Hæstiréttur íslands

Mál nr. 114/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Greiðsluaðlögun


                                                        

Þriðjudaginn 23. mars 2010.

Nr. 114/2010.

A

(sjálfur)

gegn

Héraðsdómi Reykjavíkur

(enginn)

Kærumál. Greiðsluaðlögun.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu A um heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Talið var að mjög skorti á að í beiðni A kæmu fram þær upplýsingar og gögn sem áskilið væri í 1. og 2. mgr. 63. gr. c. laga nr. 21/1991, einkum að því er varðaði skuldir hans. Þannig væri m.a. nauðsynlegt að gerð væri grein fyrir misræmi sem virtist vera milli skulda A í beiðni um nauðasamning annars vegar og skattframtölum hins vegar. Þá skorti gögn um hvaða skuldir hvíli á sóknaraðila og hverjar á sambúðarkonu hans eða eftir atvikum þeim í sameiningu. Vegna þessa var talið að málatilbúnaður A væri með þeim hætti að óhjákvæmilegt væri að hafna beiðni hans.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen og Árni Kolbeinsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

 Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. febrúar 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. febrúar 2010, þar sem hafnað var beiðni sóknaraðila um að honum yrði veitt heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Kæruheimild er í 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. með áorðnum breytingum. Sóknaraðili krefst þess að fallist verði á beiðni hans um heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar úr ríkissjóði.

I

Sóknaraðili óskaði 27. nóvember 2009 eftir heimild Héraðsdóms Reykjavíkur til að gera nauðasamning til greiðsluaðlögunar við lánardrottna sína samkvæmt X. kafla a. laga nr. 21/1991, sbr. lög nr. 24/2009. Sóknaraðili, sem er menntaður [...] og starfar sem [...], taldi í beiðninni að fjárhagserfiðleikar sínir væru uppsafnaðir og að mestu til komnir vegna húsbyggingar í [...], en sú eign hafi verið seld á árinu 2007. Í greiðsluáætlun sem fylgdi beiðni sóknaraðila til héraðsdóms kemur fram að „nettó“ laun hans séu 228.489 krónur á mánuði en heildarmánaðartekjur 255.186 krónur. Mánaðarleg útgjöld, þar á meðal til framfærslu, telur hann nema rúmlega 208.000 krónum, en að viðbættum rúmlega 91.000 krónum vegna afborgana af húsnæðislánum, en ekki öðrum lánum, séu mánaðarleg útgjöld ríflega 300.000 krónur.

 Í greiðsluáætluninni var eina eign sóknaraðila talin 50% eignarhlutdeild í fasteigninni að [...]. Skilja verður greiðsluáætlunina svo að B, sambúðarkona sóknaraðila, sé eigandi hins helmings fasteignarinnar og sé það jafnframt eina eign hennar og í heild sé fasteignamat eignarinnar 42.750.000 krónur.

