Hæstiréttur íslands
Mál nr. 285/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Þriðjudaginn 27. maí 2008. |
|
Nr. 285/2008. |
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum(Alda Hrönn Jóhannsdóttir, fulltrúi) gegn X (Ásbjörn Jónsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1.mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. maí 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 23. maí 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 30. maí 2008 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Fallist er á með héraðsdómi að nú sé kominn fram rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi gerst brotlegur við 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og verður hinn kærði úrskurður staðfestur með vísan til forsendna hans.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 23. maí 2008.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur krafist þess fyrir dóminum í dag, að X, fd. [...], rúmenskum ríkisborgara, verði með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 30. maí 2008, kl. 16.00 og til vara að hann sæti farbanni allt til föstudagsins 20. júní kl. 16.00.
Í greinargerð lögreglu segir að kærði hafi ásamt samferðakonu sinni og unnustu, A, verið stöðvaður í tollhliði við reglubundið eftirlit er þau komu til landsins með flugi frá London sunnudaginn 18. maí s.l. Við leit í farangri kærða og samferðarkonu hans fann lögregla og tollgæsla 60 óútfyllt kort, samskonar og greiðslukort sem höfðu að geyma segulrönd. Voru kortin vandlega falin innan um klæðnað í ferðatöskum kærða og samferðarkonu hans.
Rannsókn máls þessa er á frumstigi. Telur lögreglan rökstuddan grun fyrir því að kærðu hafi ætlað að nota þau kort sem haldlögð voru í vörslum þeirra í ólögmætum tilgangi með því að koma þeim í umferð hér á landi. Þá hefur við rannsókn málsins komið fram að eitt kortanna var notað á Hótel Loftleiðum hér á landi þann 16. þessa mánaðar af lögmætum handhafa eða aðeins tveimur dögum áður en kærði og samferðarkona hans komu með kortin til landsins. Þá hefur komið í ljós að lögmætur handhafi þess greiðslukorts sem farmiðar kærða og samferðarkonu hans voru greiddir með er í vörslum konu í Rúmeníu sem kveðst ekki hafa greitt farmiða til Íslands. Því telur lögreglustjóri að það kort sem notað var við greiðslu farmiðanna kunni að vera falsað. Með vísan til þessa telur lögreglustjóri að ætluð brot kærða og samferðarkonu hans kunni að vera mun umfangsmeiri og kunni að tengjast aðilum og skipulagðri glæpastarfsemi víða um heiminn. Meðal þess sem rannsaka þarf er aðdragandi ferðar kærðu til landsins og tengsl kærðu við hugsanlega vitorðsmenn á Íslandi og eða erlendis auk annarra atriða. Með vísan til framangreinds er að mati lögreglu kominn fram rökstuddur grunur um að kærði og samferðarkona hans kunnu að hafa brotið gegn ákvæðum XVII. og XXVI. kafla almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 einkum 155., 244., 248. og 249. gr. auk ákvæði laga nr. 96, 2002 um útlendinga, einkum 57. gr. Lögregla telur að ætla megi að kærði kunni að torvelda rannsókn málsins og hafa áhrif á samseka gangi hann laus.
Kann ætluð háttsemi kærða að varða fangelsisrefsingu allt að 8 árum.
Með vísan til alls framangreinds, gagna málsins, rannsóknarhagsmuna, a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991 um meðferð opinberra mála, XVII. og XXVI. kafla almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 og laga nr. 96, 2002 um útlendinga telur lögreglustjóri brýna rannsóknarhagsmuni standa til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 30. maí 2008 kl. 16.00.
Kærði andmælti bæði aðal og varakröfu sóknaraðilja.
Ljóst er að málið sem sóknaraðili hefur til rannsóknar getur reynst umfangsmikið og rannsókn þesss er á frumstigi. Þá er fallist á að sóknaraðili kunni að þurfa að rannsaka hugsanleg tengsl kærðu við hugsanlega vitorðsmenn bæði hérlendis og erlendis. Hefur varnaraðili sagt hjá lögreglu að hann hafi átt að afhenda einhverjum manni hérlendis að nafni [...], sem hann vissi ekki nánari deili á, kortin. Seinna sagði varnaraðili að hann vissi ekki nafn þess sem ætti að fá kortin en einhver enskur maður sem hann átti að afhenda kortin hafi átt að hringja til hans.
Telur dómari ljóst að fyrir skjalafals eins og það sem kærði er m.a. undir rökstuddum grun um þátttöku í og varðar við 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er lögð fangelsisrefsing.
Í ljósi framangreindra raka sem eiga stoð í rannsóknargögnum málsins, er fallist á að uppfyllt séu skilyrði a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi. Ekki breytir það þessari niðurstöðu að ekki er gerð grein fyrir því af hálfu sóknaraðilja í greinargerð með hvaða hætti grunur beinist að varnaraðila um að hafa brotið gegn lögum nr. 96/2002 um útlendinga.
Aðalkrafa sóknaraðilja verður því tekin til greina og kærða gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 30. maí 2008, kl. 16.00.
Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 30. maí 2008, kl. 16.00.