Hæstiréttur íslands
Mál nr. 194/2006
Lykilorð
- Skip
- Kaupsamningur
- Breyting samnings
- Veiðiheimildir
|
|
Fimmtudaginn 9. nóvember 2006. |
|
Nr. 194/2006. |
Útgerðarfélagið Hvammur ehf. (Björn L. Bergsson hrl.) gegn Útgerðarfélaginu Bergi ehf. (Jónas Haraldsson hrl.) |
Skip. Kaupsamningur. Breyting samnings. Veiðiheimildir.
H seldi B bát með kaupsamningi 8. mars 2004 og fylgdi honum veiðileyfi í sóknardagakerfi. Sjávarútvegsráðherra lagði fram frumvarp á Alþingi til breytingar á þágildandi lögum um stjórn fiskveiða 14. maí 2004 og varð það að lögum tveimur vikum síðar. Breytingin hafði í för með sér að eigendur sóknardagabáta áttu þess kost að fá úthlutað aflahlutdeild á grundvelli veiðireynslu í stað sóknarmarks. H byggði á því að með þessari breytingu hafi verðmæti bátsins aukist. H hélt því fram að B hefði vitað þegar kaupin voru gerð að til stæði að breyta lögunum en þagað yfir því og þannig beitt svikum við samningsgerðina. Til stuðnings kröfu sinni vísaði H til 30. gr. laga nr. 7/1936, 36. gr. sömu laga og meginreglunnar um brostnar forsendur. Talið var ósannað að B hefði haft vitneskju um að fyrrnefndar breytingar yrðu gerðar á fiskveiðistjórnarkerfinu þegar kaupin voru gerð. Ekki var annað fram komið en að jafnræði hefði verið með aðilum við kaupin og verð bátsins verið eðlilegt á kaupsamningsdegi. Þá hlytu fyrirsvarsmenn H og B, sem hefðu stundað útgerð um árabil og því fylgst með tíðum breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu, að hafa tekið sömu áhættu af breytingum þess og verið í sömu aðstöðu til að gera ráðstafanir til tryggingar hagsmunum sínum. Auk þess var ekki talið að kaupverðið gæti án sérstaks samkomulags aðila orðið háð þeirri forsendu að fiskveiðistjórnunarkerfið breyttist ekki eftir gerð kaupsamningsins. Var B því sýknað af kröfu H.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 7. apríl 2006. Hann krefst þess að stefndi greiði sér 20.388.800 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 8. mars 2004 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Í málinu leitast áfrýjandi við að fá hækkað söluandvirði bátsins Svenna EA-201, sem hann seldi stefnda með kaupsamningi 8. mars 2004. Málsatvikum er nánar lýst í héraðsdómi. Bátnum fylgdi veiðileyfi í sóknardagakerfi ásamt 19 varanlegum sóknardögum á yfirstandandi fiskveiðiári samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða, þar af 19 dögum ónýttum á fiskveiðiárinu 2003-2004, endurnýjunarrétti veiðileyfisins, veiðireynslu og öllum öðrum framseljanlegum réttindum, sem bátnum tengdust og tilheyrðu á söludegi. Söluverðið nam 11.000.000 krónum. Reisir áfrýjandi málatilbúnað sinn á því að 14. maí 2004 hafi sjávarútvegsráðherra lagt fram frumvarp á Alþingi til breytingar á þágildandi lögum nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða. Frumvarp þetta hafi orðið að lögum nr. 74/2004 þann 28. maí 2004. Breytingin á lögunum hafi haft það í för með sér að eigendur sóknardagabáta hafi átt þess kost að fá úthlutað aflahlutdeild á grundvelli veiðireynslu bátanna á öðru hvoru fiskveiðiárinu frá 2001 til 2003 í stað sóknarmarks. Þetta hafi aukið verðmæti Svenna EA-201 sem nemi dómkröfunni.
Fyrirsvarsmaður áfrýjanda sendi stefnda bréf 21. september 2004 þar sem hann krafðist þess að kaupsamningum yrði rift. Fallið var frá þeirri kröfu 22. desember sama ár og í þess stað krafist bóta vegna þeirrar verðhækkunar sem orðið hafi á bátnum við lagabreytinguna. Af hálfu áfrýjanda er því haldið fram að stefndi hafi með einhverjum hætti vitað, þá er kaupin voru gerð, að til stæði að breyta lögunum en þagað yfir því og þannig beitt svikum við samningsgerðina. Hvernig sem því hafi verið háttað væru forsendur að minnsta kosti brostnar fyrir verðlagningu bátsins og verð hans bersýnilega ósanngjarnt. Er að hálfu áfrýjanda vísað til meginreglna um ógildi gerðra samninga kröfunni til styrktar.
II.