Auk greiðsluáætlunarinnar fylgdu beiðni sóknaraðila meðal annars skattframtöl hans fyrir árin 2006 til 2009 og gögn er vörðuðu stöðu einstakra skulda hans. Í greiðsluáætluninni telur sóknaraðili eftirstöðvar heildarskulda nema 101.569.752 krónum. Þar af telur hann tvær skuldir ekki til samningskrafna, sbr. 28. gr. laga nr. 21/1991, en þær eru samkvæmt veðbandayfirliti tryggðar með veði í [...]. Annars vegar er þar um að ræða skuld við Íslandsbanka hf. samkvæmt skuldabréfi nr. 523840, sem hann telur að nemi 51.009.219 krónum að eftirstöðvum. Samkvæmt gögnum málsins er útgáfudagur þessa skuldabréfs 31. janúar 2008 og upphafleg fjárhæð þess 26.000.000 krónur. Sýnist vera um að ræða svonefnt myntkörfulán miðað við gengi svissnesks franka, japansks yens og evru. Ekki verður séð að sóknaraðili telji þetta lán meðal skulda sinna í árslok 2008 í skattframtali 2009. Hins vegar telur sóknaraðili í greiðsluáætlun sinni utan samningsskulda skuld við Almenna lífeyrissjóðinn samkvæmt bréfi nr. 0596-64-147546 að eftirstöðvum 9.540.942 krónur. Það bréf sýnist samkvæmt gögnum málsins vara útgefið 29. apríl 2008 og verðtryggt miðað við vísitölu neysluverðs. Ekki verður séð að þessa láns sé heldur getið meðal skulda í árslok 2008 samkvæmt skattframtali sóknaraðila 2009. Samtals telur sóknaraðili samkvæmt framansögðu að eftirstöðvar þessara tveggja lána er falli utan samningskrafna séu 60.550.161 króna. Samningskröfurnar telur sóknaraðili í greiðsluáætlun vera þrjár, samtals að eftirstöðvum 41.019.591 króna. Í fyrsta lagi er þar um að ræða skuld við Íslandsbanka hf. samkvæmt skuldabréfi nr. 521984 að eftirstöðvum 14.647.275 krónur. Samkvæmt gögnum málsins er útgáfudagur þessa bréfs 2. maí 2007 og upphafleg fjárhæð 6.508.909 krónur. Um virðist að ræða svonefnt myntkörfulán miðað við svissneska franka og japönsk yen. Þetta lán er í framtali sóknaraðila 2009 talið til skulda í árslok 2008 og eftirstöðvar þess þá taldar nema 6.732.796 krónum. Í annan stað telur sóknaraðili til samningsskulda í greiðsluáætlun „Avant bílasamning nr. 8013436“ að eftirstöðvum 2.239.121 króna. Samkvæmt gögnum málsins sýnist sóknaraðili hafa yfirtekið það lán með yfirlýsingu 25. maí 2007. Í skattframtali 2009 telur sóknaraðili eftirstöðvar þess í árslok 2008 hafa numið 1.617.171 krónu. Í þriðja og síðasta lagi telur sóknaraðili til samningsskulda lán Íslandsbanka hf. samkvæmt skuldabréfi nr. 857504 að eftirstöðvum 24.133.195 krónur. Samkvæmt gögnum málsins var útgáfudagur skuldabréfs þessa 8. maí 2006 og upphaflegur höfuðstóll þess 21.843.694 krónur og sýnist lánið vera gengistryggt miðað við evru. Ekki verður séð að sóknaraðili hafi getið skuldar í árslok 2008 samkvæmt þessu bréfi í framtali 2009. Samkvæmt framansögðu fylgdu greiðsluáætlun gögn sem leiða líkur að tilvist og fjárhæð framangreindra fimm lána, sem sóknaraðili tíundaði í greiðsluáætlun sinni. Fram hjá því verður þó ekki litið að ekki verður séð að skulda samkvæmt þremur þeirra, sem samtals nema um 85% af heildarskuldum samkvæmt greiðsluáætluninni, sé getið á skattframtali 2009 og að í beiðni sóknaraðila var þessa misræmis í engu getið eða það skýrt. Í skattframtali sóknaraðila 2009 eru tilgreindar í árslok 2008 skuldir vegna tveggja lána sem ekki eru tíunduð í greiðsluáætlun. Annars vegar er um að ræða skuld við Glitni banka hf. frá 1. nóvember 2006 að eftirstöðvum 10.833.283 krónur og hins vegar skuld við Lánasjóð íslenskra námsmanna að eftirstöðvum 4.293.684 krónur, en engar upplýsingar um uppgreiðslu þeirra eða aðrar skýringar fylgdu beiðni sóknaraðila.

II

Samkvæmt 2. mgr. 63. gr. a. í lögum nr. 21/1991, sbr. lög nr. 24/2009, ná ákvæði laganna um greiðsluaðlögun ekki til einstaklinga sem undangengin þrjú ár hafa borið ótakmarkaða ábyrgð á atvinnustarfsemi nema því aðeins að atvinnurekstri hafi verið hætt og þær skuldir sem stafa frá atvinnurekstrinum séu tiltölulega lítill hluti af heildarskuldum þeirra.

