- Ávana- og fíkniefni
- Tilraun
- Ítrekun
|
Fimmtudaginn 28. nóvember 2002. |
Nr. 295/2002. |
Ákæruvaldið(Ragnheiður Harðardóttir saksóknari) gegn Guðmundi Inga Þóroddssyni (Hallvarður Einvarðsson hrl.) Sigurði Bragasyni og(Hilmar Ingimundarson hrl.) Þóroddi Inga Guðmundssyni(Hallvarður Einvarðsson hrl.) |
Ávana- og fíkniefni. Tilraun. Ítrekun.
G og S voru ákærðir fyrir tilraun til innflutnings á 4.000-5.000 töflum á fíkninefninu MDMA frá Hollandi en Þ fyrir hlutdeild í brotinu með því að skipta krónum í gyllini og afhenda S að beiðni G. Þá var G ákærður fyrir innflutning á 994,5 töflum á sama fíkniefninu sem bárust með almennri póstsendingu frá Hollandi og Þ fyrir að senda peninga til Hollands til kaupa á fíkniefninu. G játaði bæði brotin en brot hans voru annars vegar framin meðan hann sat í gæsluvarðhaldi og beið dóms Hæstaréttar vegna fíkniefnainnflutnings og er hann sat í fangelsi vegna þess máls. Ekki var fallist á að um ónothæfa tilraun hefði verið að ræða. Var niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu G staðfest, sbr. 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og sbr. 20. gr. sömu laga varðandi fyrra brotið og ekki hreyft við refsiákvörðun héraðsdómara um 5 ára fangelsi, sbr. 1. mgr. 71. gr. laga nr. 19/1940 og 8. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni og þar sem brotin voru stór í sniðum og sérlega harðsvíruð. Talið var ósannað að S hefði lagt á ráðin um innflutninginn en fallist á það með héraðsdómi að líkur væru fyrir því að hann hefði tekið við fénu af Þ í því skyni að fara með það til Hollands og kaupa fíkniefni. Hins vegar lægi ekkert fyrir um það að fíkniefnin hefðu verið keypt eða send hingað til lands. Að virtu 4. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var niðurstaða héraðsdómara staðfest og S sýknaður. Með vísan til sama ákvæðis var sú niðurstaða héraðsdómara að ekki væri óhætt að slá því föstu að Þ hefði hlotið að vera ljóst að peningarnir tengdust innflutningi fíkniefna staðfest og hann því sýknaður.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Árni Kolbeinsson, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 4. júní 2002 í samræmi við yfirlýsingu ákærða Guðmundar Inga um áfrýjun en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar héraðsdóms um sakfellingu og upptöku fíkniefna að því er varðar ákærða Guðmund Inga, þó þannig að refsing hans verði þyngd. Að því er varðar ákærðu Sigurð og Þórodd Inga krefst ákæruvaldið sakfellingar samkvæmt ákæru og refsiákvörðunar.
Ákærði Guðmundur Ingi Þóroddsson krefst þess aðallega, að sakargiftum sem á hann eru bornar í 1. lið I. kafla ákæru verði vísað frá dómi, en til vara að hann verði sýknaður af þeim. Verði sakfellt fyrir þessar sakargiftir krefst hann þess, að refsing verði felld niður, sbr. 3. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en til þrautavara vægustu refsingar, sem lög leyfa. Verði lagaskilyrði talin vera til sakfellingar vegna þeirrar háttsemi, sem lýst er í 1. lið II. kafla ákæru, krefst ákærði vægustu refsingar, sem lög leyfa.
Ákærðu Sigurður Bragason og Þóroddur Ingi Guðmundsson krefjast staðfestingar héraðsdóms.
Héraðsdómi er ekki áfrýjað að því er varðar tvo meðákærðu.
I.
Af hálfu ákærða Guðmundar Inga er því haldið fram að vísa beri frá dómi sakargiftum í ákærulið I.1, þar sem lýsing þeirra sé ófullnægjandi. Tekið er undir með héraðsdómi, að ákæran sé nægilega skýr og uppfylli skilyrði 1. mgr. 116. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
II.
Því er haldið fram af hálfu ákærða Guðmundar Inga, að verknaði þeim, sem lýst er í ákærulið I.1, sé svo háttað að um ónothæfa tilraun hafi verið að ræða, þar sem hún hefði ekki getað leitt til fullframins brots. Eigi því refsing að falla niður, sbr. 3. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga. Í málinu er fram komið, að ákærði Guðmundur Ingi sýndi ótvírætt þann ásetning í verki, sem miðaði að framkvæmd brotsins, og hefði tilraun hans getað leitt til fullframins brots, ef ekki hefðu komið til aðrar óskýrðar orsakir, sem gerðu það að verkum, að engin fíkniefni komu til landsins Er ekki fallist á, að um ónothæfa tilraun hafi verið að ræða.
Með vísan til forsendna héraðsdóms ber að staðfesta niðurstöðu hans um sakfellingu ákærða Guðmundar Inga fyrir brot þau, sem honum eru gefin að sök, og eru þau réttilega heimfærð til refsiákvæða.