Þrátt fyrir málatilbúnað sinn krefst áfrýjandi ekki ógildingar kaupsamnings aðila frá 8. mars 2004, heldur gerir hann kröfu um breytingu á kaupverðinu af framangreindum ástæðum. Fallast ber á það með héraðsdómi að ósannað sé að fyrirsvarsmaður stefnda hafi, þá er kaupin voru gerð, haft einhverja vitneskju um að breytingar yrðu gerðar á fiskveiðistjórnunarkerfinu 28. maí 2004 með lögum nr. 74/2004. Við undirritun kaupsamnings um bátinn var gengið til fullnustu frá kaupunum og fluttust allar veiðiheimildir hans yfir til stefnda, þar á meðal sú veiðireynsla sem aflað hafði verið á bátinn. Stefndi kaus að miða aflaheimildir bátsins samkvæmt breytingarlögunum við veiðireynslu hans frá fiskveiðiárinu 2001-2002, en þá var báturinn ekki í eigu áfrýjanda. Verður því ekki haldið fram að stefndi hafi auðgast á veiðireynslu sem áfrýjandi vann á bátinn. Ekki er annað fram komið en að jafnræði hafi verið með fyrirsvarsmönnum aðila við kaupin og verð bátsins hafi verið eðlilegt á kaupsamningsdegi. Fyrirsvarsmenn beggja aðila hafa stundað útgerð um árabil og því fylgst með tíðum breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu. Þeir hlutu því að taka sömu áhættu af breytingum þess og voru í sömu aðstöðu til að gera ráðstafanir til tryggingar hagsmunum sínum. Gat kaupverðið ekki án sérstaks samkomulags aðilanna orðið háð þeirri forsendu að fiskveiðistjórnunarkerfið breyttist ekki eftir gerð kaupsamningsins. Með þessum athugasemdum en annars með vísun til forsenda héraðsdóms verður hann staðfestur.
Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Útgerðarfélagið Hvammur ehf., greiði stefnda, Útgerðarfélaginu Bergi ehf., 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. janúar 2006.
I
Mál þetta sem dómtekið var 4. janúar 2006 var þingfest 19. maí 2005.
Stefnandi er Útgerðarfélagið Hvammur ehf., kt. 690493-2179, Hólabraut 2, Hrísey, en stefndi er Útgerðarfélagið Berg ehf., kt. 430998-2039, Túngötu 7, Bessastaðahreppi.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 20.388.800 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá 8. mars 2004 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að viðbættum virðisaukaskatti.
Dómkröfur stefnda eru að hann verði sýknaður af öllum dómkröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað.
II
Með kaupsamningi og afsali 8. mars 2004 keypti stefndi bátinn Svenna EA-201 með skipaskráningarnúmer 6056 af stefnanda. Kaupverðið var 11.000.000 króna og fylgdi honum veiðileyfi í sóknardagakerfi ásamt 19 varanlegum sóknardögum á yfirstandandi fiskveiðiári, endurnýjunarréttur veiðileyfisins, veiðireynsla og öll önnur framseljanleg réttindi sem bátnum tengdust og tilheyrðu.
Aðdragandann að kaupunum kveður stefndi vera þann að hann hafi ákveðið að óska eftir því að fyrirtækið Knörr ehf. á Akranesi smíðaði fyrir sig bát og hafi hann í framhaldinu farið að leita eftir veiðileyfi, svokölluðu dagaleyfi á bátinn. Hafi hann samið við Knörr ehf. um smíði bátsins ef hann fyndi sambærilegt dagaleyfi sem stefndi kveður hafa verið forsendu þess að fara út í nýsmíðina. Stefndi kveðst svo hafa farið á Kvóta- og skipasöluna ehf. í Hafnarfirði og spurst fyrir um báta af hentugri stærð og hafi Svenni EA-201, bátur stefnanda, reynst vera eini báturinn í boði af þeirri stærð sem hentaði stefnda.
Stefndi kveður fyrir hafi legið að nýi báturinn yrði mun hraðskreiðari en Svenni EA-201 og aflavonin því meiri, sem hafi skipt miklu máli varðandi veiðar í sóknardagakerfinu enda hafi á þeim tíma ekki verið annað vitað en að sóknardagakerfið yrði áfram við líði. Kveður stefndi eina tilganginn með kaupum á bát stefnanda hafa verið að kaupa dagaveiðileyfi hans og færa það yfir á nýsmíðina. Þann 10. mars 2004 gekk stefndi síðan formlega frá samningum við Knörr ehf. um smíði báts sem fékk nafnið Adda ÍS-519 með skráningarnúmerið 7538.
Hinn 14. maí 2004 lagði sjávarútvegsráðherra fram frumvarp á Alþingi til breytingar á lögum nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða. Frumvarp þetta varð að lögum nr. 74/2004 þann 28. maí 2004. Breyting á lögunum hafði það í för með sér að eigendur sóknardagabáta áttu kost á að fá úthlutað aflaheimildum á grundvelli veiðireynslu bátanna eða meðalafla þeirra frá fiskveiðiárunum 2000 til 2004 í stað sóknarmarks.
