Hæstiréttur íslands

Mál nr. 589/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Mánudaginn 12

 

Mánudaginn 12. nóvember 2007.

Nr. 589/2007.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H. B. Snorrason, saksóknari)

gegn

X

(Bjarni Hauksson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

 

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi áfram sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála  var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson. 

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. nóvember 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 9. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 8. nóvember 2007, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til  fimmtudagsins 20. desember 2007 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

                                                Ú R S K U R Ð U R  :

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], [heimilisfang], Kópavogi, sæti áfram gæsluvarðhaldi allt til fimmtudagsins 20. desember 2007, kl. 16:00 og/eða uns dómur gengur í hans málum.

Í kröfu lögreglustjóra kemur fram að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsaki ætlaðan innflutning á stórfelldu magni fíkniefna til Íslands. Um kl. 6:00 þann 20. september sl. hafi A og B lagt skútu við bryggju á Fáskrúðsfirði og hafi þeir verið handteknir af lögreglu í kjölfarið vegna gruns um fíkniefnamisferli, en þeir reynt að koma sér undan með því að sigla skútunni frá bryggju þegar þeir urðu lögreglu varir. Um borð í skútunni hafi fundist mikið magn af fíkniefnum. Litlu seinna hafi C ekið bifreiðinni [...] að bryggjunni, en lögreglumenn þekkt hann sem grunaðan í þessu máli og hafi hann því verið handtekinn vegna rannsóknar málsins. Séu vísbendingar um að þeir A og B hafi strax eftir afhendingu fíkniefnanna til C ætlað að sigla aftur til Noregs. Kærði og D hafi síðar átt að fá fíkniefnin afhent fyrir milligöngu aðila sem hlutverk hafa í skipulagi þessarar brotastarfsemi.

Lögregla hafi í langan tíma búið yfir upplýsingum um skipulagningu innflutnings og dreifingar fíkniefna í miklu magni þar sem m.a. kærði sé talinn eiga hlut að máli.  Formleg lögreglurannsókn málsins hafi staðið yfir síðan í nóvember á síðasta ári og á þeim tíma hafi verið fylgst grannt með kærða og D og hafi það eftirlit leitt til þess að lögregla handtók A, B og C á Fáskrúðsfirði þann 20. september sl. eftir að skútan lagði að bryggju. Bæði kærði og D séu taldir tengjast umræddum innflutningi og sé það ætlun lögreglu að þeir hafi tekið þátt í að fjármagna og skipuleggja hann. Við rannsókn málsins hafi meðal annars komið í ljós að kærði hafi tekið þátt í að senda peninga til Færeyja þegar A og B voru þar vegna viðgerðar á skútunni. Kærði og D séu m.a. taldir hafa látið af hendi peninga sem notaðir hafi verið til greiðslu þess kostnaðar sem fallið hefur til við brotastarfsemi þessa. 

Gögn og upplýsingar sem fundist hafi og aflað hafi verið gefi mynd af málinu og hlutverkum þeirra sem því tengist. Meðal þess sem hafi fundist hjá C við handtöku á Fáskrúðsfirði hafi verið gögn með upplýsingum sem svara til upplýsinga og áætlana sem eru í dagbók sem fannst hjá kærða. Talið sé að fíkniefnunum hafi verið pakkað í Kaupmannahöfn m.a. af D og hafa allmargir aðilar verið handteknir þar og yfirheyrðir vegna málsins, sjá nánar framburðarskýrslur í gögnum málsins. Þá hafi E verið handtekinn vegna málsins en þáttur hans sé talinn hafa verið að taka við fíkniefnasendingunni frá C  þegar hún kæmi til landsins og geyma hana á sumarhúsalóð rétt austan Hellu á Rangárvöllum.

Grunsemdir séu um að með sömu verknaðaraðferð hafi umtalsverðu magni fíkniefna verið komið til landsins með skútunni  Y til Fáskrúðsfjarðar árið 2005, en skútan sé í eigu kærða og bróður hans F. Þá liggi fyrir grunur lögreglu um að kærði ásamt samverkamönnum sínum hafi notað ágóðann af sölu og dreifingu þeirra fíkniefna til þess að fjármagna þann fíkniefnainnflutning sem hafi átt sér stað þann 20. september sl. Kærði hafi verið yfirheyrður vegna málsins og vísast til framburðaskýrslna í gögnum málsins.

Rannsókn þessa máls, sem sé mjög umfangsmikil, hafi miðað ágætlega. Rannsóknarlögreglumenn hafi yfirheyrt fjölda manns hér á landi og aflað upplýsinga í samræmi við það en þá hafi lögregla í Danmörku, Noregi og víðar í Evrópu unnið að rannsókninni, bæði með rannsóknaraðgerðum samkvæmt ósk frá íslenskum yfirvöldum og með því að rannsóknarlögreglumenn lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hafi unnið í nefndum löndum við hlið hinna erlendu rannsóknarlögreglumanna að margskonar lögregluvinnu í þágu málsins. Þessi rannsókn hafi nú á síðustu vikum rennt enn frekari stoðum undir grunsemdir um aðild kærðu að umfangsmiklu og skipulögðu smygli og dreifingu á fíkniefnum til landsins allt frá árinu 2005 sem sé, eins og rakið hafi verið, einnig til rannsóknar.

