Hæstiréttur íslands
Mál nr. 154/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Málskostnaður
- Kæruheimild
- Frávísun frá Hæstarétti
|
|
Miðvikudaginn 24. mars 2010. |
|
Nr. 154/2010. |
Einkaleyfastofan (Bjarni Hauksson hrl.) gegn Georg Óskari Ólafssyni og Vigni Ólafssyni (Steingrímur Eiríksson hrl.) |
Kærumál. Málskostnaður. Kæruheimild. Frávísun máls frá Hæstarétti.
G og V höfðuðu mál gegn EE og ES. G og V féllu síðar frá kröfum á hendur ES. Málinu var vísað frá dómi en málskostnaður felldur niður. ES kærði þann úrskurð héraðsdómara og krafðist þess að G og V yrði gert að greiða sér málskostnað í héraði og kærumálskostnað. Talið var að ekki væri heimild í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 til að kæra úrskurðinn þar sem kveðið var á um fleira en málskostnað í honum. Skipti þá ekki máli hvort ES átti aðild að öllum kröfum sem leyst var úr í hinum kærða úrskurði eða einungis hluta þeirra. Var málinu því vísað sjálfkrafa frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen og Árni Kolbeinsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. mars 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. febrúar 2010, þar sem máli varnaraðila á hendur sóknaraðila og Eysteini Eysteinssyni var vísað frá dómi, en málskostnaður felldur niður. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til g. liðar 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að varnaraðilum verði gert að greiða honum málskostnað í héraði ásamt kærumálskostnaði.
Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar höfðuðu mál þetta gegn Eysteini Eysteinssyni og sóknaraðila og gerðu kröfur í tengslum við notkun á nafninu „Papar“. Báðir stefndu í héraði tóku til varna og kröfðust aðallega að málinu yrði vísað frá dómi. Í þinghaldi 22. janúar 2010 lýstu varnaraðilar yfir að þeir féllu frá kröfum á hendur sóknaraðila. Sá síðastnefndi hélt við kröfu sína um málskostnað. Sama dag var málið munnlega flutt um frávísunarkröfu stefnda Eysteins, sem tekin var til greina í hinum kærða úrskurði, en hverjum málsaðila gert að greiða sinn kostnað af málinu.
Samkvæmt g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 má kæra til Hæstaréttar úrskurð héraðsdómara um ómaksþóknun, málskostnað eða gjafsóknarlaun, enda sé ekki kveðið á um annað í úrskurðinum. Með hinum kærða úrskurði var máli varnaraðila vísað frá héraðsdómi, auk þess sem leyst var úr kröfum aðilanna um málskostnað. Af hálfu sóknaraðila verður ráðið að hann telji sig allt að einu geta kært úrskurð héraðsdóms á grundvelli þessa ákvæðis þar sem „hinn kærði úrskurður kveður ekki á um neitt annað en ákvörðun um málskostnað hvað hann varðar.“ Héraðsdómari tók í úrskurði sínum afstöðu ekki aðeins til kröfu aðilanna um málskostnað. Orðalag umrædds lagaákvæðis er afdráttarlaust og skiptir ekki máli hvort sóknaraðili átti aðild að öllum kröfum, sem leyst var úr í hinum kærða úrskurði, eða einungis hluta þeirra. Sóknaraðila brast því heimild til að kæra úrskurðinn á grundvelli umrædds lagaákvæðis, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar í dómasafni 2001, bls. 498 í máli nr. 26/2001 og dóm réttarins 2. september 2008 í máli nr. 446/2008. Samkvæmt því verður ekki komist hjá að vísa málinu sjálfkrafa frá Hæstarétti.
Rétt er að aðilarnir beri hver sinn kostnað af kærumáli þessu.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. febrúar 2010.