Nýtti stefndi sér þessa heimild og valdi að miða við veiðireynslu fyrrum eiganda Svenna EA-201 vegna kvótaársins 2001-2002 sem var hagstæðari veiðireynsla en viðmiðun kvótaársins 2002-2003. Var Öddu ÍS-519 þannig úthlutað vegna kvótaársins 2004-2005, aflamarki sem nam 39.236 kg af þorski í krókaaflamark. Er ekki ágreiningur um að við útreikning á verðmæti krókaaflahlutdeildar í þorski skuli miðað við 800 krónur pr/kg og miðað við framangreinda úthlutun var verðmæti kvótans 31.388.800 krónur (800 x 39.236) eftir framangreindar lagabreytingar. Stefndi seldi síðan Svenna EA-201 án veiðileyfis fyrir 250.000 krónur.
Með bréfi 21. september 2004 krafðist stefnandi riftunar á kaupunum á þeim grundvelli að stefnandi hafi við samningsgerð vitað af því að dagabátar yrðu kvótasettir. Hafi þannig verið um að ræða svik í viðskiptum af hálfu stefnda í því skyni að hagnast á góðri veiðireynslu bátsins. Var sú krafa stefnanda svo ítrekuð í bréfi lögmanns hans 22. desember 2004. Lögmaður stefnda tilkynnti lögmanni stefnanda í framhaldinu að stefndi samþykkti hvorki að kaupin gengu til baka né að stefndi greiddi stefnanda hlutdeild í verðmætaaukningu hins selda.
Ágreiningslaust er að eftir fyrrgreinda lagabreytingu varð verðmæti bátsins Svenna EA-201 með þeirri veiðireynslu sem honum fylgdi mun meira en áður og er ekki ágreiningur milli aðila um þá verðmætaaukningu. Ágreiningur í máli þessu snýst um það fyrst og fremst hvort fyrirsvarsmaður stefnda hafi búið yfir vitneskju um að kvótasetning dagabáta væri væntanleg, áður en viðskipti aðila áttu sér stað, og leynt þeirri vitneskju sinni með sviksamlegum hætti.
Fyrirsvarsmaður stefnanda, Þröstur Jóhannsson, og fyrirsvarsmaður stefnda, Jónas Ragnarsson, gáfu skýrslu fyrir dómi auk vitnanna, Arthurs Arnar Bogasonar, Hafþórs Jónssonar, Friðþjófs Jóhannssonar og Davíðs Kjartanssonar.
III
Stefnandi byggir fjárhæð dómkröfu sinnar á upplýsingum frá Fiskistofu um aflahlutdeild sem Svenna EA-201 hafi verið úthlutað og hafi verið færður á bátinn Öddu ÍS-519 sem sé einnig í eigu stefnda. Þá byggi krafa hans á upplýsingum Skipasölunnar Bátar og búnaður um að verðmæti kvótans sé 800 krónur pr/kg.
Dómkröfu sína sundurliðar stefnandi svo:
|
Krókaaflahlutdeild |
Verð |
Samtals |
|
|
|
|
|
39.236 kg |
800 pr/kg |
kr. 31.388.800 |
|
Kaupverð samkvæmt kaupsamningi |
|
kr. -11.000.000 |
Samtals |
|
kr. 20.388.800 |
Krafist sé dráttarvaxta af mismuni raunverulegs verðmætis og kaupsamnings-greiðslu frá 8. mars 2004 er kaupsamningur var undirritaður.
Stefnandi kveðst byggja málatilbúnað sinn á meginreglum samningaréttar um ógildi gerðra samninga á grundvelli brostinna forsendna, svika og þegar samningar séu bersýnilega ósanngjarnir.
Stefnandi kveðst byggja á því að grundvallarforsendur hafi brostið fyrir samningnum með breytingum sem orðið hafi á lögum um stjórn fiskveiða nr. 38/1990 og byggi hann því á meginreglu samningaréttar um brostnar forsendur. Með breytingu á lögum um stjórn fiskveiða hafi skyndilega verið settur kvóti á smábáta á grundvelli veiðireynslu sem leitt hafi til þess að bátur sá sem stefndi keypti af stefnanda hafi skyndilega orðið margfalt verðmætari, aðeins örfáum vikum eftir undirritun kaupsamnings og afsals. Sá kvóti sem bátnum hafi verið úthlutað á grundvelli veiðireynslu sem stefnandi hafði aflað hafi þannig verið rúmlega 31 milljón króna virði. Þannig hafi grundvallarforsenda fyrir verðlagningu bátsins breyst nánast á einni nóttu. Hefði stefnandi vitað af væntanlegri kvótasetningu smábáta hefði ekki orðið af kaupunum á því verði sem aðilar sömdu um.
