Hæstiréttur íslands

Mál nr. 24/2017

M (Valborg Þ. Snævarr hrl.)
gegn
K (Eva Dís Pálmadóttir hrl.)

Lykilorð

  • Börn
  • Forsjá
  • Umgengni
  • Gjafsókn
  • Matsgerð

Reifun

K og M deildu um forsjá sonar þeirra og umgengnisrétt. Fyrir lá í málinu matsgerð dómkvadds matsmanns en hann taldi báða aðila hæfa til að fara með forsjána. Hæfni K væri hins vegar mjög góð á meðan hæfni M væri viðundandi. Komst héraðsdómur að þeirri niðurstöðu, meðal annars með vísan til matsgerðarinnar, að það væri drengnum fyrir bestu að K færi með forsjá hans. Eftir uppsögu héraðsdóms var að beiðni M dómkvaddur matsmaður til að kanna afstöðu drengsins til forsjár og annarra nánar tilgreindra atriða, meðal annars hugsanlegs flutnings K til Noregs. Í dómi Hæstaréttar kom fram að matsgerðin sem lyti að vilja drengsins, einum þeirra þátta sem líta bæri til við mat á fyrirkomulagi forsjár, fengi ekki hnekkt þeirri niðurstöðu sérfróðs héraðsdóms að K skyldi fara með forsjána. Þá væri til þess að líta að ákvörðun um umgengni hlyti ævinlega að taka mið af þeirri stöðu sem uppi væri við uppkvaðningu dóms en gæti ekki ráðist af óljósum áformum sem hvorki lægi fyrir hvort ganga myndu eftir né þá með hvaða hætti. Að því gættu var hinn áfrýjaði dómur staðfestur með vísan til forsendna hans.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Karl Axelsson og Viðar Már Matthíasson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 13. janúar 2017. Endanlegar dómkröfur hans eru á þá leið að hann krefst þess að forsjá barnsins A verði sameiginleg og lögheimili hans hjá stefndu. Þá krefst hann þess að kveðið verði á um inntak umgengnisréttar. Loks krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, án tillits til gjafsóknar sem honum hefur verið veitt.

Stefnda krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms, en til vara að forsjá barnsins verði sameiginleg og lögheimili hans hjá sér, að kveðið verði á um inntak umgengnisréttar og að áfrýjanda verði gert að greiða einfalt meðlag með barninu frá dómsuppkvaðningu til 18 ára aldurs hans. Þá krefst hún málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Upplýst var við flutning málsins fyrir Hæstarétti að stefnda áformaði enn að flytja erlendis án þess þó að ákvörðun þar að lútandi lægi fyrir og að til slíks kæmi að minnsta kosti ekki á yfirstandandi skólaári enda hefði A nú þegar hafið nám við grunnskóla sinn í [...].

Eftir uppsögu héraðsdóms var að beiðni áfrýjanda dómkvaddur sálfræðingurinn C til að kanna afstöðu A til forsjár og leggja mat á nánar tilgreind atriði tengd vilja hans og afstöðu til málsins, þar með talinn mögulegs flutnings til Noregs. Matsgerð sálfræðingsins 29. mars 2017 hefur verið lögð fyrir Hæstarétt ásamt endurriti af skýrslu hennar fyrir Héraðsdómi Austurlands 5. apríl sama ár.

Matsgerðin sem lítur að vilja A í málinu, einum þeirra þátta sem líta ber til við mat á fyrirkomulagi forsjár, sbr. 2. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003, fær ekki hnekkt þeirri niðurstöðu sérfróðs héraðsdóms að stefnda skuli fara með forsjá hans. Þá er til þess að líta að ákvörðun um umgengni hlýtur ævinlega að taka mið af þeirri stöðu sem uppi er við uppkvaðningu dóms en getur ekki ráðist af óljósum áformum sem hvorki liggur fyrir hvort ganga muni eftir né þá með hvaða hætti. Að þessu gættu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur með vísan til forsendna.

Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður.

Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda greiðist úr ríkissjóði eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, M, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 800.000 krónur.

                                                                            

 

Dómur Héraðsdóms Austurlands 16. desember 2016.

Forsjármál þetta, sem tekið var til dóms 18. nóvember 2016, höfðaði K, [...], [...], hinn 29. febrúar 2016 á hendur M, [...], [...].

                Endanlegar dómkröfur stefnanda eru aðallega þær að dæmt verði að hún fari ein með forsjá barnsins, A, kt. [...]. Til vara er þess krafist að dæmt verði að stefnandi og stefndi fari sameiginlega með forsjá barnsins og lögheimili þess verði hjá stefnanda. Þá er þess krafist að stefndi greiði einfalt meðlag með barninu frá dómsuppsögu til 18 ára aldurs þess og að dómurinn kveði á um inntak umgengnisréttar við barnið. Loks krefst stefnandi málskostnaðar.

                Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfu stefnanda um óskipta forsjá, að forsjá barnsins verði óbreytt í höndum beggja aðila til 18 ára aldurs þess og að lögheimili barnsins verði hjá stefnanda. Til vara er þess krafist að stefnda verði einum falið að fara með forsjá barnsins til 18 ára aldurs þess. Í báðum tilvikum krefst stefndi þess að kveðið verði á um inntak umgengni barnsins við það foreldri sem það býr ekki hjá í samræmi við kröfur stefnda. Jafnframt er þess krafist að því foreldri sem drengurinn býr ekki hjá verði gert að greiða meðlag með honum eins og barnalífeyrir er ákveðinn hverju sinni frá uppsögu dóms að telja. Loks er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

                Undir rekstri málsins var kveðinn upp úrskurður, 23. maí 2016, þar sem fallist var á farbannskröfu stefnda vegna yfirvofandi farar stefnanda með barnið til sumarleyfisdvalar í Noregi. Sá úrskurður var felldur úr gildi með dómi Hæstaréttar frá 2. júní 2016 í máli nr. 396/2016.

I

Málsatvik

                Stefnandi og stefndi, sem er [...] ríkisborgari, munu hafa kynnst í [...] árið 2002 og fljótlega tekið upp samvistir. Sonur þeirra, A, er fæddur í [...] 2006, í [...]. Fyrir átti stefndi tvö börn og eitt stjúpbarn þar í landi, með fyrrverandi sambýliskonu sinni. Þau börn munu nú öll hafa náð fullorðinsaldri.

                Aðilar bjuggu saman ásamt barni sínu í [...] en fluttu í apríl 2008 til Íslands, nánar tiltekið til [...]. Það sumar mun stefnandi hafa tilkynnt stefnda að hún vildi slíta sambandi þeirra og flutti stefndi út af heimili þeirra um haustið.

                Óumdeilt er að sambúð aðila var aldrei skráð opinberlega, hvorki í [...] né á Íslandi.

                 Í málinu liggja fyrir tvær tilkynningar til Þjóðskrár Íslands um flutning aðila frá [...], önnur frá árinu 2007, sem mun undirrituð af móður stefnanda, en hin frá árinu 2008, undirrituð af stefnanda og árituð um samþykki stefnda. Kveðst stefndi álíta, með vísan til þessara gagna, að stefnandi hafi verið búin að ákveða samvistarslitin áður en fjölskyldan flutti til Íslands, en því mótmælir stefnandi.

                Eftir samvistarslitin bjó barnið hjá stefnanda á [...] en naut umgengni við stefnda. Lýsir stefnandi umgengni framan af sem lauslegri, enda barnið ungt.

                Stefndi gekkst skriflega við faðerni drengsins og samþykkti að greiða einfalt meðlag með honum í nóvember 2008. Staðfesti sýslumaðurinn á [...] samkomulag aðila um meðlagsgreiðslur 11. s.m. Í desember 2008 fór stefnandi fram á ákvörðun sýslumanns um umgengni. Lyktaði því máli með skriflegum samningi aðila um umgengni, dags. 22. febrúar 2009. Samkvæmt samningnum var kveðið á um að drengurinn skyldi umgangast föður sinn aðra hverja helgi, frá föstudegi til sunnudags, auk þess sem kveðið var á um umgengni að sumarlagi (tvisvar sinnum tvær vikur) og um hátíðar.

                Sumarið 2009 kveðst stefndi hafa þurft að vinna tímabundið fjarri [...] og ekki náð samkomulagi við stefnanda um breytta umgengni. Leitaði stefndi þá til sýslumanns og kvartaði yfir því að stefnandi hefði ekki staðið við gerðan samning. Því mótmælti stefnandi og benti á að vinna stefnda hefði staðið umgengni fyrir þrifum. Lyktaði málinu með úrskurði sýslumanns 9. apríl 2010. Var þar kveðið á um reglulega umgengni frá öðrum hverjum fimmtudegi (síðdegis) til sunnudagskvölds, auk sumar- og hátíðarumgengni.

                Er óumdeilt að umgengni stefnda við drenginn hafi eftir þetta gengið vandkvæðalaust og nokkurn veginn samkvæmt úrskurðinum, en helgarumgengni hefur undanfarið farið fram frá föstudegi til mánudagsmorguns, af tilliti til skólagöngu drengsins, og  hafa flugsamgöngur verið nýttar til þess.

                Stefnandi og drengurinn búa enn á [...], en stefndi flutti á höfuðborgarsvæðið á árinu 2014, að sögn af atvinnuástæðum. Stefndi varð fyrir slysi sumarið 2015 og hefur verið óvinnufær síðan.