Mál þetta höfðuðu Georg Óskar Ólafsson, kt. 120157-3029, Grenimel 22, Reykjavík, og Vignir Ólafsson, kt. 140664-5969, Víðihlíð 22, Reykjavík, með stefnu birtri 15. og 19. október 2009 á hendur Eysteini Eysteinssyni, kt. 021076-5899, Klukkubergi 1, Hafnarfirði, og Einkaleyfastofunni, kt. 650191-2189, Engjateigi 3, Reykjavík. Stefnandi féll frá kröfum á hendur Einkaleyfastofunni í þinghaldi 22. janúar sl. Málið var tekið til úrskurðar um frávísunarkröfu stefnda Eysteins 22. janúar sl.
Í stefnu er dómkröfum lýst svo: að stefndi Eysteinn Eysteinsson verði að þola ógildingu á einkaleyfi sínu á vörumerkinu „Papar“ sem honum var veitt þann 04.01.2008 af Einkaleyfastofu. Að stefnda Einkaleyfastofu verði gert að ógilda og afmá skráningu Einkaleyfisins á nafninu Papar úr Einkaleyfaskrá.
Stefndi Eysteinn Eysteinsson krefst þess í þessum þætti að málinu verði vísað frá dómi og að sér verði tildæmdur málskostnaður.
Stefnda Einkaleyfastofan krefst málskostnðar.
Stefnandi mótmælir frávísunarkröfu og krefst þess að málskostnaður til stefnda Einkaleyfastofunnar verði ákveðinn lægri en gerð er krafa um.
Stefndi Eysteinn sótti hinn 4. janúar 2008 um skráningu vörumerkisins Papar í flokki 41. Var umsóknin samþykkt af Einkaleyfastofu og vörumerkið birt í Einkaleyfatíðindum 15. mars 2008. Andmælum var ekki hreyft við skráninguna.
Aðilar málsins og fleiri hafa myndað hljómsveitina Papar. Var hún stofnuð 1986 og hafa talsverðar mannabreytingar orðið í hljómsveitinni í gegnum árin. Síðustu ár hefur hún ekki starfað samfellt, en aðila greinir á um hvort hún hafi verið lögð niður eða ekki.
Í greinargerð stefnda Eysteins er í fyrsta lagi krafist frávísunar málsins. Má skipta málsástæðum hans til stuðnings þessari kröfu í fernt.
Í fyrsta lagi telur stefndi að dómkrafa stefnenda sé ekki dómtæk. Þeir krefjist ógildingar á einkaleyfi, en ekki ógildingar á vörumerkjaskráningu. Skráð vörumerki veiti einkarétt, ekki einkaleyfi, sbr. 1. gr. laga nr. 45/1997. Einkaleyfi sé annað, sbr. lög nr. 17/1991. Ekki sé til einkaleyfi á vörumerki og verði því ekki ógilt. Vísar stefndi til d-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.
Í öðru lagi telur stefndi að kröfur stefnenda séu vanreifaðar. Ítrekað sé vísað til svokallaðs einkaleyfis stefnda. Því sé haldið fram að stefndi hafi blekkt stefnendur, en ekki sagt hvernig hann hafi blekkt. Þá byggi stefnendur á því að þeir eigi rétt til að nota nafnið Papar fyrir hefð og vísi til laga nr. 46/1905. Þau lög geti ekki gilt hér. Þá byggi stefnendur á því að þeir eigi höfundarétt að nafninu Papar. Segir stefndi að hann sjái ekki hvernig sú málsástæða gangi upp. Ennfremur segist þeir hafa öðlast markaðsfestu á grundvelli 4. gr. vörumerkjalaga. Þessi málsástæða sé órökstudd og greint ákvæði fjalli ekki um markaðsfestu. Þá sé vísað til samningalaga, laga um lausafjárkaup og vaxtalaga, en ljóst sé að ekkert í þessum lögum komi til skoðunar við úrlausn um dómkröfur stefnenda. Vísar stefndi til e-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.
