Hæstiréttur íslands
Mál nr. 513/2014
Lykilorð
- Kynferðisbrot
- Börn
- Skaðabætur
|
|
Fimmtudaginn 5. febrúar 2015. |
|
Nr. 513/2014.
|
Ákæruvaldið (Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari) gegn X (Stefán Ólafsson hrl. Unnar Steinn Bjarndal hdl.) (Hulda Rós Rúriksdóttir hrl. og Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl. réttargæslumenn) |
Kynferðisbrot. Börn. Skaðabætur.
X var sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn tveimur barnabörnum sínum. Voru brot X gegn A talin varða við 1. og 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. áður 1. og 2. mgr. 200. gr. og 1. og 2. mgr. 202. gr. sömu laga. Þá voru brot X gegn B talin varða við 2. mgr. 200. gr. og 2. mgr. 202. gr. laganna. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að X hefði ekki áður sætt refsingu, en að hann hefði brotið gegn tveimur barnabörnum sínum og brotin gegn B hefðu staðið yfir í langan tíma. Var því litið til 1. og 2. tölul. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga og 3. mgr. sömu greinar, sbr. nú einnig 5. mgr. 202. gr. sömu laga. Þá var það virt X til refsiþyngingar að hann sendi A og dóttur sinni bréf, þar sem hann reyndi að koma ábyrgð á brotum sínum á brotaþola, sbr. 8. tölul. 1. mgr. 70. gr. laganna. Var X ekki talinn eiga sér neinar málsbætur og var refsing hans ákveðin fangelsi í þrjú ár. Þá var X gert að greiða skaðabætur til A og B, að fjárhæð 1.500.000 krónur til hvors þeirra.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Helgi I. Jónsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 20. júní 2014 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing verði milduð. Einnig krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfum verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að þær verði lækkaðar.
A og B krefjast þess hvor fyrir sitt leyti að ákærða verði gert að greiða sér 1.500.000 krónur með sömu vöxtum og dæmdir voru á kröfur þeirra í héraði.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um annað en einkaréttarkröfur, en rétt er að ákærða verði gert að greiða hvorum brotaþola 1.500.000 krónur eins og þeir hafa krafist.
Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns og þóknun réttargæslumanna brotaþola, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um annað en einkaréttarkröfur.
Ákærði, X, greiði A og B hvorum fyrir sig 1.500.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru á kröfu hvors þeirra í héraði.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 1.053.389 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Stefáns Ólafssonar hæstaréttarlögmanns, 620.000 krónur, og þóknun réttargæslumanna brotaþola, hæstaréttarlögmannanna Huldu Rósar Rúriksdóttur og Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar, 186.000 krónur til hvors um sig.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands vestra 20. maí 2014.
I
Mál þetta, sem tekið var til dóms 9. apríl sl., var höfðað 4. febrúar 2014 með ákæru ríkissaksóknara á hendur X, fæddum [...] 1935, til heimilis að [...], [...], „fyrir neðangreind kynferðisbrot framin á [...] svo sem hér greinir:
Brot gegn barnabarni sínu, A, fæddum [...] 1988:
1. Með því að hafa á árinu 1999 á ofangreindu heimili sínu, [...], kysst drenginn tungukossi og fróað honum með því að nudda ber kynfæri hans í nokkra stund.
Telst þetta varða við 1. og 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. áður 1. og 2. mgr. 200. gr. og 1. og 2. mgr. 202. gr. sömu laga.
2. Með því að hafa í lok árs 2000 eða á árinu 2001, á heimili drengsins að [...], kysst drenginn tungukossi, strokið ber kynfæri hans og haft við hann munnmök og látið drenginn fróa sér með því að nudda ber kynfæri ákærða í nokkra stund.
Telst þetta varða við 1. og 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga, sbr. áður 1. og 2. mgr. 200. gr. og 1. og 2. mgr. 202. gr. sömu laga.
Brot gegn barnabarni sínu B fæddum [...] 1993:
3. Með því að hafa í tugi skipta á árunum 2000-2011, er drengurinn var 7-18 ára gamall kysst hann tungukossi og káfað utanklæða á kynfærum hans og rassi, á ofangreindu heimili sínu að [...] og í [...] að [...].
Telst þetta varða við 2. mgr. 200. gr. og 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Einkaréttarkröfur:
Af hálfu A, kennitala [...], er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða honum skaðabætur að fjárhæð kr. 1.500.000, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. janúar 2013 til greiðsludags. Þá er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða honum málskostnað við að halda fram kröfu þessari samkvæmt síðar framlögðu málskostnaðaryfirliti.
Af hálfu B, kennitala [...], er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða honum kr. 1.500.000 með vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 31. desember 2011, til þess dags er mánuður er liðinn frá því að bótakrafa var kynnt ákærða, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags. Þá er þess krafist að ákærði verði dæmdur til greiðslu þóknunar réttargæslumanns auk lögmæts virðisaukaskatts.“ Undir rekstri málsins var einkaréttarkröfu A breytt á þann hátt að dráttarvaxta var krafist frá 6. apríl 2014.
Ákærði krefst aðallega sýknu og að einkaréttarkröfum verði vísað frá dómi en til vara vægustu refsingar sem lög frekast heimila og verulegrar lækkunar einkaréttarkrafna. Þá krefst hann þess að allur sakarkostnaður, þar með talin hæfileg þóknun verjanda að viðbættum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.
II
Atvik máls
Hinn 3. október 2012 barst lögreglunni á Akureyri kæra á hendur ákærða vegna kynferðisbrota gagnvart A. Í kærunni er greint frá því að brotin hafi átt sér stað á heimilum brotaþola í [...] og á [...] svo og á heimili kærða en þau hafi verið framin á árunum 1994 til 2000. Kærandi gaf skýrslu hjá lögreglunni á Akureyri hinn 8. október 2012. Eftir þetta voru teknar skýrslur af ákærða og vitnum. Þá var gerð húsleit á heimili ákærða og hald lagt á tölvu í hans eigu þar sem fram hafði komið við rannsókn málsins að hann hefði ritað dóttur sinni eða kæranda bréf þar sem hann hafi gengist við brotum sínum. Við rannsókn á tölvunni kom ekkert markvert í ljós.
Hinn 5. febrúar 2013 tók lögreglan á Akureyri skýrslu af brotaþolanum B. Tilefni skýrslutökunnar var að við rannsókn á öðru máli, þar sem brotaþoli var kærður ásamt öðrum pilti fyrir líkamsárás á ákærða, hafði komið fram hjá brotaþola að ákærði hefði misnotað hann kynferðislega. Við skýrslutökuna kom fram hjá brotaþola að ákærði hefði misnotað hann frá því að hann var sjö ára að aldri allt þar til hann var orðinn 18 ára gamall. Brotin hafi átt sér stað á heimili ákærða svo og í [...] á [...]. Brotin hafi falist í því að ákærði hafi kysst hann tungukossi á munninn og káfað á kynfærum hans og rassi utan klæða. Í þágu rannsóknar málsins voru í framhaldi af þessu teknar skýrslur af vitnum.
