Hæstiréttur íslands
Nr. 2023-93
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Málskostnaður
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Karl Axelsson, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.
2. Með beiðni 11. júlí 2023 leita Friðrik Ingvi Jóhannsson, Anna Þorbjörg Jónsdóttir, Ingveldur Kr. Friðriksdóttir, Friðrik Ari Friðriksson, Sigurjón H. Friðriksson, Guðrún Ólína Geirsdóttir og Jón Ingvi Geirsson leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 23. júní 2023 í máli nr. 79/2022: Friðrik Ingvi Jóhannsson, Anna Þorbjörg Jónsdóttir, Ingveldur Kr. Friðriksdóttir, Friðrik Ari Friðriksson, Sigurjón H. Friðriksson, Guðrún Ólína Geirsdóttir og Jón Ingvi Geirsson gegn Einari Ólafssyni. Gagnaðili telur að ekki séu uppfyllt skilyrði til að veita áfrýjunarleyfi.
3. Ágreiningur aðila fyrir Landsrétti laut einungis að ákvörðun málskostnaðar. Málið á rætur að rekja til þess að aðila greindi á um eignarrétt að nánar tilgreindri spildu. Við meðferð þess fyrir Landsrétti féllu málsaðilar frá kröfum um annað en málskostnað í héraði og fyrir Landsrétti. Í héraði hafði málskostnaður verið felldur niður milli aðila. Með dómi Landsréttar var ákvæði héraðsdóms um málskostnað staðfest og leyfisbeiðendum gert að greiða gagnaðila óskipt 1.200.000 krónur í málskostnað fyrir Landsrétti.
4. Leyfisbeiðendur byggja á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi um ákvörðun málskostnaðar við áfrýjun héraðsdóms til Landsréttar þegar svo háttar til að fullt tilefni hafi verið til áfrýjunar en gagnaðili hafi gefið málflutningsyfirlýsingu í greinargerð fyrir Landsrétti sem leitt hafi til þess að áfrýjun hafi orðið óþörf og málið einungis dæmt um málskostnað þar. Þrátt fyrir það hafi málskostnaður verið felldur á leyfisbeiðendur. Því hafi málið fordæmisgildi. Þá telja leyfisbeiðendur að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur.
5. Að virtum gögnum málsins er ekki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómurinn sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.