Stefnanda hafi verið ókunnugt um þær breytingar sem síðan urðu á lögum um stjórn fiskveiða nr. 38/1990 með lögum nr. 74/2004 og hvaða áhrif þær myndu hafa á verðmæti bátsins. Það hefði verið fyrirhafnarlítið og án kostnaðar fyrir stefnanda að bíða þar til ljóst væri hvaða afleiðingar fyrrnefndar lagabreytingar hefðu í för með sér, sérstaklega þar sem þær hafi verið samþykktar aðeins örfáum vikum eftir undirritun kaupsamnings aðila. Hafi það því haft úrslitaáhrif varðandi gerð kaupsamningsins af hálfu stefnanda að fyrirkomulag um veiði smábáta yrði óbreytt. Að sama skapi hafi stefnda mátt vera það ljóst að upplýsingar um væntanlegan kvóta á bátinn hefðu haft veruleg áhrif á stefnanda. Uppfylli hin brostna forsenda öll skilyrði samningaréttar til þess að teljast vera veruleg forsenda fyrir samningsgerðinni.
Stefnandi kveðst hafa verið algerlega grandlaus um þessa breytingu. Hafi allur almennur fréttaflutningur og yfirlýsingar Landssambands smábátaeigenda bent til þess að engar stórvægilegar breytingar væru í vændum. Þvert á móti yrði haldið áfram í sóknardagakerfið. Slík gerbylting á lagaumhverfi veiðiheimilda smábáta sem orðið hafi skömmu eftir samningsgerð málsaðila leiði til þess að hann hafi réttmæta hagsmuni af því að samningi málsaðila verði vikið til hliðar og breytt þannig að kaupverðið geri ráð fyrir verðmæti kvótans sem bátnum hafi skyndilega verið úthlutað.
Stefnandi telur að gögn málsins sýni að fyrirsvarsmaður stefnda, Jónas Ragnarsson, hafi vitað þegar kaupsamningur málsaðila var gerður að kvótasetning væri yfirvofandi. Hafi nefndur Jónas setið fundi bæði hjá sjávarútvegsráðherra áður en frumvarpið var lagt fram og síðar hjá sjávarútvegsnefnd til þess að fjalla um lagabreytinguna. Eftir viðskipti málsaðila hafi stefnandi komist að því að fyrirsvarsmaður stefnda hafi lýst því yfir í samtölum, meðal annars við Davíð Kjartansson, að þessar breytingar væru í vændum. Stefndi hafi þannig auðsjáanlega búið yfir greinargóðum upplýsingum um það sem í vændum var löngu áður en frumvarpinu hafi verið úthlutað sjávarútvegsnefnd og almenningi gert kleift að kynna sér það. Telur stefnandi að stefndi hafi ætlað sér að nýta sér upplýsingarnar með kaupum á bát stefnanda og annarra sér til gífurlegs hagnaðar. Þá hafi stefndi fært kvótann beint yfir á annan bát sinn um leið og honum var úthlutað í apríl 2004. Staðfesti það að stefndi hafi vitað um væntanlega kvótasetningu bátsins og hafi hann keypt bátinn af stefnanda beinlínis í því augnamiði að eignast væntanlegan kvóta bátsins án þess að greiða fyrir hann.
Hafi breytingin á lögum um stjórn fiskveiða kollvarpað öllum forsendum kaupsamnings málsaðila þar sem kaupverðið hafi ekki verið nema brot af verðmæti hins selda. Hafi þessar forsendur verið ákvörðunarástæður fyrir samkomulagi um verð sem hafi brostið skömmu eftir að samningurinn var undirritaður. Af þeim sökum beri að víkja til hliðar ákvæði í samningi málsaðila um söluverð þannig að kaupverð hins selda verði 31.388.800 krónur í stað 11.000.000 króna.
Stefnandi kveðst og byggja á því að stefndi hafi vitað um kvótasetningu smábáta og leynt því við samningsgerðina. Vísist í þessu sambandi til 30. gr. samningalaga nr. 7/1936 sem kveði á um að löggerningur skuldbindi eigi þann mann sem gerði hann ef hann var fenginn til þess með svikum og sá maður, sem við löggerningnum tók, beitti sjálfur svikunum. Stefnandi byggi á því að stefndi hafi þagað yfir atvikum sem ætla mátti að skiptu miklu máli um löggerninginn. Þögn fyrirsvarsmanns stefnda, um upplýsingar sem hann vissi eða mátti vita að myndu hafa áhrif á afstöðu stefnanda í grundvallaratriðum til söluverðs hins selda, falli tvímælalaust að hugtaksskilyrðum 30. gr. samningalaga. Með vísan til ofanritaðs beri að víkja til hliðar samningi málsaðila og breyta honum þannig að kaupverð bátsins verði eins og áður greinir 31.388.800 krónur.