Af gögnum málsins má ráða að um ætluð brot ákærða í garð brotaþolans A var rætt í heimabæ þeirra. Ákærði ritaði m.a. pistil á heimasíðu sína þar sem hann ýjar að ávirðingum þessum. Við aðalmeðferð málsins afhenti vitnið D, móðir brotaþolans A og dóttir ákærða, bréf sem hann ritaði þeim mæðginum. Í bréfinu kemur m.a. fram að ákærði riti bréfið af gefnu tilefni þar sem honum og brotaþola hafi ekki auðnast að ræða málin. Í bréfinu segir m.a:
„Þér finnst sennilega að ég þurfi að biðja þig fyrirgefningar á að hafa brotið gegn þér, en það ætla ég ekki að gera. því það varst þú sem varst gerandinn í öllum málunum. Aftur á móti skal ég fyrirgefa þér það, að hafa kjaftað þessu í foreldra þína sem var ekki ægilegt mál, að mínu mati á þeim tíma, eða [af] þínu mati sem höfundur þessara misfara, aftur á móti hélt ég kjafti og sagði engum frá því sem ég komst að hjá þér því mér fannst þetta vera þitt mál enda varstu að verða fullorðinn maður, þótt þú sért það nú ekki enn þá, aftur á móti getur þú reynt að halda áfram að telja foreldrum þínum trú um hvað sem þú vilt, en þú veist A að það er allt[lygi]. Þú veist að ég hef alltaf sagt þér að ég elskaði þig, eins og ég að vísu elska öll mín barnabörn ekki meira um það. Þú berð upp á Afa þinn að hann hafi misnotað þig sem er ekki rétt A. Þú varst gerandinn í öllum mánunum sem [voru] 3, og ég kom að eins að sem áhorfandi þegar ég kom að þér í tölvunni minni fyrst við að skoða klám myndir, þar sem strákar sem stelpur voru að fróa sér til skiptis og meira og meira.“
Síðan lýsir ákærði þremur tilvikum þar sem hann kemur við kynfæri brotaþola og síðar verður nánar vikið að. Þá víkur ákærði að því að þetta hafi nú verið öll ósköpin og það hefði verið betra að hann segði foreldrum sínum sannleikann. Einnig kemur fram í bréfinu að ákærði ætli sér ekki að erfa þetta við brotaþola.
Í málinu liggur frammi vottorð D geðhjúkrunarfræðings en hún átti viðtöl við brotaþolann B. Í vottorðinu kemur m.a. fram að B hafi fengið ráðgjöf og sálrænan stuðning vegna andlegrar vanlíðunar. B hafi átt erfitt með að ræða um líðan sína en hann hafi greint frá mikilli reiði og einnig oft doða. Ef reynt var að fara í úrvinnslu á meintu ofbeldi hafi viðbrögð hans verið dofi og mikil hugrofseinkenni en það sé algengt hjá þeim sem hafa upplifað alvarleg áföll í æsku. Í vottorðinu er greint frá því að í fyrsta viðtali hafi B greint frá mikilli streitu og vanlíðan. Hann eigi erfitt með svefn, sé reiður, kvíðinn og dofinn. Hann finni fyrir miklu tilfinningalegu uppnámi daglega en hann reyni að forðast allt það sem minni hann á meint ofbeldi. Þá segir að þegar hann greindi frá ætluðu ofbeldi hafi hann sýnt aukin streituviðbrögð. Hann hafi virst einlægur í frásögn og hugsun hans skýr. B hafi skýrt frá ofsaótta og bjargarleysi þegar meint ofbeldi átti sér stað. Í vottorðinu segir einnig að B hafi greint frá einkennum sem svara til áfallastreituröskunar og frá sterkum tilfinningalegum og lífeðlisfræðilegum viðbrögðum þegar eitthvað minnti hann á meintan geranda. Einkenni þessi trufluðu mjög hans daglega líf, t.d. samband við fjölskyldu, og hann væri ekki ánægður með líf sitt sem hann ætti erfitt með að takast á við. Í vottorðinu kemur einnig fram að lögð hafi verið próf fyrir B og gerð grein fyrir niðurstöðum þeirra. Í samantekt vottorðsins segir m.a. svo: „Ástand og viðmót B bendir til þess að hann hafi upplifað mikla ógn, ofsaótta og hjálparleysi í meintum áföllum. Niðurstöður greiningarmats sýndu að B þjáist af áfallastreituröskun (Posttraumatic Stress Disorder) í kjölfar meints ofbeldis. Sálræn einkenni samsvöruðu einkennum sem eru þekkt hjá fólki sem hefur upplifað alvarleg áföll eins og líkamsárás, kynferðisofbeldi, ógnanir, stórslys eða hamfarir. Niðurstöður sjálfsmatskvarða samsvöruðu frásögnum hans í viðtölum. Ekki er hægt að segja til með vissu hver áhrif meints ofbeldis verða þegar til lengri tíma er litið en ljóst þykir að atburðirnir hafa haft víðtæk áhrif á B og að hann muni þurfa á langtíma sálrænni meðferð að halda hjá áfallasérfræðingi til að takast á við afleiðingar þessara atburða. Óvíst er hvort eða hvenær sálrænu einkennin ganga til baka.“
Einnig liggur fyrir í málinu vottorð ritað af E geðlækni varðandi brotaþolann B en það var ritað í tilefni af máli ákæruvaldsins á hendur B vegna líkamsárásar á ákærða í máli þessu. Í vottorðinu kemur m.a. fram að í viðtali við F geðlækni hinn 22. júní 2013 hafi B verið frekar þögull. Hann hafi verið óánægður með að sjálfsvígstilraun hans misheppnaðist og sæi lítinn tilgang með lífinu. Geðlæknirinn hafi þó fengið fram hjá honum að vanlíðan hans tengdist misnotkunarmáli og afleiðingum þess. Niðurstaða F geðlæknis og fyrsta áætlun hafi verið svohljóðandi: „Tvítugur maður sem lent hefur í misnotkun af hálfu afa síns. Á yfir höfði sér dóm vegna líkamsárásar á afann fyrr í ár. Nú endurteknar sjálfsvígstilraunir upp á síðkastið, nú síðast í nótt. Hefur enn sjálfsvígshugsanir og er metinn í hættu á nýrri sjálfsvígstilraun. Óskar ekki innlagnar en er settur á 48 tíma nauðungarvist. Nauðungarvist hefst þann 22.6.2013 kl. 12:00.“
III
Framburður fyrir dómi verður nú rakinn í aðalatriðum
Ákærði kvað samskipti sín við A hafa verið frekar lítil og hann ekki í miklum samskiptum við fjölskyldu hans. Hann hafi heimsótt þau þegar þau bjuggu fyrir sunnan og þau hann þegar þau komu norður en samskiptin hafi ekki verið náin. Samskiptin hafi heldur ekki orðið mikið meiri eftir að fjölskylda A flutti til [...] um 1998, hvers vegna viti hann ekki. A hafi ekki verið honum sérstaklega kær og hann ekki umgengist hann á annan hátt en aðra. Ákærði kvaðst heldur ekki hafa verið mikið nánari fjölskyldum annarra barna sinna en hann sé með þessu kannski frekar að lýsa sambandi sínu við fjölskyldu sína eins og það er í dag, en samgangur hafi þó ekki verið mikill áður. Varðandi samband sitt við B og fjölskyldu hans kvað ákærði það hafa verið ágætt og B hafi komið þangað í heimsóknir að degi til. Samskipti hans við B hafi verið eins og gengur og gerist fram að þeim tíma að B réðist á hann en eftir það séu samskiptin engin.
Ákærði neitaði alfarið að hafa brotið gegn A með þeim hætti sem lýst er í ákæru. Ákærði neitaði því að hafa nokkru sinni gengið með A heim til hans að [...], en mundi eftir að A hafi gist einu sinni hjá honum eftir fermingu þegar móðir hans var fyrir sunnan.
Ákærði neitaði að hafa kysst B tungukossum en hann kvaðst hafa kysst hann á munninn eins og gengur og gerist en hann hafi alist upp við að kyssa ættingja og vini á munninn. Þá neitaði hann því að hafa nokkru sinni káfað á B eins og lýst er í ákæru. Ákærði kvaðst ekki geta svarað því hvers vegna piltarnir bera þessar sakir á hann en hélt að þetta væri tilbúningur hjá þeim, en hverju hann eigi að þjóna viti hann ekki. Hann kvaðst ekki hafa átt í neinum illindum við drengina. Þá kvaðst hann ekki geta skýrt það hvers vegna B réðist á hann.
