Hæstiréttur íslands

Mál nr. 502/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nálgunarbann
  • Brottvísun af heimili
  • Kærufrestur
  • Frávísun frá Hæstarétti


                                     

Þriðjudaginn 4. ágúst 2015.

Nr. 502/2015.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Einar Laxness aðstoðarsaksóknari)

gegn

X

(Helga Vala Helgadóttir hdl.)

Kærumál. Nálgunarbann. Brottvísun af heimili. Kærufrestur. Frávísun máls frá Hæstarétti.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert skylt að sæta brottvísun af heimili og nálgunarbanni á grundvelli laga nr. 85/2011. Málinu var vísað frá Hæstarétti, enda hafði kæra borist héraðsdómi eftir að frestur samkvæmt 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála var liðinn.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með ódagsettri kæru sem barst héraðsdómi 30. júlí 2015 og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 31. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. júlí 2015, þar sem staðfest var ákvörðun sóknaraðila 22. sama mánaðar um að varnaraðili sætti brottvísun af heimili og nálgunarbanni, eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Kæruheimild er í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að brottvísun af heimili og nálgunarbanni verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Samkvæmt 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011 má kæra eftir almennum reglum til Hæstaréttar úrskurð héraðsdómara um hvort lagt verði á nálgunarbann eða brottvísun af heimili. Um kæru gilda sömu reglur og um kæru úrskurðar samkvæmt lögum nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Samkvæmt upphafsmálslið 2. mgr. 193. gr. þeirra laga skal maður sem kæra vill úrskurð lýsa því yfir innan þriggja sólarhringa frá því að hann fékk vitneskju um úrskurðinn. 

Verjandi varnaraðila var viðstaddur uppsögu hins kærða úrskurðar og lýsti því þá yfir að tekinn væri lögboðinn frestur til að taka ákvörðun um hvort varnaraðili kærði úrskurðinn til Hæstaréttar. Eins og áður greinir barst kæra héraðsdómi 30. júlí 2015, en þá var liðinn kærufrestur samkvæmt 2. mgr. 193. gr. laga nr. 88/2008. Verður málinu því vísað frá Hæstarétti.

Kærumálskostnaður dæmist ekki.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.                             

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. júlí 2015.

                Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti ákvörðun lögreglustjóra frá 22. júlí 2015 þess efnis að X skuli sæta brottvísun og nálgunarbanni í fjórar vikur þannig að lagt verði bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili hans og A að [...] í [...] á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis heimilið. Jafnframt að lagt verði bann við því að X veiti A eftirför, nálgist hana á almannafæri eða setji sig í samband við hana með öðrum hætti.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að samkvæmt upplýsingum lögreglu liggi X nú undir rökstuddum grun um að hafa aðfaranótt [...]. júlí sl. veist að eiginkonu sinni, A, með því að hafa hent í hana frosnu kjöti sem lent hafi á innanverðum vinstri ökkla hennar. Er lögregla kom á vettvang hafi A setið grátandi á stól í eldhúsinu og haldið um ökklann á sér. Einnig hafi A sýnt lögreglumönnum ljótt mat á vinstri upphandlegg sínum sem hún kvæðist hafa fengið síðastliðinn föstudag eftir að X hafi kastað í hana eins kílóa sykurkari. X kvæðist ekki hafa kastað neinu í A og hafi gefið í skyn að hún hefði veitt sér áverkana sjálf með buffhamri. Ofangreint mál og þau gögn sem rakin séu hér á eftir liggi til grundvallar ákvörðun lögreglustjóra.:

Úrskurður Héraðsdóms nr. R-191/2015:

Þann 3. maí sl. var X gert að sæta brottvísun af heimili og nálgunarbanni gagnvart A í 4 vikur með ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Héraðsdómur staðfesti ákvörðun lögreglustjóra með úrskurði þann 11. maí sl.

