Hæstiréttur íslands
Mál nr. 158/2000
Lykilorð
- Ómerking
- Heimvísun
|
|
Fimmtudaginn 19. október 2000. |
|
Nr. 158/2000. |
Sigurður Gizurarson (sjálfur) gegn íslenska ríkinu (Jón G. Tómasson hrl.) |
Ómerking. Heimvísun.
Dómsmálaráðherra ákvað að flytja S úr starfi sýslumanns á Akranesi. Taldi S ákvörðun ráðherra saknæma og ólögmæta gagnvart sér og höfðaði mál á hendur íslenska ríkinu til greiðslu miska- og skaðabóta. Með því að héraðsdómur hafði ekki tekið afstöðu til þeirrar grunnröksemdar S, að ákvörðunin hafi verið ólögmæt og ógild, var dómurinn ómerktur og málinu vísað heim í hérað til málflutnings og dómsálagningar að nýju.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Hjörtur Torfason og Hrafn Bragason og Páll Sigurðsson prófessor.
Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar með stefnu 25. apríl 2000. Hann krefst þess að sér verði dæmdar 7.000.000 krónur í bætur vegna miska og 25.456.000 krónur vegna fjárhagslegs tjóns ásamt dráttarvöxtum af greindum fjárhæðum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. október 1998 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Til vara er gerð krafa um verulega lækkun stefnufjárhæðar.
Tildrög máls þessa og málsástæður aðila koma fram í héraðsdómi. Krafa áfrýjanda er á því reist að honum hafi verið valdinn miski með þeirri ákvörðun dómsmálaráðherra 5. júní 1998 að flytja hann úr starfi sýslumanns á Akranesi í starf sýslumanns á Hólmavík frá og með 1. júlí sama ár og athöfnum sem þeirri ákvörðun hafi tengst. Jafnframt hafi hann orðið fyrir fjárhagslegu tjóni sem hafi leitt af greindri ákvörðun dómsmálaráðherra. Telur áfrýjandi að ákvörðun dómsmálaráðherra hafi verið saknæm og ólögmæt gagnvart sér.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 1. febrúar 1999 var máli þessu vísað frá dómi í heild sinni í þeim búningi sem það var þá. Úrskurðinum var skotið til Hæstaréttar, sem með dómi 25. mars sama ár hratt hinum kærða úrskurði að hluta. Í dómi Hæstaréttar sagði meðal annars: „Telja verður síðari kröfu sóknaraðila á hendur varnaraðila reista á þeirri grunnröksemd, að framangreind ákvörðun dómsmálaráðherra um flutning hans í embætti hafi ekki verið skuldbindandi og varði því bótaskyldu. Verður því ekki leyst úr miskabótakröfu sóknaraðila án þess að taka afstöðu til þessarar röksemdar. Hins vegar hefur sóknaraðili ekki sýnt fram á, að hann hafi af því hagsmuni að lögum, að jafnframt þessu verði sérstaklega viðurkennt með dómi ólögmæti og ógildi þessarar ákvörðunar.” Kröfu áfrýjanda sem laut að viðurkenningardómi um þetta efni var því vísað frá héraðsdómi.
Síðar í þessum sama dómi sagði: „Með síðari kröfu sinni krefst sóknaraðili miskabóta vegna framangreindrar ákvörðunar dómsmálaráðherra og „áreitni, ærumeiðingum og tilræði er henni tengjast”. Enda þótt þessi háttur á kröfugerð sóknaraðila sé ekki eins skýr og æskilegt væri, með því að það áreiti, þær ærumeiðingar og það tilræði, sem sóknaraðili vísar til, er ekki tilgreint með viðhlítandi hætti, þykir ekki alveg nægileg ástæða til þess að vísa þessari kröfu sóknaraðila frá dómi af þeim sökum, enda verður af málatilbúnaði sóknaraðila í heild ráðið að hann krefjist miskabóta vegna framangreindrar ákvörðunar dómsmálaráðherra og þeirrar málsmeðferðar, sem lá henni til grundvallar. - Eins og áður greinir telur sóknaraðili sig hafa orðið fyrir miska vegna ákvörðunar dómsmálaráðherra 5. júní 1998. Njóta þeir hagsmunir, sem sóknaraðili vísar til í þessu sambandi, æra hans og persóna, ótvírætt verndar skaðabótareglna, sbr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Samkvæmt langri dómvenju eru dómstólar til þess bærir að skera úr um bótaskyldu stjórnvalda vegna ólögmætra stjórnvaldsathafna og eftir atvikum vegna miska, sem þær kunna að hafa valdið.”
Áfrýjandi fluttist ekki til Hólmavíkur heldur þáði boð dómsmálaráðuneytisins um að fara á eftirlaun. Það breytir því þó ekki að kröfur hans eru reistar á áðurgreindri ákvörðun, enda telur hann sig vegna hennar hafa neyðst til að afsala sér sýslumannsembættinu á Akranesi. Í dómi Hæstaréttar kemur fram að grunnröksemd áfrýjanda fyrir kröfum sínum er sú að framangreind ákvörðun dómsmálaráðhera hafi verið ólögmæt gagnvart sér. Í greinargerð fyrir hér fyrir dómi reisir áfrýjandi kröfu sína á sömu málsástæðu.
Í héraðsdómi segir um þetta efni: „Eins og mál þetta er nú vaxið, eftir að því hafði með dómi Hæstaréttar Íslands frá 25. mars s.l. að hluta til verið vísað frá héraðsdómi, ber að taka afstöðu til þeirrar grunnröksemdar stefnanda að framangreind ákvörðun stefnda dómsmálaráðherra frá 5. júní 1998 um flutning stefnanda í embætti hafi ekki verið skuldbindandi og varði því bótaskyldu. Hins vegar verður ekki með vísan til Hæstaréttardómsins kveðið á um hugsanlegt ólögmæti eða ógildi ákvörðunarinnar.” Síðar segir: „Eins og að framan var rakið var vísað frá dómi þeirri kröfu stefnanda að viðurkennt verði með dómi að framangreind ákvörðun hafi verið ólögmæt og ógild. Af því leiðir að við úrlausn málsins, í því horfi sem það er nú, verður að byggja á því að ákvörðunin hafi verið lögmæt og gild. Koma þá ekki til frekari skoðunar þau sjónarmið stefnanda er lúta að ólögmæti eða ógildi ákvörðunarinnar.” Héraðsdómur hefur þannig ekki leyst úr því álitaefni sem áfrýjandi telur grunnröksemd fyrir bótakröfum sínum og Hæstiréttur taldi að leysa þyrfti úr við ákvörðun um bótarétt hans. Héraðsdómur byggir úrlausn sína hins vegar á því að ákvörðunin hafi verið lögmæt og gild án þess að taka afstöðu til málsástæðunnar. Vegna þessa annmarka á héraðsdómi verður ekki hjá því komist að ómerkja hann og vísa málinu heim til málflutnings og dómsálagningar að nýju.