Ákærði bar að hann hefði fyrst heyrt af þessum ásökunum drengjanna við yfirheyrslur á Blönduósi. Ásakanir B hafi komið honum sérstaklega á óvart, enda hann ekki komið nálægt honum á þennan hátt. Hann hafi hins vegar verið búinn að heyra af ásökunum A áður, á [...]. Ákærði neitaði því að börn hans hefðu rætt ásakanir A við hann. Hann sagðist muna eftir fundi með börnum sínum í [...] og þar hafi verið til umræðu samskipti hans við A og þar hafi þessar ásakanir komið fram en nákvæmlega hvað honum var gefið að sök hafi ekki verið rætt. Ásakanir B hafi ekki verið ræddar. Hann hafi tekið þetta illa upp þar sem þær hafi ekki verið sannar. Ásakanirnar hafi orðið til þess að hann reyndi að taka líf sitt en hann hafi raunar sagt það við eiginkonu sína fyrir mörgum árum að hann vildi ekki lifa. Aðspurður um framburð sinn hjá lögreglu, þar sem hann svaraði því til að hann myndi ekki hvað rætt var á fundinum, bar ákærði að það hafi verið rétt á þeim tíma en hann hafi síðar hugsað um fundinn og hvað gerðist þar og þá hafi honum tekist að raða saman brotum þannig að hann muni eitthvað en þó ekki svo mikið að hann gæti almennilega sagt frá því sem þar gerðist. Hann muni þó að þau töluðu við hann þarna en þegar skýrslan var tekin hafi hann einfaldlega verið lokaður og því svarað neitandi.
Að sögn ákærða ritaði hann móður A bréf þar sem hann hafi rætt um A og eitthvað sem honum þótti ekki rétt sem fram hafði komið hjá honum en hvað annað stóð í bréfinu muni hann ekki. Í bréfinu hafi hann borið af sér sakir gagnvart A. Síðar spurður um bréf þetta kvaðst ákærði ekki hafa borið af sér sakir í því. Aðspurður um pistil sem hann ritaði á heimasíðu Kántrýbæjar í lok árs 2011 þar sem m.a. fram kemur að hann hafi reynt sjálfsvíg og gefin er upp ástæða fyrir því, kvað ákærði ástæðuna hafa verið ásakanir A í hans garð. Ákærði skýrði skrif sín á þann hátt að miklu meira hafi verið gert úr þessu máli heldur en ástæða var til og þegar hann segi að þegar tveir deili geti sökin verið þeirra beggja meini hann að þegar hann og A ræddu þetta mál hafi þeir tveir talað saman og annað ekki. Ákærði kvaðst nú hafa rætt þetta mál einu sinni við A í [...]en hvenær það var muni hann ekki. Síðar þegar ákærði var inntur aftur eftir því hvort hann hefði rætt þetta mál við A neitaði hann því. Þegar hann segi í pistlinum að mikið hafi verið gert úr þessu eigi hann við að ásökunum hafi verið haldið á lofti án þess að nokkur ástæða væri til þess. Aðspurður um tilvikin tvö sem hann vísar til í pistli sínum, og hann segi annað þeirra vera vind í glasi, kvaðst hann ekki muna til hvaða tveggja atvika hann var að vísa.
Ákærði mundi ekki eftir að hafa rætt þessi mál við G, tengdason sinn og föður brotaþolans B, þá mundi hann ekki eftir að G hafi komið til hans til að ræða þessi mál. G hafi hins vegar komið til hans í þeim tilgangi að spyrja um reksturinn og þá hafi hann spurt hann eitthvað út í mál A. Hann kvaðst ekki hafa játað nein brot gagnvart A fyrir G.
Ákærði bar að B hafi sagt við hann að ástæðan fyrir því að hann réðist á hann hafi verið sú að AlB væri að hefna fyrir A, þetta hafi hann sagt meðan á árásinni stóð. Ákærði sagði að B gæti ekki verið að hefna fyrir sjálfan sig þar sem hann hafi ekki brotið gegn honum á nokkurn hátt.
Ákærði lýsti persónulegum högum sínum þannig að eftir að málið kom upp sé hann einangraður líkt því að hann sé í stofufangelsi. Dóttir hans, H, færi honum mat einu sinni á dag og hjúkrunarkona komi vikulega. Hann fari lítið út, eingöngu í búðina af og til og heim aftur. Heilsa hans sé sæmileg en hann sé þunglyndissjúklingur og sykursjúkur. Minni hans hafi dalað og hann sé farinn að gleyma töluvert miklu.
Vitnið A brotaþoli lýsti því að ákærði hefði fyrst brotið gegn honum þegar hann var ungur að árum og bjó í [...]. Þar hafi hann tekið utan um hann og kysst hann tungukossi en látið af háttseminni þegar foreldrar hans komu heim. Næsta skipti sem hann mundi eftir var þannig að hann var í heimsókn [...] og þar hafi ákærði kysst hann og káfað á honum. Þá lýsti vitnið atviki sem átti sér stað kringum fermingaraldur hans. Í það skipti hafi foreldrar hans ekki verið heima og hann átt að gista hjá ömmu sinni og ákærða. Hann hafi þurft að fara heim til sín að sækja eitthvað og ákærði hafi komið með honum. Í herbergi hans hafi ákærði tekið utan um hann og kysst hann tungukossi og fitlað við hann innan klæða. Í framhaldi af því hafi ákærði girt niður um hann og „tottað“ sem vitnið sagði hafa verið munnmök. Fitlinu lýsti vitnið sem strokum og ákærði hafi fróað honum en þetta hafi staðið yfir í nokkrar mínútur. Þá bar vitnið að ákærði hefði látið hann fitla við sig og það hafi gerst í þetta sinn og einnig önnur skipti en þessu lýsti vitnið þannig að „hann strokar á mér og hann vill að ég stroki á sér.“ Vitnið kvaðst eiga erfitt með að tímasetja þessi atvik nákvæmlega. Eftir atvikið á heimili vitnisins kvaðst vitnið lítið hafa hitt ákærða en ákærði hefði einu sinni eftir þetta kysst hann í fjölskylduboði. Vitnið kvaðst ekki hafa rætt það við foreldra sína hvers vegna hann vildi ekki fara til ákærða en hann hafi þó sagt við móður sína að hann skildi ekki hvers vegna þau vildu svo oft fara til ákærða. Að sögn vitnisins voru mikil samskipti milli fjölskyldu hans og heimilis ákærða, allt að því dagleg. Þá kvaðst hann allnokkrum sinnum á hverju ári þegar hann var yngri hafa gist hjá ömmu sinni og ákærða. Vitnið lýsti einnig fleiri atvikum en ákært er fyrir í máli þessu. Að sögn vitnisins var ekki hægt að ruglast neitt á kossum ákærða og telja þá venjulega kossa. Vitnið kvaðst ekki oft hafa hitt ákærða meðan hann bjó í [...] en eftir að fjölskylda hans flutti aftur til [...] hafi verið mikill samgangur milli fjölskyldu hans og ákærða og hans fjölskyldu. Vitnið bar að hann hafi ekki greint frá háttsemi ákærða, enda hafi hann eftir hvert skipti sagt að þetta væri leyndarmálið þeirra. Aðspurt kvaðst vitnið fyrst hafa greint stúlku sem hann var með frá háttsemi ákærða en það hafi verið þegar hann var tvítugur eða 21 árs gamall. Hún hafi sagt honum frá því að hún hefði lent í svipuðu og þá hafi hann sagt henni frá. Hann hafi einnig sagt systur sinni, I, frá þessu og sagt henni að fara ekki með son hennar til ákærða. Þá hafi hann beðið systur sína um að segja foreldrum þeirra frá. Vitnið kvaðst ekki hafa rætt þetta mál við foreldra sína en hann vissi til þess að börn ákærða hafi rætt þetta eitthvað við hann og stuttu eftir það hafi ákærði reynt að fyrirfara sér. Vitnið kvaðst í lok síðasta árs hafa farið heim til ákærða og reynt að fá játningu hjá honum. Á þessum tíma hafi hann verið búinn að neyta áfengis í sólarhring og ákærði hafi í fyrstu neitað en síðan gengist við ásökunum. Vitnið kvaðst einnig hafa spurt ákærða hvort hann hefði gert eitthvað á hlut B en hann neitað því. Þetta hafi verið í eina skiptið sem hann hafi rætt þetta mál við ákærða. Nokkrum dögum eftir þetta hafi hann fengið bréf frá ákærða þar sem fram kom að ákærði vildi hitta hann.