Eins og fram kemur í héraðsdómi er ákærði Sigurður Bragason sakaður um að hafa, ásamt ákærða Guðmundi Inga, lagt á ráðin um innflutning fíkniefnanna, sbr. ákærulið I.1, tekið við fé frá ákærða Þóroddi Inga, farið til Amsterdam og greitt þar fyrir fíkniefnin, sem bárust svo ekki til landsins. Ákærði Sigurður hefur frá upphafi neitað sök. Ósannað er, að hann hafi lagt á ráðin um innflutninginn, heldur hafi hans hlutverk verið að fara eftir þeim fyrirmælum, sem fram komu í bréfi því, sem ákærði Guðmundur Ingi afhenti honum á Litla-Hrauni 10. desember 2000. Ákærði Sigurður hefur viðurkennt að hafa tekið við peningum frá ákærða Þóroddi Inga og farið til Amsterdam 21. desember 2000, þar sem hann hitti Anthonius Gerardus Verborg. Hann segir aftur á móti, að peningana hafi hann skilið eftir hér heima og slegið eign sinni á þá og engin fíkniefni keypt. Hann hafi horfið frá þátttöku í brotinu þar sem honum hafi orðið ljóst, að löggæslumenn hefðu lesið framangreint bréf. Fallist er á það með héraðsdómi, að líkur séu fyrir því, að ákærði Sigurður hafi tekið við fénu í því skyni að fara með það til Amsterdam og kaupa fyrir það fíkniefni. Í málinu liggur hins vegar ekkert fyrir um það, að fíkniefnin hafi verið keypt eða send hingað til lands. Engin skýrsla var tekin af framangreindum manni, sem ákærði setti sig í samband við, er hann kom til Amsterdam. Héraðsdómari hefur komist að þeirri niðurstöðu, þrátt fyrir efasemdir, að ekkert hafi komið fram í meðferð málsins fyrir dómi, sem hnekki frásögn ákærða. Að virtu ákvæði 4. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 verður staðfest niðurstaða héraðsdómara að því er varðar ákærða Sigurð og hann sýknaður.
Ákærði Þóroddur Ingi Guðmundsson hefur frá upphafi neitað sök. Hann hefur viðurkennt að hafa tekið við peningum að fyrirlagi sonar síns, ákærða Guðmundar Inga, frá einhverjum mönnum, skipt þeim í gyllini og afhent ákærða Sigurði, sbr. ákærulið I.2. Hann hefur einnig viðurkennt að hafa, að beiðni sonarins, sent manni að nafni Johan Gulik í Hollandi peninga, sem hann hafði skipt í gyllini, sbr. ákærulið II.2.1. Í lögregluskýrslu, sem tekin var af ákærða Þóroddi Inga 14. september 2001 er haft eftir honum, að hann hafi oft heyrt son sinn tala um innflutning á fíkniefnum en ekki myndað sér neina skoðun á því. Þá hafi sonur hans beðið hann um að leggja fé í innflutning fíkniefna, en hann sagst ekki vera tilbúinn til þess. Fyrir dómi bar ákærði, að þetta atriði í skýrslunni væri á misskilningi byggt. Ákærði Þóroddur hefur frá upphafi neitað því að hafa vitað, að peningarnir, sem hann tók við, væru ætlaðir til þess að kaupa fyrir þá fíkniefni. Í héraðsdómi er tekið fram, að framangreind lögregluskýrsla sé ekki örugg heimild um það, sem ákærði sagði við yfirheyrsluna, en ekki var spurt um það hvernig stæði á mismunandi framburði hjá lögreglu og fyrir dómi. Verður ekki séð af hverju sú ályktun er dregin, en lögregluskýrslan er undirrituð af ákærða og vottuð af verjanda hans og yfirheyrandinn staðfesti skýrsluna fyrir dómi. Tekið er undir með héraðsdómi að líkur verði að telja fyrir því, að ákærða Þórodd Inga hafi grunað, að sonur hans ætlaði að nota peningana til þess að kaupa fyrir þá fíkniefni. Fyrir liggur, að ákærði Guðmundur Ingi hafði staðið í rekstri erlendis og er ekki unnt að útiloka, að ákærði Þóroddur Ingi hafi talið sig vera að greiða skuldir hans. Að virtu ákvæði 4. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 verður staðfest sú niðurstaða héraðsdómara, að ekki sé óhætt að slá því föstu, að ákærða hafi hlotið að vera ljóst, að peningarnir tengdust innflutningi fíkniefna. Framangreind lögregluskýrsla breytir ekki þeirri niðurstöðu. Verður ákærði Þóroddur Ingi sýknaður af sakargiftum ákæruvalds.
III.
