Hæstiréttur íslands

Mál nr. 195/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjárnám
  • Málshöfðunarfrestur
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Föstudaginn 30. apríl 2010.

Nr. 195/2010.

Guðbrandur Jónsson

(sjálfur)

gegn

Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda

(Ásgeir Jónsson hrl.)

Kærumál. Fjárnám. Málshöfðunarfrestur. Frávísunarúrskurður staðfestur.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli G gegn S var vísað frá dómi. Talið var að krafa G um úrlausn vegna aðfarargerðar hafi komið fram eftir að átta vikna frestur samkvæmt 1. mgr. 92. gr. laga nr. 90/1989 var liðinn. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. mars 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 19. mars 2010, þar sem vísað var frá dómi máli sóknaraðila til ógildingar á fjárnámi, sem sýslumaðurinn í Kópavogi gerði hjá honum 9. nóvember 2009 fyrir kröfu varnaraðila. Kæruheimild er í 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Guðbrandur Jónsson, greiði varnaraðila, Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda, 150.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 19. mars 2010.

Með beiðni dags. 7. janúar 2010 sem dóminum barst 8. janúar 2010 krefst sóknaraðili, Guðbrandur Jónsson, Hamrakór 9, Kópavogi, þess að dómurinn ógildi aðfarargerð Sýslumannsins í Kópavogi nr. 037-2009-03519 frá 9. nóvember 2009.

Af hálfu varnaraðila, Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda, er ekki fallist á að krafa sæti meðferð fyrir dómi þar sem hún hafi komið of seint fram.

Samkvæmt 1. mgr. 92. gr. aðfararlaga nr. 90/1989 getur aðili krafist úrlausnar héraðsdómara með aðfarargerð ef krafa þess efnis berst héraðsdómara innan 8 vikna frá því að gerðinni lauk. Þegar frestur samkvæmt 1. mgr. 92. gr. laganna er liðinn verður ágreiningur um aðfarargerð eða ákvarðanir sýslumanns um framkvæmd hennar ekki lagður fyrir héraðsdómara nema allir málsaðilar séu á það sáttir eða héraðsdómari telji afsakanlegt að málefnið hafi ekki verið lagt fyrir hann í tæka tíð.

Krafan barst dóminum eftir að 8 vikna fresturinn var liðinn, varnaraðili samþykkir ekki að krafan komist að og dómari telur ekki afsakanlegt að krafan kom of seint fram. Með hliðsjón af þessu ber að vísa máli þessu frá dómi. Málskostnaður fellur niður.

Finnbogi H. Alexandersson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð

Máli þessu er vísað frá dómi.

Málskostnaður fellur niður.