Vitnið kvaðst lítið hafa rætt þetta mál eða önnur við B, enda vilji B ekki ræða þetta. B hafi þó sagt að hann hafi einnig lent í ákærða með káf og eitthvað. Eftir að kæran kom fram og málið komst í fjölmiðla hafi maður hringt í móður hans og rætt þetta við hana og þakkað fyrir að kæra var komin fram. Vitnið kvað B hafa versnað í skapi eftir að kæran kom fram og þá hafi hann rætt málið aðeins við hann og þá hafi B lýst einhverju káfi. Að sögn vitnisins hefur þetta mál allt orðið til þess að hann sé tilfinningalítill og þá hafi hann verið í mikilli neyslu fíkniefna. Vitnið telur að brot ákærða hafi haft áhrif á líf hans en eftir að hann kærði líði honum betur og hann sé ekki eins lokaður og áður og geti nú rætt málið. Vitnið sagðist hafa hitt geðlækni, sálfræðing og áfallahjálparlækni og sá síðasti hafi hjálpað honum en hann taldi sig ekki hafa haft gagn af því að hitta geðlækninn og sálfræðinginn.
Ákærði kom aftur fyrir dóminn og kannaðist við að hafa skrifað A bréf sem lagt hefur verið fram. Aðspurður um hvort A hafi komið til hans í desember sl. segir ákærði að hann hafi gert það í janúar eða febrúar á þessu ári. Þá hafi hann ruðst inn til hans og komið askvaðandi inn í stofu. Hann hafi verið öskrandi reiður og kvaðst ákærði ekki hafa vitað hvað gekk á en talið að önnur líkamsárás væri í uppsiglingu. A hafi öskrað á hann og sagt honum að standa fyrir máli sínu. Ákærði kvaðst hafa verið mjög hræddur, enda hann enginn maður til að taka á móti A. A hafi þulið upp eitt og annað sem hann hafi átt að hafa gert honum. Ákærði kvaðst hafa verið svo hræddur að hann hafi sagt já við öllu sem A sagði en það hafi hann gert til að kaupa sér frið. Hvað það var sem A bar upp á hann viti hann ekki. Eftir þetta, nokkrum dögum síðar, hafi hann sent honum bréfið. Hann hafi beðist fyrirgefningar á því sem hann átti að hafa gert A og beðið hann um að koma að tala við sig en hann hafi ætlað að benda A á það sem hann hafi skemmt. Ákærði kvaðst eingöngu hafa verið að biðjast fyrirgefningar til þess að A kæmi til að tala við hann en það hafi A enn ekki gert. Ákærði kvaðst ekki sjá neitt athugavert við það að biðjast fyrirgefningar á því sem hann átti að hafa gert á hlut A þótt hann viti ekki hvað það var. Ákærði kvaðst hafa verið hræddur um að A réðist aftur inn til hans og með bréfinu hafi hann viljað kaupa sér frið.
Vitnið B brotaþoli greindi frá því að ákærði hafi kysst hann tungukossum og káfað á honum allt frá því að hann var um fimm ára gamall. Með tungukossi eigi hann við að ákærði hafi sett tungu sína upp í munninn á honum og það verði ekki misskilið á nokkurn hátt. Káfið hafi lýst sér þannig að ákærði hafi strokið á honum rassinn og kynfærin utan klæða. Þessi háttsemi hafi oftast átt sér stað á sama tíma og gerst í allnokkur skipti, nokkrum sinnum á ári og nánast í hvert skipti sem þeir hittust. Síðasta skiptið hafi verið um það leyti sem verið var að opna sýningu í [...] eða 2011. Vitnið kvaðst ekki hafa vitað hvað ákærði var að gera og í fyrstu hafi hann ekki áttað sig á því að þetta var rangt. Hann hafi svo áttað sig á því fyrir nokkrum árum. Ákærði hafi sagt við hann í síðasta skiptið sem þetta gerðist að þetta væri leyndarmálið þeirra en hann mundi ekki til þess að það hafi hann gert í önnur skipti. Vitnið bar að honum hafi ekki liðið vel með þetta en hann kvaðst ekki hafa rætt þetta við foreldra sína. Hann kvaðst fyrst hafa sagt pabba sínum frá þessu á árinu 2011 en foreldrar hans hafi áður spurt hann að því hvort ákærði hefði gert eitthvað á hans hlut en hann jafnan neitað. Hann hafi ekki viljað segja þeim frá þessu. Hvers vegna viti hann ekki. Að sögn vitnisins spurðu foreldrar hans um þetta eftir að ásakanir A komu fram. Vitnið kvaðst ekki hafa sagt öðrum en pabba sínum og systur frá þessu en hann hafi sagt systur sinni þetta á árinu 2012. Vitnið kvaðst hata ákærða og þá bar hann að ástæðan fyrir árásinni á ákærða, sem hann hefur nú verið dæmdur fyrir, hafi verið háttsemi ákærða í hans garð. Vitnið kvaðst ekki muna til þess að hann hafi talað um A meðan á árásinni stóð og þá kvaðst hann ekki muna hvað hann sagði við ákærða í það sinn. Vitnið greindi frá því að A hafi sagt honum frá því að ákærði hefði misnotað hann en hann kvaðst ekki hafa sagt A frá þessu en það geti þó verið. Vitnið bar að líðan hans hafi ekki verið góð undanfarin misseri og hann tengi líðan sína þessari háttsemi ákærða. Þá kvaðst hann hafa hitt sálfræðinga vegna þessa en hann hafi lítið getað rætt þetta mál við þá og það hafi því hjálpað honum lítið. Hann kvaðst enn ekki hafa unnið úr málinu en honum þyki erfitt að ræða þetta við fólk.
Vitnið kvaðst ekki geta sagt frá neinu einstöku tilviki ítarlega en hvers vegna hann geti það ekki geti hann ekki útskýrt nema þá helst á þann hátt að hann langi ekki til að rifja þetta upp. Aðspurður hvort hann myndi eftir ákveðnum atvikum svaraði hann því þannig: „Já ég man eitthvað.“ Lýsti vitnið þó einu tilviki þegar hann var um 15 ára gamall. Þá hafi hann verið í heimsókn hjá ömmu sinni og þar hafi ákærði stungið tungu sinni upp í hann og strokið honum um rassinn. Þá greindi vitnið frá atvikinu er þetta gerðist í síðasta sinn en hann hafi þá verið í [...] hjá ákærða, sennilega að færa honum mat eða eitthvað þess háttar. Í það skipti hafi ákærði stungið tungunni upp í hann. Aðspurt kvaðst vitnið ekki geta lýst neinu tilfellanna ítarlega. Að sögn vitnisins var háttsemi ákærða í hans garð viðvarandi og hafi hún staðið yfir í öll þessi ár.
Vitnið J, hálfbróðir vitnisins A, kvaðst hafa heyrt af því að eitthvað hefði gerst milli ákærða og A. Vitnið kvaðst á árinu 2008 eða 2009 hafa sagt A frá atviki sem hann lenti í en það mál hafi verið þaggað niður. Vitnið kvaðst hafa verið í pössun hjá ákærða sem hafi kallað á hann og spurt hvort hann vildi ekki fá eiginhandaráritun hjá honum en á þessum tíma hafi hann verið að safna slíkum áritunum. Hann hafi farið inn í herbergi til ákærða sem þá hafi gripið í hann og sett hann í stól og þuklað á honum. Vitnið taldi að hann hafi verið átta til tíu ára á þessum tíma en hann hafi ekki farið inn á heimili ákærða eftir þetta, utan einu sinni. Eftir þetta hafi A sagt honum frá því að ákærði hefði gert eitthvað á hans hlut en á þessum tíma hafi A verið búinn að ákveða að kæra málið. Að sögn vitnisins greindi A ekki frá því í smáatriðum hvað ákærði gerði á hans hlut. Vitnið sagðist hafa heyrt af máli B fyrir um ári. Hann hafi reynt að ræða þetta við B en hann hafi ekki viljað það.