 Sóknaraðili kveðst hafa starfað sjálfstætt sem tónlistarmaður og hafi reksturinn einkum falist í [...]. Samkvæmt skattframtali sóknaraðila 2008 hafði hann 482.524 krónur í launatekjur 2007 og taldi til tekna 1.500.000 krónur sem reiknað endurgjald vegna vinnu við eigin rekstur. Samkvæmt rekstrarskýrslu voru hreinar tekjur af rekstrinum 1.019.942 krónur það ár. Af skattframtali 2009 sést að árið 2008 hafði hann ekki launatekjur en taldi 1.550.500 krónur sem reiknað endurgjald vegna vinnu við eigin atvinnurekstur. Rekstrarskýrsla vegna þess árs er ekki meðal gagna málsins en sóknaraðili segir reksturinn ekki hafa skilað hreinum tekjum. Kveðst sóknaraðili hafa hætt sjálfstæðum rekstri og hefur því til sönnunar lagt fyrir Hæstarétt endurrit úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra fyrir launagreiðendur þar sem fram kemur að kennitala hans hafi verið afskráð 17. september 2009. Þykir nægilega í ljós leitt með framangreindum gögnum að atvinnurekstri sóknaraðila hafi verið hætt á árinu 2009.

Sóknaraðili telur skuldir sínar að „langmestu og raunar nánast öllu leyti“ til komnar vegna byggingu íbúðarhúsnæðis við [...]. Samkvæmt húsbyggingarskýrslum, sem fylgdu framtölum sóknaraðila, var byggingakostnaður þess húss 700.000 krónur árið 2005, 11.787.409 krónur 2006 og 5.495.989 krónur 2007 eða samtals 17.283.398 krónur. Samkvæmt skattframtali var húsið selt með kaupsamningi 20. desember 2007 og var söluverð þess að frádregnum sölukostnaði 29.678.300 krónur og söluhagnaður því tæp 72% af byggingarkostnaði eða 12.394.902 krónur. Þetta styður ekki þær fullyrðingar sóknaraðila að byggingarkostnaður hafi farið úr böndum og fjárhagsvandi hans sé að langmestu leyti til kominn vegna þessarar húsbyggingar. Til þeirra tveggja samningsskulda við Íslandsbanka hf., sem um er rætt í kafla I hér að framan, var stofnað á byggingartíma hússins í [...] og verður að telja líkur að því leiddar að þær séu til komnar vegna þeirrar framkvæmdar. Þær tvær skuldir, sem sóknaraðili telur ekki til samningsskulda í greiðsluáætlun sinni og samkvæmt framansögðu nema samtals rúmlega 60 milljónum króna, voru stofnaðar á fyrri hluta árs 2008 og eru þær tryggðar með veði í [...], sem sóknaraðili og sambúðarkona hans keyptu 21. september 2007. Bendir það til þess að lánin tengist þeim húsakaupum, þótt um það vanti frekari skýringar af hálfu sóknaraðila. Í ljósi þessa og þegar litið er til eðlis atvinnurekstrar sóknaraðila verður að telja að gögn málsins bendi ekki til annars en að lítill eða enginn hluti skulda hans stafi af rekstrinum.

Á hinn bóginn er þess að gæta að mjög skortir á að í beiðni sóknaraðila komi fram þær upplýsingar og gögn, sem áskilið er í 1. og 2. mgr. 63. gr. c. laga nr. 21/1991, einkum að því er varðar skuldir hans eins og að framan er nánar rakið. Þannig er meðal annars nauðsynlegt að gerð sé grein fyrir því mikla misræmi sem virðist vera milli skulda sóknaraðila í beiðni um nauðasamning til greiðsluaðlögunar annars vegar og skattframtölum hins vegar. Þá skortir gögn um hvaða skuldir hvíli á sóknaraðila og hverjar á sambúðarkonu hans eða eftir atvikum þeim í sameiningu. Vegna þessa er málatilbúnaði sóknaraðila svo áfátt að óhjákvæmilegt er að staðfesta niðurstöðu hins kærða úrskurðar.

Málskostnaður verður ekki dæmdur.  

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. febrúar 2010.

Með bréfi er barst dóminum 27. nóvember sl. hefur A, kt. [...],[...], óskað heimildar til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar samkvæmt lögum nr. 21/1991, sbr. lög nr. 24/2009. 

Því er lýst í beiðni að umsækjandi sé menntaður [...] og starfi sem [...]. Hann sé í sambúð með B og eigi þau von á tvíburum auk þess sem B eigi tvö börn úr fyrra sambandi. Orsakir fjárhagserfiðleika séu uppsafnaður vandi og að mestu megi rekja þær til byggingar [...], en sú eign hafi verið seld árið 2007.