                Samkvæmt því sem greinir í stefnu bjó [...] stefnanda, maður hennar og þrjú börn þeirra á [...] er aðilar fluttu þangað, en stefnandi kveður þau nákomnustu ættingja hennar og drengsins. Á árinu 2014 munu þessir ættingjar hafa ákveðið að flytja búferlum til Noregs og varð úr því sumarið 2015. Langaði stefnanda til þess að flytja þangað með drenginn, en stefndi lagðist gegn því. Reis ágreiningur aðila um forsjá drengsins í kjölfarið. Með beiðni til sýslumanns, dags. 15. janúar 2015, fór stefndi fram á breytingu á forsjá drengsins. Í beiðninni er vísað til þess að óvissa ríki um forsjá drengsins.

                Í aprílmánuði 2015 synjaði Þjóðskrá Íslands beiðni stefnanda um útgáfu vottorðs um forsjá drengsins og staðfesti innanríkisráðuneytið þá ákvörðun 14. desember s.á. með úrskurði, með vísan til þess að stofnunin hefði ekki umboð til að leysa úr ágreiningi um forsjá.

                Hinn 4. september 2015 gaf sáttamaður út vottorð um sáttameðferð skv. 33. gr. a. barnalaga nr. 76/2003, þar sem fram kemur að sættir hafi ekki tekist með aðilum. Var forsjármálið í kjölfarið fellt niður hjá sýslumanni 9. s.m. með vísan til niðurstöðu sáttameðferðar. Um helstu ágreiningsefni og afstöðu aðila er þess getið í vottorðinu að móðir vilji flytja ásamt barninu til Noregs en faðir sé því mótfallinn. Faðir vilji aukna umgengni og sameiginlega forsjá, en forsjá barnsins sé ekki skráð hjá Þjóðskrá Íslands. Móðir sé tilbúin til að samþykkja sameiginlega forsjá og deila kostnaði vegna ferða barnsins í umgengni til Íslands, ef faðir samþykki flutninginn. Faðir telji flutninginn óæskilegan fyrir barnið og að flutningur muni skerða umgengni þeirra. Um afstöðu barnsins kemur fram í vottorðinu að drengurinn sé mjög meðvitaður um togstreitu foreldra sinna og finnist hún óþægileg. Afstöðu hans til flutninga til Noregs er lýst sem jákvæðri.

                Aðila greinir á um hvernig þau hafi litið á forsjárskipan barnsins. Stefnandi bendir á að allt frá sambúðarslitum árið 2008 og fram til ársins 2015 hafi aðilar báðir hagað málum sínum eins og stefnandi færi ein með forsjá barnsins. Gert hafi verið ráð fyrir því í umgengnisúrskurði og umgengnissamningi, stefnandi hafi ein sótt um og fengið vegabréf vegna barnsins o.s.frv. Stefndi mótmælir því að það hafi verið sameiginlegur skilningur aðila að stefnandi færi ein með forsjá drengsins. Hið rétta sé að stefnandi hafi haldið þessu fram en sjálfur hafi stefndi ávallt litið svo á að forsjáin væri sameiginleg. Stefndi bendir á að af gögnum málsins megi ráða að sýslumaður hafi byggt skráningu á fyrirkomulagi forsjár drengsins á framburði stefnanda án þess að krefjast gagna þar um og því hafi láðst að ganga formlega frá forsjá, lögheimili og umgengni hjá sýslumanninum á [...] við sambúðarslit aðila, eins og borið hefði að gera.

II

Málsástæður stefnanda

                Undir rekstri málsins féll stefnandi frá viðurkenningarkröfu sem höfð var uppi sem aðalkrafa í stefnu, þ.e. um að viðurkennt yrði með dómi að stefnandi fari nú þegar ein með forsjá barnsins. Ekki var þó fallið frá þeim málsástæðum sem sú krafa byggðist á og verða þær því raktar.

                Stefnandi bendir á að aðilar málsins hafi ekki verið í skráðri sambúð, hérlendis eða erlendis, eða gift. Því fari stefnandi ein með forsjá barnsins, sbr. 2. mgr. 29. gr. barnalaga nr. 76/2003, enda hafi ekki verið gerður samningur um annað, sbr. 3. mgr. 31. gr. sömu laga. Slíkan samning hefði sýslumaður orðið að staðfesta, sbr. 5. mgr. 32. gr. sömu laga. Stefnandi, barnið og stefndi hafi öll lögheimili á Íslandi. Samkvæmt 2. mgr. 36. gr. barnalaga skuli leyst úr forsjármálum samkvæmt íslenskum lögum.

                Þar sem stefnandi hafi ekki getað fengið forsjá sína staðfesta með útgáfu vottorða frá viðeigandi stjórnvöldum eigi hún lögvarða hagsmuni af því að fá viðurkenningu dómstóls á henni er stjórnvöld verði þá að virða.

                Stefndi beri sönnunarbyrðina fyrir því að hann hafi farið sameiginlega með forsjá barnsins með móður við komu þess til Íslands og jafnframt, ef svo hafi verið, að hann hafi gert það eftir það og eftir samvistarslit við stefnanda. Stefndi hafi engin gögn lagt fram því til staðfestingar. Þvert á móti hafi hann frá upphafi hagað sér eins og stefnandi fari ein með forsjá barnsins, sbr. fyrri umfjöllun um það.

                Endanlega aðalkröfu sína um að stefnanda verði falin óskipt forsjá barnsins kveðst stefnandi byggja á því að það sé barninu tvímælalaust fyrir bestu að lúta forsjá hennar, sbr. 1. málsl. 2. mgr. 34. gr. barnalaga. Við mat á því hvar forsjá skuli vera skuli litið til hæfis foreldra, stöðugleika í lífi barns, tengsla barns við báða foreldra, skyldu þeirra til að tryggja rétt barnsins til umgengni, hættu á að barnið, foreldri eða aðrir á heimili barnsins hafi orðið eða verði fyrir ofbeldi og vilja barns að teknu tilliti til aldurs og þroska. Stefnandi telji að heildarmat á þessum atriðum muni leiða í ljós að barninu sé fyrir bestu að hún fari með forsjá þess.

                Stefnandi telji að barnið sé mun tengdara henni. Hún hafi verið heima með það fyrstu tvö árin, eða þar til barnið hafi farið á leikskóla. Barnið, sem sé á 10. aldursári [nú á 11. aldursári; innsk. dómara], hafi búið hjá stefnanda frá samvistarslitum aðila þegar það var tveggja ára og stefnandi því ávallt verið aðalumönnunaraðili þess. Dagleg umönnun og umsjá barnsins hafi alltaf verið hjá stefnanda. Hún hafi mætt í foreldraviðtöl vegna þess, bæði í leikskóla og skóla, en aldrei stefndi, sem þó hafi einnig búið á [...] til ársins 2014. Barnið hafi þurft sérkennslu í skóla og leikskóla og hafi stefnandi ein verið í samstarfi við viðkomandi aðila vegna þess og unnið með þeim. Stefnandi hafi annast læknisheimsóknir, jafnvel þótt barnið hafi veikst þegar það var í umgengni hjá stefnda.

                Skilningur stefnanda á þörfum barnsins sé mun meiri en stefnda, en hann hafi að mati stefnanda undanfarið sett barnið í algjörlega óviðunandi aðstæður. Feli það í sér umræður hans við barnið um hversu einmana stefndi sé án þess, hvað honum líði illa, hann gráti mikið, hversu hræðilegt væri ef barnið flytti o.s.frv. Auk þess ræði hann mjög opinskátt við barnið um ágreining aðila. Þessar frásagnir af vanlíðan hafi barnið tekið inn á sig og þær orsakað depurð hjá því sem stefnandi telji jafnvel að sálfræðingur gæti þurft að vinna með. Þannig hafi barnið neitað að fara í umgengni vorið 2015 þar sem stefndi hefði gengið svo nærri því með umræðum af þessum toga. Telji stefnandi með öllu óásættanlegt að stefndi ræði við barnið með þessum hætti til að rugla það og yfirfæra sinn vilja yfir á það.

                Stefnandi telji að barnið vilji búa hjá henni. Þó fylgi vissulega spenningur umgengnishelgum, en þar fái barnið að spila tölvuleiki án takmarkana, ekki sé fastur háttatími o.s.frv. Sjaldan sé um það að ræða að stefndi og barnið geri eitthvað uppbyggilegt saman og símtöl milli þeirra snúast t.d. mikið um að skapa spennu vegna nýs tölvuleikjar eða atriði sem stefnandi megi ekki vita um. Stefnandi hafi þó ekki orðið vör við annað en að barnið njóti umgengnishelganna og leggi ekki til að þeim verði breytt. En hún telji stefnda ekki hæfan til að sinna barninu dagsdaglega til lengri tíma.

                Stefnandi búi nú í þriggja herbergja íbúð í nálægð við skóla og íþróttir. Barnið stundi sund og frjálsar íþróttir. Það hafi nýverið flust úr [...] í [...]. Hafi stefnandi ávallt getað skapað barninu góðar fjölskylduaðstæður.

                Barnið eigi ekki systkini móðurmegin en sé mjög nákomið fjölskyldu [...] þess, sem nú hafi flutt til Noregs og áður hafi verið minnst á. Hafi yngri tvö frændsystkini barnsins þar ávallt verið eins og systkini þess og sé það m.a. ástæða þess að stefnanda langi að flytja nær þeim. Önnur fjölskylda stefnanda búi á höfuðborgarsvæðinu, þ. á m. móðuramma barnsins. Telji stefnandi að auðveldara væri fyrir ömmuna að heimsækja öll börnin til Noregs, en flugkostnaður hafi verið sambærilegur þangað og til [...]. Stefndi eigi þrjú önnur börn, u.þ.b. á aldrinum 18-26 ára, auk barnabarna. Þau séu öll búsett í [...] og sé barnið í engum samskiptum við þau fyrir milligöngu stefnda og ekki stefndi sjálfur svo vitað sé. Stefnandi hafi haldið sambandi við þau og m.a. heimsótt þau með barnið. Stefndi eigi enga fjölskyldu á Íslandi og hafi a.m.k. einu sinni rætt við barnið um að hann hyggist e.t.v. flytja til [...].

