Hæstiréttur íslands
Mál nr. 629/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Nálgunarbann
|
Fimmtudaginn 26. september 2013. |
|
|
Nr. 629/2013. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Sigmundur Hannesson hrl.) |
Kærumál. Nálgunarbann.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta nálgunarbanni.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Þorgeir Örlygsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. september 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. september 2013, þar sem staðfest var sú ákvörðun lögreglustjóra 18. september 2013 að varnaraðili sæti nálgunarbanni í 12 mánuði þannig að lagt sé bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili A og sona hennar og varnaraðila, B og C, að [...] í [...], D þar sem A stundar nám og E í [...] þar sem drengirnir stunda nám, á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis fyrrgreinda staði, mælt frá miðju húsanna. Einnig er lagt bann við því að varnaraðili veiti A og drengjunum eftirför, nálgist þau á almannafæri eða setji sig í samband við þau með öðrum hætti. Kæruheimild er í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að nálgunarbanni verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Þóknun verjanda varnaraðila, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði segir, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun verjanda varnaraðila, Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns, fyrir Hæstarétti, 125.500 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. september 2013.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti ákvörðun lögreglustjóra frá 18. september 2013 þess efnis að X kt. [...] sæti nálgunarbanni í 12 mánuði þannig að lagt er bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili A kt. [...] og sona þeirra KB og C að [...] í [...], á eða í námunda við D þar sem A stundar nám og á eða í námunda við E í [...] þar sem þeir C og B stunda nám, á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis framangreinda staði, mælt frá miðju húsanna. Jafnframt er lagt bann við því að X veiti A, B og C eftirför, nálgist þau á almannafæri eða setji sig í samband við þau með öðrum hætti.
Í greinargerð lögreglu kemur fram að síðastliðið ár hafi A ítrekað leitað til lögreglu vegna áreitis frá fyrrum eiginmanni sínum og barnsföður, X, en hann hafi frá því í janúar sl. ónáðað hana með ítrekuðum símhringingum og skilið eftir fjölda skilaboða á talhólfi hennar. X hafi haft uppi mjög ógeðfeldar hótanir við A m.a. hótað því að senda Litháa á hana og ítrekað kvatt hana til að drepa sig því annars eigi hún ekki von á góðu. Þá liggi fyrir í málaskrá lögreglu bókanir allt til ársins 2011 þar sem komi m.a. fram grunsemdir þess efnis að X hafi beitt syni sína ofbeldi eða harðræði. Vegna þessa og fram kominnar nálgunarbannsbeiðni hafi lögregla aflað gagna frá Barnaverndarnefnd [...] en þau gögn beri með sér að drengirnir óttist föður sinn og vilji ekki eiga samskipti við hann.
Þau gögn sem liggi til grundvallar ákvörðun Lögreglustjóra frá 18 september sl. eru:
Mál lögreglunnar nr. 007-2013-[...] og bókanir lögreglu nr. 007-2013-[...] og [...]: Frá 15. janúar 2013 18. september sl. hafi X orðið uppvís að því að hafi ítrekað uppi hótanir við A með því að tala inn á talhólf farsíma hennar. Ástæða símatalanna virðist vera meint peningaskuld en X telur A skulda sér einhverja fjármuni eftir skilnað þeirra. Skilaboðin bera með sér að X sé mjög reiður og hefur hann haft uppi mjög ógeðfeldar hótanir við A m.a. hótað því að senda Litháa á hana og ítrekað kvatt hana til að drepa sig því annars eigi hún ekki von á góðu.
Bókun lögreglu nr. 007-2012-[...]: A tilkynnir um að hún hafi verið að fá SMS skilaboð frá X á þessa leið: “Þú veist að þetta er bara byrjunin, þú skalt passa þig á því að vera ekki á ferðinni í vondu veðri”.
Bókun lögreglu nr. 007-2011-[...]: Skólastjóri E hafði samband við lögreglu og skýrði svo frá að rétt áður hefði X komið í skólann og tekið son sinn B með valdi burt úr skólanum.
Bókun lögreglu nr. 007-2011-[...]: A óskar eftir aðstoð lögreglu vegna þess að X heimtaði að fá að hitta syni sína og hefði hrint dyrabjöllunni látlaust og kallað á B son þeirra úti í garði.
Bókun lögreglu nr. 007-2011-[...]: A hringir og vill leggja fram kæru á hendur X vegna líflátshótanna.
Bókun lögreglu nr. 007-2011-[...]: A tilkynnir um að hún nái ekki sambandi við X en hann sé með B son þeirra og hafi ekki skilað honum eftir að umgengnistíma hans við drenginn hafi lokið.
Bókun lögreglu nr. 007-2011-[...]: A hringir og tilkynnir að X sé kominn á stigaganginn hjá henni og hafi barið á alla glugga, sparkað í hurðar og hringt látlaust í heimasíma og farsíma hennar.