Vitnið C, dóttir ákærða, greindi frá tilviki þar sem hún var að skoða „Facebook“ í tölvunni sinni. Hún hafi skoðað skilaboð á síðunni og séð efst uppi: „Ég þarf að segja þér svolítið um afa en mamma má alls ekki komast að því“, eða eitthvað í þeim dúr. Þá hafi hún tekið eftir því hún var að skoða síðu I dóttur sinnar. Henni hafi brugðið og skráð sig út. Hún hafi farið til H, systur sinnar, og sagt henni frá því hvað hún hafði séð. Að sögn vitnisins hafði hún áhyggjur af því hvað þetta væri en varla þorað að spyrja dóttur sína um það sem hún hafi þó gert. Dóttir hennar hafi þá sagt henni að A hefði sagt að ákærði hefði misnotað hann þegar hann var barn. Vitnið taldi sig hafa séð þessi skilaboð í október eða nóvember 2011 þótt hún muni ekki nákvæma dagsetningu hvað þetta varðar. Vitnið bar að hana hafi ekki grunað neitt í þessa veru fram að þessum tíma. Hún hafi þó á árinu 2005 eða 2006 komist að því að ákærði hafði leitað á J. Því hafi hún komist að þegar ákærði skammaði hana fyrir að láta J vinna í hans húsi þrátt fyrir að J hefði borið á hann rangar sakir. Vitnið kvaðst hafa rætt um mál A við H, systur sína, en þær ekki viljað ræða um þetta við ákærða en þær hafi viljað segja K, bróður sínum, frá þessu. Það hafi verið stutt til jóla og því ákveðið að láta kyrrt liggja. Eftir áramót hafi þau kallað ákærða á fund í [...] og sagt honum frá því að þau vissu að hann hefði leitað á A og B en þá hafi hún verið búin að frétta af máli B. Eftir fundinn, að kvöldi sama dags, hafi ákærði tekið inn töflur og þannig reynt að taka eigið líf. Á fundinum með ákærða hafi þau sagt honum að þau hefðu komist að því að hann hefði leitað á A og B. Ákærða hafi brugðið við þetta og sagt að hann hafi bara reynt að sýna þeim ást og að honum þætti vænt um þá. Hann hafi reynt að láta líta svo út að ekkert hefði gerst. Nánar aðspurt var vitnið ekki visst um að ásakanir varðandi B hafi verið ræddar á þessum fundi. Á þessum tíma hafi hún ekki vitað hvað gerst hafði og raunar viti hún það ekki enn í dag, en A hafi ekki sagt henni frá því og ekki viljað ræða þetta mál við hana. Þau hafi þó vitað að ákærði hafi reynt að þukla á klofi A og setja tunguna upp í hann og þetta hafi þau borið á ákærða á fundinum. Ákærði hafi ekki beint neitað þessari háttsemi en sagt eitthvað í þá veru: „Nú segir hann það, jæja þið haldið það þá og megið túlka það eins og þið viljið.“ Ákærði hafi sagt að þetta hafi verið gert við hann þegar hann var barn og það hafi verið góðir menn og hann hafi bara verið að sýna ást. Síðan hafi hann viðurkennt að hann væri samkynhneigður. Vitnið mundi ekki hver sagði henni frá því að B hefði líka „lent í“ ákærða en taldi að það hafi verið I, dóttir hennar. Að sögn vitnisins spurði hún H, systur sína, hvort hún vissi hvað ákærði hefði gert B. Fékk hún þau svör að H hefði spurt B og hann hafi sagt að það væri það sama og ákærði hefði gert A og lýst því sem kossum og káfi.
Vitnið bar að hún hafi einhvern tíma hitt ákærða heima hjá honum og þá hafi hann viðurkennt brot en vitnið gat ekki lýst því nánar í hverju sú viðurkenning fólst. Að sögn vitnisins sendi ákærði henni og A bréf sem hún hélt að hún hefði fargað en hún fann síðan hjá sér og hafði meðferðis í dóminn. Vitnið bar hjá lögreglu að hún hefði fargað þessu bréfi og kvaðst hún á þeim tíma hafa haldið að svo væri þar sem hún hefði ekki fundið það. Ef hún hefði fargað því hefði hún brennt það. Vitnið kvaðst hafa sýnt H, systur sinni, þetta bréf en öðrum ekki. Hún hafi sagt L, eiginmanni sínum, frá bréfinu en ekki sýnt honum það.
Vitnið bar að A hefði í einhver skipti gist hjá ákærða þegar hún þurfti að fara að heiman. Þá bar hún að A hafi verið einn vetur á [...] hjá systur hennar. Almennt hafi verið mikill samgangur milli hennar og móður hennar og hún hafi farið til hennar á hverjum einasta degi og A hafi mikið komið á heimili afa síns og ömmu þegar hann var krakki. Hún hafi velt því fyrir sér síðar að þegar A var 12 til 13 ára hafi hann hætt að koma þangað. Hún kvaðst hafa orðið vör við mikla reiði í fari A þegar hann var orðinn unglingur og hann hafi byrjað að drekka mikið og átt við vandamál að stríða. Hún kvaðst ekki hafa tengt það við neitt sérstakt. Eftir að hann lagði fram kæru hafi hann orðið rólegri en hann vilji ekki ræða þetta mál við hana.
Aðspurð kvaðst vitnið ekki muna hvenær hún fékk bréfið frá ákærða en taldi að það hafi verið eftir fundinn í [...] en á þeim tíma hafi móðir hennar verið á lífi en hún dó í [...] 2012.
Ákærði kom í þriðja sinn fyrir dóminn og var nú sýnt bréf sem vitnið C afhenti í dóminum. Hann kvaðst kannast við undirritun sína á bréfinu en ekki efni þess og sagðist hann ekki muna eftir að hafa ritað það og kannaðist ekki við texta þess. Ákærði neitaði að svara frekari spurningum um bréfið. Ákærði hafnaði því alfarið að hafa sagt á fundi með börnum sínum að hann væri samkynhneigður, enda sé það ekki rétt.
Vitnið I, barnabarn ákærða og systir brotaþolans A, bar að A hefði hringt í hana þegar sonur hennar var þriggja til fjögurra ára gamall, 2009 til 2010. Hann hafi sagt beint út að hann vildi láta hana vita af því að ákærði hefði misnotað hann kynferðislega og þetta vildi hann segja henni vegna þess að hann vildi að hún passaði son sinn og síðan hafi hann skellt á án þess að lýsa misnotkuninni nánar. Þau hafi rætt þetta síðan en einungis í brotum en A sé afar lokaður og erfitt að tala við hann um þetta. Hún kveðst ekki hafa spurt A um það hvað gerðist nákvæmlega. Vitnið kvaðst hafa sagt barnsföður sínum frá símtalinu nokkrum mánuðum síðar og þá hafi móðir hennar komist að þessu í gegnum „Facebook“. A hafi sagt henni að hann ætlaði að segja móður þeirra frá þessu og hún hafi sent honum skilaboð í gegnum samskiptamiðilinn og spurt hvort hann væri búinn að segja móður þeirra frá og þau skilaboð hafi móðir þeirra lesið. Nokkrum dögum síðar hafi móðir hennar spurt hana út í skilaboðin. Vitnið kvaðst hafa verið mikið á heimili ákærða en hin síðari ár hafi A ekki verið þar mikið. Vitnið kvaðst ekki vita annað um hvað gerst hafði í sambandi við B en það sem fram hefur komið hjá fjölskyldunni. Hún hafi ekki rætt málið við B. Að sögn vitnisins hefur A alltaf verið mjög reiður og tekið köst. Hann sé lokaður en það hafi hann ekki verið sem barn.
Vitnið L, tengdasonur ákærða og faðir brotaþolans A, kvaðst ekki viss um hvenær hann frétti fyrst af máli A en eiginkona hans hafi sagt honum frá því. Hún hafi sagt honum að A hafi verið misnotaður af ákærða en hann hafi ekki vitað í hverju misnotkunin fólst. Vitnið kvaðst ekki hafa rætt málið við A. Vitnið bar að hann hafi í gegnum tíðina verið mikið til sjós og því eigi hann ekki gott með að lýsa samskiptum ákærða og A. Vitnið sagðist ekki hafa séð bréf sem ákærði ritaði A en kona hans hafi eitthvað nefnt bréf sem hún fékk en hvert efni þess var viti hann ekki.