                Stefnandi hafi aldrei staðið í vegi fyrir umgengni stefnda við barnið nema þegar barnið hafi átt í verulegum vandræðum mjög ungt, fyrst eftir skilnað aðila. Umgengni hafi verið í föstum skorðum um árabil. Stefnandi virði rétt barnsins til að umgangast föður sinn og vilji að það verði rík umgengni milli þeirra í framtíðinni. Stefnandi telji umgengni alveg eins geta gengið milli Noregs og Íslands/[...] eins og [...] og Reykjavíkur. Í sáttameðferð hafi móðir boðist til að koma til móts við flugkostnað stefnda, en án árangurs. Hugmyndir hennar um reglulega umgengni séu að hún verði óbreytt ef stefnandi búi á [...] (8 sólarhringar á hverjum 8 vikum), en komi til flutninga hennar til Noregs eða stefnda til [...] leggur stefnandi til að umgengni verði t.d. ein vika að báðum helgum meðtöldum, annan hvern mánuð (9 sólarhringar á hverjum 8 vikum). Flugkostnaður yrði ekki hærri, enda ferðir færri. Þá gæti hátíðarumgengni eða sumarumgengni jafnvel verið lengri og umgengni því síst minni en hún sé í dag. Stefnandi telji að það gæti verið jákvætt fyrir barnið að fá að vera lengur í senn hjá stefnda og þannig gæti verið meiri ró og festa í heimsóknunum. Þar fyrir utan sé og verði stefndi ávallt velkominn í heimsóknir.

                Varakrafa stefnanda byggist á 3. mgr. 34. gr. barnalaga og sé sett fram ef til þess komi að stefndi krefjist sjálfur forsjár barnsins og dómurinn telji ekki efni til að verða við kröfu stefnanda um forsjá. Það skuli þó áréttað sem fram hafi komið að stefnandi telji afar ólíklegt að það þjóni hagsmunum barnsins að forsjá verði sameiginleg, þar sem ósættanlegur ágreiningur sé uppi milli málsaðila. En telji dómurinn að svo verði sé þess krafist að lögheimili barnsins verði hjá stefnanda og að öðru leyti vísað til málsástæðna fyrir varakröfu hér að framan.

                Um kröfu stefnanda um einfalt meðlag vísist til 5. mgr. 34. gr. barnalaga svo og 1. mgr. 53. gr. sömu laga um framfærsluskyldu foreldra og 2. mgr. 55. gr. sömu laga um lágmarksmeðlag. Upphafstími meðlags sé miðaður við fyrstu mánaðamót eftir málshöfðun, en tekið skuli fram að stefndi greiðir stefnanda meðlag eins og er. Um kröfuna um að kveðið verði á um inntak umgengnisréttar vísist til 5. mgr. 34. gr. barnalaga sem og til 2. mgr. 46. gr. sömu laga þar sem fram komi réttur barns til að umgangast báða foreldra sína.

                Um málskostnað sé vísað til 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sem og laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur aðili og beri því nauðsyn til að fá dæmdan virðisaukaskatt á lögmannsþóknun úr hendi stefnda. Stefnandi hyggist sækja um gjafsókn og áskilji sér rétt til að breyta kröfugerð sinni hvað málskostnað varðar fái hún gjafsókn í málinu. Um lögsögu vísist til 36. gr. barnalaga og um varnarþing til 37. gr. sömu laga, en heimilisvarnarþing barnsins og stefnanda sé í umdæmi héraðsdóms Austurlands.

III

Málsástæður stefnda

                Þótt stefnandi hafi, eins og fyrr sagði, fallið frá viðurkenningarkröfu sem höfð var uppi í stefnu, er nauðsynlegt að rekja hér málsástæður stefnda sem hafðar eru uppi í greinargerð hans til stuðnings kröfu hans um sýknu af þeirri kröfu, enda byggir hann enn á þeim málsástæðum til stuðnings öðrum kröfum sínum í málinu. 

                Stefndi kveðst byggja á því að það sé alrangt að stefnandi fari ein með forsjá drengsins. Engu breyti hvort aðilar hafi verið í skráðri sambúð eða ekki við fæðingu barnsins enda hafi íslensk lög engin áhrif á það hvernig forsjá barnsins sé háttað í dag. Við úrlausn um það hver fari með forsjá barns hafi í norrænum rétti verið byggt á reglunni leges domicilii sem mæli fyrir um að leyst verði úr ágreiningsefninu á grundvelli þeirra laga sem í gildi hafi verið á fæðingarstað barnsins og sé það í samræmi við alþjóðlegt einkamálaréttarfar. Í [...] barnalögum sé mælt fyrir um að aðili sem tilgreindur sé sem faðir í fæðingarvottorði barns fari með forsjá þess. Stefndi hafi verið skráður faðir drengsins strax við fæðingu hans, eins og fram komi í fæðingarvottorðinu sem sé grundvöllur skráningar barnsins í [...]. Samkvæmt þessu hafi aðilar farið sameiginlega með forsjá barnsins strax við fæðingu þess. Flutningurinn með barnið til Íslands tveimur árum eftir fæðingu haggi ekki forsjárfyrirkomulagi þess. Við flutning fjölskyldunnar til landsins hafi Þjóðskrá Íslands réttilega farið fram á að stefndi þyrfti að samþykkja flutning með barnið til landsins.

                Stefnandi beri sönnunarbyrðina fyrir því að hún hafi farið ein með forsjá barnsins við fæðingu og þegar hún hafi komið til landsins. Stefnandi hafi ekki lagt fram nein gögn sem rennt geti stoðum undir þá staðhæfingu. Engu breyti í þessu efni þótt sýslumaðurinn á [...] og síðar sýslumaðurinn á [...] hafi ranglega gengið út frá því að stefnandi færi ein með forsjána. Það hafi ekki legið fyrir samkomulag aðila um að stefnandi færi ein með forsjána og engum gögnum til að dreifa sem sýnt hafi að svo væri. 

                Þá kveðst stefndi krefjast sýknu af kröfu stefnanda um að henni verði einni falið að fara með forsjá drengsins. Stefnandi hafi ekki sýnt fram á að hagsmunir barnsins krefjist þess að hún fari ein með forsjá þess. Í 2. mgr. 34. gr. barnalaga sé skýrt kveðið á um það að ákvörðun dómara skuli eingöngu taka mið af því sem barni sé fyrir bestu þegar hann stendur frammi fyrir því að ákveða hvernig forsjá eða lögheimili barns skuli háttað. Önnur atriði sem snúi að hagsmunum foreldris, eins og væntanlegur flutningur foreldris úr landi, hafi enga þýðingu í því sambandi. Stefndi haldi því fram að óbreytt forsjá í höndum beggja foreldra þjóni hagsmunum barnsins best.

                Krafa stefnda um að aðilar fari áfram sameiginlega með forsjá drengsins sé byggð á 3. mgr. 34. gr. barnalaga en þar segi að dómari geti ákveðið að forsjá verði sameiginleg ef hann telji þær aðstæður fyrir hendi að slíkt geti þjónað hagsmunum barnsins. Í 4. mgr. 34. gr. laganna sé að finna þau viðmið sem dómari skuli hafa í huga þegar kemur til mats á því hvort forsjáin skuli vera sameiginleg en þau mæli öll með því að forsjáin verði sameiginleg, en þetta séu þau sjónarmið sem komi til viðbótar við þau sjónarmið sem talin séu upp í 2. mgr. 34. gr. laganna. Krafa stefnda styðjist við eftirfarandi efnis- og málsástæður:

                Byggt sé á því að aðilar hafi farið sameiginlega með forsjá drengsins án þess að komið hafi til ágreinings sem rekja megi til inntaks sameiginlegrar forsjár samkvæmt 28. gr. a laganna. Þvert á móti hafi stefndi látið stefnanda eftir ákvörðunarvald í þeim málum sem heyri undir lögheimilisforeldri, s.s. val um leikskóla, grunnskóla, nauðsynlega heilbrigðisþjónustu og reglubundið tómstundastarf. Þá hafi stefndi aldrei hindrað stefnanda í að sinna forsjárskyldum sínum. Samvinna aðila hafi verið góð og ekki hafi komið upp ágreiningur sem aðilum hafi ekki tekist að leysa úr. Mismunandi áherslur aðila um lengd reglulegrar umgengni, sem leyst hafi verið úr með aðstoð sýslumanns, beri ekki vott um alvarlegan ágreining sem komi niður á uppeldisskilyrðum barnsins. Ljóst sé að ágreiningur um flutning með barn úr landi geti aldrei réttlætt það að stefndi verði sviptur forsjá né að barnið missi af þeirri reglulegu umgengni og umönnun foreldris sem það eigi rétt til og stefndi sé reiðubúinn að veita því. Í þessu sambandi er í greinargerð stefnda vísað til dóma Hæstaréttar í málum nr. 474/2015 og nr. 67/2016. Í þessum málum komi fram að það sé ekki hlutverk dómara að greiða fyrir flutningi með barnið úr landi gegn samþykki annars foreldris, sem sé vel hæft til að fara með forsjána, nema flutningurinn sé hagsmunum barnsins nauðsynlegur, en það hafi stefnandi ekki sýnt fram á og beinlínis ekki byggt kröfu sína á því. Stefndi byggi kröfu sína á því að hann uppfylli þau skilyrði sem talin séu upp í 4. mgr. 34. gr. laganna.