Mál lögreglunnar nr. 007-2011-[...]: A kærir X fyrir ofbeldi gegn C syni þeirra og gefur honum að sök að hafa sest ofan á hann, slegið hann utan undir og kýlt hann með krepptum hnefa í magann.
Gögn frá Barnaverndarnefnd [...]: Þar er m.a. að finna skjal um meðferðarviðtöl vegna drengjanna C og B þar sem fram kemur að þeir hafi orðið fyrir djúpstæðum áhrifum vegna framkomu X í þeirra garð.
Dómssátt í héraðsdómsmálinu nr. E-[...] kveðin upp [...] 2012: Þar kemur fram í 1. gr. að A fari ein með forsjá drengjanna B og C og í 3. gr. að samvistir föður við börnin miðist við vilja barnanna.
Framangreind gögn bera með sér að að A og sonum hennar, B og C, stafi ógn af X og ljóst sé að þau hafi undanfarið orðið fyrir miklu ónæði og vanlíðan af hans hálfu. Það sé mat lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að skilyrði 4. gr. laga nr. 85/2011 til að beita nálgunarbanni séu uppfyllt enda sé talin hætta á að X haldi áfram að raska friði þeirra A, B og C í skilningi ákvæðisins njóti hann fulls athafnafrelsis. Er ekki talið sennilegt að friðhelgi þeirra verði vernduð með öðrum og vægari hætti eins og sakir standa.
Með vísan til framangreinds þess krafist að ákvörðun um nálgunarbann verði staðfest.
Varnaraðili mótmælir því að krafa lögreglustjórans nái fram að gagna. Byggir hann á því í fyrsta lagi að nálgunarbannið sé ekki framkvæmanlegt eins og kröfugerð lögreglu sé háttað. Einkum sé torvelt að afmarka svæði nálgunarbanns umhverfis D þar sem kröfugerðin sé óskýr að þessu leyti. Þá er byggt á því að skilyrði 4. gr. laga nr. 85/2011 séu ekki uppfyllt. Varnaraðili mótmæli því harðlega að hafa haft uppi beinar hótanir í garð brotaþola og jafnframt kveður hann ásakanir um að hann hafi beitt syni þeirra ofbeldi eigi ekki við rök að styðjast. Þótt orðalag í samskiptum hans við brotaþola sé oft á tíðum óheflað verði að skoða samskipti þeirra í ljósi deilna þeirra í kjölfar skilnaðar. Nánar lýsti varnaraðili því þannig fyrir dómi að deilurnar stöfuðu af því að brotaþoli hefði brotist inn til hans og stolið munum af heimili hans og með ólögmætum hætti tekið fjármuni af bankareikningi hans. Þá mátti skilja hann svo að krafa hans um rannsókn þess máls hafi ekki fengið eðlilega afgreiðslu innan lögreglunnar sem vegna starfstengsla brotaþola við lögregluna. Hafi ekki talið sig hafa önnur úrræði til að innheimta skuld sína hjá brotaþola en þau að hafa samskipti við hann með þeim hætti sem hann hafi gert.
Skilyrði fyrir beitingu nálgunarbanns koma fram í 4. gr. laga nr. 85/2011 auk þess sem líta verður til þeirrar meginreglu að gæta skuli meðalhófs við beitingu íþyngjandi ákvarðana sbr. og 6. gr. laganna. Í nefndri 4. gr. segir að heimilt sé að beita nálgunarbanni ef rökstuddur grunur er um að sakborningur hafi framið refsivert brot eða raskað á annan hátt friði brotaþola eða hætta sé á að brjóti gegn brotaþola með þeim hætti.
