Hæstiréttur íslands
Mál nr. 191/2015
Lykilorð
- Aðildarskortur
- Samningur
- Skuldamál
|
|
Fimmtudaginn 29. október 2015. |
|
Nr. 191/2015.
|
Lagaþing sf. (Þorbjörg I. Jónsdóttir hrl.) gegn A (Jón Magnússon hrl.) |
Aðildarskortur. Samningur. Skuldamál.
L krafði A um greiðslu reiknings vegna lögmannsþjónustu sem L veitti dóttur A í tengslum við forsjármál sem hún hafði rekið fyrir Hæstarétti. Talið var ósannað að A hefði gengist undir beina skuldbindingu um að greiða kostnað af rekstri málsins eða gengist í ábyrgð fyrir honum. Var A því sýknuð af kröfu L sökum aðildarskorts, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. mars 2015. Hann krefst þess að stefndu verði gert að greiða sér 1.221.850 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. desember 2012 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Af gögnum málsins verður ekki annað og meira ráðið en að stefnda hafi eftir mætti viljað veita dóttur sinni stuðning í því máli sem hún rak fyrir Hæstarétti. Er ósannað að hún hafi munnlega gengist undir beina skuldbindingu um að greiða kostnað af rekstri málsins eða gengist í ábyrgð fyrir honum. Í því tilliti er þess að gæta að áfrýjandi veitir lögmannsþjónustu og var í lófa lagið að ganga tryggilega frá samkomulagi þess efnis ef þannig var samið. Samkvæmt þessu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Lagaþing sf., greiði stefndu, A, 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. febrúar 2015.
I.
Mál þetta var höfðað 15. júní 2013 og dómtekið 21. janúar 2015 að loknum munnlegum málflutningi.
Stefnandi er Lagaþing sf., Túngötu 14, Reykjavík, en stefndi er A, til heimilis að [...], [...].
Stefnandi krefst þess að stefnda verði dæmd til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 1.221.850 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 6. gr. laga nr. 38/2001, frá 1. desember 2012 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar.
Stefnda krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda, auk málskostnaðar.
II.
Í máli þessu er deilt um greiðslu á reikningi að fjárhæð 1.221.850 krónur vegna lögfræðiþjónustu í tengslum við forsjármál sem stefnandi veitti dóttur stefndu. Byggist krafa stefnanda á því að stefnda hafi tekið á sig ábyrgð á greiðslu kostnaðar vegna málsins, þar á meðal kostnað í tengslum við áfrýjun og málflutning fyrir Hæstarétti Íslands.
Dóttir stefndu fékk gjafsóknarleyfi þegar málið var rekið fyrir héraðsdómi, en umsókn hennar um gjafsókn vegna reksturs málsins fyrir Hæstarétti var hafnað. Er óumdeilt og kemur fram í gögnum málsins að stefnda var í ýmsum samskiptum við stefnanda vegna málsins fyrir hönd dóttur sinnar. Í tölvuskeyti stefndu til stefnanda, dags. 19. júlí 2011, kemur þannig fram að stefnda hafi fullt umboð dóttur sinnar til að annast mál hennar.
Í tölvuskeyti stefnanda til stefndu, dags. 15. febrúar 2012, kemur fram að stefnandi hafi móttekið innborgun frá stefndu vegna málsins. Tekur stefnandi fram að ekki sé hægt að hefja undirbúning áfrýjunar til Hæstaréttar nema greiddar verði 650.000 krónur inn á reikning stefnanda. Var tekið fram að málið væri umfangsmikið og kostnaðarsamt og ekki væri unnt að útbúa ágrip án þess að fá þann kostnað greiddan. Í svari stefndu, sama dag kemur fram að hún sé búin að leggja hina umkröfðu fjárhæð inn á reikning stefnanda. Í framhaldinu sendi stefnandi stefndu tölvuskeyti þar sem m.a. kemur fram að fái dóttir stefndu ekki gjafsóknarleyfi vegna reksturs málsins fyrir Hæstarétti þarf hún að greiða þessu til viðbótar þann kostnað sem bætist við vegna vinnu við málið í Hæstarétti sem verður um 1.200.000 og kostnað af matsgerð, sem gæti verið kr. 400.000-500.000.- þannig að þessi innborgun í dag nægir ekki fyrir þeim kostnaði. bara til þess að það sé alveg skýrt og hún sé viðbúin að mæta þeim kostnaði einnig.
Í tölvuskeyti stefndu til stefnanda, dags. 10. júlí 2012, segir að stefnda og dóttir hennar óski eftir greiðslufresti. Í svari stefnanda, dags. 13. júlí 2012, kemur fram að unnt sé að veita þeim frest fram í ágúst. Þá kemur fram í tölvuskeyti stefndu til stefnanda, dags. 10. ágúst 2012, að hún hafi þegar greitt 329.000 krónur þann 1. ágúst og sé að hamast við að rukka svo ég geti greitt þér meira og legg inn á þig um leið og peningur kemur.