                Stefndi byggi kröfu sína í annan stað á því að það sé drengnum fyrir bestu að aðilar fari sameiginlega með forsjá hans. Í 2. mgr. 34. gr. barnalaga séu tiltekin þau sjónarmið sem dómari skuli hafa til hliðsjónar við ákvörðun um forsjá en þau snúi að hæfi foreldra, stöðugleika í lífi barns, tengsla barns við báða foreldra, skyldu þeirra til að tryggja rétt barnsins til umgengni, hættu á að barnið, foreldri eða aðrir á heimi barnsins hafi orðið eða verði fyrir ofbeldi og vilja barns að teknu tilliti til aldurs og þroska þess.

                Krafan styðjist við það að stefndi sé vel hæfur til að fara með forsjá sonar síns. Við mat á hæfi foreldris verði að taka mið af geðrænni heilsu og heilsufari foreldra almennt. Þá verði að taka mið af meginreglunni um inntak heimilda og forsjárskyldna í 28. gr. barnalaga. Hæfi stefnda komi best fram í því að hann ákvað að búa áfram á Íslandi eftir samvistarslit aðila einvörðungu í þeim tilgangi að axla ábyrgð á uppeldi sonar síns og tryggja honum samvistir við báða foreldra sína. Þetta sýni að stefndi hafi góða innsýn í þarfir drengsins og hafi bæði getu og vilja til að mæta þeim þörfum. Stefndi kveðst hafa áhyggjur af áhrifum þess að flytja með barnið úr landi. Drengurinn hafi notið umönnunar og uppeldis föður með reglulegri samveru við hann frá fæðingu. Stefndi telji að drengnum sé mikilvægt að njóta áfram þessara reglulegu samvista við föður og að þær samverustundir verði honum mikilvægari á þeim árum sem í hönd fari. Reynslan sýni að þörf drengja fyrir fyrirmynd eykst á mótunarárum unglings inn í fullorðinsárin. Stefndi kveðst merkja það að drengurinn hafi á síðustu misserum leitað í æ ríkari mæli til föður síns með persónulegar vangaveltur og efasemdir sem leitað hafi á hugann hverju sinni.

                Stefndi kveði umgengnishelgarnar vera sniðnar að þörfum drengsins. Á vetrum sé tímanum varið við lestur, tölvuleiki, bíóferðir, stefnumót við afa eða aðra ættingja í [...] á Skype-inu, heimsókn á söfn eða í heimsókn til sona vinkonu stefnda. Um tíma hafi það verið viss rútína að fara í Perluna og kaupa ís og í sund á eftir þar sem feðgarnir hafi ærslast og leikið sér, en eftir að stefndi hafi orðið fyrir slysi hafi sundferðirnar legið niðri. Það sé auðvitað alrangt og beinlínis ósatt að faðir og sonur eigi ekki gæðastundir saman eða að stefndi hafi ekki nýtt sumarleyfin samkvæmt samkomulagi. Stefndi kveði þessi ósannindi vera sett fram gegn betri vitund og einungis í þeim tilgangi að sverta stefnda í forsjárdeilu aðila. Hið rétta sé að sumarleyfum hafi þeir feðgar varið með því að fara í útilegu, við fiskveiðar í ám og við höfnina þar sem drengurinn elski að vera. Stefndi kveði A vera mikið fyrir útivist og oft hoppi þeir upp í bíl í svokallaðar óvissuferðir sínar. Þá sé ekið út fyrir bæinn og A ráði ferðinni. Þessar ferðir endi venjulega með því að annaðhvort sé veiðistöngin tekin upp eða farið í fjallgöngu sem drengurinn ráði við. Ljóst sé að verði stefnanda falin forsjá drengsins muni hún flytja af landi brott en það muni hafa í för með sér aðskilnað feðganna. Stefndi telji að ákvörðun stefnanda um að kippa drengnum úr því umhverfi sem hann þekki og sé honum kært í þeim tilangi að vera nálægt [...] sinni beri vott um skort á innsæi í þarfir barnsins eða að hún hiki ekki við að forgangsraða sínum hagsmunum fram yfir hagsmuni sonar síns.

                Krafan styðjist við það að drengurinn sé mjög tengdur stefnda og að flutningur úr landi geti haft skaðleg áhrif á þau tengsl sem séu A mikilvæg. Fyrstu árin meðan fjölskyldan hafi búið í [...] hafi stefnandi verið heima með drenginn en stefndi hafi unnið utan heimilisins sem eina fyrirvinnan. Stefndi kveðist þó hafa tekið fullan þátt í umönnun drengsins eftir að heim hafi verið komið en þá hafi reynsla hans af barnauppeldi komið sér vel. Hann hafi gengið í öll störf til jafns á við stefnanda, skipt á drengnum, baðað hann, nært og varið helgunum með fjölskyldunni í heimsóknum hjá ættingjum og vinum eða farið með nesti í almenningsgarða þar sem drengurinn hafi strax unað sér vel. Eftir að fjölskyldan hafi flutt heim hafi drengurinn notið umönnunar og uppeldis stefnda með reglulegum samverustundum. Það sé reyndar rétt að samskipti til skóla og leikskóla hafi jafnan komið í hlut stefnanda, en það megi rekja til þess að hún hafi sjálf starfað á leikskóla drengsins og þegar hann hafi verið kominn í [...] hafi það verið tengdamóðir [...] sem hafi kennt honum. Eftir að [...] hafi byrjað í [...] hafi stefndi verið í reglulegu sambandi við kennara hans og fylgst reglulega með honum á Mentor. 

                Stefndi byggi kröfu sína á því að það sé tvímælalaust vilji drengsins að búa áfram á Íslandi og njóta reglulegrar umönnunar föður sem hingað til. Eftir að sáttavottorð hafi verið gefið út hafi stefndi rætt við sáttamiðlara og hafi þá komið í ljós að lagðir höfðu verði fyrir drenginn tveir möguleikar í þeim tilgangi að kanna vilja hans. Þannig hafi verið spurt hvort hann vildi flytja með móður sinni út til Noregs eða flytja til föður síns í [...]. Stefndi kveður sáttamiðlara hafa fallist á það með honum að það hefði borið að leggja fyrir drenginn fleiri möguleika, svo sem óbreytt ástand með búsetu hjá móður á [...] eða búsetu á [...] hjá föður. Af þessari ástæðu verði ekki byggt á því að það hafi verið upplýstur vilji drengsins að flytja með stefnanda til Noregs. Þá telji stefndi að drengurinn hafi verið blekktur þegar stefnandi upplýsti hann um að flutningur til Noregs myndi leiða til þess að hann myndi geta dvalið lengur með föður sínum í hvert skipti sem hann komi án þess að upplýsa hann jafnframt um að það myndi líða mun lengri tími milli heimsókna. Þegar stefndi hafi leiðrétt drenginn vildi svo til að stefnandi hafi ásakað hann um að draga barnið inn í deilur foreldranna.

                Að síðustu sé krafa stefnda reist á því að flutningur til Noregs muni raska þeim stöðugleika sem drengurinn búi við. Stefndi telji að A búi við góðar aðstæður í dag. Honum líði bersýnilega betur í [...] þar sem hann hafi hafið nám sl. haust en meðan hann hafi verið í [...]. Honum gangi betur í námi og við það hafi sjálfstraustið vaxið. Þá fari hann með flugvél til stefnda annan hvern föstudag eins og fram hafi komið og dvelji hjá honum til mánudagsmorguns. Stefndi búi í tveggja herbergja íbúð á [...] í [...] þar sem drengurinn eigi sitt pláss og sín leikföng, m.a. ferðatölvu sem hann hafi fengið í jólagjöf frá föðurafa sínum. Stefndi kveði A ekki mikinn „sportista“ en hann elski útiveru og það eigi þeir feðgar sameiginlegt.

                Miklu skipti það hlutverk stefnda í uppeldi drengsins að tryggja tengsl hans við erlendan uppruna og fjölskyldu. Stefndi sé fæddur í [...], á [...] hálendinu, og þar búi faðir hans ennþá, en móðir stefnda sé látin. Þegar slitnað hafi upp úr sambúð stefnda og fyrri sambýliskonu árið 2000 hafi hún flutt með telpurnar til [...], [...] en hann sjálfur til [...]. Þrátt fyrir fjarlægð og flóknar samgöngur hafi telpurnar dvalið í skólafríum hjá föður sínum og eftir að stefndi hafi flutt til Íslands hafi hann haldið góðu sambandi við tvær eldri telpurnar og hafi þær báðar komið í heimsókn til Íslands. Faðir stefnda og afi A hafi komið oftar og hafi m.a. dvalið hjá þeim um síðustu jól. Um sumarið 2014 hafi þeir A heimsótt afa til [...] og dvalið hjá [...] meðan á dvölinni stóð. Þá hafi A talað reglulega við ættingja sína á Skype-inu þegar hann sé hjá stefnda, einkum afa sinn en þeir séu nánir. Stefndi haldi því fram að aðilum beri að tryggja þann stöðugleika sem drengurinn búi við hvort sem það felst í því að hann búi áfram með móður sinni á [...] eða með föður sínum á [...] og verði áfram í [...]. Stefndi kveðst mótfallinn því að högum hans verði raskað að ósynju og því sé hann reiðubúinn að flytja aftur á [...] haldi stefnandi áformum sínum um flutning til Noregs til streitu. Þá sé ekki hægt að horfa framhjá því að áframhaldandi búseta á Íslandi muni tryggja samskipti drengsins við móðurömmuna sem hér búi.