Eins og fram kemur í héraðsdómi var ákærði dæmdur í 7 ára fangelsi í héraði fyrir stórfelldan innflutning á fíkniefnum 6. júlí 2000. Sá dómur var staðfestur í Hæstarétti 19. desember sama ár. Brot ákærða Guðmundar Inga samkvæmt ákærulið I.1 var framið meðan hann sat í gæsluvarðhaldi og beið dóms Hæstaréttar, og brot hans samkvæmt ákærulið II.1 var framið, er hann sat í fangelsi vegna þess máls. Eru bæði brot hans ítrekun við fyrrnefndan dóm, sbr. 1. mgr. 71. gr. almennra hegningarlaga og 8. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni. Brot ákærða eru stór í sniðum og sérlega harðsvíruð. Að því gættu og ákvæði 3. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991, sbr. 19. gr. laga nr. 37/1994, verður ekki hreyft við refsiákvörðun héraðsdómara um 5 ára fangelsi. Gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 18. apríl til 11. maí 2001 skal dregin frá refsingu ákærða.
Staðfest er ákvæði héraðsdóms um upptöku á 994,5 töflum af fíkniefninu MDMA, svo og ákvæði hans um sakarkostnað ákærða Guðmundar Inga, og réttargæslu- og málsvarnarlaun til verjenda ákærðu Guðmundar Inga, Sigurðar og Þórodds Inga.
Málsvarnarlaun til skipaðra verjenda ákærðu Sigurðar og Þórodds Inga greiðast úr ríkissjóði, eins og nánar greinir í dómsorði.
Ákærði Guðmundur Ingi greiði áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti svo sem segir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður að því er varðar ákærðu Guðmund Inga Þóroddsson, Sigurð Bragason og Þórodd Inga Guðmundsson.
Málsvarnarlaun verjanda ákærða Sigurðar, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 120.000 krónur, og verjanda ákærða Þórodds Inga, Hallvarðar Einvarðssonar hæstaréttarlögmanns, 120.000 krónur, greiðast úr ríkissjóði.
Ákærði Guðmundur Ingi greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Hallvarðs Einvarðssonar hæstaréttarlögmanns, 150.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 23. maí 2002.
Ár 2002, fimmtudaginn 23. maí, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Pétri Guðgeirssyni, héraðsdómara, kveðinn upp dómur í sakamálinu nr. 782/2002: Ákæruvaldið (Ragnheiður Harðardóttir) gegn Guðmundi Inga Þóroddssyni (Hallvarður Einvarðsson hrl.), Gunnari Helga Oddssyni (Sveinn Andri Sveinsson hrl.), Jónasi Hermannssyni (Pétur Örn Sverrisson hdl.), Sigurði Bragasyni (Hilmar Ingimundarson hrl.) og Þóroddi Inga Guðmundssyni (Sveinn Guðmundsson hdl.) sem tekið var til dóms hinn 2. maí sl. að lokinni aðalmeðferð.
Málið er höfðað með ákæru Lögreglustjórans í Reykjavík, dagsettri 12. mars sl. á hendur ákærðu, Guðmundi Inga Þóroddssyni, kennitala 290574-4639, refsifanga að Litla-Hrauni, Gunnari Helga Oddssyni, kennitala 210874-5509, refsifanga að Litla-Hrauni, Jónasi Hermannssyni, kennitala 110780-5409, Hálsaseli 54, Reykjavík, Sigurði Bragasyni, kennitala 191074-3279, Miklubraut 16, Reykjavík og Þóroddi Inga Guðmundssyni, kennitala 240951-4609, Hraunbæ 90, Reykjavík, “fyrir brot gegn ávana- og fíkniefnalögum sem hér greinir:
I.
Gegn ákærðu Guðmundi Inga, Sigurði og Þóroddi Inga fyrir eftirgreind brot framin í desember 2000:
1. Ákærða Guðmundi Inga og Sigurði fyrir tilraun til innflutnings á 4.000-5.000 töflum með ávana- og fíkniefninu MDMA (3.4 metýlendíoxýmetamfetamíni) frá Amsterdam, ætluðum til söludreifingar hér á landi. Ákærðu er gefið að sök að hafa lagt á ráðin um innflutninginn, ákærði Guðmundur Ingi útvegað fé til fíkniefnakaupanna, um 600.000 krónur, ákærði Sigurður móttekið féð frá meðákærða Þóroddi Inga, farið til Amsterdam og greitt þar fyrir fíkniefnin að fyrirlagi Guðmundar Inga. Fíkniefnin sem ákærðu festu kaup á bárust ekki til landsins.
Telst þetta varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. lög nr. 64, 1974, sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga.
2. Ákærða Þóroddi Inga fyrir hlutdeild í tilraunarbroti meðákærðu Guðmundar Inga og Sigurðar, með því að skipta allt að 600.000 krónum í gyllini í bankastofnunum og afhenda Sigurði, að beiðni Guðmundar Inga, þótt hann hafi hlotið að vita að peningarnir voru ætlaðir til kaupa á fíkniefnum, sem meðákærðu hygðust flytja hingað til lands.
Telst þetta varða við 173. gr. a., sbr. 20. gr., sbr. 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga.
II.