Rétt er að á þessu stigi beri hvor aðili sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Héraðsdómur er ómerktur og er málinu vísað heim í hérað til munnlegs flutnings og dómsálagningar að nýju.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 20. desember 1999.
Mál þetta, sem dómtekið var 19. nóvember s.l. er höfðað með 2 stefnum, annarri út gefinni 24. júní 1998 og birtri daginn eftir og hinni út gefinni 28. maí s.l. og birtri samdægurs. Yngra málið, nr. E-3101/1999, hefur verið sameinað þessu máli með heimild í 1. mgr. 30. gr. laga nr. 91/1991 og verða málin rekin og dæmd undir eldra málsnúmeri.
Stefnandi er Sigurður Gizurarson, kt. 020339-4709, Víkurströnd 6, Seltjarnarnesi.
Stefndu eru Sólveig Pétursdóttir, dómsmálaráðherra, kt. 110352-2499, Bjarmalandi 18, Reykjavík, fyrir hönd íslenska ríkisins og Geir Hilmar Haarde, fjármálaráðherra, kt. 080451-4749, Granaskjóli 20, Reykjavík, fyrir hönd ríkissjóðs.
Dómkröfur stefnanda eru þær samkvæmt fyrri stefnu að honum verði dæmdar bætur úr ríkissjóði að fjárhæð kr. 7.000.000 fyrir miska og jafnframt að honum verði dæmdur hæfilegur málskostnaður að mati dómsins. Ekki er krafist vaxta af þessari dómkröfu. Samkvæmt seinni stefnu gerir stefnandi þá kröfu að stefndu verði dæmdir til að greiða stefnanda skaðabætur að fjárhæð kr. 25.456.000 með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 1. október 1998 til greiðsludags og málskostnað að mati dómsins.
Dómkröfur stefndu eru þær að þeir verði sýknaðir af kröfum stefnanda og þeim dæmdur málskostnaður úr hendi hans að mati dómsins. Til vara er krafist verulegrar lækkunar stefnufjárhæðar og verði málskostnaður þá látinn niður falla.
Við framlagningu greinargerðar í fyrra málinu gerðu stefndu þá kröfu að málinu yrði vísað frá dómi en stefnandi hafði þá kröfu uppi í því máli auk framangreindrar miskabótakröfu að staðfest verði með dómi að ólögmæt og ógild sé ákvörðun stefnda dómsmálaráðherra, sem hann tók með flutningsbréfi svokölluðu 5. júní 1998, um að flytja stefnanda út embætti sýslumanns á Akranesi í embætti sýslumanns á Hólmavík og stefnandi skuli taka aftur við sýslumannsembættinu á Akranesi.
Með úrskurði dómsins upp kveðnum 1. febrúar s.l. var málinu í heild sinni vísað frá dómi. Úrskurðinum var skotið til Hæstaréttar Íslands sem með dómi upp kveðnum 25. mars s.l. vísaði viðurkenningarkröfum stefnanda frá dómi en að öðru leyti var hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Í dómi Hæstaréttar segir svo m.a.: "Telja verður síðari kröfu sóknaraðila á hendur varnaraðila reista á þeirri grunnröksemd, að framangreind ákvörðun dómsmálaráðherra um flutning hans í embætti hafi ekki verið skuldbindandi og varði því bótaskyldu. Verður því ekki leyst út miskabótakröfu sóknaraðila án þess að taka afstöðu til þessarar röksemdar. Hins vegar hefur sóknaraðili ekki sýnt fram á, að hann hafi af því hagsmuni að lögum, að jafnframt þessu verði sérstaklega viðurkennt með dómi ólögmæti og ógildi þessarar ákvörðunar. Ber því að vísa fyrri lið í fyrri kröfu sóknaraðila frá héraðsdómi. - Með síðari hluta fyrri kröfu sóknaraðila krefst hann viðurkenningar á því að hann skuli taka aftur við starfi sýslumanns á Akranesi. Það er eigi á valdi dómstóla að ákveða hver skuli gegna embætti sýslumanns á Akranesi, sbr. meginreglu 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991. Er þessi kröfuliður sóknaraðila því ekki dómhæfur og ber að vísa honum frá héraðsdómi. - Með síðari kröfu sinni krefst sóknaraðili miskabóta vegna framangreindrar ákvörðunar dómsmálaráðherra og "áreitni, ærumeiðingum og tilræði, er henni tengjast". Enda þótt þessi háttur á kröfugerð sóknaraðila sé ekki eins skýr og æskilegt væri, m eð því að það áreiti, þær ærumeiðingar og það tilræði, sem sóknaraðili vísar til er ekki tilgreint með viðhlítandi hætti, þykir ekki alveg næg ástæða til þess að vísa þessari kröfu sóknaraðila frá dómi af þeim sökum, enda verður af málatilbúnaði sóknaraðila í heild ráðið að hann krefjist miskabóta vegna framangreindrar ákvörðunar dómsmálaráðherra og þeirrar málsmeðferðar, sem lá henni til grundvallar. - Eins og áður greinir telur sóknaraðili sig hafa orðið fyrir miska vegna ákvörðunar dómsmálaráðherra 5. júní 1998. Njóta þeir hagsmunir, sem sóknaraðili vísar til í þessu sambandi, æra hans og persóna, ótvírætt verndar skaðabótareglna, sbr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Samkvæmt langri dómvenju eru dómstólar til þess bærir að skera úr um bótaskyldu stjórnvalda vegna ólögmætra stjórnvaldsathafna og eftir atvikum vegna miska, sem þær kunna að hafa valdið. Sú málsástæða varnaraðila að umrædd ákvörðun hafi aldrei komið til framkvæmda snýr að skilyrðum fyrir bótarétti sóknaraðila, sem fjalla ber um við efnislega úrlausn um kröfu hans."
Málavextir.
Málavextir eru þeir að stefnandi var með bréfi handhafa forsetavalds dagsettu 24. september 1985 skipaður sýslumaður á Akranesi. Skipunin var ótímabundin og gilti frá 1. nóvember 1985. Við gildistöku laga nr. 92/1989 um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds kaus stefnandi samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laganna að vera áfram sýslumaður á Akranesi frá og með 1. júlí 1992.