                Fallist dómurinn ekki á það að sameiginleg forsjá þjóni best hagsmunum drengsins sé þess krafist að stefnda verði með dómi einum falið að fara með forsjá hans. Krafan styðjist við 2. mgr. 34. gr. barnalaga og sé vísað til þeirra sjónarmiða sem þegar hafi verið reifuð hér að framan. Verði stefnda falin forsjá drengsins tryggi það óbreytta búsetu, tengsl við föður og stöðugleika í lífi hans að öðru leyti.

                Krafa stefnda um umgengni og greiðslu meðlags styðjist við VIII. og IX. kafla barnalaga. Varðandi tillögu stefnda til umgengni sé vísað til úrskurðar sýslumannsins á [...] frá 9. apríl 2010. Leggi stefndi til að regluleg umgengni verði óbreytt. Þá sé lagt til að drengurinn dvelji til skiptis hjá foreldrum sínum um páska eins og verið hefur og að dvölin miðist við páskaleyfi hjá grunnskólum. Þá sé lagt til að drengurinn dvelji til skiptis hjá foreldrum sínum um jól og áramót þannig að um jólin 2016 dvelji hann hjá föður sínum frá 19. desember til 27. desember og hjá móður sinni frá 27. desember til 4. janúar. Árið 2017 snúist þetta við og dvelji drengurinn þá hjá móður sinni frá 19. til 27. desember og hjá föður sínum frá 27. desember til 4. janúar og síðan koll af kolli. Þá sé lagt til að drengurinn dvelji í báðum vetrarleyfum hjá stefnda og í fjórar vikur að sumri hjá hvoru foreldri um sig. Stefndi mótmæli því að umgengnisfyrirkomulag sem stefnandi teikni upp í stefnu feli í sér óbreytta umgengi. Það sé auðvitað blekking að halda því fram að dvöl drengsins hjá stefnda á 8 vikna fresti jafngildi dvöl hjá honum aðra hverja viku.

                Stefndi vilji leiðrétta það sem fram komi í greinargerð [sic] stefnanda þar sem því sé ranglega haldið fram að stefndi noti drenginn sem eins konar stuðpúða vegna eigin vanlíðunar og að hann blandi drengnum í deilur foreldranna. Stefndi kveði þetta alveg fráleitt. Stefndi kannist alls ekki við meinta vanlíðan heldur sé líðan hans almennt góð og að það hafi aldrei hvarflað að sér að bera sig upp við drenginn. Þvert á móti hafi stefndi leitast við að vera það foreldri sem barnið leiti til eftir stuðningi. Þá kannist hann ekki við að drengurinn hafi neitað því að fara í umgengni utan eitt skipti sem hafi borið upp á þann tíma sem stefnandi var á leiðinni til Noregs með drenginn. Líklegt sé að drengurinn hafi á þeim tíma ekki farið varhluta af reiði stefnanda þegar áform hennar hafi verið stöðvuð af stefnda.

IV

Matsgerð

Undir rekstri málsins var dómkvaddur matsmaður að beiðni stefnanda til að leggja mat á hvernig forsjá barnsins yrði best fyrir komið til framtíðar að teknu tilliti til þeirra atriða er greinir í 2. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003. Var þess jafnframt óskað að matsmaður liti til annarra atriða sem hann teldi máli geta skipt fyrir niðurstöðu málsins, m.a. þeirra atriða sem talin eru í 11 liðum í athugasemdum varðandi 2. mgr. 34. gr. er fylgdu frumvarpi til laganna. Sérstök afstaða óskaðist tekin til eftirfarandi atriða:

„A. Ákveði dómurinn að annar hvor aðilinn fari með forsjá barnsins, hvort stefnandi eða stefndi sé hæfari til þess, að teknu tilliti til framangreindra atriða.

B. Ákveði dómurinn að forsjá barnsins verði sameiginleg, hvort hagsmunum barnsins sé betur borgið með lögheimili þess hjá stefnanda eða stefnda, að teknu tilliti til framangreindra atriða.

C. Hvort það [sic] hagsmunir barnsins séu tryggðir ef i. forsjá þess er sameiginleg eða ii. ef forsjá þess er hjá öðru foreldri.

D. Hvernig umgengnisfyrirkomulag við þann aðila sem barnið býr ekki hjá þjónar hagsmunum barnsins best.“

Matsgerð dómkvadds matsmanns, B sálfræðings, er dagsett 26. september 2016 og telur 25 blaðsíður. Samkvæmt því sem í matsgerðinni greinir hófst athugun matsmanns með matsfundi 30. júní og lauk um miðjan september 2016. Átti matsmaður alls 8 viðtöl við aðila og drenginn, auk eins viðtals við bekkjarkennara drengsins. Kemur þar fram að báðir aðilar hafi verið heimsóttir, aðstæður skoðaðar og fylgst hafi verið með samskiptum foreldra og barns. Fyrir aðila hafi verið lagt persónuleikapróf og önnur próf. Þá hafi foreldrar og bekkjarkennari svarað matslista um líðan drengsins og fyrir hann sjálfan hafi verið lagður sjálfsmatskvarði.

                Í kafla um samantekt og heildarálit eru dregnar saman niðurstöður matsmannsins í þremur köflum, um aðstæður aðila, um forsjárhæfni þeirra og um tengsl barnsins við aðila og eðli þeirra tengsla, áður en matsspurningum er svarað.

                Varðandi aðstæður aðila kemur fram að þær séu með töluvert ólíkum hætti, en þó megi segja að ákveðin óvissa sé ríkjandi hjá þeim báðum þegar litið sé til næstu ára. Er þar m.a. vísað til óvissu um það hvort stefndi muni geta snúið aftur til fyrra starfs eftir vinnuslys og til hugmynda stefnanda um flutninga til Noregs. Þá eru þar raktar heimilisaðstæður aðila. Segir síðan að drengurinn þekki vel til aðstæðna á báðum heimilum og virðist líða vel hjá báðum foreldrum. Hann sé nýbyrjaður í fimmta bekk [...] þar sem hann sé sitt annað skólaár, eftir að hafa átt erfitt uppdráttar félagslega í skóla á [...]. Hann virðist vera mjög ánægður í skólanum í dag og tengjast kennara sínum og bekkjarfélögum vel. Athugun á líðan með matslistum hjá foreldrum og kennara hafi komið vel út og virðist drengurinn ekki stríða við alvarlega tilfinningalega erfiðleika í dag. Sjálfsmat hans staðfesti það enn fremur. Það eina sem virðist trufla tilveruna sé deila foreldra og mögulegar búsetubreytingar. Eins og öllum börnum á þessum aldri, sem líði vel félagslega, þá vilji A engar breytingar á tilveru sinni.

                Varðandi forsjárhæfni aðila kemur fram að báðir aðilar hafi komið vel fyrir í samskiptum við matsmann. Persónusaga beggja aðila, viðkynning, sem og staða í dag gefi til kynna að vitsmunalegar forsendur séu eðlilegar. Eru síðan raktar forsendur varðandi hvorn aðila fyrir sig. Þá segir svo í matsgerðinni:

                „Báðir foreldrar hafa verið virkir þátttakendur í lífi A frá upphafi. K hefur séð meira um allt utanumhald eins og skólamál og heilsufar og þessháttar heldur en M og er ekki annað að sjá en að henni hafi farist það vel úr hendi. Forsjárhæfni hennar hlýtur því að teljast mjög góð. M hefur einnig verið virkur í lífi A og er samband þeirra mjög sterkt og gott í dag. Hann hefur náð að mynda sterka vináttu þeirra á milli og hefur haft reglulega umgengni við son sinn. Forsjárhæfni hans er svolítið óljósari en hjá móður þar sem hann hefur ekki verið í því hlutverki nema að takmörkuðu leyti. Aðstæður hans í dag eru ekki sérlega spennandi fyrir fjölskyldulíf en til að gæta allrar sanngirni þá lenti M í vinnuslysi sem hefur haft mikil áhrif á aðstæður hans. Einnig er það mat matsmanns að M hafi nægilega góðar forsendur að teljast með viðunandi forsjárhæfni.“

                Varðandi tengsl barnsins við aðila og eðli þeirra tengsla kemur fram að matsmaður hafi lagt mat á tengsl foreldra við A út frá samtölum við foreldra, athugunum á samskiptum í heimsóknum og svörum á PCRI-matslistanum. Einnig hafi matsmaður átt nokkur viðtöl við A sjálfan. Hann sé kátur og skemmtilegur drengur, þroski hans virðist svara til aldurs og hann virðist vel að sér og klár á ýmsum sviðum. Fram kemur að bæði matslisti og áhorfsathugun hafi leitt til sömu niðurstöðu, þ.e. að A sé mjög tengdur báðum foreldrum og sæki til þeirra beggja ást, umhyggju og hlýju. Honum virðist almennt líða vel í dag, þrátt fyrir að stundum megi merkja vanlíðan sem virðist sprottin af spennu á milli foreldra. Hann vilji gjarnan eiga meiri tíma með þeim báðum. Heilt yfir sé tengslamyndun aðila heilbrigð og gagnkvæm. Báðir foreldrar séu í ástríku og innihaldsríku sambandi við A sem hann gjaldi fyllilega til baka.