Jafnvel þótt ekki verði talið sannað að um vísvitandi svik af hálfu stefnda hafi verið að ræða sé grundvöllur til að breyta samningsákvæði til staðar með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936. Byggi stefnandi á því að samningur málsaðila sé bersýnilega ósanngjarn og það stríði gegn góðum viðskiptaháttum af hálfu stefnda að bera hann fyrir sig. Verðmæti hins selda við breytingu á lögum um stjórn fiskveiða hafi þrefaldast á einni nóttu skömmu eftir kaupsamningsgerð vegna veiðireynslu sem stefnandi hafi meðal annars aflað. Hafi stefndi enga aðkomu átt að þessari verðmætaaukningu heldur stafi hún beint af því vinnuframlagi sem stefnandi hafi lagt til og þeirrar veiðireynslu sem stefnandi hafi aflað á bátnum og kvótinn síðan ákvarðast á. Telur stefnandi að verulega skorti á til að kaupsamningsverð teljist sanngjarnt og eðlilegt. Telur stefnandi samninginn bersýnilega ósanngjarnan þannig að varði ógildingu hans. Krefst stefnandi að samningnum verði vikið til hliðar og breytt þannig að kaupverð bátsins verði í samræmi við verðmæti bátsins ásamt kvótanum sem honum fylgdi.
Um lagarök að öðru leyti en að framan sé rakið kveðst stefnandi styðja kröfur sínar við meginreglur samningaréttar um ógildi samninga. Málið sé rekið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur samkvæmt samkomulagi aðila með vísan til 3. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991. Kröfu sína um málskostnað styður stefnandi við 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. og lög nr. 50/1988 um virðisaukaskatt en stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda.
IV
Stefndi kveður stefnanda byggja á því að stefndi hafi auðgast um rúmar 20.000.000 króna með ólögmætum hætti á kostnað stefnanda sem stefndi eigi að skila til baka. Þessu mótmælir stefndi. Hann leggur áherslu á það að kaupin á bátnum og því sem honum fylgdi hafi átt sér stað 8. mars 2004 eða löngu áður en hugmyndir hafi orðið til í sjávarútvegsráðuneytinu um breytingu á lögunum um stjórn fiskveiða, sem samþykkt hafi verið á Alþingi þann 28. maí 2004, sbr. lög nr. 74/2004. Kaupverð hins selda hafi verið greitt að fullu við kaupin og viðskiptum aðila þar með endanlega lokið. Hafi verð bátsins og meðfylgjandi veiðileyfis verið í samræmi við almennt markaðsverð báta af þessari stærð á þeim tíma sem salan átti sér stað.
Á þessum tíma hafi heldur enginn haft nokkra hugmynd um að eigendum þessara báta yrði síðar gefinn kostur á því að stunda veiðar með krókaaflahámarki og samkvæmt gögnum frá Landssambandi smábátaeigenda hafi það ekki verið inni í myndinni á þessum tíma. Hafi engar tillögur eða hugmyndir verið uppi um slíkt þegar kaupin áttu sér stað þótt einhverjir aðilar kunni að hafa haft áhuga á því að settur yrði kvóti á þessa dagabáta.
Enginn aðdragandi hafi verið að breytingunni á lögunum um stjórn fiskveiða og hafi aðilar því verið jafnsettir varðandi vitneskjuna um fyrirhugaðar breytingar á lögunum sem síðar urðu. Hafi hvorki Landssamband smábátaeigenda né einhverjir einstaklingar haft hugmynd um að þetta yrði raunin fyrr en 3. maí 2004 er Landssambandi smábátaeigenda hafi verið sagt frá því hvaða hugmyndir sjávarútvegsráðherra hefði í þessum efnum og að þær yrðu kynntar á fundi í sjávarútvegsráðuneytinu 10. maí 2004.
Kaupin á Svenna EA 201 hafi átt sér stað milli tveggja jafnsettra og jafnreyndra útgerðarmanna smábáta fyrir milligöngu skipasala og vissi hvorugur, þegar kaupin á bátnum og veiðileyfinu áttu sér stað, hvað gerast myndi síðar varðandi breytingar á gildandi fiskveiðistjórnunarkerfi. Efni kaupsamningsins hafi verið venjulegt, eðlilegt og sanngjarnt á þeim tíma sem hann var gerður, enda hafi stefndi greitt það verð sem sett hafi verið á bátinn og seljandi bátsins hafi sætt sig við. Ógilding samnings aðila verði því ekki byggð á síðar til komnum atvikum og hafi engin sérstök atvik verið við samningsgerðina sem réttlætt geti ógildingu hans, sbr. dómur Hæstaréttar 1998/1209.
Hafi stefnda ekki mátt vera það ljóst við kaupin á bátnum og veiðileyfi hans, að forsenda stefnanda fyrir sölu bátsins og veiðileyfisins hafi verið sú að lögunum um stjórn fiskveiða yrði ekki breytt þannig að heimilt yrði að velja á milli sóknarmarks og aflamarks. Hefði það verið forsenda stefnanda fyrir sölu bátsins og veiðileyfisins hefði stefnandi orðið að áskilja sér það við gerð kaupsamningsins með sérstökum fyrirvara þar um og hefði stefndi þá þurft að samþykkja að vera bundinn af slíkum fyrirvara. Hafi stefnandi ekki gert þennan fyrirvara og verði kaupsamningi aðila því ekki hnikað vegna atvika sem gerðust rúmum tveim mánuðum eftir sölu bátsins. Nægi almennt sanngirnismat hér ekki kröfu stefnanda til framgangs.