Skuldari hefur lagt fram ítarlega greiðsluáætlun í samræmi við 2. mgr. 63. gr. c laga nr. 21/1991, sbr. lög nr. 24/2009. 

Skuldari á helming fasteignar að [...]. Nettó laun skuldara eru nú 228.489 krónur og heildartekjur 255.186 krónur á mánuði. Tekjur maka eru 308.023 krónur á mánuði.

Helstu samningskröfur skv. greiðsluáætlun eru skuldir við Íslandsbanka og Avant. Eftirstöðvar samningsskulda eru um 41,0 milljón.

Greiðslugeta, að teknu tilliti til framfærslukostnaðar, er neikvæð.

Tillaga skuldara er sú að allar samningskröfur verði felldar niður.

Skuldari kveðst ekki hafa gripið til neinna ráðstafana sem riftanlegar væru samkvæmt lögum nr. 21/1991.

Forsendur og niðurstaða

Leitað er greiðsluaðlögunar samkvæmt lögum nr. 24/2009 um breytingu á lögum nr. 21/1991. Samkvæmt ákvæði 2. mgr. 63. gr. a laga nr. 21/1991, sbr. 2. mgr. 2. gr. a laga nr. 24/2009, ná lögin ekki til einstaklinga sem undangengin þrjú ár hafa borið ótakmarkaða ábyrgð á atvinnustarfsemi, hvort sem þeir hafa lagt stund á hana einir eða í félagi við aðra, nema því aðeins að atvinnurekstri hafi verið hætt og þær skuldir sem stafa frá atvinnurekstrinum séu tiltölulega lítill hluti af heildarskuldum. Er greiðsluaðlögun því fyrst og fremst ætlað að vera úrræði fyrir almenna launþega samkvæmt ákvæðinu.

Af framlögðum skattframtölum má sjá að á undanförnum árum hefur stærstur hluti tekna skuldara verið vegna eigin atvinnureksturs, þar á meðal allar tekjur hans á árinu 2008. Að mati dómsins hefur skuldari ekki sýnt fram á það í beiðni eða gögnum málsins að þessum atvinnurekstri hafi nú verið hætt. Ber því þegar af þessari ástæðu að hafna beiðni skuldara, sbr. ákvæði 2. mgr. 63. gr. a laga nr. 21/1991, sbr. lög nr. 24/2009.

Þá er og til þess að líta að jafnvel þó skuldara tækist að sýna fram á að hann hafi nú hætt atvinnurekstri hefur hann engu að síður haft með höndum eigin atvinnurekstur stærstan hluta þess tímabils sem fellur innan undanfarinna þriggja ára.  

Í 2. mgr. 63. gr. a laga nr. 21/1991, sbr. 2. mgr. 2. gr. a laga nr. 24/2009, er það skilyrði sett að hafi atvinnurekstri verið hætt þurfi þær skuldir sem stafi frá honum að vera tiltölulega lítill hluti af heildarskuldum skuldara sem sækjast eftir greiðsluaðlögun. Af framlögðum gögnum má sjá að skuldir sem í greiðsluáætlun eru taldar meðal samningsskulda hafa orðið til á árunum 2006 og 2007, en á þeim árum hafði skuldari hafði með höndum eigin atvinnurekstur.

Með vísan til framan greinds lagaákvæðis verður að leggja þá skyldu á skuldara í tilvikum sem þessum, að upplýst sé um tilurð skulda í beiðni eða gögnum málsins, svo unnt sé að meta hvort þær stafi frá atvinnurekstrinum eður ei. Í beiðni skuldara eða gögnum málsins er ekki að finna neinar slíkar skýringar. Skortir þannig verulega á að fram séu komnar fullnægjandi upplýsingar um tilurð samningsskulda skuldara. Má m.a. sjá þetta af dómi Hæstaréttar frá 23. júlí 2009 í máli nr. 382/2009.

Þegar allt framangreint er virt verður ekki hjá því  komist að hafna beiðni skuldara um heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar.

Unnur Gunnarsdóttir settur héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð

Hafnað er beiðni A um heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar.