Hæstiréttur íslands

Mál nr. 88/2003


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjárnám
  • Áfrýjunarfjárhæð
  • Kæruheimild
  • Frávísun frá Hæstarétti


Fimmtudaginn 13

 

Fimmtudaginn 13. mars 2003.

Nr. 88/2003.

Ástþór Rafn Pálsson

(Jón Hjaltason hrl.)

gegn

Ferðamálasjóði

(Jónatan Sveinsson hrl.)

 

Kærumál. Fjárnám. Áfrýjunarfjárhæð. Kæruheimild. Frávísun máls frá Hæstarétti.

Kærður var úrskurður héraðsdóms, þar sem staðfest var ákvörðun sýslumanns um að stöðva fjárnámsgerð, sem Á krafðist að næði fram að ganga hjá F. Var málinu vísað frá Hæstarétti þar sem höfuðstóll kröfunnar, sem leita átti fullnustu á hjá F, var undir áfrýjunarfjárhæð.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. febrúar 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. mars sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. febrúar 2003, þar sem staðfest var ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 31. júlí 2002 um að stöðva fjárnámsgerð, sem sóknaraðili krafðist að næði fram að ganga hjá varnaraðila. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Hann krefst þess að framangreind ákvörðun sýslumanns verði felld úr gildi og lagt fyrir hann að halda fjárnámsgerðinni áfram. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili leitaði fjárnámsins, sem deilt er um heimild fyrir í málinu, með beiðni til sýslumannsins í Reykjavík 19. júní 2002. Samkvæmt beiðninni var höfuðstóll kröfunnar, sem leita átti fullnustu á hjá varnaraðila, 400.000 krónur. Skilyrði um áfrýjunarfjárhæð í 1. mgr. og 2. mgr. 152. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 6. gr. laga nr. 38/1994, verður beitt um kæru sem þessa, sbr. 4. mgr. 150. gr. fyrrnefndu laganna og 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989, svo sem slegið var föstu meðal annars í dómum Hæstaréttar í dómasafni 1994, bls. 1101 og dómasafni 1999, bls. 4662, sbr. einnig dóm 16. janúar 2003 í máli nr. 573/2002. Áfrýjunarfjárhæð samkvæmt fyrstnefnda lagaákvæðinu er nú 410.991 króna. Sóknaraðila stoðar ekki að bera því við að líta megi á þetta mál og annað samkynja, sem fengið hefur númerið 87/2003, sem eitt mál væri og leggja saman fjárhæð krafnanna, sem þau varða, við mat á því hvort fullnægt sé skilyrðum fyrir málskoti. Brestur þannig skilyrði til kæru í málinu og verður að vísa því frá Hæstarétti.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.

Sóknaraðili, Ástþór Rafn Pálsson, greiði varnaraðila, Ferðamálasjóði, 100.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. febrúar 2003.

                Með bréfi dagsettu 7. ágúst 2002 skaut sóknaraðili, Ástþór Rafn Pálsson, kt. 261057-3879, máli þessu til dómsins.  Varnaraðili er Ferðamálasjóður, kt. 630179-0689. 

                Skotið er til dómsins þeirri ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík, 31. júlí 2002, að stöðva samkvæmt 2. mgr. 27. gr. aðfararlaga nr. 90/1989 aðför hjá varnaraðila að kröfu sóknaraðila.  Sóknaraðili krefst þess að sýslumaður haldi áfram aðför til lúkningar kröfu samkvæmt aðfararbeiðni frá 19. júní með þeirri breytingu að hann fellur frá kröfu um virðisaukaskatt, sem nemur 98.000 krónum, en bætir við kröfu fyrir mót, sem nemur 7.470 krónum.  Því er krafan samtals að fjárhæð 417.191 krónur auk vaxta samkvæmt beiðni.  Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar. 

                Varnaraðili sótti þing við þingfestingu máls þessa.  Meðferð málsins var síðan frestað vegna meðferðar annarra mála sem tengjast sakarefni þessa máls.  Er málið skyldi tekið fyrir til framlagningar greinargerðar varnaraðila féll þingsókn niður af hans hálfu og var málið tekið til úrskurðar.  Ber að leysa úr málinu samkvæmt málsútlistun sóknaraðila og í samræmi við þau gögn sem hann leggur fram, sbr. 1. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 1. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989. 