                Þá er í niðurstöðukafla að finna svohljóðandi svör matsmanns við þeim matsspurningum sem fyrir hann voru lagðar:

                „A. Hvor aðilinn sé hæfari til þess að fara með forsjá barnsins. Báðir foreldra hafa góðar forsendur til að fara með forsjá A en móðir telst hæfari aðili sé litið til forsögunnar og núverandi aðstæðna. Hún hefur heilt yfir annast meira um hans mál, eins og það sem snýr að skólamálum, heilbrigði og þessháttar. Þá hefur hún verið með kjarnabúsetu hjá sér og A farið meira til föður síns til að njóta samveru um helgar og [á] frídögum og þess háttar. Samband þeirra feðga er samt mjög sterkt enda hefur umgengni verið regluleg í gegnum árum [sic] og þeir duglegir að rækta sambandið og nú í seinni tíð notað netið til að tengjast í gegnum leiki og til að spjalla.

                B. Ef niðurstaðan verður sameiginleg forsjá, hjá hvorum aðilanum er hagsmunum barnsins betur borgið með lögheimili. Verði niðurstaðan sameiginleg forsjá og lögheimili hjá föður hefur hann talað um að flytja til [...] svo A geti haldið áfram í skóla og verið í þeim félagslegu aðstæðum sem hann býr við í dag. Ef lögheimilið verður hjá móður, hefur móðir talað um að flytja á höfuðborgarsvæðið til þess að vera nær alþjóðlegum flugvelli og þannig ná að rækta betur tengslin við fjölskyldu sína búsetta erlendis. Það er erfitt að gera upp á milli þessara kosta til lengri tíma litið. Búseta á [...] myndi vissulega viðhalda stöðugleika í lífi A en þó aðeins að því gefnu að móðir hans yrði búsett þar áfram. Hún hefur séð um allt utanumhald og skapað þá festu sem líf hans hefur verið í. M myndi án efa geta sinnt þessu með ágætum en hann talar ekki íslensku svo líklegt verður að teljast að A yrði sjálfur að vaxa upp í það að halda utan um sín mál með föður sínum. Í ljósi þessa, sem og út frá rökum í A lið, er það mat matsmanns að lögheimili sé betur borgið hjá móður.

                C. Hvort hagsmunum [sic] barnsins séu tryggðir ef forsjá er sameiginleg eða ef forsjá er hjá öðru foreldri. Farsælasta lausnin í þessu máli er ef foreldrar gætu náð sátt um sameiginlega forsjá án þess að ætla sér með því að stjórna lífi hins aðilans varðandi búsetu og lífsfyrirkomulag. Móðir virðist hafa haldið til langs tíma að hún hefði fulla forsjá yfir syni sínum en á þessum árum hefur A verið reglulega hjá föður sínum og náð að þroska heilbrigt og gott samband við hann. Það verður því að teljast trúverðugt að svo verði áfram hvar sem búseta móður verður. Hún hefur m.a. lagt fram tillögur þess efnis að deila kostnaði ferða með föður flytji hún erlendis. Faðir hefur lýst því yfir að hann muni gera allt sem hann geti til að A geti haldið áfram í [...] og leggur mikið upp úr því að honum líði vel þar eftir erfið ár og vonbrigði í fyrri skóla. Hann virðist hins vegar leggja minna upp úr mikilvægi þess að rækta tengsl við stórfjölskylduna og vera í fremur slitróttu sambandi við eigin börn í [...]. Það er því áhyggjuefni hvernig hann myndi hlúa að slíkum tengslum fengi hann forsjána.

                D. Hvernig umgengnisfyrirkomulag við þann aðila sem barnið býr ekki hjá þjónar hagsmunum barnsins best. Það er erfitt að setja [sic] nákvæmlega hvaða fyrirkomulag á umgengni hentar A fyrr en búsetufyrirkomulag foreldra er komið á hreint. Hann hefur ávallt verið í góðum tengslum við báða foreldra og tengist þeim sterkum böndum og því er það hagsmunamál fyrir hann að svo megi verða áfram. Það fyrirkomulag sem hefur verið hefur verið með ágætum og ætti að vera hægt að byggja á svipuðum grunni áfram.“

V

Niðurstaða

Í máli þessu deila aðilar um forsjá sonar síns, A, sem fæddur er [...] 2006, og því 10 ára gamall. Krefst móðir hans, stefnandi, aðallega óskiptrar forsjár, en til vara að forsjá verði sameiginleg og lögheimili drengsins verði hjá henni. Aðalkrafa föður hans, stefnda, er samhljóða varakröfu stefnanda, en til vara gerir hann kröfu um að honum verði falin óskipt forsjá drengsins. Þá krefjast báðir aðilar þess að dómurinn skeri úr um tilhögun umgengni og kveði á um greiðslu meðlags.

                Leitað hefur verið sátta undir rekstri málsins fyrir dómi, þar á meðal við aðalmeðferð. Þá var sátta leitað innan sex mánaða fyrir málshöfðun, eins og lög gera ráð fyrir, en án árangurs. Hafa sáttaumleitanir strandað vegna ágreinings aðila um það hvort drengurinn skuli flytja til Noregs með stefnanda, eins og hún hefur hug á. Við sáttaumleitanir fyrir dómi bauð stefnandi að forsjá aðila yrði sameiginleg og að umgengni yrði jafnmarga daga á ári og verið hefur, en dreifing þeirra yrði önnur, þ.e. umgengni yrði sjaldnar en lengur í einu. Einnig að umgengni með Skype-samskiptum feðganna yrði rúm. Þá bauðst stefnandi til þess að greiða helming ferðakostnaðar vegna umgengni á móti stefnda. Þessu boði hafnaði stefndi.

1.

                Samkvæmt 2. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003 ber dómara, við ákvörðun um skipan forsjár eða lögheimilis, að horfa til þess sem er barni fyrir bestu. Í því efni ber dómara m.a. að líta til hæfis foreldra, stöðugleika í lífi barns, tengsla barns við báða foreldra, skyldu þeirra til að tryggja rétt barnsins til umgengni, hættu á að barnið, foreldri eða aðrir á heimili barnsins hafi orðið eða verði fyrir ofbeldi og vilja barns að teknu tilliti til aldurs og þroska. Samkvæmt 3. mgr. sömu lagagreinar getur dómari ákveðið að annað foreldra fái forsjá barns. Þá getur dómari ákveðið að kröfu foreldris að forsjáin verði sameiginleg ef dómari telur þær aðstæður fyrir hendi að slíkt geti þjónað hagsmunum barnsins. Ef dómari dæmir sameiginlega forsjá ber jafnframt að kveða á um hjá hvoru foreldra barn skuli eiga lögheimili. Í 4. mgr. segir að við mat á því hvort forsjá skuli vera sameiginleg ber dómara, auk atriða sem nefnd eru í 2. mgr., að taka mið af því hvort forsjáin hafi áður verið sameiginleg sem og aldri og þroska barns. Þá ber sérstaklega að líta til þess hvort ágreiningur eða samskipti foreldra séu líkleg til að koma í veg fyrir, hindra eða draga úr möguleikum barns til að alast upp við þroskavænleg skilyrði.

                Í máli þessu háttar svo sérstaklega til að vafi leikur á um hvernig forsjá drengsins hefur hingað til verið háttað að lögum. Gögn málsins bera með sér að stefnandi hafi talið sig fara með óskipta forsjá drengsins, eftir að samvistarslit urðu með henni og stefnda, skömmu eftir að aðilar fluttust hingað til lands frá [...] árið 2008. Samkvæmt gögnum málsins virðist einnig hafa verið gengið út frá því að stefnandi færi ein með forsjá drengsins er gengið var frá samkomulagi um meðlagsgreiðslur á árinu 2008 og við úrskurð um umgengni á árinu 2010. Benda gögn málsins ekki til þess að stefndi hafi dregið þennan skilning í efa, eða a.m.k. látið það liggja milli hluta hvernig forsjárskipan væri háttað, allt þar til upp kom sú staða að stefnandi hugði á flutning til Noregs með drenginn.

                Í málinu styður stefndi aðalkröfu sína um sameiginlega forsjá m.a. þeim rökum að samkvæmt [...] lögum, sem leggja eigi til grundvallar samkvæmt meginreglum alþjóðlegs einkamálaréttarfars, hafi aðilar hingað til farið sameiginlega með forsjá drengsins, enda hafi stefndi verið skráður faðir drengsins við fæðingu hans í [...], eins og framlagt fæðingarvottorð sýni. Hefur stefndi lagt fram [...] lagaákvæði að þessu lútandi, ásamt þýðingu, þ.e. Barnalög ([...]) 1995, 3. grein ([...]), ásamt síðari breytingu á þeirri grein með 23. grein Fjölskyldulaga ([...]) 2006. Auk þess liggur fyrir bréf sem stefndi aflaði frá [...] lögmannsstofu ([...]), sem virðist staðfesta staðhæfingu stefnda, en þar er vísað til þess að 3. gr. Barnalaga ([...]) 1995 [...] hafi tekið gildi 4. maí 2006. Segir síðan í bréfinu: „As we understand the above named child to have been born on 31st May 2006, and we further understand that his father, M, is named as the father on A birth certificate, then in terms of [...] in accordance with the above section as quoted, M should have automatic full parental rights and responsibilities over A [...]“

                Stefnandi mótmælir því að fullnægjandi sönnun sé fram komin fyrir því að aðilar hafi að [...] lögum farið sameiginlega með forsjá drengsins. Var því sérstaklega mótmælt við munnlegan málflutning að í orðunum „parental rights“ og „parental responsibilities“ samkvæmt þeim ákvæðum sem stefndi hefur lagt fram, sem í íslenskri þýðingu löggilts skjalaþýðanda eru þýdd „foreldraréttur“ og „foreldraábyrgð“, sé átt við forsjá, sem í ensku sé almennt vísað til með orðunum „custody“ eða „guardianship“.