Vitnið G, tengdasonur ákærða og faðir brotaþolans B, kvaðst á árinu 2011 eða 2012, líklega 2011, hafa frétt að A hefði sagt frá því að ákærði hefði misnotað hann. Hann hafi rætt þetta við A sem hafi sagt honum undan og ofan af því sem gerst hafði. Hann hafi sagt að ákærði hefði í tvígang leitað á hann á heimili ákærða í [...] en ekki lýst því nánar og einu sinni hafi ákærði farið með A heim til hans og þar hafi alvarlegri hlutir gerst án þess að hann lýsti þeim nánar. Síðan ásaki börn ákærða hann um þetta og tveimur til þremur mánuðum síðar hafi hann rætt þetta við ákærða sem hafi ekki viðurkennt neitt fyrir honum. Ákærði hafi sýnt honum bréf sem hann skrifaði A þar sem hann telur upp það sem hann hafði gert en að mati ákærða var ekkert athugavert við það sem hann gerði. Þeir hafi rifist um þetta og kvaðst vitnið hafa sagt að A hafi verið barn en ákærði hafi sagt að þetta hafi allt verið saklaust. Vitnið staðfesti að bréfið sem ákærði sýndi honum sé sama bréfið og vitnið C afhenti í dóminum við aðalmeðferðina en á þessum tíma hafi ákærði ekki verið búinn að senda bréfið. Vitnið kvaðst hafa beðið ákærða um að senda bréfið ekki, því að hann væri viss um að ef A læsi það myndi hann „trompast“. Að sögn vitnisins sýndi C honum bréf þetta líka. Hann kvaðst hafa spurt ákærða hvort hann hefði gert eitthvað á hlut B en hann hafi harðneitað því nema hvað hann viðurkenndi að hafa kysst hann einu sinni með tungunni.
Ásakanir varðandi B hafi komið upp þegar unnið var að safni í [...]. Daginn fyrir opnun safnsins hafi B verið að hjálpa þeim og vitnið spurt, sem hann hafði raunar áður gert, að því hvort ákærði hefði gert eitthvað á hans hlut. B hafi brotnað niður og lýst því að ákærði hefði kysst hann tungukossi og káfað á honum en hann hafi aldrei viljað segja meira við þau um þetta. Vitnið sagði að þetta hafi verið í júní 2011. Ástæðan fyrir því að hann spurði B hafi verið hræðsla sem kom upp eftir að mál A kom upp, enda hefði B verið mikið hjá ákærða og ömmu sinni. Engin sérstök ástæða hafi verið til að rengja A og síðan hafi verið eldra mál með J, sem ákærði þrætti fyrir og enginn trúði kannski á sínum tíma. Þetta hafi orðið til þess að hann gekk á B varðandi það hvort eitthvað hefði gerst. Að sögn vitnisins voru samskipti B og ákærða tiltölulega náin þar til B varð 10 til 11 ára. Eftir það hafi hann farið minna á heimili ákærða án þess þó að þau hafi gert sér grein fyrir því. Vitnið kvaðst ekki vita hvað börn ákærða ræddu við hann á fundi með honum en þar hafi verið rætt að A hefði borið fram ásakanir í garð ákærða og það hafi eitthvað verið rætt. Vitnið taldi að málefni B hafi ekki verið rædd á fundinum.
Aðspurður um fyrsta framburð sinn hjá lögreglu, sem ekki var í samræmi við framburð hans fyrir dómi, skýrði vitnið það þannig að þau hafi verið í miklu áfalli yfir þessu öllu og kannski ekki gert sér grein fyrir því hvort háttsemi ákærða í garð B hafi haft áhrif á hann. Síðan hafi þau verið í erfiðri stöðu við rekstur [...]. Þá hafi liðið nokkur tími og þau áttað sig á því hve mikil áhrif þetta hafði haft á B. Síðan sé það árásin á ákærða og þá hafi hann endanlega gert sér grein fyrir því hversu mikil áhrif þetta hafði haft á B. Taldi vitnið víst að meira hefði gerst en B hefur sagt frá. Í janúar 2013, þegar vitnið gaf skýrslu hjá lögreglu varðandi A, hafi staðið til af hans hálfu að segja frá B en mikil togstreita hafi verið milli hans og eiginkonu hans um það hvað þau ættu að gera og hvað þau ættu að segja. Þetta hafi allt bara verið mjög erfitt og hann ekki vitað neitt í sinn haus.
Vitnið bar að hann hafi ekki séð fyrr en eftir árásina hversu líðan B var slæm fyrir hana og hann hafi ekki áttað sig á því fyrr en hann fór að velta þessum hlutum almennilega fyrir sér og horfa til baka. B hafi liðið illa lengi, lokað sig af, verið ófélagslyndur og erfiður í skapi. Eftir árásina hafi líðan hans versnað til mikilla muna. Eftir að B fékk aðstoð á geðdeild hafi þeir getað rætt málið þótt B hafi ekki viljað gefa nákvæmar lýsingar á því sem gerst hafði. Það eina sem B hafi viljað lýsa fyrir honum sé að ákærði hafi nokkrum sinnum kysst hann með tungunni og káfað á honum án þess að lýsa því nánar. Þá hafi hann heldur ekki sagt hvenær þetta gerðist eða hvenær þessu lauk.
Vitnið M, barnabarn ákærða og systir brotaþolans B, bar að B hefði sagt henni að ákærði hefði káfað á kynfærum hans og rassi og sett tungu sína upp í hann. Vitnið vissi ekki hvort ákærði káfaði innan eða utan klæða. Taldi vitnið að B hafi sagt henni frá þessu á árinu 2011 eða 2012 en þau hafi þá verið saman í bíl. B hafi ekki sagt hversu oft þetta gerðist eða hvenær þetta byrjaði eða hætti. Að sögn vitnisins tók hún eftir því að B hætti að umgangast ákærða. Vitnið greindi frá því að hún hefði tekið eftir því að B leið illa en eftir að hann hefði verið á geðdeild hafi honum liðið betur en undir það síðasta líði honum verr. Vitnið kvaðst ekki hafa talað við A um hans mál.
Vitnið N kvaðst fyrst hafa heyrt af máli B að loknu þorrablóti í febrúar á síðasta ári. Taldi vitnið að B hafi mislíkað að honum var líkt við ákærða í skemmtiatriði á blótinu. B hafi farið að gráta og hann rætt við hann en þeir slegist í framhaldi af því. Eftir það hafi þeir gengið út og rætt málið. Hann hafi sagt B í hverju hann hafi lent og B þá sagt honum að ákærði hafi misnotað hann. Vitnið kvaðst ekki muna nákvæmlega hvað B sagði en vitnið minnti að hann hefði sagt að hann hefði verið misnotaður. Ekki kom fram hve skiptin voru mörg eða á hvaða tíma brotin áttu sér stað. Eftir þetta hafi þeir farið heim til ákærða í þeim tilgangi að tala við hann. Þeir hafi borið á ákærða að hann hefði misnotað þá báða og hann hafi viðurkennt allt. Vitnið minnti að mál A hafi einnig verið nefnt. Vitninu þykir sem B hafi breyst hin síðari ár en segir að það sé erfitt að útskýra það.
Vitnið O greindi frá því að hún hafi verið unnusta A um tíma. Á tímabili, veturinn 2010, hafi honum verið mikið niðri fyrir og hann þá sagt henni að ákærði hefði misnotað hann án þess að lýsa því nánar og hún hafi ekki spurt hann frekar um málið. Vitnið taldi að A hefði, á þessum tíma, ekki verið búinn að segja öðrum frá þessu. Hún hafi hvatt hann til að segja móður sinni frá þessu. Vitnið sagði að misnotkunin hefði haft mikil áhrif á A og hann hafi sagt henni að þetta væri alveg að fara með hann.