Hafi viðskiptum aðila verið að fullu lokið 8. mars 2004 og það sem síðar gerðist hafi hvorugur aðili neitt vitað um né hafi það verið á þeirra valdi að hafa áhrif þar á. Vísar stefndi til meginreglunnar sem fram komi í 79. gr. kaupalaganna nr. 50/2000, sbr. 18. gr. eldri kaupalaganna um að afrakstur, sem verði til vegna söluhlutar eftir afhendingu söluhlutarins, falli til kaupanda hlutarins nema ætla hafi mátt að afraksturinn hefði fallið til fyrir afhendingu hlutarins. Þá minni stefndi á þau grundvallaratriði viðskipta um að samninga skuli halda.
Með vísan til framanritaðs telur stefndi engin lagaleg rök vera fyrir hendi til stuðnings þeirri málsástæðu stefnanda, að grundvallarforsendur hafi brostið fyrir kaupsamningi aðila þegar tilgreindar breytingar voru gerðar á lögunum um stjórn fiskveiða nr. 38/1990. Sé því mótmælt sem alröngu og ósönnuðu að stefndi hafi búið yfir einhverri vitneskju umfram aðra þegar kaupin á bátnum áttu sér stað og leynt stefnanda því hvað gerast myndi varðandi breytingar á fiskveiðistjórnunarlögunum í þessum efnum rúmum tveimur mánuðum síðar og þar með beitt svikum við kaupin gagnvart stefnanda.
Þá vill stefndi árétta sérstaklega varðandi sjónarmið stefnanda um meinta ólögmæta auðgun stefnda að eftir lagabreytinguna hafi eigendur sóknardagabáta getað valið um veiðireynslu kvótaáranna 2001/2002 eða 2002/2003. Veiðireynsla sú sem ákvörðuð hafi verið í formi aflamarks á Svenna EA 201 að ósk stefnda, hafi ekki verið byggð á veiðireynslu stefnanda kvótaárið 2002/2003 heldur veiðireynslu þáverandi eiganda bátsins kvótaárið 2001/2002. Hin meinta auðgun stefnda á kostnað stefnanda vegna kvótasetningar bátsins hafi því ekki stafað af veiðireynslu stefnanda heldur fyrri eiganda bátsins. Ef einhver sé réttur aðili dómsmáls sem þessa ætti það að vera sá aðili en ekki stefnandi.
Þá megi í þessu sambandi einnig benda á að við lagabreytinguna hafi verið gert heimilt að breyta sóknarmarki báts, dagaveiðileyfinu, í aflamark. Það geti leitt til þess að verðmæti veiðileyfisins aukist. Hér sé ekki um að ræða nýjar veiðiheimildir sem ekki hafi verið á bátnum fyrir við kaupin. Í tilviki stefnda sé því ekki um að ræða nýja viðbótaraflahlutdeild heldur breytingamöguleika á gildandi veiðiheimild.
Það að gildandi sóknarmarki sé breytt síðar í aflamark eða öfugt að aflamarki sé breytt í sóknarmark, sem auki verðgildi veiðileyfis báts, skapi ekki fyrrum eiganda báts kröfu um viðbótargreiðslur úr hendi kaupandans. Á sama hátt skapi það ekki kaupanda báts rétt til fjárkrafna á hendur seljandanum, ef breytingar á lögunum um stjórn fiskveiða hefðu leitt til þess gagnstæða, að verðmæti veiðileyfis eða aflaheimilda hefði lækkað.
Um lagarök að öðru leyti en að framan er rakið vísar stefndi til grundvallarreglu samningalaga um að samninga skuli halda sem og dómafordæma. Um málskostnað vísar stefndi til XXI. kafla laga nr. 91/1991, sbr. og lög um virðisaukaskatt nr. 50/1988.
V
Stefnandi byggir kröfur sínar á hendur stefnda einkum á því að grundvallar-forsendur fyrir samningi aðila hafi brostið með þeim breytingum sem urðu á lögum um stjórn fiskveiða með lögum nr. 74/2004. Með þeirri lagabreytingu hafi bátur sá sem stefnandi seldi stefnda skyndilega orðið margfalt verðmætari skömmu eftir undirritun samningsins. Þannig hafi gjörbreyst grundvallarforsenda fyrir verðlagningunni. Hefði stefnandi vitað hvað í vændum hafi verið hefði aldrei orðið að samningnum í þeirri mynd sem hann var.