Með bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytis til stefnanda dagsettu 6. apríl 1998 var stefnanda kynnt sú ákvörðun ráðuneytisins að fyrirhugað væri að flytja stefnanda úr embætti sýslumanns á Akranesi í embætti sýslumannsins á Hólmavík frá og með 1. júlí 1998. Lagaheimild til slíkrar ákvörðunar var talin vera í 4. mgr. 20. gr. stjórnarskrárinnar og taldi ráðuneytið unnt að flytja embættismann úr einu embætti í annað, enda missi hann einskis í af embættistekjum sínum og sé honum veittur kostur á að kjósa um embættaskiptin eða lausn frá embætti með lögmæltum eftirlaunum eða lögmæltum ellistyrk. Einnig var vísað til 36. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Í bréfinu var skýrt frá því að Ríkisstjórn Íslands hefði tekið þá ákvörðun að við flutning embættismanna úr einu embætti í annað standi viðkomandi embættismanni til boða að taka eftirlaun samkvæmt lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins nr. 1/1997, sem svari því að embættismaðurinn hefði látið af störfum við 70 ára aldur. Stefnanda var gefinn kostur á því að koma athugasemdum á framfæri við ráðuneytið áður en ákvörðun yrði tekin og var honum veittur frestur til 20. apríl sama ár.
Með bréfi dagsettu sama dag til ráðuneytisins benti stefnandi m.a. á að ekki hefði verið getið ákvörðunarástæðu flutningsins. Þá lýsti stefnandi því yfir í lok bréfsins að hann myndi fara til Hólmavíkur ef ákvörðun yrði tekin um það, en jafnframt mótmæla henni sem löglausri og ógildri og áskildi hann sér rétt til að fá hana ógilta með dómi og sækja ráðherra fyrir dómstólum um skaðabætur úr ríkissjóði.
Með bréfi ráðuneytisins dagsettu 11. maí 1998 var fallist á að ekki hefði verið getið ákvörðunarástæðu og var úr því bætt og gerð grein fyrir þeim sjónarmiðum sem lágu til grundvallar fyrirætlunum ráðuneytisins. Í fyrsta lagi var fjárhagsvandi sýslumannsembættisins á Akranesi talinn mjög mikill. Hafi verið óskað eftir því að stefnandi hagaði rekstri embættisins á þann veg að á árinu 1997 tækist að minnka uppsafnaðan halla nokkuð. Það ár hafi halli á embættinu hins vegar aukist um 7,1 milljón króna og næmi uppsafnaður halli á embættinu síðustu ár samtals 26,1 milljón króna. Í ljósi þess að halli embættisins hafi aukist jafnt og þétt á undanförnum árum og nemi helmingi af rekstrarvanda allra sýslumannsembætta í landinu, taldi ráðuneytið fullreynt að stefnanda tækist að vinna bug á fjárhagsvanda embættisins. Í öðru lagi var vikið að embættisfærslu stefnanda vegna innheimtu á dómsekt og álögðum opinberum gjöldum Þórðar Þórðarsonar á Akranesi. Hefði fjármálaráðuneytið tekið þá ákvörðun að taka innheimtuna úr höndum stefnanda í fyrsta lagi vegna fyrri afskipta hans af málinu og í öðru lagi að ekki væri útilokað að við meðferð þess þyrfti að taka afstöðu til embættisfærslna stefnanda. Stefnanda var veittur andmælafrestur til 25. maí 1998.
Með bréfi stefnanda til ráðuneytisins dagsettu 25. maí 1998 mótmælti hann sjónarmiðum ráðuneytisins og taldi fráleitt að ráðherra geti að eigin geðþótta stjakað forsetaskipuðum sýslumanni yfir landið þvert og endilangt.
Með flutningsbréfi dómsmálaráðherra dagsettu 5. júní 1998 var tekin sú ákvörðun með vísan til 36. gr. laga nr. 70/1996 að fela stefnanda að gegna embætti sýslumanns á Hólmavík frá 1. júlí 1998. Með flutningsbréfinu fylgdi bréf þar sem gerð var nánari grein fyrir afstöðu ráðuneytisins. Kemur þar m.a. fram að að ráðuneytið teldi ekkert hafa komið fram í andmælum stefnanda sem hnekkti þeirri skoðun þess að á síðustu árum hefði hann ekki gripið til nauðsynlegra aðgerða til þess að draga úr rekstrarvanda embættisins. Eftir gildistöku laga nr. 70/1996 væri ótvírætt að forstöðumaður stofnunar bæri ábyrgð á því að rekstrarafkoma stofnunarinnar væri í samræmi við fjárlög og í því fælist að sjálfsögðu skylda hans til að koma með tillögur, annað hvort til lækkunar útgjalda stofnunarinnar eða óska eftir hækkun fjárveitinga. Stefnandi hefði hins vegar engar slíkar tillögur gert til úrbóta á rekstrarvanda embættisins og ítrekuð var sú skoðun ráðuneytisins að stefnandi hefði ekki haft þá stjórn og yfirsýn yfir rekstur embættisins sem forstöðumanni stofnunar væri skylt og nauðsynlegt að hafa. Þá lýsti ráðuneytið þeirri skoðun sinn að þar sem stefnandi greip ekki til innheimtuaðgerða vegna opinberra gjalda í máli Þórðar Þórðarsonar, sem námu samtals rúmlega 142 milljónum króna, hafi hagsmunir ríkissjóðs verið bornir fyrir borð.
Þar sem ráðuneytið taldi ekki fullreynt að stefnandi gæti stjórnað embætti þar sem minni fjárhagslegir hagsmunir voru í húfi, var talið rétt og skylt í ljósi meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga að gefa stefnanda kost á að takast á við rekstur minna embættis. Sama dag var gefið út flutningsbréf fyrir Ólaf Þór Hauksson, sýslumann á Hólmavík, þar sem honum var falið að gegna embætti sýslumanns á Akranesi frá sama tíma.
