanns hennar, Einars Gauts Steingrímssonar hrl., 300.000 krónur, og útlagður kostnaður, 15.940 krónur, greiðist úr ríkissjóði.