                Sóknaraðili krefst aðfarar á grundvelli dóms Hæstaréttar, 6. júní 2002, í málinu nr. 16/2002, Ástþór Rafn Pálsson o.fl. gegn Ferðamálasjóði.  Þar var viðurkennt að eftirstöðvar skuldabréfa er sóknaraðili og þrír menn aðrir höfðu gefið út til varnaraðila 20. maí 1991 skyldu færðar niður í 4.207.907 krónur miðað við 5. maí 1998.  Þá var varnaraðila gert að greiða hverjum áfrýjanda fyrir sig 400.000 krónur í málskostnað. 

                Beiðni sóknaraðila var tekin fyrir hjá sýslumanni 29. júlí 2002.  Var þá mættur lögmaður af hálfu varnaraðila sem mótmælti framgangi gerðarinnar.  Vísaði hann til þess að krafan væri greidd.  Hefði verið lýst skuldajöfnuði með símskeyti er sent var 7. júní 2002.  Var meðferð málsins frestað til 31. júlí og er þá bókað að fulltrúi sýslumanns ákveði að stöðva gerðina, sbr. 2. mgr. 27. gr. laga nr. 90/1989. 

                Aðfararbeiðni sína kveðst sóknaraðili byggja á framlögðum hæstaréttardómi.  Segir hann að í dóminum sé skilið á milli málskostnaðar annars vegar og efniskröfu, sem hafi verið færð niður.  Segir hann að þá hafi varnaraðili átt eftir “að gera sér mat úr fasteignunum” sem hann hafi leigt út í tvö ár og síðan selt. 

                Segir sóknaraðili að krafa varnaraðila sé ekki aðfararhæf samkvæmt dóminum.  Því sé hún ekki hæf til skuldajafnaðar samkvæmt 40. gr. aðfararlaga nr. 90/1989.  Bendir sóknaraðili á að í hæstaréttardóminum hafi hverjum áfrýjenda fyrir sig verið tildæmdur málskostnaður, en ekki þeim öllum saman.  Undirstriki þetta enn frekar að hver þeirra eigi sinn rétt og að enginn skuldajöfnuður geti átt sér stað. 

                Niðurstaða.

                Varnaraðili lýsti yfir skuldajöfnuði með símskeyti til sóknaraðila 7. júní 2002, daginn eftir að dómurinn var kveðinn upp.  Með símskeyti 14. júní mótmælti sóknaraðili skuldajöfnuði.  Aðfararbeiðni er dagsett 19. júní 2002 og var tekið við henni hjá sýslumanni 20. júní. 

                Í símskeyti varnaraðila er vísað til skuldar samkvæmt dómi Hæstaréttar, sem nemi 4.207.907 krónum auk vaxta.  Krafa varnaraðila var upphaflega samkvæmt tveimur skuldabréfum.  Höfðaði varnaraðili mál til greiðslu skulda samkvæmt bréfunum á árinu 1997.  Var ekki tekið til varna og var önnur stefnan árituð um aðfararhæfi, en dómur kveðinn upp vegna hinnar, en í því máli var krafist staðfestingar veðréttar.  Það eru þessar kröfur sem voru sameiginlega færðar niður í 4.207.907 krónur með margnefndum hæstaréttardómi.  Blasir því við að krafa varnaraðila er aðfararhæf, en bent skal jafnframt á, að hann lýsti yfir skuldajöfnuði áður en sóknaraðili krafðist aðfarar. 

                Öllum almennum skilyrðum skuldajöfnuðar var fullnægt er varnaraili sendi skeyti sitt.  Féll krafa sóknaraðila niður er honum barst skeytið.  Verður því ekki krafist aðfarar til lúkningar kröfunni. 

                Málskostnaður fellur niður.

                Jón Finnbjörnsson, héraðsdómari, kveður upp úrskurð þennan, en hann tók við meðferð málsins um miðjan janúarmánuð 2003.

Ú r s k u r ð a r o r ð

                Kröfu sóknaraðila, Ástþórs Rafns Pálssonar, um aðför hjá varnaraðila, Ferðamálasjóði, er hafnað.

                Málskostnaður fellur niður.