Stefnandi mun um miðjan júnímánuð hafa haft símasamband við ráðuneytisstjórann í dómsmálaráðuneytinu og spurt hvort hann ætti þess kost að hætta við að taka við embætti sýslumanns á Hólmavík og þiggja í þess stað fyrrgreind eftirlaun, án þess að hann fyrirgerði með þeim hætti rétti til málshöfðunar. Ráðuneytisstjórinn er sagður hafa svarað þessu játandi, enda hafi ráðuneytið ekkert ákvörðunarvald um möguleika stefnanda á því að höfða mál. Við embættisathugun á sýslumannsembættinu á Akranesi 19. júní 1998 var stefnanda greint frá því að allt fram til 1. júlí 1998 væri ráðuneytið tilbúið til að falla frá því að flytja hann í embætti sýslumanns á Hólmavík og honum stæði þá til boða lausn frá embætti sýslumanns á Akranesi með lögmæltum eftirlaunum. Stefnandi mun hafa haft samband við skrifstofustjóra í ráðuneytinu 24. júní 1998 og lýst því yfir að hann hefði ákveðið að þiggja eftirlaun í samræmi við fyrri samtöl sín við ráðuneytisstjóra og skrifstofustjóra og færi hann því ekki til Hólmavíkur. Ráðuneytinu barst síðan svohljóðandi bréf frá stefnanda daginn eftir: “Vísað er til símtals, sem ég átti við Björgu Thorarensen skrifstofustjóra í gær og við Þorstein Geirsson fyrir nokkrum dögum. Staðfest er hér með, að viðbrögð mín við svokölluðu flutningsbréfi dómsmálaráðherra, Þorsteins Pálssonar, dags. 5. júní sl. óundirrituðu af forseta lýðveldisins- verða þau að taka ekki við starfi sýslumanns á Hólmavík 1. júlí nk. Ég hefi af því tilefni fengið útgefnar í Héraðsdómi Reykjavíkur tvær stefnur á hendur dómsmálaráðherra vegna athafna hans gagnvart mér, sem væntanlega verða birtar honum í dag, en þriðja stefnan mun bíða fram yfir réttarhlé. Sumarfrí hef ég ekki tekið síðasliðin tvö orlofsár og tel mig eiga þau inni. Bið ég yður að tilkynna launaskrifstofu Fjármálaráðuneytis um, að ég muni ekki taka við starfi sýslumanns á Hólmavík 1. júlí nk., og jafnframt um inneign mína í ríkissjóði vegna ótekinna sumarleyfa.”
Með bréfi dagsettu 29. júní 1998 var stefnanda tilkynnt sú ákvörðun ráðuneytisins að fallið væri frá flutningi stefnanda í embætti sýslumanns á Hólmavík og að honum yrðu frá 1. júlí 1998 greidd eftirlaun í samræmi við þau kjör sem lýst hefur verið hér að framan. Samhliða var stefnanda veitt lausn frá embætti sýslumanns á Akranesi frá og með 1. júlí 1998.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Stefnandi gerir grein fyrir málsástæðum og lagarökum sínum í 11 liðum í stefnu í hinu fyrra máli.
Í fyrsta lagi byggir stefnandi á því að stjórnarskráin veiti stefnanda vernd fyrir ákvörðun stefnda dómsmálaráðherra um flutning í annað embætti. Forsetaskipaða embættismenn megi ekki flytja úr einu embætti í annað nema forseti lýðveldisins undirriti flutningsbréfið, sbr. 1. og 4. mgr. 20. gr. stjórnarskrárinnar. Þessi ákvörðun hafi ekki verið borin undir forseta, sbr. 18. gr. stjórnarskrárinnar og samkvæmt 19. gr. hennar veiti undirskrift forseta undir löggjafarmál og stjórnarerindi þeim gildi er ráðherra ritar undir með honum. Dómsmálaráðherra hafi virt þetta stjórnarskrárákvæði að vettugi.
Í öðru lagi byggir stefnandi á því að með ákvörðuninni hafi meginstafir réttaröryggis verið virtir að vettugi og stjórnskipan ríkisins unnið stórtjón. Sýslumenn séu saksóknarar hver í sínu umdæmi og geti ráðherra ekki flutt sýslumenn í annað umdæmi að geðþótta sínum án þess að stofna réttaröryggi í tvísýnu.
Í þriðja lagi byggir stefnandi á því að dómsmálaráðherra sé vanhæfur til að taka íþyngjandi stjórnvaldsákvarðanir gagnvart stefnanda vegna opinbers fjandskapar við sig, sbr. 1. og 6. tl. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Í fjórða lagi byggir stefnandi á því að rannsóknarreglu 11. gr. stjórnsýslulaga hafi ekki verið fullnægt. Þar eð flutningurinn sé í reynd frávikning úr starfi verði að fá rannsókn málsins í hendur þeirrar nefndar sérfróðra manna sem getið er í 1. mgr. 27. gr. laga nr. 70/1996.
Í fimmta lagi byggir stefnandi á því að andmælaréttur hans samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga hafi verið virtur að vettugi. Ljóst hafi verið af fréttum útvarps og sjónvarps 18. apríl s.l. að stefndi dómsmálaráðherra hafði þá þegar verið búinn að taka ákvörðun um flutninginn.
Í sjötta lagi byggir stefnandi á því að með ákvörðun um flutning hafi ráðherra gerst sekur um misbeitingu valds og valdníðslu. Ákvörðunin sé ekki studd við málefnalegar forsendur og til að víkja frá því jafnræði, sem sýslumenn almennt njóta í störfum sínum og beita þannig mismunun, þurfi sérstakar ástæður, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga. Þær ástæður sem ráðherra nefni í bréfi sínu 11. maí s.l. séu tylliástæður sem bornar hafi verið fram eftir að raunveruleg geðþóttaákvörðun hafði verið tekin. Stefnandi telur fjárhagsvanda embættisins vera afleiðingu athafna ráðherra sem hafi haft ákvörðunarvald um tekjur og útgjöld embættisins. Stefnandi hafi aðeins haft tillögurétt en ráðherra hafi ávallt virt tillögur stefnanda að vettugi. Þá hafi meðferð stefnanda á ÞÞÞ-máli verið á valdsviði hans og lögum samkvæmt, sbr. m.a. 2.-4. mgr. 52. gr. almennra hegningarlaga.
Í sjöunda lagi telur stefnandi sér mismunað gagnvart Ólafi Þ. Haukssyni með þeirri ákvörðun ráðherra að flytja hann í embætti sýslumanns á Hólmavík, sbr. jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga. Ferill stefnanda sé margfalt fjölbreyttari og glæsilegri.
Í áttunda lagi byggir stefnandi á því að engin málefnaleg þörf hafi verið á því að flytja stefnanda í annað embætti. Ákvörðunin sé íþyngjandi stjórnsýslugerningur og því ólögmæt og ógild, sbr. meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga.