Gegn ákærðu Guðmundi Inga, Þóroddi Inga, Gunnari Helga og Jónasi fyrir eftirgreind brot framin fyrri hluta árs 2001:
1. Ákærða Guðmundi Inga fyrir innflutning á 994.5 töflum með fíkniefninu MDMA, ætluðum til söludreifingar hér á landi, sem bárust með almennri póstsendingu frá Hollandi og voru haldlagðar í póstmiðstöðinni við Stórhöfða í Reykjavík 17. apríl 2001. Ákærða er gefið að sök að hafa fengið meðákærða Þórodd Inga til að senda 70.000 krónur til Hollands til kaupa á fíkniefninu, sem hann lét senda á heimili meðákærða Jónasar, en heimilisfang Jónasar hafði meðákærði Gunnar Helgi látið honum í té.
Telst þetta varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga.
2. Ákærðu Þóroddi Inga, Gunnari Helga og Jónasi fyrir hlutdeild í broti meðákærða Guðmundar Inga sem hér segir:
1) Ákærði Þóroddur Ingi með því að senda nafngreindum manni í Hollandi peninga með greiðslumiðluninni Western Union 2. mars 2001, að beiðni Guðmundar Inga, þótt hann hafi hlotið að vita að peningarnir voru ætlaðir til kaupa á fíkniefnum sem Guðmundur Ingi hygðist flytja hingað til lands.
2) Ákærði Gunnar Helgi með því að hafa, í ársbyrjun 2001, að beiðni Guðmundar Inga, fengið honum heimilisfang Jónasar Hermannssonar í því skyni að þangað yrði sendur pakki sem innihéldi fíkniefni, en ákærði hafði fengið Jónas til að samþykkja að pakkinn yrði sendur á heimili hans og lofað honum 300.000 krónar greiðslu fyrir.
3) Ákærði Jónas með því að samþykkja að pakki með fíkniefnum yrði sendur á heimilisfang hans, gegn greiðslu, og sækja pakkann á pósthúsið í Mjódd 18. apríl, en lögregla hafði þá lagt hald á fíkniefnin og komið gerviefni fyrir í pakkanum.
Telst þetta varða við 173. gr. a., sbr. 1. mgr. 22. gr., almennra hegningarlaga.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar.
Þá er þess krafist að framangreind ávana- og fíkniefni, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins, verði gerð upptæk, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65, 1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar um sölu og meðferð ávana- og fíkniefna nr. 233, 2001.”
Þess hefur verið krafist af hálfu ákærða Guðmundar Inga, að 1. tl. I. kafla ákærunnar verið vísað frá dómi vegna þess að verknaðarlýsing hans sé óljós. Á þetta verður ekki fallist og telur dómurinn að ákæran sé nægilega skýr og uppfylli skilyrði 1. mgr. 116. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19, 1991.
Málavextir
I.
Ákærðu Guðmundur Ingi, Sigurður og Þóroddur Ingi.
1. Samkvæmt játningu ákærða Guðmundar Inga sem studd er margvíslegum gögnum í máli þessu liggur það fyrir að í nóvember árið 2000 lagði ákærði Guðmundur Ingi, sem sat í fangelsinu á Litla-Hrauni, á ráðin um það að flytja inn til landsins allt að 5000 MDMA-töflur á næstu vikum. Hafði hann samband við meðákærða Sigurð og fékk hann í heimsókn til sín í fangelsið, 10. desember. Þar lét hann ákærða Sigurð fá bréf með ítarlegum fyrirmælum um það hvernig Sigurður skyldi kaupa MDMA-töflur í Hollandi og ganga frá þeim og senda hingað til lands. Áður en Sigurður fékk bréf þetta í hendur höfðu fangaverðir komist í það og ljósritað. Ákærði Guðmundur Ingi hafði áður sett sig í samband við aðila þar ytra, Antonius Gerardus Verborg, að nafni, sem ákærði Sigurður skyldi skipta við. Þá liggur það fyrir að faðir ákærða Guðmundar Inga, ákærði Þóroddur Ingi, tók við peningum sem stöfuðu frá syni hans og skipti hluta af þeim í hollensk gyllini. Afhenti hann Sigurði féð að frátekinni nokkurri fúlgu sem hann tók til eigin þarfa. Loks liggur það fyrir að Sigurður fór til Amsterdam í desember og hitti Antonius og að þeir töluðu báðir við Guðmund Inga í síma frá Amsterdam. Ákærði Guðmundur Ingi telur annan hvorn þeirra Sigurðar eða Antoniusar hafa slegið eign sinni á féð. Hann segir Sigurð ekki hafa átt neinn þátt í því að skipuleggja fyrirtækið. Þá kveðst hann ekki vita hvort peningarnir fóru nokkru sinni úr landi.