Þann 9. október 2012, sendi stefnda stefnanda tölvuskeyti, þar sem hún lýsir m.a. vonbrigðum sínum af niðurstöðu matsgerðar sem hún hafi greitt fyrir 700.000 krónur.
Stefnandi gaf út þrjá reikninga vegna rekstur málsins fyrir Hæstarétti. Voru allir reikningarnir gefnir út á nafn stefndu. Stefnda greiddi fyrstu tvo reikningana en lokareikningurinn að fjárhæð 1.221.850 krónur, sem er stefnufjárhæð málsins, hefur ekki verið greiddur.
Þann 14. nóvember 2012, sendi stefnda stefnanda tölvuskeyti þar sem segir að þeim mægðum sé fyrirmunað að skilja reikninga stefnanda. Gert hafi verið ráð fyrir að kostnaður hlypi á 1.000.0001.200.000 króna, og þegar hafi veri greiddar 1.600.000 krónur, en nú bærist reikningur að upphæð 1.221.850 krónur. Var þess óskað að stefnandi kæmi til móts við þær mæðgur þar sem þær gætu ekki staðið straum af kostnaðinum. Sama dag, eða þann 14. nóvember 2012, sendi stefnandi dóttur stefndu bréf ásamt, dómi Hæstaréttar vegna forsjármálsins. Í bréfinu kom fram að stefndu hefði verið sendur reikningur fyrir eftirstöðvum málskostnaðar þar sem rætt hefði verið um að hún greiddi reikninginn.
Eydís Arna Líndal, Elín Ósk Jónsdóttir og Þorbjörg Inga Jónsdóttir, starfsmenn stefnanda gáfu skýrslu fyrir dóminum. Þorbjörg Inga upplýsti að dóttir stefndu hefði undirritað málssóknarumboð til stefnanda. Þá kom fram að enginn greiðslusamningur hefði verið gerður á milli stefnanda og stefndu.
III.
1. Helstu málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir kröfu sína á reikningi fyrir lögmannskostnaði vegna vinnu lögmanns stefnanda við Hæstaréttarmál dóttur stefndu. Lögmaður stefnanda hafi annast forsjármál dóttur stefndu fyrir héraðsdómi og Hæstarétti. Gjafsóknarleyfi hafi verið veitt vegna málareksturs fyrir héraðsdómi. Ekki hafi fengist gjafsóknarleyfi til að reka málið fyrir Hæstarétti og dóttir stefndu hafi ekki haft getu til að greiða kostnað vegna áfrýjunar. Þá hafi stefnda óskað eftir því að dómi héraðsdóms í máli dóttur hennar yrði áfrýjað til Hæstaréttar. Vegna þessa hafi stefnda tekið að sér að greiða kostnað af áfrýjun málsins, bæði matskostnað og kostnað lögmanns og hafi hún þegar greitt kostnaðinn að hluta. Stefnukrafan sé vegna eftirstöðva lögmannskostnaðar vegna málarekstur fyrir Hæstarétti samkvæmt reikningi útgefnum 7. nóvember 2012 að fjárhæð 1.221.850 krónur. Byggir stefnandi kröfu sína á því að stefnda hafi tekið á sig ábyrgð á greiðslu kostnaðarins. Er á því byggt að reikningar hafi verið gefnir út jafnóðum á stefndu og þeim ekki verið mótmælt af hennar hálfu. Með því hafi hún samþykkt greiðsluskyldu. Stefnda hafi þegar greitt tvo reikninga frá stefnanda vegna málsins auk útlagðs kostnaðar við öflun matsgerðar. Þegar dómur Hæstaréttar hafi legið fyrir, hafi komið fram tregða til að greiða. Stefnandi byggir á því að af gögnum málsins megi ráða að stefnda hafi haft fullt umboð auk þess sem hún hafi greitt fyrri reikninga vegna málsins. Telur stefnandi með vísan til framangreinds að ekki sé um að ræða aðildarskort, sbr. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.