Mál 007-2015-[...]:

Samkvæmt upplýsingum lögreglu liggur X undir sterkum grun um að hafa aðfaranótt 3. maí sl. ráðist á eiginkonu sína A og son hennar B. Samkvæmt A og B var X drukkinn, hávær og byrjaði að kasta skó og öðru lauslegu um íbúðina. X hafi síðan veist að B og ýtt honum þannig að B féll aftur fyrir sig og á skóhirslu sem er í forstofu íbúðarinnar. A hafi þá gengið að X sem hafi ýtt við henni og stigið á vinstri rist hennar. Hlaut A áverka á fæti.

Dómur Hæstaréttar nr. 227/2015:

Þann 10. mars sl. var X gert að sæta brottvísun af heimili og nálgunarbanni gagnvart A og B son hennar í 4 vikur með ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Héraðsdómur staðfesti ákvörðun lögreglustjóra með úrskurði sem staðfestur var með dómi Hæstaréttar nr. 227/2015 þann 25. mars sl. 

Mál 007-2015-[...]:

Þann [...]. mars sl. tilkynnir nágranni um ófrið frá íbúð X og A. Var X þar búinn að henda A og föggum hennar fram á gang.  Samkvæmt bókun lögreglu mun X hafa verið búinn að ýta og hrinda A til og hún klóraði hann til blóðs á hálsi.

Mál 007-2015-[...]:

Þann [...]. mars sl. er X gefið að sök að hafa sparkað í bak A með þeim afleiðingum að hún hlaut eymsli í baki. Í kjölfarið hafi hann vísað A fram á gang fyrir utan íbúðina. Er lögregla kom á vettvang var X áberandi ölvaður, á nærfötum einum saman og hélt á töng, sem hann reyndi að nota til að ná af sér giftingahring. Á vettvangi var A óttaslegin og með tárin í augunum. Synir A, B og C voru á vettvangi og sögðust óttast X talsvert og sögðu þeir X hafa ráðist á móður þeirra, þ.e. sparkað í hana. A var flutt á slysadeild í kjölfarið til skoðunar.

Mál 007-2014-[...]:

Þann [...]. nóvember sl. tilkynnir nágranni um heimilisófrið, þar sem X var ölvaður. Sagði hann A flýja reglulega fram á gang vegna hræðslu við X og þá bærust öskur frá henni innan og utan íbúðarinnar. Þegar lögreglumenn komu á vettvang heyrðu þeir X segja „stingdu þig í hausinn með þessu“, og sáu hann beina hníf að A og B. Var X áberandi ölvaður. Samkvæmt A og B hafði X ógnað þeim með hníf og þá hafði X tekið víðsvegar í hægri handlegg og úlnlið A og var hún skv. lögreglu með sjáanlega áverka á hægri hendi, rauð og marin og fann til sársauka við snertingu.

Mál 007-2014-[...]:

Þá var tilkynnt um ófrið í íbúð X og A þann [...]. september sl. þar sem X var ölvaður og læsti A og B fram á gangi.

Mál 007-2014-[...]:

Þann [...]. ágúst s.l. var tilkynnt um ófrið á heimili X og A.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur jafnframt fram að samkvæmt A hafi hún og X verið gift frá árinu 2008 en ekki hafið sambúð fyrr en árið 2012. Segði hún X hafa drukkið áfengi nánast daglega undanfarið ár og við það sé hann annar maður og beiti hana andlegu og líkamlegu ofbeldi. Hún segðist vera hrædd og ekki þora að gera neitt, m.a. vegna hræðslu við að vera send úr landi. Segði hún X oft hafa lagt hendur á sig en fyrst og fremst hafi hann þó beitt hana andlegu ofbeldi. Þá hafi A greint frá því að hún sjái um allt á heimilinu og þori ekki annað en að standa sig af ótta við að X bregðist illa við. Samkvæmt skrá um launatengd gjöld hafi X ekki verið í vinnu frá því að A kom til landsins. 