Ákærði Sigurður hefur frá upphafi neitað sök. Hann hefur sagt, að þegar hann hafi fengið bréfið frá Guðmundi Inga, hafi honum orðið ljóst að löggæslumenn höfðu lesið það og hafi því ekki hvarflað að honum að leggja út í þennan innflutning. Hafi hann gert upp hug sinn um það að hann myndi slá eign sinni á peningana þegar hann fengi þá í hendur. Þetta hafi hann og gert og notað þá í eigin þágu og hafi þetta verið um 500.000 krónur sem Þóroddur Ingi hafi komið með til hans. Hafi þeim ekkert farið á milli um þetta. Hann segist hafa skilið peningana eftir hér á landi þegar hann fór í ferðina til Amsterdam. Hafi ferðin verið farin honum til upplyftingar eftir nýlegt lát föður hans og ekki tengst erindinu sem Guðmundur Ingi hafði falið honum. Hann kveðst hafa sett sig í samband við Antonius til þess að láta hann greiða fyrir sér þar ytra og hafi Antonius gert það að einhverju leyti. Hann hafi hins vegar ekki kunnað að meta þann mann og því ekki haft frekari samskipti við hann. Að því er varðar símtal hans frá Amsterdam við Guðmund Inga, sem var hljóðritað, segir ákærði að hann hafi þar látið líklega um erindið en það hafi verið til þess eins að slá ryki í augu Guðmundar Inga. Ekki hefur verið tekin skýrsla af Antoniusi Gerardusi Verborg og ekkert liggur fyrir um það að fíkniefnin hafi verið keypt þar ytra, hvað þá að þau hafi verið send áleiðis hingað til lands. Enda þótt nokkrar líkur geti talist vera fyrir því að ákærði Sigurður hafi tekið við fénu í því skyni að fara með það út og kaupa fyrir þau fíkniefni og að hann hafi farið í ferðina til Amsterdam í því skyni, er til þess að líta að hann hefur frá upphafi neitað sök að þessu leyti og ekkert hefur komið fram í meðferð málsins fyrir dómi sem hnekkir frásögn ákærða. Ber því að sýkna hann af ákærunni. Ráðstafanir og umleitanir ákærða Guðmundar Inga sem raktar hafa verið miðuðu að því að flytja inn allt að 5000 töflur af efninu MDMA, eins og greinir í ákæru. Telst hann vera sekur um tilraun til þess og hefur hann brotið gegn 173. gr. a í almennum hegningarlögum, sbr. 20. gr. þeirra laga.
2. Ákærði Þóroddur Ingi hefur frá upphafi neitað sök að því er varðar þetta ákæruatriði. Kveðst hann hafa tekið við umtalsverðri peningafúlgu að beiðni sonar síns. Segir hann að “einhver strákur” hafi komið með peningana til hans, dálítinn seðlabunka, en hann kveðst ekki hafa talið peningana. Hann kannast við að hafa skipt hluta af peningunum, um 200.000 krónum, í hollensk gyllini að beiðni sonar síns og hafi hann gert það í tveimur bönkum að því er hann minnir, enda hafi verið eitthvert þak á því hversu miklu mátti skipta í hverjum banka. Segir hann að honum hafi fundist þetta einkennilegt því hann hafi aldrei rekið sig á slíkar takmarkanir fyrr. Ákærði segist hafa tekið til sín um 50.000 krónur af peningunum þar sem hann hafi talið Guðmund Inga skulda sér það. Ákærði segist svo hafa afhent Sigurði Bragasyni peningana eins og sonur hans hafði lagt fyrir. Hann kveðst ekki hafa velt því fyrir sér til hvers peningarnir væru ætlaðir og þeir hafi ekkert rætt um það, feðgarnir. Hafi sú staðreynd að sonur hans var í fangelsi fyrir fíkniefnabrot ekki vakið neinn grun hjá honum, enda hefði hann haldið að frelsissviptur maður sem væri á “ábyrgð samfélagsins” gæti ekki gert slíka hluti. Ákærði hefur sagt að hann hafi oft tekið að sér að sjá um ýmislegan erindrekstur fyrir son sinn, svo sem að greiða fyrir hann skuldir og senda honum peninga til útlanda. Ákærði Guðmundur Ingi hefur sagt að faðir hans hafi tekið við fé frá öðrum fyrir sína hönd og afhent meðákærða Sigurði. Hafi hann ekki vitað hvað til stóð með þetta fé enda hefðu þeir feðgar ekkert rætt það sín á milli. Hefði faðir hans heldur einskis spurt. Ákærði kveðst hafa beðið föður sinn um að skipta hluta af fénu í gyllini, um 100 - 200.000 krónum.