Vitnið E, geðlæknir á Sjúkrahúsinu [...], bar að samkvæmt gögnum spítalans hafi ákærði komið þangað eftir sjálfsvígstilraun 5. september 2011. Vitnið bar að B hafi verið, gegn vilja sínum, lagður inn á geðdeild sjúkrahússins 22. júní 2013 vegna sjálfsvígstilraunar og sjálfsvígshættu og í framhaldi af því hafi hann verið nauðungarvistaður en 2. júlí hafi nauðungarvistuninni verið aflétt og B ákveðið að vera áfram á deildinni í eina viku. B hafi tekið framförum og við útskrift hafi hann að mati lækna ekki verið í sjálfsvígshættu. Hins vegar hafi, af ýmsum ástæðum, ekki verið næg eftirfylgni með honum. Vitnið kvaðst síðast hafa hitt B í mars á þessu ári og þá hafi hann ekki haft einkenni þunglyndis. Vitnið sagðist ekki hafa rætt við B um þau atvik sem komu fyrir hann í barnæsku en ástand hans hafi verið svo slæmt að ekki hafi verið hægt að hafa við hann sállæknandi viðtöl fyrr en síðustu vikuna. Þess vegna hafi þeir lítið rætt þessi mál. Að mati vitnisins varð B fyrir áfalli við brot ákærða og þá hafi hann orðið fyrir áfalli eftir árásina á ákærða þegar hann gerði sér grein fyrir því hvað hann hafði gert. Vitnið kvaðst hafa gefið B þau ráð að leita eftir aðstoð sálfræðings og telur hann að það myndi auðvelda honum að gera upp við liðin áföll og hjálpa honum við að lifa eðlilegu lífi í framtíðinni. Vitnið staðfesti vottorð sem hann ritaði og er meðal gagna málsins.
Vitnið D geðhjúkrunarfræðingur bar að til hennar hafi verið leitað eftir aðstoð fyrir B og fleiri úr fjölskyldunni. Vitnið bar að þegar unnið væri með svona viðkvæm mál væri varasamt að láta fólk fara of nákvæmlega ofan í einstaka liði áfallaminninga. B hafi sagt henni frá einu tilviki og sagt að þau hefðu verið fleiri. Greinilegt hafi verið af öllu látbragði hans og viðbrögðum við að rifja þetta upp að það hafi verið honum mjög erfitt. Í meðferð sem þessari sé ekki markmið að draga upp alla þætti minninganna svona snemma í ferlinu. Vitnið bar að hún hefði lagt próf fyrir B og svörun við þeim hafi sýnt mikil áfallastreitueinkenni, svo sem doða og hugrofseinkenni. Hún hafi einnig lagt fyrir hann próf vegna bílslyss sem hann lenti í en þar hafi nánast engin einkenni áfallastreitu komið fram. Að sögn vitnisins var erfitt að ná til B en almennt megi segja að erfitt geti verið að fá fólk sem lent hefur í erfiðri reynslu til að ræða um hana. Vitnið taldi, að teknu tilliti til þess hvernig B svaraði spurningum hennar og þeim prófum sem fyrir hann voru lögð, að ólíklegt væri að atburðirnir sem hann lýsti hefðu komið fyrir einhvern annan en hann. Taldi vitnið að B þurfi langtímameðferð en eitt af einkennum vandamálsins sé að forðast vinnuna sem þarf að vinna til að takast á við það. Því sé erfitt að segja til um hverjar batahorfur hans séu. Vitnið lýsti einnig menntun sinni og langri reynslu sinni af málum sem þessum og staðfesti vottorð sem hún ritaði.
IV
Niðurstaða
Ákærða eru, í máli þessu, gefin að sök kynferðisbrot gagnvart tveimur barnabörnum sínum og brot hans gegn öðru þeirra talin varða við 1. og 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. áður 1. og 2. mgr. 200. gr. og 2. mgr. 202. gr. sömu laga, en brot hans gegn hinu barninu talin varða við 2. mgr. 200. gr. og 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga, en brotum ákærða er lýst í ákæru.
Ákæruvaldið reisir kröfu sína um sakfellingu á framburði brotaþola. Framburður þeirra hefur að mati ákæruvaldsins verið staðfastur og trúverðugur, auk þess sem hann fær stoð í framburði annarra vitna og rannsóknargögnum málsins. Ákærði reisir kröfu sína um sýknu á því að leggja verði framburð hans um málsatvik til grundvallar.
Ákærði neitar sök. Framburður hans fyrir dóminum var á stundum ruglingslegur, þá kom fyrir að ósamræmi var í frásögn hans af atburðum. Þannig bar ákærði t.d. ýmist að hann hefði rætt við A um ásakanirnar eða að hann hefði alls ekki rætt við drenginn. Þá var framburður hans á stundum andstæður framburði annarra vitna. Í því sambandi má t.d. nefna að ákærði bar að lítill samgangur hafi verið á milli hans og fjölskyldna brotaþola. Þau vitni sem báru um þetta greindu hins vegar frá því að samskiptin hafi verið dagleg. Ákærði átti erfitt með að skýra út efni bréfs þess sem hann ritaði A. Kvað hann ástæðu þess að það var ritað hafa verið þá að hann vildi sýna A skemmdir sem A vann á heimili ákærða. Þá neitaði hann að svara spurningum um bréf sem hann ritaði dóttur sinni og brotaþolanum A en þar beinlínis lýsir ákærði brotum gagnvart A, sem hann fyrir dómi neitaði að hafa framið. Að mati dómsins var framburður ákærða í heild ótrúverðugur.
Brotaþolar hafa báðir verið staðfastir í lýsingum sínum á atburðunum og óverulegt ósamræmi í framburði þeirra fyrir dómi og hjá lögreglu. Þá höfðu báðir brotaþolar greint öðrum frá háttsemi ákærða áður en lögreglurannsókn hófst á málinu eins og rakið er í vitnisburði þeirra og vitnin hafa staðfest fyrir dómi. Að mati dómsins er framburður þeirra trúverðugur. Varðandi framburð brotaþolans B verður hins vegar ekki framhjá því litið að hann átti afar erfitt með að lýsa háttsemi ákærða í hans garð. Þá fékk hann sig ekki til að lýsa neinu tilviki í smáatriðum. Verður að horfa til þessa þegar leyst verður úr sakarefninu hvað hann varðar.
Ákærða er í ákærulið 1 gefið að sök að hafa á árinu 1999, á heimili sínu, kysst brotaþolann A tungukossi og fróað honum með því að nudda ber kynfæri hans í nokkra stund. Í öðrum tölulið ákærunnar er ákærða gefið að sök að hafa á árinu 2000 eða 2001, á heimili brotaþola, kysst drenginn tungukossi, strokið ber kynfæri hans og haft við hann munnmök og látið drenginn fróa sér með því að nudda ber kynfæri ákærða í nokkra stund.