Þá er þess getið að þann 10. mars sl. hafi X verið gert að sæta brottvísun af heimili og nálgunarbanni gagnvart A og syni hennar í fjórar vikur með ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt A hafi X haldið sig frá heimilinu meðan hann sætti banninu en síðan flust aftur inn á heimilið að eigin frumkvæði eftir að nálgunarbanninu lauk. Segðist A ekki vilja hafa X á heimilinu. Þann 3. maí sl. hafi X á ný verið gert að sæta brottvísun af heimili og nálgunarbanni gagnvart A með ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt A hafi hún hleypt X aftur inn á heimili sitt í maí þar sem hún hafi verið veik og þurft aðstoð. Hann hafi þá komið til hennar og ekki farið síðan.

Í ljósi framangreinds telji lögreglustjóri að skilyrði 4. og 5. gr. laga nr. 85/2011 séu uppfyllt en kærði liggi undir rökstuddum grun um að hafa beitt A líkamlegu og andlegu ofbeldi og sé talin hætta á að hann geri slíkt aftur og raski friði A njóti hann fulls athafnafrelsis. Ekki sé talið sennilegt að friðhelgi hennar verði vernduð með öðrum og vægari hætti eins og sakir standa.

Niðurstaða

Í málinu liggja fyrir afrit rannsóknargagna sem voru tilefni ákvörðunar lögreglustjóra þann 22. júlí 2015 um að varnaraðili sæti brottvísun og nálgunarbanni í fjórar vikur gagnvart eiginkonu sinni. Í 4. og 5. gr. laga nr. 85/2011 er tilgreint hvaða skilyrði þurfi að vera uppfyllt til að manni verði vísað brott af heimili sínu og hvaða skilyrði þurfi að vera uppfyllt til að hann sé beittur nálgunarbanni. Þá segir í 6. gr. að framangreindum úrræðum verði aðeins beitt þegar ekki þykir sennilegt að friðhelgi brotaþola verði vernduð með öðrum og vægari hætti. Fyrir liggur samkvæmt gögnum málsins að lögregla hefur margítrekað þurft að hafa afskipti af varnaraðila vegna heimilisófriðar og eiginkona hans þá orðið að flýja út úr íbúð þeirra. Þá liggur fyrir samkvæmt gögnum málsins að varnaraðili hafi þann 9. nóvember 2014 beint hnífi að eiginkonu sinni og syni hennar er lögregla kom á vettvang, en ástæða þess að eiginkona kærði ekki var að hún óttaðist að hún missti dvalarleyfi sitt hér á landi. Varnaraðila var gert að sæta brottvísun af heimili og nálgunarbanni gagnvart eiginkonu sinni í fjórar vikur þann 10. mars sl. með ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og var sú ákvörðun staðfest með dómi Hæstaréttar Íslands nr. 227/2015 þann 25. mars sl. Fallist er á það með lögreglustjóra að varnaraðili liggi undir grun um að hafa raskað friði eiginkonu sinnar með því að hafa aðfararnótt [...]. júlí sl. veist að henni með því að henda í hana frosnu kjöti og einnig þann [...]. júlí sl. hent í hana þungu sykurkari og veitt henni áverka. Að virtum gögnum málsins, þar sem fram kemur að varnaraðili hefur ítrekað raskað friðhelgi eiginkonu sinnar, er fallist á það með lögreglustjóra að skilyrði 4. og 5. gr. laga nr. 85/2011 til nálgunarbanns og brottvísunar af heimili séu uppfyllt, enda verður ekki talið að friðhelgi konunnar verði vernduð með öðrum og vægari hætti, sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna.

Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila og réttargæslumanns brotaþola og greiðist úr ríkissjóði eins og nánar er kveðið á um í úrskurðarorði.

Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Staðfest er ákvörðun lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu 22. júlí 2015 um að X skuli sæta brottvísun og nálgunarbanni í fjórar vikur þannig að lagt er bann við því að hann komi á eða í námunda við heimili hans og A að [...] í [...] á svæði sem afmarkast við 50 metra radíus umhverfis heimilið. Jafnframt er lagt bann við því að X veiti A eftirför, nálgist hana á almannafæri eða setji sig í samband við hana með öðrum hætti.

Þóknun verjanda varnaraðila, Helgu Völu Helgadóttur hdl., og réttargæslumanns brotaþola, Lilju Margrétar Olsen hdl.,161.200 krónur til hvors um sig, greiðist úr ríkissjóði.