Meðal gagna málsins eru upptökur af símtölum á milli ákærðu Guðmundar Inga og Þórodds Inga þar sem þeir ráðslaga um öll þessi peningaskipti. Þar kemur m. a. fram að Þóroddur Ingi segir syni sínum frá því að hann hafi ekki getað keypt öll gyllinin í einu vegna þess að banka hafi vantað gyllinaseðla. Dómarinn álítur að upptökurnar veiti í sjálfu sér ekki óræka vísbendingu um það að ákærða Þóroddi Inga hafi verið ljóst til hvers peningarnir væru ætlaðir. Í lögregluskýrslu sem tekin var af ákærða 14. september 2001, að viðstöddum verjanda hans, voru svör Þórodds Inga höfð innan tilvitnunarmerkja. Dómarinn telur skýrsluna þó bera það með sér að þar séu svörin ekki tilfærð orðrétt, en hljóðupptaka af yfirheyrslunni hefur ekki verið lögð fram. Yfirheyrandinn var ekki spurður um þetta atriði þegar hann kom fyrir dóm í málinu. Í skýrslunni var ákærði, vegna innflutnings á 994 ½ töflu af MDMA, spurður hvort sonur hans hefði ámálgað við hann að hann legði fé í fíkniefnainnflutning. Fyrir dómi hefur komið fram hjá ákærða að þetta atriði í skýrslunni sé byggt á misskilningi yfirheyrandans. Yfirheyrandinn hefur sagt í dómi að hann muni ekki hverju ákærði svaraði þessu en hann standi við skýrsluna. Í sömu skýrslu er það skráð að ákærði hefði verið spurður hvort hann hefði vitað til þess að sonur hans væri að skipuleggja innflutning fíkniefna í desember 2000. Þar er skráð eftir honum það svar að hann hefði “oft heyrt hann tala um þetta” en enga skoðun myndað sér á því. Hvorki ákærði né yfirheyrandinn voru spurðir út í þetta atriði fyrir dómi.
Ákærði Þóroddur Ingi hefur frá upphafi neitað að hafa vitað að peningarnir sem hann tók við væru ætlaðir til þess að kaupa fyrir þá fíkniefni. Sonur hans, ákærði Guðmundur Ingi, hefur borið á sömu lund og ákærði Sigurður Bragason hefur sagt að þeir Þóroddur Ingi hafi ekkert rætt um hvað lægi að baki þessum peningaskiptum. Enda þótt nokkrar líkur verði að telja vera fyrir því að ákærða Þórodd Inga hafi grunað að sonur hans ætlaði sér að nota umrædda peningafúlgu til þess að kaupa fyrir þá fíkniefni er á það að líta að alkunnugt er að fíkniefnaviðskipti eru stundum að talsverðu leyti lánsviðskipti. Þá er einnig til þess að líta að sonur ákærða hafði stundað atvinnurekstur, m.a. erlendis. Er ekki hægt að útiloka að ákærði hafi staðið í þeirri trú að hann væri að greiða skuldir vegna fyrri athafna sonarins. Lögregluskýrslan sem tekin var 14. september sl. þykir ekki vera örugg heimild um það sem ákærði sagði við þá yfirheyrslu og breytir viðvera verjanda því ekki. Þykir ekki vera óhætt að slá því föstu að ákærða hafi hlotið að vera ljóst að erindreksturinn með peningana tengdist því að Guðmundur Ingi ætlaði að kaupa fyrir þá fíkniefni og flytja inn. Ber því að sýkna ákærða af þessum ákærulið.
II.
Ákærðu Guðmundur Ingi, Þóroddur Ingi, Gunnar Helgi og Jónas.
1. Fyrir liggur með játningu ákærða Guðmundar Inga, sem styðst við gögn í málinu og skýrslur meðákærðu, að ákærði lagði á ráðin um það fyrri hluta árs 2001 að flytja inn fíkniefni frá Hollandi. Ákærði sat í fangelsi á Litla-Hrauni þegar þetta varð og lét hann senda peninga til manns að nafni Johan Gulik í Hollandi og fékk efnið, 994 og 1/2 MDMA-töflu, sent með pósti hingað til lands. Löggæslumenn lögðu hald á efnið í póstmiðstöðinni við Stórhöfða í Reykjavík 17. apríl það ár. Við rannsókn í rannsóknastofu Háskóla Íslands í lyfjafræði kom í ljós að hver tafla innihélt 90 mg af MDMD - klóríði eða 75 mg af MDMA-basa. Með þessu broti, sem telst stórfellt, hefur ákærði orðið sannur að broti gegn 173. gr. a í almennum hegningarlögum.
2. Ákærði Þóroddur Ingi neitar sök. Hann kannast við að hafa að beiðni sonar síns sent 70.000 krónur til fyrrnefnds manns í Hollandi en hann hefur staðfastlega neitað því að hafa vitað að peningarnir væru ætlaðir til þess að kaupa fyrir þá fíkniefni. Hafi það ekki komið til tals með þeim feðgum. Hann kveðst ekkert hafa vitað um viðtakandann en talið að þetta væri sent til þess að greiða einhverja skuld Guðmundar Inga. Kveðst ákærði sjá um fjármál hans meðan hann situr í fangelsi en áður hafi Guðmundur Ingi hafi staðið í atvinnurekstri, bæði hér á landi og erlendis. Kveðst hann þá oft hafa greitt fyrir honum í því sambandi, svo sem með því að senda honum peninga til útlanda. Hafi Guðmundur Ingi þá stundum sagt honum hvað að baki lá en stundum hafi hann ekki gert það. Yfirleitt hafi þetta bara verið skuldir og annað sem þurft hafi að gera upp. Í lögregluskýrslu sem tekin var af ákærða 14. september 2001, að viðstöddum verjanda hans, voru svör Þórodds Inga höfð innan tilvitnunarmerkja. Dómarinn telur skýrsluna þó bera það með sér að þar séu svörin ekki tilfærð orðrétt, en hljóðupptaka af yfirheyrslunni hefur ekki verið lögð fram. Yfirheyrandinn var ekki spurður um þetta atriði þegar hann kom fyrir dóm í málinu. Í skýrslunni var ákærði, vegna innflutnings á 994 ½ töflu af MDMA, spurður hvort sonur hans hefði ámálgað við hann að hann legði fé í fíkniefnainnflutning. Fyrir dómi hefur komið fram hjá ákærða að þetta atriði í skýrslunni sé byggt á misskilningi yfirheyrandans. Yfirheyrandinn hefur sagt í dómi að hann muni ekki hverju ákærði svaraði þessu en hann standi við skýrsluna. Í sömu skýrslu er það skráð að ákærði hefði verið spurður hvort hann hefði vitað til þess að sonur hans væri að skipuleggja innflutning fíkniefna í desember 2000. Þar er skráð eftir honum það svar að hann hefði “oft heyrt hann tala um þetta” en enga skoðun myndað sér á því. Hvorki ákærði né yfirheyrandinn voru spurðir út í þetta atriði fyrir dómi.