Ein meginregla samningaréttar er að samninga skuli halda. Undantekning frá þeirri meginreglu er reglan um brostnar forsendur sem stefnandi byggir málatilbúnað sinn á. Hagsmunir viðskiptalífsins krefjast þess að slíkri undantekningarreglu frá meginreglunni verði að beita með mikilli varúð. Sala bátsins fór fram með milligöngu skipasala og tókust samningar með aðilum um kaupin. Stefnandi setti engan fyrirvara um söluna og gerði engar athugasemdir og hefur hann ekki lagt fram haldbær gögn um að grundvallarforsenda hans í viðskiptum aðila hafi verið að lögum um fiskveiðistjórnun yrði ekki breytt á þann veg sem varð raunin og skiptir engu máli í því sambandi hversu skömmu eftir samning aðila lögin voru sett. Hafi það verið forsenda stefnanda fyrir sölunni, að lögum um fiskveiðastjórnun yrði ekki breytt hefði hann þurft að koma því á framfæri við stefnda við samningsgerðina þannig að stefnda hafi verið eða mátt vera ljós sú forsenda. Þykir stefnandi því ekki hafa sýnt fram á að forsendur samnings aðila hafi brostið með umræddum lagabreytingum. Verður samningi aðila því ekki hnikað af þeirri ástæðu.
Stefnandi heldur því fram að fyrirsvarsmaður stefnda hafi vitað, þegar samningur aðila var undirritaður, að fyrirhuguð væri kvótasetning smábáta og hafi hann með svikum leynt þeirri vitneskju sinni við samningsgerðina. Sé samningur aðila því ekki skuldbindandi. Vísar stefnandi að þessu leyti til 30. gr. laga nr. 7/1936 en þar segir að löggerningur skuldbindi eigi þann mann sem hann gerði ef hann var fenginn til þess með svikum og sá maður sem við löggerningnum tók beitti sjálfur svikunum eða vissi eða mátti vita að gerningurinn hafi verið gerður fyrir svik annars manns. Þá segir að hafi sá sem við löggerningnum tók skýrt rangt frá atvikum sem ætla mátti að skiptu máli við löggerninginn, eða hann hafi sviksamlega þagað yfir slíkum atvikum, skuli líta svo á að gerningurinn hafi verið gerður fyrir þau svik nema það sannist að þessi atriði hafi engin áhrif haft á það að löggerningurinn var gerður.
Vitnið Arthur Örn Bogason formaður Landssambands smábátaeigenda gaf skýrslu fyrir dóminum og kom meðal annars fram hjá honum að orðrómur hafi verið á kreiki seint á árinu 2003 um að þær breytingar yrðu á fiskveiðilöggjöfinni að kvótasetning yrði niðurstaðan. Þá hafi hópur félagsmanna, meðal annars fyrirsvarsmaður stefnda, unnið á móti Landssambandi smábátaeigenda með því að krefjast þess að settur yrði á kvóti í stað þess að dagakerfið yrði styrkt eins og Landssamband smábátaeigenda gerði kröfu um. Kvaðst vitnið hafa séð bréf um miðjan febrúar 2004 frá þeim hópi þar sem skorað hafi verið á ráðherra að gera það sem framangreindur orðrómur hafi gengið út á, að setja kvóta, og hafi lögin sem síðar voru sett verið nákvæmlega sama efnis og umrætt bréf. Þá kom fram hjá honum að hann hafi átt viðræður við sjávarútvegsráðherra af þessu tilefni og hafi ráðherra algerlega vísað því á bug að til stæði að breyta fiskveiðilöggjöfinni á þann hátt sem síðar varð.
Vitnið Hafþór Jónsson bar að í janúar og febrúar 2004 hafi mikið verið í umræðunni að kvóti yrði settur á og hafi hópur manna fullyrt að hafa vitneskju um að svo yrði gert og hafi meðal annars komið fram hjá fyrirsvarsmanni stefnda að hann hefði fullvissu um til kvótasetningar kæmi. Hann hafi hins vegar ekki viljað upplýsa um hvaðan hann hefði þessar upplýsingar. Fyrirsvarsmaður stefnda bar fyrir dómi að það sé rangt að hann hafi verið í sambandi við Hafþór á þeim tíma sem hann haldi fram. Hann hafi hins vegar sett sig í samband við hann í apríl sama ár í tengslum við skoðanakönnun sem hann vildi að yrði gerð meðal félagsmanna í Landssambandi smábátaeigenda um hvora leiðina menn vildu fara í þessum efnum.
Vitnið Friðþjófur Jóhannsson bar að hann hefði hitt fyrirsvarsmann stefnda á bryggjunni í Hafnarfirði líklega í apríl 2004 og hafi komið fram hjá honum að hann teldi að Landssamband smábátaeigenda væri ekki á réttri leið með kröfur um sóknardaga þar sem kvóti yrði settur á bátana. Fyrirsvarsmaður stefnda mótmælti því ekki að þessi mál hafi verið rædd. Hins vegar hafi hann ekkert getað fullyrt um að kvóti yrði settur á bátana þar sem hann hafi ekkert um það vitað að svo yrði gert.
Að virtum framangreindum framburðum verður ekki hægt að fullyrða með vissu gegn eindregnum mótmælum fyrirsvarsmanns stefnda að hann hafi búið yfir vitneskju um fyrirhugaða lagabreytingu. Engin haldbær gögn liggja fyrir um að hann hafi vitað meira en aðrir sem létu sér þessi mál varða þegar samningur aðila var undirritaður í mars 2004 og fær það stuðning í þeirri fullyrðingu vitnisins Arthurs Arnar að sjávarútvegsráðherra hefði, stuttu áður en hann lagði fram umrætt lagafrumvarp, alfarið neitað því að til stæði að breyta fiskveiðilöggjöfinni á þann hátt sem varð.