Í níunda lagi byggir stefnandi á því að skipun stefnanda í embætti sýslumanns á Akranesi hafi verið staðbundin og flutningur í embætti sýslumanns á Hólmavík því í reynd frávikning úr starfi sýslumanns á Akranesi. Um hafi verið að ræða afturköllun á skipun stefnanda í Akranesembættið, sbr. 25. gr. stjórnsýslulaga og sú afturköllun sé frávikning úr starfi, sbr. 29. gr. laga nr. 70/1996. Afurköllun geti ekki gerst löglega sökum þess að hún hafi valdið stefnanda miska/tjóni og engar málefnalegar ástæður hafi verið fyrir hendi. Þar sem um frávikningu var að ræða geti hún ekki átt sér stað nema gætt sé málsmeðferðar þeirrar sem kveðið er á um í 27.-29. gr. laga nr. 70/1996.
Í tíunda lagi byggir stefnandi á því að ástæður þær sem stefndi dómsmálaráðherra bar fyrir ákvörðun sinni hafi verið rangfærslur, rangar sakargiftir og ærumeiðingar. Sé um að ræða brot gegn 148. gr almennra hegningarlaga.
Í ellefta lagi rökstyður stefnandi miskabótakröfu sína með þeim hætti, að ákvörðunin og yfirlýsingar á opinberum vettvangi hafi verið stórlega ærumeiðandi og til þess fallnar að eyðileggja mannorð og starfsheiður stefnanda. Starfsheiður og mannorð sé það sem litið sé til þegar lagður er dómur á hæfni lögfræðinga. Stefnandi hafi lagt mikið á sig, m.a. með frækilegum námsárangri, til að byggja upp starfsheiður sinn og álit sem lögfræðings. Tjón hans vegna tilræðis dómsmálaráðherra sé af þeim sökum meira en almennt gerist. Skaðaverk ráðherra lýsi sér vel í þeirri yfirlýsingu hans að minna og auðveldara embætti hæfi stefnanda betur en sýslumannsembættið á Akranesi
Órökstuddar yfirlýsingar stefnda dómsmálaráðherra um að stefnandi sé óhæfur til að gegna embætti sýslumanns á Akranesi hafi verið margendurteknar í fjölmiðlum. Framferði ráðherra varði við 235. og 236. gr. almennra hegningarlaga og 26. gr. skaðabótalaga.
Í hinu nýja máli gerir stefnandi einnig grein fyrir málsástæðum sínum og lagarökum í 11 liðum og þrátt fyrir að málsástæður séu í meginatriðum þær sömu og í fyrra málinu þykir rétt að rekja þær í stórum dráttum.
Í fyrsta lagi byggir stefnandi á því að ákvörðun dómsmálaráðherra í svokölluðu flutningsbréfi hafi verið þríþætt. Hún hafi annars vegar falið í sér að stefnandi var sviptur sýslumannsembætti á Akranesi og hins vegar flutning hans í embætti sýslumanns á Hólmavík og í þriðja lagi lausn að fullu ef hann sætti sig ekki við þá ákvörðun. Þessi ákvörðun hafi orðið að fullnægja þeim skilyrðum sem sett eru í VI. kafla laga nr. 70/1996, en þar sem hún gerði það ekki var hún ólögmæt og saknæm gagnvart stefnanda.
Í öðru lagi byggir stefnandi á því að dómsmálaráðherra hafi brotið gegn 18.-20. gr. stjórnarskrárinnar með ákvörðun sinni þar sem forseti Íslands hafi ekki undirritað flutningsbréfið með honum. Sé ákvörðunin því ólögmæt og saknæm gagnvart stefnanda.
Í þriðja lagi byggir stefnandi á því að í ákvörðun dómsmálaráðherra hafi falist svokölluð "þögul" brottvikning stefnanda úr embætti, en um slíka brottvikningu skuli fara eftir ákvæðum VI. kafla laga nr. 70/1996. Það hafi ekki verið gert og ákvörðunin því ólögmæt og saknæm gagnvart stefnanda. Þá byggir stefnandi á því að ákvörðunin hafi verið tekin í refsingarskyni eins og fram kemur í flutningsbréfinu.
Í fjórða lagi byggir stefnandi á því að dómsmálaráðherra hafi verið vanhæfur til að taka ákvörðun um að svipta stefnanda sýslumannsembættinu á Akranesi, þar sem hann hafi lengi staðið í stríði við stefnanda og haft í frammi ærumeiðingar á hendur honum á opinberum vettvangi.
Í fimmta lagi byggir stefnandi á því að dómsmálaráðherra hafi virt rannsóknarreglu 11. gr. (svo) stjórnsýslulaga að vettugi og því hafi ákvörðunin verið ólögmæt og saknæm gagnvart stefnanda.
Í sjötta lagi byggir stefnandi á því að dómsmálaráðherra hafi í reynd virt að vettugi andmælarétt stefnanda samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga, en komið hafi fram á fundi með fréttamönnum 18. maí 1998 að fullnaðarákvörðun hefði þegar verið tekin og henni yrði ekki haggað. Forsendur andmælaréttar séu þær að ekki sé í raun búið að taka þá ákvörðun sem hlutaðeigandi sé gefinn kostur á að andmæla.
Í sjöunda lagi byggir stefnandi á því að í ákvörðuninni hafi falist misbeiting valds sökum þess að hún var ekki studd við málefnalegar forsendur, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga. Hún hafi því verið ólögmæt og saknæm gagnvart stefnanda. Mál dómsmálaráðherra á hendur stefnanda vegna mætinga hans á sýsluskrifstofuna á Akranesi hafi verið fellt niður veturinn 1994-95 og því var ekki hægt að nota það sem ástæðu ákvörðunarinnar, enda hafi það ekki verið gert. Dómsmálaráðherra hafði refsað stefnanda vegna meðferðar hans á máli Þórðar Þórðarsonar með áminningarbréfi 2. mars 1998 og því gat hann ekki refsað honum fyrir sama brot með því að svipta hann sýslumannsembætti. Það hafi hann þó gert samkvæmt þeim rökstuðningi sem fylgdi ákvörðuninni. Þá byggir stefnandi á því að fjárhagsvandi sýslumannsembættisins á Akranesi hafi verið bein afleiðing athafna dómsmálaráðherra. Sú ákvörðun að ákveða stefnanda refsingu með vísan til þessa vanda hafi falið í sér rangar sakargiftir, sbr. 148. gr. almennra hegningarlaga. Stefnandi byggir á því að hann hafi árum saman eða þegar vorið 1993 bent á það fjársvelti og þá mismunum sem embættið hefði mátt þola. Stefnandi hafi þá bent á að embætti sýslumanns á Ísafirði hljóti samkvæmt fjárlögum 1993 17-18 milljónum króna meira, enda þótt þar séu um 60 færri íbúar og Vestmannaeyjaembættið fái 6-7 milljónum króna meira þrátt fyrir að íbúar séu um 400 færri en á Akranesi. Dómsmálaráðuneytið hafi staðhæft að stefnandi hafi ekki beðið um auknar fjárveitingar og þá hafi tillögum hans um ráðstafanir til sparnaðar verið hafnað. Þá byggir stefnandi á því að dómsmálaráðherra hafi virt meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga að vettugi og hafi ákvörðunin því verið ólögmæt og saknæm gagnvart stefnanda.