                Stefndi hefur ekki lagt fram ákvæði 1. og 2. gr. („Sections 1 and 2“) hinna [...] barnalaga sem vísað er til í niðurlagi framangreindrar tilvitnunar í bréf hinnar [...] lögmannsstofu. Þá bera framlögð lagaákvæði sjálf ekki með sér hvenær þau hafi tekið gildi.

                Stefndi, sem byggir á hinum erlendu réttarreglum, hefur ekki fært fram fullnægjandi sönnun fyrir því að forsjá drengsins hafi hingað til verið óskipt að [...] lögum. Ber hann hallann af þeim sönnunarskorti, sbr. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

                Það er enn fremur álit dómsins að við skýringu á 4. mgr. 34. gr. barnalaga verði, við þær sérstöku aðstæður sem hér eru uppi, ekki einvörðungu litið til þess  hvernig forsjárskipan verði talin hafa verið háttað að lögum, heldur ekki síður hvernig gögn benda til þess að aðilar hafi litið á það í reynd. Benda málsgögn til þess að aðilar hafi báðir hagað gjörðum sínum eins og móðir færi ein með forsjána fremur en að forsjá væri sameiginleg. Rétt er að taka það fram að ekki þykir þetta atriði geta ráðið neinum úrslitum í máli þessu, enda er hér einungis um eitt atriði af mörgum að ræða sem horft verður til við heildarmat á því hvaða forsjárskipan er barninu fyrir bestu. 

2.

                Niðurstöður dómkvadds matsmanns, sem báðir aðilar styðja kröfur sínar um óskipta forsjá við, eru raktar í meginatriðum hér að framan. Eins og þar kemur fram eru báðir aðilar taldir hæfir til að fara með forsjá drengsins. Ljóst er þó að matsmaður telur aðila ekki jafnhæfa, en hann telur forsjárhæfni stefnanda mjög góða á meðan hæfni stefnda er metin viðunandi. Bendir matsmaður þar m.a. á að stefnandi hafi hingað til verið meginumönnunaraðili drengsins, séð um öll hans mál, s.s. varðandi skólagöngu og heilbrigði, og verið kjölfestan í lífi hans, á meðan ekki hafi reynt á hæfni stefnda með samsvarandi hætti. Aðstæðum á heimilum aðila er lýst með talsvert ólíkum hætti, þ.e. hvað húsnæði og hreinlæti varðar, þar sem hallar talsvert á stefnda. Þá nefnir matsmaður að stefndi tali ekki íslensku og því sé hætt við að of mikil ábyrgð yrði lögð á drenginn m.v. aldur og þroska, tæki stefndi við af stefnanda sem meginumönnunaraðili hans.

                Tengsl beggja aðila við drenginn eru metin í heild náin og ástrík og verður ekki gert upp á milli aðila hvað það atriði snertir.

                Við mat á því hvað barni er fyrir bestu ber m.a. að taka tillit til vilja barns, að teknu tilliti til aldurs þess og þroska. Í matsgerð kemur fram að drengurinn sé í greinilegri hollustuklemmu og hafi áhyggjur af því að umgengni hans við föður sinn minnki flytji hann til Noregs. Það er eðlilegt að barn á hans aldri, sem er sátt við sínar núverandi aðstæður, vilji sem minnstar breytingar á sínum högum. Ekki verður séð að drengurinn kjósi umsjá og búsetu hjá öðru foreldri sínu frekar en hinu, heldur lýsir hann löngun til sem mestra samvista við þau bæði. 

Þá ber að líta til stöðugleika í lífi barns. Drengurinn hefur búið á [...] frá tveggja ára aldri og hefur búið við stöðugleika í lífi sínu fram að þessu. Stefnandi virðist nú ákveðin í því að framtíð hennar og drengsins liggi annars staðar en á [...]. Búa skiljanlegar ástæður þar að baki. Stefnandi hefur lýst áformum um að flytja með drenginn til Noregs, fái hún forsjána. Hún kveðst hafa í huga að flytja í grennd við [...] sína, sem fluttist til Noregs á árinu 2015, ásamt fjölskyldu sinni, þótt stefnandi telji ólíklegt að hún muni flytja til sama bæjar. Stefnandi tekur þó fram að hún muni alls ekki flytja nema grundvallaratriði, eins og húsnæði og atvinna, séu föst í hendi. Stefnandi kveður von um betri kjör og fjölskylduvænni vinnutíma einnig búa að baki áformum sínum, en ekki aðeins sameiningu við nefnda ættingja. Stefnandi tekur fram að fái hún ekki að flytja utan með drenginn, stefni hún engu að síður á flutninga og þá á suðvesturhorn landsins, þar sem hún eigi þó ættingja. Auk þess verði hún þannig nær alþjóðlegum flugvelli og aukist þá möguleikar til að heimsækja ættingja erlendis. Þar sem faðir býr einnig á Reykjavíkursvæðinu mundi það gera umgengni feðganna auðveldari en nú er.

Stefndi óttast að flutningur frá [...], hvað þá milli landa, muni raska stöðugleika í lífi drengsins. Þótt ótti stefnda og andstaða hans við flutning drengsins sé að mörgu leyti skiljanleg, fær sú áhersla sem hann leggur á að það sé andstætt hagsmunum drengsins að flytja ekki sérstaka stoð í matsgerð dómkvadds matsmanns. Staðfesti matsmaðurinn fyrir dómi að ekkert benti til annars en að drengurinn gæti aðlagast slíkum breytingum vel, að því gefnu að vel yrði að þeim staðið. Þá staðfesti matsmaður að ekkert bendi til annars en að móðir hafi innsæi í þarfir drengsins við slíkar breytingar og myndi gera sitt besta til að auðvelda aðlögun hans.

Hvað aðstæður stefnda varðar og hugsanleg áform hans um að flytja til [...], verði honum falin forsjá drengsins, ríkir talsverð óvissa. Fyrir það fyrsta ríkir óvissa um það hvort hann muni ná vinnufærni til þess að sinna áfram starfi sínu hjá núverandi vinnuveitanda. Þá liggur ekki fyrir hvort hann muni geta fengið starf á [...] í gegnum núverandi vinnuveitanda. Ekki liggur heldur fyrir að hann eigi sér nokkurt tengslanet á [...]. Jafnvel þótt áform stefnda gengju eftir tekur dómurinn undir með matsmanni að óraunhæft sé að þau áform nái því markmiði að viðhalda stöðugleika í lífi drengsins, flytji móðirin á brott frá [...].

Stefndi telur óhjákvæmilegt að umgengni feðganna verði torveldari, og þannig verði grafið undan tengslum þeirra, flytji stefnandi með drenginn til Noregs. Ekki verður hins vegar séð að hann hafi almennt áhyggjur af umgengnistálmunum af hendi stefnanda, enda hafa þeir feðgar notið reglulegrar umgengni hvor við annan á liðnum árum. Eru sterk tengsl barnsins við báða foreldra sína til marks um það að báðir aðilar hafi lagt sig fram við að tryggja umgengni feðganna. Stefndi býr nú þegar á höfuðborgarsvæðinu og hefur drengurinn ferðast þangað með flugi frá [...] aðra hverja helgi. Ljóst er að tíðni umgengni milli þeirra myndi óhjákvæmilega minnka, þótt dögum þyrfti ekki endilega að fækka, yrðu áform stefnanda um flutning til Noregs að veruleika. Dómurinn tekur þó undir það með dómkvöddum matsmanni að ekkert bendi til annars en að stefnandi myndi eftir sem áður stuðla að reglulegri umgengni milli feðganna, eins og hún virðist hafa lagt sig fram við hingað til. Endurspeglast sú afstaða hennar m.a. í sáttatillögu sem rakin er hér að framan og stefndi hefur hafnað.

                Sem fyrr sagði er aðalkrafa stefnda sú að forsjá drengsins verði sameiginleg, með lögheimili hjá stefnanda, og fer sú krafa saman við varakröfu stefnanda. Er því rétt að taka til alvarlegrar skoðunar hvort rétt sé að dæma sameiginlega forsjá, eins og dómurinn hefur heimild til samkvæmt 3. mgr. 34. gr. barnalaga. Eins og ávallt ber að hafa það að leiðarljósi hvað barni er talið fyrir bestu og endurspeglast það í því skilyrði 3. mgr. fyrir beitingu heimildarinnar að dómari þurfi að telja þær aðstæður fyrir hendi að slíkt geti þjónað hagsmunum barnsins. Í því efni ber m.a. sérstaklega að horfa til þess hvort ágreiningur eða samskipti foreldra séu líkleg til að koma í veg fyrir, hindra eða draga úr möguleikum barns til að alast upp við þroskavænleg skilyrði, sbr. síðari málslið 3. mgr. 34. gr. laganna.