Fullyrðingar stefnanda í stefnu um að fyrirsvarsmaður stefnda hafi lýst því yfir í viðtölum sínum við vitnið Davíð Kjartansson að þessar breytingar væru í vændum fá engan stuðning í gögnum málsins. Hins vegar er óumdeilt að stefndi hafði á sínum tíma selt umræddum Davíð bát, sem stefndi svo falaðist eftir í byrjun árs 2004 og aftur í byrjun maí sama ár. Ekkert varð af kaupum stefnda á bátnum og er vandséð að þessi samskipti fyrirsvarsmanns stefnda og vitnisins staðfesti að fyrirsvarsmaður stefnda hafi vitað um fyrirhugaðar lagabreytingar.
Stefnandi heldur því fram að stefndi hafi fært kvótann beint yfir á annan bát um leið og honum var úthlutað í apríl 2004 og staðfesti það að stefndi hafi vitað um væntanlega kvótasetningu. Samkvæmt gögnum málsins var tilgangur stefnda með kaupum á bát stefnanda sá að nýta sér veiðiheimildir hans og færa yfir á nýsmíði sem hann keypti af Knörr ehf. og fékk nafnið Adda ÍS-519. Verður því ekki séð að yfirfærsla stefnda á kvóta bátsins Svenna EA-201 yfir á Öddu ÍS-519 staðfesti að stefndi hafi haft vitneskju um kvótasetninguna heldur má ætla að sú ráðstöfun renni frekar stoðum undir hið gagnstæða þar sem stefndi hefði þá getað sparað sér það fé sem hann þurfti að greiða fyrir hinn nýja bát.
Að því virtu sem nú hefur verið rakið þykir stefnandi ekki hafa sýnt fram á það að stefndi hafi vitað um það, þegar samningur aðila var gerður, að lögum um fiskveiðistjórnun yrði breytt á þá lund sem raun ber vitni. Verður því ekki fallist á það að stefndi hafi beitt svikum í viðskiptum aðila sem leiði til þess að samningi þeirra verði vikið til hliðar.
Þá byggir stefnandi á því að samningur aðila sé bersýnilega ósanngjarn og sé því grundvöllur til að breyta samningsákvæði, sbr. 36. gr. laga nr. 7/1936. Samkvæmt því ákvæði má víkja samningi til hliðar í heild eða að hluta eða breyta ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera hann fyrir sig og við mat á því skuli líta til efnis samnings, stöðu samningsaðila, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar komu til.
Óumdeilt er að verðlagning bátsins Svenna EA-201 var, á þeim tíma sem stefndi keypti hann, í samræmi við það sem gilti á markaði varðandi slíka báta. Stefnandi kveðst hafa sett hann á sölu og sett á hann 12.000.000 króna en hann hafi svo tekið tilboði stefnda upp á 11.000.000 króna.
Eins og mál þetta liggur fyrir dóminum verður ekki annað séð en að báðir aðilar hafi verið jafnsettir við samningsgerðina enda báðir reyndir útgerðarmenn smábáta. Þá þekktu þeir báðir til þeirra reglna sem um veiðileyfi giltu og mátti báðum vera ljóst að viðskiptum sem þessum fylgir áhætta. Þá hefur sú umræða sem fram fór í röðum þeirra sem gerðu út smábáta mánuðina áður en lögunum um stjórn fiskveiða var breytt vart farið fram hjá stefnanda sem hafði verið í smábátaútgerð frá árinu 2000. Við kaupsamninginn tóku báðir aðilar áhættu vegna þeirra þróunar mála sem orðið gæti. Þrátt fyrir að verð á Svenna EA-201 hafi vegna veiðireynslu bátsins hækkað vegna lagabreytingar sem gekk í gildi stuttu eftir samningsgerð aðila verður ekki talið, með vísan til þess sem nú hefur verið rakið, að atvik sem síðar komu til séu þess eðlis að samningur aðila teljist bersýnilega ósanngjarn og eru því ekki efni til að víkja honum til hliðar á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936.
Að öllu því virtu sem nú hefur verið rakið hefur stefnandi ekki sýnt fram á það með óyggjandi hætti að víkja eigi samningi aðila til hliðar vegna brostinna forsendna, svika eða þess að hann hafi verið bersýnilega ósanngjarn og verður stefndi því sýknaður af öllum kröfum stefnanda í máli þessu. Eftir þeim málsúrslitum verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 500.000 krónur.
Af hálfu stefnanda flutti málið Ástráður Haraldsson hrl. en af hálfu stefnda flutti málið Jónas Haraldsson hrl.
Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Útgerðarfélagið Berg ehf., er sýknaður af öllum kröfum stefnanda, Útgerðarfélagsins Hvamms ehf. í máli þessu.
Stefnandi greiði stefnda 500.000 krónur í málskostnað.