2. Helstu málsástæður og lagarök stefndu
Stefnda byggir kröfu sína um sýknu aðallega á því að stefnandi beini kröfu sinni að röngum aðila og því beri að sýkna stefndu á grundvelli aðildarskorts, sbr. 1. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991. Það hafi verið dóttir stefndu sem keypti þjónustu af stefnanda, en ekki stefnda. Enginn skriflegur samningur hafi verið á milli aðila málsins. Samningssamband hafi á hinn bóginn verið við dóttur stefndu. Hefði verið rétt af stefndu að beina greiðslukröfu að dóttur stefndu. Engin gögn hafi verið lögð fram sem staðfesti greiðsluskyldu stefndu gagnvart stefnanda. Stefnda hafi greitt reikninga sem gefnir voru út af stefnanda vegna lögmannsþóknunar í máli dóttur hennar, en það hafi aldrei verið vilji hennar að gangast undir greiðsluskuldbindingu gagnvart stefnanda fyrir reikningum. Byggir stefnda á þeirri meginreglu samningaréttar að aðili verði ekki skuldbundinn með einhliða yfirlýsingu eða aðgerð annars aðila. Þá telur stefnda að ekki hafi falist samþykki hennar fyrir greiðsluskuldbindingu vegna síðari reikninga þó að hún hafi greitt reikninga fyrir dóttur sína án athugasemda. Stefnda hafi greitt í samræmi við greiðslugetu sína til að aðstoða dóttur sína. Í því hafi ekki falist heimild handa stefnanda til að krefja hana eða þær báðar um greiðslu. Þá hafi það staðið stefnanda nær að tryggja stöðu sína gagnvart stefndu með því að fá skriflega staðfestingu frá henni fyrir hinni umþrættu greiðsluskuldbindingu, enda sé stefnandi lögmannsstofa með sérþekkingu á lögum, samningsgerð og kröfurétti.
IV.
Niðurstaða
Í máli þessu er deilt um hvort stefnda hafi tekið á sig ábyrgð til að greiða þann lögmannskostnað og annan kostnað sem leiddi af málaferlum í forsjármáli dóttur hennar fyrir héraði og Hæstarétti. Stefnandi telur að stefnda hafi óskað eftir því við stefnanda að máli dóttur hennar yrði áfrýjað til Hæstaréttar og að hún hafi tekið á sig ábyrgð á greiðslu kostnaðarins. Þá er á því byggt að reikningar hafi verið gefnir út jafnóðum á stefndu og þeim ekki verið mótmælt af hennar hálfu. Með því hafi hún samþykkt greiðsluskyldu.
Stefnda ber fyrir sig aðildarskort. Hún hafi ekki keypt þjónustu af stefnanda og að kröfuréttarsamband hafi því ekki komist á milli hennar og stefnanda. Bendir stefnda á að engin skrifleg yfirlýsing um greiðsluskuldbindingu stefndu gagnvart stefnanda liggi fyrir í málinu.
Eins og fram er komið tók stefnandi að sér málsvörn fyrir dóttur stefnanda vegna forsjármáls hennar. Voru gefnir út þrír reikningar vegna málsins á nafn stefndu. Greiddi stefnda tvo reikninga, en þriðji reikningurinn er ógreiddur og er deilt um greiðsluskyldu vegna hans. Stefnda hefur borið því við að í fyrirkomulagi um útgáfu reikninga eða samskiptum hennar við stefnanda hafi ekki falist nein greiðsluskuldbinding af hennar hálfu, heldur hafi hún verið að aðstoða dóttur sína vegna meðferðar málsins og styðja hana fjárhagslega. Stefnandi upplýsti fyrir dóminum að málflutningsumboð hefði legið fyrir frá dóttur stefndu, en í því væri ekki mælt fyrir um greiðsluskyldu hennar.
Að virtum gögnum málsins og gegn andmælum stefndu telst sú fullyrðing stefnanda ósönnuð að í samskiptum stefndu við stefnanda, sem fram koma í gögnum málsins, og greiðslu hennar á tveimur reikningum vegna forsjármáls dóttur hennar hafi falist skuldbinding af hálfu stefndu gagnvart stefnanda til að greiða allan kostnað vegna málsins. Ekki skiptir máli í þessu sambandi að stefnda hafi óskað eftir því að máli dóttur hennar yrði áfrýjað til Hæstaréttar eða að hún hafi ekki andmælt útgáfu tveggja reikninga á hennar nafn og hafi greitt þá. Í slíkri ósk fólst ekki skuldbinding til að greiða heildarkostnað vegna málaferlanna og sama gildir um þá staðreynd að hún hafi ekki andmælt útgáfu reikninga á hennar nafn.
Er það því niðurstaða dómsins að ekki hafi verið sýnt fram á að stofnast hafi réttarsamband milli stefnanda og stefndu. Verður stefnda því með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála sýknuð af kröfum stefnanda.
Samkvæmt þessum málsúrslitum, og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður stefnanda, Lagaþingi sf., gert að greiða stefndu, A 600.000 krónur í málskostnað.
Ragnheiður Snorradóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
DÓMSORÐ:
Stefnda, A, er sýknuð af kröfum stefnanda, Lagaþings sf.
Stefnandi greiði stefndu 600.000 krónur í málskostnað.