Í áttunda lagi byggir stefnandi á því að dómsmálaráðherra hafi komið ólöglega í veg fyrir að stefnandi gæti fengið aftur sýslumannsembættið á Akranesi með því að virða að vettugi ákvæði 27.-29. gr. laga nr. 70/1996, þess efnis að nefnd sérfróðra manna skyldi fjalla um mál stefnanda, sbr. 2. mgr. 32. gr. laganna. Þessi verknaður hafi verið ólögmætur og saknæmur gagnvart stefnanda.
Í níunda lagi byggir stefnandi á því að stefnanda hafi verið mismunað gagnvart Ólafi Þ. Haukssyni með ákvörðuninni, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga. Ferill stefnanda sé margfalt fjölbreyttari og glæsilegri og sé ákvörðunin því ólögmæt og saknæm gagnvart stefnanda.
Í tíunda lagi byggir stefnandi á því að hann hafi verið beittur nauðung þegar honum gegn vilja sínum var veitt lausn frá sýslumannsembætti á Akranesi. Við þær aðstæður varð ekki litið svo á að hann hefði með frjálsum og lögmætum viljagerningi afsalað sér embættinu. Ákvörðun dómsmálaráðherra um að svipta hann embættinu hafi því verið ólögmæt og saknæm gagnvart stefnanda.
Í ellefta lagi byggir stefnandi á því að ákvörðun dómsmálaráðherra um að svipta hann embættinu hafi verið lokaþáttur margra ára ólöglegrar aðfarar á hendur stefnanda sem hafi lýst sér í ærumeiðingum, röngum sakargiftum og margvíslegum lögbrotum gagnvart stefnanda. Stefnandi vísar til 148. gr., 234. gr. og 235. gr. almennra hegningarlaga. Þá segir stefnandi dómsmálaráðherra hafa brotið reglur um launagreiðslur við sýslumannsembættið með því að greiða launakröfu Kristrúnar Kristinsdóttur fulltrúa fyrir tveggja ára tímabil, en sú krafa hafi aldrei verið sett fram við yfirmann hennar, stefnanda málsins.
Stefnandi byggir skaðabótakröfu sína á tjónsútreikningi Jóns Erlings Þorlákssonar, tryggingafræðings dagsettum 18. maí s.l. Samkvæmt útreikningi hans reiknast höfuðstólsverðmæti tekjutapsins miðað við 1. október 1998 til 70 ára aldurs kr. 24.015.000 og verðmæti tapaðra lífeyrisréttinda er áætlað 6% af höfuðstólsverðmæti reiknaðs taps eða kr. 1.441.000.
Málsástæður og lagarök stefndu.
Stefndu byggja dómkröfur sínar í hinu fyrra máli á eftirfarandi málsástæðum:
Stefnandi hafi við gildistöku laga nr. 92/1989 um aðskilnað umboðsvalds og dómsvalds í héraði kosið að vera sýslumaður á Akranesi í stað þess að taka við embætti héraðsdómara, þar sem hann hefði áfram notið þeirrar verndar, sem dómendur njóta samkvæmt stjórnarskránni. Eftir lagabreytinguna hafi stefnandi engin dómstörf haft með höndum og því engin rök til þess að hann njóti þeirrar verndar sem 61. gr. stjórnarskrárinnar veitir dómendum.
Stefndu byggja á því að skömmu eftir gildistöku laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins hafi komið upp álitaefni um hvernig skýra bæri lögin með hliðsjón af ákvæðum 20. gr. stjórnarskrárinnar, þegar veita ætti forsetaskipuðum embættismanni lausn frá embætti. Hafi verið óskað álits forsætisráðuneytisins á því hvort forseti Íslands yrði að veita þeim embættismanni lausn, sem hann hefði skipað án tillits til þess að ráðherra færi með veitingarvald að gildandi lögum. Ráðuneytið hafi komist að þeirri niðurstöðu að þegar virt væri 1. mgr. 31. gr. laga nr. 70/1996 með hliðsjón af 1. mgr. 5. gr. laganna væri ljóst að leggja bæri núgildandi lög til grundvallar þegar leyst væri úr því hvaða stjórnvald veitti lausn frá embætti. Af því leiddi að sömu lögum yrði ekki beitt við lausn frá embætti og giltu við skipun í það, nema þau væru enn í gildi, þegar ákvörðun um lausn væri tekin. Stefndu segjast byggja á þessari lagatúlkun og byggja jafnframt á því að flutningur á milli embætta eða lausn frá embætti með lögmæltum eftirlaunum á grundvelli 4. mgr. 20. gr. stjórnarskrárinnar hljóti að lúta sömu rökum.
Stefndu hafna því að ráðuneytið hafi haft einhver afskipti af störfum eða ákvörðunum stefnanda sem ákæranda. Staða hans sem ákæranda geti þó ekki hindrað að ráðuneytið neyti heimildar 4. mgr. 20. gr. stjórnarskrárinnar þegar ríkar málefnalegar ástæður liggja því til grundvallar.
Stefndu hafna því að rannsóknarregla og andmælaréttur stjórnsýslulaga hafi verið virt að vettugi og benda á að rekstrarvandi sýslumannsembættisins á Akranesi hafi verið langmesti uppsafnaði vandi eins embættis á öllu landinu. Stefnandi hafi engar raunhæfar tillögur lagt fram til úrbóta, en vandinn hafi aukist á undanförnum árum, sérstaklega á árinu 1997.