Í máli þessu háttar svo til að foreldrar hafa, þrátt fyrir ítrekaðar sáttatilraunir um tveggja ára skeið, fyrir og eftir málshöfðun, ekki getað náð sáttum um það hvort móður verði heimilað að flytja með barnið til Noregs. Hefur ágreiningur aðila óumdeilanlega þegar sett mark sitt á barnið, sem er í augljósri hollustuklemmu, eins og matsmaður kemur inn á í matsgerð. Virðist skilningur aðila talsvert ólíkur á því hve mikil þörf sé á því að vernda barnið fyrir breytingum, en í þeim efnum virðist skilningur stefnanda í meira samræmi við niðurstöðu matsgerðar. Hvernig sem á það er litið getur þessi ágreiningur aðila ekki talist léttvægur eða minni háttar. Fyrir dómi kvað matsmaður, aðspurður um álit hans á möguleikum aðila til að jafna ágreining almennt, að hann teldi aðila eiga að jafnaði að geta rætt og komist að samkomulagi um efni sem þau séu nálægt því að vera sammála um, en benti þó á að þau virðist ekki hafa getað jafnað ágreining sem snúi að þessu dómsmáli.

                Af matsgerð og framburði stefnda fyrir dómi verður ráðið að hann beri enn talsverðan kala til stefnanda fyrir að hafa slitið sambandi þeirra skömmu eftir flutning þeirra til Íslands og beri lítið traust til hennar. Bendir framangreint að áliti dómsins til þess að hugur stefnda til stefnanda hafi áhrif á hæfni hans til að eiga við hana samskipti um málefni drengsins af þeim gagnkvæma skilningi og virðingu sem nauðsynleg er til að þau geti tekið sameiginlega mikilvægar ákvarðanir um velferð drengsins. Úr matsgerð og framburði stefnanda fyrir dómi má lesa að hún hafi almennt leitast við að sigla milli skers og báru í samskiptum við stefnda og reynt að koma á móts við óskir hans en þegar mikið liggi við hafi hún tekið sjálf ákvarðanir varðandi mál drengsins, án þess að bera þær undir stefnda. Nefndi hún þar sem dæmi ákvörðun sem hún tók upp á sitt eindæmi um að láta drenginn skipta um skóla á síðasta ári. Uns núverandi ágreiningur reis virðist ekki hafa reynt á það að ráði hvort foreldrarnir séu í reynd hæfir til þess að miðla málum og jafna ágreining sín á milli, með hagsmuni barnsins að leiðarljósi. Stefndi hefur ekki verið til viðræðu um sátt á annan veg en þann að barnið fari hvergi. Gefur sá ósveigjanleiki sem stefndi hefur sýnt í málinu ekki tilefni til bjartsýni um hæfni hans til að miðla málum

Að öllu framanrituðu virtu er það mat dómsins að við núverandi aðstæður þjóni það ekki hagsmunum drengsins að foreldrar hans fari sameiginlega með forsjá hans.

Að fenginni þeirri niðurstöðu að sameiginleg forsjá sé ekki tæk, og með heildarmati á gögnum málsins og öllu framanrituðu, einkum matsgerð dómkvadds matsmanns sem ekki hefur verið hnekkt, er það álit dómsins að rök hnígi eindregið að þeirri niðurstöðu að það sé drengnum fyrir bestu að stefnanda verði falin óskipt forsjá hans.

Samkvæmt framangreindri niðurstöðu um forsjá verður stefndi, að kröfu stefnanda, dæmdur til að greiða einfalt meðlag með drengnum, sem samsvarar fjárhæð barnalífeyris eins og hún er ákveðin á hverjum tíma samkvæmt lögum um almannatryggingar, sbr. 2. mgr. 55. gr. barnalaga.

Báðir aðilar gera kröfu um að leyst verði úr ágreiningi um umgengni. Við þá úrlausn verður að taka mið af núverandi aðstæðum aðila, en ekki eru forsendur til að taka þar mið af aðstæðum sem kunna að skapast, láti stefnandi verða af áformum um flutning til Noregs. Komi til þess að þau áform verði að veruleika, hvetur dómurinn til þess að aðilar leitist við að ná samkomulagi um umgengni sem taki fyllsta tillit til þeirra hagsmuna drengsins að njóta sem mestra samvista við föður sinn, þó að teknu tilliti til skólagöngu hans.

Núverandi fyrirkomulag umgengni, sem byggist á úrskurði sýslumanns frá 9. apríl 2010, en sem aðilar hafa aðlagað eftir því sem drengurinn hefur vaxið úr grasi, virðist hafa reynst með ágætum. Gera báðir aðilar það að tillögu sinni að áfram verði stuðst við sama fyrirkomulag, að óbreyttum aðstæðum aðila. Hvað reglulega umgengni snertir hefur drengurinn flogið suður aðra hverja helgi til að vera með föður sínum frá föstudegi að loknum skóla til mánudagsmorguns og verður þeirri tilhögun haldið óbreyttri. Fyrirkomulag heimferðartíma hvílir miðað við núverandi aðstæður á því að unnt sé að koma drengnum með morgunflugi á mánudegi til [...], svo að skólaganga hans raskist ekki, en sé það ekki unnt er rétt að miða heimferðartíma við sunnudagskvöld. Þá hefur drengurinn að undanförnu dvalið samfleytt í fjórar vikur í sumarleyfi hjá föður sínum og eru aðilar sammála um að viðhalda þeirri tilhögun. Er rétt að aðilar komi sér saman fyrir 1. maí ár hvert hvenær á sumarleyfistíma drengsins sú umgengni fari fram. Hvað jól og áramót snertir gerir stefndi það að tillögu sinni í greinargerð að drengurinn dveljist til skiptis hjá móður og föður um jól og áramót, þannig að jólin 2016 dvelji hann hjá föður 19.–27. desember, en hjá móður yfir áramót. Fyrir dómi upplýsti stefnandi að hún telji tímabært orðið að drengurinn dvelji til skiptis yfir jól og áramót hjá foreldrum sínum, og muni hann jólin 2016 dvelja hjá föður, eins og lagt er til í greinargerð hans, en yfir áramót hjá móður. Virðast því sammæli milli aðila um þá tilhögun eftirleiðis. Verður við það miðað, og fer um þau skipti eins og nánar greinir í dómsorði. Drengurinn hefur dvalið til skiptis hjá foreldrum í páskaleyfum, hjá stefnda 2011 og annað hvert ár eftir það samkvæmt því sem greinir í úrskurði sýslumanns frá 9. apríl 2010. Verður þeirri tilhögun viðhaldið og miðað við páskaleyfi í grunnskóla. Ekki er upplýst hvort foreldrar hafi viðhaldið þeirri tilhögun, sem kveðið var á um í nefndum úrskurði, að drengurinn dvelji aðra hverja hvítasunnuhelgi hjá hvorum málsaðila. Þykir rétt að stakir frídagar sem liggja að umgengnishelgum, hvort sem er vegna helgihalds eða starfsdaga/vetrarfrís í grunnskóla, fylgi þeim helgum þannig að dvöl drengsins hjá stefnda ílengist í slíkum tilvikum. 

Með vísan til 1. mgr. 44. gr. barnalaga ákveðst að áfrýjun dóms þessa frestar ekki réttaráhrifum hans.

Aðilar gera kröfu um málskostnað úr hendi hvort annars. Gerir stefndi þá kröfu, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, en honum var veitt gjafsóknarleyfi með bréfi innanríkisráðuneytisins, dags. 15. júní 2016, og er gjafsóknin takmörkuð við rekstur málsins fyrir héraðsdómi, sbr. þó 4. og 5. mgr. 127. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, og jafnframt takmörkuð við réttargjöld og lögmannsþóknun.

Þess skal getið að samkvæmt ákvörðun dómara greiðist kostnaður af öflun matsgerðar dómkvadds matsmanns í máli þessu úr ríkissjóði, með vísan til 4. mgr. 42. gr. barnalaga nr. 76/2003.

Rétt þykir að málskostnaður milli aðila falli niður. Gjafsóknarkostnaður stefnda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun lögmanns hans, Katrínar Theódórsdóttur hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 1.440.000 krónur, án virðisaukaskatts. Með vísan til 2. mgr. 127. gr. laga nr. 91/1991 tekur dómurinn hins vegar ekki afstöðu til útlagðs kostnaðar af málsvörn stefnda.

Dóm þennan kveða upp Hildur Briem héraðsdómari og meðdómsmennirnir Álfheiður Steinþórsdóttir sálfræðingur og Helgi Viborg sálfræðingur. 

Dómsorð:

                Stefnandi, K, skal fara með forsjá sonar aðila, A.

                Stefndi, M, greiði einfalt meðlag með drengnum frá dómsuppsögu til 18 ára aldurs hans.

                Umgengni stefnda við drenginn skal vera háttað þannig að aðra hverja helgi dvelst drengurinn hjá stefnda frá föstudegi að loknum skóla til mánudagsmorguns. Stakir frídagar sem liggja að umgengnishelgum, hvort sem er vegna helgihalds eða starfsdaga/vetrarfrís í grunnskóla, fylgja þeim helgum. Drengurinn dvelst hjá stefnda í fjórar vikur á hverju sumri og til skiptis hjá málsaðilum um jól, áramót og páska, þannig að jólin 2016 dvelst hann hjá stefnda, um áramótin 2016/2017 hjá stefnanda, um páska 2017 hjá stefnda, og svo koll af kolli. Skal miðað við jóla- og páskaleyfi í grunnskóla og að skipti milli jóla og áramóta fari fram 27. desember.

                Málskostnaður milli aðila fellur niður.

                Gjafsóknarkostnaður stefnda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun lögmanns hans, Katrínar Theódórsdóttur hdl., að fjárhæð 1.440.000 krónur.

                Áfrýjun dómsins frestar ekki réttaráhrifum hans.