Í þriðja lagi telur stefndi að frestur til að höfða mál þetta sé liðinn. Frestur sé þrír mánuðir frá því að Einkaleyfastofa tók ákvörðun, sbr. 3. mgr. 63. gr. laga nr. 45/1997. Fresturinn hafi runnið út 15. maí 2008. Þetta mál hafi verið þingfest 20. október 2009.
Loks telur stefndi að vísa beri málinu frá dómi samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991. Stefnendur byggi á því að þeir hafi eignast vörumerkjarétt á auðkenninu Papar. Sé svo hafi þeir sem voru í hljómsveitinni undir það síðasta eignast þann rétt óskipt. Fjórir þeirra sem voru í hljómsveitinni taki ekki þátt í málshöfðuninni og verði því að vísa málinu frá dómi. Í það minnsta sé samþykki meirihluta þeirra sem voru í hljómsveitinni nauðsynlegt til að höfða mál vegna vörumerkjaréttarins.
Stefnendur mótmæla því að málinu verði vísað frá dómi. Þeir telja að efni málsins sé svo skýrt að málið sé dómtækt. Ekki geti vafist fyrir stefnda við hvað sé átt þó notað sé orðið einkaleyfi í stefnu. Þá leiði það ekki til frávísunar þó vísað sé til laga sem ekki geti átt við. Það hindri ekki að vörnum verði haldið uppi. Þá segja stefnendur að aðrir aðilar hafi ekki viljað standa að málshöfðun þessari. Sé hún þeim nauðsynleg þar sem skráningin hindri þá í að nýta höfundarétt sinn að efni því sem hljómsveitin hefur gefið út.
Varðandi málshöfðunarfrest vísa stefnendur til þess að málssókn þessi sé heimil samkvæmt 29. gr. vörumerkjalaganna.
Loks mótmæla stefnendur málskostnaðarreikningi stefnda sem of háum.
Forsendur og niðurstaða
Í 63. gr. laga nr. 45/1997 er mælt fyrir stofnun áfrýjunarnefndar til að fjalla um ágreining um ákvarðanir og úrskurði Einkaleyfastofu. Er settur tiltekinn frestur til að skjóta máli til nefndarinnar. Af 3. mgr. má ráða að unnt er höfða mál fyrir almennum dómstólum til að hnekkja ákvörðunum Einkaleyfastofu, án þess að leita þurfi fyrst til áfrýjunarnefndarinnar. Frestur til að höfða slíkt mál er 3 mánuðir frá því að Einkaleyfastofa tók ákvörðun.
Málssókn stefnenda er á því byggð að þeir eigi rétt yfir umræddu vörumerki, sem hindri að stefndi Eysteinn geti skráð það sem eini rétthafinn. Eru þeir því bundnir af málshöfðunarfresti 3. mgr. 63. gr. Ákvörðun Einkaleyfastofu var tekin 3. mars 2008 og birt á lögmæltan hátt 15. sama mánaðar. Mál þetta var höfðað í október 2009, er málshöfðunarfresturinn var liðinn.
Stefnendur vísuðu í málflutningi til 29. gr. vörumerkjalaga. Þar er fjallað um afmáningu skráningar, en málið er ekki reifað af þeirra hálfu um afmáningu samkvæmt III. kafla laganna.
Verður að vísa málinu frá dómi gagnvart stefnda Eysteini, en fallið hefur verið frá kröfum á hendur stefndu Einkaleyfastofunni.
Það athugast að stefndi Eysteinn leitaði einn eftir skráningu vörumerkis sem tiltekinn hópur átti rétt yfir samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 4. gr. vörumerkjalaga. Þá tók stefnda Einkaleyfastofan til varna bæði um form og efni málsins, án þess að augljósir séu efnislegir hagsmunir hennar af niðurstöðu málsins um annað en málskostnað. Er rétt eins og hér stendur á að málskostnaður falli niður gagnvart báðum stefndu.
Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð
Máli þessu er vísað frá dómi.
Málskostnaður fellur niður.