Stefndu benda á hvað varðar þá forsendu dómsmálaráðuneytisins að innheimta stefnanda á opinberum gjöldum Þórðar Þórðarsonar styðji þá skoðun að stefnandi valdi ekki embættinu og stofni hagsmunum ríkissjóðs í hættu að stefnandi hafi ekki gripið til innheimtuaðgerða meðan skuldarinn ráðstafaði stærstum hluta eigna sinna til nákominna. Fjármálaráðuneytið hafi síðan ákveðið 18. febrúar 1998 að taka innheimtu opinberra gjalda í máli þessu úr höndum stefnanda og fela það öðrum. Stefndu byggja á því að málið hafi verið nægjanlega upplýst í skilningi 10. gr. stjórnsýslulaganna og leiddu andmæli stefnanda ekki neitt nýtt í ljós sem væri til þess fallið að breyta þeim fyrirætlunum að flytja stefnanda í minna embætti. Þá sé ljóst að engin niðurstaða um flutning hafi legið fyrir fyrr en með rökstuddri ákvörðun í bréfi til stefnanda 5. júní 1998 en þá hafði stefnandi þegar komið að öllum andmælum sínum og tekin hafði verið afstaða til þeirra.
Stefndu byggja á því að þær forsendur sem lágu að baki ákvörðuninni hafi verið málefnalegar og lögmætar. Grípa hafi þurft til aðgerða til að rétta af alvarlegan fjárhagsvanda embættisins og virtist viðhorf stefnanda vera það að honum væru fjármál embættisins óviðkomandi. Þá hafi meðferð stefnanda á innheimtu opinberra gjalda Þórðar Þórðarsonar veitt skýra vísbendingu um að hagsmunum ríkissjóðs væri ekki nægilega borgið í höndum stefnanda.
Stefndu byggja á því að í stað þess að beita þeim agaviðurlögum sem mögulega hefði verið unnt að beita stefnanda, þar með talið lausn frá embætti, hafi sú leið verið valin að gefa stefnanda kost á að halda embætti sýslumanns en fela honum hins vegar stjórn minna embættis. Ekki var fullreynt hvort stefnandi gæti fengist við minna embætti, en hann héldi þó óbreyttum embættistekjum sínum. Samkvæmt 1. mgr. 36. gr. laga nr. 70/1996 sé stjórnvaldi, sem skipað hefur mann í embætti, veitt heimild til að flytja hann úr einu embætti í annað, enda heyri embættin undir það. Þetta ákvæði sé byggt á 4. mgr. 20. gr. stjórnarskrárinnar. Sá möguleiki að flytja embættismenn til í störfum sé í samræmi við það sjónarmið sem lögin byggja á að æskilegt sé að auka tilfærslu á fólki í störfum, t.d. í hagræðingarskyni. Slíkur sveigjanleiki gagnvart embættismönnum hljóti að vera æskilegur áður en beitt er harkalegri aðgerðum svo sem agaviðurlögum.
Stefndu byggja á því að skilyrði 4. mgr. 20. gr. stjórnarskrárinnar hafi verið uppfyllt að öllu leyti. Stefnandi hafi haft raunhæft val um hvort hann tæki við hinu nýja embætti eða færi á eftirlaun. Stefnandi hafi í fyrstu ákveðið að taka við hinu nýja embætti en síðar tekið þá ákvörðun að fara á eftirlaun.
Stefndu byggja á því að stefnandi hafi í greinargerð til dómsmálaráðuneytisins í febrúar 1998 um afskipti embættis hans af máli Þórðar Þórðarsonar haldið því fram að stefnandi hafi gert samkomulag við Helga V. Jónsson, hrl., um greiðslu á sekt Þórðar, en ljóslega komi fram í samkomulaginu að það var gert við Þórð en ekki lögmann hans. Undirritun lögmannsins sé síðar til komin og feli ekki í sér beina aðild hans að samkomulaginu. Sú háttsemi stefnanda að skýra dómsmálaráðuneytinu rangt frá aðild lögmannsins að samkomulaginu og leyna því að stefnandi gerði samkomulagið við Þórð hafi verið meðvirkandi þáttur í þeirri ákvörðun ráðuneytisins að veita stefnanda áminningu vegna meðferðar hans á innheimtumálum gagnvart Þórði Þórðarsyni og telja hann vanhæfan til að gegna embættinu. Í stað þess að beita frekari agaviðurlögum reyndi ráðuneytið að fara vægari leið og flytja stefnanda í umsvifaminna embætti án þess að hann missti neins í af embættislaunum sínum, en gefa honum ella kost á eftirlaunum.
Í greinargerð sinni í hinu yngra máli lýsa stefndu því yfir að þegar hafi verið tekin afstaða til málsástæðna stefnanda og er í því sambandi vísað til greinargerðar í hinu eldra máli. Vegna kröfu stefnanda um bætur fyrir fjárhagslegt tjón er þó áréttað að ákvörðun dómsmálaráðherra um flutning hafi verið byggð á 4. mgr. 20. gr. stjórnarskrárinnar og 36. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar hefðu stefnanda verið tryggð sömu laun og hann hafði sem sýslumaður á Akranesi, ef hann hefði flust í embætti sýslumanns á Hólmavík eins og honum stóð til boða. Stefnandi hefði hins vegar valið þann kost, sem kveðið er á um í 4. mgr. 20. gr. stjórnarskrárinnar, að fá lausn frá embætti með lögmæltum eftirlaunum. Eftir þessa ákvörðun gat stefnandi að sjálfsögðu ekki lengur átt tilkall til fullra launa og byggja stefndu á því að þar með sé grundvöllur bótakröfu hans fyrir fjárhagslegu tjóni brostinn.
Stefndu rökstyðja varakröfu sína um lækkun stefnufjárhæðar á því að stefnandi fái til 70 ára aldurs mánaðarlegar greiðslur frá ríkinu án vinnuframlags af hans hálfu. Nemi greiðslur þessar rúmlega 192.000 krónum á mánuði í stað embættislauna sem námu tæplega 470.000 krónum á mánuði. Stefnandi stundi nú lögmannsstörf og sé ljóst að draga verði tekjur af þeim störfum frá þeirri fjárhæð sem hann krefst vegna tapaðra vinnulauna. Stefndu benda á að bótakrafan sé gerð án þess að tekið sé tillit til skatta og þá er upphafstíma dráttarvaxtakröfu mótmælt sérstaklega.
Forsendur og niðurstaða.
Eins og mál þetta er nú vaxið, eftir að því hafði með dómi Hæstaréttar Íslands frá 25. mars s.l. að hluta til verið vísað frá héraðsdómi, ber að taka afstöðu til þeirrar grunnröksemdar stefnanda að framangreind ákvörðun stefnda dómsmálaráðherra frá 5. júní 1998 um flutning stefnanda í embætti hafi ekki verið skuldbindandi og varði því bótaskyldu. Hins vegar verður ekki með vísan til Hæstaréttardómsins kveðið á um hugsanlegt ólögmæti eða ógildi ákvörðunarinnar. Stefnandi krefst annars vegar bóta fyrir hið fjárhagslega tjón er hann telur ákvörðunina hafa valdið sér og hins vegar miskabóta vegna ákvörðunarinnar og þeirrar málsmeðferðar sem lá henni til grundvallar.
