Hæstiréttur íslands

Mál nr. 103/2003


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Fimmtudaginn 27

 

Fimmtudaginn 27. mars 2003.

Nr. 103/2003.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Ingimundur Einarsson varalögreglustjóri)

gegn

X

(Ólafur Sigurgeirsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X yrði áfram gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Þær tafir, sem orðið höfðu á því að mál væri höfðað gegn X um þær sakir sem hann var borinn, voru harðlega átaldar.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. mars 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. mars 2003, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 2. maí nk. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Samkvæmt gögnum málsins var varnaraðili handtekinn 7. nóvember 2002 vegna gruns um stórfelld fíkniefnabrot. Næsta dag var honum gert með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur að sæta gæsluvarðhaldi allt til 29. nóvember 2002 á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 og var sá úrskurður staðfestur með dómi Hæstaréttar 12. þess mánaðar í máli nr. 503/2002. Gæsluvarðhald yfir varnaraðila var síðan framlengt til 20. desember 2002, en þann dag krafðist sóknaraðili þess á ný að varnaraðila yrði áfram gert að sæta gæsluvarðhaldi og þá á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Í kröfu sóknaraðila um framlengingu gæsluvarðhalds var tekið fram að „rannsóknin er mjög langt komin og má vænta þess að málið verði sent ríkissaksóknara til ákærumeðferðar á næstunni.“ Héraðsdómari féllst 20. desember 2002 á kröfu sóknaraðila um framlengingu gæsluvarðhaldsins til 7. febrúar 2003 og var sá úrskurður staðfestur með dómi Hæstaréttar 27. desember 2002 í máli nr. 566/2002. Enn leitaði sóknaraðili framlengingar á gæsluvarðhaldinu til 21. mars 2003, sem héraðsdómur féllst á með úrskurði 7. febrúar sama árs. Þegar kom að lokum gæsluvarðhalds samkvæmt þeim úrskurði gerði sóknaraðili þá kröfu, sem til úrlausnar er í máli þessu.

Samkvæmt framansögðu hefur varnaraðili nú verið sviptur frelsi samfellt í nærri fimm mánuði vegna gruns um þau brot, sem áður er getið. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður þó að fallast á að skilyrði séu til að gera varnaraðila að sæta gæsluvarðhaldi, en átelja verður þær tafir, sem orðið hafa á því að mál sé höfðað gegn honum um þær sakir, sem hann er borinn, til þess að úr þeim verði leyst með dómi. Hinn kærði úrskurður verður því staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. mars 2003.

Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að dómurinn úrskurði að X, kt. [...], [...], Reykjavík, verði áfram gert að sæta gæsluvarðhaldi meðan máli hans er ekki lokið, þó eigi lengur en til föstudagsins 2. maí 2003 klukkan 16.00.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að [...]

                Um heimild til gæsluvarðhalds er vísað í a lið 1. mgr. 103. gr. og 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

                Kærði er undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem getur varðað allt að 12 ára fangelsi, sbr. 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 32/2001. Er um brot að ræða sem lýtur að innflutningi á miklu magni fíkniefna í hagnaðarskyni.  Ber þar sérstaklega að hafa í huga aðild kærða að innflutningi tæpra 900 g af geysisterku amfetamíni í síðasta mánuði.  Kærði var dæmdur í 4 ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur 27. júní 2000 fyrir stórfelld fíkniefnabrot. Lauk hann afplánun 18. maí síðastliðinn og er á reynslulausn af 480 daga eftirstöðvum refsingar skilorðsbundið í 2 ár. Brotastarfsemi sú, sem hér um ræðir, hófst skömmu eftir að kærði losnaði úr fangelsi.  Þykir ljóst að kærði hefur ekki látið þungan refsidóm sér að kenningu verða.  Þegar framangreint er virt er það mat dómsins að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna, en ekki þykja vera fyrir hendi rannsóknar­hagsmunir í málinu lengur. Samkvæmt þessu er fullnægt skilyrðum 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 og verður krafa lögreglustjórans í Reykjavík því tekin til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.

Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

                Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi meðan máli hans er ekki lokið, þó eigi lengur en til föstudagsins 2. maí 2003 kl. 16.00.