Hér háttar svo til að ákærði skrifaði A og móður hans C bréf, sem áður hefur verið vikið að, sennilega í lok árs 2011 en það er dagsett í nóvember 2001. Í bréfinu viðurkennir ákærði þrjú brot gagnvart A með eftirfarandi hætti:
„Í fyrsta skiptið sem ég kom að þér var árið fyrir fermingu held ég, og er ég kom að þér, þá sagði ég við þig. Ert þú farinn að liggja í þessu, eða [gerirðu] þetta líka í skólanum, og þú hálf jánkaðir því. Eftir að hafa horft á smávegis hjá þér, þá strauk ég hægri hendinni niður fyrir buxnastrenginn þinn og [strauk] honum 2-3 svo var það ekki meir. Þetta var í fyrsta skiptið. Síðan kom ég að þér töluvert síðar, eða ári eftir að ég held, kom ég að þér við sama leikinn, sama stuðið, þar sem þú varst við sömu iðju og aðeins meir því, þá sá ég þig vera að því og tók þá utanum hann og strauk honum 3-4 sinnum. Það var nú öll ósköpin, og gekk síðan í burt að mig minnir. Í þriðja skiptið var þegar þú svafst hjá okkur árið sem þú fermdist Mamma þín fór suður í febrúar eða mars, að ég held vegna fermingar þinnar, þá svafstu í herbergi Mömmu þinnar. Eitt kvöld hélt ég að þú værir sofnaður, en ég var að horfa á Sjónvarpið, þá leit ég inn til þín til að slökkva á sjónvarpinu hjá þér, því ég hélt að þú hefðir sofnað út frá því, nei. nei. nei þar var nú aldeilis ekki, þú varst ekki sofnaður, aftur á móti varstu í óðaönn við að fróa sjálfum þér og horfa á sjónvarpið um leið, þér brá er þú tókst eftir mér, þá gekk ég til þín og sagði eitthvað á þessa leið, ertu að dunda við þetta, og tók utanum hann, kyssti hann tungu kossi og þig síðan, og bauð þér góða nótt. Aftur á móti skal ég viðurkenna að ég hef oft kysst þig slíkum kossi, vegna þess að ég elska þig, og mér finnst ég gefa þér smá vinar tilfinningu með því. ? Er það ekki einmitt það sem elskendur gera þegar þeir tjá hvort öðru ást [sína] að kyssa tungukoss, hann gefur kærleik og ástúð og ekkert annað.“
Með hliðsjón af þessu og trúverðugum framburði brotaþola, sem fær nokkra stoð í framburði vitnanna O, I og móður hans þykir hafið yfir allan vafa að ákærði hafi gerst sekur um háttsemi þá sem lýst er í ákæruliðum 1 og 2 og skiptir þá ekki máli þótt vafi geti leikið á um stað og stund brotanna, enda um aukaatriði að ræða. Í ákæru eru brot ákærða samkvæmt ákæruliðum 1 og 2 talin varða við 1. og 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. áður 1. og 2. mgr. 200. gr. og 1. og 2. mgr. 202 gr. laganna, en þessi lagaákvæði eiga það sammerkt að þar er lýst refsiverðri háttsemi sem felst í því að hafa samræði eða önnur kynferðismök við börn. Í lögskýringargögnum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 40/1992, sem m.a. fól í sér þær breytingar á kynferðisbrotakafla almennra hegningarlaga að hugtakið „önnur kynferðismök“ var lagt að jöfnu við samræði, kemur fram að skýra beri hugtakið fremur þröngt þannig að átt sé við kynferðislega misnotkun á líkama annarrar manneskju, er komi í stað hefðbundins samræðis eða hafi gildi sem slíkt (surrogat), en um sé að ræða athafnir sem veiti eða séu almennt til þess fallnar að veita hinum brotlega kynferðislega fullnægingu. Af dómaframkvæmd Hæstaréttar, t.d. dómum réttarins í máli nr. 672/2009 og í máli nr. 428/2012, verður ráðið að til þess að snerting handar við kynfæri brotaþola verði felld undir hugtakið „önnur kynferðismök“ í skilningi framangreindra lagaákvæða þurfi hún að vera af því tagi sem kalla má fróun eða nudd, þ.e. ekki óveruleg eða mjög skammvinn snerting. Háttsemi sú sem ákærði er hér sakfelldur fyrir fellur undir hugtakið önnur kynferðismök, enda ekki um óverulega eða mjög skammvinna snertingu við kynfæri brotaþola að ræða auk þess sem ákærði hafði eitt sinn munnmök við brotaþola.
Að framan er rakinn framburður brotaþolans B og líkt og áður er getið átti hann erfitt með að lýsa brotum ákærða gagnvart honum. Hins vegar þykir framburður hans trúverðugur svo langt sem hann nær. Framburður brotaþola fær stoð í vottorði og vætti D, vitnisins N, föður hans og systur. Þá verður ekki séð að nein önnur sennilegri skýring geti verið á árás brotaþola á ákærða en sú að ákærði hafi brotið gegn honum kynferðislega. Þá má horfa til þess sem áður er rakið úr bréfi ákærða til brotaþolans A og móður hans varðandi tungukossa. Loks hefur framburður ákærða verið metinn ótrúverðugur. Að mati dómsins þykir ekki óvarlegt að leggja framburð brotaþolans B til grundvallar við úrlausn málsins og telst því sannað að ákærði hafi brotið gegn honum með þeim hætti sem í ákæru greinir. Leggja verður til grundvallar að brotin hafi verið mörg og staðið í samfellu um árabil en lokið á árinu 2011. Brotin eru því ófyrnd og réttilega heimfærð til refsiákvæða í ákæru og verður ákærða gerð refsing fyrir háttsemi sína.
Ákvörðun refsingar
Ákærði, sem er 78 ára að aldri, hefur ekki áður sætt refsingu. Við ákvörðun refsingar hans ber að horfa til þess að hann braut gegn tveimur barnabörnum sínum og stóðu brotin gagnvart B yfir í langan tíma. Háttsemi ákærða var til þess fallin að valda drengjunum skaða. Verður að horfa til 1. og 2. tl. 1. mgr. 70 gr. almennra hegningarlaga svo og til 3. mgr. 70. gr. sömu laga, sbr. nú einnig 5. mgr. 202. gr. Háttsemi ákærða eftir að brotin voru framin, sbr. 8. tl. nefndrar 70. gr., svo sem bréf hans til brotaþolans A og dóttur sinnar þar sem hann reynir að koma ábyrgð á brotum sínum á brotaþola, er honum síst til málsbóta. Ber að virða ákærða framangreint til refsiþyngingar. Ákærði á sér engar málsbætur. Að þessu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin þriggja ára fangelsi. Ekki kemur til álita að binda refsinguna skilorði.
Einkaréttarkröfur
Ákærði hefur gerst sekur um alvarlega meingerð gagnvart brotaþolum og eiga þeir því, með vísan til b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, rétt á miskabótum úr hendi hans. Að teknu tilliti til alvarleika brotanna þykja bætur til handa brotaþolanum A hæfilega ákveðnar 1.250.000 krónur með vöxtum eins og nánar greinir í dómsorði en krafan var birt ákærða við þingfestingu málsins hinn 6. mars sl. Bætur til handa brotaþolanum B þykja hæfilega ákveðnar 1.250.000 krónur með vöxtum eins og greinir í dómsorði en krafan var birt 23. apríl 2013. Við ákvörðun miskabóta til handa B hefur verið horft til þess að háttsemi ákærða hefur haft alvarleg áhrif á líðan brotaþola sem m.a. má ráða af vottorðum og vætti D geðhjúkrunarfræðings og E geðlæknis.
Sakarkostnaður
Með vísan til 218. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar. Samkvæmt yfirliti sækjanda nam sakarkostnaður 460.637 krónum. Við þennan kostnað bætist þóknun Stefáns Ólafssonar hæstaréttarlögmanns sem þykir hæfilega ákveðin 600.000 krónur. Þá ber ákærða einnig að greiða þóknun réttargæslumanna brotaþola hjá lögreglu og fyrir dómi, þeirra Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 439.250 krónur, og Sigmundar Guðmundssonar héraðsdómslögmanns, 338.850 krónur. Loks ber ákærða að greiða ferða- og dvalarkostnað verjanda síns að fjárhæð 40.600 krónur svo og sama kostnað réttargæslumanna, 108.772 krónur vegna Vilhjálms H. Vilhjálmssonar og 34.393 krónur vegna Sigmundar Guðmundssonar. Við ákvörðun þóknunar verjanda og réttargæslumanna hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari.
Dómurinn er kveðinn upp af Halldóri Halldórssyni héraðsdómara sem dómsformanni, ásamt meðdómsmönnunum Kristrúnu Kristinsdóttur og Sigurði G. Gíslasyni héraðsdómurum. Fyrir dómsuppsögu var gætt ákvæðis 1. mgr. 184. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.
Dómsorð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í þrjú ár.
Ákærði greiði A 1.250.000 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 6. apríl 2014 til greiðsludags.
Ákærði greiði B 1.250.000 krónur, auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu frá 31. desember 2011 til 23. maí 2013 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði sakarkostnað að fjárhæð 1.561.865 krónur, þar með talin 600.000 króna þóknun verjanda síns, Stefáns Ólafssonar hæstaréttarlögmanns, 439.250 króna þóknun Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, réttargæslumanns A, og 338.850 króna þóknun Sigmundar Guðmundssonar héraðsdómslögmanns, réttargæslumanns B.