Með svonefndu flutningsbréfi stefnda dómsmálaráðherra dagsettu 5. júní 1998 var stefnanda falið að gegna embætti sýslumannsins á Hólmavík frá 1. júlí 1998 og er vísað til 36. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996. Upplýst hefur verið að atbeina forseta Íslands var ekki leitað vegna þessarar ákvörðunar. Með flutningsbréfinu fylgdi ítarlegur rökstuðningur ráðuneytisins fyrir ákvörðuninni og í lok bréfsins er hún sögð tekin með vísan til 4. mgr. 20. gr. stjórnarskrárinnar og 36. gr. laga nr. 70/1996, sbr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá er ljóst af gögnum málsins að stefnanda var gefinn kostur á að koma að andmælum sínum vegna fyrirhugaðs flutnings.
Ljóst er að forseti Íslands skipaði stefnanda á sínum tíma í embætti sitt í samræmi við þágildandi löggjöf. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 70/1996 fer eftir ákvæðum laga hvaða stjórnvald veitir starf. Í samræmi við það er nú svo fyrir mælt í 5. gr. laga nr. 92/1989, sbr. 27. gr. laga nr. 83/1997, að ráðherra skipi sýslumenn til fimm ára í senn. Þá eru ákvæði um það í 1. mgr. 31. gr. laga nr. 70/1996 að stjórnvald er skipar mann í embætti veiti og lausn frá því, nema öðruvísi sé sérstaklega fyrir mælt í lögum. Samkvæmt 36. gr. laga nr. 70/1996 getur stjórnvald, sem skipað hefur mann í embætti, flutt hann úr einu embætti í annað, enda heyri bæði embættin undir það. Þetta lagaákvæði er byggt á 4. mgr. 20. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segir að forseti lýðveldisins geti flutt embættismenn úr einu embætti í annað, enda missi þeir einskis í af embættistekjum sínum og sé þeim veittur kostur á að kjósa um embættaskiptin eða lausn frá embætti með lögmæltum eftirlaunum eða lögmæltum ellistyrk.
Eins og að framan var rakið var vísað frá dómi þeirri kröfu stefnanda að viðurkennt verði með dómi að framangreind ákvörðun hafi verið ólögmæt og ógild. Af því leiðir að við úrlausn málsins, í því horfi sem það er nú, verður að byggja á því að ákvörðunin hafi verið lögmæt og gild. Koma þá ekki til frekari skoðunar þau sjónarmið stefnanda er lúta að ólögmæti eða ógildi ákvörðunarinnar.
Ljóst er að stefnandi stóð frammi fyrir tveimur kostum áður en endanleg ákvörðun um flutninginn var tekin. Hann gat tekið við embætti sýslumanns á Hólmavík og haldið þar óbreyttum kjörum eða fengið lausn frá embætti með lögmæltum eftirlaunum. Óumdeilt er í máli þessu að viðbrögð stefnanda urðu þau að taka ekki við embætti sýslumanns á Hólmavík en þiggja þess í stað þau eftirlaunakjör sem rakin hafa verið hér að framan. Með hliðsjón af þessum viðbrögðum stefnanda féll ráðuneytið frá þeirri ákvörðun sinni að flytja stefnanda í embætti sýslumanns á Hólmavík.
Krafa stefnanda um bætur fyrir fjárhagslegt tjón er á því byggð að hann hafi orðið af embættislaunum frá 1. október 1998 til 70 ára aldurs 2. mars 2009. Þegar litið er til þess að umrædd ákvörðun, sem samkvæmt framansögðu var tekin lögum samkvæmt, kom aldrei til framkvæmda vegna sérstakra óska stefnanda um aðrar málalyktir verður að telja að stefnandi hafi firrt sig rétti til bóta að þessu leyti.
Krafa stefnanda um miskabætur er á því byggð að í ákvörðuninni og þeirri málsmeðferð er lá henni til grundvallar hafi falist áreitni, ærumeiðingar og tilræði. Stefnandi byggir á því að yfirlýsingar ráðherra og starfsmanna ráðuneytisins á opinberum vettvangi hafi verið stórlega ærumeiðandi og til þess fallnar að eyðileggja mannorð og starfsheiður stefnanda. Stefnandi tekur sem dæmi um slíka yfirlýsingu þá fullyrðingu dómsmálaráðherra að minna og auðveldara embætti hæfi stefnanda betur en sýslumannsembættið á Akranesi. Þá hafi órökstuddar yfirlýsingar ráðherra um að stefnandi sé óhæfur til að gegna embættinu verið margendurteknar í fjölmiðlum.
Samkvæmt rökstuðningi dómsmálaráðuneytisins fyrir þeirri ákvörðun að flytja stefnanda í embætti sýslumanns á Hólmavík var annars vegar á því byggt að rekstrarvandi sýslumannsembættisins á Akranesi væri mesti uppsafnaði vandi eins sýslumannsembættis á öllu landinu og að stefnandi hafi ekki gripið til nauðsynlegra aðgerða til þess að draga úr vandanum. Hins vegar var á því byggt að stefnandi hafi borið hagsmuni ríkissjóðs fyrir borð við innheimtu á dómsekt og álögðum opinberum gjöldum Þórðar Þórðarsonar. Telja verður að starfsmönnum ráðuneytisins hafi verið bæði rétt og skylt að skýra nánar á opinberum vettvangi þær ástæður er lágu að baki umræddri flutningsákvörðun. Verður ekki talið að stefnanda hafi tekist að sýna fram á að við þessa umfjöllun hafi verið gengið lengra en efni stóðu til. Ber því að sýkna stefndu af miskabótakröfu stefnanda.
Samkvæmt framansögðu skulu stefndu sýknir af öllum kröfum stefnanda í máli þessu. Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Það athugast að stefna í hinu síðara máli er mikil að vöxtum eða 31 blaðsíða. Er í þeim kafla hennar þar sem fjallað er um málsástæður og lagarök meðal annars að finna orðréttar tilvitnanir í fræðirit og dóma. Þessi málatilbúnaður stefnanda er í andstöðu við ákvæði e-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 og ber að átelja hann.
Hjörtur O. Aðalsteinsson, héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Stefndu, dómsmálaráðherra fyrir hönd ríkisins og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs, skulu vera sýknir af öllum kröfum stefnanda, Sigurðar Gizurarsonar í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.