Lögreglan hafi nú þegar handtekið fjölda manns og sitji nú m.a. 4 aðilar í gæsluvarðhaldi á Íslandi vegna rannsóknar málsins og einn hafi verið úrskurðaður í gæsluvarðhald í Færeyjum. Sem standi hafi ekki öll gögn borist lögreglu erlendis frá en muni berast á næstunni. Rannsókn málsins verði flýtt eftir föngum en nú sé unnið að úrvinnslu gagna og gerð greinargerðar rannsakara til ríkissaksóknara í samræmi við 1. mgr. 77. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála og rannsókn málsins, sem sé umfangsmikil, verði flýtt eftir föngum. Kærði þyki vera undir sterkum rökstuddum grun um aðild að stórfelldu fíkniefnalagabroti. Kærði hafi sætt gæsluvarðhaldi frá 20. september sl. en með úrskurði héraðsdóms frá 20. september 2007 nr. R-449/2007 hafi kærði verið úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli. a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála sem var seinna staðfestur með dómi Hæstaréttar nr. 483/2007. Með úrskurði héraðsdóms nr. R-529/2007 þann 18. október sl. hafi kærði verið úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald til 1. nóvember sl. einnig á grv. a-liðar sama ákvæðis. Sá úrskurður hafi einnig verið staðfestur með dómi Hæstaréttar nr. 551/2007. Með úrskurði héraðsdóms nr. R-580/2007 þann 1. nóvember sl. var kærði úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald til dagsins í dag, einnig á grv. a-liðar sama ákvæðis. Sá úrskurður hafi einnig verið staðfestur með dómi Hæstaréttar nr. 570/2007 með vísan til 2. mgr. 103. gr. sömu laga.

Meint aðild kærða þyki mikil en hann sé talinn tengjast skipulagningu, fjármögnun, móttöku, afhendingu og pökkun fíkniefnanna erlendis eins og áður hafi verið nefnt. Einnig sé lagt til grundvallar að um sé að ræða mjög mikið magn sterkra og hættulegra fíkniefna. Nær öruggt þyki að fíkniefnin hafi átt að fara í sölu og dreifingu til ótiltekins fjölda manna hér á landi. Hið meinta brot kærða þyki mjög alvarlegt. Með tilliti til hagsmuna almennings þyki þannig nauðsynlegt að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi á meðan mál hans sé til meðferðar en telja verði að ef sakborningur, sem orðið hafi uppvís að jafn alvarlegu broti og kærði, gangi laus áður en máli lýkur með dómi þá valdi það hneykslun í samfélaginu og særi réttarvitund almennings. Staða kærða í málinu þykir sambærileg stöðu sakborninga í öðrum svipuðum málum, sbr. mál Hæstaréttar nr.: 376/2006, 377/2006, 378/2006, 154/2006, 368/2005, 93/2005, 488/2004, 269/2004, 417/2000 og 471/1999, þar sem sakborningum hafi verið gert að sæta gæsluvarðhaldi fram að uppkvaðningu dóms þegar legið hafi fyrir rökstuddur grunur um beina aðild að innflutningi á miklu magni fíkniefna í ágóðaskyni. Ekki sé talin ástæða til að ætla að refsimat og réttarvitund almennings í slíkum málum hafi breyst frá því téðir dómar hafi verið uppkveðnir, og sé talið að skilyrðum 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála sé fullnægt í því máli sem hér um ræði.

Verið sé að rannsaka ætluð brot gegn fíkniefnalöggjöfinni og megi ætla að ef þau sönnuðust, þá myndu þau geta varðað allt að 12 ára fangelsi, sbr. 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.  Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991 um meðferð opinberra mála.

Með úrskurði þessa réttar uppkveðnum 18. október sl. var kærða gert að sæta gæsluvarðhaldi til kl. 16 í dag.

Á grundvelli gagna málsins og með vísan til rökstuðnings í kröfu lögreglustjóra telur dómurinn að fyrir hendi sé sterkur grunur um að kærði hafi framið brot sem að lögum getur varðað allt að 12 ára fangelsi samkvæmt 173. gr. a almennra hegningarlaga. Er brotið þess eðlis að gæsluvarðhald telst nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Er því fallist á kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um gæsluvarðhald sbr. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Ásgeir Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

                                                       Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kærði, X, kt. [...], sæti áfram gæsluvarðhaldi allt fimmtudagsins 20. desember 2007, kl. 16:00 og/eða uns dómur gengur í hans málum.