Sú háttsemi sem varnaraðili er grunaður um að hafa uppi er rakin í kröfugerð lögreglunnar og greint er frá hér að framan. Felst háttsemi hans fyrst og fremst í ítrekuðum hótunum og annars konar ógnandi ummælum sem koma fram í skilaboðum sem hann skildi eftir í talhólfi í síma brotaþola á tímabilinu 15. janúar til 18. september s.l. Varnaraðili þrætir ekki fyrir að umrædd skilaboð stafi frá sér en mótmælir því harðlega að í þeim felist hótanir og kveðst aldrei hafa hótað því að senda Litháa á brotaþola. Útprentun og hljóðritun framangreindra skilaboða eru meðal gagna málsins. Talskilaboðin frá þessu tímabili eru fleiri en 20, auk SMS skeyta. Einnig eru í málinu eldri skilaboð af sama toga. Skilaboðin eiga það sameiginlegt að vera ógnandi, notast er við afar gróft orðbragð og flest þeirra fela í sér beinar eða óbeinar hótanir. Ef brotaþoli geri ekki eitthvað, vanalega að greiða varnaraðila fé eða láta hann hafa bifreið, þá muni eitthvað annað gerast; s.s. að hún muni hafa verra af hitti hún hann á götu, hann eigi vini í undirheimum, og henni sé réttast að drepa sig til að forðast það sem annars muni gerast. Litháar koma ítrekað við sögu bæði í talskilaboðum og einu sinni í SMS skilaboði. Sagt er að þeir muni heimsækja brotaþola eða því lýst að merkilegt sé hvað þeir taki lítið fyrir þjónustu sína. Þá er a.m.k. í einu skilaboðinu sagt frá því að varnaraðili hyggist selja kröfuna á hendur brotaþola „í undirheimana“. Að mati dómsins leikur ekki vafi á því að í skilaboðum þessum felast lítt dulbúnar hótanir um að brotaþola verði unnið mein. Þá er hún ítrekað hvött til að drepa sig og af samhengi textans verður markmið með þeirri hvatningu ekki skilin öðru vísi en svo að hennar bíði að öðrum kosti eitthvað ennþá verra. Þá er þessi hvatning til þess fallin að auka á óhugnað og alvarleika skilaboða brotaþola og þótt ekki verði séð að hann hóti því beinlínis að taka hana sjálfur af lífi.
Að mati dómsins eru skilaboð þessi, í ljósi fjölda þeirra, efnis og orðlags, til þess fallin að raska með alvarlegum hætti friði brotaþola. Þá verður jafnframt að telja að uppi sé rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi með framgöngu sinni gagnvart brotaþola brotið gegn 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Loks verður að telja afar ólíklegt að varnaraðili láti af hótunum sínum sjálfviljugur. Er sú ályktun m.a. byggð á yfirlýsingum hans sjálfs, bæði hjá lögreglu og fyrir dómi, þess efnis að hann telji þennan samskiptahátt vera eina úrræði sitt til að innheimta skuld sem hann telur að brotaþola beri að standa sér skil á. Hann tekur fram að hann treysti ekki liðsinnis lögreglu til þeirrar innheimtu og virðist ekki átta sig á að til eru aðrar og löglegar leiðir til að útkljá ágreining af þessu tagi þar sem atbeini lögreglu er óþarfur.
Auk þeirra samskipta í gegnum síma og talskilaboð sem að framan eru rakin vísar lögreglan til ýmissa gagna varðandi ógnandi framgöngu varnaraðila við heimili brotaþola, skóla sona þeirra og í samskiptum og skilaboðum við þá. Þótt nokkuð sé um liðið frá því að flest þessara atvika áttu sér stað verður að skoða framkomu hans í ljósi þeirra hótana sem hann nú hefur uppi og er það mat dómsins að atvik þessi séu líkleg til að ýta enn undir ótta brotaþola um að varnaraðili láti til skarar skríða nú í samræmi við hótanir sínar.
Með hliðsjón af öllu framansögðu er það niðurstaða dómsins að skilyrði 4. gr. laga nr. 85/20111 til að beita nálgunarbanni séu fyrir hendi og verður ekki séð að önnur og vægari úrræði dugi til að sporna við háttsemi varnaraðila. Verður ákvörðun lögreglunnar því staðfest. Ekki er fallist á það með varnaraðila að bannið sé torvelt framkvæmd. Nálgunarbann lögreglunnar nær til heimilis brotaþola, skóla barna hennar og D, þar sem brotaþoli stundar nám. Ekki orkar tvímælis hvaða byggingar fyrstu tveir staðirnir ná til og hvað varðar D, þá upplýsti fulltrúi lögreglunnar fyrir dómi að átt væri við aðalbyggingu skólans. Ákvörðun dómsins tekur mið af þeirri skýringu sóknaraðila. Þá er jafnframt ljóst að í ákvörðun lögreglu felst einnig bann við því að varnaraðili setji sig í samband við brotaþola og syni sína í gegnum síma eða tölvu. Þessi niðurstaða haggar hins vegar ekki rétti varnaraðila til að leita úrlausnar um rétt sinn til umgengni við drengina á grundvelli barnalaga nr. 76/2003 eða eftir atvikum barnaverndarlaga nr. 80/2002.
Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Staðfest er ákvörðun lögreglustjóra frá 18. september 2013 þess efnis að X kt. [...] sæti nálgunarbanni í 12 mánuði þannig að lagt er bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili A kt. [...] og sona þeirra B og C að [...] í [...], á eða í námunda við aðalbyggingu D þar sem A stundar nám og á eða í námunda við E í [...] þar sem þeir C og B stunda nám, á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis framangreinda staði, mælt frá miðju húsanna. Jafnframt er lagt bann við því að X veiti A, B og C eftirför, nálgist þau á almannafæri eða setji sig í samband við þau með öðrum hætti.