Ákærði Guðmundur Ingi hefur borið á sama veg og faðir hans og sagt að faðir hans hafi ekki vitað hvað lá að baki þessarar peningasendingar. Meðal gagna í málinu er upptaka af símtali þeirra tveggja 1. mars 2001. Dómarinn álítur að upptakan veiti í sjálfu sér ekki óræka vísbendingu um það að ákærða Þóroddi Inga hafi verið ljóst til hvers peningarnir væru ætlaðir.
Enda þótt einhverjar líkur verði að telja vera fyrir því að ákærða Þórodd Inga hafi grunað að sonur hans ætlaði sér að nota umræddar 70.000 krónur peningafúlgu til þess að kaupa fyrir þá fíkniefni er á það að líta, eins og segir hér að ofan, að alkunnugt er að fíkniefnaviðskipti eru stundum að talsverðu leyti verið lánsviðskipti. Þá er einnig til þess að líta að sonur ákærða hafði stundað atvinnurekstur, m. a. erlendis. Lögregluskýrslan sem tekin var 14. september sl. þykir ekki vera örugg heimild um það sem ákærði sagði við þá yfirheyrslu og breytir viðvera verjanda hans því ekki. Er ekki hægt að útiloka að ákærði hafi staðið í þeirri trú að hann væri að greiða skuldir vegna einhverra fyrri athafna sonarins. Þykir því ekki vera óhætt að slá því föstu að honum hafi hlotið að vera ljóst að þessi peningasending tengdist því að Guðmundur Ingi ætlaði að kaupa fyrir þá fíkniefni og flytja inn. Ber því að sýkna ákærða af þessum ákærulið.
3. Fyrir liggur með játningu ákærðu Gunnars Helga og Jónasar, sem studdar er skýrslum annarra og ítarlegri lögreglurannsókn, að ákærði Gunnar Helgi tók að sér, fyrir þrábeiðni meðákærða Guðmundar Inga, að fá einhvern til þess að heimila að fíkniefnin yrðu send á heimilisfang sitt. Vissi ákærði, sem var samtímis Guðmundi Inga í fangelsinu á Litla-Hrauni, að um yrði að ræða verulegt magn af MDMA-töflum, allt að 2000 talsins, að því er hann segir. Tók ákærði þetta að sér án endurgjalds og hafði samband við vin sinn, ákærða Jónas, sem samþykkti þetta, enda hafði ákærði, að undirlagi Guðmundar Inga, boðið honum greiðslu fyrir. Vissi hann að um yrði að ræða MDMA - töflur en ekki vissi hann hversu margar. Eins og fyrr greinir voru fíkniefnin, 994½ tafla af efninu MDMA, send á heimilisfang Jónasar frá Hollandi í apríl. Þegar pakkinn kom til landsins var hann opnaður og efnin fundust inni í bók sem holuð hafði verið út. Lögreglumenn lögðu hald á fíkniefnið og settu annað í staðinn. Ákærði Jónas vitjaði svo um pakkann og var handtekinn með hann skömmu seinna. Ákærðu Gunnar Helgi og Jónas hafa með þessu atferli sínu orðið sekir um hlutdeild í stórfelldu fíkniefnabroti og brotið gegn 173. gr. a í almennum hegningarlögum, sbr. 1. mgr. 22. gr. sömu laga.
Refsing, upptaka og sakarkostnaður
Ákærði Guðmundur Ingi var dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir fíknilagabrot í október 1998. Hinn 6. júlí 2000 var hann svo dæmdur í 7 ára fangelsi í héraði fyrir stórfelldan innflutning á MDMA - töflum hingað til lands. Var dómurinn staðfestur í Hæstarétti 19. desember sama ár. Eins og fram er komið sat ákærði í fangelsi vegna þess máls þegar hann framdi brot sín sem hér hefur verið sakfellt fyrir. Þau brot teljast bæði vera ítrekun við héraðsdóminn í skilningi 1. mgr. 71. gr. almennra hegningarlaga, þrátt fyrir það að héraðsdóminum hefði verið áfrýjað þegar ákærði framdi fyrra brotið. Brot ákærða, fyrir utan það að vera stór í sniðum, voru eins og á stóð fyrir honum, sérstaklega harðsvíruð. Á hinn bóginn verður að líta til þess að ákærði hefur játað þau að fullu og að talsvert vantaði á það að fyrra brotið yrði fullframið. Þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 5 ár. Gæsluvarðhaldsvist sem ákærði sætti frá 18. apríl til 17. maí það ár, 23 dagar, skal dregin frá refsingu ákærða.
Ákærði Gunnar Helgi hefur nokkurn sakferil að baki. Árið 1991 var ákæru frestað skilorðsbundið á hendur honum fyrir þjófnað. Þá hlaut hann á árunum 1993 til 1996 fimm dóma fyrir ýmis hegningarlagabrot. Auk þess hefur hann verið sektaður þrisvar sinnum fyrir umferðarlagabrot. Loks er þess að geta að ákærði var dæmdur í tveggja ára fangelsi í júní árið 2000 fyrir stórfellt fíknilagabrot og sat í fangelsi fyrir það þegar hann framdi brot sitt. Er það til þyngingar refsingu hans en eins verður að líta til þess að ákærði hefur játað brot sitt, að þáttur hans í brotinu var lítilvægur, að hann lét að lokum undan þrábeiðni meðákærða Guðmundar Inga og loks að hann áskildi sér enga þóknun fyrir atbeina sinn. Þá er til þess að líta að rannsókn málsins og meðferð þess eftir að henni lauk hefur dregist á langinn og ekki hefur því getað komið til álita að veita ákærða reynslulausn. Þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 5 mánuði. Frá refsingunni ber að draga gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 18. apríl til 3. maí 2001, 15 daga.
Ákærði Jónas hefur ekki áður gerst sekur um refsilagabrot og játaði brot sitt þegar hjá lögreglu. Þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 10 mánuði. Frá refsingunni ber að draga gæsluvarðhaldsvist ákærða frá 18. apríl til 3. maí 2001, 15 daga.
Dæma ber ákærðu Guðmund Inga og Jónas til þess að þola upptöku á 994½ töflu af fíkniefninu MDMA, samkvæmt þeim lagaákvæðum sem tilgreind eru í ákæru.
Úr ríkissjóði ber að greiða réttargæslu- og málsvarnarlaun verjanda ákærða Sigurðar, Hilmars Ingimundarsonar hrl., 170.000 krónur og málsvarnarlaun verjanda ákærða Þórodds Inga, Sveins Guðmundssonar hdl, 100.000 krónur. Dæma ber ákærða, Guðmund Inga, til þess að greiða verjanda sínum, Hallvarði Einvarðssyni hrl., 120.000 krónur í málsvarnarlaun, ákærða, Gunnar Helga til þess að greiða verjanda sínum, Sveini Andra Sveinssyni hrl., 100.000 krónur í málsvarnarlaun og ákærða, Jónas, til þess að greiða verjanda sínum, Pétri Erni Sverrissyni hdl., 100.000 krónur í málsvarnarlaun. Annan sakarkostnað ber að dæma ákærðu Guðmund Inga, Gunnar Helga og Jónas til þess að greiða óskipt.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Ákærðu, Sigurður Bragason og Þóroddur Ingi Guðmundsson, eru sýknir af ákæru í máli þessu.
Ákærði, Guðmundur Ingi Þóroddsson, sæti fangelsi í 5 ár. Frá refsingunni dregst 23 daga gæsluvarðhaldsvist.
Ákærði, Gunnar Helgi Oddsson, sæti fangelsi í 5 mánuði. Frá refsingunni dregst 15 daga gæsluvarðhaldsvist.
Ákærði, Jónas Hermannsson, sæti fangelsi í 10 mánuði. Frá refsingunni dregst 15 daga gæsluvarðhaldsvist.
Ákærðu Guðmundur Ingi og Jónas þoli upptöku á 994½ töflu af fíkniefninu MDMA.
Úr ríkissjóði greiðist réttargæslu- og málsvarnarlaun til verjanda ákærða Sigurðar, Hilmars Ingimundarsonar hrl., 170.000 krónur, og málsvarnarlaun til verjanda ákærða Þórodds Inga, Sveins Guðmundssonar hdl, 100.000 krónur. Ákærði, Guðmundur Ingi, greiði verjanda sínum, Hallvarði Einvarðssyni hrl., 120.000 krónur í málsvarnarlaun, ákærði, Gunnar Helgi, greiði verjanda sínum, Sveini Andra Sveinssyni hrl., 100.000 krónur í málsvarnarlaun og ákærði, Jónas, greiði verjanda sínum, Pétri Erni Sverrissyni hdl., 100.000 krónur í málsvarnarlaun. Annan sakarkostnað greiði ákærðu Guðmundur Ingi, Gunnar Helgi og Jónas óskipt.